Föstudagur 30.12.2011 - 08:55 - FB ummæli ()

Fjögur ár

Árið 2012 er að renna upp.

Snemma hausts verða liðin fjögur ár frá hruninu.

Fjölmargt nauðsynlegra verka bíður enn.

Hvar eru til dæmis rannsóknarnefndirnar?

Hvar er ný stjórnarskrá?

Og svo framvegis.

Þessu þarf að ljúka, því við megum ekki gleyma neinu, en svo verðum við líka að fara að snúa okkur að öðru.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 30.12.2011 - 08:35 - FB ummæli ()

Strangur fréttamaður

Í fyrrinótt kyngdi niður snjó í Reykjavík eins og allir vita. Var ekki um að ræða meiri snjókomu á styttri tíma en dæmi eru um lengi? Í gærkvöldi heyrði ég svo í fréttum viðtal við borgarstjórann Jón Gnarr þar sem hann sagði frá því að mun meiri peningum hefði verið eytt í snjómokstur í borginni en áætlað hefði verið. Jafnframt lýsti hann því hvernig starsmenn borgarinnar hefðu byrjað snjómokstur klukkan fjögur að morgni og lagt sig alla fram.

Fréttamanninum þótti þó lítið til um. Hann spurði strangur í málrómnum: „Samt urðu margir fyrir truflunum á leið í vinnu. Er það ásættanlegt?“

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 24.12.2011 - 08:27 - FB ummæli ()

Megi nú fara að birta

Þegar ég var lítill drengur hlustaði ég með næstum óttablandinni virðingu á jólakveðjurnar í útvarpinu á Þorláksmessu.

Með hátíðlegri rödd þularins sendi fólk hugheilar jólakveðjur til ættingja og vina og auðvitað um leið til allrar þjóðarinnar.

Hugheilar – göfugt orð sem annars heyrist aldrei nema í jólakveðjum.

Og ég hugsaði: „Mikið hlýtur það fólk að eiga undir sér sem sendir allri þjóðinni hugheilar kveðjur sínar á svona hátíðarstundu.“

Þegar ég óx úr grasi og fór að standa á eigin fótum hugsaði ég stundum með mér hvort ég ætti nú að stíga það stóra skref að senda vinum og ættingjum jólakveðju í útvarpinu.

Mundi það ekki hljóma dæmalaust fallega að heyra hljómríka rödd þularins bera kveðju mína upp um fjöll og firnindi, og til sjávar sem sveita?

En mér fannst ég ekki hafa nóg til þess unnið, ekki ennþá, svo ég lét það bíða.

Nú er ég kominn yfir fimmtugt og finnst ég enn ekki orðinn nógu stálpaður í sinni, til að vera verðugur þess að senda þjóð minni kveðjur á þennan tignarlega hátt.

Ætli það verði ekki seint?

Sem betur fer er í millitíðinni búið að finna upp netið.

Og það ætla ég nú að nota til að senda ættingjum og vinum og já – þjóðinni allri! – mínar einlægustu og fegurstu jólakveðjur.

Og megi nú fara að birta.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 22.12.2011 - 13:19 - FB ummæli ()

Opinbera rannsóknarnefnd takk

Í skínandi fínum leiðara Fréttablaðsins í dag (sjá hér) fjallar Þórður Snær Júlíusson um grein í nýútkomnu hefti af tímaritinu Sögu, þar sem Björn Jón Bragason skrifar um einkavæðingu bankanna 2002, sér í lagi „sölu“ á Búnaðarbankanum til S-hópsins.

„Sala“ er hér innan gæsalappa, enda væri „gjöf“ nær lagi.

Það er greinilega full ástæða til að lesa þessa grein.

Þórður Snær vitnar m.a. til þeirra orða Páls Magnússonar helsta aðstoðarmanns framsóknarmanna í þessu subbulega ferli, þar sem hann segir að Þorsteinn Már Baldvinsson mætti ekki kaupa Búnaðarbankann því hann væri „orðinn nógu ríkur“.

En nokkrir góðir og gegnir framsóknarmenn – Ólafur Ólafsson, Finnur Ingólfsson og fleiri – voru hins vegar ekki orðnir nógu ríkir, að dómi framsóknarráðherra, og úr því var nú snarlega bætt.

Og Halldór Ásgrímsson – núna sérlegur höfðingi Íslands á vettvangi Norðurlandaráðs – hann tapaði ekki beinlínis á þessu makki öllu.

Hugarfarið sem þarna er lýst er svo gegnsýrt spillingu að það er með ólíkindum. Það er augljóslega talið sjálfsagt mál að það sé í verkahring pólitíkusa og hjálparkokka þeirra að deila og drottna, útdeila gjöfum og ákveða hverjir eru „orðnir nógu ríkir“!

Sá ágæti maður Páll Magnússon var sem kunnugt er nærri orðinn forstjóri Bankasýslu ríkisins í haust.

Greinar eins og þær sem Björn Jón skrifar eru góðra gjalda verðar. Ég ítreka hins vegar það sem ég hef sagt oft áður – stjórnvöld verða að skipa rannsóknarnefnd til að rannsaka einkavæðingu bankanna.

Þessi saga verður að komast upp á yfirborðið á formlegan hátt.

Og ég tek undir hvern púnkt og prik í lokaorðum leiðarahöfundar Fréttablaðsins:

„Afleiðingin [af einkavæðingu Búnaðarbankans og sameiningu við Kaupþing] er öllum kunn: sameinaður banki orsakaði fimmta stærsta gjaldþrot heims og grunur er um umfangsmestu markaðsmisnotkun sem átt hefur sér stað.

Það er í tísku að segja fólki að hætta að horfa í baksýnisspegilinn og horfa frekar fram á veginn. Það er hins vegar erfitt þegar útsýnið út um framrúðuna sýnir sömu einstaklingana og stóðu að rót vandans áhyggjulausa á fleygiferð inn í framtíðina.“

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 22.12.2011 - 09:46 - FB ummæli ()

Ævintýralega flottar þjóðleiðir, og fleiri bækur

Í jólabókaflóðinu beinist yfirleitt mest athygli að skáldsögum en það eru fleiri bækur á kreiki. Hér eru nokkrar sem mér finnst athyglisverðar:

1001 þjóðleið eftir Jónas Kristjánsson er náttúrlega ævintýralega flott. Þarna eru taldar upp göngu- og reiðleiðir um allt land, sýndar á mjög aðgengilegu korti og stutt og gagnorð lýsing á hverri leið. Svo fylgir diskur með GPS-upplýsingum um leiðirnar. Ekki kann ég nú ennþá að nota svoleiðis, en þetta er ógnarfínt og fróðlegt.

Táknin í málinu eftir Sölva Sveinsson er einstaklega fróðleg líka, skrá í stafrófsröð yfir óteljandi tákn í bókum og hvað þau merkja. Bæði bókmenntaleg tákn og myndræn. Vissuði til dæmis að döðlur eru karllægt tákn?!

Þá er ævisaga Napóleons komin út, eftir sænskan höfund. Mjög skemmtileg og gagnleg bók – og þótt hún sé þykk, þá finnst manni helst að hún mætti vera enn þykkari. Ekki mikið af nýlegu lesefni hefur verið til um Napóleon á íslensku, svo hér er bætt úr brýnni þörf!

Ég er ekki enn búinn að lesa Dauðann í Dumbshafi eftir Magnús Þór Hafsteinsson en hef fullan hug á því. Hún fjallar enda um efni sem ég las um mér til óbóta á yngri árum, skipalestir bandamanna sem fóru um Ísland á leið sinni til Rússland í síðari heimsstyrjöld. Mér sýnist bók Magnúsar Þórs sneisafull af fróðleik … og gaman að endurnýja kynnin við PQ-17 og þá félaga alla!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 21.12.2011 - 11:49 - FB ummæli ()

Það sækir enginn orðstír sinn til dómstólanna

Það verður að fara að stöðva hina vaxandi tilhneigingu til meiðyrðamála.

Nú hafa tveir kaupsýslumenn stefnt Ragnari Önundarsyni fyrir að hafa sagt að þeir væru „féflettar“ en ekki „fjárfestar“.

Ég tek það skýrt fram að ég veit nákvæmlega ekkert um málið.

Ég þekki hvorki mennina tvo, né Ragnar.

Það getur vel verið að orð Ragnars hafi verið móðgandi.

Það getur líka vel verið að þau séu ósanngjörn.

Ég hef bara ekki hugmynd.

Ekki minnstu hugmynd.

En þessi orð eru greinilega sett fram sem niðurstaða af röksemdafærslu í grein sem Ragnar skrifaði um hátterni kaupsýslumannanna.

Og þá VERÐUR að leyfa fólki að orða skoðanir sínar skýrt og skorinort – án þess að eiga á hættu meiðyrðamál.

Ég vil beina því til fjárfestanna tveggja að draga mál sitt þegar í stað til baka.

Ég hef ekki haft neina sérstaka skoðun á þessum tveimur mönnum hingað til.

Þeir ráða því sjálfir hvort þar verður breyting á.

Þessir tveir menn eru áhrifamiklir kaupsýslumenn í samfélaginu, og þeir eiga að þola það þó ekki séu allir yfir sig hrifnir af þeim.

Ef á þá er deilt eiga þeir að svara fyrir sig með orðum, ekki stefnuvottum.

Hættið þessu!

Ég vil reyndar beina þessu til allra þeirra sem nú um stundir sveifla um sig ryðguðum atgeirum meiðyrðalöggjafarinnar.

Þá atgeira á aðeins að brúka þegar allt um þrýtur, ef menn kunna ENGIN önnur ráð sér til varnar.

En alls ekki annars.

Hvað oft á ég að segja það: Það sækir enginn orðstír sinn til dómstólanna!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 20.12.2011 - 20:56 - FB ummæli ()

Eru listamenn studdir „út í eitt“, já?

Handboltalandslið kvenna stóð sig um daginn framar öllum vonum á heimsmeistaramótinu í Brasilíu.

Gott hjá þeim, og til lukku!

Á hinn bóginn vakti athygli að þegar fyrirliði liðsins fór í viðtal eftir síðasta leikinn var henni efst í huga að kvarta yfir algjöru peningaleysi íþróttahreyfingarinnar.

Á meðan listamenn væru studdir „út í eitt“.

Nú hefur Pawel Bartoszek kannað málið á sinni ágætu vefsíðu, PabaMaPa. Hvorir fá meiri styrki frá hinu opinbera, íþróttamenn eða listamenn?

Og skemmst er frá því að segja að þegar allt er reiknað hafa íþróttamenn vinninginn.

Skoðið þetta vandlega.

Íþróttamenn fá 14,5 milljarð króna, listamenn 12,7.

Þá er það á hreinu.

Ég held reyndar að það mætti alveg reikna stuðninginn við íþróttahreyfinguna hærra, því fá ekki íþróttamenn stærstan hluta af lottó-peningunum með sérstöku leyfi frá hinu opinbera? Ekki veit ég til að listamenn njóti góðs af því.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 20.12.2011 - 20:05 - FB ummæli ()

Skelfileg sjón

Það er mikil spurning hvort maður á í raun að hvetja fólk til að horfa á myndband eins og þetta hér (einnig birt að neðan), sem sýnir egifska herlögreglumenn misþyrma mótmælendum þar í landi.

Þetta er ömurleg sjón í alla staði.

En þrátt fyrir allt er skárra að vita hvað er að gerast í veröldinni en að vaða um í villu og svíma.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 19.12.2011 - 11:58 - FB ummæli ()

Valdabrölt í helvíti

Það var Gagga Lund sem vakti athygli mína á sínum tíma á tilveru Chaim Rumkowskis. Hún benti mér á frásögn um hann í einni af bókum Primo Levis, ítalska efnafræðingsins og rithöfundarins sem lifði af ársvist í Auschwitz, útrýmingarbúðum nasista fyrir Gyðinga og fleiri.

Saga Rumkowskis er ótrúleg hryllingssaga, hvernig svo sem maður túlkar hana.

Hann var tiltölulega ómerkilegur kaupsýslumaður af Gyðingaættinum í borginni Łódź í Póllandi þegar Þjóðverjar lögðu borgina undir sig í upphafi seinni heimsstyrjaldar. Þeir settu Rumkowski yfir Gyðinga-gettóið í borginni og fólu honum að halda þar uppi röð og reglu.

Það gerði Rumkowski af stökum metnaði. Í raun fór svo að hann var orðinn kóngur yfir gettóinu og ríkti með harðri hendi. Sjálfur réttlætti hann „völd“ sín með því að hann væri að reyna að gera lífið auðveldara fyrir Gyðingana í borginni, og að einhverju leyti var það kannski rétt.

En í reynd var afstaða hans samt ófyrirgefanleg. Hann hafði mikla og nána samvinnu við Þjóðverja, jafnvel löngu eftir að allir vissu að tilgangur gettósins var eingöngu að hafa Gyðingana til friðs þar til tími ynnist til að drepa þá.

Til er fræg ræða sem Rumkowski hélt yfir „þegnum“ sínum, þar sem hann krafðist þess að þeir afhentu honum börn sín, því Þjóðverjar vildu fá þau í útrýmingarbúðirnar. Þetta er einhver nöturlegasta ræða sem til er, en Rumkowski hélt því statt og stöðugt fram að Gyðingarnir yrðu að afhenda börnin – annars biðu þeirra allra sömu örlög og búið var að ákveða fyrir börnin – útrýming í gasklefunum.

Og það skuggalegasta var auðvitað að það var rétt hjá honum.

Eftir því sem nær dró stríðslokum varð lífið í gettóinu ömurlegra. Fram á síðasta dag hélt Rumkowski samt áfram að ríkja þar sem kóngur.

Á tímabili las ég heilmikið um gettóið í Łódź og Rumkowski, og hafði m.a.s. í hyggju að gera eitthvað úr þessari  sögu. Mér datt helst í hug að skrifa söngleik – það skrýtna form fannst mér að væri kannski það eina sem væri nógu absúrd til að geta túlkað fáránleikann við Rumkowski og valdabrölt hans í því helvíti sem gettóið var.

En svo gat ég bara ekki hugsað mér það. Þetta var of hræðileg saga, og pyttirnir í siðferðisefnum botnlausir.

Ég eignaðist mikla bók um lífið þarna – en gat ekki lesið hana. Strax á fyrstu opnunni var mynd af litlum strák sem að mata kornunga systur sína á einhverri grautarslettu. Svo þau gætu lifað einn dag enn í þessu viðbjóðslega ríki Rumkowskis. Ég gat aldrei flett lengra.

Nú er komin út á íslensku skáldsaga um Rumkowski og gettóið í Łódź. Hún er eftir Steve Sem-Sandberg en Ísak Harðarson þýddi hana úr sænsku.

Ég ætla að manna mig upp í að endurnýja kynnin við Rumkowski – þetta er saga um skelfilega atburði og varpar ógurlegu ljósi á mannlegt eðli. Konan mín segir að hún sé frábær.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 17.12.2011 - 00:24 - FB ummæli ()

Spurningin sem bíður

Nú hefur verið ákveðið að ræða ekki tillögu Bjarna Benediktssonar um fella niður mál gegn Geir Haarde fyrr en í janúar.

Ýmsir hafa áður bent á að í réttarhöldum yfir Geir verður til dæmis borin fram eftirfarandi spurning:

„Nú hefur verið upplýst að vorið 2008 sendi seðlabankastjóri Breta bréf til aðalbankastjóra íslenska seðlabankans, þar sem hann bauð fram tafarlausa hjálp Breta við að vinda ofan af hinu alltof stóra bankakerfi Íslendinga, sem stefndi í algjört óefni.

Íslenski seðlabankastjórinn svaraði þessu góða tilboði engu, þótt það hefði væntanlega getað orðið til þess að koma í veg fyrir hið algjöra hrun þá um haustið.

Því er spurt: Sagði íslenski seðlabankastjórinn – Davíð Oddsson – forsætisráðherra Íslands frá þessu tilboði?

Eða gerði hann það ekki?“

Ef Geir svarar játandi þá þykir mér auðvelt að rökstyðja að hann hafi gerst sekur um mikla vanrækslu. Seðlabankastjóri Breta er, hvað sem öðru líður, maður sem óhætt er að taka mark á og tilboð hans um hjálp hefði skilyrðislaust átt að þiggja.

Ef Geir svarar neitandi og Davíð hefur ekki sagt honum frá þessu bréfi, þá þykir mér jafn ljóst að íslenski seðlabankastjórinn hafi gerst sekur um mikla vanrækslu – sem jafna má við að stýrimaður á skipi í ofviðri segi skipstjóra sínum ekki frá því að framhjá hafi siglt björgunarskip og boðist til að taka dallinn í tog.

Sumir vilja líklega ekki heyra svarið við þessari spurningu.

Af bæði persónulegum og pólitískum ástæðum.

Ég vona að þeir fái ekki að ráða í janúar.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!