Laugardagur 13.7.2013 - 00:45 - FB ummæli ()

Í Harlem

Langar og ítarlegar rannsóknir mínar á Manhattan-eyju í Vesturheimi hafa fært mér heim sanninn um að langmest líf og fjör sé að finna í Harlem.

Þótt nú sé komið kvöld og það hellirigni er mannlífið enn með skemmtilegum svip, hrókasamræður standa yfir á matsöluhúsum og óformlegum samkomustöðum hvarvetna, ungir páfuglar á ferðinni að gera sig til fyrir glæsimeyjum, óvænt hlátrasköll berast út úr húsasundum eins og í skáldskap eftir Camus eða Sigfús Daðason, öll möguleg afrísk og Miðausturlandamál eru hent á lofti, gamall karl ber að ofan með kaskeyti (hvítur) reynir fremur argur í bragði að vekja athygli vegfarenda á því að hann hefði átt að fá orðuna sem einhver félagi hans fékk í Víetnamstríðinu forðum en öllum er sama um þann löngu gleymda slag, en merkilegast er þó að á gangstéttunum eru allsstaðar léttklæddir áhyggjulausir krakkar að leika sér í fótbolta eða eltingarleik eða bara að gantast við niðurrignda hunda.

En jafnvel hér hef ég samt ekki enn séð kött.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.7.2013 - 23:59 - FB ummæli ()

Bókmenntir í neðanjarðarlest

Ameríkanar eru einstaklega menningarsnautt fólk, teljum við stundum.

Og vissulega gæti maður stundum ályktað sem svo ef aðeins væri byggt á stórmyndunum frá Hollywood.

En nú fyrir stundu sat ég í neðanjarðarlest á Manhattan og með mér var fólk á leiðinni í efri byggðir þar, til Harlem og svo til hins óttalega hverfis Bronx.

Og á fjögurra fermetra svæði var einn ungur piltur með skemmtilega litað hár að lesa þykkan doðrant sem ég náði ekki hvað hét en kápan gaf til kynna að þarna væri fjallað um borgarlíf á 19. öld, ég veit ekki hvar.

Dökkleit kona í eldrauðum kjól var að lesa skáldsögu eftir kanadísku skáldkonuna Margaret Atwood. Ég sá ekki hvað sagan hét en Atwood er frægust fyrir Sögu þernunnar, sem er í senn science-fiction, femínismi, samtímalýsing og dágóðar bókmenntir.

Ungur maður um tvítugt sem leit út eins og litli bróðir Bob Dylans var að lesa skáldsöguna Let the Great World Spin eftir Colum McCann. Hana hef ég ekki lesið en McCann er sagður vera einhver merkilegasti rithöfundur Íra nú um stundir. Þessi flókna og metnaðarfulla skáldsaga fjallar reyndar um fólk í New York borg.

Og að síðustu – ég er ekki að ljúga þessu! – en í ganginum stóð ung kona í æpandi hvít-og-fjólublá-röndóttum kjól og var að lesa síðustu blaðsíðurnar í Catch-22 eftir Joseph Heller.

Það væri vel af sér vikið ef maður rækist á svona litterer samkomu í íslenskum strætó, trúi ég.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 4.7.2013 - 13:06 - FB ummæli ()

Blaut úldin tuska framan í þjóðina

Ríkisstjórnin veit að 70 prósent landsmanna hafa í skoðanakönnun lýst andstöðu við þá fyrirætlun hennar að lækka og síðan fella niður veiðigjöld á sægreifana.

Ríkisstjórnin veit líka að 35.000 manns hafa sett nafn sitt við undirskriftasöfnun þar sem þessu er mótmælt.

Ríkisstjórnin veit að sérfræðingar í hagfræði hafa lagst gegn þessu, bæði okkar mætustu menn og líka „skammstafanir í útlöndum“.

Eigi að síður ætlar ríkisstjórnin að keyra málið í gegn.

Og ekki nóg með það!

Nú ætlar hún á síðustu metrum sumarþingsins að þruma í gegnum þingið 460 milljóna aukagjöf til sægreifanna.

Sægreifanna sem hafa líka styrkt svo ríkulega þá stjórnmálaflokka sem mynda þessa ríkisstjórn.

Sjá hér.

Fyrirgefið … en mér blöskrar.

Þetta er ekki aðeins gjöf til sægreifanna.

Þetta er líka blaut úldin tuska framan í þjóðina.

Það á að sýna okkur að þeim er svo skítsama hvað okkur finnst.

Þeir gera bara það sem þeim sýnist.

Næstu kosningar verða ekki degi of snemma.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 1.7.2013 - 17:49 - FB ummæli ()

Það sem fréttastjóri Moggans gerði ekki

Í Morgunblaðinu var á föstudaginn viðtal við Ármann Einarsson framkvæmdastjóra útgerðarfélagsins Auðbjargar í Þorlákshöfn.

Fyrirtækið stendur illa og samkvæmt viðtalinu við Ármann er sökin veiðigjaldanna sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur setti á.

„Þetta lítur ekki vel út og ég er ekki bjartsýnn,“ segir Ármann. „Ef fyrri ríkisstjórn [Jóhönnu] hefði verið áfram hefði verið hægt að loka strax.“

Síðan veifar Ármann því þrautreynda tré að kenna hinni vondu Reykjavík um allt sem aflaga getur farið utan borgarmarkanna:

„Þetta stefnir allt að því að sjúga pening af landsbyggðinni til Reykjavíkur.“

Ármann heldur svo áfram og segir að ef veiðigjöldin hefðu haldist eins há og ríkisstjórn Jóhönnu vildi hefði það leitt til gjaldþrota flestra sjávarútvegsfyrirtækja á landinu.

Og að lokum leggst hann í miklar spekúlasjónir i viðtengingarhætti um það hvernig ríkisstjórn Jóhönnu mundi svo ábyggilega hafa hækkað veiðigjöldin eftir nokkur ár, ef hún hefði haldið völdum, og þá hefðu veiðigjöldin orðið svona og svona há og það hefði gengið frá íslenskum sjávarútvegi.

Ekki er að sjá að Morgunblaðið hafi gert nokkra athugasemd við þessar hugleiðingar framkvæmdastjórans.

En ekki skal mig undra þótt lesendum Moggans hafi runnið kalt vatn milli skinns og hörunds við lesturinn.

Guði sé lof, hafa þeir sjálfsagt hugsað, að það tókst að koma þessari skaðræðisríkisstjórn frá völdum.

Og guði sé lof að nú skuli eiga að lækka veiðigjöldin og fella þau reyndar alveg niður.

Sjúkk – á síðustu stundu.

Nema hvað.

Á DV hafa menn líka lesið þessa viðtal Moggans við Ármnn Einarsson.

Og á því blaði gerði fréttastjórinn það sem fréttastjóri Moggans hefði átt að gera.

Kannaði sannleiksgildi staðhæfinga Ármanns Einarssonar um að veiðigjöldin væru að ganga af útgerðarfélaginu Auðbjörgu dauðu.

Og komst að því – með því einfaldlega að lesa ársskýrslur Auðbjargar síðustu árin – að þessar staðhæfingar framkvæmdastjórans eru bull og þvaður.

Auðbjörg var löngu löngu lent í vandræðum áður en nokkur lét sér einu sinni detta í hug að Jóhanna Sigurðardóttir myndi á endanum standa fyrir ríkisstjórn.

Ástæðan fyrir vandræðum Auðbjargar er – eins og kemur fram í DV í dag – ótæpileg skuldsetning í erlendri mynt á „góðæristímanum“ sem kom svo hrottalega í hausinn á fyrirtækinu þegar krónan féll og hrunið átti sér stað.

Samkvæmt fréttinni í DV gildir nákvæmlega það sama um fleiri útgerðir, og undanfarið hefur blaðið til dæmis fjallað um vandræði Sigurbjörns í Grímsey og Þórsberg á Tálknafirði.

Forsvarsmenn beggja félaga hafa borið sig illa í Mogganum út af veiðigjöldunum, en niðurstaða DV er sú að vandræði þeirra stafi alls ekki af veiðigjöldunum heldur af skuldsetningu fyrir hrun.

Forráðamennirnir fara sem sagt með rangt mál samkvæmt þessu.

Nú er það plagsiður hjá kurteisum fjölmiðlamönnum að fara mjúkum höndum um blaðamenn Moggans.

Þar vinna góðir og heiðarlegir blaðamenn, segja menn, þótt æðstu yfirboðararnir hugsi augljóslega meira um hag sægreifanna en almennra lesenda eða þjóðarinnar allrar eða jafnvel um – herregud! – sannleikann.

Og síst skal ég efast um hæfileika og heiðarleika starfsmanna á Mogganum.

En að birta slíka frétt – eins og viðtalið við Ármann – og gera enga tilraun til að kanna sannleiksgildi fullyrðinga hans … ja, er endalaust hægt að kenna vondum yfirboðurum um slíka „blaðamennsku“?

Verða ekki blaðamenn Moggans að fara að taka í taumana?

Að síðustu – hér er undirskriftasöfnunin „Óbreytt veiðigjald“. Hún er enn í gangi og ég hvet alla, sem ekki hafa enn skrifað undir, til að gera það nú þegar. Áróðursmaskína sægreifanna og hjá-blaðamennska Moggans mega ekki fá að ráða ferðinni í þessu landi.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 30.6.2013 - 01:03 - FB ummæli ()

Vissi Bjarni ekki betur?

Hvernig getur það átt sér stað að Bjarni Benediktsson, lögfræðingur og formaður Sjálfstæðisflokksins, trommar upp í fjölmiðlum og segist ætla að láta breyta lögum svo leggja megi landsdóm niður?

Vissi hann virkilega ekki að til þess að leggja niður landsdóm dugar ekki að breyta lögum?

Það þarf að breyta stjórnarskránni.

Og hvernig stóð á því að enginn fjölmiðill sem sagði frá orðum Bjarna fattaði þetta?

Þeir sögðu bara allir gagnrýnislaust frá orðum hans um að breyta lögum án þess að minnast á að stjórnarskrárbreytingu þurfi til.

Auðvitað á að leggja landsdóm niður. Hann er barn síns tíma en var þó líklega alla tíð andvana fæddur.

Ef Bjarni hefði hins vegar haft rænu á að styðja stjórnarskrá stjórnlagaráðs gæti vinna við þetta verið farin af stað, því þar er einmitt gert ráð fyrir því að landsdómur verði lagður niður.

En hann – sem barðist með sínum mönnum af óbilandi hörku gegn nýju stjórnarskránni – þekkti hann þá hvorki þá gömlu né þá nýju nógu vel til að vita að um landsdóm þarf að véla með stjórnarskrárbreytingum?

Ég sá líka að á Facebook fögnuðu ýmsir sjálfstæðismenn framtaki Bjarna og virtust heldur ekki vita að breyta þyrfti stjórnarskránni.

En þeir töldu sig þó þess umkomna að hamast mót nýju stjórnarskránni í fyrra og hitteðfyrra.

Hmmmm.

Jæja – guð láti gott á vita, þeir ganga þá kannski í það verk að koma nýju stjórnarskránni með öllum sínum samfélagsbótum í gagnið.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 26.6.2013 - 23:01 - FB ummæli ()

Hverjar eru skýringar íslensku ráðherranna?

Ég bíð enn eftir því að fjölmiðlar spyrji Ólaf Ragnar Grímsson almennilega útí ummæli hans um að Evrópusambandið vilji í raun alls ekki fá Íslendinga í sambandið.

Eins og hann hafði þó fullyrt og það á sjálfu hinu háa Alþingi.

Sjá hér.

Meðan ég bíð vil ég líka skjóta tveimur öðrum spurningum að fjölmiðlamönnum, sem ég botna satt að segja ekki í af hverju þeir hafa ekki þegar spurt í sambandi við heimsóknahrinu íslenskra ráðamanna til útlanda – svo mjög sem þær liggja þó í augum uppi.

Í fyrsta lagi:

Í fréttum af hinum opinberu heimsóknum kemur fram að íslensku ráðherrarnir hafi varla við að taka við hamingjuóskum erlendra ráðamanna fyrir ótrúlegan árangur í efnahagsmálum eftir hrunið.

Af hverju hefur enginn fjölmiðlamaður spurt íslensku ráðherrana (eða forsetann) hvort þeim þyki ekki PÍNULÍTIÐ óþægilegt að taka við þeim hamingjuóskum?

Og í öðru lagi:

Íslensku ráðherrarnir segja alls hugar fegnir að hinir erlendu ráðamenn hafi vissulega lýst vonbrigðum sínum yfir því að Íslendingar skuli ekki í þessari lotu vilja ganga í hóp vinaþjóða sinna á Vesturlöndum, en hafi þó fullan skilning á afstöðu nýrrar ríkisstjórnarinnar.

Og þá spyr ég:

Hver er sú afstaða?

HVERNIG hafa íslensku ráðherrarnir útskýrt sinnaskipti íslenskra stjórnvalda í þessu máli?

HVERNIG útskýra þeir að einmitt þegar hylla fer undir viðræðulok, þá skuli hætt við allt saman – og það þótt skýr meirihluti Íslendinga lýsi því yfir í skoðanakönnunum að þeir vilji klára dæmið?

HVAÐA SKÝRINGU gefa íslensku ráðamennirnir?

Góðu fjölmiðlamenn – viljiði spyrja að þessu fyrir mig á næsta fundi ykkar með kátum íslenskum ráðherrum?

Þeir eru þarna á mínum vegum – og ég á rétt á að vita þetta.

Finnst ykkur það ekki?

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 25.6.2013 - 22:31 - FB ummæli ()

Bíð spenntur eftir næsta viðtali við Ólaf Ragnar

Við setningu Alþingis um daginn vakti Ólafur Ragnar Grímsson forseti mikla athygli þegar hann fullyrti að innan Evrópusambandsins væri enginn áhugi á að fá Ísland í samtökin.

Að því hefði hann komist í samræðum sínum við einhverja ónefnda menn.

Þetta þóttu að vonum miklar fréttir, og þeir sem höfðu viljað láta reyna á aðildarumsókn og þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB roðnuðu upp fyrir haus.

Höfðu þeir þá verið að tala fyrir eintómri blekkingu – vaðið í villu og svíma – gert sig að fífli með því að trúa tómu rugli – sem hinn eldskarpi hugur Ólafs Ragnars hafði nú rist sundur eins og hnífsblað sláturskepp?

Var um þetta mikið fjallað í fjölmiðlum, og skyldi engan undra.

Nú hefur það hins vegar gerst að forráðamenn Evrópusambandsins sjálfs, Svíþjóðar, Finnlands, Danmerkur og að síðustu Þýskalands hafa gefið mjög afdráttarlausar yfirlýsingar að vissulega hefðu þeir mjög gjarnan viljað sjá vinaþjóð sína Íslendinga ganga til liðs við Evrópusambandið.

Þessu eru þeir væntanlega allir að ljúga, því við hljótum að trúa forseta okkar.

En svo frakkir eru Þjóðverjar að þeir virðast meira að segja ljúga þessu blákalt upp í opið geðið á forsetanum sjálfum sem er nú í mikilli peppreisu til Þýskalands, eins og kunnugt er.

Fréttamaður RÚV er með forsetanum í för, og kannski fleiri fjölmiðlar.

Vænt þætti mér um ef fréttamenn vorir í Þýskalandi mundu nú spyrja forsetann hvernig honum falli að heyra þessar bláköldu lygar Þjóðverjanna.

Hvort hann hafi þá ekki örugglega sett stranglega ofan í við forseta Þýskalands eins og Jeremy Paxman á sínum tíma, þegar Þýskalandsforseti upphóf ósanna þulu sína um að hann og aðrir Þjóðverjar vildu fá Ísland inn í ESB?

Því varla getur verið að fullyrðingar Ólafs Ragnars um þetta hafi verið tóm tjara!

Ég treysti fréttamönnum vorum til að útkljá þetta mál – því auðvitað er ekki hlutverk þeirra að kóa með hvorki einum né neinum.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 21.6.2013 - 09:05 - FB ummæli ()

Hver kaus Sigurð Inga til þess arna?

Sjáið þessa frétt – og grátið.

„Umhverfisráðherra endurskoðar friðlýsingu Þjórsárvera.“

Þessi fjögur orð eru beinlínis hrollvekjandi.

Hvernig gerðist þetta – að meintur umhverfisráðherra láti sér detta annað í hug en stefna eindregið að hinni ýtrustu friðlýsingu þeirrar ómetanlegu náttúruperlu sem Þjórsárver eru?

Sigurður Ingi Jóhannsson er náttúrlega maðurinn sem sagði að nú ætti að fara að horfa á umhverfisvernd frá sjónarhóli nýtingar.

Ehemm.

Og á það sjónarmið þá bara að fara að ráða?

Hver – með leyfi að spyrja – kaus Sigurð Inga Jóhannsson í síðustu kosningum til að gera annað eins og þetta?

Næst gæti Sigurði auðveldlega dottið í hug að horfa á Gullfoss frá sjónarhóli nýtingar.

Ég ítreka: Hverjir lýstu í kosningunum vilja til þess arna?

Ég er ekki í minnsta vafa að mjög stór meirihluti þjóðarinnar mundi kjósa sem allra mesta friðlýsingu fyrir Þjórsárver?

En á þá bara að Sigurður Ingi að fá að ráða þessu?

Og reyndar Ragnheiður Elín iðnaðarráðherra – sem beinlínis fyrirskipaði Sigurði í gær að gera þetta. Sjá hér.

Úff.

Það er haldlaust geip hjá þessari ríkisstjórn að holtaboltast á sauðskinnsskónum um þjóðmenningu en gefa svo „nýtingaröflunum“ færi á gersemi eins og Þjórsárverum.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 18.6.2013 - 09:39 - FB ummæli ()

Sægreifar styrkja flokka tvo sem síðan lækka skatta sægreifa

Sjáið þessa frétt hér.

Hérna er upphaf hennar:

Screen shot 2013-06-18 at 9.13.26 AM

Og setið þessa frétt svo í samhengi við fyrirætlanir ríkisstjórnarflokkanna um að lækka og síðan fella niður þau veiðigjöld sem fyrrverandi ríkisstjórn kom á og skila ættu miklum tekjum í þjóðarbúið.

Sem þarf svo sannarlega á því að halda.

Íslenskir háskólakennarar við hina virðulegustu háskóla í útlöndum hafa lýst því yfir að þessi áform séu arfavitlaus, „óskiljanleg“ og „augljós della„.

Og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur áformin vægast sagt misráðin.

Þótt maður vitni til AGS er maður ekki þar með að taka undir öll sjónarmið þess umdeilda apparats. En starfsmenn þar kunna að reikna og ef reikningum þeirra er stefnt gegn reikningum stjórnmálamanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, þá veit ég hvorum ég treysti betur.

Enda hefur Sigmundur Davíð ekki reynt að svara útreikningum þeirra.

Hann reyndi hins vegar í 17. júní ræðu sinni að slá ryki í augu almennings, með því að fullyrða að aðfinnslur AGS snerust um að sjóðurinn vildi ekki að  ríkisstjórnin fengi að leiðrétta skuldir almennings.

AGS var bara ekkert að tala um það að þessu sinni. Sjóðurinn hefur iðulega látið í ljós efasemdir um að miklar skuldaniðurfellingar séu mögulegar eða æskilegar, en hann var bara ekki að tala um það núna.

Heldur gagnrýna fyrirætlun ríkisstjórnarinnar um lækkun og niðurfellingu veiðigjalds – og það ekki á pólitískum forsendum, heldur hagfræðilegum.

En til að reyna að kveða þessa gagnrýni í kútinn hnoðaði Sigmundur Davíð saman útlenskum óvini og heimfærði upp á hann atriði sem málið snerist bara ekkert um.

Allt skal gert til að draga athyglina frá þeirri gagnrýni sem fyrirhuguð skattalækkun ríkisstjórnarflokkanna til sægreifanna hefur orðið fyrir.

En við skulum ekki búa við slíka kúgun.

Við skulum mótmæla öll.

Það er hægt að gera til að mynda hér – með þessari undirskriftasöfnun sem fór af stað á netinu í gær.

Textinn er svohljóðandi:

„Við undirrituð hvetjum Alþingi til að samþykkja ekki frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögum 74 frá 26. júní 2012 þar sem skilgreind eru þau gjöld sem útgerðinni ber að greiða fyrir afnot af sameiginlegri fiskveiðiauðlind okkar.

Verði Alþingi ekki við þeirri ósk verður þessi undirskriftalisti afhentur hr. Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands og hann hvattur til að undirrita ekki lög sem taka til breytinga á lögum 74 frá 26. júní 2012 heldur vísa þeirri ákvörðun í þjóðaratkvæði til eigenda fiskveiðiauðlindarinnar, íslensku þjóðarinnar.“

Skrifið endilega undir og dreifið þessu sem víðast.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 17.6.2013 - 21:40 - FB ummæli ()

Erum við endilega öll komin af einhverjum víkingum?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur hvatt til þess að aukin rækt verði lögð við íslenska sögu.

Það er mjög góð ábending hjá honum, og ég mun leggja mig fram um að fara að tilmælum forsætisráðherra í framtíðinni.

Ég mun því fjalla á næstunni um fáein atriði af sögulegu tagi sem birtust í hinni merkilegu ræðu Sigmundar Davíðs á Austurvelli í dag.

Ég hvet ykkur reyndar til að lesa þá ræðu, hún er hér.

En fyrst af öllu langar mig að vekja athygli á einu.

Forsætisráðherra fjallar vítt og breitt um sögulegan grunn okkar.

Og ekkert – ekki ein setning, ekki aukasetning, ekki aukatekið orð – bendir til þess að hann geri sér grein fyrir því að í þessu landi býr líka fólk sem er ekki endilega komið af einhverjum víkingum eða Fjölnismönnum.

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!