Mánudagur 10.9.2012 - 14:54 - FB ummæli ()

Teboð ungra sjálfstæðismanna

Þetta hérna er eiginlega með töluverðum ólíkindum:

Ungir sjálfstæðismenn ætla sem sé að fara að berjast gegn sósíalisma og hafa fundið andlit hans í því fólki sem sjá má á þessu plakati.

Látum Íslendingana vera. Þeir hafa örugglega sumir ekkert á móti því að vera á þessu plakati.

En að þarna sé einnig að finna Barack Obama Bandaríkjaforseta vekur óneitanlega undrun.

Ungir sjálfstæðismenn telja hann sem sagt hættulegan sósíalista og ætla að berjast gegn því sem hann stendur fyrir með ráðum og dáð. Og þá væntanlega innleiða hugmyndir og hugsjónir Mitt Romneys hér á Íslandi.

Hann ætlar að slá af þann vott að mannsæmandi heilbrigðiskerfi fyrir alþýðu manna, sem Obama tókst að koma á eftir ægilegan slag við Repúblikanaflokkinn.

Hann ætlar að lækka skatta á þá ríku oní helst ekki neitt.

Og þá eru ótaldar skoðanir Romneys á félagslegum málum.

Andstaða hans við réttindi samkynhneigðra – og svo framvegis.

Er þetta sú stefna sem ungir sjálfstæðismenn vilja að taka upp á Íslandi?

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.9.2012 - 15:25 - FB ummæli ()

Annað væri fáránlegt

Þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrárfrumvarp stjórnlagaráðs verður 20. október. Þar verður vonandi settur einn af endapunktunum aftan við hið merkilega ferli sem við Íslendingar höfum farið í gegnum til að eignast nýja stjórnarskrá.

Ferli sem margar aðrar þjóðir öfunda okkur af, hefur maður orðið var við.

Sumir halda því fram að kjörsókn verði fremur lítil, því stór hluti þjóðarinnar hafi einfaldlega ekki neinn áhuga á þessu máli.

Því mun ég seint trúa.

Áhugi á pólitík og hvers konar samfélagsmálum hefur verið gríðarlega mikill upp á síðkastið.

Við höfum áhuga á atvinnumálum, við höfum áhuga á ráðningarmálum hins opinbera, við höfum áhuga á jarðargöngum og álverum, við höfum áhuga á jarðakaupum útlendinga, við höfum áhuga á makrílveiðum og málþófi á Alþingi, við höfum áhuga á umferð kvikmyndafólks um Ísland, við höfum áhuga á afskriftum og bankamálum, við höfum áhuga á Evrópusambandinu og kvótakerfinu …

Og er þá fátt eitt talið sem hefur kveikt mikinn áhuga og jafnvel ástríður í brjóstum landsmanna upp á síðkastið.

Þegar mér er því sagt að þeir sömu landsmenn hafi líklega takmarkaðan áhuga á sjálfri undirstöðu samfélagsskipunarinnar, sem stjórnarskráin er, þá trúi ég því hreinlega ekki.

Auðvitað mun fólk fara á kjörstað.

Annað væri fáránlegt.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 6.9.2012 - 20:53 - FB ummæli ()

Spádómur

Fyrsta platan sem ég keypti mér um ævina var Blood On The Tracks með Bob Dylan.

Eitt af helstu meistaraverkum hans.

Næstu tvær plötur á eftir, Desire og Street-Legal, voru líka fínar, jafnvel sú seinni. Og ég útvegaði mér flestar af eldri plötunum hans. Við Dylan fylgdumst vandlega að í lífinu í mörg ár.

Svo rofnaði kunningsskapurinn eins og gengur og gerist. Ég hætti að flýta mér út í búð eftir nýjum plötum hans, þó alltaf hafi verið þar nokkur frábær lög og ljóð innan um.

Nú í fyrsta sinn í áratugi bregður svo við að ég beinlínis hlakka til þegar næsta Dylan-plata kemur út, þann 11. september. Hún á að heita Tempest og margir óttast að hún verði síðasta platan hans.

Af því The Tempest var síðasta leikrit William Shakespeares.

Aldrei þessu vant hefur Dylan sleppt lausum á netið tveimur lögum af nýju plötunni og þau lofa góðu.

Einkum Duquesne Whistle – bráðskemmtilegt en undirtóninn er þyngri en ætla mætti, eins og raunar má sjá af því áhrifaríka vídeói sem fylgir laginu. Ungur maður verður skotinn í stelpu en við tekur furðu grimmilegt ofbeldi.

En á meðan gengur Dylan sjálfur undarlega áhugalaus um götur með skemmtilega hirð sína.

Ég ætla að spá því að hann hafi þessa hirð með sér þegar hann fer í desember að taka á móti Nóbelsverðlaununum sem ég hef ákveðið að sænska akademían muni veita honum í haust.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 6.9.2012 - 18:20 - FB ummæli ()

Góðir menn kosta, hóhó

Margir réttlæta þá ákvörðun Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra að hækka laun Björns Zoëga svo skyndilega og svo mikið með því að „góðir menn kosta“ og það sé bara staðreynd að borga verði færum stjórnendum há laun, svo þeir fari ekki annað.

Þessar röksemdir heyrðum við einmitt oft í byrjun „góðærisins“ þegar laun bankamanna og annarra foringja fóru allt í einu að hækka upp úr öllu valdi.

Mig minnir fastlega að einna síðast hafi orðið vart við þessa röksemd þegar laun Seðlabankastjóra voru hækkuð allverulega eftir að Davíð Oddsson tók við því starfi.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 6.9.2012 - 08:26 - FB ummæli ()

Orðstír deyr aldregi

Ekki hefur orðstír Gunnlaugs M. Sigmundssonar vaxið í mínum augum eftir málaferli hans gegn Teiti Atlasyni.

Sumt í málflutningi Gunnlaugs er með furðulegum ólíkindum.

Hann heldur því til dæmis fram að hann hafi litið svo á að viðtal sem Mogginn tók við hann eftir greinar Agnesar Bragadóttur hafi verið ígildi afsökunarbeiðni!

Sjá hér.

Það er vægast sagt mjög einkennilegur skilningur á fjölmiðlun.

Og ef marka má Fréttablaðið í morgun virðist Gunnlaugur beinlínis hafa logið fyrir dómi í gær.

(Ég nenni ekki að segja „farið frjálslega með staðreyndir“ en það er það sem átt er við!)

Fréttablaðið hafði á sínum tíma tekið viðtal við Gunnlaug vegna málshöfunar hans gegn Teiti og þar sagði Kögunarmeistarinn að mál Teits væri „eitt allsherjarbull í gölnum manni“.

Fyrir dómi í gær sagði Gunnlaugur hins vegar að um óformlegt spjall við blaðamann hefði verið að ræða, ekki viðtal, hann hefði aldrei veitt leyfi fyrir því að eitthvað yrði haft eftir honum, og loks að hann hefði aldrei kallað Teit „galinn mann“ heldur sagt að hann hafi „hegðað sér eins og galinn maður“.

Fréttablaðið segir í morgun að þetta sé vitleysa í Gunnlaugi.

Upptaka af samtali blaðamanns við hann sé til. Þar kynni blaðamaður sig sem slíkan, ræði síðan við Gunnlaug um málshöfðun hans án þess að nokkurn tíma örli á fyrirvara hjá Gunnlaugi um að birta megi eitthvað úr samtalinu, og samtalið sé nákvæmlega – það er að segja orðrétt – eins og það var birt í blaðinu.

Gunnlaugur gallaði Teit sem sagt galinn mann, en reyndi svo að þræta fyrir það fyrir dómi í gær. Orðstír hans vex reyndar og vex.

En kannski ekki endilega í rétta átt.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 25.8.2012 - 21:44 - FB ummæli ()

Ísrael

Ísraelar virka stundum undarleg þjóð. Undanfarin mörg ár hafa þeir kosið yfir sig stjórnvöld sem virðast haldin blindu ofstæki í garð Palestínumanna. En á sama tíma eru listamenn þjóðarinnar að vinna nærfærin og merkileg verk. Ísraelar eiga þó nokkra afar góða rithöfunda, og þeir hafa búið til mjög fínar bíómyndir síðustu ár, þar sem meðal annars er fjallað um Palestínumenn og sambúðina við þá af skilningi og mannviti.

Nú undanfarna daga hef ég svo verið að horfa á sjónvarpsseríuna Hafufim sem sýnd var í Ísrael 2009. Ameríska sjónvarpsserían Homeland er sögð lauslega byggð á þessari ísraelsku seríu, en það þykir mér furðuleg tenging – þessar tvær seríur segja svo ólíkar sögur að það er nánast ekkert sameiginlegt með þeim.

Ég gerði í vetur tilraun til að horfa á amerísku seríuna, en gafst á endanum upp. Skemmst er frá því að segja að ísraelska serían er miklu miklu betra og dýpra verk. Líklega ættu Ísraelar að láta listamenn sína stjórna landinu en ekki stjórnmálamennina.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 25.8.2012 - 18:59 - FB ummæli ()

Tryggvi Þór

Í gær var Anders Behring Breivik dæmdur í Noregi fyrir sín viðurstyggilegu fjöldamorð.

Þá skrifaði Tryggvi Þór Herbertsson eftirfarandi á Facebook-síðu sína:

„Dýrið Anders Brevik fékk makleg málagjöld í dag. Vonandi fær hann aldrei að sjá dagsljósið aftur. En finnst engum athugavert að safna börnum og unglingum kerfisbundið saman á afskekktri eyju í þeim tilgangi að innræta þeim tiltekna flokkspólitíska stjórnmálaskoðun????“

Nú er það svo að ég að minnsta kosti lít ekki endilega á Facebook sem ræðupúlt fyrir mjög úthugsaðar skoðanir. Þar tjá menn sig gjarnan í flýti og stundum án þess að íhuga hugdettur sínar að ráði.

Mér finnst því yfirleitt allt í lagi að leyfa fólki aðeins „frjálslegri“ tjáningu á Facebook en í ígrundaðri skrifum.

En samt.

Tryggvi Þór Herbertsson er þingmaður og jafnvel ráðherraefni á Íslandi, og maður þaulvanur að tjá skoðanir sínar opinberlega.

Því ætla ég að leyfa mér að herma skoðanirnar í Facebook-færslunni upp á hann.

Og skemmst er þá frá því að segja að mér finnst þær skoðanir sem Tryggvi Þór lýsti í gærkvöldi vera svo forkastanlegar að það standi nú upp á hann að íhuga þær vandlega.

Ég hef orðið var við að eftir að hneykslunarraddir heyrðust um orð Tryggva Þórs, þá hafa ýmsir komið honum til varnar með því að segja sem svo: „Nú, hefur hann þá ekki málfrelsi? Má hann ekki lýsa skoðunum sínum?“

Og jú – málfrelsi hefur hann svo sannarlega. Og fullt frelsi til að lýsa skoðunum sínum. En þá verður hann vitanlega líka að sitja undir því að þær skoðanir séu gagnrýndar – og gagnrýndar harkalega, ef ástæða er til.

Eins og núna.

Í fyrsta lagi – spurningin um „innrætingarbúðirnar“ á hinni „afskekktu eyju“. Sú spurning var raunar svo ósmekkleg á þessum degi og af þessu tilefni að maður ætti í raun og veru ekki að virða Tryggva Þór svars. En ég ætla nú samt að láta það eftir honum að svara henni stuttlega.

Þá er frá því að segja að með því að tengja fjöldamorð saman við tilvist sumarbúða jafnaðarmanna í Útey hefur Tryggvi Þór Herbertsson skipað sér að þessu leyti í hóp með Glenn Beck – þeim manni sem er svo langt út á öfgajaðri ameríska Repúblikanaflokksins að meira segja Fox News losaði sig að lokum við hann.

Sjá hér.

Og vil ég nota tækifærið og óska þeim Glenn Beck og Tryggva Þór hjartanlega til hamingju hvor með annan.

Ennfremur hlýt ég að taka fram að starfsemin í Útey sker sig á engan hátt frá margvíslegri ungmennastarfsemi bæði stjórnmálaflokka og annarra samtaka um víða veröld. Nema kannski að því leyti hvað hún er betur heppnuð. Sumarbúðirnar í Útey ganga út á að þroska samfélagsmeðvitund unga fólksins og efla það til dáða, jafnt persónulega og pólitískt.

Eftir því sem ég best veit hefur enginn og aldrei nokkru sinni kvartað undan því að í Útey hafi átt sér stað „innræting“ í neinum neikvæðum skilningi þess orðs.

Og ég veit ekki til að þar séu haldin „bjórkvöld“ eins og maður hefur fyrir satt að til dæmis ungliðasamtök Sjálfstæðisflokksins hafi gjarnan haldið til að lokka að unga fólkið hér á Íslandi.

En öllu nánar sé ég ekki ástæðu til að svara efnislega hinni ósmekklegu spurningu Tryggva Þórs.

Því hún var fyrst og fremst til marks um svo yfirþyrmandi smekkleysi og svo einkennilega dómgreind að ég get því miður ekki orða bundist.

Nú veit ég ósköp vel að Tryggvi Þór var auðvitað ekki að bera blak af fjöldamorðingjanum með þessu – en með því að tengja þetta saman á þeim degi sársauka og uppgjörs sem gærdagurinn var fyrir Norðmenn, þá varpar hann samt skugga yfir daginn.

Þingmaður og kannski ráðherraefni hlýtur að gera ráð fyrir að orð hans fari víðar en flestra annarra.

Og að nefna þetta í gær var eins og ef dauðadrukkinn ökufantur hefði keyrt niður barnið mitt á götuhorni og svo hefði Tryggvi Þór mætt í sjálfa erfidrykkjuna og klöngrast þar upp á stól síðla kvölds og heimtað að fá að halda ræðu: „Bölvuð fyllibyttan. En finnst engum athugavert að krakkanum skuli hafa verið hleypt út í stórhættulega umferðina?“

Ég vona að ég þurfi ekki að skýra þetta frekar.

Viðbrögð Norðmanna sjálfra við hinum hryllilegu atburðum í Útey og Osló hafa einkennst af ótrúlegri stillingu og aðdáunarverðri smekkvísi. Ég er þó ekki viss um að jafnvel þeir hefðu getað stillt sig ef Tryggvi Þór hefði verið gasprandi þetta í gær á þeirra heimaslóðum.

Og í þriðja lagi – „dýrið … fékk makleg málagjöld í dag. Vonandi fær hann aldrei að sjá dagsljósið aftur.“

Svo vill til að eitt af því sem helst hefur vakið aðdáun varðandi viðbrögð Norðmanna hefur verið hve staðfastlega þeir hafa hafnað því að „skepnuvæða“ Anders Breivik.

Hann er ekki „dýr“ í þeim skilningi sem Tryggvi Þór vill leggja í það orð, hann er maður. Og hversu sárt sem það var fyrir þá, ákváðu Norðmenn að meðhöndla eins og mann allt frá upphafi og gæta ýtrustu mannréttinda hans.

Og þó það hafi verið erfitt að horfa upp á þetta glottandi afstyrmi gera sig breiðan í réttarsalnum í Osló, þá var stefna Norðmanna sú eina rétta.

Mannréttindi eru því aðeins einhvers virði að þau gildi fyrir alla. Ekki aðeins fyrir þá sterku.

Líka fyrir þá smæstu og veikustu.

Og jafnvel – þótt það sé stundum erfitt – fyrir þá verstu.

Meira að segja orð Tryggva Þórs um „dýrið“ sem á ekki að fá að „sjá dagsljósið aftur“ eru því til vitnis um dómgreindarleysi hans.

Við getum öll misst eitthvað út úr okkur í bræði. En Tryggvi Þór er þingmaður sem skrifar þetta eftir löng réttarhöld mánuðum saman sem hefðu átt verða honum til umhugsunar – og vekja dómgreind hans.

Ef flokkur Tryggva Þórs gerir hann til dæmis að ráðherra í ríkisstjórn Íslands, er þetta þá sú dómgreind sem hann mun sýna í embætti?

Ég vona ekki. Það veit guð almáttugur, ég vona ekki.

 

 

 

 

 

– – – –

Til að leggja áherslu á að ég vona að þeir Tryggvi Þór og Glenn Beck eigi samleið á sem allra fæstum sviðum (!), þá bætti ég eftir á inn orðunum „að þessu leyti“ í setninguna þar sem segir “ … hefur Tryggvi Þór Herbertsson skipað sér að þessu leyti í hóp með Glenn Beck …“

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 22.8.2012 - 15:17 - FB ummæli ()

Skammist ykkar!

Hvaða óforskömmuðu siðleysingjar reka eiginlega þessi svokölluðu „smálánafyrirtæki“?

Akkúrat þessa dagana er tvennt að gerast.

Gagnrýni á smálánafyrirtækin og grimma markaðssetningu þeirra hefur aukist, enda eru vísbendingar um að kornungt fólk sem kann ekki ennþá með peninga að fara, eða er jafnvel djúpt sokkið í net fíkniefnaneyslu, séu meðal helstu viðskiptavinanna.

Og svo eru skólarnir að byrja – tími þegar foreldrar þurfa að reiða fram heilmikla peninga fyrir bæði skólavörum og nýjum fötum, og það eiga ekkert allir auðvelt með það. Og fæstum foreldrum mun þykja beinlínis æskilegt eða sniðugt að ýtt sé undir þá markaðsvæðingu unga fólksins, allt niður í barnaskóla, sem þegar er orðin alltof mikil af hálfu kaupahéðna og auglýsingamanna.

Þá trommar eitt smálánafyrirtækið upp með þessa auglýsingu hér. Lára Hanna Einarsdóttir klippti hana út úr ljósvakanum.

Á þetta að vera fyndið, já? Á að afsaka þetta með því? Tja, mér finnst þetta alla vega ekkert fyndið.

A: „Jæja, ertu tilbúinn í skólann?“

B: „Ááááá.“

A: „Af hverju ertu svona stúrinn?“

B: „Þetta eru föt síðan í fyrra, og þessi taska er alltof hvolpaleg. Tíkurnar munu örugglega ekki líta við mér.“

A: „Svona, svona. Við kíkjum bara inn á Smálán.is. Þú segir bara hvað þú vilt mikið og í hve langan tíma og færð peninginn um leið.“

B: „Hei, sjáðu þessa, hún var að þefa af rassinum á mér í dag!“

Mér finnst að forráðamenn þessa fyrirtækis ættu að skammast sín. Og raunar finnst mér ennfremur að þeir auglýsingagerðarmenn sem tóku þátt í að búa til þessa hörmung mættu líka hugsa sinn gang.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 18.8.2012 - 17:39 - FB ummæli ()

Draugar Breiðavíkur kveðnir niður

Í mínu ungdæmi var orðið Breiðavík nánast eins og Grýla. Svonefndir „óknyttapiltar“ gátu endað í Breiðavík, sagði orðrómurinn meðal okkar barnanna. Og þar vildi enginn vera.

Samt höfðum við ekki hugmynd um hvað vistin í Breiðavík var skelfileg í raun og veru, þegar verst lét. Það tók áratugi að grafa það upp úr þoku þöggunar og lyga.

Ég kom í fyrsta sinn í Breiðavík um daginn. Hér á árum áður þegar vegir voru verri en þeir eru nú hefur staðurinn verið ansi einangraður, jafnvel á sumrin. Og á veturna getur vafalaust verið hráslagalegt í víkinni sem snýr móti opnu Atlantshafinu.

En í raun er þetta mjög fallegur og skemmtilegur staður. Sandurinn í fjörunni er furðulega hvítur (eins og reyndar inni í Patreksfirðinum) og manni líður eins og maður sé í útlöndum þegar maður rápar þar í sandinum.

Nú er rekið í Breiðavík ljómandi fínt hótel og metnaður eigendanna er mikill. Það er nóg traffík en hingað til hafa útlendingar verið í stórum meirihluta, þeir eru flestir komnir þangað á leiðinni út á Látrabjarg til að góna á lunda. Nú stendur til að sigrast á þeim neikvæða blæ sem orðið Breiðavík hefur í munni Íslendinga og fá þá í auknum mæli til að sækja hótelið heim. Og jafnvel opna einhvers konar vinnustofur á veturna fyrir þá sem vilja vinna að ritstörfum, listsköpun eða einhverju álíka í kyrrð og ró.

Ég vona að það lukkist, það vantar alla vega hvorki kyrrð né ró né náttúrufegurð. Og viðmót eigenda og starfsfólks er sérlega vinsamlegt. Þegar ég var þarna var hópur kvikmyndagerðarfólks á staðnum að taka upp stuttmynd með einhverju draugalegu ívafi. Það verður gaman að sjá hana, en ég held nú samt raunar að hinir fornu draugar Breiðavíkur hafi nú verið kveðnir niður.

Fjaran í Breiðavík, horft upp að hótelinu og kirkjunni.

Breiðavík, myndin er tekin af veginum út að Látrum.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 12.8.2012 - 09:22 - FB ummæli ()

Að velta um borðum víxlaranna eða flytja pönkbæn í dómkirkju

Ekki vilja allir láta mikið að sér kveða við að mótmæla meðferð rússneskra yfirvalda á pönkhljómsveitinni Pussy Riot. Sumir segja sem svo að þótt stúlkurnar í hljómsveitinni verðskuldi kannski ekki margra ára fangelsi, þá verði ekki framhjá því litið að þær hafi svívirt einlæga guðstrú fjölda fólks með uppistandi sínu í dómkirkjunni í Moskvu. Og fótumtroðið alla góða siði.

Það sé skiljanlegt að trúuðum Rússum sé heitt í hamsi.

Og það er nú það.

Þótt ótrúlegt megi virðast er alls ekki á hreinu fyrir hvað Jesúa frá Nasaret var krossfestur af Rómverjum á sínum tíma, líklega eftir hvatningu æðstupresta Gyðinga í Jerúsalem.

Hann var þó að minnsta kosti alls ekki líflátinn fyrir kærleiksboðskap sinn. Þótt kærleiksboðskapur Jesúa væri vissulega fallega orðaður var ekkert frumlegt eða merkilegt við hann. Fjöldi fólks í mörgum löndum hafði áður kennt allt það sem Jesúa kenndi.

Og yfirvöld höfðu ekkert á móti slíkum boðskap, nema síður væri. Hvorki Rómverjar né Gyðingar.

Hann var heldur ekki tekinn af lífi fyrir að brjóta lögmál Gyðinga. Það er jú haft eftir honum að hann hafi ekki komið til að brjóta lögmálið, heldur uppfylla það – og það er ekkert ólíklegt að hann hafi í rauninni sagt eitthvað mjög í þá áttina.

Og hann var alveg áreiðanlega ekki handtekinn og krossfestur fyrir að lýsa því yfir að hann væri sonur guðs. Í fyrsta lagi er vafasamt að hann hafi í rauninni sagt eitthvað þvíumlíkt – nema þá í mjög almennri merkingu. Í öðru lagi höfðu Gyðingar heyrt annað eins án þess að krefjast þess að menn væru teknir af lífi. Og í þriðja lagi hefði Rómverjum staðið hjartanlega á sama. Þeir höfðu engan áhuga á guðfræðilegri þrætubók hinna ýmsu trúarhópa og prédikara Gyðinga.

Og hvað stendur þá eftir? Hver var hin raunverulega dauðasök Jesúa frá Nasaret?

Jú, athyglin hlýtur að beinast mjög að uppákomunni í musterinu. Svona er sagt frá henni í guðspjallinu, sem kennt er við Matteus:

„Þá gekk Jesús í helgidóminn og rak út alla, sem voru að selja þar og kaupa, hratt um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna og mælti við þá: „Ritað er: ,Hús mitt á að vera bænahús,’ en þér gjörið það að ræningjabæli.““

Þessi atburður er í rauninni ansi einkennilegur. Peningavíxlararnir og dúfnasalarnir höfðu nefnilega mjög mikilvægu hlutverki að sinna í musterinu.

Gyðingar sem búsettir voru í öðrum löndum og komu í pílagrímsferð til Jersúsalem þurftu að færa guði fórnir. Til dæmis og ekki síst dúfur. Hinir útlensku peningar þessara aðkomumanna voru hins vegar taldir „óhreinir“ og því sátu víxlarar í forgarði musterisins og skiptu útlensku peningunum í mynt sem æðstuprestarnir töldu guði þóknanlega. Þarna voru sem sé við lýði gjaldeyrishöft. Og hin guði þóknanlega mynt var svo notuð til að kaupa dúfur sem síðan voru drepnar á altari guðs.

Það var í öllu falli ekkert óeðlilegt við nærveru víxlara og kaupmanna, og í raun illskiljanlegt að Jesúa hafi ráðist að þeim og velt um borðum þeirra.

Kannski hefur hann staðið einhvern þeirra að því að reyna að svindla á aðkomumönnunum, hvað veit maður? En þeir bæði máttu og áttu að vera þarna – það vissu allir trúaðir Gyðingar.

Kannski leit Jesúa á þetta sem einhvers konar gjörning.

Hvað sem því líður er ekki vafi á því að rétttrúuðum Gyðingum, sem urðu vitni að brambolti Jesúa í hinu ginnheilaga musteri, hefur þótt hann svívirða einlæga trú sína og fótumtroða alla góða siði.

Í raun er langlíklegast að þetta pönk Jesúa í musterinu hafi ráðið úrslitum um að æðstuprestarnir vildu láta refsa honum harðlega. Og að Rómverjum hafi þótt hann slík ógn við allsherjarreglu að réttast væri að krossfesta hann bara.

Ég ætla ekki að líkja stelpunum í Pussy Riot við Jesúa frá Nasaret að öðru leyti.

En mér sýnist óneitanlega að glæpur beggja sé, að breyttu breytanda, býsna svipaður.

Uppistand á svokölluðum helgum stað. Móðgun við einlæga trúarvitund tiltekins hóps.

Og þá þarf auðvitað ekki að orðlengja hvað það er sárgrætilegt að nú sé búið að smíða svo mikinn kumbalda kringum guðdóm Jesúa frá Nasaret, að gott og trúað fólk telji jafnvel eðlilegt að refsa eigi nokkrum kátum stelpum stranglega fyrir ósköp sambærilegan hlut og meistarinn frá Nasaret var krossfestur fyrir.

Ef eitthvað er, þá gekk Jesúa töluvert lengra.

Sjá hér.

Stelpurnar í Pussy Riot eru svo hérna.

Á föstudaginn kemur verða mótmæli við rússneska sendiráðið í Reykjavík. Sjá Facebook-síðu mótmælanna hér.

Allir ættu að mæta sem láta sig mannréttindi varða.

Ekki síst trúað fólk sem metur fordæmi meistara síns mikils.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!