Fimmtudagur 26.9.2013 - 11:11 - FB ummæli ()

Burt með milljónkrónaseðilinn!

Sagan Milljóndollaraseðillinn eftir Mark Twain gengur út á hversu fáránlegt er að vesinast með alltof stóra peningaseðla.

Það vissi fólk líka í óðaverðbólgu eftirstríðsáranna í Þýskalandi, þegar fólk fór út í búð með milljónmarkaseðla í hjólbörum til að kaupa eitt hveitibrauð.

Eins og ýmsir hafa bent á, þá væri nýi íslenski 10.000 karlinn í raun milljón króna seðill ef ekki hefði verið farið í blöffið „myntbreytingu“ kringum 1980.

Norrænu krónurnar voru upphaflega jafnar þeirri íslensku, nú myndi hver norræn króna koma vel yfir 2.000 gamlar íslenskar krónur.

Þetta er nú árangurinn af íslenskri hagstjórn í tæp 100 ár.

Og þegar maður óskar eftir alvöru peningi eins og evru, þá fussa framsóknarmenn og sjálfstæðismenn (flestir) og segja að hér þurfi „bara“ aukna ábyrgð í hagstjórn.

Bara!

Það hefur ekki tekist í tæp hundrað ár og það mun ekki takast nú.

Burt með þennan milljón króna seðil!

Fáum almennilega mynt og reynum að lifa eins og fólk.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 21.9.2013 - 17:56 - FB ummæli ()

Lágkúran í Davíð Oddssyni

Davíð Oddsson var borgarstjóri í Reykjavík í níu ár og síðan forsætisráðherra í tólf.

Þegar best lét naut hann mikilla vinsælda og aðdáunar og sjálfstæðismenn töldu hann mesta leiðtoga sinn og þjóðarinnar frá upphafi vega.

Sjálfum fannst mér hann alltaf afar misvitur stjórnandi og þeim mun verri eftir því sem hann hafði völdin lengur.

Eigi að síður var erfitt að bera ekki nokkra virðingu fyrir honum á hans velmektardögum, og líka jafnvel við hann persónulega.

Það var í þá daga.

Nú er hann leigupenni útgerðarauðvaldsins, skrifar fúkyrði í leiðara og fimmaurabrandara í Staksteina og reynir á aumkunarverðan hátt að endurskrifa söguna í Reykjavíkurbréfum.

Og í dag gengur pólitísk barátta hans út á að reyna að gera að gera lítið úr pólitískum mótstöðumanni með því að skrifa nafn hans öðruvísi en mótstöðumaðurinn sjálfur kýs.

Sjá hér.

Þetta er í raun nákvæmlega það sama og að uppnefna fólk.

Jón Gnarr þarf ekkert á aðstoð að halda við að kveða þessa lágkúru í kútinn. Hann hefur þegar gert það af meiri hógværð og mannviti en Davíð Oddsson hefur nokkru sinni sýnt á ævinni. Sjá hér.

En mig langar að spyrja vini mína í Sjálfstæðisflokknum:

Ætlið þið endalaust að fylgja foringja sem lætur stjórnast af svona lágkúru og geðvonsku?

Það er sorglega komið fyrir Davíð Oddssyni, já, en þurfið þið endilega að feta þessa braut með honum?

Hvenær á að gera upp? Hvenær hafið þið hugrekki til að slíta ykkur lausa?

Hvenær rifjast upp fyrir ykkur hvað flokkurinn ykkar heitir?

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 19.9.2013 - 10:04 - FB ummæli ()

Ríkisstjórn hinna ríku, eingöngu

Ég heyrði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segja frá því í útvarpinu í gær að engar líkur væru á að hægt yrði á næstunni að lækka kostnaðarþátttöku sjúklinga í læknisaðgerðum.

Rödd hans var full af sorg, eins og þetta væri honum afar sárt.

Það væru bara engir peningar til.

En hvernig skyldi standa á því?

Hvað hefur þessi ríkisstjórn gert hingað til?

Hún hefur létt álögum af allra ríkasta fólki landsins, sægreifunum, sem einmitt um þessar mundir greiða sér milljarða og aftur milljarða í arð af því sem á að heita sameiginleg auðlind þjóðarinnar.

Hún hefur líka létt öðrum álögum af ríkasta fólki landsins, með því að sleppa því að framlengja auðlegðarskattinn sem hefði fært illa stöddum ríkiskassanum nokkra milljarða.

Hún hefur afnumið tekjutengingar ellilífeyrisbóta. Ekki skal ég amast mikið við því, en það er þó athyglisvert að sú aðgerð kemur fyrst og fremst best stadda gamla fólkinu að gagni. Önnur afrek hefur þessi ríkisstjórn ekki unnið í velferðarmálum.

Og hún hefur í undirbúningi (er það ekki örugglega?) svo miklar afskriftir af íbúðalánum að öll heimsbyggðin hefur aldrei séð annað eins.

Setjum nú svo að það takist.

Hverjum kemur það þá helst að gagni?

Jú – þeim tekjuhæstu!

Sjá hér.

Þið fyrirgefið, en „sorg“ Kristjáns Þórs og annarra ráðherra í þeirri ríkisstjórn sem svona vinnur, hún finnst mér ekki eins hundkvikindis virði. Nei, ekki eins lúsugs hundkvikindis virði!

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 8.9.2013 - 10:52 - FB ummæli ()

Engin ástæða til svartsýni

Allt er á leiðinni lóðbeint til andskotans eins og við vitum.

Sérstaklega fjölmiðlarnir – eins og við vitum.

Eða er það ekki?

Ja, nú fáum við tækifæri til að kanna hvort eitthvað er til í ótta fólks við að net- og farsímavæðing fjölmiðlanna hljóti að hafa í för með sér að þeir þynnist út.

Á síðustu tveim þrem vikum hafa sprottið upp tveir nýir fjölmiðlar sem ætla að hasla sér völl eingöngu á netinu.

Kjarninn kom fyrstur.

Afar metnaðarfullur fjölmiðill sem ætlar sér að kafa djúpt í hlutina.

Og lofar mjög góðu.

Sjá hérna.

Nú er svo Skástrik komið fram á sjónarsviðið líka. Þar ætla menn að fara aðra leið en Kjarninn, sem ætlar að lifa á auglýsingum.

Skástrik verður áskriftarrit.

En hérna er hægt að skoða fyrsta eintakið – það lofar líka mjög góðu.

Í þeim sviptingum sem væntanlega munu standa í samfélaginu næstu misseri verða góðir fjölmiðlar hvorki meira né minna en lífsnauðsynlegir.

Ég ætla því að vona að fólk taki báðum þessum nýju miðlum vel.

Það er engin ástæða til svartsýni meðan jafn mikill metnaður ríkir og hjá aðstandendum þessara tveggja fjölmiðla.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 6.9.2013 - 00:05 - FB ummæli ()

Ef heilbrigðiskerfið verður einkavætt

Ég fór aldrei þessu vant í bíó um daginn.

Sá myndina Elysium, sem suður-afríski leikstjórinn Neill Blomkamp gerir.

Þarna er mikill hasar, reyndar aðeins of mikill fyrir minn smekk, sér í lagi þegar líður á.

En umfjöllunarefnið er góðra gjalda vert, og reyndar mjög aktúelt á Íslandi núna.

Hvernig hlýtur að fara á endanum ef heilbrigðiskerfið er einkavætt.

Já, það verður sæluríki fyrir suma – en „elysium“ þýðir í raun og veru sæluríki.

En fyrir hina … það verður engin sæluvist.

Þakkarvert af Blomkamp að leiða okkur þetta fyrir sjónir.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 30.8.2013 - 10:14 - FB ummæli ()

Et tu, Eygló

Sú ákvörðun Eyglóar Harðardóttur að svipta Guðmund Steingrímsson formennsku í nefnd um notendastýrða aðstoð við fatlað fólk veldur mér djúpum vonbrigðum.

Eins og sjá má hér hefur Guðmundur sinnt þessu máli af kostgæfni og miklum áhuga.

Og ákvörðunin vekur hvarvetna furðu, eins og hér má sjá.

Ég hafði í einlægni trúað því að Eygló Harðardóttir væri ekki sami glórulausi valdapólitíkusinn og títt er um ráðherra og ekki síst ráðherra Framsóknarflokksins – bæði fyrr og síðar.

En þetta sýnir að hún getur ekki einu sinni hugsað sér að hafa pólitískan andstæðing í forsvari nefndar um aðstoð við fatlað fólk.

Ekki einu sinni þótt hann hafi að allra dómi unnið mjög gott starf.

Því hún þarf að hafa formanninn „nær sér“ eins og hún virðist hafa komist að orði.

Mér finnst þetta afar leiðinlegt, ég segi það satt. Eygló er greinilega ekkert skárri en hinir.

Og þá hefur einn vonarneistinn enn um skárri pólitík á Íslandi verið slökktur.

Kannski ætti ég að þakka Eygló fyrir að svipta mig blekkingunni.

En mér  finnst þetta þó fyrst og fremst sorglegt.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 27.8.2013 - 15:44 - FB ummæli ()

„Pabbi? Þetta er ég.“

„Pabbi? Þetta er ég. Ætlaði bara að segja þér að við erum búnir að taka af þennan fjárans auðlegðarskatt vinstri stjórnarinnar. Þú þarft ekki að borga þetta rugl framar. Þá ekki bara allt í góðu, ha, pabbi?“

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 24.8.2013 - 11:57 - FB ummæli ()

Álfakóngur í hálfmaraþoni

Jæja – ýmislegt fór úrskeiðis í hálfmaraþoninu áðan.

Ég fór alltof hratt af stað miðað við mann í mínum þyngdarflokki. Allskonar verkir gerðu vart við sig, ytra sem innra. Þrekið var ekki meira en svo að þegar einhver rétti mér súkkulaðimola á fimmtánda kílómetra varð ég að spýta honum út úr mér því ég hafði hreinlega ekki orku til að tyggja hann. Verst voru samt fjárans leiðindin. Ég er ekki í hópi þeirra sem finnst gaman að hlaupa. Á sautjánda kílómetra var ég farinn að gnísta tönnum, og á þeim nítjánda farinn að reyna að rifja upp fyrir mér öskureiður kvæðið Erlkönig eftir Goethe sem ég lærði utanbókar í menntaskóla – bara svo ég gæti hugsanlega gleymt mér næstu tvö hundruð metrana eða svo.

Og þegar ég komst í mark eftir rúmlega 21 kílómetra stóð 2.49,51 á tímatöflunni. Það er nú ekkert til að hrópa húrra fyrir.

En – og persónulega finnst mér það ansi stórt „en“ – ég komst þó í mark, og stoppaði aldrei. Gat meira að segja skokkað upp Satans brekkuna upp af Sundahöfninni. Þannig að þegar þetta var búið fannst mér það allt þess virði.

Og hafi nú einhverjir séð sér fært að styrkja í mínu nafni söfnun Fatímusjóðsins hennar móður minnar, sem safnar fé handa hinum mjög svo bágstöddu börnum Sýrlands, þá er til einhvers unnið.

Leggja má inn á reikning 342-13-551212 – kennitalan er 140240-3979.

Reikningurinn er enn opinn, þótt hlaupinu sé lokið.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 23.8.2013 - 22:05 - FB ummæli ()

Hlaupið fyrir börn

Eftir langa umhugsun ætla ég að skokka hálft maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu. Þótt ég sé í heldur lítilli æfingu fyrir svo langt hlaup og of þungur og svona, svo ég verð sjálfsagt með öftustu mönnum. En það verður að hafa það – markmiðið er bara að komast alla leið.

Ef einhver vill styrkja mig á þessari löngu leið (!) þá er mín góða móðir að safna fé fyrir hin illa stöddu börn í Sýrlandi – þau sem eiga hörmulegust örlög í heiminum um þessar mundir.

Sú söfnun er reyndar utan við hina opinberu söfnun hlaupsins en menn geta millifært inn á reikning Fatímusjóðsins, sem móðir mín rekur og hefur þegar lagt ótrúlega mikið af mörkum til að aðstoða bágstadda í Sýrlandi.

Framlög eru mjög vel þegin inn á 342 13 551212 – kennitalan er 140240-3979.

Allir sem þekkja til mömmu vita að hver króna sem hún safnar skilar sér á réttan og góðan stað.

Auðvitað verður hlaupið auðveldara ef maður veit að maður er að gera eitthvert gagn í leiðinni.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 19.8.2013 - 10:03 - FB ummæli ()

Finnst sjálfstæðismönnum allt í lagi að bera ábyrgð á þessum ósköpum?

Framganga framsóknarmanna á þessum fyrstu 100 dögum ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs er með þvílíkum ólíkindum að ég efast um að verstu óvinir flokksins hefðu getað sett saman annað eins handrit.

Sjá til dæmis hérna – á sumu því sem hér er nefnt bera náttúrlega sjálfstæðismenn líka ábyrgð.

Og þessi pistill hér, þótt harðorður sé, er á sinn hátt afar skiljanlegur.

Þruglið og bullið sem oltið hefur upp úr Gunnar Braga utanríkisráðherra (og Sigmundi Davíð) um Evrópusambandsmál er þvílíkt að það er beinlínis pínlegt að hlýða á það.

Ég leyfi mér að taka hér traustataki Facebook-færslu Hallgríms Helgasonar frá í morgun:

„Utanríkisráðherra er orðinn innanríkisvandamál. Talar í stöðugum og ansi framsóknarlegum mótsögnum sem fólk á erfitt með að skilja, hvað þá túlka. Segir eitt, og sekúndum síðar annað, þannig að enginn skilur hvað hann meinar. Hann átelur ESB fyrir IPA styrki í einni setningu en skammar það fyrir að draga þá til baka í þeirri næstu. Harmar að stofnanir fái ekki styrkina, sem bara átti eftir að skrifa undir, en fór sjálfur til Brüssel til að segja nei við ESB áður en skrifað var undir. Krafðist þess að síðasta stjórn héldi þjóðaratkvæði um viðræður við ESB en vill ekki sjá það sjálfur nú. Kannski má skrifa þetta allt á reynsluleysi eða skort á skýrri hugsun, í besta falli sveitamennsku.

Verst var þó í morgun að heyra í honum vald- og kynhrokann þegar hann var spurður um afstöðu þingflokksformanns Sjálfstæðismanna, sem í Fréttablaði dagsins segist ósammála utanríkisráðherra. Hann afgreiddi það svo: „Mér finnst hinsvegar leiðinlegt ef vinkona mín Ragnheiður er eitthvað að misskilja mig.“ Vandinn er þó einmitt sá að hún var einmitt AÐ SKILJA ráðherrann, sem er afrek út af fyrir sig. Viðskeytið „vinkona mín“ er svo hlaðið hvimleiðu karlrembulegu yfirlæti. Patronizing heitir það á ensku. Utanríkisráðherra er því fákunnandi og hrokafullur í senn, einhver sú versta blanda sem til er í stjórnmálum.“

Ég tek undir þessi orð Hallgríms.

En af því alltaf kemur eitthvað nýtt til sögu í uppistandi Framsóknarflokksins, þá er hætta á að við gleymum því næsta á undan.

Og það ættum við ekki að gera.

Við megum ekki gleyma strax hótun Vigdísar Hauksdóttur í garð Ríkisútvarpsins og starfsmanna þar.

Sumir reyndu að afgreiða hótanir hennar eins og léttvægt hjal, og jafnvel að hneykslunaraldan sem mætti ummælum hennar væri til marks um einhvers konar „einelti“ í hennar garð!!

Manneskja sem hótar heiðarlegum fréttamönnum starfsmissi ef þeir haga sér ekki eins og hún vill (því það var hún að gera), hún átti að hafa orðið fyrir einelti!

En hótanir hennar mega ekki gleymast.

Og við verðum að krefjast þess að hún sé látin víkja úr þeim ábyrgðarstörfum þar sem hótanir hennar og yfirgangur geta haft víðtæk og mjög skaðleg áhrif.

Það verður að herma það upp á Sigmund Davíð við hvert tækifæri.

Þess vegna er mánudagsgrein Guðmundar Andra Thorssonar í Fréttablaðinu svo góð og mikilvæg.

Hún er hérna, og ég vek sérstaklega athygli á þessum orðum hér, og geri að mínum:

„Vandséð er hvort er verra, sjálf hótun Vigdísar Hauksdóttur eða hitt, að hún komist upp með hana.

Geri hún það hefur íslensk stjórnmálamenning færst enn neðar en áður.

Komist Vigdís upp með hótanir sínar hefur henni tekist að skapa andrúmsloft ótta og sjálfsritskoðunar kringum sig, hún hefur brotið siðareglur sem alls staðar eru gerðar til stjórnmálamanna í þeim lýðræðisríkjum sem flest okkar vilja að Ísland miði sig við, hún hefur seilst langt út fyrir verksvið sitt, misnotað aðstöðu sína í þjónustu almennings í eigin þágu og haft í hótunum við starfsfólk almannastofnunar sem ekki hefur gert annað en að reyna að sinna vinnu sinni af þeirri trúmennsku sem óskandi væri að Vigdís Hauksdóttir reyndi einhvern tímann að tileinka sér.“

Svo mörg voru þau orð.

Á einum og sama morgninum hefur framferði framsóknarforkólfanna verið kallað „tilræði við lýðræðið“, tengt við einræði og fákunnáttu og hroka.

Og Auður Jónsdóttir rithöfundur skrifaði á Facebook í gær:

„Það er aðeins tvennt sem kemur til greina: A [Vigdís] gerði sig seka um einræðislega hótun. B Hún skilur ekki merkingu eigin orða. Möguleikarnir eru ekki fleiri. Og þeir eru báðir álíka slæmir. Manneskja sem hótar eins og einræðisherra á ekkert erindi í íslensk stjórnmál. Manneskja sem skilur ekki alvarleika umræddra orða er ekki nógu vel upplýst til að starfa í stjórnmálum, hvað þá að fara með völd.
Ef þessi gjörningur Vigdísar fær að líða hjá og gleymast, eins og svo margt annað í þessu þjóðfélagi, er þá nema von að maður spyrji sig: Hvað næst? Vöknum við upp einn daginn í svo afskræmdri stjórnskipan að það brýst út borgarastyrjöld? Annað eins hefur gerst. Ábyrgð fjölmiðla í þessu máli er mikil og ekki síður ríkisstjórnarinnar sem og Framsóknarflokksins.“
Sagði Auður.

Er heiðarlegum almennum framsóknarmönnum ekki farið að blöskra?

Eða heiðarlegum almennum sjálfstæðismönnum?

Finnst þeim allt í lagi að bera ábyrgð á þessum ósköpum?

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!