Föstudagur 10.5.2013 - 20:59 - FB ummæli ()

Stórslys yfirvofandi?

Slysið um daginn þegar olíudúnkur neðan í þyrlu hlammaðist niður hefði getað endað með ósköpunum.

En kannski getur það orðið til góðs – ef fólk vaknar af þeim Þyrnirósarsvefni sem greinilega hefur lagst yfir vatnsverndarmál á höfuðborgarsvæðinu.

Í mörg herrans ár hefur Sigmundur Einarsson jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun reynt að vekja athygli ráðamanna á því hver hætta er á ferðum.

En með engum árangri.

Spegill Ríkisútvarpsins fjallaði um málið í kvöld og ræddi við Sigmund.

Það er þarflaust að ég sé að endursegja allt það klúður sem Sigmundur sýnir fram á að hafi einkennt þetta mál.

Kalda vatnið okkar er dásamað á tyllidögum, segir hann, en menn umfangast það eins og hálfgerðan ruslahaug.

Og stórslys gæti verið yfirvofandi.

Frásögn Spegilsins og viðtalið við Sigmund er (vonandi) hérna að finna.

Ég ætla rétt að vona að ráðamenn bæði Reykjavíkurborgar, annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins leggi nú eyrun við.

Hér er greinilega hætta á ferðum, og reynum nú að byrgja brunninn áður en olíubragð verður komið af vatninu okkar.

Hættum að bregðast við klúðri, komum frekar í veg fyrir það.

Og meðal annarra orða – þetta mál sýnir fram á að það má ekki slaka á öllu samfélagslegu eftirliti, eins og maður óttast nú að sé yfirvofandi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 3.5.2013 - 10:13 - FB ummæli ()

Júlíus Agnarsson – minningarorð

Júlíus Agnarsson

Þegar ég var rétt skriðinn yfir tvítugt fékk ég það verkefni að skrifa sögu hljómsveitarinnar Stuðmanna. Það fylgdi með í kaupunum að fara á hvert Stuðmannaballið á fætur öðru, hér og þar um landið, eitt sprellfjörugt sumar fram á haust, og fyrir barnungan blaðamann eins og mig var þetta vitaskuld hið mesta ævintýri. Stuðmenn voru þá strákar um þrítugt, firna sprækir og hressir, einhverjir mestu töffarar landsins: Egill, Jakob Frímann og Valgeir, og líka þeir Tómas, Þórður og Ásgeir, þótt hæglátari væru.

En ég get vel viðurkennt það núna, þegar svona langt er liðið, að mesti töffarinn af þeim öllum fannst mér samt vera hljóðmaðurinn, Júlíus Agnarsson. Hann þurfti vel að merkja ekkert að hafa fyrir því, hann var bara í sjálfum sér og hver hreyfing, hvert orð ósaði af fyrirhafnarlausum persónutöfrum. Meðan Stuðmenn sjálfir fóru hamförum uppi á sviði stóð Júlli bak við tækin sín úti í sal, alveg áhyggjulaus að sjá þótt hann þyrfti að hafa þúsund augu á hverjum fingri, með viskíglas og sígarettu við hendina, og glotti bara góðlátlega þegar þeir ætluðu alveg að ganga fram af sér uppá scenunni.

Töff, maður, töff!

Nokkrum árum seinna kynntist ég Júlla aftur og betur þegar ég flutti í Skólastrætið sem var eiginlega hans ættaróðal. Í húsinu númer eitt var hann alinn upp og hafði búið alla sína ævi, utan nokkur ár sem hann var erlendis, og þótt húsin við götuna séu ekki nema fimm og gatan ekki nema svona fimmtíu metrar á lengd, þá tók hann hlutverk sitt sem óðalsherra mjög hátíðlega. Einatt mátti sjá hann á vappi um götuna að líta eftir því hvort allt væri ekki nokkurn veginn eins og það ætti að vera, og hvort allir hefðu það ekki sæmilegt í ríki hans. Hann var manna skemmtilegastur, sposkur og fyndinn, átti til góðlega kaldhæðni en var fyrst og fremst fullur af velvild og áhuga á mannfólkinu og öllu þess kynduga vafstri.

Sögur kunni hann óteljandi, bráðskemmtilegar held ég bara allar með tölu, og jós af þeim gnægtabrunni þegar tilefni voru til. En hann var líka nærfærinn þegar við átti, og honum hefur til að mynda einum allra manna í veröldinni tekist að fá dóttur mína til að syngja í votta viðurvist  – þegar hann réði hana barnunga til að tala (og syngja) inn á eina þeirra Disney-mynda sem hann talsetti af svo mikilli list í kjallaranum á Skólastræti eitt.

Æjá, þá voru góðir dagar þegar þeir bjuggu báðir í Skólastrætinu, Júlli og Gylfi Gíslason og maður gat lent í dúndrandi fjöri þegar maður hitti þá báða í götunni og þeir sáldruðu yfir mann sögum og skarplegum athugasemdum og glensi og pólitík og ég veit ekki hverju. Þá fór maður kátur inn til sín þegar maður kom af fundi þessara töffara beggja.

Það var mikið áfall fyrir Skólastrætið þegar kviknaði í húsinu hans Júlla fyrir tíu árum og úr varð að fjölskyldan seldi húsið og hann flutti burt með allt sitt hafurtask og stúdíóið í kjallaranum. Gatan hefur ekki verið svipur hjá sjón síðan, tala nú ekki um eftir að Gylfi dó árið 2006. Það hefur að vísu alltaf verið gaman að rekast á Júlla hingað og þangað um miðbæinn þessi síðustu tíu ár – hann var svo sannarlega einn þeirra sem settu svip á bæinn, eins og það var orðað í gamla daga – alltaf kátur og oftast glaður líka, alltaf fullur af áhuga og góðsemi og einlægt að spjalla við hvurn sem var, segjandi sögur frá týndri tíð sem því miður verða ekki úr þessu skráðar á blað.

Héðan úr Skólastrætinu fylgja sonum Júlla þremur og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur síðasta spölinn sem þeir fylgja honum. Hann hefði mátt lifa svo miklu lengur.

Þótt það séu tíu ár síðan hann flutti þá stend ég mig að því ennþá þegar ég fer út úr húsi að búast við því að Júlli standi niðri í götunni og taki mig tali, og á því verður sjálfsagt engin breyting þótt nú sé hann dáinn. Þannig minnist ég Júlla, hann var og verður spígsporandi niðrí Skólastræti, vingjarnlegur, hlýlegur, ræðinn og skemmtilegur. Og töff.

Alltaf töff.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 1.5.2013 - 14:01 - FB ummæli ()

„Bíddu í stafrófsröðinni, Bjarni“

Já, ég veit að maður á ekki endilega að dást að pólitískum klókindum. Þau geta verið lítils virði í sjálfu sér. En það verður að viðurkennast að þetta uppátæki Sigmundar Davíðs ER ansi lunkið.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 29.4.2013 - 12:38 - FB ummæli ()

Nú ber nýrra við!

Í mínu ungdæmi og löngum síðar var ímynd framsóknarþingmanns þannig að um væri að ræða vel rúmlega miðaldra og gjarnan þéttvaxinn karlmann.

Alltaf karlmann.

Framsóknarflokkurinn var langt á eftir öðrum flokkum í því að hleypa konum upp á dekk.

Og svo rosknir virtust framsóknarþingmenn ævinlega vera til orðs og æðis, að hugtakið „ungur framsóknarmaður“ var nánast eins og rökfræðileg mótsögn.

Í því ljósi verður að viðurkennast að það er óneitanlega skemmtileg nýbreytni að flokkurinn skuli nú bjóða upp á yngsta þingmann sögunnar og það stúlku í þokkabót.

Það er full ástæða til að bjóða Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur velkomna til starfa, og vona að þingferill hennar verði bæði henni sjálfri og þjóðinni til lukku.

Og Framsóknarflokknum má vel óska til hamingju með þessa nýlundu.

Jóhanna María. Myndinni hnuplaði ég frá RÚV.

Jóhanna María. Myndinni hnuplaði ég frá RÚV. Ef Jóhanna María hefur sama úthald í pólitík og nafna hennar Sigurðardóttir, þá gæti hún orðið á þingi allt til 2060 eða þar um bil!

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 28.4.2013 - 13:44 - FB ummæli ()

Aðhald

Ég veit ekki hvort nokkur hefur sérstaka þörf fyrir að lesa útlistun mína á því af hverju kosningarnar fóru eins og kosningarnar fóru.

Ég hef eiginlega ekki þörf fyrir það sjálfur.

Vil helst hugsa um annað.

En hitt veit ég að nýrri ríkisstjórn þarf að veita mikið aðhald.

Sérstaklega svo hún virki ekki of mikið og reisi helst ekkert álver.

Heldur hugsi atvinnulífið upp á nýtt og varðveiti fjöregg vort náttúruna.

Sérstaklega svo hún lækki ekki skatta og skuldir hátekjufólksins um of.

En láti okkar minnstu systkin meirog minna afskiptalaus.

Vonandi tekst henni vel upp.

En aðhald fær hún.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 26.4.2013 - 21:05 - FB ummæli ()

„Það er náttúrlega með ólíkindum að menn séu að vísa hér til fyrri stjórnartíða Sjálfstæðisflokksins…“

Þessu hér er rétt að halda til haga.

Bjarni Benediktsson er búinn að tala af fullkomnu ástríðuleysi í umræðunum í kvöld, rétt eins og hann sé bara að þylja upp textann sem starfsfólkið í Valhöll kenndi honum.

Svo hitnar honum allt í einu í hamsi:

„Það er náttúrlega með ólíkindum að menn séu að vísa hér til fyrri stjórnartíða Sjálfstæðisflokksins eins og þar sé eitthvað sem við verðum að svara fyrir.“

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 25.4.2013 - 12:37 - FB ummæli ()

Herfræði Sjálfstæðisflokksins

Stjórnmálaskýring, alveg ókeypis:

Strategía Sjálfstæðisflokksins alveg þangað til seint í janúar var þessi:

Eftir mikinn kosningasigur (allt að 40-41 prósent) átti að mynda ríkisstjórn með þeim smáflokki sem minnstar kröfur gerði, helst Framsóknarflokki eða VG.

Sjálfstæðisflokkurinn átti að fá fimm ráðherraembætti og öll þau veigamestu.

Síðan átti að skipa málum eins og honum þóknaðist, meðan smáflokkurinn vasaðist í allskonar smámálum og þornaði smátt og smátt upp eins og sagan segir að komi fyrir þá sem ganga í stjórn með Sjálfstæðisflokknum.

En síðan gerðist tvennt óvænt.

Framsóknarflokkurinn tók stóra stökkið fram á við.

Og það rann upp fyrir dágóðum hluta kjósenda að kannski væri eitthvað verulega brogað við að ætla að verðlauna Sjálfstæðisflokkinn með atkvæði sínu eftir aðild hans að hruninu og málþófsandstöðunni síðustu árin.

Svo nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn endurskoðað markmið.

Auðvitað er markmið númer eitt að verða stærri en Framsóknarflokkurinn.

En flokkurinn hefur líka hugsað út í það hvað á að gera ef það tekst ekki, og Sjálfstæðisflokkurinn verður minni en Framsókn.

Þá er herfræðin sú að bíta á jaxlinn, ganga í stjórn undir forystu Sigmundar Davíðs – en spinna um leið kænlegan vef um Framsókn.

Láta sér vel líka að Framsóknarflokkurinn fái óhikað að reyna sig í því hrægammaskytteríi og skuldaniðurfellingum sem flokkurinn boðar. En sjá í leiðinni vandlega um að Framsókn beri ein ábyrgð á þeim baráttumálum hinnar yfirvofandi ríkisstjórnar.

Á meðan fær Sjálfstæðiflokkurinn að sinna því í rólegheitum sem honum þykir mestu varða.

Að lækka veiðigjöld á sægreifana og koma endanlega í veg fyrir alla grundvallarendurskoðun á kvótakerfinu.

Að henda stjórnarskránni nýju – enda á ekkert óviðkomandi lið að koma nálægt slíku.

Að lækka skatta á hátekjufólk – enda telur flokkurinn það eiga verulega bágt eins og hér kemur fram.

Að hætta við Evrópusambandsumsóknina. Það verður hin hinsta dreypifórn sem Bjarni Benediktsson færir hinum mikla og ástsæla leiðtoga í aftursætinu – fórn sem hann verður að færa, eins þótt hann sé í hjarta sínu annarrar skoðunar.

Að virkja allt vatn sem rennur, og bora göng gegnum sérhvern hól – svo vinnuvélar verktakanna í flokknum hafi nóg að starfa.

Að draga úr þrótti rannsókna á hruninu og aðdraganda þess, svo aftur komist á „eðlilegt ástand“ fyrir vini og frændur flokksins.

Síðan, ef Framsóknarflokkurinn nær ekki jafn góðum árangri í hrægammaskytteríinu og hann hefur lofað (en það telur Sjálfstæðisflokkurinn óhjákvæmilegt), þá ætla sjálfstæðismenn að yppta öxlum, kenna framsóknarmönnum um öll vonbrigði en græða sjálfir á þeirri bólu sem þá verður vonandi komin af stað.

Og grilla í dýrlegum fagnaði sérhvert kveld …

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 23.4.2013 - 12:51 - FB ummæli ()

Stærsta spurningin

facbook

 

Eftir að undrskriftasöfnunin „Klárum dæmið“ fór af stað, og vísað er til hér að ofan – og er að finna hérna (skrifið endilega undir!) – þá hef ég verið spurður af hverju ég sé að vesinast í þessu.

ESB-umsóknin sé ekki beinlínis á dagskrá í kosningabaráttunni. Af hverju ég eyði ekki frekar orkunni í að mynda mér skoðun á og reka áróður fyrir einhverju sem snertir skuldavanda heimilanna.

Ojú – víst fer ESB ekki hátt í kosningabaráttunni.

En sú er reyndar einmitt ástæðan fyrir því að ég er að stússa þetta.

Ég stend einfaldlega á því fastar en fótunum að spurningin um aðild að ESB (eða ekki) sé stærsta spurningin sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir í náinni framtíð.

Það er hægt að færa rök fyrir því að með aðild fengjum við meiri kjarabót fyrir íslensk heimili en dæmi eru um á seinni tímum.

En það hafa líka verið færð rök fyrir því að í aðild fælist meiri fullveldisskerðing en sæmandi sé.

Öfgarnar í málflutningnum eru miklar, á báða vegu – og mér finnst simpelthen að þetta verði þjóðin að fá að útkljá sjálf – en ekki fyrr en fullfrágenginn samningur liggur fyrir.

Að þræta um ESB-aðild án fullkláraðs samnings er eins og að taka ákvörðun um að kaupa sér íbúð (eða hætta við það) án þess að hafa skoðað íbúðina.

Við eigum ekki að láta fáeina þingmenn og forkólfa hagsmunaaðila ráða þessu mikla hagsmunamáli okkar.

Og núna – þegar kannski er eitt ár eða svo þar til aðildarviðræðum lýkur með samningi sem fer í þjóðaratkvæðagreiðslu – þá er lag til að komast að því.

Og mér finnst bara svo brýnt að við fáum að taka ákvörðun um það sjálf að ég hef að mestu stillt mig um þá ánægju að hella mér á kaf í nýjustu tillögur um lausn á skuldavanda heimilanna.

Ekki vil ég gera lítið úr þeim vanda.

En ég er ansi smeykur um að flest þau kosningaloforð á því sviði sem nú blakta svo fagurlega á himni muni að endingu reynast hálfgerð tálsýn.

En þegar þau loforð verða orðin eins og murrandi hálfkvikindi eitthvert í þjóðarsálinni, þá munum við standa frammi fyrir spurningunni um aðild að ESB – eða ekki.

Og þá eigum við að fá að taka þá ákvörðun sjálf – en misvitrir stjórnmálamenn í dægurpólitík og kosningabaráttu eiga þá ekki að vera búnir að svipta okkur réttinum til hennar.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 23.4.2013 - 07:08 - FB ummæli ()

Greiðum atkvæði um raunveruleikann, ekki fullyrðingaglamur

Ég hvet fólk enn eindregið til þess að skrifa nafnið sitt undir hvatninguna „Klárum dæmið“ sem hérna er að finna.

Textinn er svohljóðandi:

„Ein mikilvægasta spurningin sem Íslendingar standa frammi fyrir er hvort aðild að ESB yrði okkur til góðs eða ekki. Verði sú spurning ekki útkljáð af þjóðinni sjálfri má gera ráð fyrir þrotlausum deilum um málið næstu ár og áratugi.

Aðildarviðræðum við ESB mun væntanlega ljúka innan árs. Við undirrituð viljum ljúka samningum við ESB, svo við getum sjálf tekið upplýsta ákvörðun um hvort aðild hentar okkar eða ekki. Við viljum ekki treysta þingmönnum einum fyrir því.

Við erum alls ekki öll sannfærð um að aðild að ESB henti okkur. En við viljum að þjóðin fái að ráða ferðinni. Við viljum klára dæmið.“

Ég vil ítreka þetta síðasta: Þetta er alls ekki könnun fyrir þá sem umfram allt vilja ganga í Evrópusambandið. Hún er líka og ekki síður fyrir þá sem eru á móti, en vilja að þjóðin sjálf fái að taka afstöðu í málinu – og fái þá að taka afstöðu til raunverulegs samnings.

En ekki til þess óstaðfesta fullyrðingaglamurs sem bæði „já“ og „nei“ fylkingar myndu til dæmis þyrla upp ef greiða ætti atkvæði um hvort aðildarferlinu yrði haldið áfram – án þess að endanlegur samningur lægi fyrir.

Þjóðin á það skilið, eftir deilur um málið undanfarin ár, að greiða atkvæði um raunveruleikann, ekki áróðursstagl beggja fylkinga.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 22.4.2013 - 11:21 - FB ummæli ()

Klárum dæmið

Ég var að hleypa af stað undirskriftasöfnun á netinu.

Þetta er yfirlýsing þeirra sem vilja að aðildarviðræður við ESB verði kláraðar, og þjóðin fái svo að segja álit sitt í þjóðaratkvæðagreiðslu.

En misvitrir stjórnmálamenn, með allskonar hagsmunatengsl, fái ekki að ráða þessu mikilvæga máli sjálfir.

Athugið að með því að skrifa undir eru menn EKKI að lýsa því yfir að þeir vilji ganga í ESB.

Heldur bara að þjóðin sjálf eigi að fá að ráða þessu.

Mér þætti vænt um allir þeir sem eru sama sinnis skrifi undir.

Hérna er linkur á undirskriftasöfnunina. Endilega dreifið honum sem víðast á Facebook og hvar sem er.

Ég ítreka: Þetta snýst um að þjóðin fái að ráða.

Textinn sem fylgir undirskriftunum er svohljóðandi:

„Ein mikilvægasta spurningin sem Íslendingar standa frammi fyrir er hvort aðild að ESB yrði okkur til góðs eða ekki. Verði sú spurning ekki útkljáð af þjóðinni sjálfri má gera ráð fyrir þrotlausum deilum um málið næstu ár og áratugi.

Aðildarviðræðum við ESB mun væntanlega ljúka innan árs. Við undirrituð viljum ljúka samningum við ESB, svo við getum sjálf tekið upplýsta ákvörðun um hvort aðild hentar okkar eða ekki. Við viljum ekki treysta þingmönnum einum fyrir því.

Við erum alls ekki öll sannfærð um að aðild að ESB henti okkur. En við viljum að þjóðin fái að ráða ferðinni. Við viljum klára dæmið.“

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!