Sunnudagur 18.11.2012 - 19:11 - FB ummæli ()

Villimannaríkið Ísrael

Ísraelar halda áfram loftárásum á Gaza og hirða ekkert um þótt börn verði fyrir sprengjum þeirra.

Það er ekki afsökun fyrir þessu villimannlega framferði þótt hryðjuverkamenn Palestínumanna haldi áfram að skjóta eldflaugum yfir ísraelskt land.

Þeir eru hryðjuverkamenn – en ísraelskir ráðamenn eiga að heita forráðamenn í siðmenningarríki.

En það er ekki lengur hægt að líta á þá sem slíka.

Ekki eftir að haft er eftir innanríkissráðherra Ísraels segir í viðtali að meiningin sé að „sprengja Gaza-svæðið aftur á miðaldir“.

Og að réttlætanlegt sé að sprengja upp vatnsból fyrir almenning.

Þetta er viðbjóðsleg villimennska. Ekkert annað.

Ég kann ekki að búa til undirskriftalista á netinu.

En ef einhver, sem það kann, myndi búa til undirskriftalista þar sem ríkisstjórn Íslands væri hvött til að slíta stjórnmálasambandi tafarlaust við þetta villimannaríki, þá myndi ég skrifa undir þann lista fyrstur manna.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 16.11.2012 - 20:51 - FB ummæli ()

Þegar rennur upp fyrir heiminum ljós – verður það of seint?

Indíánar í Norður-Ameríku unnu ýmis grimmdarverk gegn hvítum landnemum á 19. öld, um það er engum blöðum að fletta.

Enda var óspart hamrað á því í fjölmiðlum þess tíma, til að réttlæta hernað gegn Indíánum.

Á nákvæmlega sama hátt hafa Palestínumenn vissulega gerst sekir um ýmis ódæði gegn Ísraelsmönnum, það er alveg ljóst.

En rétt eins og það rann að lokum upp fyrir okkur að einstök grimmdarverk Indíána gátu aldrei réttlætt það þjóðarmorð og þann þjófnað á landi og lífsviðurværi sem þeir máttu sæta af hendi hinna hvítu innrásarmanna – þá mun það lokum verða deginum ljósara að það illa, sem Palestínumenn hafa gert ísraelskum landnemum getur aldrei talist skýring á eða hvað þá afsökun fyrir þeirri meðferð sem þeir sæta af hendi Ísraelsmanna.

Palestínumenn hafa, rétt eins og Indíánar á 19. öld, verið rændir landi og lífsviðurværi og margir þeirra lífinu sjálfu.

Yfir þá er valtað af Ísrael, einhverju öflugasta herveldi heimsins, og bak við Ísraelsmenn standa á hverju sem gengur Bandaríkin sjálf.

Allra mesta herveldið.

Og reyndar einmitt það sem rændi landi Indíánanna á 19. öld.

Það sem fram fer í Palestínu er viðurstyggð og ekkert annað.

Það mun líka einn daginn verða öllum ljóst.

Vonandi verður það bara ekki of seint fyrir þá sem rændir eru landi og lífi.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 7.11.2012 - 21:13 - FB ummæli ()

Léttir

Allt er í heiminum hverfult og svoleiðis.

En samt er það eitthvað svo dæmalaust léttbærari tilhugsun að Obama skuli áfram vera forseti vestanhafs, heldur ef Mitt Romney hefði unnið og Karl Rove og hyskið í kringum teboðshreyfinguna og Skollafréttir gæti nú farið enn meira að breiða úr sér í Ameríku og þar með í veröldinni allri.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 6.11.2012 - 19:53 - FB ummæli ()

Gamla góða Villa líður illa

Heimilisfólkið á Eir hefur unnið langa ævi og á skilið að eiga áhyggjulaust ævikvöld, eins og það hét einu sinni.

En nú er hörmulega komið fyrir þessu góða fólki, og útlit fyrir að það glati stórfé, jafnvel stórum hluta af ævistarfi sínu.

Yfir því ævistarfi átti að vaka Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. „Gamli góði Villi,“ eins og hann kýs sjálfur að kalla sig. Hann var á góðum launum hjá Eir, fyrst sem framkvæmdastjóri og svo stjórnarformaður.

Nú kemur hann fram í fjölmiðlum og kennir endurskoðendum um hvernig komið er!!

Og barmar sér yfir því hvað HONUM líði illa yfir þessu. Sjá hér.

HONUM.

En hann segist þó ekki ætla að víkja. Nei, auðvitað ekki, aldrei víkja!

En fyrirgefiði, ræður hann því sjálfur?

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 5.11.2012 - 19:36 - FB ummæli ()

Einhver gæti farið að koma í heimsókn

Hérna er skemmtileg reiknivél fyrir þá sem hafa áhuga á að vita hversu sennilegt er að líf sé á öðrum hnöttum.

Og ekki bara einhvers konar líf, heldur „viti borið líf“ þar sem þróast menning sem getur sent frá sér merki um alla Vetrarbrautina.

Ef maður velur alltaf lægstu töluna í sérhverri breytu er útkoman sú að í Vetrarbrautinni okkar sé engin önnur menning af því tagi, en hins vegar 15.000 í öllum alheiminum.

Með því að stilla víðast hvar inn miðlungstölur og þó heldur hneigjast til varkárni en ofdirfsku, þá fékk ég hins vegar út þá niðurstöðu að í öllum alheiminum væru líklega 450 þúsund milljarðar af háþróuðum menningum.

Og bara í Vetrarbrautinni okkar væru þær 3.000.

3.000 já. Það er dálaglegur fjöldi í okkar litla horni alheimsins.

Einhver gæti farið að koma í heimsókn.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 5.11.2012 - 11:30 - FB ummæli ()

2. febrúar 1994: Séra George fær fálkaorðuna fyrir gifturíkt starf við Landakotsskóla

„[Séra Ágúst George hlaut] fálkaorðu fyrir farsælt starf að skólamálum. [Þann 2. febrúar síðastliðinn hlaut hann] riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu fyrir drjúg og gifturík störf í þágu Landakotsskóla um áratuga skeið. Við athöfnina, sem fram fór á Bessastöðum, afhenti frú Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands orðuna, en viðstaddir voru auk séra Georges, Alfred Jolson biskup, séra Terstroet og séra Hjalti Þorkelsson.“

Svo hefst frétt í Morgunblaðinu 19. febrúar 1994, sjá hér.

Nú er komið í ljós að störf séra Ágústs George í þágu nemenda Landakotsskóla voru svo sannarlega ekki gifturík.

Ég hef ekki geð í mér til að fjölyrða um það. Þeir sem vilja lesa hina óhuggulegu skýrslu rannsóknarnefndar um níðingsskap séra Georges geta gert það hér.

Athyglisvert er að að minnsta kosti tveir þeirra sem voru viðstaddir athöfnina á Bessastöðum vissu fullvel um ásakanir á hendur séra George.

Í skýrslunni kemur fram að Alfred Jolson biskupi var oftar en einu sinni sagt frá ásökunum á hendur séra George en hann gerði ekkert í málinu. Þá kemur líka fram að þegar árið 1985 var séra Hjalta Þorkelssyni sagt frá ásökunum á hendur séra George, en viðbrögð hans voru að segja:

„Æ æ æ æ, þetta er agalegt.“

En gera svo ekkert í málinu.

Ég ítreka að þetta var árið 1985. Séra George hélt áfram að níðast á börnum í Landakotsskóla í næstum 20 ár eftir það. Hefur einhver spurt séra Hjalta út í þetta?

En þessi athöfn á Bessastöðum 2. febrúar 1994 hlýtur nú að skoðast sem einhver svartasti bletturinn í sögu íslensku fálkaorðunnar. Það er beinlínis ógeðsleg tilhugsun að þarna hafi forseti Íslands heiðrað barnaníðing – og það einmitt fyrir það starf sem gerði honum kleift að níðast á börnum.

Og að viðstaddir hafi verið menn sem vissu hvernig í pottinn var búið.

Í 11. grein forsetabréfs um hina íslensku fálkaorðu segir eftirfarandi:

„Stórmeistari getur, að ráði orðunefndar, svipt mann, sem hlotið hefur orðuna, en síðar gerst sekur um misferli, rétti til að bera hana.“

Nú legg ég til – nei, ég krefst þess að stórmeistari fálkaorðunnar, sem er núverandi forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, beiti þessu ákvæði þegar í stað.

Ef því verður ekki beitt í þessu tilfelli, hlýtur það að teljast marklaust með öllu.

 

 

– – – –

Forsetaritari hafði samband við mig og benti mér á þær reglur sem í gildi eru um fálkaorðuna, að við andlát orðuhafa skuli erfingjar hans skila orðunni til orðunefndar. Þær reglur eiga að tryggja að orður lendi ekki á flækingi hjá fólki sem ekki hefur fengið þær sjálft.

Orðunum væri líka oftast skilað, en þó ekki kannski alltaf. Honum hafði ekki gefist tóm til að kanna hvort erfingjar séra Georges hefðu skilað inn orðu hans þegar hann dó. Hafi það verið gert er kannski erfitt að svipta manninn orðunni, í bókstaflegum skilningi.

En reyndar átti ég náttúrlega fyrst og fremst við sviptingu orðunnar í táknrænum skilningi, fremur en hlutinn sjálfan. Það má ljóst vera.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 4.11.2012 - 12:34 - FB ummæli ()

Nú er ég svoleiðis alveg hissa

Ekki ætla ég að þykjast vera mikill sérfræðingur um bandarísk stjórnmál.

En eitt vekur óneitanlega athygli mína.

Í efnahagsmálum tók Barack Obama forseti við mjög erfiðu búi frá fyrirrennara sínum, um það eru allir sammála. Hann þykir ekki hafa sýnt neina snilldartakta í efnahagsmálum, skilst mér, en ekki hefur þó verið bent á nein stórkostleg mistök sem forsetinn sjálfur hefur gert. Og nú á haustdögum berast ýmisleg jákvæð tíðindi úr efnahagslífinu.

Á sama tíma hefur mótframbjóðandinn Mitt Romney vissulega á sér dugnaðarorð sem fyrirtækjastjórnandi, en honum gengur illa að hrista af sér þá ásökun að efnahagspólitík hans verði fyrst og fremst fólgin í að lækka skatta á þá ríku – og láta verr statt fólk borga brúsann. Og upp á síðkastið hefur hann vakið athygli fyrir aka seglum ansi hressilega eftir vindi á þessu sviði.

Obama hefur hvergi nærri staðið undir þeim vonum sem bundnar voru við hann, einkum utan Bandaríkjanna sjálfra, um að hann mundi taka upp nýja utanríkisstefnu vestra. En hann hefur ekki gert nein áberandi glappaskot (frá sjónarmiði Bandaríkjamanna) og virkar varkár og íhugull. Og hann er augljóslega enn í töluverðum metum meðal annarra þjóðarleiðtoga.

Á sama tíma vekur Mitt Romney aðhlátur hvar sem hann fer í útlöndum, og ýmis stefnumál hans virðast áhættusöm og gætu hleypt Bandaríkjunum út í styrjaldir sem áreiðanlega enginn óskar eftir (nema vopnaframleiðendur).

Hvað sem mönnum kann að þykja um Obama, þá er hann gáfaður maður og vel meinandi – svona að því marki sem það hefur eitthvað að segja í embætti forseta Bandaríkjanna. Hann er nýbúinn að standa sig vel við að skipuleggja björgunarstörf eftir fellibylinn Sandy, og hlaut hrós fyrir úr ólíklegustu áttum.

Á sama tíma hefur Mitt Romney lýst opinberlega fyrirlitningu sinni á 47 prósentum Bandaríkjamanna, hann virkar tilbúinn til að láta undan öfgamönnum og þrýstihópum í mikilvægum mannréttindamálum og ríkidæmi hans og lifnaðarhættir ættu að hrinda stórum hluta alþýðunnar frá honum, heldur en hitt.

En að öllu þessu sögðu – og ég held að þetta sé ekkert mjög ósanngjörn lýsing, að minnsta kosti héðan frá séð – getur þá einhver útskýrt fyrir mér af hverju Obama forseti er ekki löngu búinn að rúlla upp þessum kosningum?

Af hverju Mitt Romney er enn ekki nema hálfu skrefi á eftir honum, og gæti meira að segja unnið?

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 3.11.2012 - 17:25 - FB ummæli ()

Meistaraverk

Gunnar V. Andrésson ljósmyndari á Fréttablaðinu er kannski ekki þekktasti ljósmyndari landsins, nema helst meðal þeirra sem eru svolítið kunnugir á fjölmiðlum.

Hann hefur ekki haldið sérstakar sýningar, svo ég muni til, eða gefið út bækur. Meiriparturinn af myndunum hans eru bara ósköp venjulegar fréttamyndir, sem gefa ekki tilefni til mikilla tilþrifa, og á vinnustað hans Fréttablaðinu er ljósmyndum því miður alltof sjaldan gefið verulegt vægi.

En allir sem til þekkja vita að Gunni Andrésar er einhver mesti snillingur í þessum bransa sem Ísland hefur alið. Margar mynda hans eru eftirminnileg snilldarverk.

Við unnum svolítið saman í gamla daga, þegar ég var að byrja í blaðamennsku. Mér heftur alltaf þótt voða vænt um þessa mynd hér að neðan, sem hann tók þegar við fórum saman í göngur á Ströndunum haustið 1980. Það hefur þurft að setja fyrirsögnina oní myndina, en samt finnst mér þessi mynd alltaf segja skemmtilega sögu. Þarna standa kátir gangnamenn í einum hnapp í niðaþoku en spölkorn frá er ráðvillt höfuðborgarbarnið heldur hnípið. Það er að sjálfsögðu ég sjálfur.

 

Í sömu ferð á Strandirnar tók ég viðtal við Axel Thorarensen á Gjögri, og þá tók Gunni þessa mynd hér, sem sýnir að hann getur tekið svipmikil portrett á við hvern sem er!

 

Ég held að myndin sem Gunni eða GVA birtir framan á Fréttablaðinu í dag hljóti að teljast í hópi hans allra bestu. Ef einhver skyldi ímynda sér að svona mynd sé bara spurning um að smella af út í loftið, þá er fjarri því. Hinn þrautþjálfari fréttaljósmyndari hefur ekki aðeins þurft að skynja umhverfið, átta sig á hvað honum sjálfum fannst merkilegast við aðstæðurnar og hvað hann vildi segja með mynd sinni, hann þurfti líka að velja sér stað til að taka myndina frá og byggja hana vel upp. Afraksturinn er þetta snilldarverk þar sem ofsinn í veðrinu, hafnargarðurinn, Harpa, háhýsin í fjarska og himinhvolfið yfir spila saman á frábæran hátt. Og litli vitinn við hafnarmynnið er punkturinn yfir i-ið.

(Myndin birtist í eitthvað svolítið skrýtnum hlutföllum hér, ég kann ekki að laga það.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 3.11.2012 - 10:34 - FB ummæli ()

Á eitt „úbs, sorrí“ að duga?

Ég hef ekki haft geð í mér til að kynna mér nákvæmlega skýrslu rannsóknarnefndar um hátterni barnaníðinganna í Landakotsskóla. Það sem birst hefur í fjölmiðlum er alveg nógu ógeðslegt. Sjá hér.

Vert er að vekja athygli á að þótt tveir einstaklingar séu nefndir til sögu með nafni sem níðingar, þau séra Georg og Margrét Möller, þá virðast hafa verið fleiri á kreiki í skólanum.

En allt var þaggað niður.

Þið fyrirgefið, en það sem þarna átti sér stað er svo yfirgengilegt að mér finnst ekki að það dugi að biskup kaþólskra komi nú fram og biðjist afsökunar, hversu „auðmjúklega“ sem hann kann að gera það.

Ég er satt að segja alveg sótöskuvondur – og persónulega líka. Fyrir rétt rúmum 15 árum kom ég með 5 ára gamla stúlku í Landakotsskólann, sem kirkjan rak þá (en gerir raunar ekki lengur).

Enginn sagði mér frá því orði sem fór af séra Georg eða Margréti Möller. Þó virðast margir hafa vitað það. Enginn sagði mér það, og yfirvöld kirkjunnar höfðu beinlínis lagt sig fram um að leyna mig (og aðra) því að þarna var verið að leiða börn í skelfilega gildru.

Sem betur fer skynjaði stúlkan sjálf hvílíkt illmenni séra Georg var. Hún sneri sér ævinlega undan þegar hann varð á vegi hennar eða hann kom inn í skólastofuna og leit ekki við aftur fyrr en hann var tryggilega farinn. Okkur foreldrunum fannst þetta undarleg hegðun en bárum virðingu fyrir henni, svo stúlkan var tekin úr skólanum eftir einn vetur.

En að einhver biskupsnefna sem maður rakst stundum á á vappi kringum skólahúsið færi að segja manni að hafa varann á – onei.

Í áratugi hylmdi kirkjan yfir með svívirðilegustu sort af níðingum sem til eru.

Og á svo bara eitt „úbs, sorrí“ að duga?

 

–  –  –  –  –

Gunnar Smári Egilsson hefur lesið afsökunarbeiðni biskups kaþólsku kirkjunnar og samkvæmt því sem hann segir er hún forkastanleg. Af hverju vöktu fjölmiðlar ekki athygli á þessu ömurlega orðalagi þegar þeir sögðu frá málinu í gær?

Gunnar Smári vitnar í athugasemd á Facebook fyrst til orða biskupsins og bætir svo við eigin athugasemd um framhaldið:

„[Biskup segir:] „Í nafni Kaþólsku kirkjunnar á íslandi, sem og persónulega, leitar hugur minn [biskupsins] til allra þeirra sem TELJA AÐ á sér hafi verið brotið og einnig til fjölskyldna þeirra…“ Á eftir fylgir almennt tal um skaða af kynferðislegu ofbeldi. Hann sniðgengur alla ábyrgð og viðurkennir engin ákveðin brot.“

Jahá. Sá bréf biskupsins hér.

Þetta „telja að“ ætti eitt og sér að duga til að maðurinn yrði hrópaður af. Þarna er upplýst um ógeðsleg brot en biskupinn fellst á að einhverjir „telji hafa verið brotið á sér“.

Svei honum.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 1.11.2012 - 10:43 - FB ummæli ()

Siferðileg skylda

Björgunarsveitirnar safna fé nú um helgina með því að selja hinn góðkunna neyðarkall.

Hvert einasta okkar gæti fyrr en nokkurn varir þurft á björgunarsveitunum að halda.

Ef ekki við sjálf, þá ættingjar okkar, vinir, landsmenn, annað fólk yfirleitt.

Það er því nánast siðferðileg skylda okkar að kaupa neyðarkall.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!