Miðvikudagur 11.5.2011 - 15:28 - FB ummæli ()

Ekki á brauði einu saman

Fólk er að henda gaman að þeirri frétt að borgaryfirvöld hafa nú mælst til þess að fólk hætti að gefa öndunum á Tjörninni brauð.

Sjá hér.

Nema sumum er ekki hlátur í hug, heldur telja þetta enn eitt dæmið um sívaxandi forsjárhyggju og stjórnsemi hvurskonar yfirvalda í samfélaginu.

Það skal tekið fram að ég er gjörsamlega á móti forsjárhyggju og stjórnsemi yfirvalda.

En eigi að síður ætla ég hér með að lýsa yfir hátíðlegum stuðningi mínum við þessi mikilvægu tilmæli borgaryfirvalda.

Ekki endilega af því mávarnir éti allt brauðið.

Heldur af því að endurnar hafa ekki gott af öllu þessu brauði.

Ég talaði einu sinni við líffræðing sem hafði gert nákvæma rannsókn á öndunum á Tjörninni.

Hann sagðist eiga heima í nágrenni við Tjörnina og hann ætti mjög bágt með sig á hverjum sunnudegi þegar veðrið væri gott og hann vissi að nú væri fólk að fjölmenna með börnin sín að gefa öndunum.

Því hann langaði svo að hlaupa niður að Tjörn og biðja fólk þess lengstra orða að hætta þessu!

Öndunum væri nefnilega enginn greiði gerður með því að venja þær á þetta endalausa brauðát.

Í fyrsta lagi væri algengasta dánarorsök andanna á Tjörninni kransæðastífla.

Svo feitt væri þeim um hjartarætur – því vel hefðu börnin alið þær … á brauðinu.

Og þær endur sem ekki drepast snemma úr kransæðafitu, þær munu víst heldur ekki lifa neinu sældarlífi.

Það fábreytta fæði sem endurnar á Tjörninni lifa á mun nefnilega leiða til þess að innyfli þeirra verða að hálfgerðum graut, og þær þjást af stöðugum verkjum, og séu jafnvel sárkvaldar flestum stundum.

Þetta er sem sagt hin hliðin á þeim skemmtilega sið að fara með börnin sín niður að Tjörn að aumka sig yfir blessaða fuglana.

Nú er ég vissulega ekki líffræðingur, og get ekki fullyrt það 100 prósent að þessi rannsókn sé óyggjandi.

En þetta hljómaði því miður alltof sannfærandi.

Því ef maðurinn lifir ekki á brauði einu saman, því skyldu þá endurnar gera það?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 11.5.2011 - 09:00 - FB ummæli ()

Af hverju?

Frumvarp ríkisstjórnarinnar um sjávarútvegsmál er loksins komið fram.

Það nær auðvitað ekki nógu langt til að gleðja þá sem vildu fara lengst í breytingum, og heldur ekki nógu stutt til að gleðja hina sem engu vildu breyta.

Og nú verður rifist um það fram og til baka á næstunni hvað það þýðir.

Sem mér finnst í rauninni stórskrýtið.

Þetta er mál sem ætti að vera búið að ræða í þaula.

Allir ættu að vera búnir að koma sér upp viðamikilli þekkingu á jafnvel hinum fínustu blæbrigðum kvótakerfisins.

Og vita nákvæmlega hvaða afleiðingar hvaða breytingar hafa.

En raunin er sú að við höfum afskaplega litla hugmynd um það.

Við munum velkjast eins og vindurinn blæs í umræðunni á næstunni.

Af hverju er það svo?

Hafa fjölmiðlar ekki staðið sig í stykkinu við að kenna okkur að mynda okkur sjálfstæða skoðun á málinu, óháð áróðri hagsmunaaðila?

Er sjálf umræðuhefðin á Íslandi svo ómerkileg að hún verður aldrei til að auka þekkingu okkar, heldur þvert á móti.

Lokar okkur inn í þéttum skógi rifrildis og upphrópana, þangað til það er gjörsamlega vonlaust að við getum séð hvernig skógurinn lítur út?

Af hverju er þetta svona?

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 8.5.2011 - 18:41 - FB ummæli ()

Ekki fasistapakk

Ég mundi auðvitað ekki kalla þær Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Ragnheiði Elínu Árnadóttur „fasistapakk“.

En ég verð hins vegar að segja að ég skil samt vel þá gremju sem gripið hefur Þráin Bertelsson þegar þær stöllur tóku að andæfa af miklum krafti vali á Andra Snæ Magnasyni í nefnd til að vinna úr hugmyndum um uppbyggingu í Þingvallaþjóðgarði.

Sjá hér.

Hver er Andri Snær Magnason?

Hann er vitaskuld ekki guð almáttugur, hann er ekki óskeikull, og hver sem vill má auðvitað hafa á honum sína persónulegu skoðun.

En hann er samt alveg óumdeilanlega hugmyndaríkur, frjór og uppátækjasamur – mikill ástríðumaður í öllu er lýtur að umhverfi okkar, skipulagsmálum og menningu.

Hann virðist vera nákvæmlega klæðskerasaumaður í nefnd til að vinna úr hugmyndum um uppbyggingu í Þingvallaþjóðgarði.

(Það skal tekið fram að ég þekki Andra Snæ Magnason ósköp lítið. Mundi samt heilsa honum á götu.)

En nei … þær Ragnheiður Elín og Þorgerður Katrín vilja ekki sjá Andra Snæ í þessa nefnd.

Og ástæðan er sú að hann sé svo „umdeildur“.

„Umdeildur“ þýðir auðvitað í þessu tilfelli að Andri Snær hefur gagnrýnt mjög harkalega og afdráttarlaust ýmsar þær hugmyndir sem hafa verið ær og kýr Sjálfstæðisflokksins upp á síðkastið.

Bæði í umhverfismálum og samfélagsmálum almennt.

Sjálfstæðiskonurnar tvær virðast líta svo á að fyrst Andri Snær hafi gerst sekur um þann voðalega glæp, þá sé hann alveg svakalega „umdeildur“ í samfélaginu og geti ekki tekið sæti í nefnd sem virðist þó eins og sniðin fyrir hann, hans hæfileika og áhugamál.

Hver segir svo að þær séu dauðar, hugmyndir um að störf og framgangur einstaklinga eigi að fara eftir stjórnmálatengslum og stjórnmálaskoðunum þeirra?

Þær lifa greinilega góðu lífi hjá Ragnheiði Elínu og Þorgerði Katrínu.

Að Þráni hafi gramist það, skil ég afar vel. Þó ég myndi ekki taka til orða eins og hann.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 5.5.2011 - 11:29 - FB ummæli ()

Að þefa uppi kellíngu á Hellu

Hún var skemmtileg fréttin, sem Kristján Már Unnarsson flutti í gærkvöldi á Stöð 2 um rannsóknir á ferðum hvítabjarna.

Þar kom fram að hvítabirnir geta synt sem svarar vegalengdinni milli Íslands og Grænlands næstum þrisvar sinnum án þess að nærast.

Það er því fáránlegt að halda því fram að hvítabirnir sem hér komi á land séu svo örmagna eftir sund jafnvel frá ísröndinni sem hefur miklu nær en Grænlandi, að þeir muni aldrei geta synt héðan brott aftur.

Þess vegna verði að skjóta þá.

Hvítabjörninn sem skotinn var á Hornströndum virtist vel á sig kominn og hraustur, og hann var hvergi nærri nokkurri einustu mannabyggð.

Það hefði því verið nægur tími til að finna hálsól á hann með GPS-tæki meðan hann flakkaði um Hornstrandirnar, skjóta hann með deyfilyfi og síðan festa á hann ólina.

Þannig hefðum við getað fylgst með því hvort hann nálgaðist mannabyggðir, eða jafnvel eitthvað af okkar ginnheilaga sauðfé!

ÞÁ hefði mátt bana honum.

En líklega hefði hann synt á haf út, þegar hann var búinn að ganga úr skugga um hvort hér væru einhverjir ætir kópar.

Það kom nefnilega líka fram hjá Kristjáni Má að hvítabirnir eru svo vefnæmir að hundar eru eins og með bundið fyrir nefið með klúti vættum í Chanel 5 í samanburði við þá.

Reyndar orðaði Kristján Már það ekki svona.

En hvítabirnir finna altént lykt af nýfæddum kópum tugi kílómetra á haf út. Kópar fæðast hér á vorin, og þetta er líklega ástæðan fyrir því að hvítabirnir rekast hingað á þeim árstíma.

Þeir eru ekki á höttunum eftir rollum, og hvað þá mannakjeti.

Ég held okkur sé alveg óhætt að leggja af þennan ótta við hvítabirnina.

Og hætta að skjóta þá.

Ein skemmtileg staðreynd enn kom fram hjá Kristjáni Má.

Það er nefnilega til dæmi um að hvítabjarnarkall þefaði upp hvítabjarnarkellíngu úr 100 kílómetra fjarlægð.

Það er engin smá vegalengd.

Það væri eins og ef kall stæði hnusandi út í loftið á Lækjartorgi og fyndi lykt af kellíngu austur á Hellu.

Sú vegalengd er 100 kílómetrar.

Dýr með svona hæfileika – hvaða leyfi höfum við til að drepa þau, bara af því við NENNUM EKKI að standa í að vísa þeim af höndum okkar án blóðsúthellinga?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 3.5.2011 - 14:58 - FB ummæli ()

Sjón jafn góður og Laxness?

Breska blaðið Times Literary Supplement kemur út vikulega og birtir vandaða og ítarlega ritdóma um nýjar bækur um hvaðeina milli himins og jarðar.

Bókmenntagagnrýnendur TLS eru ekkert óskeikulir, en þeir leggja mikinn metnað í skrif sín, og það er því í sjálfu sér svolítill gæðastimpill fyrir rithöfunda að fá birta dóma um bækur sínar í þessu blaði.

Tala nú ekki um ef dómarnir eru jákvæðir.

Í nýjasta eintaki TLS er fyrsti og lengsti dómurinn um skáldverk ritsmíð Carolyne Larrington um skáldsöguna From the Mouth of the Whale.

Og það er óhætt að segja að hann sé mjög lofsamlegur.

Þessi skáldsaga er þýdd úr íslensku af Victoriu Cribb.

Hér á landi heitir hún Rökkurbýsnir, kom fyrst út 2008 og höfundurinn er Sjón.

Carolyne Larrinton, sem er sérfræðingur í enskum miðaldabókmenntum, byrjar dóm sinn á því að minnast á Arnald Indriðason og Yrsu Sigurðardóttur sem óumdeilanlega séu þekktust íslenskra rithöfunda um þessar mundir.

En með fullri virðingu fyrir þeim, þá búi fleira í íslenskum bókmenntum en glæpasögur – og svo hefst mikil lofrulla um bók Sjóns.

Ég nenni ekki að þýða það allt, en það er gaman að sjá hvað þessi „rammíslenska“ bók Sjóns hefur hitt gjörsamlega í mark hjá þessum ritdómara TLS.

Hún endar ritdóminn á því að segja:

„Rökkurbýsnir ættu að opna fyrir fólki þá veröld íslenskra bókmennta, sem er handan glæpasagna eða frásagna frá Reykjavík um ófullnægð ungmenni borgarlífsins. Veröld náttúrunnar og hugmynda, sem stenst samanburð við Ísland Nóbelsverðlaunahafans Halldórs Laxness.“

Gaman að þessu.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 3.5.2011 - 04:23 - FB ummæli ()

Mín sök á hruninu

Frjálshyggjan olli hruninu á Íslandi.

Um það er engum blöðum að fletta.

Frjálshyggjan sannfærði heila kynslóð af stjórnmálamönnum um að rétt væri og æskilegt að gefa athafnamönnum sem allra frjálsastar hendur.

Og að sem allra allra minnstar skorður ætti að setja á hugmyndaflug þeirra, og hvöt þeirra til að græða.

Leggja ætti á hilluna gamlar hugmyndir um að gróði væri eitthvað ósiðlegur og varasamur.

Þvert á móti væri hann drifkraftur samfélagsins.

Því einn maður sem græðir, hann dregur aðra með sér til betri efna.

Þetta er frjálshyggjan í hnotskurn.

Sú frjálshyggja sem náði smátt og smátt algerum völdum í íslenskri pólitík.

Hún var upprunnin í Sjálfstæðisflokknum, en varð líka allsráðandi í Framsóknarflokknum, og náði miklum ítökum í Samfylkingunni þegar fram liðu stundir.

Og meðal athafnamanna þóttust menn hafa himin höndum tekið að hafa fengið frjálshyggjuna upp í hendurnar.

Bankamenn og bissnissmenn, báðir voru jafn kátir.

Tilhneiging þeirra til að smeygja sér framhjá eftirliti með gerðum sínum hafði nú fengið hugmyndafræðilegan stuðning á hinum æðstu stöðum.

Hvöt þeirra til að græða sem mest og sem skjótast hafði nú verið blessuð af málsmetandi mönnum.

Og því meira sem þeir græddu, þeim mun betra fyrir samfélagið.

Græðum á daginn, grillum á kvöldin – með hinum ódauðlegu orðum Hannesar Hólmsteins.

Þannig stigu stjórnmálamenn, bankamenn og kaupsýslumenn hinn sama dans.

Vera má að hann hafi byrjað sem dannaður og úthugsaður menúett, en hann endaði sem ofsalegur hrunadans.

Og kannski gat aldrei öðruvísi farið.

En frjálshyggjupostularnir vilja ekki horfast í augu við ábyrgð sína.

Þeir sjálfir gerðu ekkert rangt, og það var heldur ekkert rangt við stefnuna.

Þetta kemur glöggt fram í viðtali sem Friðrik Sophusson, einn af helstu frjálshyggjumönnum Sjálfstæðisflokksins, átti við Heimdallarblað á dögunum.

Það var ekkert að stefnunni – hún var frábær, segir Friðrik.

Og sama segja þeir allir, frjálshyggjumennirnir.

Stefnan var rétt, stefnan var rétt, stefnan var rétt – þetta endurtaka þeir hver í kapp við annan.

Það voru einstaklingarnir sem brugðust!

(Eða réttara sagt SUMIR einstaklingar.)

Þessi áhersla á að stefnan hafi verið fullkomlega rétt, en einstaklingarnir verið breyskir og ekki þess umkomnir að fylgja henni – hún er gamalkunn úr sögunni.

Við þekkjum hana úr sögu ofstopafullra trúarbragða – þegar heitir trúmenn hafa verið að reyna að krafsa yfir glæpaverk sem framin hafa verið í nafni trúarinnar og guðs.

Við þekkjum hana aldeilis prýðilega úr sögu kommúnismans, en þegar sú helstefna hrundi í hverju landinu á fætur öðru, þá spruttu alltaf upp menn sem sögðu í viðtölum við að Heimdallarblöð að stefnan hefði samt verið rétt, það hefði bara forklúðrast svolítið að framfylgja henni.

Þetta benti ég á í pistli hér á Eyjunni um daginn.

Að það þýddi ekkert fyrir Friðrik Sophusson að halda því fram að stefna frjálshyggjunnar hefði verið svo dáindis góð, en ekki átt neina sök á hruninu.

Því í grein sem helsti hugmyndafræðingur frjálshyggjunnar á Íslandi, Hannes Hólmsteinn, hefði skrifað árið 2004 hefði hann lýst hinu „íslenska kraftaverki“ – hvorki meira né minna! – sem ótvíræðum sigri frjálshyggjunnar.

Og gefið skýrt til kynna hver yrðu næstu frjálshyggjuskrefin í „íslenska efnahagsundrinu“ – einkavæðing menntakerfis, heilbrigðiskerfis, orkukerfis, og svo framvegis.

Þetta er allt svo augljóst mál að það er alveg þýðingarlaust að þræta fyrir þetta, hélt ég.

Hannes segir að vísu núna að allt hafi verið í góðu lagi til ársins 2005, en eftir það hafi hallað stórlega undan fæti.

Árð 2005 lét nefnilega hinn mikli og ástsæli leiðtogi af störfum í pólitík (í orði kveðnu).

Og Hannes segir að þá hafi vondir menn tekið völdin í sæluríkinu.

Það er óþarfi að eyða of mörgum orðum í þetta.

Í fyrsta lagi var fylgt nákvæmlega sömu stefnunni eftir 2005 og áður.

Og svo seint sem haustið 2007 kom Hannes sjálfur í sjónvarpið og hvatti til þess að enn yrði „gefið í“ í frjálshyggjunni og útrásinni.

Sjá hér.

Og í öðru lagi, þá fór nú hinn mikli og ástsæli leiðtogi ekki langt.

Hann kom sér fyrir í Seðlabankanum og hefði þaðan verið í lófa lagið að gera margvíslegar ráðstafanir sem hefðu getað mildað hrunið mjög verulega.

(Icesave, anyone?)

En gerði ekki.

En látum það liggja milli hluta – ég var sem sagt að reyna að vekja athygli Friðriks Sophussonar á því hve fráleitt það væri að frjálshyggjan, sem til skamms tíma ríkti einráð í Sjálfstæðisflokknum, hefði ekki átt neinn þátt í hruninu.

Þá fékk ég í staðinn þennan pistil hér á síðunni AMX sem gömlu frjálshyggjumennirnir halda úti til að reyna að verja síðustu vígi sín, lendur og orðspor.

Spæling!

Af því að ég taldi á sínum tíma að ákærur í Baugsmálinu gamla hefðu verið runnar af pólitískum ástæðum (eða á maður kannski bara að segja persónulegum ástæðum?) og því hefði átt að sýkna sakborninga í málinu, þá má ég ekki hafa skoðun á því hvort frjálshyggjan hafi átt þátt í hruninu.

Raunar er hrunið augljóslega mér að kenna.

Áhersla hinnar gömlu hirðar Davíðs Oddssonar á Baugsmálið er náttúrlega löngu orðin áráttukennd.

En hún er auðskiljanleg vegna þess að Baugsmálið er eina dæmið um að hinn mikli og ástsæli leiðtogi hafi reynt að sporna við uppgangi auðkýfinganna sem lögðu bankakerfið í rúst í boði frjálshyggjunnar og eftirlitsleysisins.

Eitthvað reifst hann út í Kaupþing, en henti þó í Kaupþingsmenn einhverjum milljarðatugum á síðustu andartökunum fyrir hrun – í einhverjum undarlegasta og óskiljanlegasta gjörningi hrunsins.

Og ekki reyndi hann á neinn hátt að sporna gegn Björgólfsfeðgum og Icesave.

Þannig að andstaðan við Baug er eftir á séð eina raunverulega haldreipi þessa hóps.

Og vissulega reyndist Baugur byggður á sandi eins og önnur íslensk útrásarfyrirtæki, og hrundi með braki og brestum.

En ég mæli samt með því að þegar reynt er að ganga á hólm við frjálshyggjuhópinn um þá STEFNU sem hann fylgdi, og hvaða ábyrgð sú stefna, og framkvæmd hennar, og þeirra persónulegu gjörðir, höfðu á hrunið – þá sé ekki bara brugðist við með gamalkunnu glefsi um Baug og Baugspenna, heldur reynt að svara á heiðarlegan hátt.

Við myndum, sem samfélag, hafa svo miklu meira gagn af því.

Og gætum jafnvel lært eitthvað af því.

Hvað spælingar AMX varðar, þá hef ég þegar fjallað um þau efni oftar en einu sinni eftir hrunið, ef ég man rétt.

Og ég er reyndar út af fyrir sig alveg sammála því að vissulega ber mér að axla minn hluta ábyrgðarinnar á hruninu.

Sem einstaklingur og fjölmiðlamaður.

Ég tek heils hugar undir að ég hefði átt að vara við því sem í vændum var.

En ég var því miður ekki nógu glöggur til að koma auga á það.

Það er mín sök, og ykkur að segja, þá dauðskammast ég mín.

Í því sambandi er ekki mest um vert hvort ég hafði rétt eða rangt fyrir mér um sekt eða sýknu í dómsmálinu um Baug.

Skoðanir mínar í því máli réðust fyrst og fremst af því að mér fannst – og finnst enn – að það mál hafi átt sér óeðlilegt upphaf.

En mín ábyrgð felst líka miklu frekar í að hafa verið alltof glámskyggn á hvað var að gerast í heild.

Gamli anarkistinn – hann var farinn að trúa því í fullri alvöru að þessi frjálshyggjutilraun, hún væri bara að ganga furðu vel upp!

Og sú staða sem ég hafði í fjölmiðlum, hana notaði ég ekki til að vara þrotlaust við hinu yfirvofandi hruni.

Því ég kom ekki auga á það.

Ég á mér auðvitað einhverjar málsbætur, eins og flestir.

Ég hætti að koma nálægt daglegum fréttum í fjölmiðlum haustið 2005 þegar afsköffuð var sú ágæta útvarpsstöð Talstöðin. Eftir það fylgdist ég svo sem bara með viðburðum eins og hver annar samfélagsþegn.

Flutti og skrifaði pistla, en þeir voru fyrst og fremst byggðir á því sem ég sá og las í öðrum fjölmiðlum, ekki á eigin rannsóknum.

Og þá var útrásin, hvað sem leið Baugsmálum, ennþá að mestu eins og spennandi ævintýri sem maður vissi ekki annað en myndi ganga upp.

Eða ég vissi alla vega ekki betur.

Jafnvel augljósar furður eins og flugfélagafléttur Pálma Haraldssonar, þær voru bara taldar merki um einstakt bissnissvit í blöðunum.

Eins og ég hef tekið fram áður – ég hef því miður hvorki vit né forsendur til að meta bissnissfréttir upp á mitt eindæmi.

Svo ég varð að treysta á þá sem ég vonaði að væru traustsins verðir.

Að þeir segðu mér það ef þetta væri allt byggt á sandi.

En það gerðu þeir ekki.

Nema Steingrímur og Ögmundur, og ég hafði ekki vit á að hlusta á þá.

Eiginlega allir aðrir tóku undir útrásarfrjálshyggjukórinn með Hannesi og Davíð.

Leynt eða ljóst.

Það hafði gífurleg áhrif á mig að Ólafur Ragnar Grímsson virtist ekki bara telja þetta í lagi, heldur beinlínis frábært!

Þó ég áttaði mig auðvitað á því að flestallt í þjóðernisbríma Ólafs Ragnars væri í meira lagi vafasamt og raunar ansi vandræðalegt, þá hélt ég í einlægni að hann myndi ekki mæra útrásina nema af því hún væri traustsins verð.

Það hafði líka veruleg áhrif að Ingibjörg Sólrún bakkaði útrásina upp. Ég treysti henni hundrað prósent.

Og þó ég væri í flestum atriðum andstæðingur Davíðs Oddssonar í pólitík, þá viðurkenni ég fúslega eftir á að ég hélt að hvað sem öðru liði – þá hefði hann vit á efnahagsmálum.

Og einkum og sér í lagi trúði ég því að hann myndi aldrei hætta sínum eigin orðstír með því að etja okkur út í botnlaust kviksyndi.

En þó ég geti tínt til svona hinar og þessar málsbætur og bent á fólk sem ég tók mark á og sagði mér að það væri allt í lagi með útrásina og bankarnir væru stöðugir og vel reknir og stjórnmálamennirnir væru ekki komnir á kaf í peningasukk og spillingu og frjálshyggjan væri málið, þá fríar það mig auðvitað ekki sök.

Ég hefði átt að treysta þeim vísbendingum sem bentu til að pottur væri brotinn.

Það gerði ég ekki.

Ég ber því mína persónulegu ábyrgð, og líka sem fjölmiðlamaður.

Auðvitað eru þeir margir sem bera meiri sök á hruninu en ég, en ég ætla samt ekki að skorast undan mínum parti ábyrgðarinnar.

Og ég skal trúa ykkur fyrir því að lengi lengi eftir hrunið, þá vaknaði ég iðulega í svitabaði á nóttunni uppfullur af sektarkennd yfir því að hrunið væri allt mér að kenna.

Það voru kannski svolítið ýkt viðbrögð, en það var fótur fyrir þeim.

En gleymum því samt aldrei að þrátt fyrir allt, þá var það frjálshyggjan sem átti langsamlega mestan þátt í hruninu.

Og frjálshyggjumennirnir, jafnt í pólitíkinni sem í bönkunum sem í bissnissnum.

Undan því getur enginn komist.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 2.5.2011 - 19:09 - FB ummæli ()

Hvað með þyrluna?

Þegar miklir atburðir gerast á maður líklega ekki að festast í einhverjum smáatriðum.

Og það er víst óhætt að segja að vígið á Usama bin Laden sé mikill atburður.

Því ætti maður líklega að sitja nú í þungum þönkum og spekúlera í því hvort og hvernig Usama verður nú píslarvottur fyrir herskáa íslamista, hvort og þá hvernig Barack Obama verður ósigrandi hetja í augum Ameríkumanna – og svoleiðis.

Eða kannski hugsa eitthvað um Pakistan.

Allt væri það vissulega vert.

En ég verð að viðurkenna að mér finnst þyrlan dularfyllst í þessu máli öllu.

Ameríkumenn eru búnir að vita um Usama lengi.

Þeir eru búnir að vera að skipuleggja leiðangurinn mánuðum saman.

Væntanlega hefur þeirra allra sérlegasta og flinkasta sérsveit verið notuð til vígsins.

Og áreiðanlega er búið að æfa þetta allt saman í þaula.

Ekkert má auðvitað fara úrskeiðis.

Svo leggur sérsveitin af stað í mikilvægasta hernaðarleiðangur Bandaríkjamanna í marga marga áratugi.

Og þyrlan sem leiðangurinn er á bilar.

Hún BILAR!

Í leiðangrinum til að ná Usama bin Laden.

Að vísu ekki fyrr en eftir að búið er að skjóta hann, en samt …

Ef ég væri þyrluvélvirki ameríska hersins mundi ég ekki bera mig neitt sérstaklega vel næstu dægrin.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 2.5.2011 - 06:33 - FB ummæli ()

Óvinurinn sem Vesturlönd óskuðu eftir

Það hefur náttúrlega ekki beinlínis verið eðlilegt að þótt tíu ár séu að verða liðin frá árásunum 11. september, þá skuli Usama bin Laden alltaf hafa gengið laus.

Að hið mikla herveldi Bandaríkin hafi getað gert innrásir í Afganistan og Írak með 11. september að átyllu, og velt þar um stjórnvöldum, svo ekki sé nú minnst á annað sem fylgdi í kjölfarið, en aldrei skuli hafa tekist að ná í skottið á Usama.

Aldeilis makalaust.

Og maður fór smátt og smátt að vera til í að trúa nánast hverju sem er.

Var til dæmis öruggt að þessi Usama bin Laden hefði yfirleitt einhvern tíma verið til?

Eða var hann bara tilbúningur einhvers sem hafði lesið yfir sig um Gula skuggann í Bob Moran-bókunum í æsku?!

Nú virðist hann vera dauður.

Illt er að segja til um hver arfleifð Usama verður í framtíðinni.

Verður hann einhvers konar hetja í Arabaheiminum, eða einhverjum afkimum hans?

Ég held alla vega að það sé 100 prósent öruggt að menn muni komast að því að sú gríðarlega hætta sem talin hefur verið stafa af Al Kaída samtökunum hefur verið stórkostlega ýkt.

Enda er svona rétt á mörkunum að hægt sé að tala um að Al Kaída hafi yfirleitt verið til – sem heildstæð samtök.

Og staða Usama sem síplottandi kóngulóar í vef hins illa … ég veit það ekki.

Hann stóð vissulega fyrir viðurstyggilegum óhæfuverkum – bæði hryðjuverkum á Vesturlöndum, og valdaskeiði hinna ótrúlegu grimmu Talíbana í Afganistan.

En að sumu leyti var hann óvinurinn sem Vesturlönd óskuðu eftir.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 30.4.2011 - 20:12 - FB ummæli ()

Þökkum fyrir hrunið!

Stundum blöskrar manni gjörsamlega yfir því hve óforskammaðir menn geta verið.

Nú hefur Friðrik Sophusson verið að kvarta og kveina (sjá hér) undan því í viðtali við eitthvert Heimdallarblað að frjálshyggjunni sé kennt um hrunið.

Og hann þykist ekkert vita hvað nýfrjálshyggja er!

Æ, Friðrik!

Má ég benda þér til dæmis á þessa grein sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson baráttufélagi þinn skrifaði árið 2004?

Sjáðu!

„Kraftaverkið á Íslandi“ – hvorki meira né minna!

Og þarna kemur skýrt og greinilega fram að allt það sem hefur verið gert á Íslandi, og það sem þá stóð til að gera á vegum hins mikla og ástsæla leiðtoga, það var framkvæmt nánast að beinni skipan guðanna á Ólympstindi … eða í Vínarborg, eða í  Chicago, eða hvar þeir héldu sig, þeir miklu menn.

Sérstaklega athyglisverð er sú setning Hannesar þar sem gefið er til kynna hvað næst eigi að gera.

Einkavæða menntakerfið og heilbrigðiskerfið.

Einkavæða Ríkisútvarpið.

Einkavæða veitustofnanir og önnur þjónustufyrirtæki.

Einkavæða orkufyrirtæki.

Einkavæða virkjanir.

Styrkja einkaeignarákvæði á auðlindum.

Læsa klónum í lífeyrissjóðina.

Með orðum Hannesar:

But much remains to be done. The health and education systems are publicly operated, and so are the utilities, some broadcasting stations, and the hydro-electric power system. People close to Mr. Oddsson believe that two priorities are cutting the individual income tax and clarifying and strengthening private property rights, both to capital and natural resources. For example, many companies in Iceland, especially in agriculture, have no clearly defined owners, having initially been established as cooperatives. Also, while the pension funds were successfully restructured to ensure their financial health, the public has neither much say in their operations nor a choice about them.“

En nú kannast Friðrik ekki neitt við neitt.

Af hverju þurfum við endalaust að sitja uppi með þessa sömu menn sem öllu eru búnir að klúðra?

Það má líklega þakka fyrir að þessir loftkastalar þeirra frjálshyggjumannanna skyldu hrynja áður en allt þetta komst í framkvæmd!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 28.4.2011 - 08:46 - FB ummæli ()

Bara þeim sjálfum að kenna!

Þessi frétt hér, sem Eyjan birtir eftir frétt Viðskiptablaðsins, er stórmerkileg.

Og verður vonandi til þess að eitthvað breytist.

Sjö af hverjum tíu forkólfum í íslensku viðskiptalífi telja viðskiptalíf einkennast af siðleysi.

Ég mundi halda að þetta væri þá eitthvert mesta vandamál sem íslenskt viðskiptalíf á við að stríða.

Því bissnissmennirnir geta engum um kennt, nema sjálfum sér.

Þeir geta ekki kennt ríkisstjórninni um.

Ekki útrásarvíkingunum eða öðrum fyrri hrunverjum.

Þessir aðilar bera ábyrgð á sínum verkum, en siðleysi í íslensku viðskiptalífi núna – vorið 2011 – er ekki þeim að kenna.

Það jákvæða við þessa könnun er að kaupsýslumennirnir kannast greinilega við vandamálið.

Og það ættu þá að vera hæg heimatökin að leysa það.

Er það ekki?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!