Fimmtudagur 11.10.2012 - 20:25 - FB ummæli ()

Að veifa röngu tré

Lögfræðingarnir Ágúst Þór Árnason og Skúli Magnússon eru á móti stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs.

Þeir vilja nefnilega að plagg sem þeir hafa sjálfir skrifað verði gert að stjórnarskrá.

Vitanlega er allt í góðu lagi með það. Hver má sína skoðun á málinu sem hann eða hún kýs, og ég skil vel að lögfræðinga langi til að skrifa stjórnarskrá.

En ég er aftur á móti að verða svolítið þreyttur á einu sem alltaf dúkkar upp aftur og aftur í málflutningi Ágústs Þórs og Skúla, og reyndar sumra annarra líka.

Að það sé voðalega dónalegt að ætla að gera miklar breytingar á núverandi stjórnarskrá vegna þess að hún hafi verið samþykkt með 95 prósentum atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu 1944.

Það sýni að þjóðin hafi fyrir 68 árum verið mjög ánægð með stjórnarskrána, og þess vegna megi ekki breyta henni mikið.

Röksemdafærslan finnst mér í sjálfu sér frekar klén. Þó eitthvað hafi verið samþykkt með miklum meirihluta árið 1944, af hverju má þá ekki umbylta því nú á vorum dögum?

Mér finnst það satt að segja ekki skipta máli hvernig atkvæði féllu þá – það eru nútíminn og framtíðin sem skipta máli.

En látum það nú vera.

Aðal gallinn við málflutning Ágústs Þórs og Skúla (og t.d. Reimars Péturssonar) um þetta atriði, er að þetta er einfaldlega rangt.

Þjóðin var EKKI að lýsa ánægju með stjórnarskrána í kosningunum 1944.

Þær kosningar snerust um sambandsslitin við Danmörku.

Sambandsslitin voru viðkvæmt mál.

Danir höfðu verið hernumdir af Þjóðverjum, og sumum fannst ekki við hæfi að við færum að stökkva úr sambandinu við þær erfiðu aðstæður fyrir þá.

Og hér sátu stórveldin Bretar og Bandaríkjamenn.

Íslenskir stjórnmálamenn litu á það sem lífsspursmál að geta sýnt fram á algjöra samstöðu þjóðarinnar um sambandsslitin og þar með nýja stjórnarskrá.

Þess vegna var rekinn massífur áróður fyrir því að allir kysu, og kysu „rétt“.

Alveg burtséð frá því hvernig mönnum féll í raun við stjórnarskrána, sem var í grundvallaratriðum gamla stjórnarskráin sem við höfðum þegið „úr föðurhendi“ danska kóngsins árið 1874.

Og mörgum féll satt að segja alls ekki vel við þessa stjórnarskrá.

Þetta er ekkert mín kenning – þetta er bara niðurstaða allra sagnfræðinga sem um málið hafa fjallað.

Og þetta hljóta Ágúst Þór og Skúli að vita.

Samt halda þeir áfram að hamra á hinni glæsilegu prósentu.

En staðreyndin er sú að mjög margir höfðu mjög miklar efasemdir um hina „nýju“ stjórnarskrá þegar árið 1944.

En greiddu henni atkvæði sitt til að samstaðan yrði sem mest.

Svo Danir og Bretar og Bandaríkjamenn og heimsbyggðin öll sæi að Íslendingar stæðu saman sem einn maður!

Sjá til dæmis þetta.

Þeir sem eru á móti stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs ættu að tala gegn því af öllum sínum kröftum.

En ekki veifa þessu ranga tré.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 10.10.2012 - 12:17 - FB ummæli ()

Ef það er nógu gott fyrir Ara, er það nógu gott fyrir mig

Nú síðustu 10 dagana fyrir atkvæðagreiðslu um stjórnarskrárfrumvarp stjórnlagaráðs hafa andstæðingarnir greinilega ákveðið að hamra það járn að frumvarpið hefði í för með sér skerðingu á hlut landsbyggðarinnar.

Þingmönnum þeirra myndi fækka af því í frumvarpinu er kveðið á um að atkvæði alls staðar á landinu skuli vega jafnt.

Og að ákvæði um aukið persónukjör muni hafa í för með sér að eingöngu latté-lepjandi Séð-og-heyrt „stjörnur“ úr 101 Reykjavík nái kjöri, lið sem hafi engan skilning á málefnum landsbyggðarinnar.

Um seinna atriði vil ég aðeins segja þetta: Heyr á endemi! Ef menn hafa svo litla trú á niðurstöðu kjósenda með auknu persónukjöri, þá er spurning hversu lýðræðislegt hugarfar býr yfirleitt að baki.

Auðvitað er kjósendum treystandi til að velja gott fólk, og þar á meðal gott fólk af landsbyggðinni, á Alþingi.

Sjálfsagt mun aukið persónukjör öðruhvoru leiða til þess að kjósendur geri „mistök“ og sendi inn á þing fólk sem þangað á ekkert erindi.

En það er nú ekki eins og það hafi aldrei gerst áður!!

Um fyrra atriðið – já, kannski fækkar þingmönnum landsbyggðarinnar eitthvað. Það er reyndar ekki sjálfgefið með auknu persónukjöri, og fækkunin verður ekkert endilega mikil, en gæti vissulega gerst.

En ætti það virkilega að koma í veg fyrir sjálfsagt jafnréttisákvæði um jafnan kosningarétt allra á landinu?

Ég er og verð fram í rauðan dauðann dyggur stuðningsmaður þess að stutt verði með öllum ráðum við bakið á byggð bæði vítt og breitt um landið.

En ég er ekki sannfærður um að rétta leiðin til þess sé fyrst og fremst að senda svo og svo marga þingmenn á Alþingi – og viðhalda með því undarlegu misræmi í atkvæðavægi hjá 330.000 manna þjóð.

Þegar ég er spurður um þetta atriði af áhyggjufullu landsbyggðarfólki, þá á ég síðan ágætt svar upp í erminni.

Í stjórnlagaráði sat Ari Teitsson bóndi á Norðausturlandi. Hann var meira að segja kosinn varaformaður ráðsins.

Ara þekkti ég ekki áður en starfið í stórnlagaráði hófst. Þekkti bara til hans sem eindregins og mjög ákveðins talsmanns bænda og landsbyggðarfólks.

Ari tók sæti í þeirri nefnd stjórnlagaráðs sem mótaði tillögurnar um kosningakerfið og atkvæðisréttinn.

Ég vissi af því að hann var mjög fastur fyrir og ætlaði ekki að láta vaða yfir landsbyggðina!

Enginn hafði reyndar áhuga á því, en ef einhver hefði nú verið með tilburði til þess, þá hefði verið honum að mæta – það var greinilegt.

En hann var líka sanngjarn og víðsýnn og sáttfús þar sem það átti við.

Ég leit á það sem heiður að fá að kynnast honum svolítið í þessu starfi.

Og ég hugsaði með mér þegar ég horfði á hann rétta upp hönd til að lýsa stuðningi sínum við endanlegar tillögur stjórnlagaráðs:

Ef einhver skyldi nú fara að ímynda sér að í þessum tillögum sé hlutur landsbyggðarinnar fyrir borð borinn, þá mun ég alltaf geta vísað til þess að slíkt hefði Ari Teitsson aldrei samþykkt.

Svo í málum landsbyggðarinnar gildir að ef það er nógu gott fyrir Ara, þá er það nógu gott fyrir mig.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 9.10.2012 - 21:18 - FB ummæli ()

Silkihúfur, silfurskeiðar og sægreifar

Allir þessir eru á móti stjórnarskrárfrumvarpinu okkar í stjórnlagaráði.

Okkur hlýtur að hafa tekist nokkuð vel upp.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 4.10.2012 - 22:02 - FB ummæli ()

Ísland eins og það leggur sig

Veftímaritið Lemúrinn, sem þau Helgi Hrafn Guðmundsson og Vera Illugadóttir, halda úti er löngu orðið eitt skemmtilegasta blómið í hinum íslenska netgarði.

Sjá hér.

Þar ægir öllu saman, en flestallt stórskemmtilegt og áhugavert.

Meðal þess sem þau Helgi Hrafn og Vera hafa verið að gera undanfarið er að þefa uppi merkilegar ljósmyndir frá Íslandi fyrri tíma, og full ástæða er til að vekja athygli á aldeilis frábæru myndasafni sem þau hafa nú fundið á hollensku netsafni.

Þetta eru myndir sem hollenskur ljósmyndari tók árið 1934.

Stórmerkilegar myndir, eins og hér má sjá.

Íslenskir listamenn, alþýðufólk, landslag, náttúra og mannvirki – allt er þetta til staðar á þessum stórmerkilegu myndum.

Það er ástæða til að hvetja fólk til að skoða þessa dásemd.

Það má svo að lokum geta þess að ég hef sannfrétt að eftir þau Helga Hrafn og Veru muni koma út bók nú í haust, þar sem  þau sinna einhverju af sínum fjölmörgu áhugamálum.

Og allra síðast má koma fram að þau reka líka Facebook-síðu Lemúrsins, og sá sem fylgist með henni á FB, fær jafnóðum allar fréttir af nýju efni á síðunni.

Ef menn „læka“ FB-síðuna geta þeir því fylgst með efni Lemúrsins.

Hérna.

Endilega lækið Lemúrinn!

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 24.9.2012 - 18:01 - FB ummæli ()

Hvað er svona hættulegt?

Jón Trausti Reynisson framkvæmdastjóri og leiðarahöfundur spyr nokkurra spurninga um stjórnarskrármálið, sem ég leyfi mér að birta hér í heild.

Því þetta eru allt spurningar sem ég hef sjálfur glímt við:

„Þeir sem eru spurðir, fá tækifæri til að hugsa, móta afstöðu, taka ákvarðanir, taka ábyrgð, gera mistök, læra af mistökunum og þroskast. Þeir sem eru aldrei spurðir, aldrei treyst og allt er ákveðið fyrir þá, eru líklegri til að læra hjálparleysi, uppgjöf og fylgisspekt, frekar en gagnrýna hugsun og virka þátttöku.

Hvað er svona slæmt við það að Íslendingar fái að kjósa um nýja stjórnarskrá?

Hvers vegna er kvartað svona mikið yfir því að almenningur hafi fengið að kjósa beint fulltrúa utan stjórnmálaflokkanna til þess að skrifa stjórnarskrá eftir forskrift þjóðfundar?

Hvað er svona sjálfsagt við það að stjórnmálamennirnir skrifi stjórnarskrána fyrir okkur hin? Hvers vegna er Sjálfstæðisflokkurinn að skrifa sína eigin stjórnarskrá í Valhöll?

Hvers vegna eru borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík að reyna að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna?

Hvers vegna vilja þeir ekki treysta almenningi til að taka ákvörðun um sína eigin hagsmuni? Óttast þeir að hagsmunir allra verði ofan á, í staðinn fyrir hagsmuni sumra?

Hvers vegna töluðu þeir í 50 klukkutíma um það, hvort almenningur fengi að kjósa um stjórnarskrána 20. október?

Af hverju finnst Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, að tíðarandinn á Íslandi sé of „hættulegur“ til þess að það henti að kjósa um stjórnarskrá? Lýðræði hverra bannar að fólkið ráði nema stjórnmálamennirnir séu sammála niðurstöðunni?

Af hverju vill forseti Íslands ekki leyfa almenningi að kjósa um stjórnarskrána nema stjórnmálaflokkarnir séu sammála því, en vill samt láta kjósa um milliríkjadeilu sem stjórnmálaflokkarnir eru ósammála um? Hvað truflar hann við stjórnarskrá sem leyfir þjóðinni að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu án hans milligöngu? Hvernig getur hann sætt sig við stjórnarskrá sem var upphaflega skrifuð með forsetann sem konung?

Hvað er að því að lýðræðið stýri því hvort náttúruauðlindir séu þjóðareign, hvort kjósa megi persónur fremur en flokka, hvort almenningur geti sjálfur knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu og hvort þjóðin eigi kirkju eða ekki?

Hverjir telja sér ógnað ef fólkið fær að ráða meiru? Hverjir ætla að sannfæra þig um að hætta við þetta?“

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 21.9.2012 - 12:14 - FB ummæli ()

Er Bjarni Benediktsson mikilhæfur og djúpskreiður stjórnmálaforingi?

Á stundum hefur mér þótt ómögulegt annað en bera dálitla virðingu fyrir Bjarna Benediktssyni formanni Sjálfstæðisflokksins.

Hann varð formaður á erfiðustu tímum í sögu flokksins og hefur mátt glíma við ýmsar þær uppákomur innan flokksins og í samfélaginu að sumir hefðu líklega bara gefist upp – eða farið á taugum.

En hann hefur seiglast í gegnum þetta allt saman, og stóð af sér firna öflugt mótframboð á síðasta landsfundi.

Upp á síðkastið hef ég hins vegar klórað mér verulega í kollinum yfir því á hvaða leið Bjarni er.

Hann var eitthvað á þvælast á landsfundi Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum, þar sem smurður var til forsetaframboðs auðkýfingur sem hefur það helst á stefnuskrá sinni að lækka skatta á hina ofsaríku og nema burt þann vott að almennri heilsugæslu sem Obama tókst að lokum að koma á. Á sama tíma lætur frambjóðandinn líðast að flokkur hans tefli fram stefnu í ýmsum félagsmálum, sem er svo afturhaldssöm að mann sundlar eiginlega yfir því að slíkt sé borið á borð á 21. öldinni.

Að formaður í íslenskum stjórnmálaflokki sé svo mikið sem að hnusa utan í Mitt Romney finnst mér ekki til eftirbreytni – vægast sagt.

Sem sagt: Ekki gott.

Á sama tíma lýsir Bjarni því yfir að það sé eindregin stefna flokksins, sem hann stýrir, að daga til baka umsókn um aðild að ESB. Látum vera hvort menn eru fylgjandi aðild að ESB eða ekki. En að ætla að draga umsóknina til baka á þessum tímapunkti er glópska og yfirgangur.

Því íslenskir kjósendur eiga að fá að greiða atkvæði um aðild að ESB. Aðildin á ekki að vera einkamál stjórnmálamanna.

Verst er að með þessu er Bjarni augsýnilega að reyna að falla í kramið hjá bara ákveðnum hluta Sjálfstæðisflokksins. Við vitum öll að aðrir partar flokksins hafa ekkert á móti því að aðildarumsóknin verði kláruð. Ég þori eiginlega að veðja að í hjarta sér er Bjarni á meðal þeirra. En hann hefur ákveðið að Davíðsarmurinn sé sá hluti Sjálfstæðisflokksins sem verði að þjóna. Burtséð frá hagsmunum og skoðunum annarra.

Ekki gott!

Þegar skýrsla Seðlabankans um kosti okkar í gjaldmiðilsmálum kom út um daginn, þá fólst í henni að við ættum tvo kosti.

Að halda krónunni, eða taka upp evru.

Maður skyldi ætla að þetta yrði stjórnmálaleiðtogum tilefni til að ræða málin á breiðum grundvelli.

En nei.

Bjarni lýsti því strax yfir að nú ættum við að „einblína“ á íslensku krónuna.

Þið fyrirgefið, en mér hugnast ekki stjórnmálaleiðtogar sem „einblína“. Sér í lagi ekki ef málið snýst um mikið hagsmunamál allrar þjóðarinnar, mál þar sem tveir kostir eru á borðinu sem ræða þarf í þaula.

Það þarf að skoða málin af víðsýni.

En þá er framlag Bjarna Benediktssonar að „einblína“.

Ekki gott.

Nú er síðast er komið í ljós að hann vill ekki fara í viðtal við DV sem hefur undanfarið birt röð viðtala við stjórnmálaleiðtoga, þar sem þeim er gefinn kostur á að kynna stefnu flokka sinna.

Ástæðan fyrir því að Bjarni vill ekki koma í viðtal er sú að hann óttast spurningar um Vafningsmálið.

Hann hleypur því í vörn og af þeirri persónulegu ástæðu sviptir hann flokkinn sinn tækifæri til að fá stefnuna fram í dagsljósið.

Og hann er að gera annað um leið.

Kenna DV og þar af leiðandi öðrum fjölmiðlum um leið þá lexíu að þeim sé hollast að spyrja hann ekki um Vafningsmálið.

Er það mikilhæfur og djúpskreiður stjórnmálaleiðtogi sem hagar sér svona?

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 16.9.2012 - 20:01 - FB ummæli ()

Djúpið

Ég var að horfa á myndina Djúpið eftir Baltasar.

Mikið er þetta fín mynd. Þó hún lýsi afar dramatískum og sorglegum atburðum er hún lágróma og einlæg. Mér virðist sem allir sem störfuðu við myndina hafi unnið sín verk með miklum sóma. Persónurnar eru alvöru fólk. Ólafur Darri er eins og skapaður í hlutverkið, en það er ekkert alltaf nóg – það verður líka að leggja í það sálina. Og það tókst honum.

Og það lukkaðist að láta hafið leika. Klippingar milli nærmynda og víðmynda tókust vel – sem er ekkert alltaf raunin um myndir sem gerast úti á sjó.

Og djúpið sjálft verður líka ein eftirminnilegasta „persónan“.

Ég vona að fólk flykkist í bíó að sjá þessa mynd.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 14.9.2012 - 16:34 - FB ummæli ()

Geggjuð auglýsing

Á Facebook var ég að rekast á þessa auglýsingu sem hér fylgir að neðan. Prakkari nokkur þurfti endilega að vera að grafa þetta upp.

Mér hefur á sínum tíma tekist að loka augunum fyrir þessari auglýsingu.

En horfið endilega á þetta ef þið viljið upplifa aftur móralinn nokkru fyrir hrun.

Og einkum rifja upp af hverju það fór eins og það fór fyrir Orkuveitunni.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 13.9.2012 - 21:36 - FB ummæli ()

Halló! Halló!

Þessir ógurlega fínu nýju símar allir, skyldi líka fylgja þeim eitthvað að segja?

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 10.9.2012 - 20:06 - FB ummæli ()

Hundraðasta og ellefta meðferð á 111. greininni

Í fyrragær skrifaði ég þetta hér á bloggsíðuna mína. Þetta er hvatning til fólks að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslunni eftir mánuð, þar sem fólk fær tækifæri til að segja skoðun sína á stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs.

Nema hvað, þá komu fram að minnsta kosti tvær athugasemdir þar sem harðir ESB-andstæðingar lýstu því yfir að þeir vildu ekki sjá þetta stjórnarskrárfrumvarp. Og í báðum athugasemdum var vísað til skýringar til 111. greinar stjórnarskrárfrumvarpsins sem heimilar fullveldisframsal.

Þessari grein, fullyrtu þessir eindregnu ESB-andstæðingar, er beinlínis ætlað að auðvelda inngöngu Íslands í ESB.

Gott ef lá ekki einhvers staðar milli línanna að líklega væri stjórnarskrárfrumvarpið allt saman eitt lymskulegt plott til að gabba þjóðina inn í ESB. Gera vondri ríkisstjórn kleift að lauma okkur þar inn án þess að þjóðin fengi neitt um það að segja.

En þetta er misskilningur. Fullkominn, algjör misskilningur.

Fólki er að sjálfsögðu heimilt að vera á móti stjórnarskrárfrumvarpinu. En ekki á þessum forsendum, því þær eru einfaldlega rangar.

Úr því að þessi misskilningur virðist vera kominn á kreik, þá er best að útskýra málið.

Í núverandi stjórnarskrá er ekkert ákvæði sem skyldar ríkisstjórn til að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um fullveldisframsal, jafnvel ekki þó verulegt megi teljast.

Og þar er í rauninni ekkert sem bannar Alþingi að ákveða hvaða fullveldisframsal sem því þóknast.

Þegar Ísland gekk í EES á sínum tíma fólst til dæmis í því verulegt fullveldisframsal, en ríkisstjórn Davíðs Oddsonar þverskallaðist við öllum óskum um að þjóðin fengi að greiða atkvæði um málið.

Alþingi var látið duga.

Nú hefur Ísland sótt um inngöngu í ESB og einhvern tíma kemur væntanlega að því að samningur verður tilbúinn. Hann mun einnig fela í sér nokkurt fullveldisframsal, en kannski minna en margir halda. Hvað sem því líður, þá er sjálfsagt og eðlilegt að þjóðin fái að ákveða hvort  hún vill samþykkja samninginn eða hafna honum.

Sumir halda greinilega að það sé hætta á að ESB-sinnuð ríkisstjórn muni fara sömu leið og stjórn Davíðs, og láta atkvæðagreiðslu á Alþingi duga. Það er reyndar engin hætta á því – allir stjórnmálamenn á Íslandi telja að ESB-aðild eigi vitanlega að leggja í þjóðaratkvæðagreiðslu.

En ef einhver hefði hug á því, þá væri það reyndar hægt með núverandi stjórnarskrá.

En hins vegar ekki ef stjórnarskrárfrumvarp stjórnlagaráðs væri komið í gildi.

Hin merka 111. grein hljóðar svo:

„Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu. Framsal ríkisvalds skal ávallt vera afturkræft.

Með lögum skal afmarka nánar í hverju framsal ríkisvalds samkvæmt þjóðréttarsamningi felst.

Samþykki Alþingi fullgildingu samnings sem felur í sér framsal ríkisvalds skal ákvörðunin borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Niðurstaða slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu er bindandi.“

Hér er mjög skýrt kveðið á um að samning sem feli í sér fullveldisframsal verði að bera undir þjóðaratkvæði. Og það bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þessi grein var svo sannarlega ekki sett saman til að „lauma Íslandi inn í ESB án þess að þjóðin fengi neitt um það að segja“ eins og ég las einhvers staðar.

Heldur þvert á móti.

Samkvæmt þessari grein VERÐUR að hafa bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að ESB, og það er meira að segja líka tekið fram að gangi Ísland í ESB verði að búa svo um hnúta að landið geti gengið úr sambandinu aftur, ef landsmönnum svo þóknast.

Ég ítreka – það er allt í fína ef fólk er á móti stjórnarskrárfrumvarpinu. (Lesið það hér.)

En ef ESB-andstæðingar eru á móti frumvarpinu út af 111. greininni, þá eru þeir á villigötum. Og 111. greinin á það ekki skilið. Hún er ekki sniðið til að auðvelda inngöngu í ESB, heldur til að tryggja að þjóðin fái á endanum að taka ákvörðunum slíkt.

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!