Sunnudagur 15.3.2015 - 15:01 - FB ummæli ()

Lýðræðið er komið með flensu

 

Gott fólk.

 

Þeir sem vilja fyrir alla muni koma í veg fyrir að Íslendingar kynnu að ganga í Evrópusambandið, kannski hafa þeir bara rétt fyrir sér.

 

Kannski er þetta Evrópusamband ekkert fyrir okkur. Kannski er miklu betra fyrir okkur að halda hér úti minnstu sjálfstæðu mynt í öllum heiminum, smámynt sem leikur á reiðiskjálfi í hvert sinn sem hvessir í hinu alþjóðlega fjármálakerfi, eða þá að hún hrynur þegar einhver áföll verða hér innanlands.

 

Já, kannski er miklu betra fyrir okkur að hafa slíka smámynt í vasanum en almennilegan pening.

 

Og kannski er það alveg rétt hjá þeim, sem vilja ekki að við göngum í Evrópusambandið, að það sé miklu, miklu heppilegra fyrir okkur að fá bara senda þykka lagabúnka sunnan úr Brussel og við stimplum þá í fánalitunum, frekar en að við sætum sjálf við borðið suðrí Evrópu og tækjum þátt í að móta þessi lög. Kannski er það rétt hjá þeim að það sé miklu meira sjálfstæði og miklu meira fullveldi í því fólgið að taka orðalaust við lagabúnkunum, frekar en að reyna að hafa áhrif á hvað í þeim stendur.

 

Við getum þá náttúrlega í versta falli reynt að fá þýðendurna til að milda aðeins orðalagið.

 

Og kannski er það ennfremur rétt hjá þeim, sem berjast af öllu afli gegn inngöngu í Evrópusambandið, að það sé betra fyrir okkur að gleyma alveg lægra matarverði og lægri vöxtum, og sambærilegum launum við það sem gerist í nágrannalöndunum og ég tala nú ekki um meiri stöðugleika í okkar viðsjála efnahagslífi, en allt þetta myndi líklega fylgja aðild að ESB, en já, kannski er það alveg rétt að ekkert af þessu henti okkur.

 

Og því ættum við að vera bara áfram hér úti í hafinu og tutla hrosshárið okkar.

 

Og einkum og sér í lagi: Kannski er það alveg rétt að þótt lokasamningum við Evrópusambandið kynni að fylgja miklu betri niðurstaða í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum heldur en menn eru hér einlægt að hræða okkur með, og þótt aðild að ESB kynni að hafa í för með sér að litlu ljótu valdaklíkurnar okkar misstu soldinn spón úr sínum aski – jú, kannski er það samt alveg rétt, sem þeir segja, að þetta henti okkur bara ekki neitt!

 

Já – ég meina það, kannski er það alveg rétt. En – og þetta er stórt „en“ – ég vil bara fá að komast að því sjálfur.

 

Ég vil fá að sjá þann samning sem gerður yrði við Evrópusambandið, ég vil fá að skoða sjálfur öll hin fínni blæbrigði hans, ég vil fá að meta sjálfur hvort undanþágur eða sérlausnir í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum séu nægjanlegar til að ég geti fallist á þær, ég vil fá að ákveða það sjálfur.

 

Ég vil ekki að Gunnar Bragi Sveinsson ákveði það fyrir mig.

 

Og ég vil fá einkum og sér í lagi að krakkarnir mínir fái að taka sína eigin ákvörðun um þetta, enda varðar þetta þeirra framtíð, en að það verði ekki gamlir kallar á kontórum sem ráði framtíð þeirra – gamlir kallar á ýmsum aldri og sjálfsagt í einhverjum tilfellum af báðum kynjum.

 

Ég á strák sem er alveg að verða 16 ára og hann verður kominn með kosningarétt um þær mundir sem viðræðum við Evrópusambandið gæti lokið, og þá vil ég að hann fái að ráða sjálfur hvaða leið hann vill fara í lífinu, hvaða leið hann sér besta fyrir sitt land, fyrir sjálfan sig, vini sína og fjölskyldu og framtíðina.

 

Ég vil að unga fólkið fái að ráða því sjálft.

 

Ég vil ekki að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verði þá búinn að skella öllum dyrum útí heim í lás.

 

Kannski mun drengurinn ekki vilja ganga í Evrópusambandið, hvað veit ég, en ég vil bara að hann fái að ráða því sjálfur, ekki ónefndir menn á kontórum, sem eru að passa upp á sína klíku, sína hagsmuni, sitt litla efnahagssvæði.

 

Það er eflaust til fullt af fólki sem í einlægni trúir því að það sé Íslandi fyrir bestu að standa utan Evrópusambandsins – en ég vona og ég heiti á það fólk að fallast á að það sé réttlátt, sjálfsagt og eðlilegt að við fáum öll að taka um þetta sameiginlega upplýsta ákvörðun, byggða á raunverulegum samningi, ekki flugufregnum, ekki hræðsluáróðri, ekki hurðaskellum.

 

Við skulum fá að ráða okkur sjálf, hversu langt og á hvaða forsendum við viljum stíga útí heim, við skulum ekki láta það ráðast á kontórum og í bakherbergjum eða útí móa einhvers staðar.

 

Mér finnst í rauninni slík svívirða að ákveðið fólk í þessu samfélagi sé að róa því öllum árum að koma í veg fyrir að við getum sjálf tekið svo mikilsverða ákvörðun um framtíð okkar, að ég trúi því varla að það sé að gerast í raun og veru.

 

En svo virðist þó vera, og þá verðum við sjálf að koma í veg fyrir að hurðum sé skellt í lás, því þetta eru okkar hurðir á okkar húsi, og við eigum að ráða því hverjir ganga þar um.

 

En – svo snýst þetta mál núna auðvitað alls ekki um Evrópusambandið. Það er í rauninni alls ekki útaf Evrópusambandinu sem við erum komin hér saman núna, 15. mars 2015. Nei, við erum komin hér saman til að mótmæla því að framið sé eitthvert fáránlegasta, subbulegasta og ruddalegasta tilræði við lýðræði í þessu landi sem við höfum orðið vitni að.

 

Og þá gildir einu hvernig ber í rauninni að túlka hið furðulega bréf Gunnars Braga Sveinssonar, bréf sem ábyggilega verður skráð á spjöld sögunnar sem einhver undarlegasta ritsmíð Íslendings. Það gildir samt einu hvernig er hægt eða mögulegt að túlka það, því við vitum öll hver var tilgangurinn með þessu bréfi – að taka fram fyrir hendurnar á Alþingi, og þjóðinni, af því þeir – þeir sem vilja ráða, þeir sem húka á kontórunum – þeir treysta sér ekki í þær umræður sem myndu fylgja sambærilegri tillögu á Alþingi, aftur, eins og í fyrra, og þeir þora ekki í umræður sem myndu eiga sér stað í þingsölum og þaðan af síður útí samfélaginu.

 

Þeir treysta sér ekki í þá mótmælafundi sem verða haldnir gegn því að öllum dyrum verði endanlega skellt í lás og á svona ólýðræðislegan hátt.

 

Þeir leggja ekki í að upplýsa hve lýðræðisvitund þeirra er veik en tilhneigingin til valdníðslu og valdhroka sterk í brjósti þeirra.

 

Þess vegna átti að afgreiða þetta mikla hagsmunamál þjóðarinnar allrar, okkar og barnanna okkar, þess vegna átti að afgreiða það með einu bréfi sem var afhent útí Evrópu og svo stökk Gunnar Bragi uppí flugvél og enginn þar úti skildi neitt í neinu.

 

En við hér, við skiljum þetta. Við erum farin að þekkja þessa kauða. Við skiljum að það er verið að vega að lýðræðinu, það er ekki bara verið að skella í lás, heldur er verið að negla slagbrand fyrir dyrnar, næsta skref verður að setja hlera fyrir gluggana, svo við verðum öll innilokuð, eins og inná þeim sama kontór, þar sem þeir ráða ríkjum, klíkubræðurnir sem vilja ráða framtíð okkar og barnanna okkar.

 

Þetta snýst ekki lengur um Evrópusambandið, þetta snýst um að við látum ekki stjórna okkur með tilskipunum, með óskiljanlegum bréfum í kansellístíl, og svo mætir Bjarni Benediktsson bara í Kastljósið og segir í reynd að lýðræðislegur framgangsmáti skipti engu máli, af því það viti allir hvað ríkisstjórnin vilji.

 

Og þá sé réttast að gera bara það sem ríkisstjórnin vill.

 

Jahérna. Þvílíkar röksemdir, það held ég að alnafni Bjarna og frændi, forsætisráðherrann og lagaprófessorinn sálugi, hefði blygðast sín fyrir þau stjórnskipunarfræði sem nú þykja bersýnilega fullgóð í Sjálfstæðisflokknum!

 

Og þegar fólk lýsir áhyggjum yfir því að svona eigi ekki að fara að hlutunum, hvað er þá framlag forsætisráðhera? Hverjum bregst hann við áhyggjum þjóðar sinnar?

 

Jú, með hótfyndni og yfirlæti, eins og venjulega, það er alltaf leið Sigmundar Davíðs til að sigla framhjá gagnrýni.

 

Eigum við virkilega skilið að hafa slíkan forsætisráðherra?

 

Og svo eru dregnir fram stjórnarþingmenn og almennir ráðherrar, þar á meðal ýmsir sem maður hélt að væru grandvart fólk, og það er látið vitna um að þetta sé nú bara allt í góðu lagi, það þurfi ekkert að ræða þetta mál í utanríkismálanefnd eða á Alþingi yfirleitt, ríkisstjórnin vill hafa þetta svona, og hún ræður, ha?

 

Skítt með hefðir, lög, stjórnarskrá, ekki einu sinni nefna hana, en skítt með þjóðina líka, ríkisstjórnin vill þetta, þeir á kontórunum vilja þetta, þá verður það svo!

 

Og þetta segja þeir grandvöru án þess að blikna eða blána, þeir fyrrverandi grandvöru réttara sagt, þótt við vitum öll að þeir myndu reka upp ramakvein af hneykslun, ef það svo mikið sem hvarflaði að pólitískum andstæðingum þeirra að haga sér svona.

 

En þetta er ríkisstjórnin þeirra, og hún ræður, segja þeir, lýðræðisvitund þessa fólks er ekki sterkari en þetta, vistin við kjötkatlana er svo ljúf, og þingveislurnar svo skemmtilegar, þeir láta sig hafa það að renna niður sannfæringu sinni með veigunum þar. Því þegar húsbændurnir á ríkisstjórnarkontórnum og öðrum kontórum skipa, þá hlýða óbreyttir þingmenn og ráðherrar – að minnsta kosti alveg ótrúlega og furðulega margir.

 

Og þeir láta sig einu gilda hin skýru loforð, sem svikin eru, alveg kristalskýr loforð, þau eru svikin af því skipanir berast af kontórunum.

 

Hvaða álit hefðu ýmsir fyrri leiðtogar þeirra flokka sem hér um ræðir haft á slíkum svikum, menn sem höfðu sómatilfinningu hvað sem öðru leið?

 

Hvaða álit hefðu þeir haft á svo blygðunarlausum og bláköldum svikum á skýrum loforðum?

 

Eysteinn Jónsson afabróðir minn, formaður Framsóknarflokksins á sínum tíma, einstakur og ærlegur drengskaparmaður, hvaða augum hefði hann litið núverandi formann Framsóknarflokksins eða utanríkisráðherra hans?

 

Og forystumenn Sjálfstæðisflokksins, þeir Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson eldri, þeir voru menn sem gátu hvað sem allri pólitík leið alltaf náð sambandi við stjórnmálaandstæðinga og verkalýðshreyfingu, því allir vissu að þeir tveir voru heiðursmenn.

 

Hvernig hefðu Ólafur og Bjarni litið þau svik sem núverandi kjósendum flokksins er ætlað að kokgleypa? Ég tel mig reyndar vita svarið. Þeir hefðu auðvitað fyllst fyrirlitningu á þeim sem nú eiga að heita arftakar þeirra. En litlu dátarnir í stjórnarflokkunum hlýða samt, að því er virðist, langflestir, því skipanir af kontórunum eru svo lokkandi, ríkisstjórnin vill hafa þetta svona, og húsbændur hennar.

 

En gott fólk – við þurfum að átta okkur á að það skiptir ekki máli hvað ríkisstjórnin vill gera, það þarf reyndar einhver að segja ríkisstjórninni það, það skiptir máli hvað við viljum gera, og það vill svo til að ég veit alveg hvað við hér viljum gera – og við viljum burt með valdníðslu smákónganna, burt með hlerana fyrir gluggunum, rífum niður slagbrandana sem ríkisstjórnin ætlar að nota til að loka okkur inni og halda okkur í skefjum.

 

Hvaða skoðun sem við höfum á framtíðarskrefum þjóðarinnar, þá getum við ekki látið svona vinnubrögð líðast, því þá dimmir við dyrin, og lýðræðið í landinu er komið með flensu, og lýðræðisflensa, hún getur endað með ósköpum, það er hin sára reynsla annarra þjóða, svo gætum okkar, hreinsum til, látum ekki vaða yfir okkur og læsa okkur inni, opnum allar dyr uppá gátt, því ríkisstjórn sem virðir ekki fulltrúasamkundu þjóðarinnar, Alþingi, hrifsar þar með til sín völd sem henni eru ekki ætluð.

 

Og við skulum ekki og megum ekki leyfa henni að taka sér þau völd, ég vil ekki að börnin mín alist upp í landi þar sem slíkt er talið eðlilegt af valdhöfum og einhverjum skuggaböldrum á kontórum og svo látið líðast af þjóðinni.

 

Það er þetta sem má ekki, það er aðalatriði málsins, það má alls ekki gerast, við þurfum að taka af þeim völd sem kunna ekki með þau að fara, því við þurfum að búa börnunum okkar sómasamlega framtíð í sómasamlegu, heiðarlegu og lýðræðislegu landi, við þurfum að ráða okkur sjálf, burt með freku kallana, þeir eru hættulegir …

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 14.3.2015 - 09:52 - FB ummæli ()

Sigmundur horfinn eina ferðina enn – og öllum er sama

Merkileg er sú staðreynd að þótt allt hafi farið hér á annan endann við hið galna útspil ríkisstjórnarinnar á fimmtudaginn var, og fólst í bréfinu sem Gunnar Bragi bar Evrópusambandinu, þá virðist enginn vera að bíða þess hvað Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur um málið að segja.

En hann er nú gufaður upp, eina ferðina enn.

Ríkisstjórn hans varpar sprengju í stærsta utanríkismáli þjóðarinnar – en hann lætur ekki ná í sig, frekar en fyrri daginn, þegar mikið er um að vera.

Það er auðvitað ekki boðleg afsökun að hann sé í fríi, jafnvel ekki að hann hafi átt afmæli fyrir einhverjum dögum.

Almennilegir verkstjórar láta sig hafa það að svara í símann á afmælinu sínu.

En Sigmundur Davíð er náttúrlega óhæfur verkstjóri, það er löngu komið í ljós.

Og nú eru sem sagt allir hættir að reikna með því að nokkuð sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir eða gerir sé líklegt til að leysa eða skýra þau mál sem upp koma í hinni furðulegu ríkisstjórn hans.

Ríkisstjórn sem er – þið fyrirgefið innilega þó ég segi það – að verða eins og skrípamynd.

Fyrr eða síðar mun Sigmundur þó koma fram í dagsljósið á ný.

Kannski ekki fyrr á þriðjudagseftirmiðdag á Bylgjunni, kannski ögn fyrr.

En þá mun hann fyrst og fremst hrista hausinn yfir „umræðunni“.

Segja að hann hafi verið að lesa erlend blöð þar sem margt merkilegt hafi komið fram.

En um leið hafi hann hvorki skilið upp né niður í heiftinni í „umræðunni“ heima á Íslandi. Og alls konar „misskilningi“ sem vaðið hafi uppi. Og öllum „árásunum“ sem hann og stjórn hans hafi orðið fyrir.

Hann mun vera yfirlætisfullur í bragði og segja einn brandara sem allir aðstoðarmennirnir hafa verið í marga daga að klambra saman.

Og hann mun segja að þjóðin þurfi að hugsa sinn gang.

En það er reyndar alveg rétt.

Þjóðin þarf að hugsa sinn gang.

Þjóðin þarf alvarlega að velta því fyrir sér hve lengi hún getur þolað þessa ríkisstjórn.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 13.3.2015 - 16:55 - FB ummæli ()

Ríkisstjórnin öll er ábyrg

Bréf það sem Gunnar Bragi Sveinsson sendi Evrópusambandinu felur ekki aðeins í sér ótrúlegt gerræði gagnvart Alþingi – hvort sem bréfið reynist á endanum hafa eitthvert raunverulegt gildi eða ekki.

Það er líka alveg ótrúlega heimskulegt, eins og ýmsir hafa orðið til að vekja athygli á.

Þetta bréf var raunar svo mikið rugl að ég hélt lengi vel að þetta hlyti að hafa verið samið á einhverjum kaupfélagskontór, eða kannski einhvers staðar lengst úti í móa, og svo hefðu Sigmundur Davíð og Gunnar Bragi verið látnir taka málið að sér, og Bjarni Benediktsson einhvern veginn fengist – í nafni samstöðu ríkisstjórnarflokkanna – til að skrifa upp á þetta.

En það virðist vera alrangt hjá mér.

Í fyrsta lagi var Bjarni Benediktsson meiren viljugur að taka þátt í vitleysunni.

Og í öðru lagi var það ríkisstjórnin öll sem tók ákvörðun á þriðjudaginn var um að þetta væri eðlilegur framgangsmáti!

Þessi svívirða!? Eðilegur framgangsmáti?

Þar með vissu allir ráðherrarnir af þessu ásamt þeirra helstu trúnaðarmönnum – og enginn virðist hafa séð neitt athugavert við að svona væri farið að málum.

Ekki Ólöf Nordal innanríkisráðherra.

Ekki Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra.

Ekki Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra.

Ekki Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.

Náttúrlega ekki Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra.

Og svo framvegis.

Þeim fannst þetta öllum frábært.

Þessi vinnubrögð væru alveg eðlileg gagnvart Alþingi.

Að minnsta kosti hreyfði ekkert þeirra andmælum þegar snillingarnir Sigmundur Davíð, Gunnar Bragi og Bjarni Benediktsson kynntu þetta.

Ekki Ólöf, ekki Illugi, ekkert þeirra hreyfði andmælum.

Það hefði merkilegt að sjá þau kinka kolli yfir þessu við ríkisstjórnarborðið – framgangsmáta sem hvert barn sér að felur í sér gerræði gagnvart bæði þjóðinni og Alþingi.

Og ekkert þeirra sá neitt að þessu.

Jahérna.

Þau eru öll ábyrg fyrir þessari aðför að þingræðinu, hvert eitt og einasta þeirra.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 12.3.2015 - 20:53 - FB ummæli ()

Þannig upphefst fasisminn

Það er alveg sama hvað maður er mikið á móti hugsanlegri aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Það er líka alveg sama hversu gjörsamlega manni stendur á sama um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Ég tel einfaldlega að engin réttsýn manneskja geti gúterað þá valdníðslu sem ríkisstjórnin ætlar nú fram með.

Réttlæting Bjarna Benediktssonar í Kastljósi var í stuttu máli svona:

„Allir vita að ríkisstjórnin er á móti aðild Íslands að ESB.

Þess vegna þarf ekkert að leita til þingsins.“

Látum vera þótt með framferði sínu hafi ráðherrar ríkisstjórnarinnar myrt sín eigin hátíðlegu kosningaloforð.

Þeir um það.

Það er fjarska ómerkilegt en kemur ekki voðalega mikið á óvart.

En hitt er ótrúlegt að ætla að stjórna þannig mikilsverðu máli.

Þetta heitir nánast að stjórna með tilskipunum.

Í raun væri hægt að heimfæra þessa „röksemdafærslu“ upp á hvaða ákvörðun hvaða ríkisstjórnar sem er.

Þessi leið hefur líka verið farin í ýmsum löndum, stundum.

Þannig má sniðganga þingið í hvaða máli sem er.

Þannig má sniðganga þingræðið.

Þannig má sniðganga lýðræðið.

Þannig upphefst fasisminn.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 5.3.2015 - 09:51 - FB ummæli ()

Enn einn dómgreindarbrestur Sigríðar Bjarkar

Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu er ekki hæf til að gegna sínu starfi.

Hún hefur gerst sek um alltof marga dómgreindarbresti.

Sá nýjasti blasir við í miklu hvítþvottarviðtali sem hún lætur taka við sig í Mogganum í morgun.

Undir fyrirsögninni: „Ekki hvarflað að mér að segja af mér.“

Ef þetta er rétt, þá lýsir þetta hyyyyyyyyldjúpum dómgreindarbresti.

Manneskja í jafn viðkvæmu og ábyrgðarmiklu starfi og Sigríður Björk er í, og fær á sig jafn mikla jafn gagnrýni og hefur orðið hennar hlutskipti, og er beinlínis sökuð um lögbrot eins og í niðurstöðu Persónuverndar, og íhugar ekki einu sinni hvort hún þurfi að segja af sér –

– hún þarf svo sannarlega að segja af sér.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 4.3.2015 - 16:08 - FB ummæli ()

Í tilefni dagsins

Í hverju einasta eintaki af hverju einasta blaði sem út kom á Íslandi kringum aldamótin 1900 birtust þær, auglýsingarnar um „snákaolíuna“.

Vandlega vottaðar og með nöfnum og öllu.

Og læknaði hvað sem var.

„Kína-lífselíxírinn“ var þekktastur:

Þetta er úr Þjóðólfi 1901:

Screen shot 2015-03-04 at 3.59.23 PM

Þetta er úr Ísafold ári seinna:

 

Screen shot 2015-03-04 at 4.03.16 PMOg hr. Petersen í Friðrikshöfn bætti sjálfur við:

Screen shot 2015-03-04 at 3.59.35 PM

Og þettta er úr Þjóðólfi 1908:
Screen shot 2015-03-04 at 3.55.10 PM

Screen shot 2015-03-04 at 3.54.59 PM

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 4.3.2015 - 08:50 - FB ummæli ()

Áskorun til KSÍ

Sæll Geir Þorsteinsson formaður KSÍ.

Hér er ein vinsamleg fyrirspurn, og meðfylgjandi áskorun.

Rétt áðan var ég að fylgja 15 ára syni mínum í skólann. Hann hefur verið heima í tvo daga en nú var honum ekki lengur til setunnar boðið. Svo ég sá á eftir honum inn í skólann þar sem hann staulaðist við hækjuna sína og gretti sig ferlega í hverju spori.

Hann er með sýkingu í fæti, ekkert stóralvarlega en veldur því að það fylgir því heilmikill sársauki að hreyfa vöðvana.

Og hvað kemur þetta þér við?

Jú, á sunnudaginn var, þá var piltur í fullu fjöri og spilaði ásamt félögum sínum í 3ja flokki Vals leik við ÍR-Leikni á gervigrasinu í Egilshöll.

Eftir hraustlega rennitæklingu brenndi piltur sig helstil illa en það hefur nú svo sem gerst áður, það er ekkert þægilegt en er fljótt að jafna sig.

Í þetta sinn fylgdi hins vegar sýking í brunasárið. Við héldum fyrst að þetta yrði bara eitthvað lítilsháttar en sýkingin ætlar greinilega að vera illskeyttari en vonir stóðu til.

Og aftur má spyrja: Hvað kemur þetta þér við?

Jú, sýkingin stafar af því að drengurinn hefur verið svo óheppinn að lenda með opið brunasárið eftir gervigrasið beint í  hrákaslummu einhvers sem nýlega hafði spilað á vellinum.

Þegar við neyddumst til að leita læknis með bólgnandi sárið sögðu bæði læknir og hjúkrunarfræðingur að sýkingar af þessu tagi væru ansi algengar, ekki síst eftir leiki á gervigrasvöllum en raunar einnig þegar leikið hefði verið á venjulegum grasvöllum.

Og ástæðan væri eingöngu sá undarlegi ósiður fótboltamanna að spýta og hrækja í allar áttir meðan á leik stendur.

Reyndar hefur mér lengi þótt þessi siður bæði furðulegur og einstaklega ósmekklegur. Stundum sér maður fótboltamenn ræskja sig af öllu afli og þeyta svo hrákaslummunum frá sér eins og það sé sérstakt manndómsmerki.

Tala nú ekki um þegar menn fara að snýta sér niður í grasið líka.

Þegar fótboltamenn eru spurðir hvers vegna þeir geri þetta segjast þeir „þurfa“ að gera þetta. Þeir bara verði að losa sig við munnvatn eða nefslím, og það geti ekki beðið.

Það er auðvitað bara bull.

Handboltamenn og körfuboltamenn og blakmenn og ótal fleiri íþróttamenn spila heilu leikina án þess nokkru sinni að finnast þeir „þurfa“ að hrækja í allar áttir.

Einfaldlega af því það er búið að gera þennan ósið útlægan úr íþróttaiðkun, öðrum en fótbolta.

Þetta eru eftirhreytur frá þeim ömurlega tíma þegar fólk kom í heimsókn til annars fólks og hrækti óhikað á stofugólfið. Viðurstyggilegar slummur voru um öll gólf.

Það tókst að kveða þetta niður innanhúss, en af hverju þykir þetta ennþá fínt á fótboltavöllum?

Því þar eru slíkar slummur um allt í grasinu. Finnst ykkur fótboltamönnum virkilega geðsleg tilhugsun að lenda með nefið niðri í þessu þegar hæst ber í leiknum?

Og þá kemur svarið við spurningunni um hvað raunir hans sonar míns koma þér við.

Burtséð frá hvað þessir hrákar og skyrpingar og snýtur úti á vellinum eru innilega ósmekkleg fyrirbæri, finnst þér ekki ástæðulaust að þið fótboltamenn látið líðast að vellirnir ykkar séu hálfgerð pestarbæli?

Og hér er áskorunin: Er ekki hægur vandi að fá fótboltamenn til að hætta þessu einfaldlega? Það var hægt að fá handboltamenn til þess. Ekki eru fótboltamenn verr gefnir en þeir sem spila handbolta.

Sjálfsagt er þessi sýking hans sonar míns ekki hættuleg. Vafalaust munu sýklalyfin vinna á henni á endanum.

En af hverju á hann að missa úr skóla, missa úr æfingar og geta varla sofið á nóttunni fyrir bólgu og eymslum, bara af því einhver óviti taldi sig þurfa að hrækja á fótboltavöllinn þar sem hann var svo að spila?

 

Viðbót:

Ég hef fengið mjög skjót og góð viðbrögð frá bæði formanni og framkvæmdastjóra KSÍ í dag við þessari áskorun. Þau benda á að KSÍ hafi byrjað herferð gegn þessum ósið fyrir nokkrum árum, en fallast fúslega á að full ástæða sé til að endurvekja hana og gera betur. Ég þakka fyrir það, og kann vel að meta það.

Þá fór drengurinn til læknis nú eftir hádegi og sýking virðist ekki vera lengur í sárinu, svo núverandi þjáningar pilts í dag stafa fremur af brunasárinu en sýkingunni sem virðist hafa verið kýld niður fljótt með sýklalyfjameðferð.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 2.3.2015 - 15:26 - FB ummæli ()

Hún á ekki að vera lögreglustjóri

Fanney Birna Jónsdóttir er að stimpla sig inn sem skörulegur og afdráttarlaus leiðarahöfundur Fréttablaðsins.

Leiðararnir hennar eru oftar en ekki fínir – og þetta segi ég þó ég sé ekki nærri alltaf sammála þeim.

Í morgun birtist í blaðinu fínn leiðari úr hennar penna – og reyndar einn þeirra sem ég er algjörlega sammála.

Hún er að skrifa um Sigríði Björk Guðjónsdóttur lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu – hérna er leiðarinn á síðu Vísis.

Hann er alveg þess virði að lesa hann í heild; ég mæli með því.

En þetta eru lokaorðin:

„Sigríður var því – líklegast óafvitandi – þátttakandi í atburðarás sem leiddi til grófrar misbeitingar ríkisvaldsins á aðilum sem eru í einni veikustu stöðu sem fyrirfinnst hér á landi. Hún var vissulega sett í afar erfiða stöðu og þrátt fyrir að henni sé vorkunn vegna þess verður það að teljast sjálfstætt áhyggjuefni að hún telji sig ekki hafa breytt rangt á nokkurn hátt.

Einstrengingslegar hártoganir hennar um meint lögbrot breyta því ekki að henni var alltaf óheimilt að afhenda gögnin. Það eitt og sér ætti að vera nóg til að einn æðsti yfirmaður lögreglunnar myndi viðurkenna mistökin og biðjast afsökunar. Og á meðan lögreglustjórinn sýnir hvorki vott af iðrun né raunsæi gagnvart raunverulegri stöðu málsins hljóta að vakna upp spurningar um hvort honum sé treystandi fyrir því valdi sem í embættinu felst.“

Þetta er nefnilega hárrétt hjá Fanneyju Birnu.

Lögreglustjóri, sem fer annars vegar að hártoga hvort hún hafi nákvæmlega brotið einhvern bókstaf laganna, þótt það liggi í raun ljóst fyrir (og þar að auki algjörlega hundrað prósent ljóst að hún þverbraut gegn anda þeirra), og sem hins vegar segist ekki hafa vitað af einhverjum reglum héraðlútandi – sá lögreglustjóri er ekki starfi sínu vaxinn.

Viðtalið alræmda, þar sem Sigríður Björk kom fram í fullum skrúða embættis síns (sjáið það hér) og sá ástæðu til að draga í efa framburð konu í kynferðisbrotamáli, það hefði átt að færa okkur sanninn um það.

Annað alræmt viðtal, þar sem Sigríður Björk brást við algjörlega sjálfsögðum spurningum fréttamanns RÚV með voli og víli (það er hérna), það var frekari staðfesting þess.

Nú hafa bæði dómgreindarleysi Sigríðar Bjarkar andspænis beiðni Gísla Freys um persónuupplýsingar um hælisleitanda (sjá hérna) og ekki síður dómgreindarlaus og hrokafull (já, hrokafull!) viðbrögð hennar við áliti Persónuverndar um það (sjá hérna), orðið sem púnkturinn yfir i-ið.

Sigríður Björk er áreiðanlega hin mætasta manneskja og getur alveg efunarlaust komið víða að gagni í samfélaginu.

En hún hefur ekki dómgreind til að vera lögreglustjóri.

Svoleiðis er nú það.

Hvað svo sem Ólöf Nordal innanríkisráðherra segir.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 27.2.2015 - 20:52 - FB ummæli ()

Vörn lögreglustjóra

Því miður virðist Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri ætla að fara leið hártogunar og sparðatínings í vörn sinni gegn Persónuvernd.

Það er leiðinlegt. Ég hélt hún væri meiri manneskja en svo.

En vörn hennar (sem sagt er frá hér) virðist eiga að felast í því annars vegar að það standi ekki beinlínis berum orðum í niðurstöðu Persónuverndar að hún hafi brotið lög.

Þótt auðvitað komi það skýrt fram.

Og hins vegar heldur hún því fram að hún hafi ekki vitað um þau ákvæði sem hún gekk gegn.

Þetta er sagt vörnin: Ég braut ekki lögin af því ég vissi ekki að ég væri að gera neitt rangt.

Jahá.

Og hún er lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu.

Ég er nú ekki mjög vel lesinn í lögfræði.

En ég er nokkuð viss um að mjög framarlega í fyrstu bókinni sem fyrstu árs nemar í lögspeki fá í hendur þegar þeir hefja nám, þar stendur eitthvað á þá leið að það sé ekki gild afsökun fyrir lögbrotum að segjast ekki hafa þekkt lögin.

En hún ætlar að hafa þetta sem sína vörn.

Jahérna, jahérna.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 14.2.2015 - 13:01 - FB ummæli ()

Leggjum lið

Mín góða móðir á afmæli í dag, Jóhanna Kristjónsdóttir, þetta er virðulegt afmæli, hún er 75 ára gömul.

En þótt hún liggi nú á spítala til rannsókna er hún fyrst og fremst við hugann við hvernig hún geti lagt sitt af mörkum til að aðstoða hina bágstöddu í þeim heimshluta sem hefur verið hennar bakgarður undanfarin aldarfjórðung, það eru Miðausturlönd.

Hún er nú í samvinnu við barnahjálpina UNICEF og Fatímusjóðinn að hefja fjársöfnun til að reisa upp skóla fyrir sýrlensk flóttabörn í Jórdaníu.

Við eigum vissulega sum nokkuð erfitt, en lifum þó góðu lífi miðað við hina stríðshrjáðu Sýrlendinga, þar sem jafnvel börnin eru leiksoppar stríðsherra og grimmdarmanna.

Ég veit að mamma vill þá einu afmælisgjöf að fólk leggi þessu átaki lið með því að leggja inn á reikningsnúmer Fatímusjóðsins: 0512-04-250461 og kt: 680808-0580. Nánari upplýsingar um sjóðinn er að finna á Facebook-síðu hans.

Ég vona að sem flestir sjái sér fært að leggja þessari söfnun lið.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!