Fimmtudagur 26.5.2011 - 18:07 - FB ummæli ()

Hvað finnst ykkur?

Ég sit í A-nefnd stjórnlagaráðs og við höfum verið að endurskoða mannréttindakafla stjórnarskrárinnar.

Þar er vitaskuld fjallað um mörg þau grunngildi sem við höfum og viljum reisa samfélag okkar á, og þetta er því gríðarlega ábyrgðarþrungið starf.

Mannréttindakaflinn í núverandi stjórnarskrá er tiltölulega nýr og mun betri smíð en margt annað í stjórnarskránni, en hugmyndafræðin sem hann byggir á er samt hálfrar aldar gömul eða þar um bil, og því full þörf á að endurskoða ýmislegt og setja inn nýmæli annars staðar.

Ég held að okkur hafi tekist bara nokkuð vel hingað til. Ég trúi því að endurskoðun okkar sé mjög til bóta, en hún er vandlega byggð á alþjóðasáttmálum og hugmyndum sem verið hafa á kreiki um hríð, og svo erindum og ábendingum sem okkur hafa borist –

Ég hvet fólk til að fara inn á stjórnlagarad.is og kynna sér hugmyndir okkar, og senda okkur sem mest af viðbrögðum, hver sem þau kunna að vera.

Það má þetta stjórnlagaráð eiga að það er beinlínis í að fá viðbrögð og skoðanir almennings á störfum sínum, og er allt af vilja gert að taka tillit til þess. Vitanlega getum við ekki farið eftir öllu, enda yrði stjórnarskráin þá ansi löng og mótsagnakennd, en allar ábendingar eru sem sagt vel þegnar.

Nýmæli okkar í A-nefndinni felast líklega helst í greinum um umhverfis- og auðlindamál, og um félagsleg réttindi, og það væri gaman að fá sem mest af póstum þar að lútandi áður en við afgreiðum þær greinar inn í svokallað áfangaskjal í næstu viku.

Áfangaskjalið felur þó alls ekki í sér að textinn sé fráfenginn, langt frá því. En sé textinn kominn þangað er hann að minnsta kosti á leiðinni inn í þann lokatexta sem við sendum frá okkur á endanum – þótt enn geti hann tekið breytingum, og þess vegna miklum breytingum.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 24.5.2011 - 18:30 - FB ummæli ()

Einhver séð þá þessa?

Sonur minn ungur er fótboltamaður með Val. Og hann er nýbúinn að eignast appelsínugula takkaskó sem áttu að bera hann um völlu á fótboltamótum sumarsins.

Skórnir eru númer 42 og 2/3 – drengurinn er nefnilega alltaf að stækka.

Því miður virðast skórnir hafa horfið úr Valsheimilinu annaðhvort á sunnudag eða mánudag.

Einhver hlýtur að hafa tekið þá í misgripum úr rekka þar sem allskonar fótboltaskór voru geymdir.

Þetta er afar vont fyrir strákinn. Það verður leikur við Selfyssinga strax á morgun, miðvikudag, og nú hefur hann enga skó að keppa í.

Síðan tekur við hver leikurinn af öðrum.

Því biðjum við feðgar hvern þann sem kynni að hafa óvart tekið skóna að láta okkur vita í síma 8217516, eða skila þeim niður í Valsheimilið við Hlíðarenda.

Mikið væri það nú fallegt.

Svona líta skórnir út.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 23.5.2011 - 18:01 - FB ummæli ()

Allra versta fyrirsögnin?

Ég fór út í búð áðan að kaupa eitthvert lítilræði í matinn.

Þar blasti við mér forsíða Morgunblaðsins.

Á forsíðunni var vitanlega mynd frá öskufallssvæðunum fyrir austan, ansi flott mynd.

En stríðsfyrirsögnin yfir þvera forsíðuna var svona:

„GRÍMSVÖTNIN GRETTA SIG“

Grímsvötnin gretta sig?!!

Ég held svei mér þá að þetta sé einhver allra kjánalegasta fyrirsögn sem ég hef lengi séð!

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 22.5.2011 - 10:19 - FB ummæli ()

Hvar eru góðu eldgosin?!

Ómar Ragnarsson sagðist í útvarpinu í morgun hafa fylgst með 23 eldgosum. Það eru líklega nokkurn veginn öll þau eldgos sem orðið hafa á minni ævi.

Einhvern veginn var maður alveg gjörsamlega hættur að taka eldgos hátíðlega.

Jú, ég man hvað eldgosið í Heimaey var grafalvarlegt mál, en hefur orðið eitthvert tjón að ráði í eldgosum á Íslandi eftir það?

Eldgos virtust orðin bara svona lítil og krúttleg túristagos.

Reglulega gaus eitthvað smávegis í Grímsvötnum, en það voru aðallega bara svona huggulegir gosstrókar í fáeina daga – svo ekki meir.

Meira að segja ógnvaldurinn mikli, Hekla, virtist gjörsamlega búin að skipta um hegðun frá því sem maður les um í heimildum.

Í staðinn fyrir stórhættuleg risagos, þá gaus hún allt í einu fjölmörgum smágosum.

Ekkert af þessu var neitt hættulegt, svo ég var að minnsta kosti hættur að taka mikið mark á eldgosum – nema svona sem smá dægradvöl.

Eldgos voru hætt að vera ógnvekjandi.

Þau voru ekki lengur Mikki refur, þau voru Lilli klifurmús.

Þangað til í fyrra.

Þegar Eyjafjallajökull (af öllum eldfjöllum á Íslandi!) sýndi með öskuregni sínu hvað eldgos geta verið í alvörunni.

Og í útvarpinu í morgun virtist stefna í eitthvað alvarlegt líka.

Myrkur á Kirkjubæjarklaustri.

Mannlíf „líklega ekki í hættu að svo stöddu“.

Maður varð einhvern veginn þrumu lostinn.

Eldgos – að haga sér svona illa? Hvað var orðið af litlu sætu eldgosunum sem við vorum orðin vön?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 20.5.2011 - 07:49 - FB ummæli ()

Við hefðum átt að rífast meira

Jahá.

Hvað getur maður sagt annað?

Sjá þetta hér.

Við hefðum átt að rífast meira um þetta.

Við hefðum átt að eyða í þetta meiri tíma, og orku.

Við hefðum átt að rífa samfélagið ennþá grimmilegar á hol, einmitt þegar hefði verið svo mikil þörf á að standa saman.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 18.5.2011 - 07:49 - FB ummæli ()

Lénsherrann loksins stöðvaður?

Allir menn teljast saklausir þar til sekt þeirra er sönnuð.

Líka Dominique Strauss-Kahn.

Því hvarflar ekki að mér að slá neinu föstu um sekt þess manns.

En setjum nú svo að hann væri sekur.

Þá er fall hans óneitanlega merkilegur atburður.

Ekki út af franskri pólitík. Þið fyrirgefið en mér er hundsama um franska pólitík.

Heldur ekki út af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hann mun krafla sig fram úr þessu.

Nei, það sem er merkilegt er auðvitað að karlmaður í svo hárri stöðu skuli þá hafa fallið af stalli sínum fyrir að hafa reynt að koma vilja sínum fram við herbergisþernu.

Ég ítreka – ég veit ekki hvort Dominique Strauss-Kahn er sekur.

En ef hann er sekur, þá er mjög gott að brugðist skuli hafa verið við máli hans af alvöru.

Það er óneitanlega sérkennilegt að nú skuli tveir silfurhærðir herramenn hvor á sínum enda vegasaltsins í samfélagsbaráttunni vera lentir í djúpum vandræðum vegna (meints) yfirgangs við konur.

Dominique Strauss-Kahn og Julian Assange.

Ég veit að það sem Julian Assange er sakaður um virðist hreint ekki eins alvarlegt og sú ruddafengna nauðgunartilraun sem hermd hefur verið upp á Dominque Strauss-Kahn.

En sé Assange sekur – sem er auðvitað mjög mikilvægur fyrirvari – þá er sök hans samt áreitni og virðingarleysi við aðra manneskju. Í krafti valds.

Og það er alltaf gott ef slík valdbeiting er stöðvuð.

En það er sérstaklega gott ef valdbeiting manna í valdastöðum, hverjar sem þær kunna að vera, er stoppuð.

Það gefur manni smá von um framtíðina.

Vandræði þessara tveggja manna eru náttúrlega ekkert gleðiefni.

Burtséð frá persónunum – ef eingöngu er litið til þess starfs sem þeir hafa báðir verið að vinna vona ég sannarlega að þeir reynist blásaklausir.

Julian Assange hefur verið að vinna stórmerkilegt og afar þarft verk með uppbyggingu Wikileaks.

Verk sem á eftir að breyta heiminum.

Því það er ekkert smáræði fyrir fólk sem á undir högg að sækja að vera komið með vettvang þar sem það getur örugglega komið gögnum sínum og sjónarmiðum á framfæri, án þess að þurfa að leita í gegnum hefðbundnar valdastofnanir.

Og Dominique Strauss-Kahn hefur að ýmsu leyti breytt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Undir hans stjórn hefur sjóðurinn sveigt svolítið af braut hinnar háskalegustu frjálshyggju og þess dogmatíska dólgakapítalisma sem hann hefur alltaf verið frægur fyrir.

Ekki mjög mikið, en stefnubreytingin hefur þó verið vel merkjanleg.

Því þykir mér ekkert gleðiefni að sjá hann hrökklast frá – ekki þegar eingöngu er litið til starfs AGS.

En ef hann er sekur um nauðgunartilraun, þá er sannarlega gleðiefni ef hann hrekst úr embætti.

Því það eru þá gríðarsterk skilaboð um að valdakarlar geti kannski ekki endalaust farið sínu fram.

Að lénsherrarnir geti ekki endalaust litið á það sem rétt sinn að fá gögn og gæði allra kvenna sem á einhvern hátt eru undir þá settir.

Eða sem þeir treysta sér til að ráða við.

Það er auðvitað löngu tímabært að slíkir menn fái það kjaftshögg að fyrr eða síðar verði þeir stoppaðir.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 17.5.2011 - 12:12 - FB ummæli ()

Virðing Alþingis?!

Ég leyfi mér að benda fólki á að lesa þennan pistil Agnars Kristjáns.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hefur áhyggjur af því að orðljótir þingmenn rýri álit Alþingis.

Bersýnilega á hún við Þráin Bertelsson.

Því þingmenn hafa hingað til fengið að vaða uppi með allskonar sóðakjaft án þess að þingforseti hafi séð ástæðu til að gefa um það sérstakar yfirlýsingar.

Fyrr en núna að Þráinn tók allsterkt til orða.

Vissulega er ég á því að þingmenn ættu helst ekki að vera dónalegir.

En ástæður þess að fólk ber ekki lengur virðingu fyrir Alþingi eru þó aðrar en þær að Þráinn Bertelsson hafi skeytt saman kúm og fasistum.

Þessar ástæður eru margar og alvarlegar.

Og Agnar Kristján telur þær allar samviskulega upp.

Ég tek undir hvert orð.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 15.5.2011 - 10:59 - FB ummæli ()

Við unnum Evróvísíon – af því við erum Aserar!

Eins og kunnugt er, þá vann Aserbædjan Evróvísíon keppnina að þessu sinni, sem er sjálfsagt bara ágætt, því enga þjóð langar líklega meira til að vinna þessa keppni – ef við Íslendingar erum undanskildir.

Skemmtilegra hefði vissulega verið ef Aserar hefðu teflt fram einhverju úr sínum eigin auðuga tónlistararfi, en ekki þessu steingelda sænska poppi, en það verður að hafa það.

Mig langar hins vegar að gleðja svolítið þá, sem kunna að vera súrir í bragði yfir því hve við Íslendingar vorum langt að baki sigurvegurunum Aserum – og Svíum, sem áttu ekki aðeins sigurlagið, heldur urðu líka sjálfir í 3. sæti í keppninni.

Sannleikurinn er nefnilega sá að við Íslendingar erum frá Aserbædjan – og erum þaðan komnir með viðkomu í Svíþjóð.

Þannig að við getum vel litið svo á að við höfum unnið að minnsta kosti tvöfaldan sigur í gær.

Í Heimskringlu Snorra Sturlusonar segir á þessa leið:

„Fyrir austan Tanakvísl í Asíu var kallað Ásaland eða Ásaheimur en höfuðborgin, er í var landinu, kölluðu þeir Ásgarð. En í borginni var höfðingi sá er Óðinn var kallaður. Þar var blótstaður mikill.“

Nánari lýsing á staðháttum þar sem Ásar eða Æsir voru upprunnir sýnir að Snorri virðist telja að um sé að ræða svæði við Svartahaf. Sá góði maður Thor Heyerdahl hefur hins vegar varpað fram þeirri kenningu að átt sé við Aserbædjan við Kaspíhafið.

Það má vel fyrirgefa Snorra að hafa ruglast á Svartahafinu og Kaspíhafinu.

Hirði ég ekki um að rekja kenningu Heyerdahls í öllum smáatriðum að þessu sinni.

Staðnaðir forpokaðir fræðimenn vildu lítið með þessa kenningu hans gera, en við hlustum ekki á það!

Þetta er nefnilega fín kenning!

Hún gengur í mjög stórum dráttum út á að þjóðflokkurinn Æsir hafi flust frá Aserbædjan fyrir margt löngu.

Æsir (hinir gömlu guðir okkar) og Aser í nafni landsins sé augljóslega sama orðið.

Æsir fluttust norður á bóginn og enduðu í Svíþjóð.

Þetta er í sjálfu sér enginn tilbúningur í Heyerdahl. Þetta er allt samviskusamlega rakið í Ynglingasögu í upphafi Heimskringlu – að breyttu breytanda.

Sjá hér.

Á leiðinni urðu sögur um forna höfðingja, Óðin og félaga, að þjóðsögum um yfirnáttúrulegar hetjur og að lokum að goðsögum, þar sem Óðinn var orðinn æðsti guð þjóðarinnar, og öll hans fjölskylda að undirguðum.

Frá Svíþjóð dreifðust „Æsir“ eða Aserar svo um Norðurlönd og hluti þeirra fluttist á endanum til Íslands.

Liggur þetta þá ekki allt ljóst fyrir?

VIÐ unnum Evróvísíon að þessu sinni, bæði í hinni gömlu mynd okkar sem Aserar og einnig sem Svíar.

Og ætli sé ekki grynnra á Aseranum í okkur en margir halda?

Og ætli við getum ekki gert tilkall til einhvers af allri olíunni í Bakú, fyrst ekkert virðist vera að finna á Drekasvæðinu?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 13.5.2011 - 11:53 - FB ummæli ()

Inná með stjórnmálatengslin – út af með kynþáttinn!!

Við í A-nefndinni í stjórnlagaráðinu sendum í gær frá okkur uppkast að fyrstu greinunum í nýjum mannréttindakafla stjórnarskrárinnar.

Við erum ekki að finna upp hjólið – sumt er tekið nokkuð beint upp úr gömlu stjórnarskránni, en annað styðst flest við ákvæði í öðrum stjórnarskrám og/eða alþjóðasáttmálum.

Hérna má á vef stjórnlagaráðs finna þessar greinar, og jafnframt upphaf á umræðu um þær.

Það skal tekið mjög skýrt fram að við lítum alls ekki svo á að hér sé um endanlegan texta að ræða, heldur er þetta þvert á móti lagt fram svo fólk geti skoðað þetta, tjáð sig um það og stungið upp á breytingum.

Mjög fróðlegar umræður hafa þegar skapast um þessar greinar, og gagnlegar ábendingar komið fram. Fara má ýmsar leiðir til þess – taka þátt í umræðum á vef stjórnlagaráðsins, senda okkur tölvupóst (mitt netfang er illugi.jokulsson@stjornlagarad.is) o.fl.

Ef fólk verður vart við merkilegar umræður um mál sem að þessu lúta, t.d. á bloggsíðum eða jafnvel Facebook, þá væri gott að senda okkur ábendingar um slíkt.

Margt má sjálfsagt um okkur segja, en við erum í rauninni öll af vilja gerð að eiga í samræðu við þjóðina, taka við ábendingum og fara eftir þeim!

En þótt flest í þessum texta eigi sér fyrirmyndir, þá leggjum við nú samt sitt af hverju til málanna sjálf, og eftir að tillögur okkar voru lagðar fram á ráðsfundi í gær, þá hélt ég svolitla tölu þar sem ég vakti athygli á tvennu af því tagi.

Sú ræða fylgir hér á eftir. Orðalagið hefur verið snurfusað pínulítið á stöku stað, en merkingu þó hvergi hliðrað til.

Á einum stað er viðbót, nokkrar línur sem ég hljóp yfir í gær, af því ég var farinn að hafa áhyggjur af því að ræðan væri orðin alltof löng!

Þetta eru tvær málsgreinar rétt í lokin – frá „Gildi orðsins í þessari upptalningu …“ og til „…vegna stjórnmálatengsla og klíkuskapar.“

En svona var ræðan sem sagt að öðru leyti:

Ágætu félagar.

Mig langar að vekja sérstaka athygli á tveimur atriðum í þeirri grein sem geymir hina svokölluðu jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, þar sem er að finna upptalninguna á þeim atriðum sem sérstaklega er tekið fram að ekki megi verða tilefni mismununar.

Hún hljóðar í okkar tillögu svo:

„Allir eru jafnir fyrir lögum og skulu njóta mannréttinda án nokkurs manngreinarálits, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.“

Svona persónulega má ég kannski láta þess getið að ég var mjög eindregið einn þeirra sem vildu sleppa allri slíkri upptalningu. Ég vildi láta nægja að segja: Allir eru jafnir fyrir lögum, punktur.

Ég vildi meira að segja helst geta sleppt því að taka fram að konur og karlar skyldu vera jöfn.

En um þetta fóru fram mjög ítarlegar umræður í A-nefndinni, og það sjónarmið varð ofan á – sem líka er fylgt í flestöllum stjórnarskrám heims, held ég, og í alþjóðasáttmálum – að því miður væri ennþá þörf á að tilgreina atriði af þessu tagi.

Lengra værum við einfaldlega ekki á veg komin.

Og mér er því ljúft og skylt að bakka með mitt persónulega álit, og styð niðurstöðu minnar nefndar af heilu hjarta.

Og þá langar mig sem sagt að vekja athygli á því annars vegar að við höfum tekið “kynþáttinn” út úr upptalningunni.

Því þar stóð áður að bannað væri að mismuna fólki á grundvelli „kynþáttar“.

Og þessi breyting finnst mér dálítið merkileg.

Fólk af minni kynslóð og þaðan af eldra lærði í skóla að kynþættir mannsins væru þrír – hvítir menn, svartir og gulir – og svo voru fáeinar undirdeildir, Indíánar, Eskimótar, Ástralíunegrar, sem svo hétu svo skemmtilega.

Svo var hægt að greina þetta ennþá nákvæmar, niðrí Germani, Gyðinga, Araba, og svo framvegis og svo framvegis.

Tilvist þessara meintu kynþátta var talin vísindaleg staðreynd, og menn fóru að byggja á þessu allskonar rakalaust rugl og þvælu um „ólíka eiginleika kynþáttanna“, og þegar verst lét, þá reistu menn á kynþáttahugmyndum ægilega fordóma og frömdu viðurstyggilega glæpi.

En sem betur fer hefur nú verið afsannað vísindalega að kynþættirnir séu yfirleitt til – þeir eru tilbúningur og þjóðsaga, og mismunur á útliti manna og menningu stafar ekki af ólíkum „kynþáttum“ þeirra.

Þjóðsagan um kynþættina er hins vegar svo lífsseig að orðið “kynþáttur” heldur enn velli í fjölmörgum stjórnarskrám og alþjóðasáttmálum, sem eru jafnvel að öðru leyti til fyrirmyndar, og það er mér því sérstakt gleðiefni að geta lagt mitt af mörkum til að þessu orði sé útrýmt úr íslensku stjórnarskránni.

Við eigum að vísa því út í ystu myrkur, enda lýsir það fyrirbæri sem aldrei hefur verið til.

Og það er rétt að taka fram að þótt þetta úrelta orð sé tekið út, þá getur það aldrei orðið til þess að réttlæta megi einhvers konar samblástur gegn útlendingum – við höfum nóg af öðrum ákvæðum til að sporna gegn slíku.

Hitt atriðið sem mig langar að vekja athygli á snýst eiginlega um þveröfugt mál.

Það er ekki ímyndað atriði sem hefur samt þvælst inní stjórnarskrána, heldur er það raunverulegt atriði, og mjög fyrirferðarmikið í okkar samfélagi, sem samt hefur aldrei verið minnst á í okkar stjórnarskrá – en það eru stjórnmálatengslin.

Við leggjum sem sé til að það verði sett í stjórnarskrá að bannað sé að mismuna mönnum á grundvelli stjórnmálatengsla.

Þetta er að sumu leyti mjög róttæk tillaga, því við höfum hvergi fundið nákvæmlega þetta orðalag í erlendum stjórnarskrám í þessu sambandi.

Stjórnmálatengsl eru hér þýðing á enska hugtakinu “political affiliation”, og þó það sé allvíða lagt bann við að mismuna fólki á grundvelli “stjórnmálaskoðana” (eða “political opnions”) þá er það auðvitað ekki nákvæmlega það sama.

Af hverju viljum við þá hafa þetta svona?

Jú – það er mjög einfalt. Þegar við litum yfir sögu Íslands síðustu áratugina og jafnvel lengur, og líka allt fram á þennan dag, þá blasti hvarvetna við okkur sami vandinn.

Spilling og klíkuskapur á grundvelli stjórnmálatengsla.

Það er auðvelt að sýna fram að fátt eða ekkert hefur valdið íslensku samfélagi meiri skaða en þau vinnubrögð sem stjórnmálamenn okkar hafa stundað í krafti sinna stjórnmálatengsla.

Lesið Rannsóknarskýrslu Alþingis, lesið bækur um íslenska sögu síðustu öldina, lesið blöðin frá því í morgun.

Alls staðar má sjá spor stjórnmálatengslanna, klíkuskaparins, spillingarinnar.

Þetta hafa allir stjórnmálaflokkar á Íslandi stundað, þeir sem komist hafa að kjötkötlunum, af því þetta hafa verið talin eðlileg vinnubrögð – það hefur verið talið eðlilegt herfang þeirra sem vinna kosningar að makka með embætti, sporslur og þess háttar fyrir sína pólitísku vini.

Það var sagt hér á fundi fyrir viku: Við eigum ekki að skrifa stjórnarskrá í reiði.

Það er alveg rétt. Enda er ég ekkert reiður út af þessu.

Ekki lengur.

En ég neita að taka þátt í því að skrifa nýja stjórnarskrá fyrir Ísland þar sem ekki má bregðast við þeim helstu göllum, sem þjakað hafa samfélag okkar svo lengi.

Það gladdi mig því mjög í gær þegar formaður okkar, Salvör Nordal, tók til máls á fundi þar sem önnur nefnd var að ræða önnur mál – þetta var lokaður fundur en ég vona að mér leyfist að vitna til orða hennar, enda var um að ræða almenna athugasemd og mjög viturlega, en Salvör sagði efnislega eitthvað mjög á þessa leið:

“Einbeitum okkur að því að finna hvað hefur verið að, hvar hefur stjórnarskráin okkar verið broguð, hverju hefur hún ekki tekið á, og lögum það.”

Það er einmitt þetta sem við í A-nefndinni erum að gera með því að banna mismunun vegna stjórnmálatengsla.

Þarna er vitaskuld átt við bæði jákvæða og neikvæða mismunun ef svo má segja – það er sem sagt bannað að hygla þeim sem hafa tengsl við ráðandi stjórnmálaöfl, en það er líka bannað að láta menn gjalda þess ef þeir hafa slík tengsl EKKI.

Það kynni að hvarfla að sumum að hér væri nóg að tala um “stjórnmálaskoðanir” eins og gert er í ýmsum öðrum stjórnarskrám, en ekki brydda upp á nýmælinu “stjórnmálatengslum”.

Það sé óþarfi að koma með eitthvað nýtt, það sé varasamt, eigum við ekki bara að hafa þetta eins og það hefur alltaf verið?

En orðin “stjórnmálaskoðanir” og “stjórnmálatengsl” þýða náttúrlega ekki það sama. Menn geta fengið margvíslega og mjög óeðlilega fyrirgreiðslu hjá pólitískum ráðamönnum út á allskonar klíkuskap, án þess að það þurfi endilega að snerta beinar pólitískar skoðanir manna – og því viljum við hafa orðið svona.

Og við lítum svo á að við, sem hér erum komin, verðum að hafa hugrekki til að taka á því sem að er, og laga það – eins og formaður vor sagði.

Við viljum að þetta orð standi þarna í stjórnarskránni stjórnmálamönnum framtíðarinnar til áminningar um að við viljum ekki meira af klíkuskap og spillingu, og að við höfum hugrekki til að fara nýjar slóðir til að hreinsa til í samfélaginu.

Gildi orðsins í þessari upptalningu felst ekki fyrst og fremst í því að með því sé spornað við lagasetningu sem geri mismun vegna stjórnmálatengsla heimila.

Heldur er orðinu fremur ætlað að vera hvatning, yfirlýsing og áminning um að setja lög og reglur og þróa hefðir og heilbrigð vinnubrögð sem sporni gegn slíkri mismunun vegna stjórnmálatengsla og klíkuskapar.

Og við viljum að þegar menn fara næst að endurskoða stjórnarskrána, eftir 30, 40 eða 50 ár, þá rekist menn á þetta orð stjórnmálatengsl og segi sem svo:

“Æjá, það var nú víst því miður rík ástæða fyrir því að það þurfti að taka þetta fram á sínum tíma. Það hafði verið illilega pottur brotinn á þessu sviði. En stjórnlagaráðið 2011, og þjóðin að baki þess, þau höfðu í sameiningu hugrekki til að greina vandann, og til þess að benda á leiðir til að leysa hann.“

Þau höfðu hugrekki.

Þetta held ég sé lykilsetningin í sambandi við stjórnmálatengslin.

Við verðum að hafa hugrekki til að ráðast gegn þeim og uppræta þau.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 12.5.2011 - 11:47 - FB ummæli ()

Leyndarhyggja frá 2007 í Hörpu?

Þórunn Sigurðardóttir stýrir tónlistarhúsinu Hörpu.

Hún vildi ekki gefa fjölmiðlunum upplýsingar um hverjir væru á listanum yfir boðsgesti við opnun hússins á laugardagskvöld.

Sjá hér.

Spurningarnar snerust náttúrlega fyrst og fremst um það hvort Björgólfur Guðmundsson yrði á meðal boðsgestanna.

Nú er komið í ljós að svo verður. Fjölmiðlar komust að því með öðrum hætti en að spyrja Þórunni.

Ykkur að segja þá nenni ég ekki að hafa skoðun á því hvort eðlilegt sé að Björgólfi Guðmundssyni sé boðið á opnun Hörpu.

Það getur í raun hver maður sagt sér sjálfur.

En ég hlýt að amast við því viðhorfi sem fram kom í fréttinni hjá Þórunni Sigurðardóttur.

Nú er Þórunn hin mætasta kona, forkur til vinnu og áreiðanlegur mikill fengur að henni fyrir tónlistarhúsið.

En af hverju segir hún við blaðamann að hún geti auðvitað ekki gefið upp gestalistann og hann „hljóti að skilja það“.

Ekki skil ég það.

Harpa er svo sannarlega ekkert venjulegt prívathús.

Að þar eigi að vera í gangi einhver leyndarmál um jafn ómerkileg mál og lista yfir boðsgesti, það má furðum sæta.

Auðvitað hefði bara átt að opna húsið, hleypa alþýðunni inn, en sleppa sérstökum boðsgestum.

En fyrst sú leið var ekki farin, þá er algjör lágmark að gestalistinn sé ekki leyndarmál.

Þórunn held ég að hljóti bara að hafa ruglast eitthvað í stressinu fyrir opnun hússins.

Leyndarhyggja eins og sú sem birtist í orðum hennar um að gestalisti fína fólksins sé „auðvitað“ leyndarmál, eins og allir „hljóti að skilja“ – sú leyndarhyggja held ég að hljóti að tilheyra 2007.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!