Laugardagur 27.6.2015 - 09:17 - FB ummæli ()

Út að borða með Katrínu Jakobsdóttur

Það er engum blöðum um það að fletta að Katrín Jakobsdóttir nýtur mikils persónufylgis.

Það sannast nú síðast í könnun Fréttablaðsins sem spurði fólk með hvaða íslenskum stjórnmálaleiðtoga það myndi helst kjósa að fara út að borða.

Að vísu gat þriðjungur ekki hugsað sér að fara út með neinum leiðtoganna, en af þeim sem tóku afstöðu kaus fjórðungur Katrínu sem borðdömu.

Auðvitað er þetta ekki mjög djúpspekileg pólitík, en segir þó þessa sögu: Að Katrín nýtur verulegra vinsælda.

En á sama tíma er ekkert að frétta úr flokki hennar.

Hvernig flokkur eru Vinstri grænir núna?

Og það er raunar ekkert að frétta af vinstri vængnum yfirleitt.

Hvert er prógram vinstri vængsins í samfélaginu núna?

Eee … tja … eigi veit ég það svo gjörla en hitt veit ég að af er fylgið.

Og auðvitað ber Katrín sína á ábyrgð á því, sem leiðtogi eins vinstri flokkanna.

Og ábyrgð hennar eykst reyndar, af því persónulegar vinsældir hennar eru svo augljósar.

Það verður merkilegt að sjá hvort og hvernig hún ætlar að takast á við þá ábyrgð.

Og til hvers hún ætlar að nota þessar vinsældir sínar.

 

– – – –

Athugasemd.

Mér til nokkurrar undrunar kom fram athugasemd að það væri vottur um karlrembu að nota það orðalag að Katrín „yrði að fara að ákveða“ hvernig hún notaði hinar miklu vinsældir sínar.

Með því væri ég að taka þátt í karlakór sem vildi sífellt skipa Katrínu fyrir.

Þetta kom mér á óvart, því allur pistillinn er auðvitað skrifaður af fyllstu virðingu fyrir Katrínu og ég held í sannleika sagt að ég myndi ekki taka á nokkurn hátt öðruvísi til orða um karlmann. En ég breytti nú samt orðalagi örlítið. Better safe than sorry.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 19.6.2015 - 08:43 - FB ummæli ()

Þegar ég varð hissa

Mín vitund og skilningur á jafnréttismálum mótaðist af tvennu.

Annars vegar er ég alinn upp af einstæðri móður, mikilli kjarnorkukonu, og það hvarflaði hreinlega aldrei neitt annað að mér í æsku en konur stæðu körlum algjörlega jafnfætis.

Enda var sama upp á teningnum hjá öfum og ömmum og í öðrum þeim hjónaböndum sem ég þekkti til í æsku; hvergi sá ég betur en jafnokar væru á ferð.

Hins vegar fór ég að lesa um það í Þjóðviljanum þegar ég komst á táningsár að víða væri pottur brotinn í þessum efnum.

Þjóðviljinn var – burtséð frá pólitíkinni sem blaðið rak – ansi merkilegt blað á þessum árum.

Og blaðið sinnti til dæmis mjög jafnréttismálum, áhrif Rauðsokka á blaðið voru sterk og sumt af því sem ég las í blaðinu kom mér alveg í opna skjöldu.

Til dæmis var þar fullyrt að konur hefðu alls ekki sömu laun og karlar, þótt fyrir sömu vinnu væri.

Þá varð ég hissa.

Ég man að ég fór til mömmu, sem var þá blaðamaður á Mogganum, og spurði hana hvort hún fengi ekki örugglega sömu laun og kátu strákarnir sem unnu þar með henni og tóku mér alltaf fagnandi þegar ég fór að heimsækja hana í vinnuna.

Hún sagðist ekki vita betur en svo væri.

En það gilti greinilega ekki alls staðar, að því er sagði í Þjóðviljanum.

Ég hrósaði þá happi að það skyldi vera búið að vekja athygli á þessu misrétti.

Þessu yrði þá náttúrlega kippt í liðinn á næstu tveim þrem árum.

Mikið væri ég heppinn að þegar ég færi út á vinnumarkaðinn nokkrum árum seinna, yrði búið að laga þetta. Ekki vildi ég fá hærri laun en stelpurnar í mínum bekk.

Fleira las ég í Þjóðviljanum. Til dæmis að maður ætti aldrei að nota orðið „maður“ þegar merkingin væri greinilega „karlmaður“. Maður ætti aldrei að segja „menn og konur“ heldur ævinlega „karlar og konur“.

Annað væri misnotkun á orðinu „maður“ og lítilsvirðing við konur.

Því konur væru jú líka menn.

Þetta tók ég mjög hátíðlega, og hef staðið við það síðan.

Það hefur hins vegar oft komið mér á óvart í áranna rás að ýmsar konur, jafnvel ungar konur, virðast ekki fara eftir þessu.

En svo ég rifji upp lærdóminn úr Þjóðviljanum, þá eru menn líka konur.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 18.6.2015 - 17:30 - FB ummæli ()

Hroki Brynjars Níelssonar

Það er ósköp eðlilegt að Brynjari Níelssyni skuli ekki þykja ástæða til að stjórnin fari frá (sjá hér) – þótt formaður hans Bjarni Benediktsson hafi að vísu krafist þess að Jóhanna Sigurðardóttir „skilaði lyklunum“ þegar stjórn hennar naut þó ef eitthvað var meira fylgis en stjórn Sigmundar og Bjarna gerir nú.

En af hverju Brynjar telur rétt að sýna þann hroka að kalla mótmæli og andstöðu, sem runnin er frá dýpstu sannfæringu fólks, „garg nokkurra stjórnarandstæðinga“, það á ég erfiðara með að skilja.

Enginn ráðamaður úr stjórn Jóhönnu talaði svona um mótmælendur, tel ég mig geta fullyrt, og enginn úr stjórn Geirs Haarde heldur, svo ég muni.

En ein af ástæðum þess hvað núverandi ríkisstjórnarflokkar eru orðnir óvinsælir er einmitt sá taumlausi hroki sem menn eins og Brynjar sýna, og algjört virðingarleysi við þá sem eru annarrar skoðunar.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 16.6.2015 - 09:28 - FB ummæli ()

Má mótmæla á 17. júní?

Það er eitthvað skrýtið í gangi í samfélaginu.

Annars vegar er einhvers konar grasrótarhreyfing fólks að byrja að rísa og krefjast raunverulegs lýðræðis og skárri stjórnarhátta.

Við sjáum þetta í auknum mótmælum, fólk lætur ekki bjóða sér hvað sem er lengur – og við sjáum þetta í fylgi pírata í skoðanakönnunum.

En hins vegar eru þau öfl sem vilja kveða þetta í kútinn önnum kafin við að reyna að halda í hið gamla samfélag og telja okkur trú um að það sé einhver goðgá að brjóta það niður.

Þetta má nú síðast sjá á viðbrögðum við fyrirhuguðum mótmælum á morgun, 17. júní.

Vísir.is hefur skrifað um viðbrögðin frétt, sjá hér.

Alveg burtséð frá því að Jóhanna Guðfinna virðist vera allra síst til þess fallin að kenna fólki mannasiði, þá eru viðbrögðin eftirtektarverð.

Það er í fyrsta lagi gefið til kynna að það sé einhver óvirðing við lýðræðið að mótmæla. En því fer auðvitað fjarri – það er einmitt sérstaklega verið að hafa lýðræðið í heiðri þegar fólk nýtir rétt sinn til lýsa skoðunum sínum og mótmæla, og það á hvaða degi sem er.

Og ritstjóri DV (!) vill ekki að mótmælendur spilli „gleðinni sem fólk finnur fyrir á þessum degi“.

Það er nú það.

Ég hef búið í miðbæ Reykjavíkur í aldarfjórðung og fylgst með þeirri gleði.

Hún felst núorðið í að rápa milli sölubása og kaupa gasblöðrur í líki amerískra og japanskra teiknimyndapersóna, borða illa soðnar pylsur í hörðu pylsubrauði með vondri og ódýrri tómatsósu, og leyfa börnum að fara í hoppukastala.

Og svo tónleikar með nýjasta poppinu á Arnarhóli.

Þetta er nú 17. júní í miðbæ Reykjavíkur í hnotskurn.

Dagurinn hefur verið að þróast yfir í algjört vandræðabarn í hátíðarmenningu Íslands, og mönnum hefur satt að segja gengið bölvanlega að finna þessum degi einhverja merkingu og tilgang.

Stjórnmálamenn hafa notað hann til að flytja ræður sem enginn hlustar á og nýbúið er að sýna fram á að eru mestmegnis blekkingarbull, þar sem beinlínis falskri söguskoðun er haldið að þjóðinni – sjá hér.

Ég hef margoft stungið upp á því að dagurinn verði gerður að eins konar hátíðisdegi íslenskrar sögu, en það hefur aldrei nokkur maður einu sinni nennt að hugsa þá hugsun til enda.

Það er því miður svo fjarri því að 17. júní sé á einhvern hátt helgur dagur í augum Íslendinga nútímans.

Fyrir utan þá ótrúlegu kaldhæðni að fólki skuli finnast ótilhlýðilegt að mótmæla á afmælisdegi mannsins sem er frægastur fyrir orðin: „Við mótmælum allir!“

Mér finnst því bara fínt ef mótmælendur nota þennan dag til að koma sínum lýðræðislegu skoðunum á framfæri.

Það sýnir að þeir virða hann þó einhvers.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 9.6.2015 - 08:24 - FB ummæli ()

Var þetta bara blekking?

Það er víst öruggast að taka fram strax að mér finnst berin ekkert vera súr.

Þau drög að samningi við kröfuhafa sem kynnt voru í gær virðast bara vera ljómandi ásættanleg – þótt ég viðurkenni þá jafnóðum að þekking mín á svona samningum er í rauninni fjarska yfirborðskennd, og ég áskilji mér því rétt til að skipta um skoðun á því hvenær sem er!

En eftir því sem frá líður, þá finnst mér samt eitthvað æ óþægilegra við umbúnaðinn.

Hvað gerðist?

DV birtir frétt sem greinilega er komin úr innsta hring annars ríkisstjórnarflokksins og greinir frá því hvaða skilyrði á að setja kröfuhöfum svo hægt verði að byrja að losa um höftin.

Þau skilyrði virðast, eins og þau eru sett fram, nokkuð töff.

Síðan er rokið til á sunnudagskvöldi og boðaður neyðarfundur á Alþingi til þess – eins og það er kynnt – loka smugum fyrir hina vondu erlendu kröfuhafa, svo þeir komist ekki úr landi með peninga þegar loks verður byrjað að berja á þeim.

Og svo er enn blásið til blaðamannafundar í Hörpu með glærusýningum og Sigmundi Davíð og Bjarna hvor í sinni pontu, og þeir kynna áætlun sína um hvernig kröfuhafarnir verða tuskaðir til.

Gott og vel – nema hvað svo kemur í ljós eftir alla þessa hanakambsreisingu að það er búið að semja við erlendu kröfuhafana!

Já?!

Að minnsta kosti virðast samningar nánast alveg frágengnir við alla stærstu og áhrifamestu kröfuhafana.

Þannig að þó mér sé það þvert um geð, þá hvarflar að mér sú hugsun að þetta hafi allt verið blekking.

Spinn – eins og það heitir nú á dögum.

Lekinn í DV og kvöldfundurinn á Alþingi og ábúðarmikill fundurinn í Hörpu um hinar ströngu kröfur stjórnvalda – getur verið að þetta hafi allt verið blekking til að koma í veg fyrir þá fyrirsögn sem í rauninni hefði átt að nota um atburðarásina:

„Samið við erlenda kröfuhafa.“

Hm? Getur þetta  verið rétt?

Og getur það líka verið rétt að þetta séu samningar sem hefði átt að vera búið að ná fyrir tveimur árum að minnsta kosti?

Og það sé ekki aðeins hægt að áfellast stjórn Sigmundar Davíðs og Bjarna fyrir að hafa ekki verið löngu búin að ljúka þessum samningum – en töfin mun hafa kostað okkur tugi milljarða að minnsta kosti – heldur sé jafnvel líka hægt að áfellast stjórn Jóhönnu og Steingríms fyrir að hafa ekki klárað þetta?

Og bætist því á syndaregistur þeirra?

Þetta er altso spurningin.

Var atburðarásin yfir helgina eintómt spinn til að menn gætu stært sig af frægum sigri, þótt í rauninni hafi þetta bara verið ósköp eðlilegir og í rauninni löngu tímabærir samningar?

Og á það sem sagt að verða hin endanlega graftskrift þessarar ríkisstjórnar að í stað þess að koma hreint fram, þá sé sífellt verið að spinna og blekkja?

Og ekki bara blaðalesendur og almenningur, heldur líka Alþingi gert að statistum í því leikriti?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 8.6.2015 - 22:31 - FB ummæli ()

Þið farið með þeim

Sonur minn ungur var að útskrifast úr Austurbæjarskóla nú síðdegis og ég varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að halda ávarp fyrir hönd foreldra þegar skólanum var slitið. Í trausti þess að ávarpið segi einhverjum öðrum en bara foreldrum og starfsfólki Austurbæjarskóla eitthvað, þá birti ég ávarpið hér.

– – –

Hæ krakkar.

Ég veit að það allra, allra síðasta sem ykkur langar til núna er að hlusta á langar ræður, hvort heldur er frá mér eða öðrum.

Og það væri alveg sama hvað ræðan væri góð, hvað hún væri frábærlega stíluð og hvað hún hefði að geyma innblásna speki um lífið og tilveruna, um skólagönguna og þroskann, um tímann og vatnið – þið yrðuð samt búin að gleyma henni svona um það bil sem ég sleppti síðasta orðinu.

Og það er líka alveg eðlilegt. Þið eruð að hugsa um annað.

Og þið eigið líka að vera að hugsa um annað. Þið eruð að klára merkilegan áfanga í lífinu og eruð margt að hugsa – en hvað einhver pabbinn segir í ræðustól við það tækifæri, það er ekki eitt af því.

Og á ekki að vera.

Ég ætla þess vegna hér með að leysa ykkur undan því að hlusta á ræðuna. Henni er ekki beint til ykkar, og þið megið mín vegna snúa ykkur að einhverju spennandi í símanum.

En ég ætla hins vegar að segja hér fáein orð við kennara og annað starfsfólk í Austurbæjarskólanum.

Nú er það svo að á mínu heimili höfum við átt börn í þessum skóla alveg samfleytt í 25 ár, alveg frá því að eldri strákurinn byrjaði hér eftir einn eða tvo vetur í Ísaksskóla, og um það leyti sem hann var kominn í unglingadeild, þá byrjaði dóttirin á heimilinu í þessum skóla, og einmitt sama árið og hún hætti, þá byrjaði yngri drengurinn sína skólavist sem hann er nú að ljúka eftir tíu ár.

Svo hér höfum við verið í 25 ár, það er heilan aldarfjórðung.

Um það leyti sem fyrsta barnið okkar gekk hér inn um dyr, þá voru Sovétríkin að leysast upp; nú er einhver slúbbert að reyna að klastra þeim saman aftur.

Þetta er nefnilega langur tími – mörg jólaföndur, margar vorhátíðir, margir foreldrafundir, mörg skólaslit.

Auðvitað rennur þetta allt svolítið saman í eitt í minninu, það vona ég að sé eðlilegt, en merkilegt er hvað yfirbragð allra minninga sem ég á um þennan skóla og vist barnanna okkar í honum er bjart, jákvætt og ja, eiginlega bara notalegt.

Ég skal trúa ykkur fyrir því að þegar elsta barnið okkar byrjaði hér í skólanum, þá var ég örlítið efins. Þegar ég var strákur gengu þær sögur meðal okkar prúðu barnanna í Vesturbænum að í Austurbæjarskólanum væru ægilegir og stjórnlausir villingar sem hollast væri að koma ekki of nálægt.

En svo reyndist andrúmsloftið hér vera bæði friðsælt og uppbyggilegt.

Stundum hefur meira að segja hvarflað að mér að það hafi verið næstum undarlega tíðindalaust í þessum skóla.

Að minnsta kosti er það svo að öll þessi tuttugu og fimm ár, þá hef ég alltaf og undantekningarlaust fengið sama svarið þegar ég hef við kvöldverðarborðið spurt börnin þrjú hvað hafi nú gerst í skólanum í dag.

„Ekkert. Ekki neitt. Ekkert sérstakt.“

Þetta er auðvitað tóm vitleysa, auðvitað hefur margt gerst, að langstærstum hluta jákvætt, sem betur fer, en ég hef reyndar aldrei tekið það illa upp þótt börnunum hafi greinilega ekki fundist það sem gerðist í skólanum endilega koma mér mikið við; þetta er jú þeirra heimur, og svo ykkar – ágætu kennarar og annað starfsfólk.

Og ég hlýt að nota hér þetta tækifæri til að þakka ykkur kærlega og auðmjúklega það mikla og góða starf sem þið hafið unnið í þágu barnanna okkar allra á undanförnum árum – í mínu tilfelli undanfarin 25 ár – starf sem þau munu búa að alla sína tíð.

Ég hef aldrei verið kennari, en ég ímynda mér að það sé svolítið blendin tilfinning fyrir kennara að horfa í síðasta sinn á eftir svona hópi eins og þessum 10. bekk sem nú er að kveðja skólann.

Ég ímynda mér að þið séuð réttilega bæði stolt og ánægð yfir því að hafa tekist bara býsna vel að koma þessum greyjum til nokkurs þroska – að svo miklu leyti sem það er ykkar hlutverk – en svo, af því það tilheyrir kveðjustundum, að vera svolítið meyr, þá dettur mér í hug að önnur hugsun læðist kannski að ykkur líka, hún myndi að minnsta kosti læðast að mér:

Æ, þarna hverfa þau á burt og hvernig skyldi þeim svo vegna í lífinu, og verða þau búin að gleyma okkur öllum hér í skólanum eftir eitt, tvö ár, þegar þau verða farin að takast á við nýja og krefjandi hluti í skólakerfinu og í lífinu sjálfu, og minningarnar úr grunnskóla munu dofna og allt mitt starf – myndi ég hugsa – fer þá að sáldrast smátt og smátt úr huga þeirra, og svo verða þau búin að gleyma okkur öllum saman og öllum þeim stundum sem við áttum hér saman.

Svona myndi ég hugsa – í aðra röndina.

En þetta er auðvitað fjarri öllum sanni.

Við vitum það öll af okkar eigin reynslu að kennarar og annað skólastarfsfólk í grunnskólanum er það fólk sem sest einna tryggilegast að í minni hvers einstaklings. Við eigum hvert um sig okkar sterku minningar sem við getum kallað fram hvenær sem við þurfum á að halda um kennara, gangaverði, annað skólastarfsfólk, fólk sem kenndi okkur eitthvað, ýmist upp úr námsbókunum eða einfaldlega eitthvað um lífið – fólk sem sagði okkur eitthvað – sýndi okkur eitthvað – og það er sú staða sem þið eruð nú í.

Þið eruð að kveðja þennan hóp og munið kannski ekki endilega sjá alla þessa krakka mikið héðan í frá – sum munu hverfa ykkar sjónum, önnur ekki – en þið megið vita að þið eruð með ykkar góða starfi, með ykkar áhuga, með uppbyggilegri velvild og snotra hugarfari, já, með þessu öllu eruð þið búin að tryggja ykkur öruggan stað í minningum þessa káta hóps, sem þið eigið ríkan þátt í að er nú að verða að mönnum – þið eigið þar öruggan sess, og gott betur, það er í rauninni svo að þegar þessir krakkar ganga í síðasta sinn út um dyr Austurbæjarskólans og út í lífið, þá verða þau ekki ein, því þið farið öll með þeim.

Og verðið með þeim æ síðan.

Takk fyrir okkur.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 24.5.2015 - 00:04 - FB ummæli ()

Sigmundur Davíð setur heimsmet

Sigmundi Davíð er tíðrætt um heimsmet sem hann telur sig einlægt vera að setja.

En nú hefur hann sennilega sett raunverulegt heimsmet – loksins.

Það hlýtur að vera einhvers konar heimsmet að þegar þjóð er óánægð með ríkisstjórn sína, þá útskýri leiðtogi ríkisstjórnarinnar það með því að þjóðin sé geðveik.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 11.5.2015 - 21:23 - FB ummæli ()

Var þetta svona stór kaka?

Það eru erfiðir tímar, það er atvinnuþref.

Og þó það sé ekki lengur fjöldaatvinnuleysi á Íslandi, þá er landflótti hafinn á ný, slíkt er ástandið.

Og hvaða svörum mæta launþegar?

Jú, geðvonskulegum og helstil fruntalegum Bjarna Benediktssyni.

Hann er búinn að klúðra því tækifæri sem alnafni hans og frændi greip svo eftirminnilega á sjöunda áratugnum, þegar hann náði góðu sambandi við verkalýðshreyfinguna á erfiðum tíma.

En Bjarni yngri virðist þó vera á staðnum.

Svör forsætisráðherra við þessum vanda eru hins vegar engin.

Því Sigmundur Davíð er aldrei þessu vant í hvarfi.

(Hvar skyldi það vera, þetta Hvarf þar sem hann virðist alltaf vera?)

Nú er fjarri mér að óska eftir meiri nærveru Sigmundar Davíðs í lífi mínu eða Íslendinga yfirleitt.

Það er samt ansi lágkúrulegt að við þessar aðstæður skuli Sigmundur Davíð ekki hafa neitt að segja – og hvergi sjást.

Hvernig var það, var þetta svona voðalega stór kaka?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 11.5.2015 - 08:28 - FB ummæli ()

Sátt sægreifanna

Í útvarpinu nú rétt áðan var mættur á Bylgjuna Jón Gunnarsson formaður atvinnuveganefndar Alþingis og helsti málsvari sægreifanna í Sjálfstæðisflokknum.

Hann var kominn til að tala um makríltillögur Sigmundar Davíðs og Bjarna Benediktssonar, og eins og talsmanna ríkisstjórnarflokkanna er háttur bar hann sig illa undan „umræðunni“ sem væri uppfull af misskilningi og rangfærslum.

Og svo sagði hann – nokkurn veginn orðrétt:

„„Það er alltaf verið að tala um þessi makríl- og sjávarútvegsmál eins og þetta snúist allt um einhverja hagsmuni. Við eigum ekki að ræða þetta á þeim grunni. Við eigum að ná um þetta sátt.“

Og þá varð mér hugsað til Calgacusar höfðingja í Skotlandi um það leyti sem Rómverjar freistuðu þess að leggja þar undir sig lönd og lýði.

Calgacus gaf lítið fyrir þær fullyrðingar talsmanna Rómverja að í kjölfar landvinninga og innlimunar í ríki Rómar fylgdi friður, velsæld og stöðugleiki.

Og Calgacus sagði: „Að ræna og rupla og slátra, það kalla þeir ríki sitt. Og þeir leggja allt í rúst og kalla það svo frið.“

Að breyttu breytanda má heimfæra þessa hugsun upp á herfræði sægreifanna í auðlindamálum.

Þeir vilja brjóta allt undir sig og svo eigum við að kalla það sátt.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 7.5.2015 - 17:56 - FB ummæli ()

Af hverju látum við líðast að Sigmundur og Bjarni gefi auðlindina okkar?

Áðan fór ég út í sjoppu. Þar keypti ég meðal annars lottómiða eins og ég geri fáeinum sinnum á ári og af rælni keypti ég nú miða í evrópska lottóinu.

„Fæ ég þá ekki tvo þrjá milljarða í vinning?“ spurði ég afgreiðslupiltinn, og hann játti því.

„Að minnsta kosti það, held ég,“ bætti hann við.

„Það má alveg nota það,“ sagði ég.

„Ojá, ætli maður hefði ekki einhver ráð?“ sagði pilturinn.

Svo hlógum við báðir, af því við vissum í fyrsta lagi að ég myndi auðvitað ekki vinna í lottóinu, en í öðru lagi að þó við legðum báðir saman myndum við á allri ævinni kallast góðir ef við næðum að öngla saman í svona örfá prósent af slíkri vinningsupphæð.

En einmitt slíka upphæð, nokkra milljarða, eru helstu sægreifarnir nú að fá gefins frá Sigmundi Davíð og Bjarna Benediktssyni, hver um sig (já, hver um sig!), og það eru bara vasapeningarnir þeirra fram á haustið.

Það versta er að Sigmundur Davíð og Bjarni eiga ekki þessa peninga og ættu því ekki að mega gefa þá vinum sínum (eða öllu heldur húsbændum), heldur eru þetta peningarnir okkar, auðlindin okkar.

En af hverju skyldum við láta Sigmund og Bjarna komast upp með að gefa milljarðana okkar sægreifunum, en lúpumst sjálf út í sjoppu að kaupa lottómiða í von um vinning sem við fáum aldrei?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rásHleð...

Eingöngu gamlar fréttir!