Fimmtudagur 30.6.2011 - 21:51 - FB ummæli ()

„Eins og málverk eftir Georg Guðna“

Við Georg Guðni vorum nágrannar upp við Heklu.

Við þekktumst svosem ekkert, en ég fór einu sinni í heimsókn til hans inn í hraunið þar sem hann var ásamt fjölskyldu sinni að reisa sér bústað í berangurslegu hrauninu, og fékk höfðinglegar viðtökur.

Myndir hans af íslenskri náttúru voru stórmerkilegar.

Þær voru bæði þannig að maður rak í rauninni upp stór augu þegar maður sá þær fyrst.

„Hefur virkilega engum dottið í hug að mála náttúruna svona áður?“ hugsaði maður. „Það er jú svona sem íslensk náttúra lítur út. Nákvæmlega svona.“

En um leið voru höfundareinkenni verka hans svo sterk að málverkin hans hafa fært sig yfir í náttúruna, og að sumu leyti næstum því yfirtekið hana.

Svo nú hugsar maður stundum þegar maður horfir á náttúruna: „Þetta er eins og málverk eftir Georg Guðna.“

Það er mikil synd að við skulum ekki fá að sjá málverkin sem hann átti eftir að mála.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 30.6.2011 - 18:53 - FB ummæli ()

Hof er fallegra en Harpa!

Stuðlaberg er náttúrlega að verða hálfgerð klisja í íslenskum arkitektúr.

Þegar ég sannfrétti að útlit menningarhússins Hofs á Akureyri væri byggt á stuðlabergi, þá setti því að mér illan grun.

En nú þegar ég hef séð húsið, þá uppgötva ég mér til undrunar að ég er í rauninni hæstánægður með það.

Það er bara frekar fallegt, og aðallega er ýmislegt skemmtilegt við það.

Hinar hálfopnu hliðar, eða hvað sem á að kalla það, eru til dæmis skemmtileg hugmynd sem ég hef ekki séð áður.

Og Hof hefur það til dæmis fram yfir Hörpu í Reykjavík að inngangurinn er skýr og greinilegur.

Ég uppgötvaði seint og um síðir að partur af ástæðunni fyrir því hvað mér finnst lítið til um Hörpu er sú staðreynd að þar er enginn augljós inngangur.

Ekkert sem býður mann velkominn inn í það hús.

Hof gerir ekki þau mistök.

Akureyringar mega bara vera hinir ánægðustu með Hof, held ég.

Það er altént miklu fallegra en Harpa!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 29.6.2011 - 17:44 - FB ummæli ()

Rasisti í skógrækt

Fyrr í dag ók ég Öxnadalinn með eitthvað af fótboltastrákum aftur í.

Ég bauðst til að fræða þá um Jónas Hallgrímsson, en það var lítill áhugi á því.

Þegar ég fór hins vegar að horfa í kringum mig rann það upp fyrir mér að líklega eru töluvert mörg ár síðan ég hef keyrt þessa leið.

Því norðan megin í dalnum var á einum eða tveimur stöðum kominn býsna þéttur og mikill greniskógur sem ég mundi ekki til að hafa veitt athygli áður.

Og ég verð að segja að svo mikill rasisti er ég í skógræktarmálum að ég kunni hreint ekki nógu vel við þetta.

Æ, ég hefði svo miklu frekar viljað að þetta væri birkiskógur!

Ég reyndi að sjá fyrir mér hvar Jónas Hallgrímsson reikaði um innan um grenitrén og orti ljóð um köngla en það gekk ekki nógu vel.

Loks spurði ég fótboltadrenginn minn:

„Hvernig finnst þér þessi skógur?“

Hann rétt leit upp úr tölvuleikjatímaritinu sem hann var að blaða í og gaut augunum að skóginum.

„Útlandalegur,“ sagði hann svo og hélt áfram að lesa blaðið.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 28.6.2011 - 19:32 - FB ummæli ()

Svívirðileg ákvörðun sýslumanns

Hver maður er saklaus þar til sekt hans er sönnuð.

Þetta er góð, gild og nauðsynleg regla sem hafa verður í heiðri í sérhverju réttarríki.

En að sýslumaðurinn á Selfossi telji fram þessa reglu til að réttlæta þá ákvörðun sína að láta ganga lausan barnanauðgara í Vestmannaeyjum, það er svívirða.

Að teknu tilliti til allra málsatvika.

Sýslumaðurinn er bersýnilega úti að aka, og er þá mjög vægt að orði komist.

Hann á að segja þegar í stað af sér.

Hann er greinilega ekki fær um að vernda fólk.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 25.6.2011 - 10:50 - FB ummæli ()

Á forseti að skipa í embætti?

Í stjórnlagaráði kemur brátt að því að gengið verður frá drögum að tillögum um stjórnskipan.

Þar er forsetaembættið svolítið að vefjast fyrir mönnum.

Ekki er um það mikill ágreiningur að þingræði skuli ríkja á Íslandi.

Þingræði þýðir, eins og menn vita, einfaldlega að framkvæmdavaldið – ríkisstjórnin – þarf að bera ábyrgð gagnvart löggjafarvaldinu, þinginu.

Ríkisstjórn sem Alþingi hefur ekki traust á, getur ekki setið.

Ólíkt því sem gerist í löndum eins og Bandaríkjunum og Frakklandi, þar sem ríkisstjórnin ber ábyrgð gagnvart þjóðkjörnum forseta, og forsetinn er í reynd æðsti maður framkvæmdavaldsins.

Stór meirihluti stjórnlagaráðs vill halda þingræðinu, en ekki leggja út á mjög óvissar lendur forsetaræðis.

Spurningin sem menn standa frammi fyrir er aftur á móti sú, á forsetaembættið samt að hafa eitthvert sérstakt hlutverk í stjórnskipaninni – eða „láta sér nægja“ hlutverk þjóðhöfðingja, eins og gerist víðast í löndunum í kringum okkar – þar sem forsetar (eða kóngar á Norðurlöndum og víðar) hafa mjög takmörkuðu hlutverki að gegna, nema koma fram fyrir hönd þjóðarinnar.

Sumir vilja að forsetinn komi áfram eitthvað við sögu stjórnarmyndana. Það er ekki nauðsynlegt þó það hafi verið hefð hér á landi – mörgum finnst hreinlegra að alþingismenn sjái einfaldlega um stjórnarmyndun sjálfir, undir verkstjórn forseta Alþingis.

En aðallega eru sumir skotnir í hugmyndum um að forseti Íslands sjái um ráðningu á forstöðumönnum ýmissa lykilstofnana ríkisins.

Hæstaréttardómara, forstöðumanns fjáramálaeftirlits, hagstofu, jafnvel Seðlabanka og svo framvegis. Sumir hafa jafnvel nefnt Ríkisútvarpið og Hafrannsóknarstofnun.

Þessar ráðningar ættu að fara fram eftir að að sérstök nefnd – helst með aðkomu útlenskra sérfræðinga – leggi fyrir forsetann hverjir séu hæfastir.

Tilgangurinn með þessum tillögum er að færa vald yfir þessum stofnunum frá ráðherrum.

Reyndar skal tekið fram að þeir sem vilja að ráðherra hafi skipunarvald yfir þessum, þeir telja líka að ráðherra eigi í reynd að fara eftir tillögum sérfræðinganefndar. Því geðþóttavaldi, sem hér hefur einkennt stöðuveitingar, verði kastað á haugana í báðum tilfellum.

Þeir sem eru á móti því að forsetinn sé með þetta skipunarvald telja að með því sé í raun verið að rugla of mikið saman þingræði og forsetaræði.

Og með þessu verði forsetaembættið óhjákvæmilega pólitískt, og dragist inn í allskonar deilur.

Og þar sem málshöfðanir verða stöðuveitinga eru hreint ekki óalgengar, þá geti meira en verið að forseti verði oftar en einu sinni kærður fyrir stöðuveitingar sínar, og þurfi þá að verja hendur sínar fyrir dóm. Og mun það ekki draga úr möguleikum hans á að verða forseti allrar þjóðarinnar?

Þarna eru ýmsar grundvallarspurningar á ferð.

Það væri gaman að kalla hér fram málefnalegar skoðanir á þessu – og ég hvet áhugasama líka til að skoða umræður um þetta á vef stjórnlagaráðs, stjornlagarad.is.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 23.6.2011 - 19:38 - FB ummæli ()

Bjartsýni!!

Fréttablaðið ætti að fá einhver bjartsýnisverðlaun.

Í forsíðufregn í dag er frá þeirri ákvörðun fjárlaganefndar Alþingis að þingið muni hætta að úthluta styrkjum til samtaka, einstaklinga og félaga á næsta ári.

Þessir sérstöku styrkir hafa gjarnan verið notaðir af þingmönnum til að hygla gæluverkefnum í kjördæmum.

Það er því hið besta mál að hætta þessu.

En fyrirsögn Fréttablaðsins er í allra bjartsýnasta formi.

„KJÖRDÆMAPOT UPPRÆTT AF FJÁRLAGANEFND“ segir þar.

Kjördæmpot upprætt?

Æ, vitiði, ég held það þurfi aðeins meira til!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 23.6.2011 - 07:44 - FB ummæli ()

Bláir silkiborðar

Stjórnlagaráð er nú farið að móta tillögur sínar um um endurskoðun á stjórnkerfi landsins. Mér sýnist að tillögur þar að lútandi verði bráðgóðar – skeleggar og mjög til bóta, en valdi þó fæstar einhverjum umbyltingum sem erftitt er að vita til hvers munu leiða.

Nú er verið að spekúlera í hvað eigi að gera við ríkisráð.

Ríkisráð eru fundir ríkisstjórnar með forseta Íslands. Þessir fundir eru haldnir þegar ríkisstjórnir biðjast lausnar eða taka við, en svo er mælt fyrir um tvo formlega ríkisráðsfundi á ári.

Spurningin er hvort á að halda í þessa fundi, og hvers vegna.

Þetta kann að virðast eðlilegur samstarfsvettvangur – þangað til maður fréttir, eins og við í stjórnlagaráðinu gerðum um daginn, hvernig fundirnir fara fram.

Þetta eru fínir hádegisverðir, og látum það nú vera, en fundirnir sjálfir felast í að upp eru lesin í heyranda hljóði öll þau lög sem samþykkt hafa verið frá síðasta ríkisráðsfundi.

Þau eru borin inn á fundinn, upprúlluð með blátt silkiband hnýtt utan um, og innsigli, og svo er lesið í gríð og erg.

Hálfs árs gamlir lagabálkar og jafnvel eldri í sumum tilfellum.

Annað er ekki gert, ef ég skildi lýsinguna á ríkisráðsfundum rétt.

Og kunningi minn sem starfaði í ráðuneyti segir mér að þar sé allt nötrandi síðustu dagana fyrir ríkisráðsfund – er til nóg af bláum silkiborðum? Er búið að strauja þá?

Nú er spurningin, á stjórnlagaráð að halda í þessa stofnun, ríkisráðið?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 21.6.2011 - 13:55 - FB ummæli ()

Barnið sem horfði út í horn

Ég hef verið að reyna að stilla mig um að skrifa um þau hræðilegu mál sem Fréttatíminn birti fyrstur blaða á föstudaginn og aðrir fjölmiðlar hafa svo tekið upp, einn af öðrum, en flestir svolítið hikandi í byrjun.

Enda ekki beint geðslegt mál á ferðinni.

Hryllingshjúin í Landakotsskóla, og kannski fleiri dauðar rottur undir vel ryksuguðu teppi kaþólska söfnuðarins í Reykjavík.

Nú get ég auðvitað ekki fullyrt 100 prósent að allt það sem fram hefur komið í fjölmiðlum um framferði þeirra séra Georgs og Margrétar Möller sé fullkomlega rétt, upp á hvern púnkt og prik.

Ég get ekki fullyrt það – en því miður er ég hins vegar viss um að það er allt meira og minna rétt.

Myndin á púsluspilinu sem er að raðast saman er einfaldlega of sannfærandi til að hægt sé að efast um hana, eða slá hana út af borðinu með einhverju hálfkáki.

Í Landakotsskóla hefur bersýnilega verið helvíti á jörð fyrir sum börnin meðan þessi illfygli léku þar lausum hala.

Og það er það sem mér finnst svo erfitt.

Svo erfitt að sætta mig við.

Auðvitað fyrst og fremst fyrir hönd þeirra barna sem lentu sjálf í þessum hryllingi.

Það er eiginlega varla hægt að hugsa til þess.

En ég er líka reiður fyrir mína eigin hönd.

Haustið 1994 setti ég barn í Landakotsskóla. Í fimm ára bekk.

Það var þá ekki fimm ára bekkur í Austurbæjarskólanum, sem er eiginlega hverfisskólinn okkar, og auk þess höfðum við foreldrarnir alltaf heyrt vel af Landakotsskóla látið.

Þetta væri lítill huggulegur skóli, þar sem börnum væri haldið fast að námi, en líka vel hugsað um þau.

Einhvern veginn svona orð hafði Landakotsskóli þá á sér.

Svo við fórum með litlu stelpuna okkar á hæðina, þar sem skólinn kúrði við hlið kirkjunnar – þetta var skemmtilega gamaldags bygging og meira að segja með svolítinn turn rétt eins og kirkjan.

Og við fréttum að þar byggi ein kennslukonan, Margrét Möller.

Það var óvenjulegt að kennari byggi í skólanum, en jók það ekki bara sjarmann við skólann?

Margrét Möller, við fréttum að hún þætti svolítið ströng, en var það ekki bara í nösunum á henni, hún með þennan fyndna þýska framburð og svona?

Og við fréttum líka að hún ætti til að bjóða krökkunum upp til sín þar sem væru allskonar uppákomur, það þætti frekar fínt að komast þangað.

Svo líklega var hún þá ekkert voðalega ströng eftir allt saman!

Úff – það fer hrollur um mig.

Sem betur fer kenndi þessi hryllingskona ekki henni dóttur minni þann eina vetur sem hún var í Landakotsskóla.

Og stúlkan okkar þurfti ekki mikið að hafa af séra Georg að segja heldur.

Ég hélt framan af – og lem mig nú sundur og saman fyrir glámskyggnina – að séra Georg væri vinalegur karl sem vildi öllum vel. Kannski svolítið skrýtinn í fasi, en brosmildur og frekar góðlegur bara.

Úff – aftur fer um mig hrollur.

Eftir því sem leið á veturinn fór mér að þykja minna til um hann.

Hann var aðeins of sleikjulegur.

Og hann sagði aldrei neitt merkilegt.

Mér var því löngu hætt að líka við hann þegar fór að vora, en samt hvarflaði ekki að mér neitt í líkingu við það sem nú hefur komið í ljós.

Við foreldrarnir verðum auðvitað horfast í augu við algjört dómgreindarleysi, að hafa látið barnið okkar koma nálægt þessum glefsandi skrímslum sem þau reyndust vera.

Um barnið gilti önnur saga.

Hún sá strax í gegnum séra Georg.

Fimm ára gömul sneri hún sér alltaf undan þegar séra Georg bar fyrir augu hennar.

Þegar hann kom inn í bekkinn, einhverra erinda sem skólastjóri, þá sneri hún sér við á stólnum og starði sem fastast út í vegg þangað til hann var farinn aftur.

Það varð engu tauti við hana komið.

Yfirleitt var hún frekar feimin og vildi lítið láta á sér bera, en í þessu tilfelli kostaði hún því til að kennarinn og allir hinir krakkarnir góndu á hana.

Hún ætlaði EKKI að viðurkenna tilveru séra Georgs.

Ekki einu sinni með því að líta á hann.

Ég sá það á honum að honum þótti þetta óþægilegt. Mér fannst það svo sem ekkert skrýtið.

En núna hugsa ég að hann hafi vitað að þarna var komið barn sem sá hvað leyndist undir flírubrosinu og bak við prestskragann.

Og hann skyldi gæta sín.

Þegar til kom varð skólavistin í Landakoti aldrei nema þessi eini vetur.

Því barnið þvertók fyrir að fara þangað aftur.

Hún vildi komast þaðan burt, strax, fara í Austurbæjarskólann og engar refjar.

Og kannski vorum við foreldrarnir loksins farnir að skynja eitthvað óþægilegt á göngum skólans, því við mölduðum ekkert í móinn.

Hún fór bara í Austurbæjarskólann, var þar alla sína tíð og líkaði vel.

En reiðin sem býr í mér – hún snýst fyrst um það af hverju var þessum illfyglum leyft að starfa með börnum svo lengi?

Burtséð frá kynferðisofbeldi, sem virðist hafa tíðkast þarna, en væntanlega í felum, þá virðist hafa verið algjörlega augljóst að þetta fólk átti ekki að koma nálægt börnum.

Af hverju var mér ekki sagt það þegar ég sendi barnið mitt í þennan skóla?

Af hverju vissi ég þetta ekki?

Af hverju höfðu börnin sem höfðu mátt þola hryllingin ekki sagt foreldrum sínum frá því?

Höfðu þau gert það, en foreldrarnir ekki trúað þeim?

Eða höfðu foreldrarnir kosið að hlusta ekki?

Úff!

Hvað með hina kennarana við skólann?

Hver er ábyrgð þeirra?

Þeir hljóta að hafa orðið varir við hvað var á seyði hjá Margréti Möller og séra Georg.

Eineltið, niðurlæginguna, svívirðingarnar, andlegt ofbeldið.

Af hverju sögðu þeir ekki múkk?

Af hverju fékk þetta að viðfangast svona lengi?

Og það sem mikilvægast er, er eitthvað í þessa áttina að viðgangast enn í dag?

Við trúum því auðvitað ekki.

En ég hefði heldur ekki trúað því um Landakotsskóla árið 1994.

Svo nú er tími til að rjúfa þögnina.

Og opna augun.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 19.6.2011 - 16:31 - FB ummæli ()

Vitlaust veður!

Í gær setti ég niður 1260 birkiplöntur við Heklu.

Svo vonaðist ég eftir rigningu.

Þá þarf endilega að koma þessi blússandi sólardagur.

Sextán stiga hiti og heiðskírt á Suðurlandi segir veður.is.

Einhvern tíma hefði maður kosið svona veður, en ekki í dag.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 17.6.2011 - 19:24 - FB ummæli ()

Ákall til tónskálda

„Hei hó jibbí jei og jibbí jei … það er kominn sautjándi júní.“

Þetta lag er, heyrist mér bæði af bæði útvarpinu og sjónvarpinu, orðið hið opinbera þjóðhátíðarlag Íslands.

Nú er vissulega ekki í tísku að biðja um eitthvað of innblásið og þjóðrembulegt, en er samt ekki hægt að búa til eitthvað aaaaaaaðeins skárra en þetta?

Með fullri virðingu, og framvegis.

Ég á við skemmtilegra lag, með betri og ööööörlítið háleitari texta.

Samt ekki eitthvað hátíðlegt – fyrir alla muni.

Bara betra.

Tónskáld Íslands og textahöfundar, hvar eruð þið?!!

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!