Miðvikudagur 7.3.2012 - 14:24 - FB ummæli ()

Spilling!

Það er ástæða til að vekja athygli á nýrri Facebook-færslu Helga Seljan:

„Úr fréttum RÚV í vikunni: „Ráðherra í ríkisstjórn Jens Stoltenberg í Noregi sagði af sér í dag. Hann veitti ungliðahreyfingu flokkks síns ráuneytisfé. eftir að hafa brotið reglur um fjárstuðning við eigin flokk. Óvíst er hve lengi ríkisstjórnin heldur meirihluta á þingi.“ Árið 2007 flutti Kastljós fréttir af því að utanríkisráðherra Framsóknarflokksins hefði veitt ungliðahreyfingu flokks síns ráðuneytisfé. Hvað gerðist? Jú, ekkert.“

Þetta er mjög réttmæt ábending hjá Helga.

Í Noregi er þetta mál litið mjög alvarlegum augum, hér var þetta stormur í vatnsglasi svolitla stund og svo gleymdu því allir.

Ég líka.

Er ekki kominn tími til að breyta hugarfarinu – og gera spillinguna, stóra sem smáa, útlæga?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 5.3.2012 - 19:42 - FB ummæli ()

Hvernig getur Geir sagt þetta?

Hvernig getur Geir Haarde sagt að hann hafi varla veitt athygli stofnun Icesave-reikninga í Hollandi sumarið 2008, fimm mínútum fyrir hrun?

Reikninga sem áttu eftir að verða okkur heldur betur dýrir!

Ég tók eftir því þegar reikningarnir fóru af stað, og man að ég hugsaði með mér:

Nú, þá er nú Landsbankinn varla mjög illa staddur, fyrst hann má og getur þetta.

Dæmalaust vitlaust hugsað hjá mér, það rann upp fyrir mér um haustið.

En ég var heldur ekki forsætisráðherra, og ég var ekki seðlabankastjóri og ég var ekki formaður Fjármálaeftirlitsins.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 4.3.2012 - 12:02 - FB ummæli ()

Við munum ekki taka upp kanadískan dollar

Við erum ekki að fara að taka upp kanadískan dollar.

Það er einfaldlega of skrýtin hugmynd til að þurfi að ræða hana öllu frekar.

Við gætum eins tekið upp hinn eþíópíska birr.

En hins vegar eru umræðurnar um kanadíska dollarinn til merkis um að æ fleiri horfast nú í augu við að íslenska krónan er ónýt – og ekki bara ónýt, heldur beinlínis skaðleg.

Augljósasti kosturinn fyrir okkur er að taka upp evru, en það vilja ýmsir ekki vegna pólitískrar andstöðu við Evrópusambandið.

Þá spretta upp svona furðuhugmyndir eins og um kanadíska dollarinn.

Þær munu ekki verða að veruleika, en það er þó altént gott að menn reikna ekki lengur með okkar sjálfdauðu krónu.

Eftir því sem umræðunni vindur fram munu sjálfsagt æ fleiri sættast á þá niðurstöðu að evran sé eini raunhæfi kosturinn – með eða án inngöngu í Evrópusambandið.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 3.3.2012 - 20:02 - FB ummæli ()

Afsláttur, afsláttur, afsláttur!

Óþolandi þessar stöðugu auglýsingar frá olíufyrirtækjunum um einhverja lykla sem þau útdeila.

Og ef maður fær sér svona lykil þá fær maður 10 króna afslátt af sjö komma fimmta hverju skipti sem maður fyllir á bílinn, ókeypis gosflösku í hvert sinn sem maður stendur á höndum við dæluna, og 15 króna afslátt á afmæli ömmu sinnar.

Það hlýtur að kosta sitt að framleiða þetta auglýsingajukk og sýna það, og eitthvað kostar að veita þessa undarlegu afslætti.

Af hverju reyna félögin ekki frekar bara að lækka hjá sér verðið?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 1.3.2012 - 12:09 - FB ummæli ()

Gerum þetta vel

Geir Haarde fer nú fyrir landsdóm. Ég held að það hafi verið eina rétta niðurstaðan. Vissulega hefði ég fremur kosið að hann stæði ekki einn fyrir dómnum, en held samt að þetta verði til góðs.

Í fyrsta lagi sýnir þessi niðurstaða að okkur er alvara með að rannsaka hvað gerðist í hruninu.

Úr því sjálfur forsætisráðherra landsins þarf að svara því fyrir dómi hvort hann hafi gerst sekur um að brjóta lög um ráðherraábyrgð með aðgerðum sínum eða aðgerðaleysi, þá eiga minni spámenn ekki að vera öruggir heldur!

Þessari niðurstöðu þarf að fylgja eftir með raunverulegum rannsóknum á lífeyrissjóðum, einkavæðingum bankanna bæði fyrr og síðar, Icesavemálinu, Fjármálaeftirlitinu, Seðlabankanum og mörgu öðru.

Hvort sem Geir Haarde reynist á endanum sekur um brot á lögum, þá er auðvitað deginum ljósara að hann bar ekki einn ábyrgð á hruninu, og því er mjög mikilvægt að upplýsa nú alla þætti hrunsins og aðdraganda þess – svo þetta líti ekki út eins og Geir Haarde eigi einn að vera sektarlamb þjóðarinnar.

Í öðru lagi – ég skil ósköp vel að Geir Haarde sjálfur hafi engan húmor fyrir því sjónarmiði í bili, og ég vona sannarlega að það hljómi ekki yfirlætislega, en ég er viss um að þetta verður honum sjálfum til góðs þegar frá líður.

Nú fer hann fyrir dóminn og mun þar tala máli sínu á vafalítið afar skeleggan hátt og við eigum eftir að verða margs vísari – þar á meðal um ýmislegt sem að öðrum kosti hefði verið reynt leynt eða ljóst að þagga niður.

Hvort sem Geir reynist svo á endanum hafa gerst að einhverju leyti brotlegur við lög um ráðherraábyrgð eða ekki, þá þykist ég vita að hann verður að lyktum maður að meiri heldur en ef Alþingi hefði afturkallað ákæruna. Af því hefði verið svo rammur flokkspólitískur fnykur að ég hugsa að það hefði verið lítið gaman til lengdar fyrir Geir að þiggja þá afturköllun.

Og fyrir samfélagið hefði slíkur fnykur orðið nær óbærilegur.

Reynum nú að gera þetta vel, og þá verður þetta okkur öllum til góðs.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 28.2.2012 - 09:39 - FB ummæli ()

Þrjúbíó á Bessastöðum

Ég verð að viðurkenna að ég skammast mín svolítið fyrir hönd þeirra félaga minna í stétt fjölmiðlamanna sem fóru að fylgjast með blaðamannafundinum á Bessastöðum í gærdag.

Því þeir áttu auðvitað allir sem einn að hafa þrek til að draga þessa uppákomu sundur og saman í háði.

Vitanlega eiga fjölmiðlamenn ekki að opinbera persónulegar skoðanir sínar á því hvort einn maður frekar en annar sitji í tilteknum embættum.

En þeir hafa fulla heimild og ber raunar skylda til að benda hispurslaust á það ef einhverjir spunakóngar eru að setja upp leikrit opinberlega í eiginhagsmunaskyni.

Reyndar er orðið „leikrit“ í þessu sambandi sennilega móðgun við heiðarlega leikritahöfunda.

Þrjúbíó væri nær lagi.

Söguþráðurinn var álíka sannfærandi og í gamalli Zorró-mynd sem ég sá fyrir margt löngu í Stjörnubíói, og var klippt saman úr tveimur eldri myndum.

Um áramótin hélt Ólafur Ragnar Grímsson ávarp í sjónvarpinu þar sem hann kvaðst hlakka til að láta af störfum.

Ekki hvarflaði að neinum að skilja þetta ávarp öðruvísi en svo að hann ætlaði ekki að vera í framboði við forsetakosningar í sumar.

Nema hvað allt í einu spratt fram einn maður.

Og benti á að ef mjög vel væri rýnt í ávarp Ólafs Ragnars, þá stæði þar raunar hvergi alveg fullkomlega afdráttarlaust að hann ætlaði að hætta.

Með góðum vilja væri hægt að skilja það svo að ef til vill hugsanlega kannski væri Ólafur fáanlegur til að vera áfram!

Af tilviljun var þessi skarpi textarýnir gamall kammerat Ólafs Ragnars úr stjórnmálafræðinni í háskólanum.

Nú veit ég að Ólafur Þ. Harðarson er vammlaus fræðimaður.

Það er líka eins gott, því ef ekki, þá færi jafnvel svo græskulaus maður sem ég að finna kvikna í brjósti mér grunsemdir um að Ólafur Ragnar hefði kannski laumað því að nafna sínum að vel mætti nú benda á það opinberlega að þessi möguleiki væri fyrir hendi …

Svona til að koma þeirri hugmynd á koppinn.

En slíkar samsæriskenningar þarf náttúrlega ekki til – það dugir að Ólafur Þ. þekkir auðvitað vel til forsetans, bæði þankagangs hans og kænskapar.

Því var náttúrlega í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að hann kæmi einn manna auga á að Ólafur Ragnar hefði þrátt fyrir allt skilið eldhúsdyrnar eftir opnar þegar hann virtist í ávarpinu sínu kveðja Bessastaði.

Og gegnum þessar eldhúsdyr gæti hann smogið inn aftur, ef hann fengi færi á.

Með öðrum orðum – ef hann yrði beðinn fallega!

Flesta rak í rogastans þegar Ólafur Þ. Harðarson varpaði fram þessum möguleika.

Nei fjandakornið, hafði ekki Ólafur Ragnar sagt það alveg skýrt að hann væri hættur?

Jæja – sögðu fréttastjórar við sína menn – hringið þá bara í hann og spyrjið hann.

„Fór það nokkuð milli mála að þú lýstir því yfir að þú værir hættur, herra Ólafur? Er þetta ekki einhver óþarfa fabúlasjón í nafna þínum Harðarsyni?“

En þá brá svo við að Ólafur Ragnar gufaði upp.

Maðurinn sem fjölmiðlar hafa alltaf átt mjög greiðan aðgang að.

Og maðurinn sem gegndi stöðu þjóðhöfðingja íslenska ríkisins, og maður skyldi því ætla að bæri skylda til að upplýsa þjóðina um fyrirætlanir sínar í mikilvægum málum.

Og maðurinn sem var svo illa brenndur af húrrahrópum sínum og orðuveitingum handa útrásarvíkingum að hann hafði lofað að taka upp betri og opnari stjórnarhætti.

Hann var allt í einu gufaður upp!

Hvergi sjáanlegur, þessi fjölmiðlaglaði maður.

Jú reyndar, það fréttist af honum á Suðurskautinu þar sem hann var í útilegu með nokkrum auðkýfingum.

Kannski að ná í ísmola til að kæla kampavínið á Bessastöðum?

Nei auðvitað, að bjarga heiminum!

Hvernig læt ég!

En ekki gat hann sem sagt svarað einföldum spurningum fréttamanna um hvort hann væri ekki örugglega hættur.

Í margar vikur mátti þjóðin velkjast í vafa – og spekúlera í „hvað forsetinn ætlar að gera“?

Guð hvað sumir hafa mikla nautn af því að nánast neyða fólk til að hugsa um sig!

Svo fór af stað undirskriftasöfnun.

Gamli sótraftar voru á sjó dregnir og tr0mmuðu upp til að segja þjóðinni að hennar eina haldreipi í lífinu væri Ólafur Ragnar Grímsson.

Og það skipti höfðuðmáli fyrir sálarheill okkar allra að hann næði því að vera forseti í tuttugu ár.

Undirskriftasöfnunin fór vel af stað en rann svo út í sandinn.

Það náðust ekki nema þrír fjórðu af þeim undirskriftum sem að var stefnt.

Ekki gaf það til kynna neina djúpa sannfæringu fyrir því að þjóðin í heild liti á Ólaf Ragnar Grímsson sem bjargvætt sinn.

Þarna hefði Ólafi Ragnari verið sæmst að blása þetta allt saman af.

Koma fram úr hýði sínu og lýsa því yfir að auðvitað hefði ekki hvarflað að honum annað en að hætta – þetta hefði verið hrein oftúlkun í Ólafi Þ. Harðarsyni og tóm óskhyggja í oftrúuðum stuðningsmönnum hans.

En nei – hann hélt áfram að láta ekki ná í sig.

Loks var undirskriftaherferðinni hætt þegar rétt rúmlega 30.000 nöfn voru komin á hana.

Enginn fékk að vísu að sjá þau nöfn. Ég fæ til dæmis ekki að vita hvort einhver brellumeistari hafi skrifað nafn mitt á listann og ég sé því í orði kveðnu í hópi þeirra sem skora á Ólaf Ragnar Grímsson að halda áfram.

Og í gær voru þessar undirskriftir afhentar á Bessastöðum og fjölmiðlamenn flykktust að til að fylgjast með – og sitja síðan blaðamannafund með forsetanum.

Jæja, þá átti þessu furðuspili loksins að ljúka.

Guðni Ágústsson flutti ávarp fyrir hönd þeirra sem vildu fá Ólaf Ragnar í framboð að nýju.

Það væri eina von Íslands.

„Guð minn góður, af hverju sleikir hann ekki bara jörðina fyrir framan Ólaf Ragnar?“ spurði ungur maður í mín eyru eftir að hafa heyrt ávarp hins fyrrum stolta bóndasonar.

Og já, það var erfitt að hlusta á þetta.

Ég fór því bara að keyra út klósettpappír fyrir son minn ungan svo hann komist á fótboltamót sumarsins.

Þegar ég væri búinn að því hlyti þessum langdregna skrípaleik að vera lokið.

En nei!

Þrjúbíóið er þá rétt að ná hámarki sínu.

Næst flytur Ólafur Ragnar ræðu þar sem hann er bljúgur og auðmjúkur, næstum sleginn.

Því hann er svo hissa.

Hann er satt að segja aldeilis standandi hlessa!

Hann sem hafði allan tímann ætlað að draga sig í hlé sem forseti Íslands og fara að sinna alþjóðamálum.

(Engin smáræðis verkefni sem hann er sýnkt og heilagt beðinn um þar!)

Þá birtist Guðni Ágústsson bara alveg óforvarandis með allar þessar undirskriftir!

Jahérna hér!

Það hafði bókstaflega ekki hvarflað að honum að halda áfram! Hafði hann ekki talað skýrt í nýársávarpi sínu?!

Hann vildi alls ekki halda áfram!

(Hvers vegna hafði hann þá ekki virt fjölmiðla viðlits þegar þeir reyndu að þýfga hann um þetta strax eftir áramótin?)

Þessi þrábeiðni þjóðarinnar um að hann héldi áfram, hún hafði eiginlega valdið honum mestu sálarkvölum.

Fyrir nú utan hvað hún hafði gert öðrum hugsanlegum frambjóðendum erfitt fyrir!

(Hann átti auðvitað engan þátt í því með þögn í átta vikur, neinei, hann var held ég ekki einu sinni spurður að því!)

En altént, eftir þessa áskorun frá þjóðinni, þá varð hann auðvitað að íhuga málið upp á nýtt.

Hann bara varð að gera það fyrir aumingja hrjáða þjóð sína!

(Hann nefndi líklega aldrei að þetta var ekki áskorun frá þjóðinni, heldur frá um það bil 12 prósentum hennar, og kannski Mikka mús.)

Og svo undrandi var hann, og svo djúpt snortinn, að hann varð eiginlega að fá smá umhugsunarfrest.

Hvað er langt síðan þessi undirskriftasöfnun fór af stað? Sex vikur, já? En samt hafði það ekki dugað til að hann myndaði sér skoðun á því hvað hann myndi gera þegar Guðni birtist á Bessastöðum með listann undir hendinni.

Nei, hann gat ekki svarað alveg strax.

Hann þurfti smáfrest til að fara aftur í gegnum hugleiðingar sínar!

Og vita hvort hann treysti sér til að vinna frítt fyrir þjóðina næstu fjögur árin.

(Það er að segja með tæpar tvær milljónir á mánuði.)

Komiði aftur eftir viku, sagði hann svo við blaðamennina á Bessastöðum.

(Þaulvanur því að hann geti alltaf með léttum leik valtað yfir alla fjölmiðlamenn. Þeir höfðu meira að segja sjálfir, og sér til heilmikillar vansæmdar, tekið þátt í að hlæja að Jóhanni Haukssyni sem hafði gert tilraun til að spyrja Ólaf Ragnar gagnrýnna spurninga á einhverjum Icesave-fundinum. Og muniði ekki hvernig hann tók Jeremy Paxman?!)

Nei, þetta var hörmung.

Fjölmiðlamenn eiga ekki að láta bjóða sér svona þrjúbíó.

Þeir geta haft hvaða skoðun sem þeir vilja á Ólafi Ragnari Grímssyni og embættisfærslum hans.

En þegar þeir horfa upp á annan eins spuna og þann að eftir sex vikna undirskriftasöfnun og átta vikna vandlega þögn þá standi forsetinn næstum með tárin í augunum fyrir framan þá, svo djúpt snortinn yfir þrábeiðni þjóðarinnar, og bara verði að fá að hugsa málið stundarkorn, því þetta kom honum svo gjörsamlega á óvart – þá eiga þeir að leggja frá sér poppið og yfirgefa þetta þrjúbíó.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 26.2.2012 - 14:04 - FB ummæli ()

Búsáhaldabyltingunni var ekki stjórnað

Veturinn 2008-2009 fór gremja í samfélaginu sívaxandi.

Hrunið hafði orðið um haustið, og það varð æ augljósara að það myndi valda miklum búsifjum í samfélaginu næstu árin.

Á sama tíma lét ríkisstjórn Geirs Haarde eins og ekkert væri, og það væri bara eðlilegasti hlutur í heimi að hún sæti sem fastast, og allt hennar fólk.

Það var eiginlega ótrúlegt að horfa upp á hve þetta fólk var óforskammað með því að líma sig við sína valdastóla.

Mótmæli brutust út öðruhvoru, bæði í kringum laugardagsfundi Harðar Torfasonar og ýmis önnur tækifæri.

Í lok janúar, þegar þing kom saman að nýju eftir langt og gott jólafrí, og hófst handa um að ræða hina ódauðlegu tillögu Sigurðar Kára um að selja brennivín í matvörubúðum, þá var fólki nóg boðið.

Þá var mér að minnsta kosti nóg boðið.

Ég fór á Austurvöll til að taka þátt í mótmælum við þingsetningu.

Það var strax auðfundið að það bjó gífurlegur kraftur og gífurleg gremja í mótmælendum.

Andrúmsloftið beinlínis kraumaði.

Fólk ætlaði einfaldlega ekki að láta bjóða sér þessa svívirðu lengur – að hrunstjórnin sæti enn, og hennar fylgifiskar í Seðlabanka og Fjármálaeftirliti.

Það var enginn að hugsa um nýja valdhafa, eða hverjir ættu síðan að setjast í stjórn – það var einfaldlega reiði í garð hrunvaldanna sem stýrði þessum mótmælum.

Mótmælin stóðu í viku, og enduðu með því að ríkisstjórnin fór loks frá.

Þessa viku gekk á ýmsu.

Mótmæli voru prjónuð af fingrum fram, og fóru stigvaxandi.

Sumir mótmælendur gengu of langt, og stundum gekk lögreglan of langt – einkum fyrstu dagana þegar mestur taugaóstyrkur réði ríkjum.

En á heildina litið héldu báðir aðilar stillingu sinni, svo að aðdáunarvert mátti heita.

Því það hefði svo sannarlega getað soðið illilega upp úr þegar æsingurinn var mestur.

Þessa viku lærði ég að bera óblandna virðingu fyrir Geir Jóni Þórðarsyni yfirlögregluþjóni sem fór fyrir aðgerðum lögreglunnar.

Hann lét ekki sinn hlut í skiptum við mótmælendur, en sýndi líka lipurð og skilning þegar svo bar undir.

Þetta var snaggaralega gert hjá Geir Jóni.

Þeim mun dapurlegra þykir mér nú að hann skuli tromma upp í útvarpinu og staðhæfa fullum fetum að þessum mótmælum, búsáhaldabyltingunni, hafi verið „stjórnað af alþingismönnum“.

Ég er eiginlega alveg dolfallinn.

Af því ég var á staðnum.

Og ég var ekki og er ekki strengjabrúða nokkurs manns.

Ef ég hefði orðið var við einhverja minnstu stjórn utan frá, hvaðan sem hún hefði komið, þá hefði ég látið mig hverfa á stundinni.

Ég vona að þeir sem þekkja mig geti vottað um að það er rétt.

Og ég varð ekki var við að nokkur annar á Austurvelli lyti stjórn nokkurs manns – allra síst alþingismanns.

Stundum sáust einstaka þingmenn Vinstri grænna á Austurvelli eða úti í glugga.

Væntanlega hafa þeir verið sammála mótmælendum – að ríkisstjórnin ætti að fara frá.

En ég varð ekki var við að þessir þingmenn nytu sérstakrar virðingar mótmælenda.

Mér fannst reyndar að þeir ættu ekki að skipta sér af, og ég held að flestum öðrum á Austurvelli hafi fundist það líka.

Enda stóðu þeir stutt við.

Geir Jón Þórðarson er nú kominn í pólitík. Hann hefur boðið sig fram í embætti varaformanns Sjálfstæðisflokksins, og á grundvelli þeirrar virðingar sem hann aflaði sér í búsáhaldabyltingunni hefði ég alveg getað hugsað mér að styðja hann.

En ekki lengur.

Því þessi fullyrðing Geir Jóns er röng.

Alröng.

Búsáhaldabyltingunni var ekki stjórnað.

Kannski er hægt að finna einhver dæmi um að einhverjir þingmenn hafi talað við einhverja mótmælendur í síma.

Það getur vel verið – ég væri nú satt að segja undrandi ef ekkert slíkt hefði átt sér stað þessa viðburðaríku daga.

En ég ítreka – ég var á staðnum, og þeirri miklu reiði sem ríkti á Austurvelli og braust út í búsáhaldabyltingunni var ekki stýrt af neinum þingmönnum.

Og ég er satt að segja verulega gramur í garð Geir Jóns og annarra sem vilja halda þessari vitleysu fram.

Þetta er greinilega fólk sem ekki trúir því að neitt geti verið sjálfsprottið meðal fólksins sjálfs, eða einstaklinganna.

Öllu hljóti að vera stjórnað úr einhverjum reyklausum bakherbergjum.

En búsáhaldabyltingunni var ekki stjórnað.

Svo einfalt er það.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 25.2.2012 - 09:25 - FB ummæli ()

Ekki á valdi hans

Heilmiklar umræður hafa spunnist kringum síðasta pistil minn þar sem ég gagnrýndi Guðberg Bergsson fyrir skrif hans um strákinn með gerði bjölluatið.

Sumum fannst greinilega að ég væri að mæla fyrir samfélagi þar sem ekki mætti bregðast fast við brögðóttum krökkum.

Sá skörulegi myndlistarmaður Jón Óskar Hafsteinsson var einna eindregnastur fulltrúi þeirra sem svo hugsuðu, en hann skrifaði á Facebook um mig og fleiri sem gagnrýnt höfðu Guðberg:

„[H]ættið þessum látum. Þetta er ágæt grein hjá Guðbergi.

Oftast er hann fyrirsjáanlegur en ekki þarna. Óþekktarorma má tuska aðeins til.

Ég var gómaður við þjófnað í skólagörðunum í Laugardal 1960 og e-ð, og meig á mig af hræðslu en hristi það af mér daginn eftir. Hélt síðan mínu striki í óknyttum fram á unglingsár.

Góðir tímar; 14-16 ára átti ég alltaf nóg af Macintosh, niðursoðnum ávöxtum, Baby Ruth og sígarettum. Jökull Jakobsson hefði alveg mátt taka tveggja fóta tæklingu á mig eftir Laugardalinn.“

Þessar æviminningar Jóns Óskars eru giska skemmtilegar, og sjónarmið hans skýrt.

En þessu svaraði ég þannig, svo þessu sé nú öllu til haga haldið:

„Þú misskilur mínar athugasemdir við Guðbergsgreininni gjörsamlega, góði Jón Óskar.

Jájá, gamlir karlar og pottormar mega alveg eigast við af nokkurri hind héðan í frá sem hingað til. Þessi karl virðist að vísu hafa verið af hrottalegasta tagi.

En það sem ég er að skammast yfir er að einn fremsti rithöfundur þjóðarinnar skrifi opinberan pistil þar sem hann dregur lítinn strák sundur og saman í háði fyrir viðbrögð hans við frelsissviptingunni.

Það er SÚ refsing sem enginn níu ára strákur á skilið, og það var ekki á valdi eða forræði Guðbergs Bergssonar að útdeila henni.“

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 24.2.2012 - 08:50 - FB ummæli ()

Sorgleg mistök

Guðbergur Bergsson rithöfundur hefur skrifað nokkur af betri verkum íslenskra bókmennta, um það er engum blöðum að fletta.

Og sumir af pistlum hans um samfélagsmál eru allt að því klassískir – fáir segja þjóð sinni betur til syndanna en hann, þegar vel tekst til.

En öllum getur skjöplast og í viðleitni sinni til að koma alltaf að málum úr óvæntri átt hefur Guðbergur nú skrifað einhvern sorglegasta pistil sinn og birt hér á Eyjunni.

Þar hæðist hann á sérstaklega napran og kvikindislegan hátt að níu eða tíu ára gömlum dreng sem vann sér það til óhelgi að gera bjölluat hjá einhverjum karli sem brást illa við.

Ég hef tekið eftir því að ýmsir gamlir aðdáendur Guðbergs virðast ekki átta sig á mistökunum sem hann gerir í þessum pistli.

Þeir eru líklega svo vanir því að dást að allri snilldinni sem svo oft kemur milli línanna úr penna „meistara Guðbergs“ að þeir sjá ekki að þarna er bara á ferð svívirðilega rætin árás á lítinn pilt.

En eins og Guðbergur veit manna best, þá er vinur sá sem til vamms segir!

Það gildir líka um hann sjálfan.

Og þessi pistill er allra síðasta sort.

Fullorðinn virtur rithöfundur – með mikið áhrifavald í samfélaginu – á ekki að hæðast að barni opinberlega.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 21.2.2012 - 10:57 - FB ummæli ()

Stund sem ég hefði viljað sleppa við

Við sem sátum í stjórnlagaráði á síðasta ári afgreiddum frumvarp okkar til nýrrar stjórnarskrár með 25 atkvæðum gegn engu.

Það þýðir að sjálfsögðu ekki að verk okkar sé fullkomið, en það þýðir að við lögðum okkur fram um að ná samkomulagi sem vit væri í.

Ef frumvarpið væri tilgangslaust miðjumoð, eða eitthvað verulega umdeilanlegt væri þar á ferð – þá hefði niðurstaðan aldrei orðið einróma.

Sumir hafa gert athugasemdir við hitt og þetta í frumvarpinu okkar, og það er auðvitað bara eðlilegt og gagnlegt.

Mér persónulega hefur þótt merkilegt að athugasemdir virðast fyrst og fremst lúta að margvíslegum og mjög mismunandi smekksatriðum í frumvarpinu – en hins vegar er fátt um alvarlegar aðfinnslur um grundvallaratriði og/eða hugmyndafræði frumvarpsins.

Það segir mér að við höfum skilað vönduðu og heildstæðu verki, og ég vona að sú sé raunin.

Í bili ætla ég ekki að fara nánar í saumana á stjórnarskrárfrumvarpinu, en hins vegar blöskraði mér þegar ég sá þetta hér.

Stundum hefur mér virst sem sumir háskólamenn séu andsnúnir frumvarpinu af því að þeir sjálfir komu ekki að gerð þess.

Ég vona að þetta sé ekki rétt hjá mér, en þessi grunur kviknar þegar maður sér hve þungir í taumi sumir þeirra eru í sambandi við nýja stjórnarskrá, án þess þó að tilfæra mjög djúpskreiðar athugasemdir við frumvarpið okkar.

Ég hef alla vega ekki heyrt þær ennþá.

En að sú stund rynni upp að dósent við Háskóla Íslands skuli nú stíga fram og lýsa því yfir að það sé „of flókið“ fyrir þjóðina sjálfa – óbreyttan almúgann!! – að taka afstöðu til nýrrar stjórnarskrár í þjóðaratkvæðagreiðslu – ja, mikið hefði ég viljað sleppa við að upplifa þá stund.

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!