Mánudagur 4.5.2015 - 20:28 - FB ummæli ()

Segðu af þér Sigmundur Davíð

Það er ekki stórmál í sjálfu sér – kökumálið Sigmundar Davíðs.

En það er heldur ekki fyndið.

Það lýsir fullkominni fyrirlitningu forsætisráðherra á Alþingi, á starfi sínu og þar með á þjóðinni.

Og ekki í fyrsta sinn.

Ekki í annað sinn.

Þetta er orðið ágætt.

Þrátt fyrir allar okkar syndir, þá eigum við þetta ekki skilið.

Segðu af þér, Sigmundur Davíð.

Þú ræður ekki við þetta starf.

11178366_960834530635447_5519541646623917318_n

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 3.5.2015 - 14:26 - FB ummæli ()

Nýja stjórnarskrá!

Ég sat í stjórnlagaráði sumarið 2011.

Við sömdum nýja stjórnarskrá á fjórum mánuðum og ég held að þetta hafi verið gott verk.

Auðvitað ekki fullkomið verk, en hefði verið til verulegra bóta á held ég öllum sviðum, og núna koma í næstum hverjum mánuði upp mál þar sem nýja stjórnarskráin hefði komið að gagni.

Nú síðast hefði ekki þurft að semja bænaskrá til forsetans til að stöðva gjöf ríkisstjórnarinnar á makrílkvótanum, heldur hefði þjóðin sjálf getað ákveðið að taka það til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Enda vissu sægreifarnir og auðjöfrarnir hvað til síns friðar heyrði. Þeir og fulltrúar þeirra á þingi börðust með kjafti og klóm gegn nýju stjórnarskránni, einmitt til að losna við auðlindaákvæði og aukið lýðræði.

Og megi þeirra skömm vera lengi upp.

Verst fannst mér þó alltaf þegar tókst að fá allskonar háskólamenn og fræðimenn og jafnvel vel meinandi pólitíkusa og álitsgjafa til að lýsa efasemdum um nýju stjórnarskrána á þeim forsendum að þeir persónulega hefðu viljað hafa hitt eða þetta öðruvísi í plagginu.

Þeir sáu ekki skóginn fyrir trjánum. Og gegndu með þessu hlutverki nytsamra sakleysingja við að reyna að telja fólki trú um að þetta væri ómögulegt verk, og áttu sinn þátt í að það tafðist.

Þjóðin lét sér þó ekki segjast, og samþykkti að plaggið yrði grundvöllur að nýrri stjórnarskrá.

En jábræðrum sægreifanna hefur tekist að hafa heila þjóðaratkvæðagreiðslu að engu.

Nú þarf vissulega að skrifa undir plagg Þjóðareignar, en síðan þarf umfram allt að berjast fyrir nýrri stjórnarskrá.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 1.5.2015 - 23:37 - FB ummæli ()

Það eru erfiðir tímar, það er atvinnuþref

Já, það eru erfiðir tímar og það er atvinnuþref.

Nú lítur út fyrir mestu vinnudeilur í áratugi.

Og ekki að furða – launafólk hefur axlað miklar byrðar vegna hrunsins, en auðstéttir landsins hafa það – takk fyrir – fínt.

Og á þessum degi launafólks, einmitt í dag þegar allt er strand í viðræðum þess sama launafólks um þó ekki sé nema sanngjarnar kjarabætur …

… þá er kveðja fjármálaráðherra til verkalýðshreyfingarinnar hótfyndin pilla um að hún beri ábyrgð á óstöðugleika í efnahagslífi.

Og svo eyðir hann deginum í að þrefa og þræta á Facebook um frændhygli sína og það spillingarorð sem af auðstéttum fer.

Jáhérna.

Hávaxinn er hann Bjarni Ben.

En stór er hann ekki.

 

Screen shot 2015-05-01 at 11.18.13 PM

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 27.4.2015 - 17:49 - FB ummæli ()

Vorið kom – og nú er það farið

Já, vorið kom, einn dag hér á höfuðborgarsvæðinu, það var reyndar á sumardaginn fyrsta, en nú er eins og það sé farið.

Á sumardaginn fyrsta, þennan eina vordag ársins 2015 (?), var ég að synda í Vesturbæjarlauginni og hlýddi þá á söngflokk flytja vor- og sumarlög á laugarbakkanum.

Og ég leiddi að því hugann að þau voru öll 70-150 ára gömul.

Og það fannst mér svolítið skrýtið.

Reynsla undanfarinn mánuða – þennan leiðinlega vetur – hefur fært okkur heim sanninn um að Íslendingar nútímans þrá vorið af engu minni ofsa en fyrri kynslóðir.

Samt veit ég ekki til þess að skáld hafi ort vorljóð í marga áratugi.

Hvernig skyldi standa á því – ef allir þrá vorið svona mikið?

Eiga ekki skáldin að yrkja um það sem skiptir hverja manneskju máli? Því yrkja þau þá ekki um vorið?

En ég mundi ekki eftir neinu yngra vorljóði en þessu hér eftir Sigfús Daðason úr bók frá 1977 – vorljóði sem virðist reyndar (á yfirborðinu!), eftir þennan eina vordag um daginn, svo sorglega viðeigandi:

 

Vorið blés óhroða í augu mér.

Blés eyðimerkurryki,

öskufjúki

og ranghverfum tætlum tímans.

Vorið blés óhroða, vorið blés óhroða í augu mér.

 

Þjakandi náttleysa

hvíslaði ódáðum síðasta dægurs

í eyru mér,

hreykti upp bleikfextum morgunstundunum

sem hvolfast

eins og unnvörp yfir varbúinn borgarlýð.

 

Flugufregnir um sjálfbeizlaða frelsingja,

um tál

og varúð

og hlekkjaglamur,

um ást

og frið

þutu hrollkaldar um endilöng strætin

í för með vorvindunum.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 18.4.2015 - 09:50 - FB ummæli ()

Daufasti flokkur í heimi?

 

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bjarna Benediktssonar er ofboðslega vond ríkisstjórn.

Ekki er nóg með að hún sé illa mönnuð, svo flestallir ráðherrarnir mega kallast góðir ef þeir sleppa gegnum heila viku án þess að lenda í meiriháttar klúðri.

Og að stjórnsýsla hennar er að mestu leyti rugl, og yfirgangur og frekja og barnalegur hroki vaða uppi.

Heldur er stefna stjórnarinnar skelfileg líka.

Markvisst og ákveðið er hlaðið undir ójöfnuð, sérhagsmuni og klíkuræði og baktjaldamakk auðkýfinga og sægreifa.

Og sú stjórnarstefna er ekki bara ósanngjörn og óréttlát.

Hún er líka heimskuleg og mun enda með ósköpum – við höfum dæmin fyrir okkur.

Hrunið altso.

Og nú stefnir í mestu átök á vinnumarkaði í manna minnum.

Maður skyldi því ætla að í stjórnmálaflokki sem kallar sig á hátíðarstundum „jafnaðarmannaflokk Íslands“ væri allt á blússandi fart.

Já, alveg á suðupunkti.

Baráttugleði ríkjandi og heilög reiði yfir þeirri forsmán sem ríkisstjórn ríka fólksins er að leiða yfir landið.

Maður skyldi ætla að þaðan streymdu hugmyndir og reiður almenningur flykktist til liðs við eldhugana sem ætluðu ekki að láta auðkýfingssynina eyðileggja þjóðfélagið – aftur.

Maður skyldi ætla að haldið væri á lofti nýrri stjórnarskrá sem allir vita að bæta myndi ótrúlega mikið úr skák, maður skyldi ætla að liðsmenn flokksins væru óþreytandi að gagnrýna ósvinnuna, benda á leiðir, móta nýjar hugmyndir.

Maður skyldi sem sagt ætla að Samfylkingin veifaði nú sem ákafast gunnfánum réttlætis og jöfnuðar, opnara samfélags og heiðarlegri hátta. Og forystumenn hennar hvarvetna að tala við fólk, hvetja fólk, hlusta á fólk, læra af fólki.

Er það ekki einmitt svo?

Nú.

Ekki það?

Aha.

Allir sofandi?

Ja, um daginn rumskaði Samfylkingin vissulega andartak.

Þá snerist málið um hver fengi að vera formaður í flokknum.

Sem endaði með að Samfylkingin kaus bara sama formann og áður.

Svo lagðist hún á hina hliðina og fór aftur að dotta.

Við þessar „kjöraðstæður“ fyrir frjálslyndan dugmikinn jafnaðarmannaflokk, þá á Samfylkingin í mestu vandræðum með að halda sér vakandi.

Fyrir hverju er hún nú að berjast? Hver er stefna hennar í málum? Einhverjar hugmyndir á kreiki?

Nú.

Ekki það?

Onei.

Allir sofandi!

Og svo er flokkurinn voðalega hissa á því að fylgi skili sér ekki í skoðanakönnunum!

Menn segja að þetta sé langhlaup. Það taki tíma að vinna aftur traustið sem Samfylkingin tapaði í síðustu kosningum.

Og að vandi flokksins sé ekki forystukreppa, heldur hugmyndakreppa.

Bull og vitleysa.

Samfylkingin hefur að sinni hugmyndafræði bestu pólitík í heimi – frjálslynda jafnaðarstefnu. Hún á að vera löngu búin að hefja fána þeirrar stefnu aftur á loft með glæsibrag.

Og forystumennirnir ættu að hafa dug og sannfæringu og eldmóð í brjósti til að berjast fyrir málstaðnum, fyrir íslenska alþýðu, fyrir venjulegt fólk sem puðar við að láta enda ná saman og lifa sómasamlegu lífi.

Og gegn þeim ósóma sem ríkisstjórn Sigmundar og Bjarna er.

En af Samfylkingunni er ekkert að frétta.

Mér finnst tröll vera í þann veginn að stela því samfélagi sem ég vil taka þátt í að byggja upp og á að vera heiðarlegt og réttlátt samfélag. Tröllin eru Sigmundur og Bjarni.

En mér finnst líka að svefngenglar séu búnir að kasta eign sinni á þá hugmyndafræði sem ég vil berjast fyrir.

Það er vont og það venst ekki.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 7.4.2015 - 09:27 - FB ummæli ()

Margt má um Megas segja …

… og vonandi verður það gert skilmerkilega.

Prívat og persónulega vil ég aðeins taka fram eftirfarandi á þessum degi:

Á ýmsum æsilegustu og skrýtnustu og sumpart erfiðustu og flóknustu stundum lífsins, þá þurfti ég aldrei neitt að segja.

Því Megas var búinn að segja það fyrir mig.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 5.4.2015 - 09:53 - FB ummæli ()

Sigmundur Davíð vill reisa sér minnismerki

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur líklega fyrir löngu gert sér grein fyrir því að ferli hans sem forsætisráðherra mun ljúka eftir tvö ár. Og kannski ferli hans sem stjórnmálamanns yfirleitt.

Það er eins og gengur, allt endar að lokum.

Nema hvað Sigmundur Davíð hefur því miður fengið þá hugmynd að reisa sér minnisvarða.

Í orði kveðnu á að minnast 100 ára fullveldis, en auðvitað er Sigmundur að hugsa um eigin arfleifð, eigin minnisvarða.

Og sá á að vera af flottara taginu.

Ekki tvö hús eins og Davíð lét reisa: Ráðhúsið og Perluna.

Nei, Sigmundur Davíð ætlar að reisa þrjú hús svo allir muni örugglega eftir honum í framtíðinni og hugsi með sér: Þarna er hús sem Sigmundur Davíð lét reisa.

(Svo ætlar hann auðvitað að fara út í bókaútgáfu, rétt eins og Davíð gerði sér til heiðurs á 100 ára afmæli heimastjórnar 2004.)

Ótrúlegt nokk, þá er eina húsið sem virkilega þarf að reisa – nýtt sjúkrahús – ekki á meðal þeirra húsa sem Sigmundur Davíð vill reisa sér til dýrðar.

Nei, það á að byggja nýtt Alþingishús, nýtt hús yfir Árnastofnun og af einhverjum ástæðum nýtt hótel á Þingvöllum.

(Það er þó líklega auðvelt að skilja það þegar að er gáð. Hann vill koma nafninu sínu fyrir á sjálfum Þingvöllum. Þá verður það nokkuð óafmáanlegt.)

Eins og svo margt sem Sigmundur Davíð tekur sér fyrir hendur þessi misserin, þá eru þessar hugmyndir hans með mestu ólíkindum.

Ekki síst að reisa Alþingishús eftir hundrað ára gömlum teikningum Guðjóns Samúelssonar.

Setningin úr þingsályktuninni: „Um leið og horft er til framtíðar er fortíðinni sýnd virðing og draumar fyrri kynslóðar uppfylltir í þágu framtíðarkynslóða“ er líklega nú þegar orðinn eftirminnilegri minnisvarði um feril Sigmundar Davíðs en margt annað.

Vonandi þarf ekki að eyða mjög mikilli orku í að ýta hugmyndinni um hið hundrað ára gamla Alþingishús út af borðinu. En sjá þó til dæmis hér.

En mikið væri gott ef Sigmundur Davíð hefði fengið aðra hugmynd um minnismerki fyrir sjálfan sig en að byggja hús.

Það er svo innilega ófrumlegt.

Snoturra hefði verið ef rifjast hefði upp fyrir Sigmundi að haustið 2012 var samþykkt með tveim þriðju greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu að stjórnarskrárfrumvarp stjórnlagaráðs skyldi gert að undirstöðu nýrrar stjórnarskrár fyrir Ísland.

En ríkisstjórn Sigmundar Davíðs og Bjarna Benediktssonar hefur gefið skít í þann vilja þjóðarinnar.

Það væri mannalegra að minnast fullveldisins 1918 með því að snúa við því blaði en reisa monthús til dýrðar sjálfum sér.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 31.3.2015 - 15:29 - FB ummæli ()

Treystum við kerlingu fyrir eigum okkar sem á nú aðeins 0,00072 prósent af upprunalegum eigum sínum?

Kona ein fæddist fyrir 91 ári. Hún var af skikkanlegu fólki komin sem arfleiddi hana að heilmiklum eignum og lausu fé.

Það var því sláttur á konunni þegar hún komst til vits og ára og hún var gjörn á að slá um sig og leggja pening í alls konar brask og skýjaborgir.

Núna, þegar hún er nokkuð svo komin að fótum fram, þá hefur hún tapað nálega öllum sínum eigum – nánar tiltekið eru eigur hennar nú aðeins 0,00072 prósent af því sem hún átti fyrir 91 ári.

Nú er spurningin hvernig ykkur finnst henni hafa farnast á þessari tæpu öld?

Mynduði til dæmis treysta kerlingu fyrir peningunum ykkar og fela einmitt henni að ávaxta þá þau ár sem hún mun blakta enn?

Ég held ekki.

Samt er það akkúrat það sem fjöldi málsmetandi stjórnmálamanna á Íslandi vill einmitt gera.

Því „kerlingin“ í þessari dæmisögu heitir fullu nafni Íslenska Krónan.

Á því 91 ári sem liðið er frá því að íslenska krónan var tekin upp hefur hún tapað næstum öllu af upprunalegu verðgildi sínu svo aðeins 0,00072 prósent eru eftir.

Hugsið ykkur allt það sé sem íslenskur almenningur hefur tapað á þessum tíma!!

Samt vilja sem sagt sumir enn halda í hræ kerlingar.

Jahérna.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 22.3.2015 - 13:09 - FB ummæli ()

Furðuleg viðbrögð í Samfylkingu

Ekki ætla ég í bili að hafa neina sérstaka skoðun á því hvort Sigríður Ingibjörg eða Árni Páll hefði orðið betri formaður Samfylkingar.

En ég skil vel að Sigríður Ingibjörg sé að „íhuga stöðu sína“ eftir formannsslaginn.

Furðuleg heift kemur fram í hennar garð í ýmsum ummælum fyrri og núverandi forkólfa í Samfylkingunni?

Og þá get ég rétt ímyndað mér hvað sagt er á bak við tjöldin.

Hún gerði ekki annað en það sem var fullkomlega heimilt og reyndar líklegt til að lífga upp á landsfund Samfylkingarinnar – fund sem allar líkur voru á að hefði ella orðið eins og syfjulegt eftirmiðdagste.

En þannig virðast samfylkingarforkólfar reyndar hafa kunnað best við sig að undanförnu – ró þeirra hvergi raskað og ekkert verið að minnast á lítið fylgi og glötuð tækifæri.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 21.3.2015 - 13:53 - FB ummæli ()

Þegar Bjarni Benediktsson …

… horfir á nýjustu skoðanakönnunina sem sýnir meira fylgi við pírata en Sjálfstæðisflokkinn og hann botnar ekki neitt í neinu, þá mætti kannski benda honum á eitt.

Að þegar hann skýtur næst fram hökunni í þingsal og býst til að valta yfir sjónarmið minnihlutans og segir með hrokann drjúpandi af hverju orði:

„Það er mjög einfalt. Meirihlutinn ræður“

– þá vekur það kannski mikinn fögnuð og aðdáun hjá Morfís-deild Valhallar.

En minni hjá þjóðinni sjálfri.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!