Föstudagur 18.11.2011 - 08:53 - FB ummæli ()

Ekki einu sinni fyndið

„… ítrekað verið vegið að Davíð Oddssyni fyrrverandi formanni okkar og farsælasta forsætisráðherra seinni tíma …“

Þetta sagði Bjarni Benediktsson við upphaf landsfundar Sjálfstæðisflokksins í gær.

„… farsælasta forsætisráðherra seinni tíma …“

Já?

Hrunið er sem sagt hin farsæla arfleifð þessa farsæla manns?

Vitiði, mér finnst þetta ekki einu sinni fyndið.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 17.11.2011 - 08:39 - FB ummæli ()

Merkel og Sarkozy

Hérna er fín grein eftir Jón Orm Halldórsson um Evrópusambandið.

Ég mæli með að fólk lesi hana.

Ég var á sínum tíma eindregið á móti því að Ísland kæmi nálægt Evrópusambandinu.

Eiginlega ekki út af neinu sérstöku – bara þeim „ESB-passar-okkur-ekkert“ staðhæfingunum, sem ég held að búi að baki mestallri andstöðunni við ESB hér á landi.

Án þess að öllu öflugri rök komi til.

Fyrir nokkrum árum skipti ég um skoðun, fyrst og fremst af því ég sá ekkert annað ráð til að losna við skaðvaldinn íslensku krónuna.

Sá skaðvaldur er ábyrgur fyrir mestu lífskjaraskerðingu á seinni tímum.

Ég hef ekkert skipt um skoðun á krónunni. Við verðum að losna við hana til að öðlast hér einhvern stöðugleika.

Undanfarið hefur ESB virst í djúpum vandræðum – og er það auðvitað að vissu leyti.

Í flestöllum ESB-ríkjum hefur samt ekki orðið neitt viðlíka hrun og hér á Íslandi.

Við ættum því ekki að setja okkur á mjög háan hest.

Og þó það hljómi kannski mótsagnakennt, þá hefur velvild mín í garð Evrópusambandsins heldur aukist en hitt síðustu vikur og mánuði á því að fylgjast með sambandinu reyna að leysa vanda ofurskuldugra ríkja innan vébanda sinna.

Sú mynd sem hörðustu andstæðingar ESB hafa stundum dregið upp af sambandinu – að það sé andlitslaus vél gírugra valdapólitíkusa og pappírspésa í Brussel er bersýnilega röng.

Ríku löndin í ESB gætu fyrir löngu verið búin að varpa skuldakóngunum út í ystu myrkur, eða knésetja þau endanlega með peningalegu ofurvaldi sínu.

En ekkert slíkt gerist.

Sambandið reynir að leysa vandann í sátt og samlyndi, þannig að allir geti við unað.

Mér er eiginlega farið að þykja bara vænt um Angelu Merkel og Sarkozy þar sem þau skjótast á hvern fundinn af öðrum og reyna af öllum mætti að leysa málin í friði – án nokkurs yfirgangs eða frekju að því er séð verður.

Það gengur svona og svona – en kemst þó hægt fari.

Á sama tíma situr David Cameron í Bretlandi yfirlætisfullur á hliðarlínunni og þykist yfir þetta hafinn – þó kreppan á Bretlandi sé verri en í ESB.

Að ekki sé nú minnst á ýmsa stjórnmálamenn hér á Íslandi sem þeyta grjóti úr glerhúsi eins og þeim sé borgað fyrir það.

Nei – Angela Merkel og Sarkozy eru mitt fólk.

Hæglát, kurteis, svolítið klaufaleg stundum, engin ofurmenni og þykjast ekki vera það, en vel meinandi fólk.

Þegar að því kemur að Íslendingar greiði atkvæði um hvort við ættum ganga í klúbbinn verða verstu efnahagsvandræði ESB vafalaust að baki.

Við getum þá tekið afstöðu til aðildar óháð því hvort alþjóðlegum fjárfestum finnst Merkel og Sarkozy nógu töff þá og þá stundina eða ekki.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 16.11.2011 - 18:23 - FB ummæli ()

Eitthvað hefur áunnist

Það er guðs þakkar vert hve umræða um einelti og alls konar kúgun og ofbeldi hefur aukist í samfélaginu síðustu árin.

Fyrir það má ekki síst þakka fjölmiðlum. DV hefur þar verið fremst í flokki, en ýmsir aðrir fjölmiðlar – bæði á netinu og annars staðar – hafa líka staðið sig vel.

Maður verður vissulega var við að sumum þykir stundum nóg um, þegar ný og ný eineltismál skjóta upp kollinum – en fjölmiðlar mega ekki láta það draga úr sér kjark við að upplýsa slík mál, þótt stundum sé lýjandi að horfast í augu við sannleikann.

Með því að fjalla stöðugt og einlægt um slík mál er von til þess að einhvern tíma takist kannski að útrýma því hugarfari sem gerir kúgun og einelti mögulegt.

Ég veit ekkert um málefni 13 ára drengsins á Suðurnesjum umfram það sem staðið hefur í fjölmiðlum, en ég held að fjölmiðlaumfjöllun um einelti og ofbeldi síðustu misserin hljóti að eiga sinn þátt í að þetta sorglega mál var að minnsta kosti ekki þaggað niður – eins og hætta er á að gerst hefði í eina tíð.

Því annað eins hefur því miður áreiðanlega gerst einhvern tíma áður, en enginn frétt af því nema níðingarnir og fórnarlömbin. Í mesta lagi að fólk í nágrenninu hafi hrist hausinn en ekki talið gerlegt til að gera neitt – og jafnvel ekki ástæða til.

Það eru þrátt fyrir allt ekki nema sjö ár síðan DV fjallaði um seinfæran mann sem sagður var hafa sætt einelti í sínu næsta nágrenni, sem hefði falist meðal annars í því að menn hefðu gefið honum laxerolíu sér til skemmtunar. Og annað var í þeim dúr.

Þá var blaðið skammað blóðugum skömmum fyrir að fjalla um þetta, sem alls ekkert erindi ætti á prent, og fyrir að þyrla upp moldvirði um saklausa „stríðni“.

Þótt það sé erfitt og sársaukafullt að lesa um grimmileg eineltismál, þá verðum við að hafa hugfast að umfjöllun um þau er þó að minnsta kosti til marks um að þau eru ekki lengur í felum, ekki lengur feimnismál, ekki lengur talin sjálfsögð.

Það hefur þó áunnist.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 16.11.2011 - 09:32 - FB ummæli ()

Að skapa fortíð

Ég man alltaf hvað ég varð undrandi þegar það rann fyrst upp fyrir mér fyrir mörgum hve voldug mannvirki þær hefðu verið, miðaldadómkirkjurnar í Skálholti.

Að þessar stóru timburkirkjur hafi verið reistar hér í alveg timburlausu landi er eiginlega með algjörum ólíkindum.

Ef það verður af byggingu nýrrar miðaldadómkirkju í Skálholti – eins og hér hefur verið boðað – þá ætti eiginlega samhliða að búa til heimildarmynd um kirkjubyggingarnar á miðöldum. Með allskonar nútímatækni má væntanlega myndgera það ótrúlega uppátæki þegar tröllaukin tré voru flutt hingað frá Noregi og dröslað alla leið upp í Skálholt.

Mér finnst sem sé að það ætti að láta verða af þessu. Fyrir utan sögur og bækur verður að viðurkennast að íslensk miðaldamenning skapaði ekki margt eftirminnilegt, svo um að gera að halda því á lofti sem sannanlega var merkilegt á öðrum sviðum.

Það getur verið viðkvæmt mál að „smíða fornminjar“ eins og dæmin sanna, en sé gengið til verks með réttu hugarfari, eins og þarna virðist gert, þá er ekkert athugavert við að gefa framtíðinni áþreifanlega hugmynd um hvernig fortíðin leit út.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 15.11.2011 - 19:47 - FB ummæli ()

Hverju fagnaði umboðsmaður barna?

Áðan heyrði ég á Rás 2 viðtal við formann Sjómannasamtakanna þar sem hann var spurður um hið viðbjóðslega dómsmál sem frá hefur verið greint í dag í fjölmiðlum, og ég hef ekki andlegt þrek til að rekja hér.

Þegar viðtalinu lauk, þá þökkuðu dagskrárgerðarmennirnir á Rás 2 fyrir, og formaður Sjómannasamtakanna sagði kurteislega:

„Það var lítið.“

Og það var rétt hjá honum. Það var mjög lítið á honum að græða í þessu viðtali.

Jú, auðvitað fordæmdi hann sjómennina, en hafði annars mjög lítið um þetta að segja.

Nú veit ég að sem betur fer, þá tíðkast svona viðbjóður eins og á þessu tiltekna skipi ekki meðal sjómanna almennt.

Vonandi er þetta einsdæmi, eða nánast einsdæmi.

En ég hefði nú samt kosið að formanni Sjómannasamtakanna væri aðeins meira niðri fyrir heldur en raun bar vitni í þessu viðtali.

Og má ég svo líka spyrja: Hverju í ósköpunum var umboðsmaður barna að FAGNA í sambandi við þann fáránlega dóm sem níðingarnir á skipinu fengu fyrir illvirki sín?

Sjá hér.

Dómurinn er reyndar óskiljanlegur.

Skilorðsbundin fangelsi fyrir að gera líf lítils drengs að hreinu helvíti í tíu daga samfleytt – því finnst mér ekki ástæða til að FAGNA.

Það sem er lofsvert í þessu máli er að drengurinn og móðir hans skuli hafa haldið því til streitu að kæra. Ég efast ekki um að allur þrýstingur hefur verið á þeim að láta málið niður falla.

Enda málið bara „grín“!!!!

En þau gáfu sig greinilega ekki, og það er líka lofsvert að lögregla og saksóknari hafi komið málinu áfram.

Það verður vonandi til þess að svona hryllingur endurtaki sig ekki.

En umboðsmaður barna ætti að hugsa sinn gang, og það mjög alvarlega, ef svona dómur þykir lofsverður á þeim bæ.

Reyndar minnist ég þess ekki að hafa heyrt hósta né stunu til umboðsmanns barna í mörg herrans ár.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 15.11.2011 - 18:52 - FB ummæli ()

Sjálfstæðisyfirlýsing er ekki ný af nálinni

Veftímaritið Lemúrinn vekur athygli á því að í dag eru rétt 23 ár síðan Palestínumenn lýstu yfir sjálfstæðu ríki. Og þeir fengu meira að segja sitt virtasta ljóðskáld til að skrifa sjálfstæðisyfirlýsinguna.

Þetta er allt saman hér.

Í sjálfstæðisyfirlýsingunni er lýst fögrum hugsjónum. Þær hafa ekki ræst ennþá, bæði vegna hernáms Ísraela, andstöðu stuðningsmanna þeirra og innbyrðis togstreitu Palestínumanna sjálfra. En þetta er fallegt plagg samt, og verður vonandi einhvern tíma að veruleika.

Stuðningur Íslands við sjálfstæði Palestínu hjá Sameinuðu þjóðunum gæti orðið eitt skref í þá átt.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 15.11.2011 - 16:06 - FB ummæli ()

Enn er gasprað

Forstjóri Landsvirkjunar segir að arðsemi Kárahnjúkavirkjunar sé of lág.

Sjá hér.

Þá er aðeins verið að tala um peningalega arðsemi, og umhverfisspjöll ekki reiknuð inn í dæmið, skilst mér.

Ég man eftir fullyrðingum á undirbúningstíma þessarar tröllauknu virkjunar, þar sem einmitt þessu var haldið fram.

Að arðsemin yrði hvergi nærri næg.

Það væri athyglisvert að sjá samantekt á þeim viðbrögðum sem þær fullyrðingar vöktu.

Þær voru taldar vonlausar úrtölur, neikvætt raus og nánast svik við Austfirðinga.

En nú er þetta allt komið á daginn.

Og enn er samt gasprað um álver og stórvirkjanir.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 15.11.2011 - 07:51 - FB ummæli ()

Ég er til í það

Starfshópur á vegum landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytis hefur komist að þeirri niðurstöðu að gangi Ísland í Evrópusambandið þurfi að auka stuðning við sauðfjár- og nautgripabændur.

Á móti komi að matarverð í landinu lækki um þrjátíu prósent.

Þrjátíu prósent!

Ég er til í það.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 13.11.2011 - 17:48 - FB ummæli ()

Pólitíkusar hrunsins enn að gera sig breiða

Það er óhætt að mæla með viðtali Egils Helgasonar við Peadar Kirby í þætti hans í Ríkissjónvarpinu í dag.

Þar sem Kirby fer yfir orsakir og afleiðingar „góðærisins“ á Írlandi annars vegar og Íslandi hins vegar.

Og hrunið sem varð á báðum stöðum, og viðbrögðin við því.

Sumt er skelfilegt líkt.

En annað kemur á óvart.

Eins og Kirby segir sjálfur, þá kom honum mjög á óvart að sjá að alls konar pólitíkusar sátu á fremsta bekk í „góðærinu“ séu enn á fremsta bekk Alþingis Íslendinga.

En tekur vandlega fram að hvað svo sem um Íra megi segja, þá myndu þeir ekki láta bjóða sér slíkt.

Þar væri búið að vísa þeim stjórnmálamönnum á dyr.

„Marginalized“ minnir mig að sé orðið sem hann notaði.

Það þýðir svona nokkurn veginn að setja einhvern út á spássíu.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 13.11.2011 - 16:41 - FB ummæli ()

Berbar

Hérna er prýðileg grein sem Vera nokkur Illugadóttir skrifaði fyrir fáeinum dægrum í það skemmtilega veftímarit Lemúrinn. Og vekur ágæta athygli á því að málefni Miðausturlanda og Norður-Afríku eru gjarnan töluvert flóknari en við teljum, þegar við stimplum alla sem þá búa einfaldlega Araba.

Berbar eru merkileg þjóð með merka og langa sögu, sem teygir sig allt aftur til Júgúrtha kóngs sem atti kappi við þá Maríus og Súlla, og jafnvel lengra aftur.

Mín góða móðir Jóhanna Kristjónsdóttir hefur nú þegar unnið þrekvirki við að kynna Íslendingum hið flókna og spennandi mannlíf Miðausturlanda og Norður-Afríku, sjá til dæmis heimasíðuna hérna.

Og með skrifum eins og á Lemúrnum er fetað í þau fótspor.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!