Sunnudagur 13.5.2012 - 18:23 - FB ummæli ()

Að búa til andstæðinga

Ég skrifaði um daginn pistil hér á Eyjuna þar sem ég agnúaðist út í sægreifaauglýsingarnar alræmdu.

Sjá hér.

Þessi pistill hefur orðið tilefni nokkurra umræðna á vef Eyjafrétta í Vestmannaeyjum.

Í þágu umræðunnar er kannski ástæða til að halda þeim til haga.

Þessar umræður eru kannski lýsandi fyrir bæði mínar skoðanir og annarra.

Sigursveinn Þórðarson skrifaði þetta hér og sakaði mig um að vilja stjórna því hverjir mættu hafa skoðun:

 

„Síðustu daga hafa auglýsingar frá aðilum sem eru á móti stórhættulegu kvótakerfi núverandi ríkisstjórnar verið áberandi á öldum ljósvakans. Um leið hafa skæruliðar ríkisstjórnarinnar sett sig í stellingar og hrópað hversu ógeðfelldar auglýsingarnar eru.

 

Allir sem þar koma fram hljóta að vera á launaskrá LÍÚ. Vibbalið …

 

Hrópherrar Jóhönnu eru duglegir að benda á þetta og setja alla undir sama hatt. Hvort sem um er að ræða verkstjóra í Grindavík eða sjómann að vestan. Allir hljóta þeir/þau að tala máli mafíunnar. Enginn hefur sjálfstæða skoðun …. nema þau.

 

Einn af þeim sem hefur gengisfellt sig hvað mest þegar kemur að pólitískum skrifum er Illugi Jökulsson. Hann hefur manna harðast gagnrýnt „málþóf“ sjálfstæðisfólks á þingi undanfarna daga.

 

Nýverið var birtur listi yfir lengstu ræður á Alþingi síðustu tvo áratugi. Þingmenn (núverandi og fyrrverandi) Vinstri grænna og Samfylkingar raða sér þar í efstu sætin, töluðu jafnvel í yfir 5 klukkustundir!  Jóhanna forsætisráðherra var í topp 20 með ræðu upp á rúmar 4 klukkustundir. Þetta sýnir þá sorglegu staðreynd að það fólk/flokkar sem hneykslast hvað mest á þeirri „taktík“ sem nú er í gangi er í raun það fólk sem fann upp málþóf. Þá vaknar upp sú spurning hver er sorglegur í þessum efnum?

 

Nú hefur Illugi skrifað nýja grein til stuðnings „sínu“ fólki en um leið gerir hann lítið úr öðru fólki. Talar um að það jaðri við siðleysi að fólk segi sína skoðun. Hann lætur að því liggja að þeir sem tala hafi ekki sjálfstæða skoðun, heldur sé allt matað ofan í þau. Og jafnvel hefur fólk fengið greitt fyrir að segja það sem sagt er! Um er að ræða kvótafrumvarpið.

 

Ömurlegt til þess að hugsa að Illugi Jökulsson hafi ekki meiri trú á fólkinu í landinu en svo að fólk þurfi að fá borgað fyrir að tala …“

 

Ég ákvað að svara þessu kurteislega, svona:

 

„Sæll Sigursveinn. Fáeinar athugasemdir.

 

Já, ég hef gagnrýnt málþóf sjálfstæðismanna nú. Listi yfir lengstu ræður á Alþingi síðustu 20 árin kemur því máli ekkert við. Það er til hugtak í rökræðu sem nær yfir þá billegu leið að sé einhver gagnrýndur, þá hrópi hann: „Iss, þú eða þið eruð ekkert skárri!“

 

Ég man ekki hugtakið í augnablikinu.

 

Í öðru lagi, ég hef aldrei og hvergi „gert lítið úr fólki“ í sambandi við auglýsingarnar frá sægreifunum. Ég hef allra síst látið að því liggja að það jaðri við siðleysi að fólk „segi sína skoðun“.

 

Ég vakti athygli á að fólkið sem kemur fram í auglýsingum sægreifanna er fólk sem á lífsviðurværi sitt undir einmitt þeim sömu sægreifum.

 

Að sægreifarnir etji einmitt því fólki fram í auglýsingum, það er það sem jaðrar við (svo kurteislega sé að orði komist) siðleysi – ekki að fólkið lýsi skoðunum sínum.

 

Ef menn ætla í rökræðu, dugir ekki að breyta orðum þess sem maður ætlar að rökræða við og fara svo að glíma við það sem maður sjálfur bjó til, en ekki hitt sem „mótstöðumaðurinn“ sagði í raun og veru.

 

Með bestu kveðju …“

 

Þessu svaraði Kristján Ingi Sigurðsson, svona:

 

„Auðvitað kemur það málinu við hvort þú ákveður bara að gagnrýna einn stjórnmálaflokk fyrir eitthvað sem annar flokkur hefur sjálfur gert í áratugi. Stjórnmálaflokkar vinna bara fyrir sína eigin hagsmuni, það hefur ekkert breyst sama hver er við völd.

 

Nú hef ég ekkert sérstakt álit á þessum auglýsingum en eitthvað þarf að vekja þessa þjóð til lífsins að það eru ekki bara sjávarútvegsfyrirtæki sem njóta góðs af auðlindum okkar í sjónum. Það eru allir á landinu í formi skatta og útflutningstekna. Þú passar þó að nota orðið sægreifi svona 20 sinnum í hverjum pistli í tilraun í að skíta út greinina, en ekki sérðu mig kalla þig listamannaspíru-afætu?

 

Að lokum getur þú með góðri samvisku sagt að þú hafir aldrei þegið nein laun í einhverskonar formi við skrif þín fyrir vinstri „öflin“? Ef svo er hver er munurinn á því og þessa fólks sem kýs að tjá sig um lífviðurværi sitt og það sem þú gerir ?“

 

Og fyrst ég var byrjaður að svara, þá fannst ég þurfa að svara þessu líka.

 

Það svar er hér:

 

„Ef ég væri ekki einstaklega gæflyndur maður, þá liggur við að ég móðgaðist. En ég geri nú samt ekki.

 

Hins vegar verð ég sóma míns vegna að benda þér á villur þíns vegar. Í fyrsta lagi – það er óskaplega billeg leið að hlaupa alltaf til og gagnrýna gagnrýnandann.

 

Ég held að þú hafir ekki minnstu hugmynd um hvort ég hef bara gagnrýnt einn stjórnmálaflokk fyrir málþóf. Þá skaltu heldur ekki fullyrða það sem þú veist ekkert um.

 

Ég hef flutt pistla af ýmsu tagi í [meira en] 20 ár og alltaf og ævinlega gagnrýnt slæm vinnubrögð á Alþingi, þar með talið málþóf.

 

(Hitt er annað mál að málþófi hefur aldrei verið beitt af annarri eins hörku og núna. Það hefur verið notað í einstökum málum, af sérstökum ástæðum í hvert sinn, og tekur þá fáeina daga – það hefur aldrei verið beinlínis uppleggið í þingstörfum neins flokks, fyrr en Sjálfstæðisflokksins núna.)

 

Í öðru lagi, viltu vera svo elskulegur að gera mér ekki upp hvatir? Ég nota ekki orðið „sægreifi“ „í tilraun til að skíta út greina“. Ef þú telur svo vera, skaltu finna þeim orðum stað, takk fyrir.

 

Af hverju í veröldinni ætti ég að „skíta út greinina“?

 

Það er mjög mikil þörf á að bæta „umræðuna“ hér á landi, og eitt það gagnlegasta sem hægt væri að gera væri ef fólk hætti að búa sér til andstæðinga – það er að segja leggja mótstöðumönnum sínum orð í munn, og slást svo við ímyndaða andskota, í stað þess að takast með rökum á við það sem mótstöðumaðurinn segir.

 

Vitanlega ber ég fyllstu virðingu fyrir öllum sem í sjávarútvegi starfa, bæði sjómönnum og útgerðarmönnum og þeim sem í landi starfa.

 

Annað hvort væri nú – þetta er jú undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar í ýmsum skilningi. Og ég skal trúa þér fyrir því að ég er hreint enginn sérfræðingur í hinum allra fínustu blæbrigðum kvótakerfisins núgildandi, né heldur í frumvörpum ríkisstjórnarinnar.

 

En það sem ég hef þó alveg á hreinu, og mun berjast gegn fram í rauðan dauðann, það er að rúmlega 70 útgerðarmenn [sjá hér] geti litið á fiskinn í sjónum nánast sem sína eign og ekki borgað af honum sanngjarna rentu til samfélagsins, sem þeir eiga þó að vera sprottnir úr.

 

Og þegar reynt er að breyta því, þá nota þeir milljarðana „sína“ til að reka hatramma auglýsingaherferð þar sem allir sem eru annarrar skoðunar eru sakaðir um að vilja ganga af sjómönnum dauðum!

 

Brandarann þinn um ég megi þakka fyrir að vera ekki kallaður „listamannaafæta“ sendi ég til föðurhúsanna – með skömm.

 

Í fyrsta lagi hef ég ekki fengið nein listamannalaun (kannski 6 mánuði fyrir 20 árum, mig minnir það en er ekki alveg viss), og í öðru lagi finnst mér ekkert voðalega vel til fundið að líkja saman listamanni sem kann að þiggja algjör lágmarkslaun frá samfélaginu öðruhvoru og sægreifa sem rakar saman milljónum og milljörðum á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar.

 

Og loks – já, ég get með mjög góðri samvisku sagt að ég hafi aldrei þegið nein laun í einhvers konar formi „við skrif mín fyrir vinstri „öflin“.“ Þetta er svo billeg pilla að það er eiginlega sorglegt.“

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 13.5.2012 - 11:26 - FB ummæli ()

Má optast vænta þess að hann gjöri sig að svíni

Ég hef verið að reka stífan áróður fyrir álfasölu SÁÁ.

Og held því áfram í dag, enda er síðasti álfasöludagurinn.

Til vitnis um skaðsemi ofdrykkjunnar – sem álfinum er ætlað að sporna gegn – leiði ég hér fram vitnisburð úr gömlu blaði frá 1847.

„Sá drukkni eirir  ekki við heimilið, en slórir híngað og þángað, og þó að hann fari ódrukkinn heimanað, má optast vænta  þess, að hann gjöri sig að svíni, sem gestur,  annars staðar, komi síðan ekki heim dögum og vikum saman, fyrr en úrvinda og hálfrotaður.

Meðan hann er í ölæðinu heima, gefur hann lítinn gaum að heimilisþörfum og störfum, en veður uppá heimamenn og aðra, sem nærstaddir eru, með brígzlum og illyrðum, rifjar upp og æsir margt það, er fyrir laungu mátti gleymt  vera, svo flestir hræðast hann og fyrirlíta.

Hann skemmir margt, bætir ekkert, tefur konu, börn og hjú, og er í stuttu máli heimilis ólyfjan.

Konan verður  ángurvær,  hugsjúk, mædd og af manni geingin; börnin agalaus og illa siðuð, hjúin verklítil og óvönduð, og allt heimilisfólkið fær óþokka og viðbjóð á húsbóndanum.

Allt eins fer, á hinn hátt,  sé drykkjumaðurinn þjónn eður öðrum háður.“

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 12.5.2012 - 17:40 - FB ummæli ()

Við græðum öll

Álfasala SÁÁ stendur nú um helgina.

Ég hef sagt það áður en endurtek það þá núna:

Tvö svona merki eða gripi sem styrktarfélög og samtök selja kaupi ég alltaf og undantekningarlaust á hverju ári.

Annars vegar neyðarkall björgunarsveitanna og hins vegar álfinn frá SÁÁ.

Fá samtök sinna mikilvægari hlutverki á þessu landi – með djúpri virðingu fyrir öðrum.

Björgunarsveitirnar koma og finna okkur ef við höfum týnst í heiminum.

SÁÁ hjálpar okkur að finna leiðina til baka ef við höfum villst í sálinni.

Og tekið skammlífa fíkn fram yfir hið raunverulega líf.

Mikið hefur áunnist í starfi SÁÁ til hjálpar fíklum á þessu landi, en stríðinu er þó hvergi nærri lokið.

Síðast í dag frétti ég um gáfaðan vel gerðan mann sem er lentur í klemmu og ætlar að leita til SÁÁ í von um hjálp.

Álfurinn getur lagt þeim manni lið – og líka börnunum hans og fjölskyldu.

Og líka samfélaginu öllu.

Með því að kaupa álf græðum við öll – en töpum engu.

Fáeinum krónum, segiði?

Það er nú varla. Því hvenær sem er gætum við sjálf eða einhverjir okkur nákomnir þurft á hjálp til halda.

Til að finna leiðina til baka.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 11.5.2012 - 20:27 - FB ummæli ()

Einstaklega ógeðfelldar auglýsingar

Auglýsingarnar sem sægreifarnir flytja nú í sjónvarpinu af miklum móð eru einstaklega ógeðfelldar.

Verkalýðsleiðtogar, sjómenn og fólk í ýmsum starfsgreinum vitnar um hve ægilegt það væri að hrófla við kvótakerfinu.

Allt saman fólk sem á allt sitt undir sægreifunum.

Það er mjög raunalegt að horfa á þetta, því maður fær á tilfinninguna að það sé verið að misnota þetta fólk.

Þetta jaðrar við siðleysi.

Hvort sem fólkið gerir sér sjálft grein fyrir því eða ekki.

Gunnar Smári Egilsson orðaði ágætlega tilfinninguna sem kviknar við að horfa á þetta.

Hann sagði á Facebook-síðu sinni:

„Mig minnir að það sé til hugtak í lögfræði sem kallast misneyting. Það á við þegar einn fær annan til verka sem sá hefði ekki gert nema vegna þess að hann er háður hinum. Þetta á t.d. við þegar launagreiðandi kemur vilja sínum fram við undirmann sinn, sem telur sig ekki geta andmælt af ótta við afkomumissi.

Það er af þessum sökum sem mér finnst ógeðfellt að horfa á auglýsingarnar þar sem fólk, sem þiggur laun sín úr hendi útgerðamanna, vitnar gegn kvótafrumvarpinu. Þær minna á myndbönd þar sem fangar mannræningja lesa upp yfirlýsingar um andstyggð sína á vestrænum stjórnvöldum.“

Ég tek undir þessi orð.

Hvernig væri að einhver duglegur fjölmiðlamaður hringdi nú í þetta ágæta fólk sem kemur fram í þessum auglýsingum og spjallaði við það um tilurð þeirra.

Hver átti frumkvæðið að því að einmitt þetta fólk kæmi fram?

Hver samdi textann í auglýsingum?

Og fær fólk borgað fyrir þetta, eða er þetta gert í sjálfboðavinnu?

Eða ætti ég að segja – þegnskylduvinnu?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 9.5.2012 - 16:17 - FB ummæli ()

Einn og einn álfur

SÁÁ er að selja álfinn sinn þessa dagana.

Sjálfur kaupi ég ævinlega álf – og hvet aðra til að gera slíkt hið sama.

Margir keppa um aurana okkar, en í fúlustu alvöru held ég að engin samtök á Íslandi síðustu áratugi hafi gert meira til að bæta samfélagið.

Losa sem flesta undan andskota alkóhólismans.

Flest okkar þekkja einhverja sem hafa notið hjálpar SÁÁ við að fóta sig í lífinu.

Einn og einn álfur er lítið mál til að styrkja slíkt starf.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 9.5.2012 - 09:30 - FB ummæli ()

„Biskup Íslands er algjör bits“

Í búningsklefanum í sundi snemma í morgun hleraði ég eftirfarandi samræður.

Maður sagði við annan:

„Ég þoli ekki þennan nýja biskup Íslands. Þegar maður reynir að heilsa henni, þá varla kinkar hún kolli. Hún er algjör bits.“

Hinn svaraði:

„Já, kannski var Karl bara betri.“

Ekki legg ég neinn dóm á skoðanir þessa áhugamanna um biskupa Íslands fyrr og síðar.

Það skemmtilega var hins vegar að þeir voru báðir átta ára og á leiðinni í skólasund.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 8.5.2012 - 22:22 - FB ummæli ()

Steingrímur situr á kvótafrumvarpi, það fer ekki framhjá!

Auglýsingar útgerðarauðvaldsins eru satt að segja ótrúlegar.

Sorglegast er að sjá verkalýðsforkólfa og sjómenn taka þátt í þessu rándýra áróðursstríði húsbændanna í hópi sægreifa.

Og lýsingarnar á því hvernig auðn og eymd munu leggjast yfir landið ef útgerðarmennirnir missa minnstu spón úr aski sínum eru yfirgengilegar.

Það væri ekkert fráleitt þó næsta auglýsing yrði ný útgáfa af texta Utangarðsmanna, Hírósjíma.

Hann gæti hljómað svona:

Heill þér, góði sægreifi, seg þú mér:

Vorum við ekki fædd þér til dýrðar,

eða sáu Jóhanna og Steingrímur ekki að sér?

 

Ekkert svar, ekkert hljóð,

bara blóð og eftirköstin frá kvótafrumvarpinu.

Hættan eykst með hverri mínútu,

Steingrímur fer á stjá,

klofvega situr á kvótafrumvarpi,

það fer ekki framhjá.

 

Keflavík, Grindavík, Vogar,

Reykjavík, Þorlákshöfn loga.

Feður og mæður, börnin ykkar munu stikna.

 

Það er stutt í að auðn og tóm

munu leggjast yfir allt.

Það er stutt í það að launin ykkar

munu breytast í gufuský.

 

Hvert barn sem fæðist í dag

á minni og minni möguleika að lifa,

ef útgerðarmaður í dag

fær ekki að græða á kvóta!

 

Þið munuð öll, þið munuð öll deyja!

Þið munuð stikna, þið munuð brenna!

 

Feður og mæður,

börn ykkar munu svelta:

Steingrímur situr á kvótafrumvarpi,

það fer ekki framhjá.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 7.5.2012 - 13:54 - FB ummæli ()

Voldugar byggingar

Áform um að reisa eftirlíkingu af miðaldadómkirkju í Skálholti hafa sætt gagnrýni, sjá til dæmis hér.

Vissulega er það rétt að sporin hræða.

Bygging Þorláksbúðar virðist fíaskó, eins og ætti ekki að koma á óvart þegar fréttist hver var þar helst að verki.

Og þó ég hafi ekki komið í Skálholt síðan bygging hennar hófst, þá virðist hún ótvírætt á alveg fullkomlega kolvitlausum stað.

Ég verð hins vegar að viðurkenna að ég hef frá byrjun verið veikur fyrir þessum hugmyndum um miðaldakirkjuna.

Hvort það er nákvæmlega rétti tíminn núna til að standa í því núna, eða hver á að borga hvað, það veit ég ekki.

Og auðvitað skiptir miklu nákvæmlega hvar byggingin verður reist, og hvernig verður búið að henni.

En ég man alltaf hvað ég varð þrumu lostinn á sínum tíma þegar ég uppgötvaði hvað þessar miðaldakirkjur í Skálholti hefðu verið stórar og glæsilegar og mikil smíði.

Maður var orðinn vanur því að hugsa sem svo að langt fram undir 1800 hefði eiginlega aldrei verið reist á Íslandi annað en lágreist hús og jafnvel hálfgerð hrófatildur.

Æ síðan hefur mig langað að sjá svona volduga kirkju.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 4.5.2012 - 17:09 - FB ummæli ()

Varúð! Tröllslegt málþóf framundan!

Nú stefnir í tröllslegt málþóf á Alþingi næstu vikur.

Það verður skammarlegt að horfa upp á það, en þingmennirnir sem taka þátt í því munu kæra sig kollótta.

Ég veit að stjórnarflokkarnir eiga sína sök á því hvernig komið er.

Þeir hafa augljóslega ekki undirbúið málin nógu vel.

Þrátt fyrir að hafa í allan vetur mátt vita í hvað stefndi.

Þeirra skömm er því stór.

Og það er vissulega réttur stjórnarandstöðunnar að ræða mikilvæg og flókin mál í þaula, já, víst er um það.

En við vitum samt öll að næstu vikurnar verður haldið uppi málþófi til þess eins að skemma fyrir ríkisstjórninni – og stjórnarandstaðan mun láta sig einu gilda hverjar afleiðingarnar verða.

Brellur og bellibrögð verða í hávegum höfð.

Ég spái því að það verði sorglegt að horfa upp á þetta, og virðing fyrir stjórnmálamönnum mun ekki aukast.

Og hagur þjóðarinnar mun ekki skána.

En ég sagði „stjórnarandstaðan mun“ … hér áðan.

Það er ekki alveg nákvæmt.

Það taka ekki allir þátt í þeirri afbökun á lýðræðinu sem nú fer í hönd.

Það eru sjálfstæðismenn og slatti af framsóknarmönnum, en ekki samt alveg allir.

Og þingmenn Hreyfingarinnar hafa vissulega látið þessi bellibrögð eiga sig.

Raunar ætla ég að leyfa mér að birta hérna í heilu lagi pistil eftir Margréti Tryggvadóttur þingmann Hreyfingarinnar.

Þetta er góður pistill – þó hann lýsi sorglegum veruleika.

Pistillinn er hérna á bloggsíðu Margrétar, en hann hljóðar altso svona:

„Á Alþingi er nú leikinn endalaus leikþáttur sem hægt er að kalla „Hver ræður á þinginu“. Fundað er fram á nótt um nánast ekki neitt –mál sem snýst að því hvernig ráðuneytum skuli skipað – hvort þau skulu vera fleiri eða færri og hvaða ráðherra gerir hvað. Öllum ber þó saman um að við ætlum að hafa ráðuneyti.

Ég setti lauflétta og afar óvísindalega könnun inn á fésbókarsíðuna mína um mikilvægi þessa máls í hugum fólks og flestum sem hafa svarað þegar þetta er ritað virðist vera alveg sama.

Mér er ekki alveg sama og finnst t.d. mikilvægt að fá umhverfis- og auðlindaráðuneyti þótt ég hafi meiri efasemdir um að skipta efnahags- og viðskiptaráðuneytinu upp en ég sé engan tilgang með því að ræða málið endalaust í þingsal enda öllum ljóst að niðurstaða í málinu næst ekki þar.

Í gærkvöldi sótti ég góðan fund um kosningakerfið og stjórnarskrána á vegum stjórnarskrárfélagsins og að honum loknum fór ég heim og kveikti á alþingisrásinni til að fylgjast með umræðum. Þær voru í það heila yfirmáta heimskulegar.

Því var t.d. haldið fram að „flýtirinn“ við að stofna umhverfis- og auðlindaráðuneyti væri vegna þess að ræðumaður hefði heyrt því fleygt að ESB ætlaði sér að verða olíuríki og til þess þyrfti það að komast yfir auðlindir Íslands.

Þarna yfirsást ræðumanni algjörlega að á bls. 17 í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um stofnun ráðuneytisins þannig að umræddur „flýtir“ ætti frekar að kallast droll. Þá er stjórnarsáttmálinn skrifaður áður en sótt var um aðild að ESB þótt vissulega stæði það til og áður en nokkur olía fannst á Íslandsmiðum.

Þá er þeirri spurningu auðvitað algjörlega ósvarað hvort það borgi sig að reyna að pumpa þessu upp af hafsbotni en sennilega pössuðu þessar staðreyndir ekki inn í samsæriskenninguna. Það sem mér fannst sorglegast var að sjá var hvernig þingmenn, sem ég VEIT að eru alls ekki svo vitlausir að þeir trúi þessu bulli fóru í andsvör, ekki til þess að mótmæla ruglinu heldur viðhalda klikkaðri umræðu og halda þinginu í gíslingu.

Þannig taka þeir í raun undir vitleysuna af því að þeir eru „í liði“ með samsæriskenningasmiðnum, þótt það sé ekki ætlun þeirra. Þá voru nokkrir þingmenn áberandi þvoglumæltir einhverra hluta vegna. Ég hlustaði til að ganga eitt í nótt, en gafst alveg upp á þessu þegar menn í fullri alvöru eyddu tíma þingsins í að skilgreina hvenær væri mið nótt, hvort það væri miðnætti eða einhver annar tími.

Þegar ég vaknaði í morgun fann ég að ég gæti bara ekki farið í vinnuna í dag. Ég gæti ekki sest inn í þingsal og hlustað á fólk rífast bara til þess að rífast eins og greint er frá á Eyjunni í dag. Og til hvers ætti ég svo sem að taka þátt í þessu?

Ég bauð mig fram til starfa á þessum vettvangi til að vinna þjóðinni gagn, taka til eftir hrunið, læra af því og laga það sem hægt er að laga. Bæta samfélagið og græða sár þess.

Ég bauð mig EKKI fram til að sitja í þingsal með fólki sem vaknar á hverjum morgni eins og Láki jarðálfur og reynir að finna nýjar leiðir til að vera vont, til þess að skemma og eyðileggja.

Fólki sem krefst atkvæðagreiðslu um miðja nótt um hvort mál skuli gagna til nefndar og fer svo sjálft af vettvengi og neitar að láta boða félaga sína svo atkvæðagreiðslan geti ekki farið fram, fólki sem líkir samstarfsfólki sínu við ýmsa af helstu fjöldamorðingjum 20. aldarinnar, fólki sem er alveg sama um málefnin en hoppar alltaf ofan í skotgrafir stjórnar- og stjórnarandstæðu sem gera ekkert annað en að dýpka. Fólki sem þolir ekki að missa völd. Og er á annað borð hægt að vinna með þessu liði?

Nú skal taka fram, til að forðast misskilning, að í öllum þingflokkunum er gott fólk, jafnvel frábært myndi ég segja. Fólk sem vill vel, fólk sem vandar sig, fólk sem kýs samvinnu framyfir sundurlyndi. Og það heldur sig til hlés.

Sumir sýna jafnvel hugrekki og leggja til lausnir á deilumálum þrátt fyrir bann foringjanna og er refsað í kjölfarið. Þeir sem standa fyrir vitleysunni eru mun færri en hinir en það undarlega er að þeir ráða. Og þeir komast upp með það vegna þess að þingið og stjórnarflokkarnir hafa ekki haldið nægilega vel á spöðunum. Þetta er það helsta sem mér finnst að:

  • Forseti þingsins er góð kona sem ég perónulega kann vel við en veldur ekki hlutverki sínu. Það að hún sé nú kölluð Ásta Ragnheiður Elín er til marks um að það vita allir hver það er sem ræður í raun og veru. 32 undirskriftir þarf til að skipta um forseta og undirskriftalistinn er tilbúinn í þinghópsherbergi Hreyfingarinnar en menn skortir greinilega kjark til að kvitta undir. Margir segjast ætla að skrifa undir þegar fleiri hafa gert það en á meðan svo er lengist hann vart.
  • Ríkisstjórnin er allt, allt of sein með málin sín. Mörg þau stóru koma fram rétt fyrir síðasta dag sem leggja má fram mál, sennilega vegna þess að meirihlutinn er svo naumur að semja þarf um hvert einasta atriði innan flokkanna og það tekur tímana tvenna. Og þá er heldur ekkert svigrúm eftir til að semja við stjórnarandstöðuna. Það er alltof auðvelt að taka þingið í gíslingu við þessar aðstæður og algjörlega fyrirsjáanlegt að það yrði gert.
  • Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn er í alvarlegri tilvistarkreppu og stjórnast að reiði og hatri. Þingflokksformaður þeirra er ósveigjanlegri en stálbiti í burðarvirki álvers og æsir sig svo að eyrun á henni verða eldrauð ef einhver setur sig upp á móti henni.
  • Allir flokkar eru klofnir í flestu stóru málunum (nema kannski sá minnsti sem er eiginlega of lítill til þess). Það er því erfitt að ná saman með nauman meirihluta og stolt forsvarsmanna stjórnarflokkanna of mikið til þess að menn reyni að stækka hópinn.
  • Þrír þingmenn stjórnarflokkana eru alvarlega þjakaðir af fráhvarfseinkennum frá ráðherradómnum og í prinsippinu á móti öllu bara til þess að vera á móti því.
  • Svokallaðir villikettir í VG héldu í byrjun fast í stefnuskrána sem þeir höfðu verið kosnir út á (og áttu heiður skilið fyrir það) en nú hefur flosnað úr hópnum og hegðun þeirra sem eftir eru virðist oft frekar stjórnast af rótgróinni kergju út í félaga sína en málefnum.
  • Það vantar algjörlega hreðjarnar á þessa ríkisstjórn. Menn lúffa fyrir lífeyrissjóðunum og hagsmunaaðilum lon og don þótt allir sjái í gegnum hræðsluáróðurinn hjá þeim. Það kaus enginn SA/ASÍ eða forsvarsmenn lífeyrissjóðanna til að stjórna landinu. Og það myndi aldrei neinn kjósa LÍÚ. Þess vegna eiga þeir ekki að stjórna förinni en gera það engu að síður.
Við þetta má kannski bæta að verkefnin eru auðvitað risavaxin og kannski völdum við þeim einfaldlega ekki. Það er þó alveg ljóst að þau leysast ekki ef við eyðum öllum tímanum í skæruhernað.
Við í Hreyfingunni höfum alltaf nálgast öll mál á forsendum þeirra óháð þeim sem leggur þau fram. Þannig höfum við stutt öll góð mál en ýmist barist gegn eða reynt að laga þau sem ekki eru í lagi að okkar mati.
Við störfum eftir stefnuskránnisem við vorum kosin út á og það gengur ágætlega að halda sig við hana og þoka þeim málum áleiðis. Og við höfum tekið þátt í málþófi svo það sé viðurkennt en það var ekki um mál að handahófi eins og nú.
Það var Icesave því okkur þótti réttlætanlegt að stöðva það með öllum tiltækum ráðum. Og þannig finnst mér að menn eigi reyna að vinna, út frá málunum en ekki hver leggur þau fram, með þjóðarheill að leiðarljósi.
Ýmsum hefur þó þótt erfitt að trúa því að það sé í raun og veru svona sem við vinnum og oftar en ég kæri mig um að rifja upp hefur okkur verið brigslað um að vera lögst í eina sæng með sjöllum og framsókn eða gerst hækja ríkisstjórnarinnar, öndunarvél eða lifnaðarpilla.
Hvorugt er rétt; við vinnum einfaldlega út frá málunum sem við vorum kosin til að koma í gegn. En það er þrautin þyngri í herbergi fullu af bavíönum.“

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 3.5.2012 - 15:26 - FB ummæli ()

Sextugur unglingur

Þetta er afmæliskveðja.

Jóhann Páll Valdimarsson bókaútgefandi er sextugur í dag.

Sú staðreynd sýnir að tíminn líður, því ekki virðist neitt sérlega langt síðan hann kom eins og stormsveipur inn í íslenska bókaútgáfu, kornungur og fullur af eldmóði – enda beinlínis alinn upp í bransanum.

Innan við þrítugt var hann farinn að gera sig verulega gildandi. Strax einkenndi hann ódrepandi áhugi bæði á markaðshlið útgáfunnar, en líka og þó blessunarlega ennþá fremur á menningarlegu gildi hennar.

Sá áhugi hefur haldist óbreyttur, ekki síður en ungæðisskapurinn.

Framan af gekk á ýmsu hjá honum, það komu góðir dagar, það komu verri dagar, en nú síðustu árin hefur fyrirtæki hans komið vel undir sig fótunum.

Það sinnir mörgum af helstu rithöfundum okkar af mikilli kostgæfni, og gefur út allskonar stórvirki sem ekki væru á færi fyrirtækja sem hefðu minni umsvif – eða minni metnað.

Persónulega getur Jóhann Páll verið manna skemmtilegastur.

Vissulega er hann langt frá því að vera heilagur maður, eins og hann á þó til að fullyrða sjálfur, en hver er það svosem?

Og hann á til afskaplega væna og mannlega hlið.

Og á þessum tímamótum má óhikað fullyrða að fyrir utan listamennina sjálfa, þá hafa ekki margir einstaklingar verið íslenskri menningu nýtilegri síðustu áratugina en þessi sextugi unglingur.

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!