Föstudagur 7.10.2011 - 08:43 - FB ummæli ()

Loksins, loksins

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra mun á næstu klukkustundum tilkynna um starfshóp til að fara yfir Guðmundar- og Geirfinnsmál.

Það er mjög gott, og ég ætla að vona að vel takist til um val fólks í þennan starfshóp.

Auðvitað er sorglegra en tárum taki að þetta skuli ekki hafa verið gert fyrir löngu, en því verður ekki breytt héðan af – og sjálfsagt að þakka það sem nú er loksins, loksins verið að gera.

Ég ætla bara að vona að starfssvið þessa hóps muni ekki aðeins ná yfir rannsóknina á sjálfu Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.

Því það verður líka að rannsaka hvernig í ósköpunum Hæstiréttur gat komist að þeirri niðurstöðu árið 1997 að engin ástæða væri til að taka málin upp.

Það er eiginlega ekki minna hneyksli en sjálft málið á sínum tíma.

Svo ég vitni nú bara í pistil sem ég flutti sjálfur um málið fyrir 16 árum, sjá hér.

Ef rannsókn á endurupptökubeiðni Sævar Ciesielskis fer ekki fram um leið og rannsókn á Guðmundar- og Geirfinnsmálinu sjálfu, þá er bara hálfur sigur unninn.

En ég treysti því að þetta muni fylgja með í starfslýsingu hópsins hans Ögmundar.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 7.10.2011 - 07:55 - FB ummæli ()

Þorgerður Katrín og spennandi tímar fyrir Sjálfstæðisflokkinn

Teitur Atlason tekur skemmtilegt viðtal við Einar Má Guðmundsson rithöfund á bloggi sínu í dag, sjá hér.

Ég get þó ekki setið á mér að leiðrétta eitt atriði í viðtalinu.

Þeir félagar nefna undir lokin þau ummæli Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur að „nú séu áhugaverðir (eða spennandi) tímar fyrir Sjálfstæðisflokkinn“ sem hún hafi látið falla í hruninu.

Og eru sammála um að þetta séu óskiljanleg ummæli sem lýsi þó einna helst firringu stjórnmálamannsins Þorgerðar Katrínar.

Eða þetta sé jafnvel í samræmi við nýfrjálshyggjuna sem hún hafi fylgt.

Menn geta vissulega haft hvaða skoðun sem þeir vilja á Þorgerði Katrínu, en þetta er svolítið ósanngjarnt.

Hún lét þessi ummæli falla þegar Sjálfstæðisflokkurinn hafði stigið eitt skref í áttina að ESB í desember 2008 – hafði skipað starfshóp um málið, eða eitthvað í þá áttina.

Þar sem Þorgerður Katrín er ESB-sinni var hún ánægð með þetta skref og sagði því að þetta hefði í för með sér áhugaverða eða spennandi tíma fyrir flokkinn.

Það var það sem hún átti við – ekki að það væri svo gaman í hruninu.

Vissulega má segja að þetta hafi – í hinu stærra samhengi hlutanna – verið klaufalegt orðalag, en merkingin var sem sagt þessi.

Ég hef oft orðið var við að menn eru búnir að gleyma tilefni orðanna, en muna aðeins orðin sjálf.

Þá kemur upp í mér kennarinn!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 6.10.2011 - 19:53 - FB ummæli ()

Hver er „sú vinna“ Steingrímur?

Það er guðsþakkarvert hvað sú reiðibylgja virðist ætla að rísa hátt sem kviknaði af ráðningu Páls Magnússonar til Bankasýslu ríkisins.

Með fullri virðingu fyrir mannkostum Páls, þá er ráðning hans í þetta embætti skandall og ekkert nema skandall, og það af fleiri en einni ástæðu.

Hann er augljóslega ekki hæfastur í djobbið – og hvort sem honum sjálfum þykir það ljúft eða leitt, þá er fortíð hans við einka(vina)væðingu bankanna þess eðlis að þetta er nákvæmlega það starf sem hann á EKKI að gegna.

Ef við létum okkur fátt um finnast, þá þýddi það að allar okkar heitstrengingar um að við ætluðum að læra eitthvað af „góðærinu“ og síðan hruninu væru bara innantómt blaður.

Ég er mest hissa á að Páll sjálfur skuli ætla að sitja við sinn keip og taka þetta starf.

En þetta bara má ekki gerast, og ég vona að andstaðan við þetta fáránlega uppátæki Bankasýslu ríkisins muni ekki lyppast niður.

Helgi Hjörvar kvað prýðilega skýrt að orði á þingi í dag – gott hjá honum.

En í fréttum Ríkissjónvarpsins áðan var sagt að Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hefði beðið um skýringar Bankasýslu ríkisins á því af hverju Páll hefði verið ráðinn og þangað til sú vinna væri að baki myndi hann ekki tjá sig.

Haaaaa?

Má fjármálaráðherra ekki tjá sig um hvað sú mikilvæga stofnun, sem heyrir undir hann, tekur sér fyrir hendur?

Ég er ekki að biðja um að ráðherrar séu með puttana í öllu, fjarri því, en ég hefði nú haldið að ráðherra mætti tjá sig um annað eins og þetta, sér í lagi vegna þess að þetta hefur vakið mikla reiði í samfélaginu.

En Steingrímur ætlar ekki að tjá fyrr en Bankasýsla ríkisins hefur innt af hendi „þá vinnu“ að skýra ráðninguna.

Með leyfi, hver er „sú vinna“?

Þorsteinn Þorsteinsson er búinn að koma í Kastljósið og halda uppi vörnum fyrir ráðninguna. Ráðningarferillinn hlýtur að vera allur til á pappír. Það ætti ekki að taka nema svona klukkutíma að smala saman öllum gögnum málsins og fá í hendur Steingrími.

Hans knái aðstoðarmaður gæti jafnvel græjað þetta á bara hálftíma.

Svo er til tæki sem heitir sími, og Steingrímur gæti jafnvel hringt í Þorstein, hafi honum ekki þótt stjórnarformaður Bankasýslunnar skýra málið nógsamlega í Kastljósi.

En í staðinn á að eyða tíma í að Bankasýsla ríkisins vinni einhverja „þá vinnu“ við að skýra þennan skandal.

Hver getur „sú vinna“ verið?

Að tala við einhverja lögfræðinga um hvernig megi réttlæta þetta?

Og gefa Páli Magnússyni á meðan færi á að koma sér þægilega fyrir í embættinu?

Og svo þegar „þeirri vinnu“ er lokið eftir einhverjar vikur (!!) þá nennir enginn eða kann enginn við að hrófla við honum?

Ég ætla rétt að vona að þetta sé ekki hugsað svona.

Ænei, Steingrímur. Ekki fara að eyða tíma í að bíða eftir „þeirri vinnu“.

Við erum búin að fá skýringarnar, og þú vafalaust líka.

Til hvers að drepa málinu á dreif?

Nýja Ísland, manstu?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 6.10.2011 - 14:45 - FB ummæli ()

Blessaði guð Ísland?

Já, er það í dag sem þrjú ár eru frá „guð blessi Ísland“ ávarpinu?

Ég ætlaði að fara að horfa á þetta, en Eyjan birtir ávarpið hér.

En svo réði ég bara ekki við það. Hætti eftir 2-3 mínútur.

Þetta virðist eins og rödd aftan úr forneskju.

Frá týndum tíma.

Og ég hafði bara ekki nokkru einustu þörf fyrir að koma mér þar fyrir aftur.

En spurningin er kannski: Blessaði guð Ísland?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 6.10.2011 - 11:19 - FB ummæli ()

Skáldið Adonis sem fékk EKKI Nóbelsverðlaunin

Tomas Tranströmer fær Nóbelsverðlaunin í bókmenntum í ár. Það var tilkynnt í Stokkhólmi rétt áðan.

Vafalítið er Tranströmer vel að þessum prís kominn. Persónulega hefði mér þó þótt skemmtilegra ef sænska Nóbelsnefndin hefði veitt skáldinu Adonis þessi verðlaun að þessu sinni.

Eins og kemur fram hér – á vefsíðu Tranströmers sjálfs – þá töldu margir víst að annar hvor þeirra tveggja fengi verðlaunin í ár.

Vegna mótmælanna sem staðið hafa yfir í Sýrlandi undanfarið og hinna grimmilega viðbragða harðstjórans Bashir Assad sem sendir skriðdreka gegn þjóð sinni, þá hefði auðvitað verið litið á það í mjög pólitísku ljósi.

Sem stuðningsyfirlýsingu við hina sýrlensku þjóð í raunum hennar.

Það hefði vissulega verið skemmtilegt.

En hinu er þó rétt að halda til haga að Adonis hefur lengi verið nefndur sem hugsanlegur verðlaunahafi (eins og Tranströmer!) og raunar hefði ekki komið á óvart þó honum hefði hlotnast hnossið fyrir mörgum árum.

Bókmenntalegt gildi hans hefði því ekki verið dregið í efa.

Adonis fæddist þann 1. janúar 1930 í litlu þorpi í Norður-Sýrlandi, skammt frá landamærunum að Tyrklandi við Miðjarðarhafsströndina. Hann er því tæplega 82ja ára gamall. Rétt nafn hans er Ali Ahmad Said Asbar og hann tilheyrði söfnuði Alavíta sem er allfjölmennur í Sýrlandi. Alavítar eru yfirleitt sagðir tilheyra sjíum, en leggja sérlega mikla áherslu á hið dulspekilega í lífsspeki sinni.

Fjölskylda Adonis tilheyrði bændastétt og hann vann ungur á ökrunum, en fékk snemma áhuga á kvæðum. Faðir hans fór gjarnan með gamla ljóðabálka fyrir soninn og hinn ungi Ali Ahmad fór brátt að yrkja sjálfur. Hann vakti athygli og fékk styrk til háskólanáms í Damaskus. Eftir að hafa sent ljóð til birtingar í tímaritum en ávallt verið hafnað tók hann upp skáldanafnið Adonis í von um að breiða yfir hver hann væri.

Upp úr tvítugu tók Adonis jafnframt þátt í stjórnmálum en hann var félagi í þjóðernissinnuðum flokki sem vildi efla sjálfstæði og fullveldi Sýrlands. Sýrlensk stjórnmál á sjötta áratugnum voru flókin og hver höndin upp á móti annarri. Flokkur Adonis var bannaður af stjórnvöldum og hann sat í fangelsi í hálft ár.

Eftir að hafa verið sleppt úr fangelsi fluttist Adonis til Beirut í nágrannaríkinu Líbanon árið 1957. Þar var þá friðsamlegra um að litast en í Sýrlandi. Í Líbanon stofnaði Adonis ásamt félaga sínum tímarit sem helgað var ljóðlist, og voru þeir upphaflega nokkuð gagnrýndir þar sem þeir þóttu helstil nútímalegir í ljóðagerð sinni. Smátt og smátt fór þó orðspor Adonis vaxandi.

Hann þótti sameina á kröftugan hátt hugðarefni Sýrlendingsins eða Arabans sem vilja hefja þjóð sína og menningu til vegs og virðingar, og svo dulspekings sem grúfir sig yfir vandamál lífs og dauða, og túlkar þau ekki alltaf á hinn einfaldasta hátt. Arfleifð dulspekinganna sem kallaðir voru súfistar eignaðist bólstað í brjósti og ljóðum Adonis.

Adonis varð prófessor í arabískum bókmenntum við háskólann í Beirut en fór reglulega til Frakklands til að kenna og halda fyrirlestra. Eftir að borgarastyrjöldin í Líbanon braust út 1975 fór hann úr landi og hefur búið að mestu í París síðan.

Undanfarin ár hafa hlaðist á hann verðlaun og viðurkenningar.

Árið 2007 fékk hann til dæmis hin virtu Björnson verðlaun í Noregi, en þau verðlaun fékk Einar Már Guðmundsson í  fyrra ásamt Slóvakanum Milan Richter. Fyrr á þessu ári fékk hann svo hin mjög svo eftirsóttu Goethe-verðlaun í Þýskalandi, en þau eru veitt á um það bil þriggja ára fresti þeim sem skara fram úr í menningarlífi heimsins – ekki aðeins í bókmenntum.

Verðlaunin hafa fengið leikhúsmenn (Peter Stein, Pina Bausch), kvikmyndagerðarmenn (Ingmar Bergman), heimspekingar, gagnrýnendur, sagnfræðingar o.s.frv. Síðasti rithöfundurinn sem fékk þau á undan Adonis var Ísraelinn Amos Oz sem hefur líka margoft verið tilnefndur til Nóbelsverðlauna.

Kannski Nóbelsnefndinni hafi því þótt sem Adonis skorti ekki beinlínis verðlaun í ár!

Ég ætla ekki að þykjast þekkja meira til ljóða Adonis en ég geri í raun og veru – það er að segja afskaplega lítið.

Ég les auðvitað ekki arabísku og veit því ekkert hvernig hann hljómar á frummálinu, eða hvernig hefur tekist til með þær þýðingar á ensku sem ég hef gluggað í.

Ég ætla hins vegar að reyna að snara í fljótheitum úr ensku kvæði sem mér finnst dálítið eftirminnilegt. Þetta er auðvitað gert á handahlaupumm, af algjörum vanefnum og ekki úr frummáli, svo sjálfsagt er lítið að marka þetta. En við skynjum þó kannski hvað hann er að hugsa!

Þetta er alla vega ljóð sem hlýtur að hafa nú öðlast nýja merkingu í augum brottflutts Sýrlendings sem hugsar nú heim til hörmunganna í Damaskus og annars staðar í Sýrlandi.

HEIMALAND

Fyrir andlitum sem visna undir grímu angurværðar,

lýt ég höfði.

Fyrir vegum þar sem ég gleymdi tárum mínum,

fyrir föður sem dó grænn sem ský

með segl fyrir andlitinu,

lýt ég höfði

og fyrir barni

sem er selt

til að biðja og bursta skó

(heima hjá mér erum við alltaf að biðja og bursta skó),

og fyrir klettunum sem ég hjó út í hungur mitt

sem væru þeir eldingar og regn

er byltist undir augnlokunum,

og fyrir húsi hvers leir ég bar á ferðum mínum,

lýt ég höfði.

Allt þetta er mitt heimaland –

ekki Damaskus.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 6.10.2011 - 07:25 - FB ummæli ()

Jobs dáinn

Ég ætla nú ekki að halda því fram að mér hafi þótt beinlínis vænt um Steve Jobs.

Það væri verulega ofmælt.

En ég hef notað vélarnar hans í 20 ár, þótt hin nýjast iPad bylting hafi enn sem komið er farið framhjá mér.

En sumar af fyrri vélunum skipa sérstakan sess í huganum.

Macintosh Classic – hver getur gleymt slíku tryggðatrölli, frekar en gömlum hesti sem hefur þjónað manni vel?

En Steve Jobs var líka eftirminnileg persóna – það var gaman að vita af honum vera til.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 5.10.2011 - 10:21 - FB ummæli ()

Fleira skiptir máli en afskriftir

Þetta hér er fín grein hjá Jóni Trausta ritstjóra DV.

Það er fátítt að einhver – fyrir utan hörðustu flokksmenn Samfylkingar og Vinstri grænna – þori að hrósa Jóhönnu og Steingrími núorðið, svo massífur er áróðurinn gegn þeim.

Og það er gott hjá Jóni Trausta að benda fólki á það sem vel hefur verið gert.

Sérstaklega því fólki sem telur að árangur stjórnarstefnunnar ráðist eingöngu af því hvort það sjálft fær meira eða minna afskrifað af skuldum sínum.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 4.10.2011 - 08:17 - FB ummæli ()

Vansæmd framsóknarmanna andspænis mannkynssögunni

Ræðurnar á Alþingi í gærkvöldi voru afar misgóðar, eins og gengur. Ég sá þær ekki allar svo það væri ekki sanngjarnt að fella hér palladóma um kvöldið í heild.

Af þeim ræðum sem ég sá og heyrði fannst mér Þráinn Bertelsson tala vel og skörulega. Hann varpaði fram spurningu sem hver og einn verður að svara fyrir sig:

Ef peningar eru mælikvarði hamingjunnar, eins og ætla mætti af umræðunni í samfélaginu, af hverju erum við þá ekki beinlínis blússandi kát og glöð?

Vegna þess að fyrir utan fáein misseri um og fyrir 2007 höfum við aldrei í samanlagðri sögu Íslendinga haft það eins gott.

Guðmundur Steingrímsson var líka fínn, og Magnús Orri Schram kom á óvart!

En hvað er málið með Framsóknarflokkinn og mannkynssöguna?

Ég legg til að þingmenn Framsóknarflokksins taki upp þann sið að lesa Tímans rás hér Eyjunni á hverjum morgni. Þeir gætu lært eitthvað af því, svona smátt og smátt.

Vigdís Hauksdóttir flutti afar eftirminnilega ræðu fyrir ýmissa hluta sakir, en ég sem áhugamaður um sögu sperrti þó helst eyrun þegar Vigdís fullyrti að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur stjórnaði í anda anarkisma – stjórnleysisstefnunnar.

Þetta er svo vitlaust að það er eiginlega alveg glórulaust.

Hvernig getur manneskja sem væntanlega hefur farið gegnum skólakerfið látið sér um munn fara annað eins bull?

Í fyrsta lagi er ríkisstjórnarstefna núverandi ríkisstjórnar eins langt frá hinum klassíska anarkisma eins og nokkuð getur verið.

Í öðru lagi, þó menn séu kannski ekki neitt rosalega vel að sér um Proudhon, Bakunin og þá félaga alla, og síðan nútíma stjórnleysisstefnu, þá er þetta samt alveg feykilega vitlaust, því það liggur svo fullkomlega í augum uppi að hvað svo sem segja má um Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon, þá eru þau ekki stjórnleysingjar!!

Ég varð var við að ýmsir brugðust við þessum þvættingi Vigdísar með því að skella sér á lær en segja svo: „Æ, þetta var nú bara hún Vigdís Hauks. Hún er alltaf að segja eitthvað svona.“

Og menn sögðu sem svo að ræður hennar væru yfirleitt besta skemmtiefnið á Alþingi, meðal annars og ekki síst út af svona bulli sem hún léti út úr sér.

Ég hef ekki fylgst með ræðum Vigdísar Hauksdóttur hingað til. Og ég ætla ekki að taka upp þann sið, þrátt fyrir hugsanlegt skemmtigildi hennar á Alþingi.

Því mér finnst ekki að þingmenn eigi að fara með þvíumlíkt fleipur.

Það er ekki fyndið að horfa upp á það, það er sorglegt.

En ef menn hneigjast til að taka Vigdísi Hauksdóttur ekki mjög hátíðlega, eins og mér heyrðist í gærkvöldi, þá ætlast þó annar framsóknarmaður vissulega til þess að vera tekinn grafalvarlega.

Sjálfur formaðurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Hann sagði í ræðu sinni eitthvað á þá leið að ríkisstjórn Jóhönnu fylgdi þjóðnýtingarstefnu sem Lenín hefði verið fullsæmdur af.

Ég held að ég muni þetta nokkurn veginn orðrétt.

Þetta er alveg jafn vitlaust og bullið um anarkismann – en kannski ættu framsóknarmenn að reyna að koma sér niður á einhverja sameiginlega söguskoðun áður en þeir þykjast næst þess umkomnir að taka líkingar úr mannkynssögunni.

Anarkismi og kommúnismi Leníns eiga nefnilega ekki beinlínis margt sameiginlegt!

En virðulegi þingmaður!

Nei, stefna ríkisstjórnar Jóhönnu á EKKERT skylt við þjóðnýtingarstefnu Leníns.

Ekkert.

Og það er þér til vansæmdar að halda fram öðrum eins þvættingi.

Ég hreinlega nenni ekki að setja hér á pistil um þjóðnýtingarstefnu Leníns vis-à-vis ríkisstjórnarstefnu Jóhönnu Sigurðardóttur. Þið megið treysta mér: Þessi fullyrðing var algjörlega út í hött.

Og í öðru lagi – bara það að líkja íslenskum stjórnmálamönnum við Lenín, sem kom á fót grimmilegri kúgunarstjórn sem bar ábyrgð á dauða milljóna og aftur milljóna Rússa (meðal annars með þjóðnýtingu bújarða sem leiddi af sér hungursneyð) – það er líka þér til vansæmdar, virðulegi þingmaður.

Það er gott og göfugt að hafa þekkingu á mannkynssögu, það getur hjálpað manni að skilja samtímann.

En í þessu tilfelli gerir bull þingmannanna tveggja ekki annað en fylla mann blygðun yfir fáfræðinni og belgingnum sem fylgdi þessum „lærdómum“ úr sögunni sem þingmennirnir töldu sig hafa dregið.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 3.10.2011 - 16:48 - FB ummæli ()

Hvað ætlar þú að gera í því, Steingrímur?

Þetta er opinber fyrirspurn til Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra:

1. Telur þú, Steingrímur, að vel hafi verið valið þegar Páll Magnússon var valinn forstjóri Bankasýslu ríkisins? Þá sérstaklega með tilliti til þess að hann hafði sem kunnugt er minnsta reynslu og minnsta menntun umsækjenda, en var aftur á móti innsti koppur í búri þegar bankarnir voru einka(vina)væddir á sínum tíma og náinn aðstoðarmaður ýmissa framsóknarmanna hvers tími í opinberri „þjónustu“ við héldum að væri liðinn.

2. Ef þú telur að ekki hafi verið vel valið, hvað ætlar þú þá að gera í því?

Aðrir ráðherrar í ríkisstjórn Íslands mega alveg svara þessari spurningu líka!

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 3.10.2011 - 10:38 - FB ummæli ()

Lögreglumenn á hálum ís

Ég er vinur lögreglumanna.

(Allra nema ríkislögreglustjóra, sem mér finnst að ætti að sjá sóma sinn í að snúa sér að einhverju öðru.)

Almennir lögreglumenn hafa undantekningarlaust reynst mér vel þegar ég hef þurft að leita til þeirra, og mér finnst í rauninni að ásamt störfum í menntakerfi og heilsugæslu séu löggæslustörf einhver þau mikilvægustu í samfélaginu.

Ég styð þess vegna eindregið að lögreglumenn fái mannsæmandi laun fyrir sín erfiðu störf.

En eins og aðrir geta lögreglumenn líka lent á hálum ís.

Ég tek til dæmis fullkomlega undir það hjá Guðmundi Andra Thorssyni hér að það var MJÖG undarlegt að heyra Landssamband lögreglumanna „harma“ það að lögreglumenn skyldu eiga að vera „mannlegur skjöldur milli þings og þjóðar“ við þingsetningu.

Alveg sama hvaða skoðun maður hefur á þinginu og þingmönnum, þá er eiginlega svo súrrandi vitlaust að lögreglumenn líti þannig á varðgæslu sína við þingsetningu að sá lögreglumaður sem „harmar“ það ætti eiginlega líka að drífa sig í annað starf.

Því það er jú einn meginhluti af starfi lögreglumanna að gæta öryggis fólks, þar á meðal þingmanna.

Eins og Guðmundur Andri segir: „Þetta er óneitanlega hátimbrað orðalag og athyglisvert að eggjakösturum skuli hlotnast sú upphefð í túlkun lögreglunnar að vera hvorki meira né minna en „þjóðin“. Í raun táknar yfirlýsingin að lögreglumenn harma það að hafa þurft að verja borgara þessa lands fyrir árásum ofbeldisseggja. Hvað er þeim eiginlega kennt þarna í Lögregluskólanum?“

Sumt annað sem einstakir lögreglumenn hafa látið frá sér fara í fjölmiðlum undanfarið hefur líka orkað tvímælis.

Ég varð til dæmis mjög hugsi yfir því þegar einn lögreglumaður nefndi það sem dæmi um hvað lögreglustarfið væri erfitt (og ætti því að vera vel launað) að hann hefði þurft að halda í hendina á deyjandi strák eftir umferðarslys.

Hann nefndi bæði aldur drengsins og hvar þetta gerðist, svo þeir sem til þekktu hafa vafalaust strax vitað um hvaða dreng var að ræða.

Ég veit það ekki – ég ítreka að ég er vinur lögreglumanna, en ef ég hefði verið faðir þessa drengs hefði ég ekki kosið að hann skyti upp kollinum í fjölmiðlum sem partur af kjarabaráttu lögreglumanna.

Sama hversu þakklátur ég væri viðkomandi lögreglumanni fyrir að hafa sýnt drengnum hlýju.

Lögreglumenn eru ekki vanir að standa í kjarabaráttu. Kannski má kenna reynsluleysi þeirra um ýmsar ankannalegar fullyrðingar sem frá þeim hafa komið.

Ég vona þó umfram allt að málið leysist sem fyrst og lögreglumenn fái sín mannsæmandi laun, svo sem þeir eiga skilið.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!