Fimmtudagur 13.12.2012 - 21:59 - FB ummæli ()

Elíta

Gunnar Helgi Kristinsson var í viðtali í Morgunblaðinu í morgun þar sem hann fann stjórnarskrárfrumvarpinu flest til foráttu.

Það er nú það. Hann hefur að sjálfsögðu fullan rétt á sinni skoðun. Og sumar af athugasemdum hans eru alveg markverðar. Það hefði að vísu verið gagnlegra ef hann hefði komið fram með þær ögn fyrr.

Mig minnir nefnilega fastlega að Gunnar Helgi Kristinsson hafi verið einn þeirra sem við í stjórnlagaráði reyndum að fá til að gera athugasemdir við okkar starf áður en við lukum verki okkar við þetta frumvarp.

Hann sagði nei, hann mætti bara ekki vera að því – hann þyrfti að útbúa stundaskrár fyrir nemendur sína í háskólanum.

Ójá, svo er nú það.

Ég ætla ekki hér og nú að svara efnislega athugasemdum Gunnars Helga. Þið verðið bara að fyrirgefa mér það. Það hafa nefnilega margir svarað þessu nú þegar – og raunar löngu áður en Gunnar Helgi fór í viðtalið við Moggann.

Allar þessar athugasemdir hafa nefnilega sést áður, þó hann hafi ekki séð sér fært að upplýsa okkur um álit sitt fyrr en nú.

Og þó.

Tvennt var það í þessu viðtali sem mér fannst nokkrum tíðindum sæta – komandi frá svona ljóngáfuðum og hámenntuðum manni og þar á ofan af þeim kalíber sem prófessor við Háskóla Íslands er óneitanlega.

Í fyrsta lagi dæmafár hroki prófessors Gunnar Helga í garð félaga minna í stjórnlagaráði þegar hann hellir sér yfir „fræga fólkið“ sem þar hafi setið.

Ég læt sjálfan mig vera. Sjálfsagt telst ég til „fræga fólksins“. En þau félagar mínir í stjórnlagaráði voru gott og gáfað fólk af öllu tagi og af öllum stigum þjóðfélagsins og hafði unnið af eldmóði að bættu samfélagi.

Mörg þeirra áratugum saman.

Þau höfðu svo sannarlega unnið fyrir því að fá að véla um grundvallaratriði samfélagsskipunar okkar.

Og áttu ekki skilið þessa skítapillu prófessorsins.

Svei mér þá – ég held meira að segja að í stjórnlagaráði hafi setið fáeinir sem hafi kannski gert þessu samfélagi okkar jafnvel enn meira gagn gegnum tíðina en sjálfur Gunnar Helgi Kristinsson!

Í öðru lagi, þá datt næstum af mér andlitið þegar ég las þessa setningu hér, þar sem Gunnar Helgi lýsir fulltrúalýðræði eins og hann vill greinilega hafa það:

„Það þýðir að ákveðin elíta hefur það starf að kynna sér mál, vinna þau og bera ábyrgð á þeim gagnvart kjósendum.“

Ég tek það fram að orðið „elíta“ er ekki frá mér komið. Gunnar Helgi Kristinsson sagði það sjálfur í viðtalinu við Moggann.

Prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

„… ákveðin elíta hefur það starf …“

Baráttan gegn auðlindaákvæðinu í stjórnarskrárfrumvarpinu er á fullu í Mogganum og flestir sótraftar greinilega á sjó dregnir.

En að menn eins og Gunnar Helgi opinberi „elítu-hugarfar“ svona blygðunarlaust, á því átti ég ekki von. En lengi má manninn reyna.

Ómar Ragnarsson tekur Gunnar Helga til bæna hér.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 13.12.2012 - 09:48 - FB ummæli ()

Fax-fullveldi

Það hefur alltaf verið nokkuð þung undiralda gegn Evrópusambandinu í breska Íhaldsflokknum. Burtséð frá ýmsum efnahagspólitískum ástæðum er ástæðan líka gremja yfir því að hið gamla heimsveldi skuli nú þurfa að líta á önnur ríki og „smærri“ sem jafningja, og deila með þeim leifunum af áhrifavaldi sínu.

Þessi undiralda hefur þyngst á síðustu árin, nú þegar Evrópusambandið gengur í gegnum ýmislegt mótlæti, og David Cameron forsætisráðherra hefur gefið andstæðingum ESB undir fótinn á ýmsan hátt. Enda þarf hann að gæta þess að missa ekki of mikið fylgi til breska Sjálfstæðisflokksins sem berst ákaft gegn ESB af hægri vængnum.

Þeim mun merkilegri er sú yfirlýsing Camerons að Bretar ættu ekki undir nokkrum kringumstæðum að ganga úr Evrópusambandinu. Því ef þeir gengju úr sambandinu en hefðu í staðinn við það einskonar EES-samband, þá þýddi það að í Bretlandi yrði tekið upp „fax-lýðræði“ eins og til dæmis í Noregi.

Það þýðir að stærstur hluti nýrra laga kæmi einfaldlega með faxi frá Brussel og Bretar fengju ekkert um þau að segja. En sú er núna raunin um Noreg.

Andstæðingar ESB á Íslandi tala stundum eins og ríkin þar búi ekki við fullveldi, heldur séu þau ofurseld hinu illa valdi ESB. Og þeir hafa litið hróðugir í bragði til Noregs þar sem fullveldisástin sé svo rík og áköf að Norðmenn hafi tvívegis fellt ESB-aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það er því óneitanlega merkilegt að sjá að jafnvel efasemdarmaður í ESB-málum eins og Cameron er óneitanlega skuli líta svo á að fullveldi Breta sé betur tryggt innan ESB en utan þess.

Og að hinir öflugu Norðmenn skuli búa við „fax-lýðræði“ meðan þeir séu utan Evrópusambandins, hvað sem líður öllum þeirra olíu-auði.

Þetta er merkilegt vegna þess að við Íslendingar erum auðvitað í nákvæmlega sömu stöðu og Norðmenn. Við fáum stóran hluta af lögum okkar sendan frá Brussel og höfum ekkert um þau að segja.

En það telja andstæðingar ESB samt til marks um „fullveldi“ og vilja meira að segja kalla sig eina „fullveldissinna“. Í því felst þá að þeir sem geta hugsað sér að ganga í ESB, þar sem Íslendingar fengju þó að minnsta kosti einhver (og í sumum tilfellum töluverð) áhrif á lagasetninguna, þeir meti einskis fullveldið.

Cameron er greinilega ekki á sömu skoðun.

Hann telur sjónarmið hinna íslensku ESB-andstæðinga augljóslega ígildi þess að þeir aðhyllist „fax-fullveldi“.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 12.12.2012 - 19:46 - FB ummæli ()

Var þetta nauðsynlegt?

Ég tek það fram að ég spila aldrei fjárhættuspil og svo ég viti til, þá þekki ég engan sem það gerir.

Og ég veit nákvæmlega ekkert um það fólk sem handtekið var í gærkvöldi í Skeifunni og er bersýnilega sakað um að halda úti ólöglegum spilaklúbbi. Þaðan af síður veit ég nokkuð um þá starfsemi sem þar fór fram.

Og ég tek líka fram að ég er eindregið þeirrar skoðunar að lögreglan eigi að framfylgja lögum í landinu. Meðan lög banna fjárhættuspil, þá á lögreglan því að sjálfsögðu að vinna að því að uppræta fjárhættuspil.

En … ég verð samt að segja:

Það fólk sem var handtekið í Skeifunni og nú úrskurðað í gæsluvarðhald í viku, að því er virðist sakað um að hafa útbúið aðstöðu fyrir fjárhættuspil, var virkilega nauðsynlegt að gera þetta svona skömmu fyrir jól?

Kannski hafði lögreglan áhyggjur af því að einhverjir eyddu jólapeningum fjölskyldunnar í einhverja pókervitleysu í Skeifunni, ég bara veit það ekki.

En það virðist harkalegt að handtaka fólk og dæma í gæsluvarðhald rétt fyrir hátíð eins og jólin, þegar ekki verður séð að það hafi beinlínis meitt neinn.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 12.12.2012 - 12:07 - FB ummæli ()

Nei Björg, bann við herskyldu er ekki „lítt ígrundað“

 

Björg Thorarensen lagaprófessor lætur hafa eftir sér á mbl.is að 31. grein stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs sé „lítt ígrunduð“.

Nú ber ég vissulega takmarkalitla virðingu fyrir þekkingu og hæfni Bjargar, en þetta er þó rangt hjá henni.

31. grein stjórnlagaráðs er ekki „lítt ígrunduð“.

Hún var þvert á móti afar vel ígrunduð, og hlaut heilmikla umræðu í ráðinu – bæði á nefndarfundum og á opnum sameiginlegum fundum.

Greinin hljóðar svo:

„Herskyldu má aldrei í lög leiða.“

Ég verð bara að segja – ansi þykir mér langt seilst í andstöðunni við stjórnarskrárfrumvarpið ef þessi grein á að verða misklíðarefni.

Við umræður í stjórnlagaráði komu fram ýmsar mótbárur gegn banninu við herskyldu.

Sú helst að einhvern tíma í framtíðinni gæti óvinaþjóð ógnað svo Íslandi að stjórnvöld sæju þann kost vænstan að koma hér upp her til að verja sig. Við gætum kannski ekki alveg séð þær aðstæður fyrir, en óþarft væri að binda svo hendur stjórnvalda í framtíðinni að þau gætu ekki undir neinum kringumstæðum skyldað landsmenn til að taka sér vopn í hönd.

Vissulega má vera að einhvern tíma í alveg ófyrirsjáanlegri framtíð gæti einhver hernaðarógn steðjað að Íslandi.

En að herskylda gæti verið lausn þar á er – fyrirgefiði mér innilega þó ég segi það – fáránlegt.

Á Íslandi búa nú 330.000 manns. Jafnvel þó landsmönnum fjölgi duglega næstu áratugina, þá verður hér aldrei nógu fjölmennt til að unnt verði að koma upp einhverjum fjöldaher sem gæti varist einbeittu innrásarliði.

Allra síst eins og nú er komið hernaðartækni og -tólum í veröldinni.

Einhvers konar innrás á Ísland tæki tvo daga í hæsta lagi.

Hvar ætlar generáll í hinum íslenska her að þjálfa nýliðana í hinu herskylda liði sínu?

Og hvernig ætlar hann (eða hún!) að fá tíma til þess?

Herskylda er – hvað sem líður skoðunum okkar á nauðsyn hernaðarbrölts – úrelt þing. Jafnvel burtséð frá öllum siðferðisrökum. Herskylda miðast við massaheri 19. og 20. aldar og á ekki við nútímaaðstæður.

Ef þjóðin teldi þrátt fyrir það nauðsynlegt að tromma upp með eitthvers konar her, þá er enginn vafi á að landsmenn munu gera það sjálfviljugir.

En fyrst og fremst á aldrei að þvinga nokkurn mann til að bera vopn.

Aldrei.

Svo einfalt er það.

Og það er frekar skrýtið, svo ég kveði nú ekki fastar að orði, af Björgu Thorarensen að gefa í skyn að það sé í fyrsta lagi eitthvað æskilegt og í öðru lagi mögulegt og praktískt við herskyldu á Íslandi.

Og það er sem sagt beinlínis rangt af henni að 31. greinin sé „lítt ígrunduð“. Við fórum í gegnum allar hliðar málsins.

Og komumst að þeirri niðurstöðu – öll þau 25 sem sátu í stjórnlagaráði – að herskyldu skyldi aldrei mega í löð leiða á Íslandi.

Ég vona að sem flestir fagni þessari 31. grein.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 12.12.2012 - 09:08 - FB ummæli ()

De Niro á flatskjánum

Það höfðu lengi verið þykkar rendur á sjónvarpinu mínu, og stundum brutust þar út brakandi truflanir svo myndin lék á reiðiskjálfi. Bersýnilega var löngu tímabært að fá sér nýtt sjónvarp.

Ég streittist hins vegar lengi við. Ef ég keypti nýtt sjónvarp, þá þyrfti það óhjákvæmilega að vera af hinni óttalegu gerð flatskjár og voru þeir ekki orsök hrunsins? Svoleiðis voðalegt bruðl?

Jú, þeir sem vildu beina athyglinni frá eigin sök á hruninu höfðu talin almenningi trú um að bruðl hans með flatskjái ætti verulega sök á bankahruninu. Og ég hafði orðið fyrir þvílíkum áhrifum frá því, nauðugur viljugur, að lengi vel gat ég bara ekki hugsað mér að festa kaup á flatskjá.

Væri ég þá ekki að stefna þráðbeint í nýtt hrun?

Að lokum voru rendurnar í sjónvarpinu samt orðnar of áberandi. Og þegar ég rakst á allt að því fáránlega ódýran flatskjá í Hagkaup gat ég ekki lengur haldið einkastríði mínu við flatskjáina gangandi. Jafnvel ég mundi ekki stefna í neitt hrun við að kaupa slíka græju.

Svo ég kvaddi gamla túbusjónvarpið með nokkrum trega og setti upp flatskjáinn. Og skemst er frá því að segja að nýtt hrun hefur ekki orðið en hins vegar hefur skjárinn orðið til þess að á mínu heimili er hafin lítil kvikmyndahátíð þar sem ýmsar gamlar og góðar kvikmyndir fá að njóta sín. Þrátt fyrir lágt verð hefur hann nefnilega reynst hið mesta þarfaþing!

Af hreinni tilviljun er Robert De Niro heiðursgestur á þessari litlu kvikmyndahátíð á nýja flatskjánum. Fyrst horfðum við á Guðföður-myndirnar allar þrjár. De Niro er þó auðvitað bara í mynd númer tvö. Ágætar myndir, sem hafa elst prýðilega.

Svo kom Once Upon a Time in America eftir Sergio Leone. Dæmalaust fín mynd, eiginlega töluvert betri en Guðfaðirinn.

Og nú erum við í miðju kafi að horfa á 1900 eftir Bertolucci. Sú nýtur sín vel á flatskjánum!

Ég er samt ennþá örlítið hræddur við nýtt hrun!

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 3.12.2012 - 12:34 - FB ummæli ()

DV

Þegar herferð Napóleons til Rússlands stóð yfir fyrir réttum 200 árum voru Rússar í mikilli hættu staddir.

Maður skyldi ætla að þeirra helstu menn hefðu þá þjappað sér saman og verið samhuga við að leysa verkefnið, en það var nú eitthvað annað. Í forystusveit rússneska hersins var hver höndin upp á móti annarri og helstu hershöfðingjarnir rifust eins og óðir hundar og kettir.

Hershöfðinginn Benningsen lét skæðadrífu gagnrýninna skilaboða og tilmæla ganga yfir æðsta foringjann, hinn hégómlega og gíruga Kútúsov, sem fékk að lokum nóg.

Hann sagði að ef hann fengi ein skilaboð enn frá Benningsen myndi hann láta hengja sendiboðann á staðnum.

Að sumu leyti er ég smeykur um að DV megi þola svipaðar móttökur hjá ýmsum ráðamönnum og sendiboði Benningsens hjá Kútúsov.

Blaðið hefur misjafnt orð á sér, eins og alkunna er. Fyrir því eru ýmsar ástæður – sumar eflaust verðskuldaðar, aðrar ekki. En það er afskaplega billeg leið að svara gagnrýni, sem menn verða fyrir vegna hluta sem birtast í DV, með því að blaðið sé nú bara sorprit sem ekkert sé að marka.

Það er nefnilega langt frá því. Langsamlegasta stærstur hluti af fréttum blaðsins um hrun og spillingu hefur því miður reynst á fullum rökum reistur.

Og það rann allt í einu upp fyrir mér – okkur þykir kannski uppgjörið við hrunið ganga seint. En reynið að ímynda ykkur hvar það væri á vegi statt ef DV hefði ekki staðið sína vakt síðustu fjögur ár.

Lífið hefði verið ansi miklu þægilegra fyrir ýmsa Kútúsova þessa lands.

En við hin vissum þá ansi miklu minna um það sem hér hefur gengið á, og gerir enn.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 1.12.2012 - 11:58 - FB ummæli ()

Var framferði þingmannanna svívirðilegt?

Vissulega var furðulegt að sjá tvo þingmenn ganga framhjá myndavélum Alþingis með blöð sem á stóð: „Málþóf.“

Sjá hér.

Og ætti ég sæti á Alþingi, þá mundi ég ekki hafa gert þvíumlíkt.

Ég verð samt að viðurkenna að ég botna ekki alveg í heitfengustu hneyksluninni út af uppátæki þingmannanna.

Ef þeir Lúðvík og Björn Valur hefðu kvatt sér hljóðs eftir að nafni minn Gunnarsson lauk loks máli sínu, gengið föstum og ákveðnum skrefum í pontu og sagt þungum rómi: „Þingmaðurinn beitir málþófi“ – þá hefði enginn sagt neitt.

Enginn hefði talið þau orð dónaskap.

Og þó þeir hefðu hrópað þessi orð hástöfum fram í ræðu Illuga Gunnarssonar, þá hefðu þeir kannski í mesta lagi uppskorið þreytulegan bjölluhljóm forseta en enginn hefði kippt sér upp við það – enda stunda furðu margir þingmenn frammíköll.

En er svona ægilega miklu dónalegra að sýna skoðanir sínar, heldur en að segja þær eða hrópa þær?

Ég tek það fram að ég ætla ekki í mikinn debatt um þetta. Sjálfsagt var þetta ekki rétt aðferð hjá þeim tvímenningum. Mér datt bara í hug hvort hneykslunin stafaði kannski frekar af því að það skorti eitthvað upp á myndræna hugsun í okkar samfélagshefð, frekar en að framferði þingmannanna hafi endilega verið svo svívirðilegt.

En að svo mæltu ítreka ég að persónulega hefði ég ekki sett mál mitt fram með þessum hætti.

Og ég hefði reyndar heldur aldrei látið hafa mig út í málþóf um fjárlagafrumvarpið.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 30.11.2012 - 23:04 - FB ummæli ()

Ægilegur draugagangur í lyftu!

Ég get ekki stillt mig um að vísa hér á þennan ógurlega hrekk sem einhver kvikindi í Brasilíu stóðu fyrir.

Sjá hérna.

Það veit sá sem allt veit að ekki hefði ég viljað verða fyrir þessu!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 29.11.2012 - 23:35 - FB ummæli ()

Hrósum happi

Það má vafalítið segja margt ljótt um núverandi ríkisstjórn.

En hinu má þó alveg halda á lofti að ef hér hefði verið við völd utanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins, þá hefði Ísland án nokkurs efa verið í kvöld í örfámennum hópi þjóða sem ekki gat greitt Palestínumönnum atkvæði sitt.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 24.11.2012 - 15:27 - FB ummæli ()

Jákvæð saga úr hruninu

Maður í heita pottinum sagði við annan mann:

„Heyrðu, já, og ég þekki einn gamlan útgerðarmann, sem sagði mér sjálfur þessa sögu hér. Hann var búinn að selja allt sitt, enda orðinn roskinn, og fékk í sinn hlut 800 milljónir. Það var í raun fyrir hans ævistarf.

Reyndar var það ekki hann sjálfur sem sagði mér hver upphæðin hefði verið nákvæmlega, heldur heyrði ég hana frá öðrum í fjölskyldunni. Skip og hús og veiðarfæri voru nú ekki mikils virði, þetta var aðallega kvóti.

Nema hvað, hann kaupir hlutabréf í einum bankanna fyrir þessar 800 milljónir og ætlar að hafa það huggulegt í ellinni og búa í haginn fyrir erfingjana.

En svo er allt í einu hringt í hann. Það er gamall kunningi hans sem vinnur í einu útibúi sama banka og hann hafði keypt í. Og kunninginn segir honum að selja nú strax öll sín bréf og kaupa ríkisskuldabréf eða eitthvað álíka fyrir peningana. Bankinn sé alls ekki öruggur.

Nú, gamli útgerðarmaðurinn fer að þessum ráðum, og örskömmu seinna dynur hrunið yfir, bankinn fer á hausinn og allt hlutafé tapast. Og hann sagði mér þessi útgerðarmaður hrósaði happi sínu á hverjum einasta degi síðan hrunið varð. Hann mætti hreinlega ekki til þess hugsa hvað hefði gerst ef kunninginn hefði ekki hringt í hann.

Hann sagðist ekki vera viss um að hann hefði lifað það af, andlega, að tapa öllu ævistarfinu. Svo hann var nú heldur betur lukkunnar pamfíll. Það eru náttúrlega líka til svona jákvæðar sögur úr hruninu.“

„Já,“ sagði hinn maðurinn sem hafði hlustað á söguna. „Nema hvað tapið lenti þá auðvitað bara á einhverjum öðrum. Einhverjir aðrir hafa keypt þessi hlutabréf upp á 800 milljónir, einhverjir sem ekki voru svo heppnir að eiga innherja í bankanum að vini. Og kannski var það líka allt þeirra ævistarf sem tapaðist.“

„Ja, já, einmitt,“ sagði fyrri maðurinn. Svo var útrætt um það.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!