Mánudagur 9.2.2015 - 13:08 - FB ummæli ()

Af hverju er Bjarni Benediktsson í pólitík?

Bjarni Benediktsson er kominn út í horn vegna skattaskjólsmálsins og sér nú sóma sinn í ráðast á skattrannsóknarstjóra.

Það er kominn tími til að tala hreint út um þetta.

Bjarni hefur haft öll tækifæri til að kaupa hin margumtöluðu gögn um skattsvikarana, en hefur ekki gripið þau.

Það er engin goðgá lengur að fullyrða að langlíklegasta ástæðan sé sú að hann viti fullvel að í hópi þeirra sem fjallað er um í þessum gögnum séu vinir hans, frændur og stuðningsmenn.

Og getum við haft slíkan mann sem ráðherra, og það fjármálaráðherra?

Á sínum tíma furðaði ég svolítið á því af hverju Bjarni var að fara út í pólitík, sem virtist honum ekki mikil ástríða.

Það var eins og honum væri sífellt ýtt út í það af einhverjum öflum í bakherbergjum.

Nú kann að vera að ástæðan sé ljós:

Honum hafi einfaldlega alltaf verið ætlað að vera til reiðu við aðstæður eins og þessar, þegar auðmennirnir vinir hans og frændur þurfa á lítilsháttar aðstoð að halda.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 6.2.2015 - 22:24 - FB ummæli ()

Var Gunnar Gunnarsson nasisti?

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, sem margt og merkilegt hefur skrifað um tengsl Íslendinga við nasisma og Gyðingaofsóknir, birtir þessa mynd á Facebook-síðu sinni.

Screen shot 2015-02-06 at 10.09.16 PM

Þarna er Gunnar Gunnarsson rithöfundur að flytja ræðu á þingi sem augljóslega er skipulagt af þýskum nasistum. Ræðan var flutt í Köningsberg laust fyrir síðari heimsstyrjöldina, segir Vilhjálmur Örn. Köningsberg var þá hluti Prússlands en er nú hluti Rússlands og kölluð Kaliningrad.

Í framhaldi af myndbirtingunni  hafa spunnist líflegar umræður um hvort Gunnar hafi verið nasisti eða ekki.

Vilhjálmur Örn sjálfur talar um „daður“ Gunnars við nasismann og Hitler, og það má vissulega til sanns vegar færa.

Gunnar var töluvert vinsæll höfundur í Þýskalandi bæði fyrir og eftir valdatöku nasista 1933.

Og sumar hugmyndir hans um hinn norræna mann voru augljóslega býsna skyldar hugmyndaheimi nasismans. En nasisminn spratt ekki úr engu, og allvíða í Evrópu voru á kreiki hugmyndir sem Hitler og kónar hans nýttu sér.

Hugmyndir sem okkur þykja nú hallærslegar og fráleitar, en gera menn þó ekki endilega að nasistum.

Aðrir vilja ganga lengra en Vilhjálmur Örn og tal hans um „daður“.

Gunnar hafi einfaldlega verið nasisti, púnktur. Og minna á að hann arkaði eitt sinn á fund Hitlers að ræða við hann ýmis mál.

Jón Yngvi Jóhannsson, sem skrifaði nýlega ævisögu Gunnars, komst að þeirri niðurstöðu að Gunnar hafi ekki verið nasisti, þótt hann fjallaði býsna ítarlega um fyrrnefnt „daður“ höfundarins við nasista og foringja þeirra.

Ég er nú ekki mjög mikill sérfræðingur í Gunnari Gunnarssyni, en ég hallast að því að það sé rétt hjá Jóni Yngva.

Á árunum fyrir síðari heimsstyrjöld var alls ekki ófínt í hinum þýskumælandi heimi að aðhyllast nasisma.

Og rithöfundur sem vildi efla vinsældir sínar meðal yfirvalda í Þýskalandi hlýtur að hafa fundið fyrir heilmikilli hvatningu til að gefa allskonar beinar og skorinorðar stuðningsyfirlýsingar við nasismann.

Ef Gunnar hefði verið orðinn nasisti af sannfæringu (eða í eiginhagsmunaskyni), þá hefði hann sem sé alls ekki átt að vera feiminn við að opinbera það, svo ekkert færi milli mála.

En afdráttarlausar yfirlýsingar Gunnars um stuðning við Hitler og nasisma (og þá meina ég einkum hina andstyggilegustu hluta stefnu þeirra) eru ekki auðfinnanlegar, þótt á stundum hafi hann vissulega verið kominn út á býsna hálan ís.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 26.1.2015 - 10:10 - FB ummæli ()

Þjóðhetja

Þegar ég var strákur var Friðrik Ólafsson þjóðhetja.

Já, ég held það sé óhætt að kalla hann það.

Löngum stundum var hann kannski sá maður á Íslandi sem fyllti okkur mestu þjóðarstolti.

Já, ég held það sé líka óhætt að taka þannig til orða.

Það var ekkert ofmælt hjá Bent Larsen að þegar Friðrik tefldi fylgdist allt Ísland með.

Hann var lengstum í hópi sterkustu skákmanna í heimi á tímum þegar skákin naut þvílíkra vinsælda og virðingar að sviptingar á toppnum voru gjarnan forsíðuefni blaða um allan heim.

Og það sem meira var – hann var ekki bara öflugur skákmaður, hann var líka listrænn, sókndjarfur, baráttuglaður, fjörugur.

Það var alltaf gaman að fylgjast með skákum Friðriks.

Og er reyndar enn, því hann á enn til að grípa í taflborðið.

Hann er heiðarlegur og hreinn og beinn, og í fasi og umgengni utan skákborðsins er hann vingjarnlegur og sannkallaður séntilmaður.

Nú er hann áttræður og ég held svei mér þá að hann geti bara enn heitið þjóðhetja.

Það er að minnsta kosti vel hægt að fyllast þjóðarstolti yfir því að hafa fengið að fylgjast með framgöngu hans við skákborðið undir íslenskum fána.

 

Hérna er ein af frægustu skákum hans – hann hefur svart gegn Mikhaíl Tal árið 1975, árið sem hann varð fertugur.

Þetta er skák sem alltaf stendur fyrir sínu.

Hér eru þeir Tal og Friðrik með Kasparov á milli sín:

TalKasparovFridrikOlafs

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 23.1.2015 - 17:58 - FB ummæli ()

Hin hrollvekjandi Hanna Birna

Ég efast ekki eitt augnablik um að sínum nánustu sé Hanna Birna Kristjánsdóttir hin vænsta manneskja.

En þó ekki aðstoðarmönnum sínum.

Þeim atti hún út í ótrúlegt lygafen, og mun skömm hennar lengi uppi vegna þess.

Ég efast heldur ekki um að hún hafi ætlað sér að vinna hin gagnlegustu störf í pólitík.

En dómgreindarbresturinn sem hún sýndi í lekamálinu reynist nú hafa verið beinlínis hrollvekjandi.

Og ekki aðeins dómgreinarbrestur, heldur líka pólitískt siðleysi.

Í meira en ár þumbaðist hún við og laug og laug og laug.

Hún flækti allskonar fólk í sinn lygavef alveg samviskulaust, og þarf ekki að orðlengja um það hér.

Hún kom í hið fræga uppstillta Kastljósviðtal og hélt áfram að ljúga.

Þegar hún var loks neydd til að segja af sér gekk hún út úr ráðuneytinu og vildi ekkert viðurkenna.

Þetta er – eftir á að hyggja – hrollvekjandi.

Hrollvekjandi vegna þess að Hanna Birna Kristjánsdóttir er nánast uppalin í pólitík.

Hún hefur, svo ég muni, ekki unnið við neitt annað á fullorðinsárum.

Hún nam við fótskör Kjartans Gunnarssonar hægri handar Davíðs Oddssonar á velmektarárum þeirra.

Hún var starfsmaður þingflokks, borgarfulltrúi, borgarstjóri, þingmaður.

Og hún lærði …. ÞETTA?!

Það er hrollvekjandi og sorglegt, en við eigum líka að láta okkur það að kenningu verða.

Hefur annað eins og hún gerðist sek um kannski tíðkast óátalið í íslenskri pólitík?

Af hverju tók svona langan tíma að hreinsa þetta mál?

Af hverju studdu þingmenn stjórnarflokkanna hana nánast fram í rauðan dauðann?

Af hverju sá Sigmundur Davíð forsætisráðherra sóma sinn í því að hnýta í umboðsmann, sem nú kemur í ljós að hefur unnið sitt verk óaðfinnanlega?

Af hverju ráðlagði enginn Hönnu Birnu að láta af þessari feigðarför sinni út í lygafenið?

Jahérna.

Eitt gæti Hanna Birna gert til að ávinna sér svolitla virðingu aftur.

Ef hún bæði persónulega afsökunar þá blaðamenn og starfsmenn DV sem sættu sífelldum árásum hennar í heilt ár af því þeir voru að sinna sínu starfi af meiri heiðarleika en hún.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 21.1.2015 - 10:51 - FB ummæli ()

Fyrirlitleg ákvörðun

Með því að skipa Gústaf Níelsson í mannréttindaráð Reykjavíkur er Framsóknarflokkurinn að hæðast að minnihlutahópum og gefa skít í áhyggjur fólks af vaxandi uppgangi öfgafólks í samfélaginu.

Hins vegar er sagt við rasista og hatursmenn samkynhneigðra:

„Komið til okkar og við skulum gefa ykkur skjól.“

Þetta er kannski ekki stórmál í sjálfu sér, en þetta er samt eitthvað það dapurlegasta sem ég hef séð til íslensks stjórnmálaflokks – frá upphafi.

Ekki af því Gústaf sé endilega óalandi að öllu leyti.

Hann gæti kannski komið að gagni í samgöngunefnd eða einhvers staðar, hvað veit ég?

En maður með heimskulegar, vondar og fordómafullar skoðanir á ekki heima í mannréttindaráði.

Það veit Framsóknarflokkurinn en skipar hann samt – eingöngu til að ögra og til að daðra við öfgamennina.

Sem betur fer hafa nokkrir frammámenn í Framsóknarflokknum mótmælt þessari svívirðu skorinort.

Gott hjá þeim.

En skaðinn er skeður.

Og hlýtur ekki Sigmundur Davíð að hafa verið með í ráðum? Framsóknarflokkurinn skipar varla sjálfstæðismann í trúnaðarstöðu nema formaðurinn hafi gefið blessun sína.

Þetta er fyrirlitleg ákvörðun og skammarleg.

Og fyrst og fremst sorgleg.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 20.1.2015 - 11:57 - FB ummæli ()

Sjúkt ástand

Það er auðvitað fullkomlega sjúkt að við skulum hafa látið líðast að örfáir tugir manna séu ríkari en allur hinn fátækari helmingur mannkyns.

Þetta er sjúkt, óeðlilegt, ósiðlegt, óskynsamlegt og mun enda með ósköpum.

Réttlætiskennd býr þrátt fyrir allt í brjósti manna, og svona ástand er ekki réttlátt.

Þess vegna verður tekið í taumana fyrr eða síðar.

Alveg sama þó sumir sætti sig við brauðmolana, sem falla af borðum auðkýfinganna – en aðrir láti sér nægja leiki þeirra.

Við Íslendingar eigum að vinna að því öllum árum að auka jöfnuð í okkar samfélagi.

Svona ástand má ekki komast á hér.

En núverandi ríkisstjórn stefnir einmitt í áttina frá jöfnuði, enda er hún ríkisstjórn hinna ríka.

Hér hefur síðustu misserin verið hlaðið undir hina ríku alveg blygðunarlaust.

En íslenskt samfélag mun ekki þola það endalaust ef haldið verður áfram á sömu braut auðhyggjunnar. Svo einfalt er það.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 15.1.2015 - 14:50 - FB ummæli ()

Hverjum má treysta?

Sumt er fyndið í bók Styrmis Gunnarssonar, Í köldu stríði.

Á einum stað segir frá því að eftir för Styrmis til Bandaríkjanna 1967 hafi honum orðið ónotalega við þegar hann uppgötvaði hve andstaðan við Víetnamstríðið var víðtæk meðal almennings þar í landi.

Hann fór heim og skrifaði grein í Morgunblaðið þar sem hann greindi frá þessu.

Greinin vakti nokkra athygli enda hafði Styrmir fram að þessu trúað blint á allt það sem frá Bandaríkjamönnum kom, eins og hann segir sjálfur.

Svo segir:

„Ég fékk ósk um að koma á fund hjá [ungum vinstri mönnum] til þess að segja frá upplifun minni á almenningsálitinu í Bandaríkjunum. Ég samþykkti það og kvaðst tilbúinn að tala opið á þeim fundi með því skilyrði að ekki yrði sagt frá honum opinberlega. Það var samþykkt.“

Þetta er í sjálfu sér skemmtilegt skilyrði.

Þrátt fyrir allt treysti Styrmir sér ekki til að standa opinberlega við sannfæringu sína, fyrir utan hina fáorðu grein í Mogganum.

En ekki var staðið við loforðið og frásögn birtist í Þjóðviljanum af þessum umræðum.

Frá því greinir Styrmir nokkuð hneykslaður á þessa leið:

„Eykon [ritstjóri Moggans] tók mig í gegn fyrir að sýna af mér þann barnaskap að halda að hægt væri að treysta kommúnistum.“

Þetta er fyndið.

Þarna kvartar njósnameistari Sjálfstæðisflokksins við útsendara sinn og kontaktmann við uppljóstrara í röðum vinstri manna yfir því að ekki sé hægt að treysta KOMMÚNISTUM!

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 14.1.2015 - 07:41 - FB ummæli ()

Að skíta upp á bak

Ég þoli ekki orðalagið „að skíta upp á bak“.

Mér finnst það groddalegt, illa þefjandi, óþarflega myndrænt og yfirleitt of lítillækkandi fyrir þá sem það er notað um – hvað svo sem þeir kunna að hafa gert af sér.

Ég held því að ég hafi aldrei notað það.

En um ummæli Ásmundar Friðrikssonar alþingismanns er eiginlega ekki hægt að nota neitt annað orðalag.

Hann skeit upp á bak.

Þeim mun undarlegra er það að hann hefur ekki drullast til að biðjast afsökunar á ömurlegum orðum sínum.

Hann hefur dregið í land hér og þar, gefið til kynna að hitt og þetta hafi kannski verið ofsagt, eitthvað hafi kannski mátt betur fara.

En á hinn bóginn hefur hann gert illt verra með skammarlegu kjaftæði um að „við yrðum að taka umræðuna“ en sá frasi er í svona málum skálkaskjól rasista og ekkert annað.

Ég ætla Ásmundi ekki að vera rasisti, en hann verður að átta sig á að hann steig út á markaðan fjóshaug rasismans með orðum sínum.

Og því ætti hann að biðjast þegar í stað afsökunar – enda hafa sem betur fer margir orðið til að benda honum á það.

En af einhverjum ástæðum virðist Ásmundur Friðriksson líta svo á að ein afsökunarbeiðni væri meiri synd en þessi fjóshaugur sem hann anaði svo glaðbeittur í með orðum sínum á Facebook.

Hvað er það við afsökunarbeiðni, sem gerir að verkum að flestir íslenskir stjórnmálamenn vilja ganga í gegnum hvaða gagnrýni og mótlæti sem er, frekar en biðjast afsökunar?

En þangað til Ásmundur biðst fyrirvaralaust afsökunar, þá verður hann að átta sig á einu.

Að hann er og verður með skítinn upp á bak.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 12.1.2015 - 22:46 - FB ummæli ()

Horfumst í augu við það

Alveg burtséð frá allri pólitík, sem við getum haft misjafnar skoðanir á, burtséð frá hinni makráðu hægristefnu Framsóknarflokksins nú um stundir, burtséð meira að segja frá daðrinu við útlendingafjandskapinn, já, burtséð frá þessu öllu, þá er eitt nú orðið sorglega augljóst:

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson veldur ekki starfi forsætisráðherra.

Hann er stöðugt í tómu klúðri og bregst svo við með varnarhroka, yfirgangi og sjálfhverfri paranoju. Hann veldur ekki starfinu, punktur.

Horfumst í augu við það og fáum hann til að horfast í augu við það líka. Við erum kannski vitlaus, en við eigum ekki skilið forsætisráðherra sem ræður ekki við starf sitt.

Og hann á sjálfur ekki skilið að bramboltast svo hryggilega í djobbi sem hann á ekki heima í.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 12.1.2015 - 08:50 - FB ummæli ()

Hvers konar forsætisráðherra er þetta?

Sigmundi Davíð bar auðvitað engin skylda til að fara til Parísar.

Ég hefði að vísu haldið að hann hefði viljað fara.

Stundin á République-torgi var skipulögð af fólki til að láta í ljós stuðning við grunngildi samfélags – frelsi, jafnrétti, bræðralag.

Flestir þjóðarleiðtogar Evrópu og margir utan álfunnar skildu hvað klukkan sló og mættu til að sýna stuðning og samstöðu.

Þar á meðal allir forsætisráðherrar Norðurlandanna – nema Sigmundur Davíð.

Það er mjög skrýtið, en ég ítreka að honum bar engin skylda til að fara.

Hann mátti alveg vera hérna heima, ef honum sýndist.

Hins vegar skuldar hann okkur skýringar á því af hverju hann fór ekki.

Forsætisráðherra sem lætur hjá líða að fara á slíkan samstöðu- og samúðar- og baráttufund, hann skuldar okkur einfaldlega skýringu á því.

Og þá skýringu verður Sigmundur Davíð að gefa – hreinskilnislega.

Því hún snýst um grunngildi og forgangsröð helsta ráðamanns okkar.

Og nú skuldar Sigmundur Davíð okkur aðra skýringu.

Sem sé á því af hvers vegna hann kom ekki hreint fram í gærkvöldi, þegar hann gaf loksins færi á skýringum – ekki í eigin persónu, heldur á Facebook og með yfirlýsingu frá forsætisráðuneytinu.

Hann sagði þar að margir samverkandi þættir eins og flugáætlanir og dagskrá ráðherrans hefðu komið í veg fyrir för hans, en hann hefði svo gjarnan viljað fara.

Þetta eru bara lygar.

Tryggðatröllið aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs, Jóhannes Þór Skúlason, var búinn að koma fram í fjölmiðlum og segja að hann gæti ekki gefið nánari skýringar á fjarveru Sigmundar.

Og á maður svo að trúa því að Jóhannes Þór hafi ekki í tvo daga vitað af tilraunum Sigmundar Davíðs til að komast til Parísar?

Og meðal annarra orða – hvað í „dagskrá ráðherra“ stangaðist á við Parísarferðina? Var hann að gera eitthvað annað um helgina?

Ekki hefur frést af því.

Þetta er auðvitað bara bull – og eins og bent hefur verið á: Ef íslenskri stjórnsýslu tekst ekki að koma einum ráðherra til Parísar á tveim dögum, þá er eitthvað mjög mikið að.

En það var náttúrlega ekkert verið að reyna það.

Því yfirlýsingar Sigmundar Davíðs eru þvættingur.

Og nú skuldar hann okkur skýringar á tvennu.

Í fyrsta lagi, af hverju hann fór ekki til Parísar til að sýna þar stuðning Íslendinga við Frakka og alla þá sem virða einhvers tjáningarfrelsi og samstöðu meðal fólks.

Af hverju hann setti okkur út í horn með því að mæta ekki.

En í öðru lagi, og það er ekki síður mikilvægt:

Af hverju sagði hann ekki sannleikann um ástæðurnar fyrir því að hann fór ekki?

Hverjar sem þær kunna að hafa verið.

Af hverju taldi hann okkur ekki meira virði en svo að það væri allt í lagi að ljúga að okkur?

Hvers konar forsætisráðherra er þetta?

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!