Miðvikudagur 11.7.2012 - 14:50 - FB ummæli ()

Ekkert virða nema gull

Það er ekki skrýtið að Jakob Frímann Magnússon skuli telja sér akk í því ef Davíð Stefánsson reynist vera afi hans. Því Davíð var skáld gott. Hér yrkir hann um íslensku bankamennina og ýmsa aðra kaupsýslumenn, mörgum áratugum áður en þeir lögðu landið í rúst:

Kling, kling.
Kistan tóm.
Gleðja sig við gullsins hljóm.
Safna aurum. Aura spara.
Eld að sinni köku skara.
Öllum gæðum öðrum hafna.
– Safna.

Kling, kling.
Kistan hálf.
Kistan – hún er sálin sjálf.
Lofa, svíkja,
sníkja.
Kaupa, selja,
telja.
Smjaðra, smjúga,
sjúga. –

Allra óskum neita.
Brögðum beita.
Reita –
lagða úr annars ull.
Ekki um álas hirða.
Ekkert virða
nema gull.

Kling, kling.
Kistan full.
He, he … Ormagull.
Kistan var af guði gjörð.
Grafa í jörð.
Grafa í jörð.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 9.7.2012 - 14:59 - FB ummæli ()

Meira hneykslið, maður!

Mér skilst að nú séu menn að rífast yfir því að borgarstjórn Reykjavíkur láti ekki slá grasið á umferðareyjum nógu oft, og njóli sé sums staðar farinn að festa rætur.

Það er nú meira hneykslið, maður!

Það vill svo til að ég er farinn að hjóla svolítið um Reykjavíkurborg upp á síðkastið.

Og það skal tekið skýrt fram að það pirrar mig akkúrat ekki neitt þótt ég sjái óslegið gras, enda er ég ekki bóndi.

Og njólar finnst mér ólíkt fallegri en allar þessar andstyggilega ljótu og tilgerðarlegu stjúpur sem hafa af einhverjum ástæðum alltaf verið taldar hámark snyrtimennsku í garðyrkju borgarinnar.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 2.7.2012 - 18:03 - FB ummæli ()

Sjálfstæðismenn og tillögur stjórnlagaráðs

Sjálfstæðismenn ætla að leggja fram tillögur á þingi í hausti til að skýra hlutverk forsetans í stjórnarskránni.

Það er gott og blessað.

Reyndar eru slíkar tillögur þegar til – þær er að finna í stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs.

Ég – sem stjórnlagaráðsmaður – hlakka til að fá liðsinni sjálfstæðismanna við að afgreiða þær tillögur.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 1.7.2012 - 10:15 - FB ummæli ()

Eitt af því sem ég skil ekki

Vissulega er það margt sem ég skil ekki. En eitt af því er þetta:

Það virðist hafa ráðið afstöðu ýmissa í forsetakosningunum að Ólafur Ragnar Grímsson væri líklegur til að halda vel á spöðunum þegar þyrfti að „verja málstað Íslands“ ef við töpum dómsmálinu út af Icesave.

Rétt eins og hann fór mikinn í erlendum fjölmiðlum þegar þjóðaratkvæðagreiðslur vegna Icesave fóru fram hér, og gerði það vissulega með heilmiklum bravúr.

Þegar Icesave III var til umræðu bar öllum saman um að samningurinn væri hagstæður. En andstæðingar samkomulagsins með Ólaf Ragnar í broddi fylkingar vildu þá fara dómstólaleiðina.

Svo öruggt væri að Ísland myndi vinna málið að ESA myndi áreiðanlega ekki einu sinni treysta sér með málið fyrir dómstólana.

En ESA treysti sér á endanum fyllilega til þess, og nú sýnist mér æ fleiri reikna með því að Ísland muni tapa málinu.

Ég tek það fram að ég hef persónulega ekki hundsvit á því – þetta er bara svona það sem maður skynjar í hinni margfrægu umræðu.

En fari svo gætum við þurft að borga miklu hærri upphæðir en kveðið var á um í Icesave III samningnum.

Og þá telja sem sagt margir mikilvægt að Ólafur Ragnar verði til staðar til að halda uppi málstað Íslands í erlendum fjölmiðlum.

Og þetta er einmitt það sem ég skil ekki.

Ef málið tapast fyrir dómstólum – sem herraguð gefi að gerist ekki – og við þurfum að borga meira, þá efast ég ekki um að Ólafur Ragnar muni ólmast af miklum krafti í viðtölum við BBC eða Financial Times og hverja þá fjölmiðla aðra sem þá reynast hafa áhuga á málinu.

En það mun bara ekki breyta neinu.

Eða hvað?

Við munum eftir sem áður þurfa að borga hinar háu fjárhæðir, og fyrst og fremst vegna þess að einmitt Ólafur Ragnar vildi ekki skrifa undir samninginn.

Þetta er sem sagt hluti þess sem ég skil ekki.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 30.6.2012 - 15:25 - FB ummæli ()

Þetta verður langur dagur

Já, sannarlega óvenjulega langur dagur.

Ekki þó út af forsetakosningunum, þótt væntanlega muni frambjóðendum þykja tíminn lengi að líða áður en úrslit verða kunn.

Nei, laugardagurinn 30. júní 2012 verður lengri en aðrir dagar einfaldlega vegna þess að á miðnætti verður bætt einni sekúndu við klukkuna.

Það er til að vega upp á móti þeirri staðreynd að jörðin er smátt og smátt að hægja ferðina á snúningi sínum um sjálfa sig.

Þetta er sem sé eins konar „hlaupsekúnda“ sem skotið er inn til að raunverulegur snúningur passi við sólarhringinn á klukkunni.

Frá 1972 hefur 25 sekúndum verið bætt inn í sólarhringinn.

Síðast gerðist það 31. desember á hrunárinu 2008.

Og aftur núna.

Þetta verður sem sagt mjög langur dagur.

Prófið að draga andann snöggt þegar klukkan er alveg að ná miðnætti í kvöld.

Það er hin viðbætta stund.

Sjá hér.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 27.6.2012 - 15:22 - FB ummæli ()

Vill einhver góðar fréttir?

Landsframleiðsla eykst á Íslandi. Meira en annars staðar.

Sjá hér.

Og Hagstofan hefur ekki mælt lægra atvinnuleysi síðan í maí fyrir hrun.

Sjá hér.

Hvorttveggja eru mjög jákvæð merki um að það hefur tekist að koma í veg fyrir að þær spár rættust sem fóru milli manna haustið 2008 og kváðu á um miklar þrengingar þjóðarinnar í að minnsta kosti 20 ár.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 22.6.2012 - 15:22 - FB ummæli ()

Að sinna móðurhlutverkinu

Sjálfsréttlæting fjöldamorðingjans í Noregi var samhengislítið raus, eins og búast mátti við.

Um norska keppendur í Eurovision og ég veit ekki hvað.

Það eina merkilega fannst mér að hann fór að tala um konur, að þær ættu ekki að sofa óhikað hjá karlmönnum, heldur ættu þær að hugsa um að sinna móðurhlutverkinu.

Þar lá að.

Mín kenning hefur lengi verið sú að eiginlega öll þau „átök menningarheima“ sem margir telja nú standa yfir, ekki síst milli íslams og hins kristna heims, séu í raun fjörbrot feðraveldisins gamla gegn raunverulegu jafnrétti kynjanna.

Allir öfgamenn, sama hvaða trúarbrögðum eða pólitík þeir tilheyra, reynast fyrr eða síðar hafa ógurlegan áhuga á að konur „sinni móðurhlutverkinu“.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 22.6.2012 - 10:57 - FB ummæli ()

Ömurlegt en nauðsynlegt

Auðvitað er ömurlegt að horfa upp á að narsissískum fjöldamorðingja skuli gert svo hátt undir höfði, eins og Norðmenn hafa neyðst til gera gagnvart Anders Breivik.

En markmið Norðmanna er í raun göfugt og sérlega virðingarvert.

Að sýna fram á að Noregur er réttarríki, þar sem allir njóta mannréttinda – líka þeir sem fótumtroða mannréttindi annarra.

Það er stundum erfitt að fallast á það.

En Norðmenn hafa samt gert hið eina rétta, og hafi þeir lof fyrir.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 22.6.2012 - 07:47 - FB ummæli ()

Sægreifaveldið Ísland

Mjög fín grein er í DV í dag um þinglokin um daginn.

Þar kemur ýmislegt dapurlegt fram um hvernig staðið er að málum á Alþingi.

En allra alvarlegast er að á lokasprettinum, þegar reynt var að finna samkomulag, til að ljúka þingstörfum, þá var fundað um samkomulagið í stjórn Landsambands íslenskra útvegsmanna.

Áhrif LÍÚ er sem sagt slík að stjórn samtakanna þarf að leggja blessun sína yfir samkomulag stjórnmálaflokkanna um þingstörf!!

Fyrr gat pólitískur armur sægreifanna ekki gengið frá samkomulaginu.

Raunar er líka að finna í greininni í DV aldeilis makalausa lýsingu eins úr hópi sægreifanna á mætti samtakanna og bandamanna þess.

Sjá hér.

Í greininni í blaðinu sjálfu er því síðan lýst hvernig þessi „her“ sneri niður Ingibjörgu Sólrúnu á sínum tíma, og þar áður Davíð Oddsson þegar hann var með einhverja sjálfstæðistilburði í upphafi ferils síns.

Davíð lærði sína lexíu vel og rækilega, eins og kunnugt er.

En þessi grein er eins og endaleg staðfesting þess að Ísland er ekki bananalýðveldi eins og stundum er haldið fram, heldur sægreifaveldi.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 16.6.2012 - 17:40 - FB ummæli ()

Jóhanna þarf greinilega ekki að kvarta

Ég hef sagt það áður en segi það þá bara aftur:

Þótt ég hafi aldrei verið í hópi dyggustu stuðningsmanna Davíðs Oddssonar þá var maðurinn þó helstur valdamaður á Íslandi lengst af mínum manndómsárum, og vissulega maður fyrir sinn hatt.

Því finnst mér í allri einlægni leiðinlegt að sjá hann á ofanverðri sinni starfsævi kominn í hlutverk vígahunds á málgagni sægreifanna á Íslandi, og vinnur helst fyrir sér með ansi ódýrum fimm aura bröndurum um andstæðinga sægreifanna.

Sjá til dæmis þetta nýjasta innlegg þessa fyrrum merka stjórnmálamanns í umræðuna um framtíð íslensku þjóðarinnar.

En það verð ég að segja að Jóhanna Sigurðardóttir getur nokkuð vel við unað ef það helsta sem á hana má finna er klaufavilla í hátíðarræðu fyrir tveim árum síðan.

Þá þarf hún eiginlega ekki mikið að kvarta.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!