Sunnudagur 24.4.2011 - 09:48 - FB ummæli ()

Hver sýnir foringjaræði?

Þegar Atli Gíslason hætti stuðningi við ríkisstjórnina kom á daginn að hann hafði hvorki talað við kóng né prest í sínu kjördæmi.

VG-félögin sem höfðu komið Atla á þing áttu enga aðild að brotthvarfi hans, og fengu ekkert um það að segja.

Það var í meira lagi hlálegt vegna þess að Atli tönnlaðist á að „foringjaræðið“ í VG ætti ekki minnstan þátt í að hann hætti að styðja stjórnina.

Sjálfur hafði hann ekkert samband við grasrótina í flokknum – heldur tók bara sína ákvörðun einn og sjálfur.

„Foringjaræðið“ sem hann sýndi almennum félögum í VG á Suðurlandi var sem sé algjört.

Ég veit að þingmönnum ber að fylgja samvisku sinni.

En þýðir það að þeir mega hafa að engu álit þeirra kjósenda sem kusu þá á Alþingi?

Mér finnst þetta frekar leiðinlegt, því á sínum tíma fannst mér sérlega ánægjulegt að Atli Gíslason væri kominn á Alþingi.

Svona prinsipmaður.

En kvart hans undan „foringjaræði“ um leið hann sjálfur lýsir í reynd frati á vilja kjósenda sinna, er það heilagt prinsip?

Nú kemur á daginn að nákvæmlega sama gildir um Ásmund Einar Daðason.

Hann hefur ekki haft samráð við neinn í sínu kjördæmi.

En hefur kvartað sáran undan „foringjaræði“ rétt eins og Atli.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 22.4.2011 - 21:03 - FB ummæli ()

Hvað maður er glámskyggn …

Ég var í Prag um páskana 1988.

Það var stórmerkilegt og vitaskuld gaman að koma þangað, en maður hafði samt á tilfinningunni að fólkinu liði illa.

Eins og það lifði undir fargi.

Kona ein, sem við íslenskir ferðalangar töluðum við, sagði okkur að hún bæri engar vonir í brjósti um framtíðina.

Jú – austur í Sovétríkjunum hafði Mikhaíl Gorbasjov létt aðeins á kúguninni, en það mundi áreiðanlega ekki ná til Tékkóslóvakíu.

Hér mun aldrei neitt breytast, sagði konan.

Aðeins rúmu ári síðar var allt breytt.

Gjörsamlega og endanlega breytt.

Um páskana í fyrra var ég í Sýrlandi.

Þar hafði maður ekki á tilfinningunni að fólkinu liði illa.

Það var auðvitað margt skrýtið.

Endalausar myndir af forsetanum út um allt.

En nei, ég skynjaði ekki að fólkinu liði illa.

Ég skynjaði ekki að það hvíldi á því farg.

Ekki eins og í Prag forðum.

Auðvitað var ég samt bara túristi.

En núna, réttu ári seinna – þá virðist allt vera að breytast í Sýrlandi.

Það er verið að drepa fólk í hrönnum.

Forsetinn, sem brosti svo fagurlega ofan af plakötum á fjölbýlishúsum, torgum og jafnvel fjallshlíðum, hann sigar hernum og lögreglunni á fólk sem vill um frjálst höfuð strjúka.

Já, það er furðulegt hvað hlutirnir geta breyst hratt – og hvað maður er glámskyggn.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 21.4.2011 - 15:33 - FB ummæli ()

Huldumenn loksins komnir í almennilegt húsnæði!

Þá er huldumaður búinn að kaupa gamla húsið hans Jóhannesar í Bónus fyrir norðan.

Það er gott.

Mér finnst kominn tími til að huldufólk flytji inn í almennilegt húsnæði.

Ég hef aldrei skilið hvernig það hefur getað hafst við í klettum.

Það hlýtur að hafa verið köld vist og blaut.

En nú er nóg af lausu húsnæði, svo fleiri huldumenn hljóta að hugsa gott til glóðarinnar.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 21.4.2011 - 12:57 - FB ummæli ()

Síðasti veturinn

Það er sumardagurinn fyrsti.

Frekar milt rigningarveður, að minnsta kosti hér fyrir sunnan.

En ég hef ekki heyrt í neinum lúðrasveitum.

Ég hef ekki séð fánaborg mjakast framhjá glugganum mínum.

Ég hef ekki séð neina skáta í stuttbuxum flýta sér til að verða komnir tímanlega í skrúðgöngu.

Eða börn í sparifötunum með litla íslenska fána.

Er allt svoleiðis dottið upp fyrir?

Og á maður þá að harma það?

Af því það hefur breyst frá því ég var lítill?

Eigi veit ég það svo gjörla en hitt veit ég að af er fóturinn.

Ég býð altént gleðilegt sumar!

Og vona að þetta hafi síðasti veturinn í hruninu.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.4.2011 - 14:21 - FB ummæli ()

Stolt yfir vitleysunni?

Ég var að horfa í gærkvöldi á heimilarmyndina The Inside Job.

Um efnahagskreppuna sem gekk yfir heiminn haustið 2008 og varð til þess að íslenska bankakerfið hrundi.

Enda búið að reisa bankana hátt til himins þótt undirstöðurnar væru engar – sem til kom.

Snilld íslenskra bankamanna, sem við vorum farin að trúa á, hún reyndist í því fólgin að taka lán.

Og snilld íslenskra stjórnmálamanna, Davíðs og félaga, var í því fólgin að sleppa peningaöflunum lausum, og útrásarvíkingunum.

Sagan um Ísland var formáli að myndinni The Inside Job.

Við erum svo skrýtin Íslendingar, að það lá við að maður fyndi kvikna í brjóstinu örlítinn vott af hinu forsmáða þjóðarstolti yfir því hvað „okkur“ var gert hátt undir höfði í myndinni.

Já – pólitíkusarnir okkar höfðu sannarlega slegið met í vanhæfni og vitleysu og ofdirfsku og yfirlæti!

Takk Davíð!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 19.4.2011 - 18:03 - FB ummæli ()

Asni klyfjaður gulli

Sægreifarnir hafa, held ég, ekki mjög miklar áhyggjur af því þótt efnt yrði til þjóðartkvæðagreiðslu um kvótann.

Af því þeir að þeir reikna fastlega með að vinna.

Ekki af því þeir hafi svo góðan málstað.

Heldur af því þeir eiga svo mikið af peningum.

Fjárausturinn í auglýsingastarfsemi kringum slíka þjóðaratkvæðagreiðslu yrði ótrúlegur.

Ég heyrði mann reikna út að gróði sægreifanna á ári væri 14 milljarðar.

Auðvitað væru þeir tilbúnir að fórna gróða eins árs til að fá að halda sínu.

Þeir myndu ekki hika við svoleiðis fjáraustur!

Annar maður tók undir þetta – nema hvað hann fullyrti að gróði þeirra væri í raun þrisvar sinnum meiri.

Ég vona samt að kvótamálið fari til þjóðaratkvæðis hið fyrsta.

Og við myndum ekki láta asna klyfjaða gulli komast yfir múra sannfæringar okkar og réttlætiskenndar, er það nokkuð?

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 17.4.2011 - 18:25 - FB ummæli ()

Þessu þurfum við að breyta

LÍÚ-stjórnin hefur gengið of langt.

Yfirlýsingar Friðriks J. Arngrímssonar framkvæmdastjóra samtakanna eru svo fullar af hroka og yfirlæti að við það verður ekki unað.

Ósvífnin sem hann sýnir Jóhönnu Sigurðardóttur tekur út yfir allan þjófabálk.

Og reyndar hefur virðing mín fyrir henni aukist stórlega við árásir sægreifanna.

Þeir hljóta að vera hræddir við hana fyrst þeir hamast svona.

Og hún hlýtur að vera að gera eitthvað rétt.

Í rauninni ætti ríkisstjórnin nú að drífa frumvarp um fiskveiðistjórnarkerfið gegnum þingið, og láta fylgja ákvæði um að málið ætti að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Beinlínis biðja forseta Íslands að vísa málinu til þjóðarinnar.

Hann fer varla að neita því.

Og í þjóðaratkvæðagreiðslu er ég hræddur um að lítið legðist fyrir LÍÚ, þrátt fyrir allar þær milljónir sem dælt yrði í auglýsingaherferð fyrir þá atkvæðagreiðslu.

En orð sem fyrr í dag voru höfð eftir Friðriki á RÚV – „LÍÚ hafi sent ráðherra tillögur og það eina sem hún þurfi að gera sé að fylla inn í – tíma og upphæðir …“ – sýna hvernig LÍÚ hefur af langri reynslu, og gegnum samvinnu við stjórnmálaarm sinn Sjálfstæðisflokkinn, farið að líta á sig.

Sem hina raunverulegu ríkisstjórn í landinu.

Sem sendir ráðherrum „tillögur“ og þeir þurfa bara að fylla inn í dagsetningar.

Svona hefur Ísland verið.

En þessu þurfum við að breyta.

Og þessu skulum við breyta.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 16.4.2011 - 19:45 - FB ummæli ()

Ingólfur Margeirsson

Ingólfur Margeirsson var einn af kunnustu og bestu blaðamönnum landsins þegar ég byrjaði í bransanum fyrir eitthvað um 30 árum. Höfuðbækistöðvar hans voru þá á Þjóðviljanum, þar sem hann tók óvenjulega skemmtileg og lífleg viðtöl, sem hann skreytti með eigin teikningum.

Það var eitthvað alþjóðlegt við þessi viðtöl hans – eitthvað á heimsmælikvarða hugsa ég.

Seinna var hann á Helgarpóstinum og Alþýðublaðinu, og gerði fræga útvarpsþætti um sögu Bítlanna, og hélt úti viðtalsþáttum í sjónvarpinu með vini sínum Árna Þórarinssyni.

Og hann skrifaði nokkrar fínar bækur, helstar þeirra viðtalsbækur við Guðmundu Elíasdóttur og Árna Tryggvason.

Það var alltaf sama yfirbragðið á öllu sem Ingólfur gerði – það var notalegt og vingjarnlegt, en aldrei yfirborðskennt. Hann fór undir yfirborðið, þótt hann gerði það ætíð kurteislega og af virðingu fyrir viðfangsefninu.

Enda var hann þannig sem maður líka. Vingjarnlegur og skemmtilegur, en líka eftirtektarsamur.

Ég þekkti Ingólf ekki mikið persónulega, en það var ómögulegt annað en vera vel við hann. Og nú þegar hann er látinn, þá hugsa ég til hans sem þeirrar fyrirmyndar sem hann var fyrir unga blaðamenn á sínum tíma.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 16.4.2011 - 11:13 - FB ummæli ()

Þjóðaratkvæðagreiðslu strax!

Allt frá því að ég man eftir mér hefur Landssamband íslenskra útvegsmanna hagað sér eins og ríki í ríkinu.

Og oft farið fram með frekju og yfirgangi.

Aldrei þó eins og núna.

Til að reyna að sporna gegn því að ríkisstjórnin hreyfi eitthvað við fiskveiðistjórnarkerfinu, þá hefur LÍÚ spennt Samtök atvinnulífsins  fyrir vagn sinn eins og auðsveipa dráttarklára, og því er hótað að ekki verði friður eða ró á vinnumarkaði fyrr en allar hugmyndir um að hrófla við kvótakerfinu verði aflagðar.

Það er reyndar frekar einfalt að útkljá málið.

Nú þegar við erum orðin svona sjóuð í þjóðaratkvæðagreiðslum, og íslenska þjóðin er í sjálfu sér orðin „annar löggjafi“ eins og Ólafur Ragnar Grímsson orðaði það, þá blasir auðvitað við að málið verði bara útkljáð í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fyrst.

Er ekki bara réttast fyrir ríkisstjórnina að byrja að undirbúa það?

Forseti Íslands hlýtur að styðja málið dyggilega, og vænta má stuðnings frá Morgunblaðinu – sem telur, eins og við vitum, að meira að segja milliríkjasamningar um flókin skuldamál eigi heima í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Og getur því varla amast við að mál sem snerta lífsbjörg þjóðarinnar fari beina leið í þjóðaratkvæði.

Ef LÍÚ hefur svona góðan málstað að verja, þá hljóta samtökin að fagna því að þjóðin fái að úrskurða um kvótakerfið.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 15.4.2011 - 12:00 - FB ummæli ()

Afi dansar – og hvílíkur dans!

Hér á heimilið er farið að venja komur sínar svolítið barnabarn.

Þessi líka ljómandi fína stúlka.

Maður reynir náttúrlega að skemmta barninu eins og best maður kann.

En ég verð að játa algjöran vanmátt minn andspænis ofur-afanum Hasan Baba.

Sá kann að skemmta barnabörnunum.

Eða að minnsta kosti sjálfum sér.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!