Mánudagur 28.2.2011 - 15:41 - 8 ummæli

Vandlega skipað þar hvert sæti meðaljónum!

Álitsgjöfum mistekst oft að skýra ástæður breyttrar stjórnskipunar sem Ólafur Ragnar Grímsson er nefndur höfundur að.  Þær rista dýpra en svo að hægt sé að útskýra með einum manni, þó þær verði  í valdatíð hans.  Heimurinn hefur breyst hratt  undanfarna áratugi, þó ekki íslensk stjórnskipun og íslensk stjórnmálahefð.  Þess vegna þvingast breytingar fram.  Fólk breytist, er öðruvísi en áður.  Vill ráða meiru.  Er upplýstara. Er ekki jafn sauðtryggt flokkum og áður.  Einkum á þetta við í þéttbýli.  Dreifbýlið er alltaf á eftir.   Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson hröðuðu þessari þróun þegar þeir fóru í Íraksstríðið, sömdu fjölmiðlalög, leyfðu framsal kvóta og seldu bankana með sínum hætti. Tóku sér völd sem þeir áttu ekki að hafa.  Komu upp um sig.  Reyndust bara venjulegir strákar, engir leiðtogar, hvað þá vitringar.  Samt áttu þeir sína hjörð í þingflokkum sínum.  Vandlega skipað þar hvert sæti meðaljónum.  Þeir Halldór og Davíð reyndust vanhæfir í að lesa tímana og hröktust burtu.  Svo kom hrun og búsáhaldabylting og hraðar ferlinu enn.  Í þetta kunna ekki að lesa nógu vel Steingrímur og Jóhanna, því miður eins og margt sem þau gera er nú góðra gjalda vert.  En það kann doktorinn á Bessastöðum öðrum betur.  Hann gerir sér grein fyrir því að nú eru aðrir tímar, annað fólk.  Fyrst að Alþingi hefur ekki burði til að breyta stjórnarskrá og koma á opnara lýðræði sér hann um það sjálfur. Með því að túlka stjórnarskrá með nýjum hætti.  Hann ýtir undir það að skilningur á henni þróast. Kannski er það eina aðferðin við að breyta stjórnarskrá.  Að öðru jöfnu sjá dómstólar um að endurtúlka grunnreglur eins og t.d. í Bandaríkjunum.  Hér hafa lögfræðingar yfirleitt ekki farið í framhaldsnám og halda að lagatúlkun sé bókstafleg. Við Þessar aðstæður dregur Ólafur Ragnar að sér völd.  Sá eini sem les tímana rétt af þeim sem geta haft markverð áhrif.  Álitsgjafar ná vart að hugsa lengra en hvað hefði Kristján Eldjárn gert eða Vigdís.  Það er samanburður sem leiðir ekki til neins.  Nýir tímar hafa kallað fram nýja menn. Vilji tímans brýst fram með einum eða öðrum hætti.  Ef ekki gegnum Alþingi eða dómstóla þá í gegnum forseta.  Ef hvergi, þá endar allt í upplausn.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 26.2.2011 - 12:27 - 12 ummæli

Staðgöngumæðrun samrýmist ekki mannréttindasjónarmiðum

Fyrir Alþingi liggur nú þingsályktunartillaga um staðgöngumæðrun.  Flestir umsagnaraðilar eru sammála um að  slík mæðrun sé ekki mjðg heppilegt fyrirbrigði.  Hér er slóð að áliti Þjóðmálanefndar Þjóðkirkjunnar en hún er samin af undirrituðum, Sóveigu Önnu Bóasdóttur og Irmu Sjöfn Óskarsdóttur. Niðurstaðan er sú að staðgöngumæðrun sé siðferðilega hæpin og samrýmist ekki mannréttindasjónarmiðum.  http://www.althingi.is/pdf/umsogn.php4?lthing=139&malnr=310&dbnr=1411&nefnd=h

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 25.2.2011 - 15:49 - 2 ummæli

Höfnin – pistill a la Jónas Kristjánsson

Ég er að verða undarlega líkur Jónasi Kristjánssyni.  Borðaði á Höfninni í gær rétt dagsins lax í kúsk-kúsk. Matreiðslumeistarinn Logi Brynjarsson er greinilega efnilegur kokkur.  Í fyrsta sinn borðaði ég lax sem ekki var ofeldaður, hugsaði um það allan tímann hvað hann væri mátulega eldaður,  ekki of mikið, ekki of lítið. Verðið með gómsætri blaðlaukssúpu 1680 krónur.  Samferðafólk mitt var líka ánægt – sérstaklega börnin sem fengu franskar í stafaformi. Átu stafina í stað þess að læra þá, líkaði það betur. Útifyrir rugguðu bátar og trillur. Hafnarstemning. Þetta minnti mig á Main, strandfylkið í Ameríku upp með ströndinni norður af Boston.  Í miðri máltíð lagði trillukarl Hiluxinum sínumsmástund  fyrir gluggann þar sem bannað er að leggja. Langaði til að gefa honum puttann þegar hann fór en stillti mig.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 25.2.2011 - 09:47 - 10 ummæli

ESB: Þá verður gaman að lifa….!

Eitt það augljósasta við ESB inngöngu er að kjör alls almennings munu batna.  Verð á matvælum mun lækka og framboðið verður miklu fjölbreyttara (hvar gróf menntamálaráðherra upp þennan aðstoðarmann sinn- hann hefur kannski verið grafinn upp i orðsins fyllstu merkingu?).  Kannski verður hægt að fá mjólkurafurðir án eitur sætuefna.  Þá verður gaman að lifa (Lára mín).  Þá förum við út í búð, ég og konan, og kaupum hollenska osta, danskar svíanlundir og spánska skinku og á ferðum okkar erlendis gæðum við okkur á íslensku lambakjöti og dísætu skyri sem hefur lagt undir sig evrópumarkaðinn.  Verst hvað maður er orðinn andskoti gamall.  Sennilega of seinn til að fá vinnu í Brussel.  Verð að láta mér nægja að vera byrði á skattborgurum í núverandi embætti, embætti ríkisklerks eins og þeir orða það svo virðulega vantrúarmenn.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 23.2.2011 - 08:57 - 13 ummæli

Slétt sama um menningararfinn!

Það sem skólinn hefur ekki tekið upp á arma sína fer meira og minna forgörðum.   Fjölskyldan er vart lengur virk sem uppeldisstofnun.  Skólinn hætti að gera við tennur barna og frá því að vera best tenntust urðu íslensk börn verst tenntust.  Ef skólinn hætti að kenna sund yrðu íslendingar illa syndir á einni kynslóð.  Skólinn kennir lítið um kynþáttafordóma. Grunnt er á slíkum fordómum hjá æsku þessa lands.  það er rétt mat hjá Siðmennt að aftengja trú og skóla, þar með verða íslendingar trúlausir fyrr en varir.  Fjölskyldan er hætt að virka.  Bæði börn og fullorðnir eru lítt upp alin. Það er sama hvort að fólk vinnur frá morgni til kvölds, eins og flestir verða að gera, eða ekki.  Uppeldisstörf eru víkjandi. Við ásælumst peninga foreldranna, en stendur slétt sama um menningararf okkar.  I padinn og Ipodinn verða helstu barnapíurnar.  Börnin öskra upp úr miðjum nætursvefni. ,,Ég skal drepa þig.“  Eru þá í miðjum tölvuleik gærdagsins.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 22.2.2011 - 10:58 - 10 ummæli

Sætuefni í mjólkurvörum!?

Fyrrum kollegi, blaðamaður og fyrrum talsmaður Flugleiða, nú Mjólkursamsölunnar, Einar Sigurðsson, sagði að markaðurinn vildi sætuefni og sykur í mjólkurvörur.  Sjálfsagt hefur hann rétt fyrir sér. Markaðurinn er sjáldnast gáfaður. Mín vitbók segir að sætuefni sé krabbameinsvaldandi efni.  Það er í svo litlum mæli segja menn. Þannig er það: Allt er í svo litlum mæli.  Þess vegna hrúga menn gúmmídekkjakurli á sparkvelli barna, setja sætuefni í skyrið, litarefni í reykt kjötið og nammið.  Brenna sporp svo leggur yfir byggðir.  Allt er í svo litlum mæli að það kemur ekki að sök. Og við  seljum tóbak í matvöruverslunum.   Á meðan deyr fjórði hver úr krabbameini yfirleitt eftir þjáningarfullt og erfitt ferli.  það er eins og við sættum okkur við þetta eins og við sættum okkur við bílslysin.  Hvernig væri að skera upp herör gegn öllum þeim efnum í umhverfi og í matvælum sem mögulega geta verið krabbameinsvaldandi.  Veita auknu fé í krabbameinsrannsóknir og bæta aðstöðu þeirra sem berjast á þessum vígstöðvum.  Hér er smæð okkar styrkur. Hér gætum við orðið í farabroddi. Hér gætum við bjargað mannslífum. Aukið lífsgæði margra.  Snaraukið hamingju.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 21.2.2011 - 11:09 - 7 ummæli

Fulltrúalýðræðið mistekist?

Má vera að fulltrúalýðræðið gangi upp í öðrum löndum en á Íslandi hefur það mistekist.  Sá sem er í vafa ætti að horfa á alþingisrásina milli 14 og 16 einhvern daginn þegar þing er.  þarna er fólk í skotgröfum með úrelta umræðutækni, alið upp í flokkshollustu, gírað niður í fjórar deildir sem meira og minna hatast við hverja aðra (svo er Þór Saari með messíasarkomplex).  það er kominn tími til þess einfaldlega að þjóðin skipti sér meira af löggjarstörfum.  Að því leitinu til er forsetinn á réttri braut.

Við eigum að hugsa þetta upp á nýtt.  Hanna kerfi þar sem þjóðin hefur síðasta orðið í öllum mikilvægum málum.  Alþingi á að vera umræðu og upplýsingatorg.  Vissulega á að kjósa þar inn fólk en ekki til að rífast og hanga í þeirri fornöld að vera Framsóknarmenn eða Vinstri grænir heldur til þess að vera leiðandi umræðustjórar.  þannig fari siðferðileg álitamál í tiltekinn farveg, efnahagsmál í annan farveg, milliríkjasamningar í þann þriðja o.s.frv. Stofnuð verði sérstök deild þar sem kjánar geta rifist um ,,fundarstjórn forseta“ án þess að það skaði þjóðina. Þjóðin hafi alltaf síðasta orðið eftir tilteknum reglum.

Ég útfæri þetta nánar síðar en við erum barnalega föst í því sem var.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 20.2.2011 - 21:23 - 3 ummæli

Þjóð á að ráða sér sjálf!

Mér finnst ákvörðun forsetans rökrétt og skynsamleg.  Þjóð á að ráða sér sjálf.  Það á hvorki að hafa vit fyrir heimskum þjóðum eða hafa vitið af vitrum þjóðum. Nú er bara að segja Já í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Nú reynir á.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 19.2.2011 - 16:58 - 6 ummæli

Fáum enska útgáfu af þjóðsöngnum!

Fallegt að heyra íslenska þjóðsönginn sunginn við upphaf bikarúrslitaleiks Grindavíkur og KR í körfuknattleik sem sýndur er nú í sjónvarpi.  Gaman í framhaldi af því að heyra að þjálfararnir báðir notuðu ensku þegar þeir töluðu við leikmenn sína í leikpásum þeim sem teknar eru í þessum leik.  Ég er hræddur um að ýmsir myndu snúa sér við í gröfinni ef þeir væru dauðir.  Hvenær kemur að því að við fáum enska útgáfu af þjóðsöngnum svona svo að allir megi skilja……!

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 18.2.2011 - 11:10 - 2 ummæli

,,Gömul vinnukona“ gaf orgel!

Var í svefnrofunum að hlýða á öndvegis samantekt um Björgvin Guðmundsson tónskáld sem uppi var í byrjun síðustu aldar og fór til Vesturheims en Íslendingar flýja þetta átaka og miréttis sker með reglulegu millibili og ekki að ástæðulausu.  Lesið var upp úr samtímasögum og ævisögum og fjöldi manna nafngreindur sem höfðu lagt gott eða illt til í sögu þessa snillings. Ein manneska virðist bera af í gæðum.  Gömul vinnukona kom á uppvaxtarbæ Björgvins og gaf ævisparnað sinn til þess að hægt væri að kaupa orgel handa hinum unga efnilega dreng.  Þetta var lesið upp úr gamalli bók.  Svona eru nú blessaðar fátæku konurnar hafðar nafnlausar í sögunni þó að þær séu hvað merkilegastar eins og tengdamóðir Péturs í Biblíunni sem hlúði að þeim en er ekki nafngreind þó taldir séu upp allir þeir karlar sem nutu góðs af.  Hver skyldi hún annars hafa verið þessi gamla vinnukona? Getur ekki einhver grafið það upp og borið þetta hugarfar saman við tja segjum hugarfar sjálfhverfra afskrifaðra manna nútímans sem tyllt var a efstu sillu og gáfu vissulega gjafir sem þeir að vísu áttu ekki en pössuðu upp á það að þeirra sjálfra væri kyrfilega getið.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur