Fimmtudagur 5.4.2012 - 18:51 - FB ummæli ()

Kunna þessir menn ekki að skammast sín?

Þessi frétt er að vísu ársgömul, en jafn góð fyrir því.

Útgerðarmaður fór í fríhöfnina að kaupa sér tannbursta en fór af rælni að skoða brennivínshillurnar og endaði á að kaupa sér brjóstbirtu fyrir 900 þúsund.

Á sama tíma voga útgerðarmenn sér að líkja sér við ofsótta Gyðinga í Þriðja ríki Hitlers.

Og það trekk í trekk.

Núna sjálfur Friðrik Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ.

Sjá hér.

Kunna þessir menn ekki að skammast sín?

Það er eiginlega ekki hægt að eyða orðum í menn sem tala svona.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 3.4.2012 - 19:05 - FB ummæli ()

„Við förum þá bara með bankana annað“

Ég tek undir með Merði Árnasyni hér.

Ég veit ekkert um sekt eða sakleysi Samherja í þessu tiltekna máli.

En hitt er nú ljóst að Samherji hefur nú gerst sekur um nákvæmlega sama hrokagikksyfirganginn og bankarnir á útrásarárunum.

Þá sjaldan að eitthvað virtist vera andað á snillingana okkar var alltaf viðkvæðið:

„Nú, við förum þá bara með bankana annað!“

Er þetta það fordæmi sem Samherji vill fylgja??

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 31.3.2012 - 13:20 - FB ummæli ()

Volvó utan úr geimnum og Addis Ababa

Sonur minn ungur er floginn út í heim, farinn til Eþíópíu með ömmu sinni og fleiri góðum Íslendingum.

Í fyrramálið verður hann lentur í Addis Ababa og næsta hálfan mánuðinn mun hann svo ásamt ferðafélögum sínum flakka um landið þvert og endilangt.

Það undarlega er að ég get skoðað úr lofti alla þá staði sem hann heimsækir.

Hér er Addis.

Þessar gervihnattamyndir utan úr geimnum eru vitanlega stórmerkilegt fyrirbrigði.

Allt í einu er hægt að skoða hvern einasta stað á jörðinni.

Þetta er undursamlegt, en stundum finnst mér þetta hálf hrollvekjandi líka.

Einu sinni sá ég Volvóinn minn á mynd utan úr geimnum.

Það fannst mér eiginlega full langt gengið.

En þó mun ég vitanlega ekki geta stillt mig um að njósna um þá staði sem drengurinn og móðir mín góð og þau hin fara um í þessari ævintýraferð.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 30.3.2012 - 16:37 - FB ummæli ()

Birgitta

Fram til 2009 er ég ekki viss um að margir hefðu látið sér detta í hug að Birgitta Jónsdóttir ætti mikið erindi á Alþingi.

Fyrirfram hefði ég að minnsta kosti ekkert endilega búist við því.

En burtséð frá því hvort ég er alltaf hundrað prósent sammála öllu sem Birgitta talar fyrir í hinni daglegu pólitík á þingi, þá verð ég að segja að hún hefur komið mér mjög þægilega á óvart.

Og er satt að segja ein af alltof fáum þingmönnum sem það má segja um.

Og hún er nú orðin lifandi sönnun þess að fleiri eiga erindi á Alþingi en ungliðar stjórnmálaflokkanna, félagsmálatröll og lögfræðingar.

Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá að hún er farin að spila alvöru rullu í baráttu gegn ritskoðunartilburðum okkar Stóru bræðra á alþjóðavísu.

Því hefði maður kannski ekki búist við, en Birgitta stendur sig með sóma.

Sjá til dæmis hér.

Hún er manneskja sem vill vel og leggur sig fram af einlægni um að koma hugsjónum sínum í framkvæmd. Og þó vottar ekki fyrir framhleypni eða sjálfsumhyggju.

Nú er svo komið að mér þykir betra að vita af Birgittu Jónsdóttur á þingi en ansi mörgum öðrum þingmönnum.

Furðumönnum eins og þessum, eða þvörgurum eins og þessum.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 30.3.2012 - 10:57 - FB ummæli ()

Sorglegt og hlægilegt

Menn geta haft ýmsar skoðanir á því hvernig á að breyta stjórnarskránni.

Sumir mega ekki til þess hugsa að „fólk útí bæ“ eins og stjórnlagaráð véli þar um, með mikilli aðkomu almennings eins og raun var á síðastliðið sumar.

Bjarni Benediktsson hneykslaðist til dæmis mikið á því um daginn:

„Engin þjóð hefur látið sér detta í hug að leita til þjóðarinnar …!“

Bjarni og hans menn treysta ekki félögum í stjórnlagaráði og almenningi til að skrifa nýja stjórnarskrá.

Þeir treysta eingöngu þingmönnum til þess verks.

Þingmönnum eins og Jóni Gunnarssyni.

Jón Gunnarsson er maður sem lítur á það sem „kommúnisma“ þegar reynt er að koma stjórnarskrá í þjóðaratkvæði.

En hann sé að berjast fyrir „lýðræði“ með því að koma í veg fyrir það.

Auðvitað er þetta alveg kostulegt myndband.

Eiginlega alveg stórkostlega hlægilegt.

En auðvitað verulega sorglegt líka.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 29.3.2012 - 10:25 - FB ummæli ()

Sleifarlagið

Viðtal Helga Seljan í Kastljósi í gær við Sævar Gunnarsson formann Sjómannasambandsins lýsir algjörlega óviðunandi ástandi í fisksölumálum landsins.

Ég hvet fólk til að horfa á þetta hér.

Þetta er eiginlega næsta hrollvekjandi viðtal.

Eftirlitsleysið, sleifarlagið – jahérna!

Í mörg ár hefur verið fjasað um að pottur sé brotinn og nú virðist vera að koma í ljós að það sé vægt til orða tekið.

Potturinn í maski, væri nær lagi.

En það er þá algjört lágmark að nota tækifærið og koma sæmilegri skikk á þessi mál – láta þau ekki danka framvegis.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 29.3.2012 - 07:34 - FB ummæli ()

Sandkassatrix

„Klækjastjórnmál“ er frekar kurteislegt orð yfir það sem Ragnheiður Elín Árnadóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins stundaði ásamt sínu fólki í fyrrinótt.

Þegar farið var fram á atkvæðagreiðslu eftir að umræðu um stjórnarskrárfrumvarpið lauk.

Sem aldrei er gert.

En svo stukku liðsmenn Ragnheiðar Elínar burt svo atkvæðagreiðslan gat ekki farið fram.

Svakalega sniðugt.

Je, sáuði hvernig hún sneri á „óvinina“.

Vá maður, örugglega klapp á bakið í Valhöll.

Þar kunna menn að meta svona!

En Ragnheiður Elín Árnadóttir féll töluvert í áliti hjá mér við þessar aðfarir.

Og ekki rís hún á ný þegar ég les frétt í Fréttablaðinu í morgun.

Þar segir hún umþetta sandkassatrix sitt hafa verið gert til að svara kröfu um „vönduð vinnubrögð“!!

„Er það ekki það sem við erum öll að kalla eftir?“ spyr hún.

Sem sagt – hún lætur ekki nægja sandkassatrixið, heldur getur hún ekki viðurkennt hreinskilnislega það eftir á.

Það hefði þó verið smá manndómsbragur á því.

Heldur fer hún með svona staðlausa lygi af því tagi sem allir vita samt að er bara lygi, en skal samt haldið fram útí það óendanlega.

Jahérna.

Það má ýmsar skoðanir á því sem stjórnarmeirihlutinn aðhefst á þingi.

Ekki er það allt frábært og fullkomið, nei, fjarri því.

En stjórnarandstaðan verður að horfast í augu við að það eru sandkassatrix eins og þetta sem hún beitir, og málþóf og innihaldslaust gjamm, sem eiga enn ríkari þátt en nokkuð brambolt ríkisstjórnarinnar í því hvernig komið er virðingu Alþingis.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 27.3.2012 - 23:53 - FB ummæli ()

Það allra allra lágkúrulegasta

Ég er ekki í stakk búinn til þess ennþá að lýsa fastmótaðri skoðun á kvótafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.

Ég er hreinlega ekki búinn að kynna mér það nógu vel.

En sum viðbrögð við því eru svo heiftúðug að mann setur hljóðan.

Af einhverjum ástæðum virðast þau allra ýktustu (að minnsta kosti þau sem ég hef séð) koma frá Vestmannaeyjum.

Elliði Vignisson: „Í framkomnu frumvarpi kristallast höfuðborgarhroki núverandi stjórnvalda. Þau líta á landsbyggðina sem nýlendu sem í lagi er að skattleggja þannig að allur sá arður sem þar verður til með svita og atorku íbúa, nýtist í hýtina í Reykjavík.“

Geir Jón Þórisson: „Þetta eru skelfilegustu hamfarir sem yfir okkur hefur dunið er þó af nægu að taka. Nú þarf að standa saman svo hægt verði að hrinda þessari ofbeldisárás á landsbyggðina út í hafsauga.“

En allra allra ýktustu viðbrögðin eru þó hér.

Þar er áhrifum kvótafrumvarpsins líkt við það sem gerðist í bókinni Öreigarnir í Lodz.

Öreigarnir í Lodz er frábær bók sem lýsir hryllilegri sögu þegar morðhundar þýskra nasista lokuðu Gyðinga inni í gettói, svívirtu þá og þrælkuðu og þeir sem ekki féllu vegna ofbeldis eða hungurs voru fluttir í útrýmingarbúðir.

Og murkað úr þeim lífið samviskulaust.

Bókin á að heita að vera skáldsaga, en er þó dagsönn – því miður.

Einhver skelfilegasta ræða sögunnar er ræða sem svokallaður „öldungur“ gettósins hélt þegar hann sagði íbúum að þeir yrðu að afhenda Þjóðverjum börn sín.

Og allir vissu að Þjóðverjar ætluðu að myrða börnin.

Hérna má lesa þessa hræðilegu ræðu – og líka það sem hin dauðadæmdu börn sögðu um líf sitt í þessum viðbjóði öllum.

Að það hvarfli einu sinni að Bergi Kristinssyni að líkja þessu sannkallaða víti við hugsanleg áhrif kvótafrumvarpsins á Vestmanneyjar, það lýsir svo brjálæðislegu hugarfari að mér verður eiginlega illt.

Þetta er ekkert annað en ógeðsleg svívirðing við hræðileg örlög þeirra þúsunda karla, kvenna og barna sem báru beinin í því helvíti á jörð sem gettóið í Lodz var.

Ógeðsleg svívirðing.

Já, hafðu það Bergur Kristinsson.

Þetta er eiginlega það allra allra lágkúrulegasta sem ég hef séð í svokallaðri „umræðu“ á Íslandi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 27.3.2012 - 10:41 - FB ummæli ()

Hysterískar blákaldar lygar

Ég hvet sem flesta til að lesa þessa grein hér eftir Magnús Halldórsson viðskiptafréttastjóra Stöðvar 2 og Vísis.is.

Magnús er ekki beinlínis þjóðhættulegur kommúnisti, svo það sé nú á hreinu!

En útreikningar hans sýna mjög ljóslega að hið nýja kvótafrumvarp ríkisstjórnarinnar er ekki mjög íþyngjandi fyrir sægreifana.

En þeir virðast sjá eftir hverri krónu sem þeir „missa“ úr eigin vasa yfir í vasa þjóðarinnar sem hefur alið þá.

Og hafa nú kallað út húskarl sinn á Morgunblaðinu og látið hann tromma upp með ótrúlega stríðsfyrirsögn:

„Útgerðin þjóðnýtt.“

Ekki skánar hlutskipti Davíðs Oddssonar.

Frá því að vera útnefndur stjórnmálamaður aldarinnar um síðustu aldamót er hann nú kominn út í það að flytja hysterískar blákaldar lygar fyrir auðjöfra landsins í sægreifastétt.

Því eins og grein Magnúsar Halldórssonar sýnir er það ekki bara spurning um túlkun, heldur bláköld lýgi, að kvótafrumvarpið feli í sér að útgerðin sé „þjóðnýtt“.

En ég vorkenni óbreyttum blaðamönnum Morgunblaðsins að þurfa að vinna þarna.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 25.3.2012 - 12:58 - FB ummæli ()

Af hverju stafar andstaðan?

Mér sýnist að þeir stjórnmálamenn sem eru sérstaklega andvígir því að þjóðin fái að kjósa um nýja stjórnarskrá týni fyrst og fremst til einhver smáatriði máli sínu til stuðnings.

Svona nánast smekksatriði.

Að heppilegra væri kannski að orða hitt eða þetta svona en ekki hinsegin.

Og svo nefna menn framgangsmátann við samningu frumvarpsins.

Leiðin er gagnrýnd, en minni höggstaður virðist finnast á áfangastaðnum.

Raunverulegur hugmyndafræðilegur ágreiningur um nýja stjórnarskrárfrumvarpið er nefnilega furðulega lítill.

Eiginlega alveg ótrúlega lítill.

Ég hef meira að segja orð eins gáfaðasta stjórnarskrársérfræðings sjálfstæðismanna fyrir því að í öllu stærstu dráttunum sé bara allt í lagi með frumvarpið (þótt eitthvað mundi hann eða hún kannski orða öðruvísi …).

Til dæmis er það tóm tjara að auðlindaákvæðið leiði til þess að einhverjar núverandi auðlindir í einkaeigu verði „þjóðnýttar“.

Sá sem heldur þvíumlíku fram er annaðhvort afar illa lesinn eða kýs að tala sér þvert um hug.

Það hvarflar því að manni sú spurning hvort andstaðan snúist ekki fyrst og fremst um tvennt.

Annars vegar geti sumir ekki fyrirgefið „venjulegu fólki“ að hafa komið saman því stjórnarskrárfrumvarpi sem reynst hefur stjórnmálamönnum og lagsmönnum þeirra ofviða í áratugi.

Hins vegar að ýmsir hagsmunaaðilar sem eru vanir að stjórna úr aftursætinu telji nýja stjórnarskrárfrumvarpið á einhvern hátt skerða sinn hlut.

Ég er smeykur um að þetta sé mergurinn málsins.

Og á þessum grundvelli muni sumir reyna að berjast með kjafti og klóm gegn því að þjóðin fái að kjósa um nýja stjórnarskrá.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!