Laugardagur 8.3.2014 - 21:24 - FB ummæli ()

Vill maður búa á Íslandi?

Ekki veit ég hvernig það gat gerst að mál kólumbísku kvennanna, sem Útlendingastofnun vill vísa úr landi, gat komist svo langt að nú er búið að úrskurða að þær skuli fluttar burt „svo fljótt sem auðið verður“ eða hvernig sem það er orðað.

Sjá hér.

Það þarf greinilega að gera ærlegan skurk hjá Útlendingastofnun og sömuleiðis hjá þeim ráðherra sem stofnunin sækir vald sitt til, en það er Hanna Birna Kristjánsdóttir.

En hitt veit ég að ef staðið verður við þennan úrskurð, þá er Ísland ekki lengur land sem ég vil búa í.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.3.2014 - 09:44 - FB ummæli ()

Ha, Willum Þór? Ha, Valgerður Gunnarsdóttir?

Ríkisstjórnin ætlar að hunsa gjörsamlega vilja þjóðarinnar í ESB-málinu.

Þann vilja að þjóðin fái sjálf að taka afstöðu til eins brýnasta hagsmunamáls hennar.

Það er í raun fáránlegt að segja þetta.

Að það sé eitthvað vafamál að þjóðin FÁI að ákveða þetta sjálf, allra náðarsamlegast.

Og í staðinn fyrir að lúta einfaldlega vilja stórs meirihluta þjóðarinnar, þá er farið undan með undarbrögðum, svikum, lygum.

Það verður að koma vitinu fyrir ríkisstjórnina, sýna henni fram á að þannig haga sér ekki þeir sem hafa fengið tímabundna ráðningu í æðstu stöður í landinu.

Vilja óbreyttir þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins fá þá umsögn þegar þeir hverfa af þingi – að þeir hafi orðalaust tekið þátt í einhverjum allra mesta yfirgangi og altént allra mestum svikum íslenskrar stjórnmálasögu?

Ha, Willum Þór Þórsson?

Var það til þess sem þú bauðst þig fram á Alþingi?

Ha, Valgerður Gunnarsdóttir?

Ert þú líka sammála líka að þjóðin fái engu að ráða, þvert oní kosningaloforð og þvert oní skýran vilja þjóðarinnar samkvæmt skoðanakönnunum?

Þetta er dapurlegt.

En höldum áfram að lýsa vilja okkar – það er fundur á Austurvelli klukkan þrjú í dag, og svo eiga sumir eftir að skrifa undir hérna.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 6.3.2014 - 20:21 - FB ummæli ()

Eiga þeir það skilið?

Hvort sem menn hneigjast til að vera fyrirfram hlynntir aðild að ESB eða ekki, þá ættu allir að geta verið sammála um að þetta hér sé mergurinn málsins:

Það getur haft vond áhrif að slíta formlega viðræðum við ESB. Hversu vond þau áhrif verða eða gætu orðið, það vitum við ekki fyllilega.

Þótt fjölmargir hafi reynt að sýna ríkisstjórninni fram á það.

Formleg slit á viðræðum munu hins vegar gleðja fáeina af allra mestu andstæðingum ESB á Íslandi – þann hóp sem lætur sig einu gilda hvort við gætum haft hag af ESB-aðild, því þeim er mikilvægara að „halda árunni hreinni“.

En við hin munum ekki græða neitt á því að slíta nú viðræðunum.

Ekki við sem þjóð. Við munum ekki græða neitt.

Af hverju ættum við þá að gera það fyrir þessa fáeinu hreinlífismenn?

Hafa þeir gert okkur þvílíkt gagn að þeir eigi skilið að við skellum dyrum á Evrópu bara svo þeim líði betur?

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 5.3.2014 - 08:37 - FB ummæli ()

Ómerkilegur spuni

Forráðamenn ríkisstjórnarinnar halda áfram sínu auma yfirklóri út af þjóðaratkvæðagreiðslunni sem þeir eru að reyna að svíkja þjóðina um.

Nú segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson „ekki loku fyrir það skotið“ að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við ESB en með því skilyrði að stjórnarskránni verði fyrst breytt.

Þetta hefur spunameisturum Sigmundar Davíðs og Bjarna Benediktssonar örugglega þótt alveg ferlega sneddí hjá sér.

Með þessu mætti stinga upp í pakkið.

Sérstaklega í ljósi þess að þeir eru búnir að setja Sigurð Líndal yfir nýja stjórnarskrárnefnd.

Það þýðir að stjórnarskránni verður breytt árið 2748.

En auðvitað er þetta spuni og ekkert nema spuni.

Það þarf ekkert að breyta stjórnarskránni.

Og þeir lofuðu þjóðaratkvæðagreiðslu – alveg óháð stjórnarskránni – og þeir eiga að standa við orð sín.

Annars eru þeir ómerkilegir lygarar og svikaþrjótar og hafa ekkert að gera í æðstu embættum þjóðarinnar.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 3.3.2014 - 16:33 - FB ummæli ()

Getraun dagsins

Allt frá fyrsta degi ríkisstjórnarinnar (nánast) þegar gjöldum var létt af sægreifum en Sigmundur Davíð sakaði blaðamenn um loftárásir, og gegnum „leiðréttinguna“ sem enginn hefur enn haft frekari spurnir af, og allt fram á daginn í dag þegar sjálfstæðismenn liggja í greni sínu, illa særðir af eigin svikum, en Gunnar Bragi stikar um með hroka og ritskoðunartilburðum – getur þá einhver bent mér á eitthvert gagn sem þessi ríkisstjórn hefur gert þjóð sinni?

Bara eitthvað?

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 2.3.2014 - 14:17 - FB ummæli ()

Sigurður Pálsson: Svik eru svik eru svik

Sigurður Pálsson hélt frábæra ræðu á Austurvelli í gær. Mín ræða og Margrétar Guðmundsdóttur eru komnar á kreik á netinu, en ég hef ekki séð ræðu Sigurðar þar ennþá. Ég tek mér því það bessaleyfi að birta hana hér:

Sigurður Pálsson

Ræða á Austurvelli, 1. mars 2014

 

Ágætu fundarmenn!

 

Galdur

 

Galdur

sá galdur

að treysta lífinu:

já: lífinu

betur en dauðanum.

*

Sá duldi galdur

að vera hollur

hamingju sinni.

*

Sá örðugi galdur

að vera ekki einusinni

óvinur sjálfs sín.

*

Nei

hógvær galdur

og óbrotinn

og á allra færi.

[…]

 

Þetta er upphafið að lengra ljóði eftir Sigfús Daðason, skáldið sem orti: Hvað sem öðru líður vil ég biðja menn / að fara varlega með orð / þau geta sprungið / og þó er hitt öllu hættulegra / það getur vöknað í púðrinu…

Fyrir nákvæmlega viku greip mig nístandi tilfinning að vakna upp við það, að stjórnvöld líta ekki á loforð sem loforð, að það sé allt í lagi að svíkja hátíðlegt, margítrekað kosningaloforð.

Rós er rós er rós sagði Gertrud Stein.

Og við segjum: loforð er loforð er loforð!

Svik eru svik eru svik.

Mér finnst grafalvarlegt hvernig ráðamenn hafa í svörum sínum og útskýringum stöðugt afvegaleitt tungumálið, ráðist inn í samband orðs og merkingar á skítugum skónum, reynt að rjúfa og brengla samband orðs og merkingar.

Loforð er ekki lengur loforð, viðræðuslit ekki heldur, sbr. það sem fram kom fyrir nokkrum vikum að orðið strax þýði ekki strax nema þegar það hentar.

Framkoma ráðamanna við tungumálið er kannski það alversta og hættulegasta í þessu máli öllu. Svör meirihlutans eru mestan part hártoganir sem væru jafnvel ekki tækar í kappræðukeppnum framhaldsskólanna.

Við höfum fylgst allnokkra hríð með árásum ráðamanna á tungumálið. Þær eru stórhættulegar vegna þess að með því að eyðileggja orð og hugtök í anda newspeak Georges Orwell í skáldsögunni 1984, með því er verið að ráðast gegn DNA þjóðarlíkamans, þjóðarsálarinnar.

Tungumálið er grundvöllur mannlegs samfélags alls staðar, það er skemmtilega augljóst í tilfelli okkar Íslendinga. Hið ritaða orð er grundvöllur sjálfsmyndar okkar sem þjóðar, við trúum á ritaðan texta.

Af hverju viljið þið verða sjálfstæð þjóð spurðu aumingja Danir, furðu lostnir á nítjándu öld. Og við sögðum: það er vegna þess að við skrifuðum bókmenntir á þrettándu öld, bókmenntir sem eru með því besta og mikilvægasta í Evrópu frá miðöldum, bæði að magni og gæðum. Það gerir okkur að fullgildri evrópskri þjóð.

Det er nemlig det, sögðu Danir.

Hér neyðist ég til þess að minnast á tvö orð, reginmuninn á tveimur orðum, þjóðarstolt og þjóðremba.

Við getum og eigum að vera stolt af því að íslenska á sér óvenjulega langa, merkilega og samfellda sögu. Samt er íslenska hvorki betri eða verri en önnur tungumál.

Gætum okkar á þjóðrembunni, hún er eitruð og eyðileggjandi. Hún útilokar alla aðra, hún lokar okkur sjálf inni í vænisjúkri tilvist. Þjóðremba er andstæða þjóðarstolts. Hún er enn eitt einangrunartækið.

Að lokum þetta: atburðir síðustu viku og vikna og mánaða eru aðvörun, grafalvarleg.

Vísvitandi afvegaleiðing orða og hugtaka jafngildir spillingu tungumálsins sem síðan spillir samskiptum manna og siðferði samskiptanna. Á endanum blasir við siðrof, fyrst manna í millum, síðan siðrof þjóðfélagsins.

Það felst alvarleg hætta í því þegar ráðamenn svara kröfum um að þeir standi við orð sín með útúrsnúningum.

Hvers vegna er það hættulegt?

Vegna þess að það er fyrsta skrefið í afvegaleiðingu og spillingu tungumálsins, fyrsta skrefið til newspeak Orwells. Viljumvið ganga þann veg? Þar var tungumálið notað til þess að kæfa sjálfstæða hugsun einstaklinganna. Þetta hefur alls staðar verið raunin í einræðisríkjum og alræðisríkjum, fyrr og síðar, jafnt í Sovétríkjunum sem annars staðar. Samband milli orðs og merkingar er vísvitandi rofið og eyðilagt.

Loforð er loforð er loforð.

Við erum hér samankomin, þjóðfélagsþegnar lýðveldisins Íslands, gamlir, miðaldra, ungir. Við krefjumst þess að fá að kjósa um áframhald viðræðna við Evrópusambandið. Í guðanna bænum, einkum og sér í lagi fyrir unga fólkið. Í guðs almáttugs bænum.

Þetta er einföld krafa.

Ef þjóðin skyldi ákveða að halda áfram viðræðum, þá er enginn sýnilegur ómöguleiki í framhaldinu, ef ríkisstjórnin treystir sér ekki til þess að framfylgja þjóðarviljanum, þá yrði hún að segja af sér.

Hún yrði að gera það strax og strax er ekki teygjanlegt hugtak.

Við krefjumst þess einfaldlega að menn standi við orð sín, að efnt verði til margboðaðrar, marglofaðrar þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna, annað er andlýðræðislegt, annað er svik.

Vilja ráðamenn að verði tattóverað í áru þeirra: andlýðræðislegur svikari?

Við krefjumst þjóðaratkvæðagreiðslu!

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 1.3.2014 - 15:50 - FB ummæli ()

Nei, nei og aftur nei

Þessa ræðu hélt ég á Austurvelli áðan, en bætti reyndar einni setningu inní (hún er innan sviga) eftir að ræðan var haldin:

 

Gott fólk.

Þau mótmæli sem hér hafa staðið alla vikuna, snúast þau um Evrópusambandið? Jáááá, að sumu leyti.

Við Íslendingar búum við minnstu mynt í heimi, sem á að heita sjálfstæð – henni hafa fylgt og munu áfram fylgja óstöðugleiki, óeðlileg afskipti stjórnmálamanna og sérhagsmunahópa, höft og kollsteypur.

Það er alveg sama hversu oft stjórnmálamenn endurtaka þuluna um að hér þurfi “bara” aukinn aga í fjármálum, þá muni íslenska krónan rísa upp frá dauðum – sú þula verður aldrei að sannleika, íslenska krónan er lifandi lík, og allar Zombía-myndirnar í bíó síðustu árin ættu að hafa kennt okkur að það er hollast að halda sig fjarri lifandi líkum.

Evrópusambandið og evran eru ein af augljósustu leiðunum sem við gætum farið til að leysa gjaldmiðlavandamál okkar. Og við eigum að fá að skoða þá leið.

Við búum líka við þá undarlegu tilhögun að þótt við séum ennþá blessunarlega uppfull af áhuga á fullveldi okkar og sjálfstæði, þá fáum við stóran hluta af hinu nýja íslenska lagasafni sendan í pósti sunnan úr Brussel – gjörasvovel að stimpla.

Án þess að við höfum nokkuð um það að segja. Hvert er þá orðið okkar starf í tólf hundruð sumur?

Við munum auðvitað aldrei verða ein af valdamestu þjóðum Evrópusambandsins, en það er í sjálfu sér sér lágkúrulegt að þiggja svona stóran hluta af lögum okkar utanlands frá án þess að ráða nokkru um innihald þeirra – aðild að Evrópusambandinu myndi þar bæta mjög úr skák, hvað sem hver segir.

Það eru semsagt ýmsir kostir við ESB-aðild – meiri stöðugleiki, lægra matarverð alveg ábyggilega, lægri vextir, heilbrigðara umhverfi fyrir atvinnulífið, ekki síst á nýjum og spennandi sviðum, meiri áhrif á lagasetningu, meira fullveldi, en ekki minna.

Ég er semsagt ekkert hræddur við Evrópusambandið, ekki einu sinni fyrir hönd landbúnaðarins – íslenskir bændur myndu leikandi létt semja sig að þeim breytingum sem hugsanlega myndu fylgja aðild fyrir þá.

Samt veit ég ekkert hvort ég myndi greiða aðild að Evrópusambandinu atkvæði mitt. Það myndi ráðast fyrst og fremst af því hvort endanlegur samningur hefði í för með sér að íslensk alþýða myndi njóta arðsins af auðlindum sínum í sjónum – íslensk alþýða, ekki bara sægreifarnir.

En þeirri spurningu verður ekki svarað fyrr en aðildarsamningur liggur fyrir, og við viljum fá að sjá þann samning, við treystum því ekki að fáeinir stjórnmálamenn og örfáir klíkubræður í sérhagsmunahópum segi okkur að hann verði slæmur. Við viljum fá að ákveða okkur sjálf.

Og það er einmitt önnur og reyndar stærri ástæða fyrir mótmælunum, heldur en bara spurningin um Evrópusambandið, að minnsta kosti frá mínum bæjardyrum séð. Það er spurningin um hvernig þjóðfélagi við viljum lifa í.

Ég get þar náttúrlega bara svarað fyrir sjálfan mig – en ég vil ekki lifa í þjóðfélagi þar sem klíkur og sérhagsmunahópar ætla að skella á okkur hurðum, loka fyrir okkur leiðum sem gætu legið til betra samfélags fyrir okkur öll, fyrir börnin okkar og barnabörnin.

Hvort sem við höfum öll voða mikla trú á Evrópusambandinu eða ekki, þá eigum við ekki að líða að þessum dyrum verði skellt að geðþótta klíkubræðra, svo þær verði lokaðar næstu áratugina jafnvel – við eigum að ráða þessu sjálf.

Ég vil heldur ekki lifa í samfélagi þar sem það þykir fásinna að ríkisstjórn reki erindi þjóðar sinnar, þótt ráðherrarnir séu kannski ekki fyllilega sammála erindinu.

Ég held að þessari ríkisstjórn sé bara alls ekki of gott að fara til Brussel og reyna að ná góðum samningi, svo við getum síðan sjálf ákveðið hvort við viljum ganga í klúbbinn í Evrópu, eða þurfum kannski að halda áfram að hrekjast í fang Pútins og Kínverja!

Um ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur má margt segja, en eitt gerði hún vel. Þegar hún fékk Icesave í hausinn frá þjóð sinni, þá brást hún ekki vælandi við um að hún væri sjálf ekki sammála skilaboðum þjóðarinnar og það væri “pólitískur ómöguleiki” að sinna þeim.

Hún  gekk bara til verka af bestu getu, ekki einu sinni heldur tvisvar, gerði fyrst samning sem var svo góður að mestallur Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti hann, og síðan – þegar þjóðin vildi hann ekki – þá rak hún dómsmálið af svo mikilli hörku og með slíkum árangri að jafnvel margir helstu andstæðingar hennar trúðu ekki eigin augun.

Þetta er fordæmi sem fara má eftir ef þjóðin samþykkir í þjóðaratkvæðagreiðslu að ljúka samningaviðræðum við ESB – en ég vil ekki lifa í samfélagi þar sem vilji 82 prósent landsmanna er virtur að vettugi af því kafbátar í Skagafirðinum og hrokagikkir í Hádegismóum heimta það, og ég vil umfram allt ekki lifa í samfélagi þar sem það þætti eðlilegt og skiljanlegt að ráðherrar myndu reka erindi þjóðar sinnar með hangandi hendi og jafnvel vinna gegn þeim, sem guði forði!

(En treysti ríkisstjórnin sér ekki að reka þau erindi með sóma, þá ber henni auðvitað umsvifalaust að segja af sér.)

Og ég vil ekki lifa í samfélagi þar sem kosningaloforð eru svikin og það þykir eðlilegt því þau hafi bara verið varnagli sem alls ekki átti að taka mark á, ég vil ekki lifa í samfélagi þar sem ráðherrar og þingmenn fara með orðhengilshátt og hreinar og beinar lygar þegar þeir eiga að standa fyrir máli sínu – ég vil ekki svoleiðis þjóðfélag, ég treysti ekki svoleiðis mönnum, ég vil ekki að börnin mín alist upp í slíkum óheiðarleika og slíkum ruddaskap.

Ég vil sem sagt ekki lifa í þjóðfélagi þar sem vilji fólksins er að engu hafður í þágu sérhagsmuna hinna fáu, ég vil ekki lifa í þjóðfélagi þar sem miklar og mikilvægar ákvarðanir um framtíð okkar eru teknar í skyndingu, í bakherbergjum, af fólki sem í sumum tilfellum hefur ekki lágmarksþekkingu til að bera – ég vil ekki að slíkar ákvarðanir séu teknar af þeim sem hugsa eingöngu um sína eigin þröngu hagsmuni en við eigum bara að lyppast niður þegar okkur er sveiað, þegar okkur er sagt að við fáum ekki að ráða þessu, það sé búið að ákveða þetta, í Kaupfélagi Skagafjarðar, í Hádegismóum, í þingflokksherbergjum tveggja flokka í Alþingishúsinu þarna.

Ég vil ekki lifa í samfélagi þar sem allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins – nema kannski tveir – eru allt í einu sammála því að það séu eðlileg og sjálfsögð vinnubrögð að skella svona dyrum á vilja þjóðarinnar – ég vil ekki lifa í þjóðfélag þar sem fólk svo ólýðræðislega þenkjandi hefur hafist til valda.

Og ég vil ekki lifa í þjóðfélagi þar sem hátíðleg loforð eru hermd upp á stjórnmálamenn og viðbrögðin eru fyrirlitning og hroki, lygar og ennþá meiri valdníðsla, og svo er slett framan í okkur: “So what?”

Ég vil ekki lifa í svona þjóðfélagi, og ég vona að ekkert okkar vilji lifa í svona þjóðfélagi, hvaða flokk sem við kunnum að styðja í kjörklefanum á fjögurra ára fresti, og sama hvaða skoðun við höfum á aðild að ESB.

Ef ríkisstjórn Sigmundar Davíðs og Bjarna Benediktssonar ætlar að skapa svona þjóðfélag, þá þurfum við að láta ærlega í okkur heyra – við viljum ekki slíkt þjóðfélag, við viljum það ekki, nei, nei og aftur nei.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 26.2.2014 - 15:00 - FB ummæli ()

Ruddalegt klúður og blygðunarlaus sérhagsmunagæsla

Það er ekki eitt, það er allt.

Bara á tveim fyrstu síðum Fréttablaðsins í morgun:

Fyrst frétt um að landbúnaðarráðherra hefði skipað í tollahóp um landbúnaðarmál.

Ráðherrann óskaði eftir fulltrúum frá tveimur ráðuneytum, auk fulltrúa frá ASÍ og BRSB, frá Mjólkursamsölunni og Bændasamtökum Íslands.

Enginn fulltrúi frá neytendum eða neinum hagsmunasamtökum þeirra.

Og svo óskaði ráðherrann eftir einum fulltrúa í viðbót.

Frá Kaupfélagi Skagfirðinga.

Já, Kaupfélagi Skagfirðinga!

Þórólfur Gíslason aðstoðaryfirráðherra Íslands verður náttúrlega að hafa sinn mann í nefndinni.

Þótt Samkeppniseftirlitið kvarti sáran og bendi á að Mjólkursamsalan og Kaupfélag Skagfirðinga séu eiginlega sama fyrirbærið.

Þórólfur hefur viljað þetta – þá gerir ríkisstjórnin eins og Þórólfur segir.

Og svo á blaðsíðu 2 í Fréttablaðinu:

Nú þegar forsætisráðuneytið hefur tekið til sín „þjóðmenninguna“ þá eru farnir að streyma þaðan út styrkir til alls konar verkefna hingað og þangað um landið. Sumir þurfa ekki einu sinni að sækja formlega um, sýnist manni. Þeir bara fá allt í einu fullt af pening.

Nú er Sigmundur Davíð búinn að úthluta á þennan ógegnsæja hátt 205 milljónum.

Og hvert hefur rétt tæplega helmingur fjárins farið?

Jú einmitt – í kjördæmi Sigmundar Davíðs.

97 milljónir nánar tiltekið.

Ég hélt að það hefði verið af einlægum en kannski örlítið barnalegum áhuga á „þjóðmenningu“ sem Sigmundur Davíð vildi endilega fá þennan málaflokk undir forsætisráðuneytið.

En það var þá bara til að fá tækifæri til að deila og drottna á gamla spillingarmátann.

Svo ætlast þessi ríkisstjórn til að henni sé treystandi í málum Evrópusambandsins!!

Ég veit að almennir sjálfstæðismenn og framsóknarmenn væntu bara góðs af ríkisstjórn flokka sinna, og voru þess fullvissir að nú myndu Sigmundur Davíð og Bjarni Benediktsson sýna hvernig almennileg ríkisstjórn ynni.

En þeir verða nú að horfast í augu við að nálega allt sem stjórnin hefur tekið sér fyrir hendur er ruddalegt klúður og/eða blygðunarlaus sérhagsmunagæsla.

Því miður, góðu vinir, þetta er óhæf ríkisstjórn.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 24.2.2014 - 20:01 - FB ummæli ()

Sjálfstæðismenn vorra tíma

Gunnar Bragi Sveinsson hundskammaði Einar K. Guðfinnsson forseta þingsins á Alþingi í dag.

Sjálfstæðismenn fyrri tíma hefðu ekki tekið því þegjandi ef utanríkisráðherra Framsóknarflokksins, ráðherra í stjórn með þeim, hefði skammað flokksbróður þeirra, forseta Alþingis, eins og hund úr ræðustól þingsins.

Sjálfstæðismenn okkar tíma láta sér það greinilega lynda.

Enda ræður Framsóknarflokkurinn.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 23.2.2014 - 14:29 - FB ummæli ()

Leiðrétting

Ég sé að stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar éta nú hver upp eftir öðrum að þar sem hin vonda ríkisstjórn lýðræðishatarans Jóhönnu Sigurðardóttur hafi ekki lagt aðildarumsókn að ESB undir þjóðaratkvæði, þá sé ekki nema mátulegt að hin góða og göfuga lýðræðisstjórn hins rökvísa Sigmundar Davíðs kippi umsókninni til baka án þjóðaratkvæðagreiðslu – hvað sem líður kosningaloforðum.

Þetta er í rauninni villandi röksemd, því þegar umsóknin var lögð fram sumarið 2009 voru næstum engar kröfur uppi um að hún yrði fyrst lögð í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Stór hluti Sjálfstæðisflokksins var þá til dæmis fylgjandi umsókn, á borði ef ekki í orði, og allstór hluti Framsóknarflokksins líka.

Og ekki var amast að ráði við umsókninni, fyrr en síðar, enda held ég að hvergi á byggðu bóli hafi verið haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarumsókn fyrirfram.

Það var ekki fyrr en Heimssýnararmarnir höfðu náð vopnum sínum í Sjálfstæðisflokknum, Framsóknarflokknum og VG sem krafa um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsóknina kom fram – en viðræður voru þá löngu farnar af stað.

Við virðumst aldrei geta munað nokkurn skapaðan hlut stundinni lengur.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!