Laugardagur 15.6.2013 - 09:49 - FB ummæli ()

Á að reka Ísland eins og meðalstórt bandarískt fyrirtæki?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson hafa ákveðið að Vigdís Hauksdóttir sé einmitt rétti maðurinn til að veita forstöðu fjárlaganefnd Alþingis, valdamestu þingnefndinni og þeirri sem í raun ákveður hvernig við viljum hafa samfélag okkar.

Og Vigdís er byrjuð að gefa yfirlýsingar:

„Vinstri stefna gengur út á það að koma sem flestum á bætur sem dæmi og að það sé verið að flytja til fjármagn með skatttekjum ríkisins og svo eru það alltaf einhverjir háir herrar sem deila því út aftur til baka. Það er svona stefna sem er rekin í þágu Evrópusambandsins sem er ekkert annað er risastór félagsmálastofnun. Þannig að þessari leið ætlum við Framsóknarmenn að fara af.“

Mér þætti gaman að vita hvort almennir framsóknarmenn deila þessari sýn Vigdísar Hauksdóttur af félagshyggjunni, sem Framsóknarflokkurinn hefur á stundum viljað kenna sig við.

En einkum og sér í lagi langar mig að varpa þeirri fyrirspurn til Sigmundar Davíðs og Bjarna Benediktssonar, ábyrgðarmanna Vigdísar Hauksdóttur, hvernig þeim falli við þá stefnuyfirlýsingu hennar að „Ísland sé á við meðalstórt bandarískt fyrirtæki og tími kominn til að reka það sem slíkt“.

Meðalstór bandarísk fyrirtæki eru rekin í ágóðaskyni fyrir eigendur sína. Allt verður að víkja fyrir kröfu arðseminnar.

Deila Sigmundur Davíð og Bjarni þeirri hugsjón Vigdísar Hauksdóttur að þannig eigi að reka íslenskt samfélag?

Svar óskast.

Það væri líka fróðlegt að heyra í almennum sjálfstæðismönnum og framsóknarmönnum um þetta atriði.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 14.6.2013 - 17:33 - FB ummæli ()

Lélegur brandari?

Til skamms tíma hefði ég talið það lélegan brandara að það yrði einn af allra fyrsta verkum nýrrar ríkisstjórnar að skipa Jónas Fr. Jónsson fyrrum forstjóra Fjármálaeftirlitsins í ábyrgðarstarf á vegum ríkisins.

En nú hefur það gerst, sjá hér.

Jónas er orðinn stjórnarformaður Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Sko.

Ég efast ekki um að Jónas sé hinn mætasti maður. Og mörgum góðum hæfileikum gæddur.

En hann fór ekki beinlínis með himinskautum í starfi sínu sem forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Svo kurteislega sé nú að orði komist.

Það er nú bara svoleiðis.

Hvort sem Jónasi sjálfum og vinum hans og velunnurum líkar betur eða verr, þá er hann einn af holdgervingum hrunsins – einn þeirra sem áttu að standa vaktina en gerðu það ekki.

Nú er ég ekki í vafa um að í sjálfu sér veldur Jónas vel þessu nýja starfi.

En það myndu líka mjög margir aðrir gera.

Og sumir eflaust betur en Jónas.

Það var því engin þörf á að skipa einmitt hann.

Og að skipa einmitt hann eru því fyrst og fremst skilaboð.

Skilaboð til almennings, og pólitísk yfirlýsing.

Þau hljóða svo í mínum eyrum: „Við skipum hann til að sýna að við getum það. Til að sýna að við erum komnir aftur. Og þess munu vinir okkar nú njóta, hvað sem líður hinu svokallaða „hruni“. Og okkur er svoleiðis alveg skítsama hvað ykkur kann að finnast.“

Þetta gerir sú ríkisstjórn sem fyrstu dagana kvakaði sem mest um samvinnu og sættir.

Samvinnan virðist eiga að vera við sægreifana.

Og sættirnar við hrunvaldana.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 13.6.2013 - 10:38 - FB ummæli ()

Býr fullveldið á Ártorgi 1? – Opið bréf til utanríkisráðherra

Komdu margblessaður Gunnar Bragi Sveinsson.

Ég var að lesa skörulegar yfirlýsingar frá þér um að aðildarviðræðum við Evrópusambandið verði „illa haldið áfram, eiginlega bara alls ekki“, meðan þú gegnir embætti utanríkisráðherra. Sjá hér.

Og þetta þykir mér slæmt að heyra.

Aðild að Evrópusambandinu er einn þeirra kosta sem við stöndum frammi fyrir til að bæta okkar hag á næstu árum og áratugum.

ESB er ekki eini kosturinn og alls ekki endilega rétti kosturinn, en hefur þó upp á svo margt að bjóða að mér finnst hreinasta glapræði að ætla að svipta þjóðina tækifæri til að taka afstöðu til þess.

En það ætla þú og félagar þínir þó að gera – að því er mér sýnist helst í nafni fullveldis þjóðarinnar.

Fyrirgefðu Gunnar Bragi, en getur þú útskýrt fyrir mér hvernig það eflir fullveldi þjóðarinnar að fá EKKI að greiða atkvæði um augljósasta og nærtækasta kostinn í gjaldmiðilsmálum Íslands – svo bara einn þáttur í hugsanlegri ESB-aðild sé nefndur?

Það er alveg sama hvernig ég mölbrýt á mér heilann, ég fatta þetta bara ekki.

Plís, útskýrðu það fyrir mér!

Svo er annað, Gunnar Bragi.

Ég var líka að lesa nærmynd af þér sem DV birti á mánudaginn var.

Og hvað heldurðu?

Þar er farið um persónu þína hinum snotrustu orðum, og ég efast ekki um að það sé allt rétt.

En – og þá fer að versna í því – þar er því líka haldið fram fullum fetum að þú „taki[r] enga ákvörðun án þess að ráðfæra [þig] við Þórólf Gíslason, kaupfélagsstjóra [Kaupfélags Skagfirðinga]“.

Þetta er haft eftir mörgum viðmælendum í DV, og ég skal líka trúa þér fyrir því, Gunnar Bragi, að ég hafði heyrt þetta áður.

Ekki veit ég hvort þetta er satt, en það skrýtna er að ég hef aldrei séð neinn bera á móti þessu – hvorki þig, Þórólf Gíslason né nokkurn annan.

Né heldur að heilmikill partur af ESB-andstöðu þinni sé máske runninn þaðan.

Gunnar Bragi.

Þú hefur nú þegar gert ein frekar kjánaleg mistök í hinu nýja starfi, þegar þú ruglaðir saman hagsmunum íslensku þjóðarinnar annars vegar og hins vegar hagsmunum hvalveiðifyrirtækisins Hvals hf. af því að skipa hvalkjöti gegnum Rotterdam. Sjá hér.

Þetta frumhlaup hefur þegar kostað þig háð og spott frá Hannesi Péturssyni skáldi, sjá hér.

Ekki vildi ég að Hannes Pétursson gerði gys að mér í blöðunum, það segi ég satt. Ég vona að þú þurfir ekki að þola það aftur.

Hannes, sá er nú ekki síðri Skagfirðingur en Þórólfur Gíslason!

En það sem ég vildi sagt hafa – nú sýnist mér þú reyndar í þann veginn að gera önnur mistök og töluvert mikið stærri en axarskaftið með hvalkjötið í Rotterdam.

Sem sé þegar þú ætlar að slíta viðræðum við ESB án þess að við, íslenska þjóðin eins og hún leggur sig, fáum sjálf að ákveða hvað við viljum í þessu hagsmunamáli okkar.

Hvort sem við komumst á endanum að þeirri niðurstöðu að aðild henti okkur, eða ekki.

Hérna er svolítil undirskriftasöfnun fyrir þá sem eru sammála því að klára dæmið og leyfa þjóðinni að ráða. Það væri gaman að sjá nafnið þitt þar.

Þetta er nefnilega mergurinn málsins.

Margir eru í fyllstu einlægni sannfærðir um að aðild að ESB þjóni ekki okkar hagsmunum.

Þeir eiga fullan rétt á þeirri skoðun. Og kannski hafa þeir rétt fyrir sér.

En þeir hafa engan rétt til að svipta okkur hin tækifærinu til að ákveða þetta sjálf.

VIÐ eigum að fá að ráða þessu – ekki ég, ekki þú, ekki Sigmundur Davíð, ekki Davíð Oddsson, ekki sægreifarnir og ekki einu sinni Þórólfur Gíslason.

Hversu ágætur maður sem hann kann að vera.

En þú ætlar að slíta viðræðum í nafni fullveldisins.

Gunnar Bragi, ég get ekki annað en ítrekað: viltu útskýra fyrir mér hvernig þú kemur því heim og saman að það varðveiti fullveldi íslensku þjóðarinnar að fá EKKI að greiða sjálf atkvæði um svo mikið hagsmunamál sitt?

Varla býr fullveldið á Ártorgi 1, 550 Sauðárkróki?

Ég held ekki.

Ég held það búi í brjóstum okkar allra.

Ég vonast eftir svari sem fyrst og mun með mestu ánægðju birta það hér,

bestu kveðjur …

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 12.6.2013 - 08:22 - FB ummæli ()

Skilaboð til starfsmanna RÚV

Ég hef lengi trúað því að nafni minn Gunnarsson væri með víðsýnustu og öfgalausustu mönnum í þingflokki Sjálfstæðisflokksins.

Þeim mun dapurlegra þykir mér að þetta hér skuli vera hans fyrsta mál sem menntamálaráðherra.

Það er nýbúið að breyta lögum og færa stjórn RÚV undan alþingismönnum, og maður hefði haldið að rétt væri að gefa hinni nýju skipan séns.

En nei. Aftur skal Ríkisútvarpið, sú viðkvæma stofnun færð undir þingið.

Það er að segja sjálfstæðismenn og framsóknarmenn.

Það eru alveg til rök fyrir þeirri skipan sem hann nafni minn vill nú rjúka í að koma á aftur.

Rök sem voru góð og gild á sínum tíma, en æ fleiri hafa þó upp á síðkastið talið þau léttvæg.

Og það að nýr menntamálaráðherra skuli stökkva fram með málið nú á sumarþingi, þegar aðeins átti að afgreiða örfá mjög stefnumarkandi mál, það lofar ekki góðu.

Ef það er eitt allra, allra brýnasta mál Sjálfstæðisflokksins að færa Ríkisútvarpið aftur undir Alþingi, þá vekur það bara grun um eitt.

Að nú eigi að læsa klóm fálkans í RÚV.

Og gefa starfsfólki þar skýrt til kynna hvað standi til.

Mjög skýrt.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.6.2013 - 11:40 - FB ummæli ()

Getum við sparað okkur 110 milljarða? Æ, rifjum frekar upp góða daga í Icesave-slagnum

Allt þjóðfélagið var nálega á öðrum endanum út af Icesave-málinu á sínum tíma.

Í næstum þrjú ár.

Bræður börðust, systur töluðust ekki við, menn töluðu sig hása, örguðu og þvörguðu, pólitísk örlög réðust og framtíð þjóðarinnar valt á þessu eina máli.

Ekki varð að minnsta kosti betur séð.

Og það er talað um að þeir sem harðast börðust gegn Icesave-málinu hafi „bjargað þjóðinni“.

Gott og vel. Hvarflar ekki að mér að draga það í efa.

(Þótt sumir geri það vissulega, sjá hér.)

En nú skilst mér líka  að útreikningar sýni að með því að hafna Icesave-samningunum hafi Íslendingar sparað sér 30 milljarða króna.

Það er lagleg summa og ýmislegt á sig leggjandi til að losna við hana.

Það getur að vísu vel verið að sparnaðurinn sé í raun minni, þar sem samningar snemma kynnu að hafa fært okkur meiri ávinning – en um það ætla ég ekki að fullyrða neitt.

Segjum bara að þetta séu 30 milljarðar.

Það er að vísu miklu lægri upphæð en við töpuðum með gjaldþroti Seðlabankans, og enginn hefur farið á mótmælafund út af né æst sig á Alþingi né byrjað undirskriftalista – en hva, 30 milljarðar eru samt alltaf 30 milljarðar.

En í gær birtist í Fréttablaðinu frétt um að útreikningar virts tryggingastærðfræðings hefðu sýnt að kostnaðurinn við að halda úti íslensku krónunni sé á bilinu 80 til 110 milljarðar króna.

Á ári.

Á hverju einasta ári!

Og þó horfði tryggingastræðfræðingurinn Benedikt Jóhannesson í reikningum sínum ekki til kostnaðar okkar af að halda krónunni í núverandi stöðu, heldur miðaði við ímyndað „eðlilegt ástand“.

Kostnaðurinn af krónunni er því væntanlega enn hærri en þessir 80 til 110 milljarðar á ári.

Þessi frétt var á blaðsíðu 4 í Fréttablaðinu. Hún vakti ekki mikla athygli.

Mér vitanlega hefur enginn ennþá skipulagt kröfugöngu þar sem þess er krafist að við spörum okkur þessar ógnar fjárhæðir.

Mér vitanlega hafa engir fréttatímar verið lagðir undir þessi tíðindi, eins mikið og var þó fjallað um Icesave á sínum tíma.

Mér vitanlega ætlar ríkisstjórnin ekki að gera neitt í málinu.

Mér vitanlega er Sigmundur Davíð ekki farinn að pússa skóna sem hann ætlar að nota til að „standa í lappirnar“ í þessu gífurlega hagsmunamáli þjóðarinnar – að losna við krónuna.

Mér vitanlega hefur enginn ennþá boðað bænaskjal til Ólafs Ragnars Grímssonar.

Mér vitanlega hefur Ólafur Ragnar Grímsson hvergi farið með himinskautum til að „halda uppi málstað Íslands“ í baráttunni við að losna við hið ónýta hræ krónunnar.

Mér vitanlega er flestum meirog minna skítsama um þessa 80 til 110 milljarða.

Sama fólkið og barðist af svo mikilli hugprýði og til síðasta blóðdropa í Icesave-málinu lætur þetta sig einu gilda.

Fréttamenn og fræðimenn, þeir hafa ekki áhuga.

Getur einhver útskýrt fyrir mér hvers vegna?

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 25.5.2013 - 18:16 - FB ummæli ()

Af hverju brást fólk svona við orðum Sigmundar Davíðs?

Ég kaus ekki Sigmund Davíð í kosningunum um daginn. Eigi að síður segi ég það í fyllstu einlægni að ég vona að hann muni standa sig vel í embætti forsætisráðherra og vinna öllum landsmönnum og landinu sjálfu til heilla.

Því er það síður en svo af nokkurri Þórðargleði sem ég verð að höggva í sama knérunn og ýmsir aðrir hafa gert, og vekja athygli á ótrúlegum ummælum hans í þættinum Vikulokum fyrr í dag.

Þar sem hann afgreiddi fjögur hundruð athugasemdir almennings vegna Rammaáætlunar þannig að það hefði nú eiginlega bara verið „sama athugaemdin“ því það hefði verið „400 sinnum sami textinn“.

Sjá hér.

Menn hafa komið með ýmis dæmi til að reyna að leiða Sigmundi Davíð fyrir sjónar hve þetta sjónarmið er undarlegt. Hvort andmælin gegn Icesave hafi á einhvern hátt verið lítils virði af því þar skrifaði fólk hrönnum saman undir „sama textann“. Hvort 47.000 atkvæði Framsóknarflokksins séu eitthvað ómerkari en ella af því þar merkti fólk bara eitt lítilfjörlegt „x“ á samskonar pappírsmiða.

Og svo framvegis.

Þessi dæmi eru kannski ekki öll jafn vel heppnuð.

En öll eru þau tilraun til að leiða Sigmundi Davíð fyrir sjónir hve ólýðræðisleg hún var í raun og veru, sú hugsun sem skein í gegnum ummæli hans í Vikulokunum.

Og það er með fyllstu vinsemd sem ég vil leyfa mér að ráðleggja Sigmundi Davíð hvernig hann ætti að bregðast við.

Ekki fara að tala um „misskilning“ eða „ég átti nú auðvitað alls ekki við …“

Þaðan af síður fara að tala um „hártogun“ eða „útúrsnúninga“.

Hann getur eiginlega ekki talað um „klaufaskap“ eða neitt af því tagi, því hann var spurður nánar út í ummælin í þessum þætti, og ítrekaði þau.

Þetta var því eitthvað sem hann hafði raunverulega hugsað.

En í staðinn fyrir að afgreiða málið sem „misskilning“ eða „hártogun“ pólitískra andstæðinga, þá ætti Sigmundur Davíð að hugleiða af hverju fólk brást svona við orðum hans.

Og horfast í augu við sjálfan sig og spyrja sig hvort það geti verið að í orðum hans hafi falist einhver ólýðræðislegur þokuslæðingur sem hann þurfi þá að gæta sín á í framtíðinni.

Ég vona að hann bregðist þannig við.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 23.5.2013 - 09:25 - FB ummæli ()

Nýrri stjórn óskað velfarnaðar

Ný ríkisstjórn tekur við í dag. Það er full ástæða til að óska henni velfarnaðar.

Einkum og sér í lagi óska ég þess og ætlast raunar til að það góða fólk sem tekur nú við ráðherraembætti líti á sig sem þjóna allra landsmanna, en ekki sem smákónga fyrir hagsmunahópa.

Þótt ekki hafi allt lukkast hjá þeirri stjórn sem nú fer frá, þá fylgdi henni ekki spilling og lágkúrulegt sérhagsmunaplott.

Fyrir það má þakka ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og við hljótum að ætlast til þess að stjórn Sigmundar Davíðs fylgdi þessu fordæmi hennar.

Megi segl okkar allra fyllast af vindi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 21.5.2013 - 21:54 - FB ummæli ()

Umhverfisráðuneytið í reynd lagt niður: Eruði að grínast?!

Ný ríkisstjórn tekur við á morgun. Það verða næg tækifæri til að skrifa um hana þegar stjórnarsáttmáli og ráðherraskipan liggur fyrir, en vitaskuld vona ég að stjórninni muni takast vel upp.

En eitt vekur beinlínis skelfingu af því sem þegar hefur frést.

Framsóknarflokkurinn ætlar að slá saman landbúnaðar-, sjávarútvegs- og umhverfisráðuneytunum.

Við vitum hvernig það fer.

Umhverfisráðuneytið hefur í raun verið lagt niður.

Það er að minnsta kosti ekki hægt að skilja það öðruvísi, ef rétt er.

Krakkar mínir!

Umhverfismál verða mál málanna á komandi tímum – og eru það raunar nú þegar.

Einmitt þá ætlar Framsóknarflokkurinn að gera umhverfismál að skúffu í landbúnaðar- og sjávarútegsráðuneytunum.

Ekki byrjar það vel.

Nei, það byrjar hræðilega.

Hlýtur þetta ekki annars að vera eitthvert grín?

Ég trúi því ekki að þetta eigi að gera árið 2013!

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 14.5.2013 - 13:37 - FB ummæli ()

Kæru Sigmundur Davíð og Bjarni.

Endilega myndiði stjórn og gangi ykkur sem best við það.

En ekki koma með sönginn um að „nú hafi komið í ljós að staðan sé miklu verri en talið var“ og þess vegna verði ekki hægt að efna kosningaloforðin ykkar.

Það hefur ekkert komið í ljós núna hver staðan er.

Við vissum það og þið vissuð það þegar þið lofuðuð öllu fögru.

Við erum ekki fífl og þið eigið ekki að bjóða okkur upp á svona billegan spuna.

Takk fyrir og gangi ykkur ævinlega sem best.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 13.5.2013 - 20:14 - FB ummæli ()

Merkileg sýning „um“ Geirfinnsmálið

Ég fór í gærkvöldi að sjá sýninguna Hvörf sem leikhópurinn Lab Loki sýnir í samvinnu við Þjóðleikhúsið. Sýningin er merkileg meðal annars fyrir það að fyrsta hluta hennar horfa áhorfendur á í salnum Kassanum bak við Þjóðleikhúsið sjálft, en síðan færist sýningin yfir í hið gamla dómhús Hæstaréttar þar við hliðina.

Það á sér þá skýringu að verkið fjallar um sakamál, sem er augljóslega reist á Guðmundar- og Geirfinnsmálunum. Þótt það sé skáldverk og víða fantaerað ótæpilega, þá er líka hvað eftir annað vitnað í hið upphaflega sakamál – og stundum með óvæntum hætti – svo sem þegar ein leikkonan stígur fram, varpar af sér gervi sínu stundarkorn og reynist tengjast málinu á merkilegan hátt.

Það er full ástæða til að hvetja fólk til að sjá þessa sýningu. Hún ber öll einkenni Guðmundar- og Geirfinnsmálanna – hún er tætingsleg, groddaleg á köflum, oft farsakennd, stundum óskiljanleg, og hún er iðulega grátleg og nístandi, hún er fróðleg, fyndin og skemmtileg, allt í einum dálítið heillandi hrærigraut.

Hún er á sinn hátt prýðileg táknmynd um það rugl sem var á ferðinni í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum – burtséð frá að hvaða marki hún fjallar beinlínis um þau mál.

Þetta er pólitískt leikhús í bestu merkingu þess orðs – endilega drífið ykkur.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!