Sunnudagur 15.1.2012 - 11:02 - FB ummæli ()

Leitað að frávísun

Geir Haarde og Baldur Guðlaugsson voru báðir félagar í Eimreiðarhópnum svokallaða sem myndaður var til að hreinsa áru Sjálfstæðisflokksins og innleiða alvörufrjálshyggju í röðum hans eftir áratugamengun frá krötum.

Og í leiðinni ætlaði hópurinn að ná völdum í flokknum.

Hvorttveggja tókst með miklum bravúr, og þarf ekki að orðlengja það.

(Af hverju engin kona var í Eimreiðarhópnum er spurning sem ég treysti mér ekki til að svara. Þetta voru 15 strákar og þar sem þetta var í upphafi áttunda áratugarins hefði mátt búast við að ein og ein kona dúkkaði upp í svo stórum hóp. En svo var sem sagt ekki.)

Í alllangan tíma báðumegin við aldamótin 2000 réðu Eimreiðarmenn nánast því sem þeir vildu ráða í samfélaginu og fóru um með heilmiklum slætti. Þeir voru karlmenni og höfðu rétt fyrir sér.

Að því er best varð séð.

Nú eru tveir úr þessum hópi fyrir dómi, vissulega fyrir næsta ólíkar sakir.

Baldur Guðlaugsson er sakaður um að hafa nýtt sér upplýsingar úr stjórnkerfinu um yfirvofandi hrun til að koma eignum sínum í skjól.

Geir Haarde er sakaður um vanrækslu sem æðsti valdamaður landsins síðustu mánuðina fyrir hrunina.

Ekki ætla ég að fullyrða neitt um sekt eða sakleysi; það er sem betur fer annarra að ákveða það.

En það er athyglisvert að í báðum tilfellum er lögð firnamikil áhersla á að vísa málunum frá með einhverjum ráðum.

Lögmaður Geirs Haarde hefur ítrekað farið fram á frávísun, og þegar það dugði ekki nema til hálfs, þá fór Bjarni Benediktsson af stað með þingsályktunartillögu sína.

Ég hef haft ríka tilhneigingu til að hafa samúð með Geir Haarde, vegna þess að ég tel að ákæra hefði átt fleiri en hann einan. En hann var þrátt fyrir allt kafteinninn á þjóðarskútunni, og ef hann fer ekki að takast á við ákæruatriðin öðruvísi en reyna að fá þeim vísað frá, þá kortast kannski eitthvað sú samúð.

En svipað er upp á teningnum með Baldur Guðlaugsson.

Hann hefur mikið reynt að fá málinu gegn sér vísað frá.

Nú hefur verið skrifuð heil bók sem virðist eiga að sýna fram á að Baldur hafi rétt fyrir sér.

Ekki að hann sé saklaus af ákæruatriðunum, heldur að vísa skuli málinu frá.

Því Baldur sé fórnarlamb hins argasta óréttlætis.

Sjá hér.

Nú er ég ekki lögfræðingur, sem betur fer.

En ég þykist samt sjá í hendi mér að forseti lagadeildar Háskóla Íslands hljóti að vera á hálum ís þegar hann heldur því fram að réttarregla, sem kveður á um að ekki verði ákært og dæmt tvisvar í sama málinu, gildi um Baldur Guðlaugsson.

Baldur var tvisvar tekinn til rannsóknar. Það er allt annar handleggur. Ef ekki má tvisvar rannsaka mál, þá er satt að segja undarlega komið fyrir réttarfarinu.

Þá gætu óprúttin stjórnvöld til dæmis stundað það að hefja málamyndarannsókn á óheiðarlegum stuðningsmönnum sínum, látið svo fella rannsóknina fljótlega niður og þar með væru stuðningsmennirnir lausir allra mála að eilífu!

Það segir sig bara sjálft að slíkt gengur ekki.

Og skrýtið að Róbert Spanó skuli komast að þessari niðurstöðu.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 13.1.2012 - 11:04 - FB ummæli ()

Vonirnar sem ekki rættust

Þær miklu vonir sem margir – og þar á meðal ég – bundu við Barack Obama í embætti Bandaríkjaforseta hafa ekki ræst ennþá.

Vissulega er stjórn Obama mun skapfelldari en stjórn Bush var, en þó hefur alls ekki nógu margt breyst til að hægt sé að tala um að vonir hafi ræst.

Hann hefur til dæmis ekki lokað fangelsinu í Gvantanamó á Kúbu þar sem föngum er haldið án dóms og laga.

Því hafði Obama þó lofað hátíðlega fyrir kosningarnar 2008, ef ég man rétt.

Amnesty International hefur nú hafið undirskriftasöfnun um veröld víða, til að hvetja Obama til að loka þessu fangelsi sem brýtur í bága við öll þau mannréttindasjónarmið sem Vesturlönd þykjast þess umkomin að veifa framan í fólk í öðrum heimshlutum.

Undirskriftasöfnunina er að finna hér.

Ég hvet alla til að skrifa undir. Sama hvar menn telja sig standa í pólitík. Mannréttindi eru ekki flokkspólitísk.

Íslenski textinn sem fylgir er svohljóðandi:

„Fyrstu einstaklingarnir voru fluttir í varðhald í Gvantanamó þann 11. janúar 2002. Síðan þá hefur varðhaldsmiðstöð Bandaríkjamanna þar verið í deiglunni vegna mannréttindabrota á föngum.

Enn er 171 einstaklingur í haldi í Gvantanamó. Flestir þeirra hafa aldrei verið ákærðir fyrir glæp og vita ekki hvort nokkurn tíma verður réttað yfir þeim. Þeir, sem ákærðir hafa verið, munu sæta óréttlátum réttarhöldum hjá hernefnd. Jafnvel verður hægt að færa þá, sem hernefndin telur saklausa, aftur í ótímabundna varðhaldsvist.

Þetta brýtur gegn alþjóðlegum mannréttindalögum. Þessu verður að ljúka núna.

Skrifaðu undir og hvettu Barack Obama, Bandaríkjaforseta, til að binda enda  á ótímabundna varðhaldsvist í herstöð Bandaríkjamanna í Gvantanamó á Kúbu.“

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 11.1.2012 - 09:28 - FB ummæli ()

Ábyrgð

Ég held ég verði að taka undir með Bergsteini Sigurðssyni skríbent Fréttablaðsins í þessari grein hér.

Það er mjög undarlegt hvernig vandamál Reykvíkinga í hálkunni og ófærðinni undanfarið hafa snúist upp í gagnrýni á borgaryfirvöld.

Ég hef ekki orðið var við annað en viðbrögð borgaryfirvalda hafi verið ósköp hefðbundin og fyllilega sómasamleg við þær aðstæður sem ríkt hafa undanfarna daga.

Og hafa vissulega verið ansi leiðinlegar og erfiðar.

Vitanlega á ævinlega að gera strangar kröfur til yfirvalda, en samt verður hver að endingu að bera einnig ábyrgð á sjálfum sér.

Ég tek undir með Bergsteini hér:

„Í fljótu bragði sé ég þrjá kosti í stöðunni: Látum borgina leigja fjölda stórtækra vinnuvéla sem hreinsa allar götur og stíga borgarinnar á einum til tveimur dögum og hækkum lögbundin gjöld til að koma til móts við kostnaðinn. Ekki? Jæja, tökum pening úr einum þætti grunnþjónustunnar, til dæmis sorphirðunni eða leikskólunum, og notum til að greiða götu okkar í mestu snjóþyngslunum. Ekki heldur?

Gott og vel, hvað um þetta: Reddum okkur. Að minnsta kosti rétt á meðan mesta fannfergið gengur yfir. Sýnum fyrirhyggju, varkárni, tillitssemi og samkennd í umsvifum okkar og samneyti við annað fólk næstu daga. Hættum að ætlast til þess að gröfukarl frá borginni bjargi okkur eftir hentugleika. Söndum planið sjálf, skiljum bílinn eftir heima, kaupum mannbrodda, skjótumst út í búð fyrir gömlu hjónin á efri hæðinni.

Þorri þjóðar sem hefur setið föst í sömu hjólförunum í þrjú ár situr nú í orðsins fyllstu merkingu fastur í sömu hjólförunum í nokkra daga. Það er kaldhæðnislegt en um leið kannski ágæt áminning um að besta leiðin til að takast á við vandann er að byrja að haga sér eins og fólk.“

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 10.1.2012 - 18:48 - FB ummæli ()

Galdrafár eður ei

Ég nenni sjaldnast orðið að taka mjög sterkt til orða. En manni getur nú blöskrað. Á fundi Viðskiptaráðs í morgun virðist Vilhjálmur Bjarnason formaður Félags fjárfesta hafa líkt skattastefnu íslenskra stjórnvalda við galdrafárið á miðöldum þegar fjöldi manns var brenndur á báli.

Sjá hér.

Ég hef löngum borið virðingu fyrir Vilhjálmi sem oftast er maður fyrir sinn hatt. En þessi samlíking er út í hött. Gjörsamlega út í hött.

Vonandi veit Vilhjálmur meira um sín fjárfestafræði en hann virðist vita um galdraofsóknirnar í Evrópu og hvað þá á Íslandi.

Og að líkja skatti á auðmenn við það þegar fólk var pyntað og síðan brennt á báli, það lýsir firrtu hugarfari, þar sem krónur og aurar eru ígildi lífs.

 

– – – –

Vilhjálmur Bjarnason hafði samband við mig í framhaldi af þessari færslu og við áttum hinar bestu samræður um málið. Ljóst er að samlíking hans milli skattheimtu og galdrafárs var engan veginn jafn einföld og fyrirvaralaust og frásögn Viðskiptablaðsins gaf til kynna. Því er tónninn í færslu minni líklega alltof afdráttarlaus og reiðilegur!

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 7.1.2012 - 22:12 - FB ummæli ()

Dýpra oní skotgrafirnar

Eyjan skýrir hér frá því að von sé á vantrauststillögu gegn ríkisstjórninni þegar þing kemur saman.

Nú er það vitaskuld í alla staði heimilt að treysta ekki þessari ríkisstjórn.

En stöðugar vantrauststillögur finnst mér vera að verða skot út í loftið.

Væntanlega stendur stjórnin af sér vantrauststillöguna, en naumlega þó. Og hverju verðum við þá bættari?

Svosem engu, nema að í ákveðinn tíma á eftir grafa stjórnmálamenn sig dýpra oní skotgrafir sínar – í stað þess að mætast á einskis manns landinu og reyna að vinna saman.

Stjórnlagaráð leggur til breytingu á reglum um vantraust sem ég held að mikil bót væri að.

Samkvæmt tillögu stjórnlagaráðs verður ekki hægt að leggja fram vantrauststillögu á forsætisráðherra nema jafnframt fylgi sögunni hver vantraustsmenn telji að ætti að taka við.

Þarna gengum við stjórnlagaráðsmenn í smiðju til ýmissa gamalreyndra lýðræðisríkja í nágrannalöndum okkar.

Hugmyndin er sú að vantraust verði ekki lagt fram nema í fullri alvöru.

Ef vantraustsmenn hafa tilbúinn kandídat sem þeir telja að minnsta kosti einhverjar líkur á að gæti sest í stól forsætisráðherra.

Vantrauststillögur væru sem sé ekki marklitlar Morfís-æfingar, heldur alvöru tilraunir til að breyta um stjórn og stjórnarstefnu.

Þessi tillaga, eins og margar fleiri í stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs, held ég væri mjög til bóta.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 4.1.2012 - 12:55 - FB ummæli ()

Svokallaðir húmoristar?

Forystumenn Sjálfstæðisflokksins eru skrýtnir.

Þeir voru við stjórnvölinn á Íslandi samfleytt frá 1991 og undir þeirra stjórn varð fyrst það „góðæri“ sem reyndist vera bóla, og síðar hrunið.

Og meðan þeir stýrðu landinu spratt upp allskonar illgresi spillingar og krókamaks.

Þetta ættu sjálfstæðismenn að viðurkenna.

Við getum aðhyllst hitt og þetta úr stefnu Sjálfstæðisflokksins og kunnað að meta margt og mikið sem flokksmenn hafa gert gegnum tíðina, en þetta er nú samt staðreynd og það þýðir ekki fyrir forystumenn Sjálfstæðisflokksins að láta eins og það sé bara eintómur áróður illra andstæðinga þegar bent er á hvar flokknum skjöplaðist á siðferðissviðinu síðustu tvo áratugina.

En það virðist vera orðin opinber stefna forystumanna Sjálfstæðisflokksins.

Láta eins og ekkert hafi gerst.

Tala um „hið svokallaða hrun“.

Sem svo hafi bara verið vondum útlendingum að kenna – og svo Samfylkingunni!

Þar eru sjálfstæðismenn núna á vegi staddir í uppgjöri við sjálfa sig að þeir telja sér sæma að verða móðgaðir þegar gárungar henda gaman að þeim í Áramótaskaupinu.

Sjá hér.

Ja, hugsa sér!

Íslenskt samfélag í sárum eftir 20 ára stjórnartíð þeirra – og svo verða þeir ægilega sárir þegar þeir fá á baukinn í Áramótaskaupinu!

Horfast í augu við hlutina? – neeeeeeei, það eru bara vondir húmoristar að ráðast á flokkinn góða.

Örugglega svokallaðir húmoristar.

En ætli sé þá ekki best að rifja upp atriðið þeirra í Skaupinu sem oftast?

Athugasemd, vegna upphafsins á atriði Áramótaskaupsins – það er náttúrlega ekki rétt að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hafi fengið einhverjar stórar summur afskrifaðar eins og þarna er fullyrt, heldur er þar í raun verið að vísa til eiginmanns hennar sem starfaði í einum hinna föllnu banka. Rétt skal að sjálfsögðu vera rétt.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 3.1.2012 - 11:41 - FB ummæli ()

Hvar eru dæmin?

Evrópusambandið, eigum við að tala um Evrópusambandið?

Menn segja að það skerði fullveldið að ganga í Evrópusambandið, og vafalítið er það rétt. Í staðinn fá menn að vísu aukin tækifæri til að hafa áhrif á ákvarðanir um málefni sem sig snerta – en látum þá umræðu bíða.

Viðurkennum bara að innganga í Evrópusambandið skerði á sinn hátt fullveldi.

En þá langar mig að vita – getur einhver nefnt mér dæmi um að einhver þeirra tæplega 30 þjóða sem eru í Evrópusambandinu hafi talið sig bera skarðan hlut frá borði vegna þessarar skerðingar á fullveldi?

Hefur einhver tapað fjárhagslega, efnahagslega og peningalega á því að taka þátt í samstarfi Evrópusambandsins?

Hefur einhver sætt raunverulegri kúgun?

Pólitískri, félagslegri, menningarlegri?

Ég spyr, af því að ég þekki engin dæmi um þetta – en einhverjir einbeittir andstæðingar ESB hljóta að hafa þau á hraðbergi.

Hvar eru dæmin um hinn skarða hlut og þau illu kjör sem samstarf Evrópusambandsins hefur í för með sér fyrir einstaklinga og þjóðir?

Hvar eru dæmin um kúgun og yfirgang?

Og hvar eru dæmin um að Evrópusambandið hafi rænt auðlindum þjóða?

Ég er að biðja um raunveruleg málefnaleg svör og hvet til duglegrar umræðu um þetta – vitanlega undir merkjum hinnar fyllstu kurteisi!

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 2.1.2012 - 11:01 - FB ummæli ()

Slakið á!

Vefmiðlar eru þegar byrjaðir að birta skoðanakannanir um hverjir gætu orðið forseti Íslands.

Ég ætla að biðja þá þess lengstra orða að slaka á.

Það er hálft ár þangað til kosningar fara fram.

Tilhugsunin um stöðugar fréttir í hálft ár um þetta embætti og þrotlausa kosningabaráttu er lítt bærileg.

Leyfum fólki að hugsa það í ró og næði hverja það gæti hugsað sér í þetta starf.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 1.1.2012 - 13:33 - FB ummæli ()

Meira

Ólafur Ragnar Grímsson ætlar ekki að bjóða sig fram til forseta í fimmta sinn.

Ekki þó til að setjast í helgan stein.

Heldur til að taka MEIRI þátt í þjóðfélagsumræðunni.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 30.12.2011 - 17:46 - FB ummæli ()

Burt með ráðherrana

Einu sinni voru til starfsheitin „hjúkrunarkona“, „fóstra“ og „flugfreyja“.

Eins og augljóst má vera af orðunum voru eingöngu konur í þessum stéttum.

Svo fóru tínast einn og einn karlmaður í þessi störf, og þá varð kvenleiki orðanna til vandræða.

Það sér það hver maður að það var engin leið að fúlskeggjaður karl með typpi og allt kallaðist „hjúkrunarkona“ í símaskránni.

Þá varð til orðið „hjúkrunarfræðingur“.

Á sama hátt urðu „fóstrur“ að „leikskólakennurum“ og „flugfreyjur“ að „flugþjónum“ (sem er opinbert starfsheiti stéttarinnar, þótt konur í flugþjónsstörfum séu vissulega enn kallaðar flugfreyjur).

Þetta gekk átakalítið fyrir sig. Það þótti einfaldlega liggja í augum uppi að karlmenn gætu varla borið mjög kvenlæg starfsheiti.

En sama máli gegndi ekki um ýmis starfsheiti sem gáfu til kynna karlmennsku þess sem starfinu gegndi.

Og alveg sérstaklega var orðið „ráðherra“ talið ósnertanlegt.

Orðið „herra“ felur beinlínis í sér að sá sem ber þann titil er karlmaður. Eigi að síður voru konur þær, sem seint og um síðir fóru að komast til metorða í íslenskri pólitík, skikkaðar til að bera þetta starfsheiti.

Þó engum dytti sem fyrr segir í hug að bjóða hjúkrunarfræðingi af karlkyni upp á að kallast hjúkrunarkona.

Ástæðan fyrir því að allar raddir um að breyta starfsheiti „ráðherra“ hafa verið kveðnar í kútinn er samt vonandi ekki fyrst og fremst karlremba.

Ég held nefnilega tregðan til að skipta um starfsheiti stafi frekar af hrifningu íslenskra stjórnmálamanna á því hvað orðið er belgingslegt og „mikilfenglegt“.

Það beinlínis drýpur af því valdhrokinn.

Ráð-HERRA – sá hlýtur að vera mikill maður!

Sumir halda að orðið „ráðherra“ eigi sér ógnarlangan þegnrétt í tungunni, og þess vegna sé dónalegt að hrófla við því.

En það er ekki rétt.

Undir lok 19. aldar, þegar Íslendingar voru farnir að krefjast aukinnar sjálfstjórnar frá Dönum, þá var ævinlega talað um að landsmenn fengju „ráðgjafa“ til að sinna sínum málum.

Svo þegar heimastjórninni var komið á 1904, þá hét það allt í einu að Hannes Hafstein yrði „ráðherra“.

Ég veit ekki hvort það var Hannes sjálfur sem réði þessu, svo embættisheiti hans yrði tignarlegra, eða hvort íslenskir stjórnmálamenn almennt sameinuðust um að belgja svona út ráðgjafaheitið.

Gaman væri að frétta af því hver fann upp á þessu.

En altént hefur þessi titill – „ráðHERRA“ – alveg áreiðanlega átt sinn sálfræðilega þátt í því að íslenskir ráðamenn, sem komast í þetta embætti, hafa farið að líta á sig sem smákónga sem séu nánast einráðir hver á sínu sviði.

Það er best að breyta þessu.

Því hefur oft verið hreyft en aldrei neitt orðið úr.

Hvernig væri að ganga nú í málið?

Á tungum nágrannalandanna kallast þeir sem gegna ráðherraembættum yfirleitt „þjónar“ („minister“ þýðir þjónn, en það er algengt starfsheiti ráðherra á Vesturlöndum) eða „ritarar“.

Drífum nú í að breyta þessu hér hjá oss!

Forsætisþjónn – fjármálaþjónn – etc. Þetta mun kannski hljóma skringilega í nokkrar vikur eða mánuði, en svo venst það.

Og við græðum annars vegar meiri hógværð þeirra stjórnmálamanna sem eiga vitaskuld að líta á sig sem þjóna okkar, og hins vegar er dregið úr karlrembunni.

Þjónn er vissulega karlynsorð, en það felur þó ekki beinlínis í sér að sá sem gegnir því starfsheiti sé með typpi eins og raunin er um ráðherrann.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!