Föstudagur 16.12.2011 - 11:15 - FB ummæli ()

Réttarfarið er ekki jólagjöf

Ég vona að ég sé ekkert átakanlega illa innrættur maður.

Og pólitískur ofstækismaður er ég ekki.

Þó er ég þeirrar skoðunar að Geir Haarde eigi að svara til saka fyrir Landsdómi og það væri beinlínis fáránlegt ef Alþingi reyndi nú að hlutast til um að draga ákæruna gegn honum til baka.

Ástæðan er ekki persónuleg eða pólitísk heift mín í garð Geirs Haarde eða Sjálfstæðisflokksins.

Ég var því eindregið fylgjandi að fleiri en Geir færu fyrir landsdóm.

Og fólk úr fleiri flokkum.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Árni Mathiesen og Björgvin G. Sigurðsson áttu öll að standa þar með honum.

Og helst hefði ég viljað fá eldri ráðherra líka fyrir dóminn – ekki síst þá Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson.

Ekki vegna þess að ég væri endilega viss um að allir þessar ráðherrar yrðu dæmdir sekir.

Sumir þeirra hefðu eflaust verið sýknaðir, kannski allir, hvað veit ég?

En meðan við erum með í lögum ákvæði um ráðherraábyrgð, hvenær á þá að nota þau lög ef ekki við algjört skipbrot þjóðarskútunnar eins og haustið 2008?

Það hljómar eins og afar þunnur brandari að vera með slík lög, en telja ekki ástæðu til að láta á þau reyna í tilfelli sem þessu.

Það hefði því átt að senda fleiri ráðherra en færri fyrir landsdóm til upplýsa um aðdraganda hrunsins í eitt skipti fyrir öll, og komast að því hvort eitthvað við aðgerðir eða aðgerðaleysi ráðherranna væri beinlínis refsivert samkvæmt lögum.

Ég er vissulega veikur fyrir röksemdum um að úr því Alþingi heyktist á að draga aðra ráðherra en Geir Haarde fyrir dóm, þá sé kannski ekki ýkja sanngjarnt að hann standi þar einn.

En mér finnst samt – einkum úr því sem komið er – skárra að sú verði niðurstaðan en að ákæran verði dregin til baka af einhvers konar vorkunnsemi með Geir Haarde, sem okkur þykir öllum þrátt fyrir allt svolítið vænt um.

Og er það – þegar öllu er á botninn hvolft – svo óeðlilegt að hann svari einn fyrir gjörðir ríkisstjórnar sinnar?

Þegar skip strandar fer skipstjórinn oftar en ekki fyrir sjórétt, og það þykir ekki tiltökumál. Málið er bara rannsakað, og svo kemur niðurstaða.

Það eru engar undirskriftasafnanir um hve óréttlátt sé að skipstjórinn einn standi fyrir máli sínu, en ekki vélstjórinn eða bátsmaðurinn.

Og ég verð að segja að framgangsmáti þeirra, sem nú ætla með þingsályktunartillögu rétt fyrir jólaleyfi að draga ákæruna gegn Geir til baka, þykir mér afar ógeðfelldur.

Þetta virðist eiga að vera einhvers konar jólagjöf handa Geir – sem hefði þó áreiðanlega á sínum langa þingferli aldrei tekið önnur eins vinnubrögð í mál.

Eða aðra eins fljótaskrift.

Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða, sem snertir einhverja mestu atburði Íslandssögunnar á seinni tímum, sem snertir líka afar djúpskreiðar spurningar um ábyrgð ráðamanna á gjörðum sínum, og hér er um að ræða mál sem snertir innsta eðli samskipta hinna ólíku greina ríkisvaldsins.

En Bjarni Benediktsson og félagar ætlast til að það verði afgreitt á einum degi sem jólagjöf handa Geir, bara af því hann er svo vænn maður.

En málið snertir réttarfar og réttlæti í landinu og það má ekki vera jólagjöf handa einum manni.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 15.12.2011 - 13:29 - FB ummæli ()

Lífið er skemmtilegt

Hvað eru menn stundum að tuða um að lífið sé leiðinlegt?

Það er þvert á móti mjög skemmtilegt.

Áðan sendi ég tölvupóst með ákveðnu erindi til manns nokkurs.

En af því ég hef áttað mig á því gegnum tíðina að hann les tölvupóstinn sinn ansi stopult, þá hringdi ég á vinnustað mannsins og spurði hvort símastúlka þar gæti haft samband við hann og beðið hann að kíkja snöggvast á tölvupóstinn sinn.

Hann reyndist að vísu ekki vera í vinnunni í dag – en hvort hún gæti þá kannski hringt í hann fyrir mig og bent honum á þetta?

En símastúlkan sagði nei.

Hún gæti ekkert verið að hringja í hann. Þaðan af síður sent honum SMS. Svoleiðis væri ekki gert.

Að lokum féllst hún samt á að senda honum tölvupóst með erindinu.

Svo næst þegar þessi ágæti maður lítur í tölvupóstinn sinn, þá sér hann þar póst frá símastúlkunni þar sem hún biður hann þess lengstra orða fyrir mína hönd að kíkja nú sem fyrst á tölvupóstinn sinn.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 13.12.2011 - 17:22 - FB ummæli ()

Viljum við þetta?

Ég er að reyna að stilla mig.

En það gengur stundum illa, til dæmis þegar maður les fréttir eins og þessa.

Katrín Júlíusdóttir ætlar að fara að „lokka“ hingað trúaða Bandaríkjamenn.

Ha?!

Því ekki nuddstofur fyrir ofsatrúaða zíonista? Því ekki sérstakar heilsulindir fyrir íslamista?

Eru trúaðir Bandaríkjamenn einmitt sá hópur sem við viljum tengja við land okkar?

Það hlýtur að vera hægt að fara að tína einhver fjallagrös. Allt annað en þetta!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 13.12.2011 - 10:47 - FB ummæli ()

Evrópusambandið er fínt

Ég skrifaði á Facebook-síðuna mína áðan að mér litist bara nokkuð vel á Evrópusambandið.

Þá birtist einn FB-vina minna og hrósaði mér fyrir góðan húmor.

Hann hefur vafalítið talið þetta vera kaldhæðni – í ljósi þess að Evrópusambandið á nú í ýmsum vanda, og hefur þurft að skjóta á stöðugum neyðarfundum út af evrunni.

En reyndar átti þetta alls ekki að vera neitt fyndið hjá mér.

Mér líst í raun og sannleika nokkuð vel á Evrópusambandið um þessar mundir.

Sambandið er að reyna að laga það sem gallað hefur reynst vera í kerfinu, og skjóta styrkari stoðum undir myntina sína.

Og auka aga og stöðugleika í peningamálum og fjármálakerfi.

Og þó það taki kannski einhvern tíma eru engar líkur á öðru en það takist á endanum.

Og þetta er meira en við erum að gera á Íslandi.

Hér fer ekkert óskaplega mikið fyrir auknum aga, og fjármálakerfið fer sínu fram sem fyrr.

Og það fer nákvæmlega engin umræða hér fram um gjaldmiðilsmál, þótt öllum megi ljóst vera að það dugi ekki lengur að púkka upp á krónuræfilinn okkar sem sífellt kvarnast úr, og engar horfur á að það breytist.

Nei, mér líst bara vel á Evrópusambandið.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 12.12.2011 - 14:38 - FB ummæli ()

Verstu hrunin

Átjánda öldin var einhver merkilegasti tími Íslandssögunnar, en það kemur reyndar ekki til af góðu einu.

Sjaldan hafa fleiri og verri hrun dunið yfir íslensku þjóðina á einni öld.

Litla ísöldn hélt landsmönnum enn í heljargreipum, svo veðurfar var mun verra en við myndum nú telja bærilegt.

Miklar farsóttir gengu yfir – verst var sjálf Stóra bóla í byrjun aldarinnar.

Á ofanverðri öldinni gaus svo í Lakagígum sem hafði í för með sér móðuharðindin og allan þann ólýsanlega hrylling.

Jafnframt þurftu landsmenn lengst af að þola illt stjórnarfar, makráða og spillta yfirstétt og gífurlega misskiptingu auðs.

En á þessari öld voru líka á kreiki allskonar framfaramenn sem reyndu að vísa hinum illa beygðu landsmönnum leiðina til ögn skárri lífshátta.

Nú fyrir jólin koma út bækur um tvo þeirra – en reyndar mjög ólík verk.

Bókmenntafélagið gefur út bók um Ólaf Stefánsson stiftamtmann eftir Jón Sigurðsson. Þetta er gagnlegt og fróðlegt og vel skrifað kver, sem maður vildi þó helst að væri töluvert lengra – svo meira rúm gæfist til að lýsa samtíma Ólafs.

Ólafur varð ættfaðir Stephensenanna, sem voru mestir valdamenn á Íslandi í hátt í öld eftir dag Ólafs. Sonur Ólafs var t.d. Magnús Stephensen etasráð, sem var spaugilega hégómagjarn, eins og margir hinna fyrstu Stephensena, en hann var líka ósvikinn framfaramaður á mörgum sviðum.

Ólafur sjálfur var umdeildur, og sat að lokum uppi með ekki alltof góðan orðstír. Í bók Jóns er reynt að skakka leikinn.

Hin bókin er Gestakomur í Sauðlauksdal eftir Sölva Björn Sigurðsson, verk allt annars eðlis. Það er skáldsaga um framfaramanninn séra Björn í Sauðlauksdal, sem reyndi að kenna Íslendingum að rækta kartöflur og fleira hollt af því tagi.

Sölvi skrifar af miklum tilþrifum, og tekst mjög skemmtilega að draga upp mynd af hugsun og anda átjándu aldarinnar.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 11.12.2011 - 18:41 - FB ummæli ()

Aðhald fyrir dómara

Ég tek heils hugar undir með Jónasi Kristjánssyni í þessari bloggfærslu hér.

Lengi vel þótti ósæmilegt að nefna nöfn dómara í fréttum af niðurstöðum mála. Dómararnir áttu að vera andlitslausir vörslumenn réttlætisins.

Íslenskir dómarar bjuggu sjálfir á fyrri tímum til orðtakið „Ekki tjóir að deila við dómarann“ til að koma í veg fyrir gagnrýni á störf sín.

Ef mér leyfist svolítið persónuleg minning, þá man ég að það þótti afar „djarft“ þegar ég gagnrýndi einhvern dóm í kynferðisbrotamáli í pistli í útvarpinu fyrir eitthvað um 15-16 árum, og nefndi nöfn dómaranna.

Sumum fannst illa vegið að dómurunum með því!

Dómarar eiga að sjálfsögðu ekki að vera í nokkurs konar vinsældakeppni en það er heldur ekki það sem Jónas er að mælast til. Bara að dómarar eins og aðrir í samfélaginu þurfi að sæta eðlilegu aðhaldi.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 9.12.2011 - 15:09 - FB ummæli ()

Hugsi

Heiða Helgadóttir og Guðmundur Steingrímsson kynntu drög að nýjum stjórnmálaflokki í gær. Mér leist bráðvel á það sem ég heyrði af fundinum, nema hvað ég verð að viðurkenna að ég varð svolítið hugsi yfir því að þau munu hafa tilkynnt að þau tvö myndu leiða lista í Reykjavíkurkjördæmunum tveim í næstu kosningum. Nú efast ég ekki eitt andartak um að þau haft fullt erindi á þing, en ættu ekki félagsmenn í hinum ennþá óstofnaða flokki að fá að hafa eitthvað um það að segja hverjir skipa efstu sæti framboðslistanna?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 7.12.2011 - 11:59 - FB ummæli ()

Kúgun? Einelti?

Stóra Vantrúarmálið er þess eðlis að hollast er að halda sig víðs fjarri.

Málið virðist að stórum hluta snúast um einhverja undarlega þrætubók varðandi starf siðanefndar einnar við Háskóla Íslands.

En þar sem Vantrúarmenn eru af mjög svo málsmetandi mönnum sakaðir um einelti, kúgunartilburði, ritskoðun og ofstæki, þá rann mér þó blóðið til skyldunnar að kanna málið svolítið.

Því ég er vitaskuld algjörlega andvígur öllu þvíumlíku.

Upphaf þessa máls liggur í námsskeiði um nýjar trúarhreyfingar þar sem Bjarni Randver Sigurvinsson fjallaði um félagið Vantrú.

Fyrir utan að ég skil ákaflega vel gremju Vantrúar yfir því að vera spyrt saman við trúarhreyfingar (því það er þrátt fyrir allt grundvallarmunur á því að trúa og að trúa ekki), þá verð ég að segja að mér finnst heldur ekkert óeðlilegt þótt Vantrú hafi haft sínar athugasemdir við margumrædda glærusýningu Bjarna Randvers.

Athugasemdirnar koma fram hér, ef einhver nennir að lesa þetta.

Í stuttu máli er mín niðurstaða að mér finnst athugasemdir Vantrúar réttmætar og skiljanlegar. Það þýðir þó auðvitað ekki að þær séu allar 100 prósent á rökum reistar, enda er glærusýning bara beinagrind að því sem fram fer í kennslustund, en þær eru altént svo réttmætar að mér finnst ekkert óeðlilegt við að Vantrú hafi sett þær fram við siðanefnd.

Málið hefur mjög farið að snúast um orðræðu Vantrúarmanna um mótstöðumenn sína, sem stundum hefur verið af groddalegra tagi. En svo ég vitni í sjálfan mig:

Vantrúarmenn virðast hafa talað afar gáleysislega á sínum spjallvef. Sumt var áreiðanlega sett fram í einhvers konar gamni, enda ekki öðrum ætlað. Annað kann að vera til marks um yfirlæti.

En mergurinn málsins er ekki hvað Vantrúarmenn kunna að hafa kjaftað sín á milli, heldur hvað þeir GERÐU. Og þeir lögðu fram kvörtun til siðanefndar. Annað ekki, svo ég viti til.

Og: Það er svo annað mál hvernig siðanefnd tók á málinu. Ég hef hreinlega ekki haft þrek til að setja mig inn í það mál allt, enda er ég aldraður maður og hjartveikur.

En þó menn hafi mögulega aðfinnslur við starf siðanefndar, þá finnst mér það ekki réttlæta að kalla kvörtun Vantrúar einelti og kúgun og ég veit ekki hvað.

Og lýkur hér afskiptum mínum af stóra Vantrúarmálinu.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 5.12.2011 - 19:15 - FB ummæli ()

Tvíburi

Hérna er komin sannkölluð stórfrétt.

Hinn nýi Kepler-sjónauki er búinn að finna þann „tvíbura Jarðarinnar“ sem menn hafa leitað að svo lengi.

Það er að segja reikistjörnu sem er á stærð við Jörðina okkar, og hitastigið bærilegt að okkar skilningi.

Sjá hér.

Reikistjarnan hefur enn ekki hlotið ljóðrænna nafn en Kepler 22-b, en kannski verður breyting á því núna.

Hún er ekki nema tvisvar sinnum stærri en Jörðin, og hitastigið er ekki nema 22 gráður á Celsíus.

Þar gæti sem sagt hæglega þróast líf eitthvað í ætt við það sem við þekkjum.

Því miður vita menn ekki enn hvort um er að ræða gasplánetu eða klettaplánetu, en þar sem Kepler 22-b er í rauninni mjög lítil, þá er líklegast að þetta sé klettapláneta.

Og þar með skyld Jörðinni.

Því miður er plánetan í svo mikilli fjarlægð að við munum auðvitað aldrei komast þangað.

Hún mælist vera í 600 ljósára fjarlægð. Sem þýðir að ljósið á sínum ógnarhraða yrði 600 ár á leiðinni þangað.

En nú er náttúrlega (næstum) búið að sanna að hægt sé að fara hraðar en ljósið …

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 5.12.2011 - 18:14 - FB ummæli ()

Karlmenni?

Í DV í dag má lesa mjög nöturlega frásögn úr hinu svonefnda „skemmtanalífi“ á Íslandi.

Þar segir af karli á öndverðum fertugsaldri sem fer út að kvöldi með kærustu sinni og „pikkar upp“ drukkna táningsstúlku til að flikka upp á hnignandi hjónalíf sitt.

Og fer meira að segja, að því er heimildarmenn blaðsins herma, að væla í barnungri stúlkunni um einhverja hnökra í sambúðinni, og það standi upp á hana að bjarga sambandi þessa ókunnuga fólks.

Með líkama sínum!!

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!