Þriðjudagur 1.5.2012 - 16:36 - FB ummæli ()

Fyrir 90 árum – eða núna

Í tilefni dagsins setti ég á Facebook-síðuna mína fyrr í dag úrklippu úr Morgunblaðinu frá 3. maí 1923.

Tveim dögum fyrr hafði í fyrsta sinn verið haldin 1. maí-kröfuganga í Reykjavík, en Mogginn sá ekki ástæðu til að greina frá tíðindunum fyrr.

Ekkert var minnst á kröfur þær sem verkalýðshreyfingin hafði sett fram í þessari fyrstu göngu sinni, en þar var ekki síst um að ræða kröfu um átta stunda vinnudag.

Heldur beindi blaðið athyglinni að öðru.

Blaðið kvaðst hafa eftir fólki sem hafði séð gönguna að hún hefði verið mjög fámenn og að „[b]örnin hafi verið fjölmennust, nokkuð hafi verið af kvenfólki, en svo fátt af fullorðnum verkfærum mönnum, að það vakti almenna eftirtekt“.

Og svo var náttúrlega reynt að kenna vondum áhrifum frá útlöndum um þetta skaðvænlega fyrirbæri sem málgagn atvinnurekenda og kaupmanna taldi aukna uppivöðslusemi verkalýðsins vera:

„Þessar svo nefndu kröfugöngur eru upp runnar í miljónaborgunum erlendis, og geta haft þar mikil áhrif í þá átt, að vekja eftirtekt og umtal manna á milli. Hjer er nú verið að apa eftir þessu, án þess að nokkur skilyrði sjeu til að það hafi lík áhrif hér og þar. Hjer er þetta ekki annað en meinlaus og gagnslaus skopleikur, og þátttökuleysi verkamannanna almennt sýnir, að þeir skilja þetta rjett.“

Hér er margt sem gæti verið skrifað á vorum dögum – að breyttu breytanda.

„Þessar svo nefndu kröfugöngur …“ minna auðvitað á hið „svonefnda hrun„.

Þá er gert lítið út mótstöðumönnunum – þetta voru ekki annað en krakkaskammir og kellíngar!!

Það „vakti almenna eftirtekt“ – það er giska svipað orðalag og „það sér það hver maður“ sem stundum hefur verið notað hin seinni ár.

Eigin skoðun þess sem talar gerð að almæltum tíðindum.

Og svo gefið til kynna að það sé bara verið að apa eftir útlendingum.

Og minnt á að aðstæður – skilyrði – séu vitanlega allt aðrar hér á Íslandi en annars staðar!

Og síðan aukið svolítið í háðið og spottið um andstæðinginn og það verður kvikindislegra: „… meinlaus og gagnslaus skopleikur.“

Svo loks punkturinn yfir i-ið – greinarhöfundurinn veit hvað er „rjett“ og er þess umkominn að útdeila lofi eða lasti eftir því hvort aðrir ramba líka á að „skilja þetta rjett“.

Þeir sem halda að verkalýðsstéttin íslenska hafi fyrirhafnarlaust sótt kjör og réttindi í vinalegan faðm atvinnurekenda, þeir ættu að kynna sér svolítið söguna.

„Stétt með stétt“ slagorð Sjálfstæðisflokksins var fundið upp skömmu eftir þetta til að reyna að bæla niður stéttarvitund verkamanna og gera þá auðsveipari.

Sannfæra þá um að allir hefðu einn málstað.

Ættu að leggjast saman á árarnar, ekki vera með kröfur og heimtufrekju.

Forstjórinn vill ykkur vel, kjánarnir ykkar – ekki níða af honum skóinn!

Einmitt um þetta leyti á þriðja áratugnum þurftu sjómenn að heyja mjög harða baráttu gegn útgerðarmönnum til að knýja vökulögin í gegn.

Lög sem áttu að tryggja þeim algjöran lágmarkshvíldartíma.

Útgerðarmenn börðust gegn þeim eins og grenjandi ljón – vældu og emjuðu um að fyrirtæki þeirra myndu ekki þola þá gerbyltingu, þau myndu fara unnvörpum á hausinn, atvinna sjómanna og fiskverkafólks væri í stórkostlegri hættu …

Æ hvað þetta er allt gamalkunnugt!

Ólafur heitinn Thors var þá í fararbroddi útgerðarmanna gegn sjómönnum og reif hár sitt og skegg á við hvurn sem var.

Hann var hins vegar nógu mikill maður til að iðrast seinna afstöðu sinnar.

Skyldu einhverjir af sægreifum nútímans eða stríðsherrum pólitísku deildarinnar eiga eftir að iðrast baráttu sinnar gegn sanngjörnum kröfum um réttlátara fiskveiðikerfi?

– – –

Í lokin – það var svo auðvitað tóm lygi í Mogganum að kröfugangan 1. maí 1923 hefði verið vandræðalega fámenn.

Hér er mynd af henni.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 30.4.2012 - 11:38 - FB ummæli ()

Kunnuglegar skammstafanir

Valgerður Bjarnadóttir segir að einhvern næstu daga verði næstu skref í stjórnarskrármálinu ákveðin, sjá hér.

Útlit er fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárfrumvarp stjórnlagaráðs í haust.

Það er gott.

Atkvæðagreiðslan verður að vísu aðeins ráðgefandi, en ætti að gefa góðar vísbendingar um vilja þjóðarinnar.

Málið lítur sem sagt vel út eftir margvíslegar tafir.

Það er líka mjög gott.

Verði stjórnarskrárfrumvarp stjórnlagaráðs grundvöllur að nýrri stjórnarskrá Íslands, þá mun margt breytast til batnaðar.

Þetta frumvarp hefur mætt furðu mikilli andstöðu, en ég held að þegar upp verður staðið komi í ljós að pólitísk andstaða við ríkisstjórnina, sem kom málinu af stað, hafi vegið þar þyngra en innihald frumvarpsins.

Þar er fullt af atriðum sem geta orðið til bóta í samfélaginu.

Og þar er harla fátt sem þorri þjóðarinnar gæti gert hugmyndafræðilegan ágreining um.

Enda sýnist mér að stuðningur við frumvarpið og tillögur þess sé ríflegur meðal þjóðarinnar.

Sjá hér.

Ég vona að þingmenn Sjálfstæðisflokks eyði nú ekki meiri tíma eða orku í að berjast gegn því að þjóðin fái að segja álit sitt á þessum tillögum.

Þær eru bara alveg prýðilega unnar, þvert oní það sem stríðsherrar Sjálfstæðisflokksins hafa reynt að telja mönnum trú um.

Og þær eru ekki hættulegar neinum – nema kannski örlitlum hópum sérhagsmunaaðila sem skreyta sig kunnuglegum skammstöfunum!

Leyfum þjóðinni að tala.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 28.4.2012 - 20:58 - FB ummæli ()

Lygi Sigmundar Davíðs

Til hvers er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í pólitík?

Ég fullyrði ekkert að allar hans skoðanir séu vitlausar.

Sjálfsagt má finna eina og eina sem eitthvert vit er í.

En samt … hvað er maður sem segir annað eins og ÞETTA að gera í pólitík?

„Tjónið af þessarri ríkisstjórn er orðið meira en tjónið af hruninu.“

Þetta er í fyrsta lagi vitlaust, í öðru lagi lygi og í þriðja lagi lýðskrum af allra ódýrasta en þó ósvífnasta tagi.

Maður þarf ekki að vera stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar til að viðurkenna hvað þetta er ömurlega vitlaust.

Og það er sorglegt að maður sem sér sjálfan sig í æðstu valdastöðum á Íslandi skuli tromma upp með svona endemis bull.

Auðvitað ætti Sigmundur Davíð að hafa dæmt sig endanlega úr leik í íslenskri pólitík með svona þvættingi.

En því miður er ég smeykur um að hann verði ekki hrópaður niður.

Við virðumst hafa endalaust umburðarlyndi fyrir svona þvættingi.

En með leyfi að spyrja – hvað á það að þýða að fjölmiðlarnir birti þetta prat Sigmundar Davíðs athugasemdalaust?

Eins og það sé markverð „frétt“?!!

Eru menn búnir að gleyma orðinu „kranablaðamennska“?

Sem þýðir að hagsmunaaðilar fá bara að skrúfa frá krana sínum, og engin tilraun er gerð til að meta áreiðanleika orða þeirra.

Eiga ekki fjölmiðlarnir að vera búnir að læra sína lexíu?

Að hlutverk þeirra er ekki bara að leyfa mönnum að þvaðra, heldur miklu frekar að afhjúpa bullið, varpa ljósi á lýðskrumið og forða okkur frá lyginni.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 18.4.2012 - 20:09 - FB ummæli ()

Óvænt útrás?

Heimurinn er frekar smár.

Í gærkvöldi var 20 manna hópur Íslendinga að tékka sig inn á flugvellinum í Addis Abeba í Eþíópíu.

Þar eru Íslendingar mjög sjaldséðir gestir, vægast sagt.

Þar sem Íslendingarnir stóðu í röðinni að innritunarborðinu á flugvellinum veittu þeir allt í einu athygli stúlku sem stóð í annarri röð.

Hún var á að giska átta ára, afrísk á húð og hár og í fylgd með sinni rammlega eþíópísku fjölskyldu sem ekki var mælt á annað mál en amharísku, megintungu Eþíópíumanna.

Á hinn bóginn var stúlkan í bol sem á stóð „Mjólkursamlag Búðardals“.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 16.4.2012 - 11:00 - FB ummæli ()

Snöggur að hugsa Steingrímur

Steingrímur J. Sigfússon er snöggur að hugsa.

Fallegt dæmi um það mátti sjá í fréttum Stöðvar 2 fyrir helgina þegar hann var spurður um þá beiðni Evrópusambandsins að eiga aðild að dómsmálinu gegn Íslendingum sem sprottið er vegna Icesave-málsins.

Steingrímur er ósáttur við þá beiðni eins og fleiri andstæðingar aðildar Íslands að Evrópusambandinu, þó erfitt sé að tengja þau tvö mál saman í reynd.

En lítið nú á hvað Steingrímur er fljótur að hugsa.

Evrópusambandið er sem sagt gengið í lið með –

Já, hverjum?

Þarna mætti búast við að Steingrímur héldi áfram og segði „… í lið með Bretum og Hollendingum …“ eða „… óvinum Íslendinga …“ eða jafnvel „… andskotanum sjálfum!“

En í miðri setningu rennur upp fyrir Steingrími að Evrópusambandið var í raun að biðja um að ganga í lið með Eftirlitsstofnun EFTA.

Því það er sú stofnun sem ákvað að fara í mál við okkur.

Það var ekki Evrópusambandið.

Það voru ekki Bretar og Hollendingar.

Það voru ekki sérstakir froðufellandi fjandmenn vorir!

Það var EFTA – klúbbur sem í eru þrjár þjóðir: Norðmenn, Liechtensteinar og … við!

Í æðstu stjórn Eftirlitsstofnunar EFTA, sem hóf málareksturinn, situr – ef marka má heimasíðuna – fólk sem ber kunnugleg nöfn eins og Sverrir Haukur Gunnlaugsson, Ólafur Aðalsteinsson, Hafsteinn Þór Einarsson, Hólmar Örn Finnsson, Sif Konráðsdóttir …

Það rann sem sagt upp fyrir Steingrími í miðri setningu að það var þetta fólk í ESA og okkar góðu vinir í EFTA – Norðmenn og Liechtensteinar – sem Evrópusambandið „gekk þarna formlega í lið með“.

Og honum fannst það greinilega ekki hljóma nógu sterkt.

Ekki nógu hættulegt.

Svo hann greip leiftursnöggt fram í fyrir sjálfum sér.

Ákvað að sleppa því að taka fram hverjir óvinirnir væru, en setja bara fram fullyrðingu um að þarna væri tekin afstaða gegn Íslandi!

Svona var framhaldið:

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 15.4.2012 - 20:37 - FB ummæli ()

Nei, við erum ekki að fría okkur ábyrgð …

Á netinu er nú aftur komið í umferð myndband sem tekið var saman misseri eftir hrun eða svo, og sýnir hvernig íslenskir ráðmenn bæði í bissniss og stjórnmálum bregðast við þegar þeir eru spurðir um ábyrgð sína.

Þetta er holl upprifjun.

Svör Árna Mathiesen fyrrverandi fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins eru sérstaklega athyglisverð.

Þegar hann er spurður um ábyrgð sína, þá svarar hann orðrétt:

„Nei, við erum ekki að [fría okkur ábyrgð]. Við erum að bregðast við vandamáli sem að koma upp, við erum ekki að fría okkur neinni ábyrgð, við erum af ábyrgð að bregðast við því, en ef að einhverjir aðrir meta stöðuna öðruvísi heldur en að við metum hana, þá er það ekki vegna þess hvernig að við metum hana, eða hvernig að við orðum það, þá er það vegna þess að þeir meta stöðuna öðruvísi, og þá er það grunnstaðan, og staðan sem að bankarnir voru í sem að þeir eru að meta.”

Ég veit ekki hvað þetta þýðir.

Þetta er hins vegar sorglega „lýsandi“ fyrir þá ábyrgð sem ráðamenn í pólitík og kaupsýslu og bönkunum hafa tekið á sínar herðar.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 15.4.2012 - 09:22 - FB ummæli ()

Lofar góðu

Það er ástæða til að benda á það sem vel er gert.

Starfshópurinn sem rannsaka Guðmundar- og Geirfinnsmálin virðist ætla að vinna sína vinnu af samviskusemi og alvöru.

Sjá þessa frétt Helgu Arnardóttur á Stöð 2.

Mér líst vel á Arndísi Soffíu Sigurðardóttur og þó ég viti náttúrlega ekki enn, frekar en aðrir, hvað muni koma út úr málinu, þá lofar þetta altént góðu.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra skipaði þennan starfshóp og hefur lofað því að reynist hann ekki hafa nægar rannsóknarheimildir, þá verði bætt úr því.

Í áratugi hafði enginn dómsmálaráðherra gert neitt afgerandi í að byrja það nauðsynlega hreinsunarstarf að þvo smánarblett Guðmundar- og Geirfinnsmála af íslensku samfélagi.

Ég er svo sem ekki hæstánægður með alveg allt sem Ögmundur tekur sér fyrir hendur í pólitík, en  hann mun alltaf eiga sæti á himnum fyrir að hafa tekið af skarið í þessu máli.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 11.4.2012 - 07:53 - FB ummæli ()

Ógleymanleg fjölskylda

Ég sé á auglýsingum að sýningum á Dagleiðinni löngu fer nú fækkandi í Þjóðleikhúsinu.

Ég ætla því að leyfa mér að hvetja fólk til að drífa sig.

Þetta leikrit Eugene O´Neill er heilmikið fjölskyldudrama og alveg sérstaklega vel skrifað.

Þessi fjölskylda sem þarna velkist um eina langa dagleið í lífinu verður manni ógleymanleg.

Hið sérstaka vandamál fjölskyldunnar er svo fyrirbrigði sem því miður er enn á fullri ferð í fjórða hverju húsi í Reykjavík – og leikritið hefur enn sitt að segja um þetta efni.

Önnur ástæða er fyrir fólk til að missa ekki af þessu: Leikur þeirra fjórmennnga á sviðinu.

Það er eitthvað, eins og börnin segja.

Stórleikur er stundum sagt, en það er kannski ekki rétta orðið, því þarna eru leikarar sem geta gert mikið með hinu smáa.

Svo er náttúrlega þýðingin alveg hreint snilldarleg en það er önnur saga!!

Drífið ykkur – hér er leikhúsið.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 10.4.2012 - 12:52 - FB ummæli ()

Stjórnlagaráð

Hér er myndband sem finnska þingið lét búa til og skýrir feril stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs.

Sá ferill hefur vakið athygli og jafnvel aðdáun víða í útlöndum þótt sumir hér innanlands reyni að gera lítið úr honum.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 9.4.2012 - 17:41 - FB ummæli ()

Öskrið

Alltaf öðruhvoru þegar ég á stund aflögu dettur mér í hug að nú verði ég að fara að taka til í tölvunni minni.

Inní henni er mýgrútur skjala af öllu tagi og því miður lítið system á galskapinu.

Megninu af því sem skrifað er í þessi skjöl er ég löngu búinn að gleyma, og líka full ástæða til.

Þó finn ég öðruhvoru eitthvað skemmtilegt.

Í dag fann ég svolítið skjal sem ég hef skrifað mér til minnis 3. ágúst 2002 en síðan gleymt.

Það er svolítið södt.

„Sonur minn [sem þá var nýorðinn þriggja ára] var á leið í sund á laugardagsmorgni og skyndilega umturnaðist hann og var með eintóm læti og leiðindi svo nánast þurfti að neyða hann í utanyfirfötin sína og svo draga hann háöskrandi út í bíl.

Úti í bíl stilltist hann mjög fljótlega og sagði síðan upp úr eins manns hljóði:

„Pabbi, ég er hættur að öskra.“

„Jæja?“

„Já. Öskrið er farið úr mér.“

„Það var nú gott. En af hverju var öskrið í þér?“

„Það veit ég ekki. Það var eitthvað rugl í mér.““

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!