Þriðjudagur 27.5.2014 - 11:54 - 4 ummæli

Uppgangur öfgaflokka takmarkaður en varhugaverður

Flokkar lengst til hægri, öfgaflokkar, flokkar sem eru á móti Evrópusambandinu fengu flest atkvæði í kosningunum til Evrópusamabandsþingsins. Einhvern veginn svona hljómaði rödd Boga Ágústssonar úr bakhluta sjónvarpsins þegar ég var að vaska upp í gær.

Það er auðvelt að misskilja þetta. Það rétta er að öfgaflokkar yst til vinstri en þó aðallega hægri fengu mest um fjórðung atkvæða þó að í Bretlandi og Frakkalandi yrðu þeir naumlega efstir af mörgum.  Sjállfstæðisflokkurinn (UKIP) í Bretlandi, Le Pen í Frakklandi.  Víðar t.d. í Hollandi fékk öfgaflokkur Gerts Widers bara 12,5% atkvæða.

Saman hafa þessir flokkar óverulegt fylgi á þingi Evrópusambandsins þar sem megisstraumsflokkar, sitt hvoru megin við  miðju, flokkar á borð við Samfylkingu og Sjálfstæðisflokk (eins og hann var) hér, hafa mikinn meirihluta.

Ofan í kaupið er óvíst að öfgaflokkarnir geti komið sér saman um flokkabandalag þar sem þeir hatast við element úr hvor öðrum.

Þessir flokkar hafa það sameiginlegt að þeir eru á móti, hafa alla vega, horn í síðu Evrópubandalagsins, eru á  móti innflytjendum og oft á tíðum frjálsum viðskiptum milli ríkja. Einangrunarhyggja einkennir þá. Innan þeirra eru stækir ofstækismenn t.d. er gyðingahatur áberandi meðal fylgismanna le Pen í Frakklandi.  Þá eru nýnasistar í þessum flokkum t.d. í Þýskalandi, en víðar.

Það skyldi enginn gleðjast yfir þessum uppgangi.  Þeta er að sönnu harkaleg viðvörun til okkar um að styrkja frjálslynd öfl og halda vel á  málefnum innflytjenda. Umfram allt að halda þeim málum  í skynsamlegum farvegi og forðast hvers kyns lýðskrum þar sem reynt er að nota útlendingaspjaldið til atkvæðaveiða. Sem betur fer virðist vera á því mikill skilningur meðal Íslendinga. Og einagrunarhyggju ættum við forðast eins og heitan eldinn.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 26.5.2014 - 14:38 - 16 ummæli

Um moskur og trúfrelsi

Svolítið um moskur og trúfrelsi. Það gleymist oft í umræðunni að við tilheyrum Evrópuráðinu og undirgöngumst þar með (síðan 1950) Mannréttindasáttmála Evrópu er kveður m.a á um trúfrelsi. ECRI sem er sá aðili innan Evrópuráðsins sem fjallar um kynþáttafordóma og þess háttar hefur t.a.m. rekið augun í þessa moskufælni Reykjavíkur sem nú er formlega komin í lag.  Að láta annað gilda um moskur en önnur athvörf fyrir trú er hreint brot á trúfrelsi og þar með 9. Grein Mannréttindasáttmála Evrópu. Alvörustjórnmálamenn(og alvöruflokkar) fara ekki fram á þjóðarátkvæði sem brýtur gegn sáttmálum sem við sem þjóð höfum undirritað. Þess má  geta að Evrópudómstóllinn sem við vitnum til á hátíðarstundum byggir á Mannréttindasáttmála Evrópu. Hér er það sem ECRI sagði um þetta mál 2011.

 

Að mati ECRI verður að líta á tregðu stjórnvalda til að leyfa byggingu fyrstu

mosku á landinu sem merki um umburðarleysi gagnvart trúarbrögðum. Enn

fremur er augljóslega verið að mismuna trúarbrögðum, þar sem fulltrúar annarra

minnihlutatrúarbragða hafa ekki átt í neinum erfiðleikum með að fá lóðir og leyfi

fyrir byggingu tilbeiðslustaða5. Með því að tefja þetta mál er verið að senda skýr

skilaboð um að múslímar séu ekki velkomnir á Íslandi. Þetta skýtur stoðum

undir andúð á múslimum af því tagi sem lýst er að ofan. Að mati ECRI er

mikilvægt að íslensk stjórnvöld leysi úr þessu máli sem fyrst.

108. ECRI hvetur stjórnvöld eindregið til að veita samfélagi múslima á Íslandi leyfi til

að byggja moskur og úthluta þeim landi svo þeir geti iðkað trú sína eins og þeir

hafa rétt til skv. 9. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

 

Samfylkingin er eini íslenski stjórnmálaflokkurinn sem hefur undirritað tilmæli Evrópuráðsins um þjóðfélag án kynþáttaforrdóma. Sjálfstæðisflokkur, Besti flokkur, Björt Framtíð, Vinstri  grænir og Píratar og Dögun hafa heldur ekki reynt að gera út á fordóma í atkvæðasmölum sinni. Í Evrópu hefur lítið borið á því að meginstaumsflokkar hafa tileinkað sér þessa umræðu.  Þó hefur umræðan harðnað vegna uppgangs flokka til hægri og vinstri og kenndir hafa verið við öfgar og hafa verið að fá fjórðung eða rúmlega það,  þar sem mest er, af atkvæðum til Evrópuþings ESB út á andstöðu sína við innflytjendur og ESB.

Að mínu mati er æskilegt að Íslendingar alist upp í opnu fjölmenningarsamfélagi svipað og nú er. Ein af forsendum þess er trúfrelsi. (þess má geta að moskur eru í öllum löndum Evrópu t.d. um 90 í Noregi(má vera víð skilgreining). Það má svo ræða undir öðrum formerkjum hvort að trú eins og hún er víða framsett stenst einföldustu mannréttindi en það er önnur umræða.

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 21.4.2014 - 13:12 - 2 ummæli

ECRI um Rússa og Úkraínu!

Fyrir mér er hættuleg þróun hafin í Úkraínu. Rússar muni tæpast láta staðar numið við Krímskaga heldur láta sig Rússneska hópa varða bæði í Moldóvíu og Georgíu auk auk Úkraínu.  Evrópuráðið ályktaði harkalega gegn Rússum skömmu eftir þessa ályktun ECRI. ECRI lætur sig hlutskipti minnihlutahópa mest varða svo sem sjá má.

Strasbourg, 27.03.2014 – The European Commission against Racism and Intolerance (ECRI) of the Council of Europe wishes to express its grave concern at serious allegations of intimidation and discrimination against Ukrainian speakers and Tatars in the Crimean region of Ukraine, now under the de facto control of the Russian Federation.

ECRI, while not accepting the legitimacy of the Russian Federation takeover of that region1, calls on the Russian Federation authorities to ensure the protection of Ukrainian speakers and Tatars in Crimea.

ECRI also calls upon the Ukrainian authorities to oppose firmly any discrimination against Russian speakers and other groups in the country.

 

 

 

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 18.4.2014 - 12:06 - 4 ummæli

Þess vegna er ég kristinn?

Hvers vegna er ég að þessu? Hvers vegna er ég að boða trú á ,,stórgallaða“ æðri veru?  Hvers vegna læt ég mér ekki duga heiminn eins og hann kemur mér daglega fyrir sjónir með öllum hans undri og fegurð? Mér finnst tilvalið að velta þessu fyrir mér um páska.

Fyrst er til að taka að undur þessa heims duga mér allajafna og mér finnst oftast engu bætandi við þá veröld sem við blasir og finnst sköpunin, hvernig tegundir hafa þróast og hnöttur og alheimur mótast, undri líkast.

Sjálfur er ég alinn upp í kristnu samfélagi. Alinn upp undir krossmarki með kristnar bænir og sálma og kristið dagatal nærhendis.

Fullorðinn hef ég kynnst öðrum trúarbrögðum svo sem íslam og gyðingdómi og virði þau trúarbrögð  en kristindómur heldur þó áfram að vera þau trúarbrögð  sem mótuðu mig.

Ekki dettur mér þó í hug  að ég sé samfélagstækur vegna kristinnar trúar. Þar kemur margt til líkt og er hjá áhangendum annarra trúarbragða svo og guðleysingjum.

Guðleysingjar sem ég þekki eru ágætir menn líkt og flestir þeir kristnu og múhameðs sem ég kannast við. (þekki enga gyðinga enda alinn upp á fjrlægri eyju með tungumál sem einangrar).

Guðleysingjar (atheistar) eiga sér sínar siðferðilegu viðmiðanir ekkert síður en trúaðir. þær eru að hluta til sóttar í trúarbrögðin en trúarbrögðin hafa safnað saman mörgu því besta í bækur og trúarvísdóm, oft með yfirnáttúrulegri íhlutun að því er menn segja.

Hvers vegna er ég þá trúaður fyrst að trúin gerir mig ekkert endilega betri?  Hreinskilnasta svarið er ,,ég veit það ekki“. Annað svar er að samfélagið sem ól mig hafi uppfyllt þá trúarþörf sem ég hef.  Önnur samfélög hefðu sjálfsagt uppfyllt hana öðruvísi. þessi trú hefur reynst mér dýrmæt í andtreymi og ég hef tekið eftir því að hún hefur reynst öðrum vel.

Ég hef þó ýmigust á öfgum þ.m.t. bókstafstrú og gef lítið fyrir þá  sem klæða fyirlitningu sína  á þeim sem eru öðruvísi en þeir eða hafa aðra kynhneigð í trúarlegan búning.

Og ég er enginn sérstakur talsmaður þjóðkirkju en tel þó ekki óskynsamlegt að halda núverandi skipulagi, hafa nokkuð sjálfstæða kirkju í formlegum tengslum við ríkið, en tel að við ættum að leggja enn meiri áherslu á það í stjórnarskrá en nú er að trúfrelsi ríki á Íslandi. Hef raunar ákveðnar hugmyndir þar að lútandi. það ásamt því að allir séu jafnir fyrir lögum er grunvallaratriði.

 

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 10.4.2014 - 18:20 - 2 ummæli

Orkustöðin Ísland

Skrifað í Fréttablaðið ásamt Arnfríði Guðmundsdóttur, Hjalta Hugasyni, Sigrúnu Óskarsdóttur og Sólveigu Önnu Bóasdóttur.

Oft er sagt að náttúra Íslands sé hlaðin orku. Orka er auðlind sem ekki má fara til spillis.

Sæstrengur?
Mikið er nú rætt um sæstreng sem tengt geti landið við raforkukerfi Evrópu. Sum vona að þessi leið til útflutnings á orku valdi því að hér verði ekki haldið áfram þeirri stóriðjustefnu sem fylgt hefur verið. Önnur vona að hér sé komin leið til að auka hlutfall „grænnar“ orku í álfunni, vinna gegn mengun og hægja á loftslagsvánni. Þá kunna einhver að sjá í sæstreng leið til skjótfengins gróða.

En hvernig mun íslensk þjóð með sæstreng haga forgangsröðun sinni? Hagkvæmast hlýtur að vera að flytja sem mesta orku um strenginn og hætt er við að við búum ekki yfir því siðferðisþreki sem þarf til að nota slíka mjólkurkú af hógværð og stillingu. Um það vitna þeir lífshættir sem þjóðin hefur tamið sér á undanförnum áratugum. Líklegast er að okkar mati að sæstrengur viðhaldi þeirri stórvirkjanastefnu sem hér hefur verið fylgt undanfarið.

Óbreytt ástand ekki í boði
Jafnframt dafnar draumsýnin um olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Draumurinn um sæstreng til nálægra landa og olíupalla í Norðurhöfum vekur efasemdir um yfirlýsingar sumra um „græna“ orku. Er hugsanlegt að tal um hana beri of oft vitni um hræsni og yfirdrepsskap?

Lífsgæðakröfur okkar eru miklar. Við eigum fleiri orkufreka bíla á hvert mannsbarn en flestar þjóðir. Kröfur okkar um húsnæði eru einnig meiri í fermetrum talið. Neysla okkar krefst aukins hagvaxtar og að mati margra verður hann einkum sóttur í orkuauðlindirnar.

Eflaust er það von einhverra að orkan muni gera okkur kleift að viðhalda núverandi orkukrefjandi lífsstíl. Þá vill gleymast að óbreytt ástand er ekki í boði. Í náinni framtíð munu loftslagsbreytingarnar kalla okkur vestrænar þjóðir til ábyrgðar sem aðeins verður öxluð með endurskoðuðu lífsmunstri.

Önnur leið
En til er önnur leið til að beisla orkuna sem býr í náttúru landsins en sæstrengur og olíuvinnsla. Hún felst í að búa með og hvíla í náttúru landsins og öðlast þannig aukin lífsgæði og aukinn kraft. Þetta er sú reynsla sem flestir ferðamenn sækjast eftir. Þetta er líka eina fullkomlega sjálfbæra orkunýtingin. Hlutverk okkar er að leitast við að varðveita og viðhalda hinni náttúrulegu orku landsins og skila henni til komandi kynslóða. Til þess þurfum við að endurskoða núverandi lífsstíl okkar. Við verðum að sönnu að virkja áfram til að mæta brýnustu þörfum samtímans. En það verðum við að gera með því að sýna í verki umhyggju fyrir náttúrunni og komandi kynslóðum.

Náttúra Íslands býr yfir orku sem vekur undrun og eftirvæntingu, virðingu og von. Með því að beisla hana af ábyrgð og umhyggju fyrir óbornum kynslóðum, sýnum við henni þá virðingu sem henni ber sem hluta af hinum góðu gjöfum Guðs. Látum ekki græðgi afbaka skilning okkar á náttúrunni og valda því að við tæmum þá fjársjóði náttúrunnar sem okkur hefur verið treyst fyrir.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 16.3.2014 - 12:24 - 6 ummæli

Veikleiki lags Pollapönks

Myndband  með Eurovision lagi Pollapönks veldur mér vonbrigðum. Veikleiki lagsins er að fordómar í því eru takmarkaðir við fordóma gagnvart fötluðu fólki  og auk þess of feitum og kyni fólks hefi ég tekið rétt eftir.  Ekkert er lagt út af fordómum gagnvart  minnihlutahópum sem eiga rætur sínar í uppruna fólks, höfðuvandamáli heimsins þegar fjallað er um fordóma-prejudice. Úr þessu hefði mátt bæta ef ekki í enskum texta þá  í myndbandinu einu saman. Í stað þess eru þar einvörðungu hvít ungmenni. Hvít ungmenni af lútherskum uppruna  frá ríki með eina hörðustu útlendingalöggjöf síns heimssvæðis syngjandi um fordóma í Euróvision. Hljómar ekki vel. Eða hvað?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 10.3.2014 - 11:47 - Slökkt á athugasemdum við Kólumbíska konan og barnið..

Kólumbíska konan og barnið..

Kólumbíska konan sem á ömmubörn hér á landi og sjö ára barnabarn hennar þurfa vonandi ekki að fara úr landi þrátt fyrir úrskurð Útlendingastofnunar þar um. Þær eiga eftir að skjóta máli sínu til Innanríksráðherra og síðan geta þær langmæðgur skotið máli sínu til óháðs dómstóls, eða á eftir að setja það í lög hér?

Undanfarið hefur þeirri skoðun vaxið mjög fylgi meðal þeirra sem um þessi mál véla að taka eigi

meira tillit til fólks þegar úrskurðir um veru eða fráveru eru kveðnir upp. Að taka eigi aukið  tillit til fjölskyldubanda. Það eru þau tengsl sem skipta mestu máli í lífi okkar. Sömuleiðis fjölgar þeim sem átta sig á því að rangt er að rífa börn úr umhverfi sínu, úr skóla, úr tungumáli, úr vinahópi.

Til þessa má taka tillits innan ramma núgildandi útlendingalaga.  Þess vegna á að snúa við úrskurði Útlendingastofnunar.

Svo á spyrja. Hvað liggur á að fækka Íslendingum?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 5.3.2014 - 13:36 - 2 ummæli

Hlutskipti óreglulegra innflytjenda

Undanfarið hef ég skroppið nokkrum sinnum til Frakklands, bæði til Parísar og Strassborgar og er útafyrir sig ekki í frásögur færandi. Flugsamgöngur eru mjög góðar eins og flestir þekkja. Auk aðalastarfi í ECRI er ég í tveimur undirnefndum, annarri um hlutskipti þeirra sem ferðast á milli landa án þess að njóta fullgildra réttinda á nýjum stað eða eru beinlínis án skilríkja  (Irregular migrants. Mikil áhersla er á að kalla þá sem eru í þessari stöðu óreglulega innflytjendur ekki ólöglega, fólk er ekki ólöglegt).  Allmargir alþjóðlegir sáttmálar eru um stöðu þessa fólks þar sem meginatriðið er að þessar manneskjur njóti mannréttinda á borð við aðra en þurfi ekki að hlíta því að vera meðhöndlaðar sen annars flokks manneskjur, hvað sem það nú er. Af einhverri ástæðu hafa Evrópuríki þ.m.t. Ísland verið treg við að fullgilda þessa sáttmála. En ástæðan fyrir þessu skrifi er sú að við í nefndinni (á vegum Evrópuráðsins) höfðum ákveðið að safna alvörusögum um hlutskipi þeirra sem dvelja óreglulega í landi hvort sem það er vegna vinnu, fjölskyldu eða einhvers annars.  Skiptir þá einu hvort að svínað er á fólki í atvinnnukjörum. Því gert erfitt um vik um aðgang að heilsugæslu eða menntun barnanna, það  fangelsað vegna skilríkjaleysis, flutt úr landi án fyrirvara, jafnvel í skjóli nætur, án málskotsréttar til hlutlauss aðila, tillitsleysi gagnvart  fjölskyldum og vinum  o.s.frv.  Á þessum sviðum er því miður enginn skortur á sönnum sögum hér á landi og víða annarars staðar. Í Belgíu varð nýlega fjölmiðlasprenging þegar amma var fjarlægð í skjóli nætur frá ættboganum og allir þekkja þessar sögur sem hafa fellt ráðherra og hvaðeina en fer því miður ekki fækkandi.

ECRI vinnur fyrst og síðast eftir því að ekki sé um misrétti að ræða vegna kynþáttahyggju, skorts á umburðarlyndi, múislimafóbíu, gyðingaandúðar o.s.frv.. Hlutskipti óreglulegra innflytjenda falla því vel að hlutverki nefndarinnar.  Álitsgerðir ECRI eru  gefnar út sjálfstætt en ganga jafnframt til ráðherraráðsins sem gerir þær að sínum. Undirritaður hefur starfað í nefndinni síðan 1997 og gegnt m.a. varaformennsku og formennsku í undirnefndum. Þeir sem vilja svara erindi mínu geta gert það í athugasemdarkerfi eða með því að senda mé línu á bk@baldur.is

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 7.2.2014 - 14:34 - 2 ummæli

Svindlað á Pólverjum

Samkvæmt rannsókn Mirru – miðstöðvar í innflytendarannsóknum í Reykjavíkurakademíunni – voru Pólverjar í Reykjavík aðeins með 57% af meðallaunum Íslendinga árið 2010. Þessu er ver farið hér en í samanburðarlöndum.  þetta eigum við að vita. Erlendir menn eru iðulega á lægstu tökstum á meðan heimavanir vita að lægstu taxtar eiga að vera til skrauts.  Bót í máli er að aðkomnir eru í verkalýðsfélögum hér og vel meðvitaðir um rétt sinn.  Ég hef líka grun um að starfsmenn verkalýðsfélaga hér á landi séu vel meðvitaðir um tilveru og vanda erlendra starfsmanna og greiði úr vanda þeirra eftir bestu getu.

En erlendir menn eiga alls staðar við vanda að etja. Þeir fá ekki sama kaup og innfæddir og þeir eiga erfitt með að fá menntun sína viðurkennda. Ofan í kaupið verða þeir oftar atvinnnulausir en innfæddir.

Sökum fámennis  getum við tekið vel á þessum málum og gerum að sumu leiti. En betur má ef duga skal. Innflytjendur auðga íslenskt samfélag sem og önnur  og sama hvernig á er litið:  þeir eiga að njóta sömu réttinda og innfæddir.  Þar eigum við að vera vel á verði og rannsók Mirru er þess vegna þörf áminning.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 6.2.2014 - 16:58 - 1 ummæli

Hvað er pólitík?

Nú veltur upp úr mönnum: Það á ekki að blanda saman pólitík og íþróttum og átt er við að það trufli ekkert þó að Rússar ofsæki samkynhneigða, vilji a.mk. ekki sjá þá. Er þetta pólitík? Er það pólitík að vilja útiloka stóra hópa fólks? Eru mannréttindi bara pólitík? eitthvað sem má versla með eða horfa framhjá?  Ég hefði haldið að mannréttindi væri sá  grunnur sem við stöndum á þegar við heyjum okkar pólitík.  Eða hvað myndum við segja ef Rússar hefðu bannað konur? Væri það líka bara pólitík? Gagnkynhneigða karla?  Væri það bara pólitík sem mætti horfa fram hjá? Eru mannréttindi pólitík? Viljum við hafa þetta þannig?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur