Miðvikudagur 22.9.2010 - 14:31 - 14 ummæli

Kvennakúgun í boði stjórnvalda.

Nú veit ég ekki hvort að Jussanam de Silva varð fyrir ofbeldi en þetta kerfi er ólíðandi.  Ég skora á fyrstu vinstri stjórn lýðveldisins misheppnaða að beita sér fyrir breytingu á því.

Í síðustu skýrslu sinni bendir Evrópuráðsnefndin um misrétti, ECRI, á það að þetta kerfi að konur af erlendum uppruna séu brottrækar úr landi ef þær skilji við eiginmenn sína innan þriggja ára leiði til þess að margar konur sitji fastar í ofbeldissamböndum. Bent er á það að 40% kvenna sem leituðu til Stígamóta á tilteknum tíma hafi verið af erlendum uppruna.

Íslensk stjórnvöld telja greinilega erfitt að breyta þessu en sannfæra fulltrúa ECRI um það að konur sem verði fyrir ofbeldi í samböndum og leiti skilnaðar verði ekki á brott reknar.  Þetta hefur því miður ekki haldið.  Ástæðan er m.a. sú að ofbeldi er oft erfitt að sanna og konur eru taldar ljúga ofbeldi upp á eiginmenn sína til þess að verða ekki vísað úr landi. Þess vegna er þeim vísað úr landi.

Það er til sáttmáli sem heitir ,,Act of Foreigners“ sem tekur á þessu en íslensk stjórnvöld hafa ekki viljað staðfesta hann.

Þetta brottvísunarkerfi er ólíðandi. Þarna er á ferð kvennakúgun í boði stjórnvalda.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 21.9.2010 - 16:41 - 2 ummæli

Ófullburða valdastétt!

Í fyrsta lagi þá á að setja helstu spekingana í svona nefnd, ekki ungu nýliðana (auk Atla).  Í öðru lagi þá á að fara eftir niðurstöðu nefndarinnar (þess vegna átti að setja í hana helstu spekingana).  Hún var sett upp til að marka leiðina.  Í þriðja lagi er hinn ófullkomni landsdómur enn einn vitnisburður um ófullburða valdastétt sem vanrækt hefur að uppfæra í þessu tilviki ákvæði um landsdóm.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 20.9.2010 - 21:48 - 10 ummæli

Hin mengandi áhrif öfganna!

Víða í Evrópu hefur öfgaflokkum vaxið fiskur um hrygg undanfarinn áratug en nær alls staðar hefur dregið úr fylgi þeirra aftur. Uppgangur þeirra í Svíþjóð þarf því ekki að koma á óvart. Þar eins og víðast spila þeir inn á óttann við innflytjendur.  Afleiðingin er meiri úlfúð, tortryggni og óumburðarlyndi.  Í Svíþjóð eins og nær alls staðar annars staðar einangrast þessir flokkar því að aðrir neita að vinna með fólki hvers málflutningur minnir á sumt það versta í sögu 20. aldarinnar.  Meginflokkar hafa hins vegar talið sig þurfa að taka upp sumt úr ,,rhetoric“ þessara flokka til þess að missa ekki til þeirra fylgi. Það eru hin hættulegu hliðaráhrif. Þau mengandi áhrif sem öfgarnar hafa á umræðuhefð þjóðfélagsins. Hún verður óvilhallari innflytjendum, hælisleitendum og minnihlutahópum en áður með þeim afleiðingum að andrúmsloftið verður verra.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 20.9.2010 - 15:56 - 4 ummæli

Tími oratoranna liðinn!

Ég dáist að þingmönnum. Dag út og dag inn rökræða þeir. Að baki framsögum er yfirleitt mikil vinna og oft töluverð þekking.  Andsvörin bera oft ágætri greind vitni.   En yfirleitt eru þetta litlir pontukarlar og pontukonur. Hvers vegna má fólk ekki bara sitja í sætum sínum með míkrafón andspænis forseta sem dreifir orðheimildinni (aðeins einn míkrafónn virkur í einu). Þannig yrðu skoðanaskipti líflegri og fljótlegri þó að einnig yrði hægt að flytja ítarlegar ræður.  Pontan er ekkert lögmál.  Hún er fyrst og fremst kraftbirting foringjaveldis.  Staður fyrir Cícero, Churchill og Ólaf heitinn Jóhannesson. Ekki fyrir fólk sem þarf að lesa upp úr blöðum, án tilþrifa. Miklir oratorar komast ekki lengur á þing heldur fólk sem kemur vel fyrir í sjónvarpi, sitjandi.  Ekkert verra fólk en áður, sennilega betra, bara öðruvísi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 20.9.2010 - 09:03 - 7 ummæli

ECRI um Roma börnin!

Sjálfsagt og rétt er að mótmæla meðferð á Roma börnum þó ástandið sé tæpast jafn slæmt í Slóvakíu og annars staðar í Evrópu. Roma börn í Slóvakíu eru hlutfallslega fleirri í ,,special elementary schools for disabled children“ en önnur börn. Þetta á sér stað eiginlega alls staðar í mið-Evrópu. ECRI- eftirlitsnefnd Evrópuráðsins um rasisma setur puttannn á þetta mjög víða svo sem í löndum Balkansskagans, Rúmeníu, Búlgaríu og jafnvel í Eistlandi þar sem Roma eru þó mjög fáir. Yfirvöld þráast víða við að viðurkenna þetta enda virðist um að ræða inngróna skekkju í hugsun fagaðila. Málin eru þó byrjuð að mjakast t.d. samþykkti Slóvakíska þingið áætlun árið 2008 sem m.a. tekur á þessu. Hvað sem verður um efndir. En látum þessa kalla heyra það þegar þeir koma og ekki bara gaurinn frá Slóvakíu.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 17.9.2010 - 22:22 - 8 ummæli

Óhuggulegur þankagangur hluta landsmanna.

Hreyfingin leggur til að Heimspeki verði sett inn í aðalnámskrá grunnskóla. Gott mál, en þetta þarf að skilgreina betur.  Fyrst og fremst þarf að kenna börnum meiri siðfræði og að þekkja rasisma og hvernig á að bregðast við honum. Óhuggulegur þankagangur hluta landsmanna kemur æ betur í ljós. Íslenskum stjórnvöldum hefur verið ráðlagt þetta en þau hunsa allt  sem nær út fyrir daginn.  Þessi ríkisstjórn er þó líklega skárri en þær sem fyrir voru.  Sérstaklega miðað við þau gríðarlegu verkefni sem hún tekst á við.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 16.9.2010 - 22:22 - Slökkt á athugasemdum við Ómar rændi brúðhjónum.

Ómar rændi brúðhjónum.

Ég ætla í dag að óska Ómari Ragnarssyni til hamingju með sjötugsafmælið.  Ómar er ekki einhamur eins og við vitum. Ég hef örsjaldan séð hann skemmta nema þá í sjónvarpi.  Ég hef aldrei flogið með honum. Ég hef aldrei unnið með honum, beinlínis.  En ég hef hlustað á hann flytja erindi um sálma og þar hefðu fáir menntaðir sálmaguðfræðingar gert betur og ég hef heyrt hann prédika í kirkju og það var meiriháttar prédikun.  Ég hafði ekki við að íhuga meðan margir hlógu. Tveggja þrepa prédikun. Verulega fáir guðfræðingar hefðu jafnað það.  Einna helst Einar á Kálfafellsstað. Og ég hef gift með honum.  Í miðri ceremóníu kom hann á einhveri fíatlús, stökk upp um þakið og rændi brúðhjónunum. Þau voru búinað segja Já, en höfðu ekki kysst.  Ég efast ekkert um að úr því hefur verið (vel)bætt í aftursæti lúsarinnar.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 14.9.2010 - 20:01 - 8 ummæli

Hópur af skrælingjum?

 Útlendingar eru farnir að flýja land vegna ofsókna.  Fólk sem sýnilega er af erlendum uppruna kvartar undan einelti, störun og misrétti.  Fólk sem er svart á litinn hefur sagt mér ljótar sögur af framkomu Íslendinga.  Hvað er í gangi?  Miðar okkur afturábak? Fer skrælingjahópurinn hér stækkandi?

Og þegar Múslimar fá loks leyfi til að byggja mosku í Reykjavík eftir tíu ára bið og baráttu þá kemur fólk sem maður hélt að væri með fullu viti fram og vill koma í veg fyrir slíkt.  Menn virðast ekki skeyta um að hér er trúfrelsi samkvæmt stjórnarskrá.  Að aðild okkar að Mannréttindasáttmála Evrópu leiðir að við verðum að iðka það trúfrelsi(ekki fara að tala um þjóðkirkju NÚNA).  Í Noregi er 90 moskur. Þeir eru þjóð meðal þjóða.  Iðka trúfrelsi eins og aðrir Skandinavar.  Ætlum við ekki að gera það  eða höfumvið einangrast hér sem eitthvert fyrirbrigði?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 13.9.2010 - 16:47 - 43 ummæli

Er það besta fólkið sem fer?

Það var aldrei talað um Vesturfarana í mínu ungdæmi (1955-1970 var mitt ungdæmi).  Ég held að fólk hafi haft tvíbenta afstöðu til þeirra.  Annars vegar öfundað þá svolítið fyrir að hafa drifið sig. Hins vegar haft ákveðna skömm á þeim.  Það sem gerðist (held ég) að Vesturfararnir voru bældir í menningunni og þar með minningunni.

Síðar komust þeir í svolitla (tímabundna)tízku en það er önnur saga.

Ég held að við höfum sömuleiðis tvíbenta afstöðu til þeiira sem flytja núna. Þeir eru svolítið dáðir en forsmáðir af fleirum sem fólk sem hafi komið sér í (fjárhagslegt) klandur eða fólk sem skorti staðfestu eða ættjarðarást og þess vegna :,,gott að það fór.“  Farið hefur fé betra syndrómið.

Er það ekki yfirleitt ,,besta“ fólkið sem fer.  Hugrakkasta, gáfaðasta fólkið, fólk í yngra kantinum?  Þeir með þunga afturendann eða heimska hausinn sitja eftir í súpunni?

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 12.9.2010 - 16:00 - 30 ummæli

Er ekki skylda manns að flytja?

Er ég hugsa til framtíðar og þá til framtíðar barnanna minna þá er sennilega ábyrgðarhluti af mér að flytja ekki til Noregs.  Ber mér ekki skylda til þess að sjá til þess  að börnin mín  geti alist upp  í skipulegu samfélagi,  samfélagi fjölbreyttra möguleika þar sem fagmennska ræður ríkjum en ekki geðþótti, fámenni, klíkuskapur og fúsk.  Á ég ekki að nota tækifærið meðan það gefst að  flytja í ríkt samfélag ? Líkur eru á því að Ísland verði fátækt land.  Land ríkrarar yfirstéttar sem á íbúðir í London og New York á meðan fjöldinn stritar í fiskiðjuverum og í álbræðslum.  Þetta módel er þegar til staðar.  Land okkar er þegar orðið land misskiptingar. Er ekki líka ábyrgðarhluti að ala börnin sín upp á svona litlu málsvæði þar sem óvíst er að sé fært til að halda uppi sæmilegum vönduðum fjölmiðlum sem ekki eru í klónum á hagsmunaaðilum.

Ættjörðin togar.  Það gera allar ættjarðir. En er ástæða til þess að láta það fanga sig? Erum við ekki fyrst og fremst börn heimsins?  Er ættjörðin ekki veröldin öll?  Þannig ættum við auðvitað að hugsa.

Kynslóð foreldra minna flutti úr sveit til suðvesturhornsins í leit að hlutverki og betri lífskjörum.  Er einhver ástæða til að láta þar staðar numið?

Hluti kynslóðarinnar þar á undan flutti til Vesturheims. Voru það ekki hetjurnar? Voru það ekki þeir sem brugðust rétt við þegar framtíðin öll er skoðuð?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur