Mánudagur 5.12.2011 - 17:00 - FB ummæli ()

Meira dót

Fyndin er frétt kanadíska blaðsins um hinar miklu áhyggjur sem kanadíski herinn hefur af mögulegum umsvifum Kínverja á Íslandi.

Ég held nú að mergurinn málsins leynist í þessari setningu:

„Senior figures in Canada’s military believe this is why Canada needs more ice breakers, ships and submarines.“

Eða: „Háttsettir menn í Kanadaher telja að þess vegna þurfi Kanada fleiri ísbrjóta, skip og kafbáta.“

Það er sem sagt víðar en hér sem strákar vilja allt til vinna að smíða meira dót.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 4.12.2011 - 13:54 - FB ummæli ()

Svei!

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis hefur gert þá tillögu að Sigurður A. Magnússon rithöfundur skuli bætast í heiðurslaunaflokk þingsins.

Fólk sem viðurkennir hlut og mikilvægi Sigurðar í íslenskum bókmenntum hefur lengi reynt að fá honum þarna sæti, en það hefur aldrei tekist vegna ákafrar andstöðu sjálfstæðismanna og líka framsóknarmanna.

Ástæðurnar fyrir því eru pólitísk afskipti Sigurðar fyrir 40 árum eða svo. Og framganga hans í einhverjum pólitískum deilumálum sem allir eru nú búnir að gleyma.

Nú er loksins lagt til að hann fái þessi (mjög svo hóflegu) heiðurslaun, en þá bregður svo við að nefndin er ekki sammála. Hingað til hefur það verið ófrávíkjanleg venja að tilnefna eingöngu þá listamenn í heiðursflokk sem algjör samstaða hefur verið um.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sitja hjá. Þeir geta ekki druslast til að greiða Sigurði atkvæði sitt.

Það er ótrúlega lágkúrulegt og reyndar alveg hrollvekjandi að einhverjar pólitískar (og persónulegar) deilur fyrir 40 árum séu enn að hafa áhrif á fólk sem var varla fætt þá.

En í nafni flokkapólitíkur er ekki hægt að unna gömlum rithöfundi þess að allir í nefndinni séu sammála um þann heiður sem honum vissulega ber.

Svei!

Ég tek undir og geri að mínum orð Kristjáns B. Jónassonar á Facebook-síðunni minni, þar sem ég hafði vakið máls á þessu:

„Að Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Siv Friðleifsdóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir, aðalmenn (eða konur) S og F í allsherjarnefnd skuli hafa nennt að leggjast svo lágt í þágu sinna flokka að sitja hjá við afgreiðslu málsins og varpa þannig skugga á þann sjálfsagða heiður sem það er að veita einum merkasta höfundi okkar af sinni kynslóð heiðurslaun, hryggir mig ósegjanlega.“

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 4.12.2011 - 10:34 - FB ummæli ()

Takk

Það gerist ekki oft núorðið að gamall hundingi kemst yfir bók sem ég er beinlínis þakklátur fyrir að hafa lesið.

Það gerðist þó í morgun.

Ég vaknaði um hálfátta og fór að lesa Jójó eftir Steinunni Sigurðardóttur.

Kláraði hana svo rétt í þessu.

Þetta er falleg bók, sorgleg, viturleg, hlý … og skilningsrík.

Ég hirði ekkert um að lýsa söguþræði eða þess háttar. Bara tek ofan minn andlega hatt fyrir Steinunni.

Þetta gastu þá!

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 3.12.2011 - 10:28 - FB ummæli ()

Sannur meistari

Það er full ástæða til að vekja athygli á skemmtilegum viðburði sem verður í Hörpu í dag klukkan eitt.

Friðrik Ólafsson stórmeistari í skák mun þá tefla fjöltefli við tíu af efnilegustu skákkrökkum landsins.

Sjá hér.

Saga Friðriks sem skákmeistara er stórmerkileg.

Hér á Íslandi var vissulega töluverð skákhefð um miðja 20. öld, en samt var strax ljóst þegar Friðrik kom fram á sjónarsviðið sem kornungur skákmaður um og upp úr 1950 að hann var af alltöðru kalíberi en aðrir skákmenn hérlendir.

Upp úr tvítugu varð hann stórmeistari og komst í hóp sterkustu skákmeistara heimsins, hvorki meira né minna.

Hann tefldi einu sinni á áskorendamóti þar sem átta helstu skákmenn heims tefldu um réttinn til að skora á heimsmeistarann. Og um þær mundir var hann einn af sárafáum skákmeisturum Vesturlanda sem náðu að velgja hinum ógurlegu skákvélum Sovétríkjanna undir uggum.

Langt fram á fertugsaldurinn var Friðrik efalaust í hópi 20 sterkustu skákmeistara í heimi.

Það sem meira var – hann var stórskemmtilegur skákmaður. Utan skákborðsins var hann hvers manns hugljúfi en yfir reitunum 64 sótti hann grimmilega gegn hverjum sem var.

Friðrik vann eina eða fleiri skákir af öllum þeim heimsmeisturum sem ríktu á velmektardögum hans – frá Tal til Karpovs. Hérna er stutt og fjörug skák þar sem hann sigrar hinn sókndjarfa Mikhaíl Tal.

Og hérna er skák frá 1980 þegar Friðrik sigraði Anatólí Karpov. Þau misseri var Karpov þó svo öflugur að það var heimsfrétt í skákheiminum ef hann tapaði skák.

Á miðjum aldri hætti Friðrik að mestu að tefla – hann var um tíma forseti Alþjóðaskáksambandsins sem sýndi hvílíkrar virðingar hann naut á alþjóðavettvangi, og síðan gerðist hann skrifstofustjóri Alþingis.

Hann hefur þó alltaf haldið taflmennskunni við og dúkkað upp á ýmsum skákviðburðum með reglulegu millibili.

Nú er hann orðinn 77 ára og mikill fengur að því að sjá hann setjast að tafli við yngstu kynslóð íslenskra skákmeistara.

Við Íslendingar erum svo fáir að við munum aldrei eignast ýkja marga einstaklinga sem komast í allra fremstu röð í heiminum.

En Friðrik er einn þeirra sárafáu.

Hér er skemmtileg mynd af Friðrik þegar hann tefldi einu sinni á Kúbu og hitti Fidel Castro sem þá var ungur að árum og svartskeggjaður.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 3.12.2011 - 09:43 - FB ummæli ()

Léleg arðsemi stóriðjunnar

Arðsemi af virkjunum fyrir stóriðju er lægri hérlendis heldur en af sambærilegri starfsemi erlendis.

Þessu hefur lengi verið haldið fram en talsmenn álverja og velferðarkerfis vinnuvélanna hafa þrjóskast við.

Hérna er komin enn ein sönnun þess, og vonandi sú endanlega.

Alltof lengi hafa stóriðjufíklar fengið að telja okkur trú um að hin eina framtíð okkar hljóti að liggja í stóriðjufabrikkum.

Allt annað sé bara hlægilegt húmbúkk.

Fjallagrasatínslubull.

Raunveruleg atvinna í landinu felist aftur á móti í því ræsa vélarnar, ræsa vélarnar, RÆSA VÉLARNAR!

Hættum nú að hugsa um álverin. Förum að hugsa um aðra hluti, sem greinilega eru ekki bara umhverfisvænni og mannvænlegri, heldur líka arðbærari.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 3.12.2011 - 09:24 - FB ummæli ()

Hvað ætla þeir að gera í því?

Jón Trausti Reynisson skrifaði grein í DV þar sem hann vakti athygli á og gagnrýndi orð Karls Sigurbjörnssonar biskups og Þórhalls Heimissonar sóknarprests um afstöðu Reykjavíkurborgar varðandi þátttöku skólabarna í messum og trúboði.

Sjá hér.

Menn geta haft hvaða skoðun sem þeir vilja á tilmælum Reykjavíkurborgar.

Mér sýnist ekki nokkur ástæða til að gera veður út af þeim, jafnvel ekki fyrir trúað fólk.

En aðalatriðið sem Jón Trausti bendir á er að Karl biskup og séra Þórhallur fóru með rangt mál.

Ýkjur þeirra um það sem tilmæli borgarinnar fólu í sér voru svo miklar að það er hreint ekki hægt að kalla það annað en að þeir hafi beinlínis logið upp á Reykjavíkurborg.

Og hvað ætla þeir nú að gera í því?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 2.12.2011 - 11:46 - FB ummæli ()

Hahaha, Gunnlaugur M. Sigmundsson

DV birtir í dag SMS-skeytin sem Gunnlaugur M. Sigmundsson sendi Teiti Atlasyni.

Í raun og veru er þetta ekkert gamanmál.

Það er ekkert sniðugt við að auðmaður skuli fara í mál við bloggara sem rifjar upp og endurprentar meira en áratugar gamlar greinar úr Morgunblaðinu um það hvernig þessi tiltekni auðmaður komst yfir fé sitt.

Gunnlaugur M. Sigmundsson var alþingismaður Framsóknarflokksins. Þetta er (A). En (B) hljóðar svona: Hann hætti og varð framkvæmdastjóri Kögunar sem hefur malað honum gull.

Um tengsl (A) og (B) skrifaði Agnes Bragadóttir mjög ítarlega í Moggann á sínum tíma, án þess að Gunnlaugur rótaði sér að ráði.

Nú þegar Teitur Atlason rifjar þetta hins vegar upp til merkis um spillinguna og helmingaskiptin sem hér viðgengust svo lengi, og bætir við fáeinum heldur almennum athugasemdum frá eigin brjósti, þá sér Gunnlaugur M. Sigmundsson hins vegar ástæðu til að fara í meiðyrðamál.

Af því hann telur líklega auðveldara að knésetja einn íslenskukennara í Gautaborg heldur en veldið sem Mogginn var á þeim tíma þegar greinarnar birtust fyrst.

Ja svei, miklir menn erum við!

Þetta er altso það í þessu máli sem er ekki fyndið.

Fastlega má reikna með að ætlun Gunnlaugs sé að stöðva alla frekari umfjöllun um það hvernig hann komst yfir Kögun með því að eiga þá yfir höfði sér rándýr meiðyrðamál – því málarekstur af þessu tagi er öðrum en auðmönnum auðvitað mjög dýr, jafnvel þó sigur vinnist.

Og ljóst að bara málskostnaðurinn getur riðið fjárhag Teits að fullu.

Raunar er það sorglegt að þetta telur Gunnlaugur M. Sigmundsson sér væntanlega gerlegt vegna þess að íslenskir dómstólar hafa á undanförnum árum umgengist meiðyrðalöggjöfina mjög furðulega.

Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hafa blaðamenn til dæmis hlotið dóm, ekki af því þeir hafa farið rangt með eða verið með óhæfilegar svívirðingar, heldur af því einhver hefur MÓÐGAST.

Móðgunargirni virðist vera orðin sjálfstæður faktor í íslensku réttarfari.

Það er auðvitað sorglegt, og íslenskir dómarar ættu sem skjótast að ákveða að snúa af þessari hættulegu braut.

En þrátt fyrir að þetta sé nú sem sagt allt heldur mikið alvöru mál, þá verð ég að viðurkenna að ég skellti upp úr í morgun þegar ég las SMS-skeytin sem Gunnlaugur sendi Teiti Atlasyni.

Að reyna að sjá fyrir sér forríkan auðmanninn á skrifstofunni sinni með símann í höndunum að pikka inn þetta SMS-skeyti til íslenskukennarans í Gautaborg …

„Teitur haettu ad vera svona vaeluskjoda. Ef ru raedst a einhverja kalla verdur tu ad vera madur til ad taka adleidingunum en ert bara grenjuskjoda. Stattu i lappirnar“

Eða:

„Tad eru tagufallsvillur i skrifum tinum lagadu tetta stingur i augun og haettu svo ad grenja“

… það er eiginlega hlægilegra en tárum taki!

Síðasta skeytið er þó reyndar handan við allan hlátur:

„Tu ert med tetta mal titt sjuklega a heilanum hvernig lidur konunni med tig svona sjukan?“

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 1.12.2011 - 14:13 - FB ummæli ()

Óvænt perla

Ég skrifaði fyrr í dag um tvær bækur úr jólabókaflóðinu.

Svo er ég búinn að lesa eina bók enn sem kom mér mjög skemmtilega á óvart. Sölvi Björn Sigurðsson gaf vissulega út fína skáldsögu fyrir tveimur árum sem heitir Síðustu dagar móður minnar, en hér heggur hann í allt annan knérunn. Þetta er saga sem séra Björn í Sauðlauksdal segir, en hann er kunnastur fyrir að hafa kynnt Íslendinga fyrir kartöflunni á 18. öld.

Þarna er lýst veislu sem séra Björn ætlar að halda en ýmislegt ber til tíðinda, áður en af henni getur orðið. Bókin er skrifuð af miklum þrótti og heilmikilli nautn, og ekkert er alveg eins og það sýnist.

Nautnin birtist bæði í sögunni sjálfri og stíl hennar, og líka í söguefninu – furðulegu samfélaginu, veislunni, matnum og matargerðinni, lífsgleðinni og svo ógninni sem er einhvers staðar á kreiki.

Bókin kom seint út, en á skilið alla athygli. Óvænt perla í jólabókaflóðinu!

Þessi bók heitir Gestakomur í Sauðlauksdal og svo kemur langur undirtitill.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 1.12.2011 - 14:08 - FB ummæli ()

Tveir strákar

Menn tala um að nú séu góð bókajól.

(Ætli það hugtak sé til einhvers staðar annars staðar en hér? Hvernig er bókaútgáfa í Færeyjum?)

Það eru að minnsta kosti óvenju margar hnýsilegar skáldsögur á ferð.

Ég held að engum blöðum sé um að fletta að Konan við 1.000 gráður sé veigamesta og djúpskreiðasta skáldsaga Hallgríms Helgasonar.

Ef málið snýst um hvort megi stytta texta hans, þá finnst mér það, já, það má stytta á stöku stað svo hinir best skrifuðu kaflar og hinir allra fimlegustu orðasprettir fái notið sín enn betur – en orðgnóttin dregur þó ekki úr spennu frásagnarinnar.

Þó það sé kannski bjánalegt að segja það um mann sem er svosem ekkert kornungur lengur, þá finnst mér Hallgrímur sýna með þessari bók að hann sé ört vaxandi höfundur! Persónulýsingar hans í þessari bók taka fram því sem ég hef áður séð í bókum hans.

Guðmundur Andri Thorsson gefur út einstaklega fallega bók sem heitir Valeyrarvalsinn – þetta er safn samtengdra smásagna, sem lýsa mannlífi í sjávarþorpi.

Hann er eflaust orðinn hundleiður á lofi og prísi um stíl sinn – og það má þá koma fram að mér finnst stíllinn ekki það besta við bækur Guðmundar Andra, heldur samlíðan hans með Ástu Sóllilju á jörðinni.

Mannskilningurinn altso.

Sem hann málar að vísu svo fallega upp með stílnum.

Mjög eftirminnilegt verk, Valeyrarvalsinn – það er örugglega mjög úthugsað, samspil sagnanna innbyrðis, vísanir í tónlist, etc., en bestur er hugurinn.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 30.11.2011 - 15:57 - FB ummæli ()

Ekki svarthvítur heimur

Þegar ég var svona tíu ellefu ára var ég í sveit á sumrin norður á Ströndum.

Einu sinni kom kona í heimsókn sem mér fannst vera býsna gömul en hefur líklega verið bara rétt á miðjum aldri. Hún var fjörug og skemmtileg og taldi ekki eftir sér að skeggræða við barnið um flest milli himins og jarðar.

Ég man ekki hvernig það vildi til, en einu sinni datt upp úr henni að hún teldi Ísland ekki vera sjálfstætt ríki.

Mér hnykkti svolítið við, enda var þá enn sú tíð að börn fóru prúðbúin í skrúðgöngur með íslenska fána á 17. júní til að fagna sjálfstæði landsins.

Svo ég spurði hana hvað hún ætti við, af hverju í ósköpunum við værum ekki sjálfstæð.

Og hún svaraði: „Ekki meðan hér er útlenskur her. Þá erum við ekki sjálfstæð.“

Hún átti sem sagt við ameríska herinn á Keflavíkurflugvelli.

Svo sagði hún mér nánar frá því hvað hún meinti – hún sagði mér frá sjálfstæðisbaráttunni sem hefði náð hámarki sínu á Þingvöllum 17. júní 1944 og hún sagði mér frá gleðinni sem hefði hríslast um brjóst sitt og annarra Íslendinga þegar fáninn okkar var dreginn að húni í fyrsta sinn.

Því þar var hún stödd og söng þjóðsönginn af raust.

Og hún sagði mér frá þeim vonum sem hefðu gegnsýrt sérhvern Íslending þegar sjálfstæði og frelsi voru fengin.

Svo dimmdi yfir svip hennar þegar hún sagði mér frá inngöngunni í hernaðarbandalagið NATO, sem flestir máttu vita að myndi óhjákvæmilega hafa í för með sér að hingað kæmi aftur útlenskur her.

Hún sagði mér frá því að hún hefði ásamt stórum hópi farið niður á Austurvöll til að mótmæla inngöngunni í NATO 30. mars 1949, en allt hefði komið fyrir ekki. Kröfur um þjóðaratkvæðagreiðslu voru hunsaðar, lögreglan umkringdi Alþingishúsið, sumir köstuðu grjóti og það kom til óeirða, sem enduðu með því að mótmælendur voru hraktir brott.

Og ég get svo svarið það að það voru tár í augum hennar þegar hún endurtók: „Við erum ekki sjálfstætt ríki meðan hér er útlenskt herlið. Á þessum degi var sjálfstæði okkar svívirt.“

Mér varð hugsað til þessarar konu þegar herinn fór fyrir nokkrum árum, ég veit ekki hvort hún var enn á lífi en vafalaust hefur brottförin glatt hana.

Og mér varð líka hugsað til hennar um daginn þegar ég las kafla um inngöngu Íslands í NATO í bók Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, Íslenskir kommúnistar 1918-1998.

Ég ætla ekki að skera upp einhverja herör gegn bók Hannesar. Að mörgu leyti er hún alveg prýðileg, hún rekur söguna á greinargóðan og skilmerkilegan hátt og Hannes hefur víða leitað fanga. Sjálfsagt verða fræðimenn ekki endilega sammála um túlkun höfundar á því hversu skeinuhættir kommúnistar voru íslensku samfélagi, en það er þá bara umræða sem fer fram í rólegheitum.

Og það er fullt af skemmtilegum myndum í bókinni, einkum frá fyrstu áratugum 20. aldar.

Og ég skil ekki þá gagnrýni að Hannes megi ekki skrifa um kommúnismann þó hann hafi hamast gegn honum alla sína tíð.

Einhverjir hafa nefnilega sagt sem svo að Hannesi væri skömminni nær nú eftir hrunið að skrifa um kapítalismann, ekki kommúnismann.

En það er nær náttúrlega ekki nokkurri átt. Það á aldrei að reyna að segja fólki fyrir hvað það á eða má skrifa um. Og sumir gætu jafnvel sagt að Hannes hefði nú þegar skrifað alltof mikið um kapítalismann – sjá til dæmis hér!

Nú – í seinni hluta bókarinnar þykir mér Hannes vissulega fara út í ansi mikinn sparðatíning þegar hann leitar uppi lofsamleg ummæli íslenskra vinstrimanna um foringja kommúnista og þau lönd þar sem þeir réðu ríkjum. Það má alveg halda þessu til haga, en þetta verður svolítið staglkennt og dregur úr flæði bókarinnar sem fram að því hafði verið ágætt.

Sum ummælin sem Hannes þefar uppi eru vissulega ansi vandræðaleg, en það er þá bara svoleiðis. Sumt er kannski ekki alveg rétt hjá Hannesi – til dæmis spruttu um daginn blaða- og bloggskrif um þá fullyrðingu hans að Sigfús Daðason skáld hefði „verið ófáanlegur“ til að gagnrýna innrás Sovétríkjanna í Ungverjaland, en það reyndist rangt.

Hins vegar verður að viðurkennast að gagnrýni hins góða skálds var því miður ekki beinskeyttari en svo að þetta var svona næstum því rétt hjá Hannesi.

Og í framhaldi af upptalningu Hannesar á hrósyrðum vinstrimanna um erlenda kommúnistaleiðtoga, þá finnst mér óneitanlega svolítið billegt af honum að nefna ekki einu sinni þó nokkur tilfelli þar sem Matthías Johannessen ritstjóri Morgunblaðsins fór fögrum orðum um Maó formann í Kína, jafnvel eftir að glæpir hans hefðu átt að vera orðnir öllum ljósir.

Ég meina ekki að þetta hefði átt að gera til að spæla Matthías, heldur hefði aðdáun Moggaritstjórans á kommúnistaleiðtoganum í Kína getað orðið Hannesi tilefni til að fjalla um að jafnvel á myrkustu dögum kalda stríðsins, þá hefði heimurinn verið ögn flóknari en áróðursmeistarar hinna svarthvítu stórvelda vildu vera láta.

Mantran „hægrimenn góðir, vinstrimenn vondir“ (eða öfugt) hefði stundum ekki dugað öllum!

En það sem ég vildi sagt hafa – og það sem varð til þess að ég hugsaði til konunnar sem ég hitti á Ströndum – það var kaflinn „Árás á Alþingi“ í bók Hannesar.

Einmitt af því að bók Hannesar er í rauninni alveg ágætt yfirlitsrit um vinstrihreyfinguna framan af 20. öld, þá fannst mér sá kafli þeim mun ergilegri.

Því ef bókin verður lesin sem heimild um þennan part sögunnar á 20. öld, þá vantar konuna á Ströndum alveg í þennan kafla.

Í kaflanum kemur aðeins fram að mannfjöldi hafi safnast saman á Austurvelli samkvæmt fyrirskipun leiðtoga sósíalista og kommúnista sem hafi ætlað að hindra inngönguna með valdi. Síðan er einvörðungu talað um „upphlaupsmenn“ og „óeirðaseggi“ og skal ekkert dregið úr því – vissulega varð það þarna upphlaup, grjóti kastað og ofbeldi beitt – en reyndar af beggja hálfu.

En í þeirri heimsmynd sem þarna er dregin upp er ekkert rúm fyrir konuna af Ströndum, og félaga hennar. Hún var enginn kommúnisti. Þetta var háborgaraleg dama, og hefur áreiðanlega kosið Sjálfstæðisflokkinn alla sína tíð, ef andstaða við herinn hefur þá ekki komið í veg fyrir það.

En hún mætti á Austurvöll, ekki að fyrirskipan kommúnista og alveg áreiðanlega ekki heldur til að gera „árás á Alþingi“. Hún og vinir hennar höfðu áhyggjur af hinu nýfengna sjálfstæði Íslands – þau töldu að það væri í hættu með þátttöku í hernaðarbandalaginu.

Hvort þau höfðu rétt fyrir sér eða ekki, það skiptir ekki öllu máli.

En þau eiga alla vega betra skilið en að enda uppi sem andlitslaus massi „óeirðaseggja“ sem var mættur á Austurvöll af eintómri hlýðni við alheimskommúnismann.

Jafnvel á Austurvelli 30. mars 1949 var heimurinn ekki svarthvítur.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!