Miðvikudagur 30.5.2012 - 09:30 - FB ummæli ()

Ekki hugleysi Þorvaldar

Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari ætlar í mál við Þorvald Gylfason út af ummælum sem Þorvaldur viðhafði í grein sem hann birti á ensku í Þýskalandi um hrunið á Íslandi og stjórnarskrármálið.

Hin aðfinnsluverða klausa að mati Jóns Steinars snýst um að ónefndur hæstaréttardómari hafi átt þátt í að koma á koppinn kærum til Hæstaréttar vegna stjórnlagaþingskosninganna.

Sjá hér.

Þetta verður vissulega fróðlegur málarekstur.

Í bili vil ég þó aðeins taka fram eitt.

Jón Steinar sakar Þorvald um hugleysi með því að hafa klippt ummælin út úr íslenskri útgáfu sömu greinar sem birtist nú á vordögum í því fornfræga tímariti Skírni.

Eyjan skrifar:

„Segir Jón Steinar að Þorvaldi hafi brostið kjark til að hafa þær ávirðingar uppi „svo nálægt augum almennings á Íslandi.““

Svo er vitnað orðrétt í grein Jóns Steinars um málið í Morgunblaðinu í dag:

„Hann [Þorvaldur] birtir sem sagt opinberlega ærumeiðingar en heldur að sá sem fyrir verður muni líklega ekki sjá þær eða að minnsta kosti láta framferðið óátalið þar sem ummælin eru ekki birt á hefðbundnum vettvangi fyrir umræður um þjóðfélagsmál á Íslandi. Þessi höfundur verður líklega seint sakaður um hugrekki …“

Hér get ég upplýst að Þorvaldur sjálfur átti engan þátt í að umrædd klausa var ekki í hinni íslensku útgáfu greinarinnar í Skírni.

Þorvaldur skrifaði greinina upphaflega á ensku og ég var síðan ráðinn til þess verks að þýða hana á íslensku til birtingar í Skírni.

Einfaldlega af því svoleiðis verk tek ég gjarnan að mér, auk þess sem ég þekkti óneitanlega vel til þessa máls.

Ljóst var strax að jafnframt þýðingu þurfti að stytta greinina um hartnær helming svo hún passaði Skírni.

Það var partur af mínu þýðingarverki og ég gerði það nær algjörlega án samráðs við Þorvald.

Ég bar undir hann fáeinar styttinganna, og hann samþykkti þær allar umyrðalaust – nema eina, sem vel að merkja snerist ekki um þá klausu sem hér um ræðir.

Klausuna sem Jóni Steinari er uppsigað við klippti ég út umhugsunarlítið, og án minnsta samráðs við Þorvald – en ekki vegna þess að hún innihéldi einhver viðkvæm mál.

Heldur einfaldlega af því hún var hluti af kafla sem snerist um framgang stjórnlagaþingskosninganna á Íslandi.

Og fyrst nærri helmingur greinarinnar þurfti að fara, þá fannst mér augljóst að stytta mjög verulega slíkar upprifjanir – sem væru vissulega fróðlegar fyrir útlendinga, sem lítt þekktu til málsins, en mættu sitja á hakanum í grein fyrir Íslendinga.

Þetta er nú ástæðan fyrir því að umrædd klausa er ekki í Skírnisgreininni.

Ástæðan er ekki hugleysi Þorvaldar, enda veit ég ekki til að sá maður sé hræddur við neitt, heldur einfaldlega mín ritstjórnarvinna sem hann hafði í þessu tilfelli ekki minnstu afskipti af.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 26.5.2012 - 09:32 - FB ummæli ()

Mætti ekki alveg eins hía á það?

Jahá!

Sjáiði þetta hér.

Þorsteinn Pálsson stjórnarformaður MP banka og menn hans ætla að rukka þá sem ekki eiga eða skulda tvær milljónir hjá bankanum um sérstakt gjald.

Tæpan 10 þúsund kall á ári.

Tilgangurinn er vitaskuld sá að losa bankann við þá sem ekki eiga (eða skulda!) nógu mikinn pening.

Bankinn nennir sem sagt ekki að eyða orku sinni í svoleiðis lið.

Þegar hrunið reið yfir reyndi MP banki að bregða yfir sig skikkju besta vinar „litla fólksins“ sem hafði fengið upp í kok af æðibunugangi og síðan hruni hinna bankanna.

Þannig náði MP banki til sín umtalsverðum fjölda viðskiptavina.

Nú er þetta fólk ekki lengur nógu fínt fyrir MP banka.

Burt með það!

En er ekki óþarflega flókið að vera rukka þetta fátæka lið?

Væri ekki nóg að þegar það kemur í bankann til að sýsla með sína hlægilega fáu aura, þá standi bara Þorsteinn og aðrir stjórnarmenn og forstjórar MP bara í dyrunum og híi á það?

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 25.5.2012 - 11:38 - FB ummæli ()

Söguleg efni

Ég hef verið að bræða með mér að stofna bókaklúbb sem gæfi út þýddar bækur um sagnfræðileg efni.

Altso sagnfræðilegs eðlis, ekki sagnfræðilegar skáldsögur.

Vandaðar bækur, fræðilega pottþéttar, en læsilegar og skemmtilegar.

Markhópurinn þokkalegur upplýstur og fróðleikhús almenningur.

Út gætu komið 3 bækur á ári, um allt milli himins og jarðar – frá Rómaveldi til Hitlers.

Þetta er allt ennþá bara á hugmyndastigi, en mig langar að vita hver grundvöllurinn er fyrir svona klúbbi.

Svo ég ætla að biðja þá sem gætu vel hugsað sér að ganga í svona klúbb að sækja „læk“ á þennan pistil.

Því fylgja að sjálfsögðu engar skuldbindingar – þetta er bara til að hjálpa mér að átta mig á grundvellinum fyrir svona klúbbi.

Athugið að ég spyr að þessu sama á Facebook, svo þeir sem hafa sett „læk“ við hugmyndinni þar ættu EKKI að endurtaka það hér, þá gæti ég haldið að áhuginn væri helmingi meiri en hann er!

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 24.5.2012 - 15:54 - FB ummæli ()

Hverjir eru gallarnir?

Alþingi samþykkti um nónbil að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárfrumvarp stjórnlagaráðs.

Megin spurningin er sú hvort fólk vilji að frumvarpið verði grundvöllur að nýrri stjórnarskrá, eða ekki.

Svo eru nokkrar spurningar um einstök atriði.

Það er mín einlæg trú að þetta geti orðið þjóðinni til góðs.

Ég mun leggja mitt af mörkum til að kynna frumvarpið fyrir þjóðinni þegar þar að kemur.

Og í því sambandi kviknar ein spurning.

Þeir sem eru andsnúnir frumvarpi okkar í stjórnlagaráði tala gjarnan um að frumvarpið hafi vakið mikla andstöðu, það sé voðalega gallað, mótsagnakennt, etc.

Nú hef ég kannað eins vandlega og mér er unnt þau viðbrögð sem frumvarpið hefur fengið, og mér finnst þetta ekki allsendis rétt.

Jújú – allskonar athugasemdir hafa komið fram, en ég get ekki séð að þær snúist um mjög stórvægileg atriði.

Oft snúast þær um smekksatriði – einn vill hafa þetta svona, annar hinsmegin, og báðir geta haft sitthvað til síns máls.

En það felur ekki endilega í sér raunverulega galla á frumvarpinu sjálfu, eða missmíði á strúktúr þess.

Athugasemdir sem lúta á alvarlegum strúktúr-göllum man ég ekki eftir að hafa séð..

Mig langar því að biðja fólk að hjálpa mér.

Bendið mér á alvarlega galla á frumvarpinu.

Ég mun þá taka tillit til þeirra ábendinga þegar ég fer að kynna frumvarpið.

Athugið að ég er í bili að eingöngu að biðja um alvarlega galla.

Ekki smekksatriði, og ekki aðfinnslur við framgangsmátann.

Það er annar handleggur.

Nei, ég vil fá ábendingar um eitthvað stórt!!

Missmíði í byggingu, alvarlegar mótsagnir, hugmyndafræðilega  hæpna hluti – etc.

Endilega hjálpið mér að koma auga á slíkt.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 24.5.2012 - 00:05 - FB ummæli ()

Loksins orðlaus!

Undirskriftasöfnun er hafin á netinu þar sem skorað er á Jóhönnu Sigurðardóttur að segja af sér, og fallist hún ekki á það, þá er skorað á Ólaf Ragnar Grímsson „að rjúfa þing og boða til kosninga í samræmi við 24. grein stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands“.

Nú mega menn auðvitað vera á móti ríkisstjórninni ef þeir vilja.

En það er hrein fantasía ef menn ímynda sér að forseti Íslands hafi sjálfstætt vald til að rjúfa þing.

Þeim mun undarlegra er að að minnsta kosti einn alþingismaður, Guðlaugur Þór Þórðarson, hefur þegar skrifað undir þessa áskorun til Ólafs Ragnars um að brjóta (eða reyna að brjóta) gersamlega í bága við allar okkar þingræðis- og lýðræðishefðir.

Hann vísar meira að segja sérstaklega á þessa söfnun á Facebook-síðu sinni og hvetur þannig aðra líka til að skrifa undir.

Margt hefur gengið á síðustu misseri og ár, svo fátt ætti að koma manni á óvart lengur.

En ég viðurkenni að þegar ég sá þetta varð ég alveg orðlaus.

Ég spurði Guðlaug Þór út í þetta, og hann svaraði að hann væri bara að skora á Jóhönnu, en áskorunin til forseta Íslands er vitanlega ekki síðri hluti þessarar söfnunar.

Og í reynd er söfnuninni beint til hans fyrst og fremst.

Sem sagt:

Þingmaður (og fyrrverandi ráðherra!) á Alþingi Íslendinga hvetur forseta til að ganga í berhögg við stjórnarskrá, þingræðið og allar íslenskar lýðræðishefðir!

Jahérna hér.

Hversu lágt er hægt að leggjast í aumum flokkspólitískum tilgangi?!

 

– – – –

 

Rétt er, skylt og sjálfsagt að fram komi að Guðlaugur Þór hefur nú birt yfirlýsingu þar sem segir:

„Ég vil taka það fram að ég tel það ekki vera hlutverk Forseta Íslands að rjúfa þing.

Ég tel hins vegar rétt að ríkisstjórnin segi af sér af augljósum ástæðum.

Ég vil biðjast velvirðingar á því að ég setti nafn mitt við áskorun þar sem stendur að forsetinn eigi að rjúfa þing en ítreka að ég tel hagsmunum Íslands best

borgið með því að boðað verði til kosninga hið fyrsta.“

 

Þetta finnst mér gott hjá Guðlaugi Þór, og hann vera maður að meiri fyrir vikið.

 


Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 23.5.2012 - 21:34 - FB ummæli ()

Ég vil fá að svara því sjálfur

Á morgun verða greidd atkvæði um það á þingi hvort draga eigi til baka umsókn að aðild að Evrópusambandinu.

Atkvæðagreiðslan snýst reyndar um þjóðaratkvæðagreiðslu um umsóknina, en við vitum öll hvað býr að baki – að efla svo andstöðu gegn ESB með áhrifaríkri kosningabaráttu að meirihlutinn greiddi því atkvæði að draga umsóknina til baka.

Ég hef vitanlega ekkert á móti þjóðaratkvæðagreiðslum, en tímasetningar skipta máli – og tímasetningin í þessu tilfelli væri mjög furðuleg.

Og ég ætla að biðja þingmenn að hafa eitt í huga.

Það er fullkomlega gilt og virðingarvert sjónarmið ef menn eru á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Því vafalaust myndi aðild hafa einhverja galla í för með sér.

En aðild myndi líka hafa marga kosti í för með sér.

Og nú er hafið ferli til að komast að því hvort kostirnir eða gallarnir vegi þyngra.

Það er spurning sem ég vil fá svar við.

Sem ég vil að endingu fá að svara sjálfur.

Ég vil ekki að Ögmundur Jónasson eða Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, eða þá Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson svari þeirri spurningu fyrir mig.

Og jafnvel ekki Jón  Bjarnason.

Evrópusambandið gengur nú í gegnum erfiðleika – en þegar við munum standa frammi fyrir spurningu um aðild, þá verða þeir erfiðleikar að baki.

Annaðhvort verður sambandið þá sterkara – eða veikara – en það er fráleitt að ætla að meta það núna hvernig því muni reiða af.

Hefðum við viljað að allsherjar mat væri lagt á framtíðarmöguleika Íslands í október 2008?

Nei, við skulum halda áfram samningum, og meta það síðan í rólegheitum hvort Evrópusambandið verður eftirsóknarverður félagsskapur þegar þar að kemur.

Ekki hætta við í miðju kafi – sem mun aðeins verða til að auka deilur og togstreitu í landinu næstu áratugi.

Því hvað sem göllunum líður – þá eru kostirnar af aðild að ESB svo miklir (nema svo einstaklega ólíklega fari að sambandið beinlínis hrynji, en það verður þá komið í ljós á 1-2 misserum) að við eigum rétt á að fá að skoða þá í rólegheitum og taka afstöðu til þeirra.

Reynum því að gera þetta vel, og með hægð, og með yfirvegun – rjúkum ekki til í hugaræsingi og sviptum okkur sjálf möguleika sem hugsanlega gæti bætt samfélagið.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 20.5.2012 - 21:22 - FB ummæli ()

Dapurlegt

Mér skilst að Sjálfstæðisflokkurinn – og þessir fáeinu bandamenn hans – ætli að halda áfram á morgun, mánudag, málþófi gegn tillögu um að stjórnarskrárfrumvarpið fari í þjóðaratkvæði.

Þetta er satt að segja orðið hryggilegt.

Sjálfstæðisflokkurinn á þrátt fyrir allt langa og merka sögu.

Að hann skuli nú – þegar þjóðin sér loks til lands eftir ólgusjó sem hann og félagar komu okkur í – að hann skuli þá líta á það sem helsta hlutverk sitt að þumbast móti stjórnarskrárfrumvarpi sem getur bara orðið til bóta fyrir þjóðina og stjórnkerfið í landinu.

Ósköp er það trist hlutskipti hjá söguríkum stjórnmálaflokki.

Kristjón afi minn var mikill sjálfstæðismaður.

Af hugsjón.

Sá hefði orðið hryggur við að horfa upp á hvernig komið er fyrir flokknum núna.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 19.5.2012 - 15:03 - FB ummæli ()

Hve hættulegt er þetta?

Sjálfstæðismenn hamast enn á Alþingi gegn stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs, ásamt fáeinum bandamönnum sínum.

Þeir munu vafalítið stoltir segja barnabörnunum sínum frá því þegar lögðu allt í sölurnar til að berjast gegn þessu stórhættulega plaggi.

Viljiði ekki fá að heyra hvílík hætta steðjar að?

Arnar Jónsson les þetta afar vel.

Ég mæli sérstaklega með því að þingmenn hlusti á þetta. Eftir að hafa fylgst með umræðum á þingi um stjórnarskrárfrumvarpið, þá er alveg deginum ljósara að sumir þeirra hafa alls ekki lesið plaggið.

Hér er fyrsti hlutinn.

Hér er næsti – mannréttindakaflinn ógurlegi!

Og áfram hér.

Hérna eru nú líka aldeilis margar hættur á ferðum, ef trúa má sjálfstæðismönnum.

Kaflinn um Alþingi er hér – mikil bót verður að honum!

Hagsmunaskráning þingmanna og fleiri kemur hér til sögu.

Brautryðjendagreinar um málskotsrétt þjóðarinn eru hér.

Kaflinn um forseta Íslands er hérna.

Hérna er svo kaflinn um ráðherra og ríkisstjórn.

Áfram hér – allt til mikilla bóta!

Dómsvaldið er hér – hefði betur verið komið í gildi fyrir löngu.

Hér er svo komið að sveitarstjórnum.

Þá eru það utanríkismálin.

Síðustu ákvæðin eru svo hér.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 18.5.2012 - 19:30 - FB ummæli ()

Nei, þetta er ekkert málþóf

Verði stjórnarskrárfrumvarp stjórnlagaráðs samþykkt mun það hafa margvíslegar breytingar til bóta í för með sér í íslensku samfélagi.

Því er sorglegt að horfa upp á grimmilega andstöðu Sjálfstæðisflokksins við þetta frumvarp.

Nú á að reyna að koma með öllum ráðum í veg fyrir að þjóðin fái að segja álit sitt á þessum frumvarpi.

Málþófið á Alþingi af hálfu sjálfstæðismanna er gjörsamlega óboðlegt.

Sjálfir segja þeir:

„Nei, þetta er ekkert málþóf.

Við þurfum bara að ræða þetta mál í þaula. Þetta er jú flókið mál.

Og réttast væri að ríkisstjórnin tæki það af dagskrá því það truflar um umræður um önnur og mikilvægari mál.“

Nú skulum við sjá.

Ég lagði á mig að skrifa upp upphafsræðu Sjálfstæðisflokksins við umræðurnar í dag, hana flutti Árni Johnsen.

Svo kom Pétur Blöndal til „andsvara“ – og þegar Árni fór svo og svaraði ræðu hans, þá glotti hann skelmislega til Péturs.

Svakalega vel æft leikrit, ha?

En lesið nú ræðu Árna Johnsen.

Veltið því fyrir ykkur hvort hún er í raun framlag til umræðu um stjórnarskrá lýðveldisins.

Eða er það einmitt þetta sem eyðir tíma frá umræðum um mikilvæg mál samfélagsins?

Í þetta fór hálftími af tíma þingsins í dag.

Lesið framlag Péturs Blöndal. Einu sinni hafði ég álit á Pétri Blöndal.

Einu sinni hafði ég líka álit á Sjálfstæðisflokknum.

En í alvöru talað, lesið þetta!

Ekki bara skauta yfir það, lesið það í raun og veru og sjáið hvað Sjálfstæðisflokkurinn hefur til málanna að leggja.

Sjálfstæðisflokkur Bjarna Benediktssonar.

Yngra.

 

Árni Johnsen stígur í ræðustól 11.07:

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu er vanbúið og því er siglt fram til afgreiðslu á skjön við allar eðlilegar leikreglur. Víða í fátækari borgum heimsins eru götusalar sem selja ýmiss konar varning á gangstéttum og hafa í fæstum tilvikum leyfi til þess en reyna að bjarga sér. Sams konar háttur er nú viðhafður hjá hæstvirtri ríkisstjórn gagnvart Hreyfingunni, því það sem hún leggur áherslu á, hæstvirt ríkisstjórn, í dag er að þjóna undir Hreyfinguna og tiktúrur hennar í áherslum í stjórnmálum Íslands.

Um þetta snýst starf Alþingis í dag, og það er ekki björguleg staða, virðulegi forseti, það er í rauninni með ólíkindum að umræður um stjórnarskrá, nýja stjórnarskrá, skuli eiga sér forsendur á því sem nú er lagt upp með. Gegn niðurstöðu Hæstaréttar, gegn leikreglum sem að íslenska samfélagið hefur sett, og á hverju er von þegar ríkisstjórn Íslands hæstvirt vanvirðir og hunsar niðurstöðu Hæstaréttar og ætlar á þeim grunni að búa til nýja stjórnarskrá? Þó að ekki væri nema vegna þessara vinnubragða þá er þessi aðferð fyrir neðan allar hellur og ekki boðleg Íslendingum.

Það er bara á einföldu, á einfaldri íslenskri tungu, það er svindlað á leikreglunum til þess að þjóna undir Hreyfinguna, og það kom fram hér áðan spegilmynd af því sorglega ferli sem nú er í gangi í málflutningi hæstvirts forsætisráðherra þar sem ráðherra staðfesti að ríkisstjórnin ætti í samningaviðræðum við Hreyfinguna, samningaviðræðum við Hreyfinguna. Það verður gaman að vita hvort að Ríkisútvarpið skyldi segja frá þessu í fréttum. Væntanlega ekki, vegna þess að þetta er frétt. Þetta er ekki málflutningur, þetta er frétt. Og það verður eftir því tekið hvort að fréttastofa Ríkisútvarpsins með þá vaktmenn sem þar eru fyrir ríkisstjórnina, hvaða, hvaða döngun þeir hafa í sér til þess að segja frá hlutum á Alþingi eins og vera ber.

Samningaviðræður við Hreyfinguna, í þessu tilviki meðal annars um stjórnarskrá Íslands. Af hverju vill ekki hæstvirt ríkisstjórn semja við aðra stjórnarandstöðuflokka, eða ekki aðra, heldur bara stjórnarandstöðuflokkana, því að Hreyfingin er ekki lengur stjórnarandstöðuflokkur, af hverju vill hún ekki semja við stjórnarandstöðuflokkana eins og vera ber um verklag við gerð nýrrar stórnarskrár, þar sem engin ágreiningsatriði eru í málum sem skipta miklu. Engin ágreiningsatriði. En það er ágreiningur um eðlilegt verklag.

Þess vegna, virðulegi forseti, er það með ólíkindum að nú byggist allt á því eins og gert hefur undanfarin misseri að ríkisstjórnin sé að semja við Hreyfinguna um annað mál af þeim sem þeir lögðu mesta áherslu á, hið fyrra var að Landsdómur gengi eftir, og það mál er búið, en þá er eftir hitt málið, og allt þrek, öll orka hæstvirtrar ríkisstjórnar Íslands fer í þetta mál. Hvers eiga landsmenn að gjalda? Hvers eiga þeir að gjalda, þeir þúsundir Íslendinga sem eru atvinnulausir, nærri tugur þúsunda Íslendinga, sem hafa flæmst úr landi vegna atvinnuleysis, og hundruð fyrirtækja sem eiga undir högg að sækja vegna sinnuleysis stjórnvalda, hvers eiga þau að gjalda?

Hvers eiga heimilin að gjalda, þegar þessi mál verða stærstu málin? Stjórnarskrá Íslands eins og hún er í dag, hún er ekkert óbrúkleg, en hana má alveg lagfæra, en það truflar ekkert sem þarf að gera, til þess að stjórna Íslandi af markvísi, og festu, til árangurs fyrir þjóðina í heild. Þessi upplausn, virðulegi forseti, er auðvitað mjög knýjandi þrýstingur á Alþingi Íslendinga og um leið á forseta þings okkar, um að reyna að skipa þannig málum að tíminn nýtist í mál sem eru brýn og þörf og hrópa á úrlausn.

Háttvirtur formaður stjórnskipunarnefndar, stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, Valgerður Bjarnadóttir, sagði hér fyrir helgi að þetta væri spurning um hvort að tillaga stjórnlagaráðs ætti að vera grundvöllur að nýrri stjórnarskrá. Bíðum við. Þjóðfundur var haldinn, ágætis fundur og eðlilegur, skilaði nokkrum tugum tillagna, sem nánast allar voru almenns eðlis, um réttlæti, gott heilbrigðiskerfi, menntakerfi, og annað sem skiptir máli í okkar samfélagi, og er almenn viðmiðun og hugsun fólks hvar sem er á landinu, byggist á venjulegu brjóstviti, og skynsemi, þörfum og þrám, sem eru hluti af okkar lífsmunstri.

En að stofna síðan til stjórnlagaráðs, sem dæmt er ógilt af Hæstarétti, það er ekki vinnubrögð sem hægt er að fagna. Það verður að harma þau vinnubrögð, og það er auðvitað þannig, virðulegi forseti, að eini eðlilegi ferillinn í þessu máli er að vinna á grundvelli sáttar um breytingar. Það eru engin ágreiningsatriði eins og ég nefndi áðan sem skipta máli. Það eru allir sammála um til að mynda eignarrétt Íslendinga á auðlindum landsins.

En það er vandasamt að setja það inn í stjórnarskrá þannig að það haldi gagnvart alþjóðasamningum og alþjóðareglum. Þess vegna á auðvitað að staldra við í þessu efni og Alþingi á að taka málið til sín, Alþingi á að skipa nefnd sérfræðinga, lærðustu manna, reyndustu manna, þeir þurfa ekki endilega að hafa alltof stórar gráður, en þeir þurfa að hafa reynslu, og verkvit, og þessi hópur, hann getur tekið einhvern ákveðinn tíma til þess að setja upp tillögu að nýrri stjórnarskrá sem Alþingi vélar síðan um, sem Alþingi afgreiðir, og það getur síðan farið í og á að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu, en þessi hráskinnsleikur með brot á leikreglum er vanvirðing við Alþingi Íslendinga.

Vanvirðing við íslenska þjóð. Og þetta meðal annars veldur því að mínu mati, virðulegi forseti, að jafnvel forseti Íslands er farinn að yfirbjóða Alþingi, hann er farinn að yfirbjóða Alþingi, í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins, með því að gefa það í skyn að ef hann hefði aðstöðu til, þá mundi hann setja í þjóðaratkvæðagreiðslu frumvarpið um fiskveiðistjórnun við Ísland.

Hvaða vinnubrögð eru þetta, að setja þannig Alþingi Íslendinga, áður en mál er afgreitt á hæstvirtu Alþingi? Þetta er ekki heldur boðlegt, þetta er vanvirðing við Alþingi Íslendinga, og forseti Íslands á ekki að vanvirða Alþingi Íslendinga. Þetta er hluti af málum sem koma upp þegar svona upplausn ríkir, það verður sýndarmennska, það verður uppboðstaktík á málum sem eru alltof alvarleg til þess að menn geti leyft sér slíkt.

Í skjóli, eða á bak við þessar umræður, sem eru auðvitað knýjandi og mikilvægar, vegna þess að hvað glóra er í því, virðulegi forseti, að setja hér í þjóðaratkvæðagreiðslu tillögu sem er ekki hægt að greiða atkvæði um vegna þess að hún er ekki tillaga, hún er uppkast, hún er uppkast að einhverjum hugmyndum sem eru, sem er erfitt að útskýra, sem er erfitt að skilja, nema að hver og einn getur lagt sína merkingu í það, og hvaða glóra er í því að fara með þjóðaratkvæðagreiðslu um slíkt? Til þess þyrfti tillagan að vera markviss, klár og kvitt, og þá unnin af bestu vitund, og þekkingu allra sem eiga til að koma við samningu stjórnarskrár fyrir okkar lýðveldi.

Nei, á sama tíma og þetta á sér stað, þá liggja í láginni umræður um mikilvæg mál, til að mynda rammaáætlun, sem var komið samkomulag um í mjög vönduðu vinnuferli, og þorri, langstærstur hluti þess hóps sem vélað hafði um, var sammála um niðurstöðuna, en svo voru einhverjir sérstakir einstaklingar, sem að voru í þessum hópi sem æltuðu aldrei að semja um neitt og eru enn á tánum að brjóta niður það sem þessi nefnd sem fjallaði um rammaáætlun lagði til, og þá koma sérvitringar innan hæstvirtrar ríkisstjórnar einnig til skjalanna og fara að blanda sér inn í það sem búið var að ná samkomulagi um.

Virðulegi forseti, þetta er alveg það sama og hefur átt sér stað við breytingar á fiskveiðistjórnuninni, þar sem að stóri hópurinn var kominn að niðurstöðu um ákveðið verklag, sem að menn þurftu einfaldlega að pússa upp og hnýta upp, og setja lokahrygginn í það, en þá fóru sérvitringar innan ríkisstjórnarinnar að blanda geðþóttaákvörðunum inn í, trufla framgang málsins, og setja allt í upplausn, allt í upplausn. Og það er því miður sá vandi sem við gímum við í íslensku samfélagi í dag.

Það er talað núna um það, virðulegi forseti, að það þurfi að vopna íslensku lögregluna, það eru kröfur um það að vopna íslensku lögregluna. Ég vil benda á það að í skúffu Alþingis, í nefnd, liggur tillaga frá mér, og fleirum, um úttekt á Schengen-samningunum, með það fyrir augum að við segjum okkur úr Schengen, vegna þess að við gerum ekkert nema tapa á því, fjárhagslega, þjóðfélagslega og félagslega.

Það væri miklu nær að hleypa þessu máli í umræðu, og hæstvirtur innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson lýsti því yfir að hann væri sammála þessari hugmynd, og tillögu, sem að ég lagði fram. Það væri miklu nær að við segðum okkur nú þegar úr Schengen, spöruðum peninga, og legðum niður hjal um það að vopna íslenska lögreglu. Þetta er bara eitt af ótal málum sem að mætti nefna. Sjómannaafslátturinn. Það bíður niður í skúffu, að tryggja sjómönnum sömu réttindi og öðrum stéttum landsins, að hafa fríðindi af vinnu fjarri heimilum sínum.

Nú er stefnan sú að sjómenn, sjómannastéttin á Íslandi, verði eina stéttin á Íslandi, sem að fái ekki notið slíkra hlunninda. Allar aðrar stéttir eiga að njóta þeirra hlunninda, skyldi fréttastofa Ríkisútvarpsins segja frá þessu? Nei, það er slorlykt af þessu máli, og þá er ekki sagt frá því, þá er ekki sagt frá því. Það er nú svo, virðulegi forseti, að nú standa öll spjót að hjarta Íslands.

Það er því miður ríkjandi í hættulegum mæli, hættulegum mæli, hatur, upplausn, stjórnleysi og óvinafögnuður meðal landsmanna. Óvinafögnuður! Og þjóðfélag sem byggir á, sem býr við slíkar aðstæður, nær ekki árangri, sem skyldi, það er svo margt sem að dregur máttinn úr fólki, vonina úr fólki, og ef að stjórnvöld bregðast því að taka af ábyrgð og festu á hlutum, hvort sem er til vinsælda eða óvinsælda, þá fer svo margt úrskeiðis, sem getur verið erfitt að laga, og verður sár sem seint grær, og kannski aldrei.

Virðulegi forseti, það er ekki vönduð vinnubrögð í þessum efnum. Þau eru óvönduð. Í líkingamáli: Eru það vönduð vinnubrögð þegar að snjöll hagleikskona möndlar heklunál sína og fetar nálina í gerð blúndudúks, það eru líka vönduð vinnubrögð þegar hrært er í góða uppskrift að pönnukökum, allt skiptir þetta máli, og af þessu gæti hæstvirt ríkisstjórn lært.

En hún vill ekki læra. Hún vill ekki læra. Og hæstvirtur forsætisráðherra er fyrsti forsætisráðherrann í sögu lýðveldisins sem stjórnar með olnbogum. Með olnbogum! Það er ekki björgulegt og er ekki gott til afspurnar fyrir skipstjórann í brúnni að ætla að vera með olnbogana á stýrinu. En þannig olnbogar ríkisstjórnin sig áfram …

[Hér vantar 1-2 setningar í upptökuna.]

… salar, víða um heim er ágætis fólk, og fólk eins og annað, en það er ekki það sem þarf að vera viðmiðun í vinnubrögðum. Það er ekki það sem þarf að vera viðmiðun, það verður að vera eitthvað háleitara og meira markmið, sem að er boðlegt því, að þurfa ekki að hlaupa undan því, ef einhverjir bílar, kerfismerktir, keyra um göturnar. Það er líka hluti af þessu, virðulegi forseti, að það hefur verið talað um búsáhaldabyltinguna.

Hér var engin búsáhaldabylting, og það vita allir sem að fylgdust með, hér var bylting þar sem að þingmenn úr hópi Vinstri grænna höfðu samið við þingmenn úr hópi Samfylkingar um að skapa upplausn til þess að Samfylkingin gæti vikið úr ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki, og farið undir sæng með Vinstri grænum. Það var búsáhaldabyltingin. Þetta var engin spurning um potta og pönnur, heldur einhver sængurver.

Virðulegi forseti, hugmyndin og framkvæmdin um þjóðfund var ágæt, og þar var safnað saman grunnhugmyndum, og það mikilvægasta í stöðunni í dag er að Alþingi taki málið í sínar hendur, skipi nefnd fróðustu manna, til þess að gera tillögur að nýrri stjórnarskrá, og síðan afgreiði Alþingi það mál, og vísi til þjóðarinnar. [11.27]

 

Pétur Blöndal veitir andsvar:

Frú forseti. Ég vil þakka háttvirtum þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hann kom inn á sjómannaafsláttinn sem er náttúrlega hluti af kjörum þeirrar stéttar og má segja að falli undir umræður um stjórnarskrá vegna þess að sjómenn eiga jú að gæta – njóta jafnræðis við aðra borgara, við aðra þá sem vinna, sem eru fjarri heimilum sínum, eins og sölumenn og aðrir sem að fara til útlanda til að selja fisk, og aðrar vörur, og njóta dagpeninga …

Og ég vil spyrja háttvirtan þingmann hvort hann skilji það hvers vegna sjómenn fái ekki dagpeninga, þegar þeir eru á sjó, er þetta spurningin um það að þeir borgi fyrir fæði og húsnæði, því að þeir eru jú, búa um borð, fá húsnæði, og þeir fá fæði um borð, sem er ekki ódýrt, það er sennilega dýrasta fæði landsins, því að kokkurinn er með hlut, og spurningin er sú, væri ekki ráð að hækka laun sjómanna um svo sem eins og þúsund kall á dag, og svo láta þá borga fæði og húsnæði, og þá fá þeir sína dagpeninga, eins og aðrir, sem eru töluvert mikið hærri, og þeir mundu njóta sömu kjara og aðrir í þessu landi.

 

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Ég þakka háttvirtum þingmanni, Pétri Blöndal, fyrir þessa ábendingu, hún er alveg rétt. Hvers vegna eiga sjómenn ekki að njóta sömu réttinda og aðrir landsmenn? Aðrir launþegar í landinu. Og það er ekkert tengt sérstaklega sölu á fiski, eða öðru, það er tengt allri vinnu, í landinu, sem er fjarri heimilum. Til að mynda, flugliðar sem fljúga frá Reykjavík í innanlandsflugi, njóta þessara fríðinda.

Allir, embættismenn og einstaklingar sem vinna fyrir fyrirtæki, og þess vegna er það óskiljanlegt, eins og háttvirtur þingmaður Pétur Blöndal spyr, hvers vegna sjómenn njóta ekki þessara réttinda. Það frumvarp sem liggur fyrir á Alþingi, í skúffu, miðar við sömu leikreglur og eru hjá Norðmönnum og Færeyingum, og þær eru í rauninni í lægri kantinum, miðað við leikreglur allra annarra Evrópuríkja í þessum efnum. Tölurnar sem um er að ræða eru fríðindi gagnvart sjómönnum, gagnvart fiskimönnum, þær eru aðrar gagnvart farmönnum, en gagnvart fiskimönnum, að þær miðast við Noreg og Færeyjar. Og þar er ágætis sátt um það og samkomulag.

Og það er í rauninni, í stuttu máli, miðað við það að hámark sjómannaafsláttar, sem að er reyndar í undantekningum getur verið um fjórtán hundruð og fimmtíu þúsund á ári. En hingað til hefur hámarkið verið um fjögur hundruð og fimmtíu þúsund. Um þetta snýst málið, að þarna sé farið réttlætisveg, að við séum í samfloti við okkar nágrannaþjóðir, þar sem þetta er ekki vandamál, en menn sitja við sama borð, en njóta jafnræðis.

 

Pétur Blöndal:

Frú forseti. Háttvirtur þingmaður fór aftur að tala um sjómannaafslátt. Nú hef ég flutt um það mörgum sinnum frumvarp um að afnema sjómannaafsláttinn, vegna þess að þeir, það er skekkja í skattkerfinu, að þeir borgi ekki sömu skatta og aðrir. En ég sé ekkert sem mælir gegn því að sjómenn fái dagpeninga, eins og allir aðrir sem eru fjarri heimilum sínum.

Ég skil ekki af hverju menn hreinlega ekki fara fram á að fá dagpeninga. Að þeir fengju dagpeninga og síðan yrði eins og hjá öðrum, skattfrjálst. Og þetta mætti gera með því að láta þá borga hluta af fæði og húsnæði, kannski einhverja óveru, og síðan fengju þeir mjög myndarlega dagpeninga, út á það, nákvæmlega eins og aðrir sem fara til útlanda.

Það skiptir ekki máli hvað menn eru að eyða í hótel og gistingu og fæði, heldur fá menn bara dagpeninga samkvæmt úrskurði opinbers aðila, sem að ákveður hvað dagpeningarnir eru miklir, og ég skora nú bara á sjómenn og samtök þeirra að drífa í því að koma þessu á lagg- á koppinn. Því ég sé ekki annað en þetta sé fundið fé fyrir sjómenn og kemur í staðinn fyrir sjómannaafslátt sem er ákveðin skekking á skattkerfinu.

 

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti, það er óþarfi að vera að hártoga orðnotkunina, á sjómannaafslætti, dagpeningum, eða skattfríðindi. Við erum að tala um sama málið. Hugtakið sjómannaafsláttur hefur verið notað á Íslandi í nærri hálfa öld, en þær tillögur sem að liggja fyrir um breytingar á þessu, miða ekki við sjómannaafslátt, svo það sé skýrt tekið fram.

Þær miða við skattfríðindi, sem er, er á nótum dagpeninga, og nýjustu – það er miðað við nýjustu framsetningu á slíku, þetta er spurning um það að stjórnvöld viðurkenni þennan þátt í starfi sjómanna sem skattfríðindi vegna fjarveru frá heimilum, vinnu á vinnustað fjarri heimilum, og ef það er einhver staður á jörðinni sem er fjarri heimili, þá er það hafið, og þess vegna ætti þetta ekki að vera nein spurning, og þetta er spurning um það að afgreiða þetta hjá stjórnvöldum, þess vegna er frumvarpið lagt og málið er klárt, þegar að það verður gert, og auðvitað kemur að því að það verður gert.

Árni lauk máli sínu 11.34

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 18.5.2012 - 13:35 - FB ummæli ()

Hvar er sómi Sjálfstæðisflokksins?

Stjórnarskrá Íslands er Sjálfstæðisflokknum ekki heilagri en svo að hann telur sér sæma að senda Árna Johnsen í pontu til að fíflast eitthvað í fáránlegu málþófi til að reyna að stoppa stjórnarskrárfrumvarpið.

Hvar er sómi þessa flokks?

Er hann genginn í björg, eða grjótið hans Árna Johnsens?

Og hvar er sómi Alþingis ef enn á að vera hægt að koma í veg fyrir að fólk fái að segja álit sitt á stjórnarskrárfrumvarpinu með því að beita þessu ömurlega málþófi?

Stjórnarskrárfélagið biður fólk að senda þingmönnum tölvupóst eða SMS, svohljóðandi:

 

Kæri þingmaður
Nú stefnir enn einu sinni í að þingið neiti þjóðinni
um að segja hug sinn um nýja stjórnarskrá - að þessu
sinni með fundartæknilegum aðferðum. Ég tel þetta
brot á rétti mínum sem þegn í þessu ríki og krefst
þess að þingið taki sig tafarlaust saman og virði
rétt umbjóðenda sinna.
Hér gildir einu hvort þú sért í stjórn eða stjórnar-
andstöðu - þú átt að berjast fyrir mínum hag og
réttindum en ekki skýla þér bak við formsatriði.
Reglurnar sem þú vinnur eftir eru nefnilega
skrifaðar fyrir mig, en ekki til að klekkja á
pólitískum andstæðingum þínum.
Virðing mín fyrir þér og þinginu mínu,
sem þú situr í fyrir mína hönd, mun taka
stakkaskiptum hljóti þessi bón hljómgrunn
hjá þér.
Virðingarfyllst
NAFN

Netföng allra alþingismanna:

atlig@althingi.is,
alfheiduri@althingi.is,
arnipall@althingi.is,
arnij@althingi.is,
arnithor@althingi.is,
asbjorno@althingi.is,
asmundurd@althingi.is,
arj@althingi.is,
birgir@althingi.is,
birgittaj@althingi.is,
birkir@althingi.is,
bjarniben@althingi.is,
bgs@althingi.is,
bjorngi@althingi.is,
einarg@althingi.is,
eygloha@althingi.is,
gudbjarturh@althingi.is,
glg@althingi.is,
gudlaugurthor@althingi.is,
gudmundurst@althingi.is,
gunnarbragi@althingi.is,
helgih@althingi.is,
hoskuldurth@althingi.is,
illugig@althingi.is,
johanna@althingi.is,
jb@althingi.is,
jong@althingi.is,
jrg@althingi.is,
katrinja@althingi.is,
katrinj@althingi.is,
kristjanj@althingi.is,
klm@althingi.is,
lrm@althingi.is,
liljam@althingi.is,
ludvikge@althingi.is,
magnusorri@althingi.is,
margrett@althingi.is,
mordur@althingi.is,
oddnyh@althingi.is,
olinath@althingi.is,
olofn@althingi.is,
petur@althingi.is,
rea@althingi.is,
ragnheidurr@althingi.is,
marshall@althingi.is,
sdg@althingi.is,
ser@althingi.is,
sii@althingi.is,
sij@althingi.is,
siv@althingi.is,
skulih@althingi.is,
sjs@althingi.is,
svandiss@althingi.is,
tryggvih@althingi.is,
ubk@althingi.is,
vbj@althingi.is,
vigdish@althingi.is,
thkg@althingi.is,
thorsaari@althingi.is,
thrainnb@althingi.is,
thback@althingi.is,
ogmundur@althingi.is,
ossur@althingi.is

Skorum á fólk að senda sms (farsímanúmer
þingmanna) neðst:
"Kæri þingmaður. Leyfðu mér að kjósa um
stjórnarskrána mína. Kær kveðja. Kjósandi."

Atli Gíslason	        892-4814
Álfheiður Ingadóttir
Árni Páll Árnason
Árni Johnsen	        894-1300
Árni Þór Sigurðsson	693-9310
Ásbjörn Óttarsson	893-2395
Ásmundur Einar Daðason	896-1231
Ásta R. Jóhannesdóttir
Birgir Ármannsson	899-2242
Birgitta Jónsdóttir	692-8884 
Birkir Jón Jónsson	898-2446
Bjarni Benediktsson
Björgvin G. Sigurðsson	863-5518
Björn Valur Gíslason	868-9985
Einar K. Guðfinnsson
Eygló Harðardóttir	895-5719
Guðbjartur Hannesson	899-7327
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir	848-0100
Guðlaugur Þór Þórðarson
Guðmundur Steingrímsson	695-6780
Gunnar Bragi Sveinsson	821-7070
Helgi Hjörvar	        697-9999
Höskuldur Þórhallsson	848-4805
Illugi Gunnarsson	896-1237
Jóhanna Sigurðardóttir
Jón Bjarnason	       862-6170
Jón Gunnarsson	       892-4277
Jónína Rós Guðmundsdóttir	847-5993
Katrín Jakobsdóttir	895-6052
Katrín Júlíusdóttir	894-6026
Kristján Þór Júlíusson	862-9100
Kristján L. Möller
Lilja Rafney Magnúsdóttir	866-2457
Lilja Mósesdóttir	898-7160
Lúðvík Geirsson	        894-5505
Magnús M. Norðdahl
Magnús Orri Schram	841-1700
Margrét Tryggvadóttir	698-6494
Mörður Árnason	        896-1385
Oddný G. Harðardóttir	863-4321
Ólína Þorvarðardóttir	892-3139
Ólöf Nordal	        896-3931
Pétur H. Blöndal	699-1943
Ragnheiður E. Árnadóttir	862-0028
Ragnheiður Ríkharðsdóttir	861-4196
Róbert Marshall	        661-8899
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson	899-9346
Sigmundur Ernir Rúnarsson	690-0777
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir	895-0272
Sigurður Ingi Jóhannsson	8930111
Siv Friðleifsdóttir	892-7646
Skúli Helgason	        695-6901
Steingrímur J. Sigfússon
Svandís Svavarsdóttir	845-5558
Tryggvi Þór Herbertsson	861-3162
Unnur Brá Konráðsdóttir	862-4241
Valgerður Bjarnadóttir	824-5845
Vigdís Hauksdóttir	899-3947
Þorgerður K. Gunnarsdóttir	892-0465
Þór Saari	        892-0294
Þráinn Bertelsson	894-5915
Þuríður Backman	        861-9031
Ögmundur Jónasson	894-6503
Össur Skarphéðinsson

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!