Flokkar lengst til hægri, öfgaflokkar, flokkar sem eru á móti Evrópusambandinu fengu flest atkvæði í kosningunum til Evrópusamabandsþingsins. Einhvern veginn svona hljómaði rödd Boga Ágústssonar úr bakhluta sjónvarpsins þegar ég var að vaska upp í gær.
Það er auðvelt að misskilja þetta. Það rétta er að öfgaflokkar yst til vinstri en þó aðallega hægri fengu mest um fjórðung atkvæða þó að í Bretlandi og Frakkalandi yrðu þeir naumlega efstir af mörgum. Sjállfstæðisflokkurinn (UKIP) í Bretlandi, Le Pen í Frakklandi. Víðar t.d. í Hollandi fékk öfgaflokkur Gerts Widers bara 12,5% atkvæða.
Saman hafa þessir flokkar óverulegt fylgi á þingi Evrópusambandsins þar sem megisstraumsflokkar, sitt hvoru megin við miðju, flokkar á borð við Samfylkingu og Sjálfstæðisflokk (eins og hann var) hér, hafa mikinn meirihluta.
Ofan í kaupið er óvíst að öfgaflokkarnir geti komið sér saman um flokkabandalag þar sem þeir hatast við element úr hvor öðrum.
Þessir flokkar hafa það sameiginlegt að þeir eru á móti, hafa alla vega, horn í síðu Evrópubandalagsins, eru á móti innflytjendum og oft á tíðum frjálsum viðskiptum milli ríkja. Einangrunarhyggja einkennir þá. Innan þeirra eru stækir ofstækismenn t.d. er gyðingahatur áberandi meðal fylgismanna le Pen í Frakklandi. Þá eru nýnasistar í þessum flokkum t.d. í Þýskalandi, en víðar.
Það skyldi enginn gleðjast yfir þessum uppgangi. Þeta er að sönnu harkaleg viðvörun til okkar um að styrkja frjálslynd öfl og halda vel á málefnum innflytjenda. Umfram allt að halda þeim málum í skynsamlegum farvegi og forðast hvers kyns lýðskrum þar sem reynt er að nota útlendingaspjaldið til atkvæðaveiða. Sem betur fer virðist vera á því mikill skilningur meðal Íslendinga. Og einagrunarhyggju ættum við forðast eins og heitan eldinn.