Þriðjudagur 29.11.2011 - 14:56 - FB ummæli ()

Rétt úr bakinu

Það er afar gleðilegt að þingmenn hafi nú samþykkt stuðning við sjálfstæðisyfirlýsingu Palestínumanna.

Í fljótu bragði er erfitt að finna nokkra þjóð sem býr við ömurlegri aðstæður en Palestínumenn.

Mörgum má þakka fyrir þennan áfanga – svo ég líti mér nú persónulega svolítið nærri, þá er ég til dæmis viss um að mín góða móðir eigi sinn þátt í þessu með því að hafa aukið skilning okkar á hlutskipti Palestínumanna og Araba yfirleitt með skrifum sínum og ferðalögum á þessar slóðir í 30 ár!

Sem áreiðanlega hefur stórbætt víðsýni bæði þjóðar og þingmanna.

Nú síðast hefur Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra borið málstaðinn áfram af miklum sóma. Hann á heiður skilinn fyrir framgöngu sína í þessu máli.

Og það var auðvitað sérstaklega skemmtilegt að sú uppátækjasama frú mannkynssagan skyldi taka upp á því að láta þetta gerast einmitt meðan situr á Alþingi fulltrúi Palestínumanna, og fyrsti þingmaðurinn okkar sem er svona langt að kominn, Amal Tamini.

Með þessari góðu ákvörðun getum við rétt svolítið úr bakinu. En umfram er vonandi að þetta styrki Palestínumenn í baráttu þeirra gegn hinum ringluðu forráðamönnum Ísraelsríkis.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 29.11.2011 - 12:01 - FB ummæli ()

Vitfirringur

Fjöldamorðinginn í Noregi hefur nú verið úrskurðaður ósakhæfur.

Það kemur sjálfsagt mörgum í opna skjöldu, því skilgreiningin á ósakhæfi vegna geðveiki er yfirleitt á þá lund að viðkomandi hafi ekki gert sér grein fyrir gjörðum sínum, eða ekki ráðið við sig á einhvern hátt.

Morðsvínið í Noregi gerði sér hins vegar fulla grein fyrir gjörðum sínum, og hafði á sér hina ýtrustu stjórn.

Búast má að ættingjar þeirra sem hann drap verði ekki allir ánægðir með að hann verði ekki dæmdur til fangelsisvistar, heldur vistaður á geðdeild sem sjúklingur.

Það gæti þó kannski verið þeim einhver huggun harmi gegn að sjálfsagt svíður engum þessi úrskurður sárara en morðingjanum sjálfum, sem taldi sig vera að framkvæma einhvers konar úthugsaða pólitíska „hernaðaraðgerð“ eða jafnvel „hetjudáð“ en er svo bara útskurðaður vitfirringur.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.11.2011 - 10:30 - FB ummæli ()

Glópar og glæpamenn

Í mörg herrans ár hef ég harmað það um hver jól að Bragi frændi minn sé ekki að senda frá sér bók. Því maðurinn hefur einstakt lag á orðum, og þekkir betur til Íslendinga en flestallir aðrir á landinu. Eins og áhorfendur Kiljunnar hafa fengið að kynnast undanfarin ár.

En nú er bókin hans Braga loksins komin út, og raunar fylgir henni DVD-diskur með ýmsum af bestu innslögum Braga í þáttunum hans Egils. Það er Hrafn bróðir minn sem tók bókina saman, en þar birtast óborganlegar greinar Braga um fólk og mannlíf á Íslandi og ekki síst í Reykjavík síðustu áratugina.

Þetta er með skemmtilegri bókum, það er mér óhætt að segja burtséð frá allri frændsemi!

Hrafn skrifar m.a. í formála:

„Með sínum stuttu en dásamlega andríku frásögnum í þáttum Egils hefur Bragi slegið í gegn, eins og sagt er, enda afar víða komið við – og það hefur rækilega komið á daginn að þótt þjóðin öll hafi fram að þessu kannski ekki þekkt Braga, þá hefur Bragi kunnað öll skil á þjóðinni.

Bragi hefur reyndar um áratugaskeið miðlað blaðalesendum af þekkingu sinni og stílsnilld. Árið 1959 varð hann kornungur blaðamaður á Vikunni og skrifaði meðal annars svokallaða Aldarspegla, sem voru einskonar nærmyndir af þekktum samtímamönnum. Síðar skrifaði hann reglulega í Vísi og fleiri blöð, en þó langmest í Morgunblaðið. Greinar Braga gegnum tíðina fjalla um allt milli himins og jarðar …

Ég hef átt þess kost að sitja við fótskör sagnameistarans í fjölskylduboðum á annarri öld og allt til þessa dags. Bragi hefur útsýni yfir mannlíf margra kynslóða, þekkir samhengið, þræðina, leyndarmálin, felumyndirnar. Og hann kann öðrum betur að segja frá – það vitum við öll …

Ég hafði úr mörgu að velja, en hér eru mannlýsingar og minningar í öndvegi. Útkoman er persónugallerí sem varla á sér hliðstæðu: Hér vappa um síður virðulegir ritstjórar og ráðherrar, listamenn og leikarar, skáld og skemmtikraftar, glópar og glæpamenn. Hér er Ísland 20. aldar.“

Bókin heitir Sómamenn og fleira fólk. Á þessari mynd má sjá Braga glaðbeittan við útkomu bókarinnar taka við hamingjuóskum frá konunum sem halda um þræði Kiljunnar ásamt Agli Helgasyni.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.11.2011 - 07:39 - FB ummæli ()

„Foringinn“

Í DV í morgun er frétt um sölu á hlut ríkisins í Íslenskum aðalverktökum, sem fram fór 2003.

Þá hringdi Helgi S. Magnússon einn af hinum víðfrægu reddurum Framsóknarflokksins í einn þeirra sem var að hugsa um að bjóða í hlutinn, og vildi telja hann ofan af því.

Því „[f]oringinn væri búinn að ákveða hver fengi að kaupa hlutinn“.

„Foringinn“ var Halldór Ásgrímsson formaður Framsóknarflokksins.

Vitiði, mér er nú ekki klígjugjarnt. En við skulum segja að hvert hár hafi risið á mér þegar ég las þetta í morgun.

Mikið var þetta ömurlegur tími í Íslandssögunni, þegar spillingin var svona hrottaleg.

„Foringinn“ Halldór Ásgrímsson – ja, ekki nema það þó!

Við þurfum að leggja okkur öll fram til að tryggja að þessir tímar komi aldrei aftur – þegar „foringjar“ réðu öllu í samfélaginu, bæði bak við tjöldin og svosem líka fyrr opnum tjöldum.

Það eru aðeins tvær vikur síðan 1.600 manna landsfundur Sjálfstæðisflokksins grét það fögrum tárum að enn meiri „foringi“ en Halldór skyldi hafa verið „hrakinn“ úr embætti Seðlabankastjóra.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 27.11.2011 - 15:40 - FB ummæli ()

Syndir sósíalista

Á nýliðnum fundi sagnfræðinga var rætt um íslenska kommúnista og sósíalista.

Tilefni fundarins voru ásakanir frá Þór Whitehead og einnig Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni um að þeir hefðu verið hálfgerðar strengjabrúður sovéskra kommúnista.

Ýmsir hafa andmælt því (sjá til dæmis hér) og bent á að þjóðernisstefna hafi verið mjög rík í íslenskum vinstrimönnum, og jafnvel sterkari en hvöt þeirra til að hlýða skoðanasystkinum þeirra eystra.

Um fundinn fjalla ég kannski nánar síðar, en í bili fannst mér merkilegast að heyra ábendingu doktor Ragnheiðar Kristjánsdóttur á þessum fundi.

Hún sagði, eftir að hafa komist að þeirri niðurstöðu að þjónkun vinstrimanna við Moskvu, eða alþjóðahyggja þeirra almennt, hefði ekki verið slík að það stappaði nærri landráðum af einhverju tagi:

„En það má jafnframt færa rök fyrir því að þjóðernisáhersla þeirra hafi, þegar til lengri tíma er litið, verið til óþurftar, bæði fyrir þann hóp sem kommúnistar töldu sig berjast fyrir, og fyrir íslenska þjóðríkið.

Þannig virðist mér sem að um og upp úr seinna stríði hafi sjálfstæðisbaráttan verið orðin slíkt aðalatriði í stjórnmálaorðræðu íslenskra sósíalista að það hafi í raun yfirskyggt þá áherslu á efnahagslegt og félagslegt jafnrétti sem átti að vera kjarninn í sósíalískri stefnu þeirra.

Meira hafi farið fyrir raunverulegri og ímyndaðri sjálfstæðisbaráttu en baráttunni fyrir jöfnuði. Þetta er vissulega einföldun á flóknum veruleika íslenskra stjórnmála, en samt sem áður held ég ein birtingarmynd – og hér kemur enn grófari einföldun – á því rótgróna einkenni íslenskra stjórnmálamenningar að leggja meiri áherslu á sjálfstæði frá útlendu valdi en innviði samfélagsins.

Hannes Hafstein orðaði þessa tilhneigingu svo árið 1888 að sjálfstæðisbarátta Íslendinga snerist fyrst og fremst um að selflytja valdið frá Danmörku til Reykjavíkur. Tilgangurinn væri ekki að gera menn frjálsari heldur að ná fram því sem þætti meira í munninn fyrir þjóðina sem þjóð.

Vegna ofuráherslu sinnar á þjóðernissinnaðan málflutning lögðu róttækir vinstrimenn sitt af mörkum til að næra þá þjóðernissinnuðu umræðuhefð sem oft hefur að mínu mati, og þetta er persónulegt pólitískt mat frekar en fræðilegt, kannski, oft staðið okkur fyrir þrifum.

Þetta tjón sem þeir þannig tóku þátt í að vinna þegnum íslenska ríkisins er í mínum huga alvarlegt þott það geti tæpast kallast landráð – að minnsta kosti ef við höldum okkur við það hvernig landráða hafa yfirleitt verið skilgreind með lögum.

En það má kannski segja sem svo að ef við höldum okkur við það sem gerðist, en ekki það sem hefði getað gerst,  þá hafi Íslendingum fremur orðið meint af þjóðernisstefnu íslenskra kommúnista en alþjóðahyggju þeirra eða hlýðni við Moskvuvaldið.“

Mér finnst þetta fín ábending hjá Ragnheiði.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 26.11.2011 - 08:57 - FB ummæli ()

Hin erlendu yfirráð

Í gær lýsti ég skilningi á þeirri ákvörðun Ögmundar Jónassonar að veita kínverskum aðilum ekki undanþágu til kaupa á Grímsstöðum á Fjöllum, af þeirri ástæðu að hvort sem mönnum líkar betur eða verr gangi það einfaldlega í berhögg við núgildandi lög.

Þegar ég skrifaði þetta hafði ég hins vegar ekki tekið nógu vel eftir þeirri setningu í rökstuðningi Ögmundar þar sem sagði að með kaupum Kínverjanna á jörðinni myndi hún „færast undir erlend yfirráð“.

Hvað sem líður skilningi á ákvörðun Ögmundar, þá verður að gagnrýna mjög eindregið þann skilning og það viðhorf sem birtist í þessu orðalagi.

Gilda ekki íslensk lög alls staðar á þessu lagi, óháð því hver á tiltekna landspildu?

Er tiltekinn torfbær á Grímsstöðum á Fjöllum til dæmis undir „yfirráðum“ Ævars Kjartanssonar? Gilda ekki venjuleg lög þar í húsi?

Nei, þetta orðalag í rökstuðningi frá heilu ráðuneyti gengur vitaskuld ekki. Það er sérstaklega eftirtektarvert að innanríkisráðherra, æðsti yfirmaður lögreglu- og dómsmála í landinu, virðist ekki hafa meiri trú á íslenskum lögum en svo að þau falli með einhverjum hætti úr gildi andspænis útlendingum.

Getur það verið skilningur ráðherrans?

Í Kastljósi í gær veitti ég því reyndar athygli að Ögmundur beitti ansi rækilega fyrir sig lögfræðingum innanríkisráðuneytisins. Það væri forvitnilegt að fá að vita hvort þetta orðalag sé komið frá þeim!

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 25.11.2011 - 21:29 - FB ummæli ()

Halda ró sinni, krakkar mínir, halda ró sinni

Svona inní mér er ég á móti því að í gildi séu lög sem banna tilteknum hópum, til dæmis útlendingum, að eiga eignir á Íslandi.

Ef ég ætti einhvurn pening væri ég alveg til í að eiga eignir um víða veröld, og ekki get ég farið að banna öðru fólki það sem ég vil hafa leyfi til sjálfur.

Um allar eignir eiga náttúrlega að gilda íslensk lög og íslenskt eftirlit en að takmarka eigi eignarhald eftir þjóðernum … nei, ég kem því ekki heim og saman.

Hvort heldur viðkomandi eru frá ESB-ríkjunum eða Sviss eða Kína.

Enda hafa útlendingar sjaldnast verið til vandræða á Íslandi.

Á hinn bóginn kveða núgildandi lög á um þessa mismunun og það er meira að segja tekið fram í núgildandi stjórnarskrá að heimilt sé að takmarka eignarhald útlendinga.

Því er það rétt hjá Ögmundi Jónassyni að erfitt hefði verið að ganga gegn lögunum.

Vissulega er í þeim sömu lögum kveðið á um undanþágur, en það er líka rétt hjá Ögmundi að stærðin á jörðinni sem hér um ræddi er slík að um undanþágur gat vart orðið að ræða.

Þeir sem líta atvinnuuppbyggingu á vegum Kínverja hýru auga geta vissulega sagt sem svo að undanþágu hefði mátt veita vegna mikilvægis málsins, en með svo stórri undanþágu hefðu lögin í raun orðið marklaus – það er alveg rétt athugað.

Réttast væri einfaldlega að taka snöggvast umræðu um það hvort vilji sé til að breyta þessum lögum, og ef svo er, drífa þá í því.

En halda ró sinni fram að því, krakkar mínir!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 24.11.2011 - 13:35 - FB ummæli ()

Félagslegt réttlæti á Íslandi

Ég kann ekki mikil skil á þeim útreikningum sem hér koma fram, eða á hverju er byggt.

En samkvæmt þessum erum við Íslendingar með hæstu einkunn í félagslegu réttlæti.

Hærri en allar hinar Norðurlandaþjóðirnar sem koma næstar.

Við erum til dæmis alveg góðum sjónarmun á undan hinum víðfræga og forríka Noregi!

Það er aðeins á þremur sviðum sem við erum ekki í allra fremstu röð – varðandi fátækt gamals fólks, jöfnuð í tekjuskiptingu og mælikvarða sem ég skil ekki alveg en snertir skilyrði ólíklegra kynslóða.

Rétt væri að við reyndum umsvifalaust að bæta okkur á þessum þremur sviðum, þó við séum reyndar ofarlega á þeim öllum.

Einkum og sér í lagi þarf að útrýma fátækt gamals fólks á Íslandi.

En á heildina litið er þetta samt gleðilegur vitnisburður.

Spurning hvað á að gera við svona niðurstöður.

Segja fimmaurabrandara um norræna velferðarstjórn, til dæmis?

Sumir myndu gera það.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 24.11.2011 - 10:50 - FB ummæli ()

Páll Heiðar

Útför Páls Heiðars Jónssonar útvarpsmanns með meiru verður gerð í dag.

Ég þekkti Pál Heiðar ekki persónulega en um það leyti sem ég var að byrja að fylgjast með samfélagsmálum var hann í hópi hinna allra athyglisverðustu útvarpsmanna.

Hann byrjaði til dæmis ásamt Sigmari B. Haukssyni með morgunútvarp sem helgað var samfélagsmálum, en fram að því höfðu þulir Ríkisútvarpsins ráðið einir ríkjum á morgnanna með létta og skemmtilega tónlist.

Ég man að það tókst svolítinn tíma að venjast því að hlusta á þungar umræður um efnahagsmál eða sjávarútvegsmál í morgunsárið, en þar kom að manni þótti sem einmitt þannig ætti morgunútvarp að vera.

Páll Heiðar hafði eftirtektarverða rödd, hæga og jafnvel þunga, en það fór aldrei milli mála að hann vissi hvað hann var að tala um.

Hann innleiddi fleiri nýjungar í útvarpið á Íslandi – ég hef fyrir satt að hann hafi barist fyrir „útvarpi hins hugsandi manns“.

Það er göfugt markmið, og Páll Heiðar Jónsson átti sinn þátt í að þoka okkur þangað áleiðis.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 23.11.2011 - 23:18 - FB ummæli ()

Næsti túristastaður?

Það er ekki mikið meira en áratugur síðan vísindamenn fundu fyrstu reikistjörnuna utan okkar sólkerfis. Nú er búið að finna mörg hundruð, og sífellt fleiri bætast við.

Til að byrja með voru reikistjörnurnar sem fundust fyrst og fremst risastórir gasrisar, þar sem líf eins og við þekkjum það getur trauðla þróast, en smátt og smátt hefur tæknin orðið fullkomnari og æ smærri plánetur hafa fundist nú allra síðustu misserin.

Nú hafa vísindamenn raðað upp öllum þeim reikistjörnum sem þeir hafa fundið, og gefið þeim „einkunn“. Sú reikistjarna fær hæsta einkunn sem þykir líkust Jörðinni. Eftir því sem reikistjörnur eru líkari Jörðinni, þeim mun líklegra ætti að vera að líf eins og við þekkjum þróist þar.

Sú reikistjarna sem „vann“ er kölluð því hljómfagra nafni Gliese 581G. Rétt er að taka fram að ekki eru allir stjarnvísindamenn sannfærðir um tilvist Gliese 581G, en sé hún til þá er hana að finna umhverfis sólina Gliese í stjörnumerkinu Voginu.

Hún er – ef hún er til – ekki nema rúmlega þrisvar sinnum þyngri en Jörðina, og hitastig gæti verið passlegt til að líf hafi þróast þar, eða muni þróast þar.

Þetta er mjög forvitnilegt. Því miður er ekki sennilegt að við komumst þangað á næstunni til að skoða okkur um, því Gliese 581G er í meira en 20 ljósára fjarlægð, sem þýðir að ljósið er 20 ár á leiðinni þangað á sínum ofsahraða – en farartæki okkar yrðu mörg þúsund ár á leiðinni.

Myndin að neðan sýnir hvernig listamaður ímyndar sér þessa forvitnilegu reikistjörnu. En hér segir BBC frá listanum yfir hinar vistvænu plánetur …

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!