Álitsgjöfum mistekst oft að skýra ástæður breyttrar stjórnskipunar sem Ólafur Ragnar Grímsson er nefndur höfundur að. Þær rista dýpra en svo að hægt sé að útskýra með einum manni, þó þær verði í valdatíð hans. Heimurinn hefur breyst hratt undanfarna áratugi, þó ekki íslensk stjórnskipun og íslensk stjórnmálahefð. Þess vegna þvingast breytingar fram. Fólk breytist, er öðruvísi en áður. Vill ráða meiru. Er upplýstara. Er ekki jafn sauðtryggt flokkum og áður. Einkum á þetta við í þéttbýli. Dreifbýlið er alltaf á eftir. Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson hröðuðu þessari þróun þegar þeir fóru í Íraksstríðið, sömdu fjölmiðlalög, leyfðu framsal kvóta og seldu bankana með sínum hætti. Tóku sér völd sem þeir áttu ekki að hafa. Komu upp um sig. Reyndust bara venjulegir strákar, engir leiðtogar, hvað þá vitringar. Samt áttu þeir sína hjörð í þingflokkum sínum. Vandlega skipað þar hvert sæti meðaljónum. Þeir Halldór og Davíð reyndust vanhæfir í að lesa tímana og hröktust burtu. Svo kom hrun og búsáhaldabylting og hraðar ferlinu enn. Í þetta kunna ekki að lesa nógu vel Steingrímur og Jóhanna, því miður eins og margt sem þau gera er nú góðra gjalda vert. En það kann doktorinn á Bessastöðum öðrum betur. Hann gerir sér grein fyrir því að nú eru aðrir tímar, annað fólk. Fyrst að Alþingi hefur ekki burði til að breyta stjórnarskrá og koma á opnara lýðræði sér hann um það sjálfur. Með því að túlka stjórnarskrá með nýjum hætti. Hann ýtir undir það að skilningur á henni þróast. Kannski er það eina aðferðin við að breyta stjórnarskrá. Að öðru jöfnu sjá dómstólar um að endurtúlka grunnreglur eins og t.d. í Bandaríkjunum. Hér hafa lögfræðingar yfirleitt ekki farið í framhaldsnám og halda að lagatúlkun sé bókstafleg. Við Þessar aðstæður dregur Ólafur Ragnar að sér völd. Sá eini sem les tímana rétt af þeim sem geta haft markverð áhrif. Álitsgjafar ná vart að hugsa lengra en hvað hefði Kristján Eldjárn gert eða Vigdís. Það er samanburður sem leiðir ekki til neins. Nýir tímar hafa kallað fram nýja menn. Vilji tímans brýst fram með einum eða öðrum hætti. Ef ekki gegnum Alþingi eða dómstóla þá í gegnum forseta. Ef hvergi, þá endar allt í upplausn.