Sunnudagur 22.4.2012 - 22:14 - Lokað fyrir ummæli

Hin gagnlitla varnarbarátta!

Líftíma sínum eyða margir í það að sporna gegn eðlilegri þróun byggðar. Flestir sem eiga kost á því og hafa kynnst öðru kjósa að búa á hentugri stöðum en Vestfjörðum. Líftíma sínum eyða margir í það að sporna gegn alþjóðlegri þróun í samstarfi ríkja. Nú eru að renna upp tímar samvinnu og samstarfs í alþjóðamálum.  Enn aðrir eyða líftíma sínum í það að móast gegn eðlilegum breytingum íslenskunnar.  Svo erum við nokkur sem  andæfum gegn augljósri hnignun kristninnar í evrópu. Mikið gæti nú áunnist ef við leggðumst öll á sveif með breytingunum og mótuðum þær í stað þess að liggja í vonlausri vörn og lenda svo undir  skriðu tímans.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 17.4.2012 - 10:05 - Lokað fyrir ummæli

Ógæfuleg afstaða!

Mikilvægasta hlutverk stjórnmálamanna er að halda vel á málum gagnvart öðrum ríkjum.  Fyrirlitlegasta orðræða stjórnmálanna er að tala í þeim anda að allir séu á móti okkur, við séum umkringdir óvinum, aðrir séu að fjandskapast við okkur, níðast á okkur.  Þeir sem ekki séu með hnefann á lofti gagnvart útlöndum séu föðurlandssvikarar, landráðamenn og svo framvegis.  Það er virkilega ógæfulega afstaða og kjánaleg að gera út á það að einber ógn stafi frá nálægum ríkjum og helst sé að leita samstarfsríkja í fjarlægum heimshlutum. Hinn vitri leitar samstarfs og samvinnu við nágranna sína og aflar sér virðingar með stöðugleika og því að vera sjálfum sér samkvæmur.  Slíkum mun vel farnast en öfgatrippinu verður tekið fyrst með kankvísi síðan með pirringi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 16.4.2012 - 08:57 - Lokað fyrir ummæli

Slit viðræðna afleikur aldarinnar

Það yrði snemmkominn afleikur aldarinnar  að hætta við umsókn eða stöðva umsóknarferlið að ESB.  Fyrir utan það að aðild að ESB yrði gæfuspor fyrir Ísland, ekki síst fyrir venjulega launamenn og neytendur og þá sem búa í dreifðum byggðum þá yrði það helber kjánagangur að slíta viðræðum á þeirri forsendu að Evrópa sé okkur fjandsamleg.  Nægur er kjánagangurinn hér innanlands þó við förum ekki að flytja hann út.  Alþjóðastjórnmál eru hagsmunastjórnmál, ekki spurning um ást eða vináttu.  Hlutverk íslenskra stjórnvalda er að koma okkur í þá stöðu að hlustað verði á viðhorf okkar og hagsmunir okkar teknir með í reikninginn. Þeirri stöðu náum við ekki með upphlaupum, óstöðugleika og kjánagangi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 13.4.2012 - 17:06 - Lokað fyrir ummæli

Þóra eða Ólafur: Margskonar er efinn?

Gjaldið sem Samfylkingin greiðir fyir Þóru Arnórsdóttur í forsetastól verður slæmt gengi í næstu kosningum.  Kjósendur munu telja hana nána þeim flokki og munu leita jafnvægis í stjórn landsins með því að kjósa  Sjálfstæðisflokkinn næst.  Með samskonar röksemdafærslu  munu vinstrinflokkarnir fitna á því verði Ólafur endurkjörinn.  Þetta er margsönnuð lýðræðisjafna hér og í Bandaríkjunum svo að tvö stórveldi séu nefnd. Það liggur því alls ekki ljóst fyrir hvað er best að kjósa vilji menn hafa áhrif á stjórn landsins með  atkvæði sinu og gildir  það jafnt um  vinstri og hægri menn.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 9.4.2012 - 10:14 - Lokað fyrir ummæli

Að vakna upp í blómabrekku!

Jóhannesarguðspjall er skrifað í borg í Litlu Asíu og það er greiniegt að það er skrifað í andlegu umsátri óvinveittra.  Sverðið hangir yfir frásögninni sem er hröð.  Æðrist ekki þó að heimurinn hati yður.  Prédikun biskups á páskadag ber sama keim.  Hún er greinilega rituð í óvinsamlegu um hverfi eða slík er upplifun prédikarans.  Sem er í hópi ágætustu prédikara samtímans þegar honum tekst vel upp.

Nú er það svo að orðbragðið í kommenterakerfi vefsíðna særir hvern  þann sem ann kirkjunni og hennar boðskap. Þar hefði margt mátt segja af meiri íhygli og yfirvegun. Bæði af virðingu fyrir fólkinu sem starfar í kirkjunni og líka bara út frá almennum meðalhófsreglum í orðfæri.  En þetta á sér auðvitað skýringar í því að það er svo auðvelt að láta gossa í bloggheimum, það er áhættulaust með öllu að níðast á kirkjunni og fá útrás við það fyrir sínar eigin frústrasjónir.

Svo er það auðvitað svo að kirkjan á sína djöfla sem hún hefur þurft að draga en hún hefur kófsveitt verið að vinna að því að skera þá burt undanfarin 17 ár og hefur nú betri farvegi í kynferðisbrotamálum en títt er.  Þá er kirkjan almennt talað umburðarlynd og víðsýn. 

Enda er það svo að kirkjan býr ekki við fjandskap þjóðarinnar.  Alls ekki.  Krakkar eru upp til hópa allir skírðir og fermdir.  Prestarnir eru flestir vel liðnir.  Það er frekar að kirkjan búi við áhugaleysi. Heimurinn hefur breyst svo mikið undanfarna áratugi að ekkert sem áður var í föstum skorðum hefur haldist í þeim skorðum. Þar með talin trú manna.  Hún hefur gjörbreyst.

Ég held að fólk hafi trúað meir og betur á líf eftir dauðann hér áður fyrr.  Menn þurfa á  því að halda þegar dánartíðni er há, sérstaklega barna.  Þegar hú er lág, mjög lág dofnar trúin. Ekki síst þegar vísindin hafa eyðilagt hina notalegu, góðu, skipulegu heimsmynd sem fyrri tíðar menn bjuggu við.  Það er löngu orðið ljóst að við fljúgum hér um á grjóti í óravíddum sem mannsheilinn nemur ekki og í prédikun  okkar er Guðekki lengu í skýjum himins heldur  heimilisfastur í hjörtum mannanna, í góðum nágranna, jafnvel í garðslöngunni.

Spírítisminn er dauður.  Sú yndæla tilfinning að við hoppuðum milli hnatta og sérstakar Íslendinganýlendur væru í heimum dauðra er ekki lengur til staðar.   Það er búið að útrýma því að maður vakni upp í blómabrekku, eigi þar sitt eigið hús og bíði eftir sínum.

Og við erum of vel lesin til þess að trúa bara Biblíunni bókstaflega. Að Guð hafi skapað heiminn á sex dögum. Heilagur andi hafi átt barn með Maríu og að á dómsdegi rísi dauðir úr gröfum sínum, hafið skili sínu og þeir sem ekki hafi játast Kristi þeim verði hent í eldinn.  Meðan við bíðum eftir þessu getum við alið á gömlum fordómum, þjösnast á hommum og gætt þess að konur verði ekki biskupar og helst ekki prestar.

Með öðrum orðum.  Ég og biskupinn lifum ekki í heimi sem er okkur fjandsamlegur. En hann er orðinn fremur áhugalaus um hefðbundna trú.  Kirkjan er þó ekki búin að vera frekar en trúin þó ég sjái það nú ekki fyrir mér að við myndum fara í stríð út af henni.  Kannski bara að það sé þroskamerki. Að við séum á braut sem Jesú Kristur hratt af stað að losa okkur undan hvers kyns lögmáli, kreddum og fáránlegheitum.

(Þetta er svo bara bloggfærsla en ekki endanleg grafskrift höfundar)

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 8.4.2012 - 08:20 - Lokað fyrir ummæli

Hugleiðing á páskadagsmorgni!

,,Jesú er upprisinn, hann er svo sannarlega upprisinn.  Hann fer á undan yður til Galíleu og þar munuð þér sjá hann…..“

Hann er búinn að vera í  dánarheimi síðan á föstudag, en þá var hann krossfestur en það var aftökuaðferð Rómverja.  Menn voru negldir upp á kross í gegnum úlnliðina, þetta var alvöru og þar héngu  menn í 2-6 tíma þá sliguðust þeir þ.e. gátu ekki haldið sér uppi og köfnuðu – ógeðsleg aðferð –  þarna hengu menn og gátu horft á grátandi börnin sín og maka þar til þeir misstu meðvitund.  Gyðingar gerðu uppreisn með ca. 60 ára millibili og þá krossfestu Rómverjar nokkur þúsund manns að börnum ásjáandi.  Þau börn gerðu ekki uppreisn en barnabörnin höfðu ekki séð þetta og sú kynslóð hélt að hún gæti unnið Rómverjana og lét krossfesta sig.  Það var mikið um krossfestingar um þetta leyti, menn voru búnir að gleynma krossfestingunum sem voru ca. 57 fyrir Krist og héldu að þeir gætu staðið upp í hárinu á Rómverjum.

Annars var Jesú sérstakur enda var hann krossfestur með tveimur búðarþjófum en menn hafa alltaf tekið mjög strangt á smáhnupli en sleppt stórþjófunum, jafnvel gert bandalag við þá. Með réttu hefði hann átt að krossfestast ásamt allri miðstjórninni, lærisveinunum 12 sem  sagt, en hann var sérstakur eins og ég sagði, þeir báru ekki vopn (þó skar Pétur eyrað af einum Rómverskum hermanni en Jesú græddi það strax á aftur) og Jesú sagði að ríkið sitt væri ekki af þessum heimi.  Rómverjarnir litu því ekki á hann sem neina sérstaka ógn eins og kemur fram en það gerðu leiðtogar trúarasafnaðarins.  Þeir  vildu próflausa menn feiga sem ógnuðu veldi kirkjunnar og fengu hann dæmdan en þeim stóð engin ógn af lærisveinunum sem þeir vissu að voru bara venjulegir menn utan af landi sem létu sig í þokkabót hverfa í mannfjöldann og Pétur sem hefur verið stór og skeggjaður og gat illa leynst neitaði því staðfastlega að hann hefði nokkuð vitað um þennan mann sem búið var að taka til fanga.

Að Jesú skyldi rísa upp frá dauðum, eins og haft var fyrir satt,  töldu menn sanna staðhæfingu hans að hann væri Guðs sonur og sáu nú allt sem hann hafði sagt í nýju ljósi.  Þeir sannfærðust um að hann hefði yfirunnið dauðann og að hér eftir myndu þeir sem ,,sofnuðu“ njóta þess og fara þangað sem hann fór. Enn í dag huggum við okkur við það.

Það er fyrst og fremst það sem við eigum við með von páskanna.  En við yfirfærum vonina líka yfir á veröldina sem við þekkjum.  Við tölum um upprisuna í lífinu. Fyrst að Jesú gat risið upp frá dauðum hljótum við að geta risið upp eftir að hafa misst ástvin eða orðið fyrir áfalli af einhverjum toga.  Við prédikum það að alltaf sé ljós við sjónarrönd,  ætíð  vonarglæta, aldrei ástæða til að gefast upp.  Þetta eigi við í stóru sem smáu.

Þarna má tala um jákvæð áhrif kristinnar trúar. Vonin sem auvitað er ekki sérkristin, heldur sameiginleg öllu lífi,  dýrin vona ekkert síður en við, bjarndýrið heldur áfram að leita að sel fram í rauðan dauðann og selurinn reynir að komast undan þó öll sund virðist lokuð.  En kristnin hefur lagt áherslu á þessa von og talið hana til grunngilda sinna ásamt trú og kærleika. Þessi brýning kristninnar hefur örugglega gert mörgum manninum gott.  Margir hafa fyrir þessa brýningu yfirstigið ótrúlegustu erfiðleika.

Án vonar erum við vonlaus eðlilega og einhvern veginn leggjum við upp laupana. Við t.d. jöfnum ekki körfuboltaleik ef við höfum ekki von.  Vonin er drifkraftur. Kynslóðir lifa fyrir vonina um bætt kjör, minna strit og meiri mat betri aðbúnað þó að hið góða líf  hafi alltaf verið bara fyrir fáa. Í því stóra samhengi má segja að von sé haldið að fólki til þess að halda því góðu. Það myndi vera fölsk von.

Svo leggur prédikun kirkjunnar líka mikið upp úr því að allt verði nýtt. Hægt sé að slá striki yfir þaðsem orðið er og hefja nýtt líf. Skilja eftir illsku og vonsku og vopna sig hreinleika og sannleika.  Kristur varð nýr.  Hann dó alveg en reis síðan upp þá getum við í lífinu látið hinn gamla mann okkar deyja og orðið ný.  Þannig reynum við sem fæðumst inn í hið kristna umhverfi að nýta okkur sögu Krists til þess að uppbyggja hvort annað og okkur sjálf.

Og við skulum halda áfram að gera það, vera vonglöð og jákvæð, vona hið besta. Staðan er aldrei það slæm að ekki sé von hvort sem er í leik eða lífinu sjálfu.  Það sakar alltjent ekki að vona hið besta.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 3.4.2012 - 08:55 - Lokað fyrir ummæli

Rétturinn til mismununarleysis!

Fólk á að halda fram réttinum til mismununarleysis. Í því felst að sérhver manneskja á óskoraðan rétt á því að henni sé ekki mismunað af nokkurri ómálefnalegri ástæðu. (Kyn gæti verið málefnaleg ástæða þegar ráðinn er baðvörður). Þetta á ekki bara við um ríki eða sveitarfélög heldur hvern þann sem annast hvers konar þjónustu við almenning  hvort sem er leyfi til að gifta eða reka skemmtistað.  Þetta á við á öllum sviðum. Rétturinn til mismununarleysis á við um  húsnæði, atvinnu, menntun, heilbrigðisþjónustu o.s.frv.  Mannréttindasinnuð íslensk stjórnvöld ættu að innleiða samningsviðauka númer 12 við mannréttindasáttmála evrópu til þess að tryggja rétt Íslendinga til mismununarleysis.

Ekki síst út af  nýjustu tíðindum af launamisrétti.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 31.3.2012 - 23:32 - Lokað fyrir ummæli

Að gifta með góðri samvisku!

Það segir sig nokkuð sjálft að aðeins tímaspursmál er hve lengi prestum og yfirleitt þeim sem framkvæma opinberar athafnir eða annast einhvers konar þjónustu líðst að mismuna fólki eftir kynhneigð.  Þetta sér meirihluti Dana og þetta sjá í raun og veru allir sem hugsa málið.  Röksemdir eins og þær að trúaratriði sé að mismuna megi fólki eftir kynhneigð, það sé félagslegt atriði eða partur af þjóðarsál eða kirkjuvenju að vísa megi fólki frá vegna kynhneigðar halda auðvitað ekki vatni og eru yfirleitt settar fram til að vinna tíma.  Kirkjan ætti auðvitað að taka af skarið sjálf  og sýna að hún giftir ekki samkynhneigt fólk með hangandi hendi, allir þjónar hennar geri það með sama geði og um gagnkynhneigt fólk væri að ræða eða leyni lund sinni ella.

Samkynhneigt fólk er víða ofsótt og drepið í veröldinni. Það líður fordóma hér á landi. Að tala um þjónustu við það sem samviskuspursmál elur á þeim fordómum.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 29.3.2012 - 15:15 - Lokað fyrir ummæli

Kirkja í krísu?

Kirkjan er í skrítinni stöðu.  Það er bæði vinningsstaða og tapstaða.  Nýr biskup er í Skálholti, nýr biskup verður kosinn að Hólum seinna á þessu ári og þessa dagana eru prestar og sóknarnefndarformann að kjósa nýjan höfuðbiskup.  Þá bregður svo við að forseti kirkjuþings, maður sem hafði mikil áhrif auk beinna valda, dregur sig í hlé af veikindaástæðum. Kirkjan kemur því til með að lúta fjórum nýjum kirkjuleiðtogum og missa samsvarandi fjóra reynda af toppnum.

Oní þetta má nefna að mikil uppstokkun hefur verið í gangi í kirkjunni. Völd hafa verið færð til leikmanna, prófasstdæmi hafa verið stækkuð sem þýðir að margir prófastar eru nýir.  Kirkjan er í lausari tengslum við ríkið en alltaf áður.  Fjárhagur hennar er mjög erfiður.  Það eina  sem er í lagi að innan hennar starfa margir reyndir og góðir prestar eins og ég. (innskot: átti að vera humor).

En í þessu eru tækifæri. Það er með öðrum orðum verið að skipta alveg um yfirmenn og þá er hægt að breyta kúrs. Fólk verður bara að passa sig á því að kjósa til forystu fólk með leiðtogahæfileika. Manneskjur með góðar hugmyndir sem líklegt er til þess að leiða kirkjuna í samvinnu við þá sem fyrir eru á móts við nýja tíma.

Leiðtogar af gamla skólanum erus em betur fer fyrir bí en samt þurfum við á vissri forystu að halda og málssvara. Nýir biskupar þurfa eins og nýi biskupinn í Skálholti að hafa við bestu heilum samtíðar í rökræðu um lífið og kristindóm, heiðindóm og hvaðeina.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 28.3.2012 - 19:11 - Lokað fyrir ummæli

Eftirsjá af Pétri Kr. Hafstein

Það  er áfall fyrir kirkjuna að missa Pétur Kr. Hafstein úr stöðu forseta Kirkjuþings sem er lykilstaða í kirkju sem er að fóta sig í sjálfstæðisátt í heimi  sem er kirkju ekki alltaf auðveldur.

Pétur þessi silkmjúki, vel klæddi fyrrum hæstaréttardómari stjórnaði Kirkjuþingi af viti og víðsýni  og enginn hafði neitt í hann á heimavelli hans, heimi laga, reglugerða og fundarskapa. En hæfileiki hans til að leiða mál til lykta vó þó þyngst og hann hafði áhrif langt umfram stöðu sína. Sannkallaður kirkjuhöfðingi Pétur Kr. Hafstein og vonandi eigum við Sunnlendingar eftir að njóta krafta hans og hans ágætu konu sem lengst en saman hafa þau rekið menningarhús á Stokkalæk í Rangárvallasýslu.

Ekki kem ég auga á neinn Kirkjuþingsmann sem gæti fyllt skarð það sem Pétur skilur eftir sig og undirritaður gefur ekki kost á sér til starfans.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur