Mánudagur 5.9.2011 - 11:57 - FB ummæli ()

Þegar Indverjar björguðu okkur

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hefur farinn mikinn í fjölmiðlum undanfarna daga.

Hann skammast út í Evrópuríkið og Evrópusambandið og virðist að fullu kominn á þá skoðun Davíðs Oddsonar og Styrmis Gunnarssonar að hrunið á Íslandi stafi af því að landsmenn hafi lent í „umsátri“ vondra manna frá útlöndum.

Sem betur fer á Ísland þó góða vini sem hafa aðstoðað okkur í þessari kreppu meðan Ameríka lét okkur sigla sinn sjó og Evrópa beindi að okkur „byssum sínum“.

Þessir góðu vinir eru Kínverjar og Indverjar.

Gott að eiga góða vini – annað en hyski eins og Færeyingar, Pólverjar, Norðurlandaþjóðirnar … ekkert af þessu dóti þarna í Evrópu hefur sýnt okkur annan eins vinarhug og Kínverjar og Indverjar.

Mér hlýnaði um hjartarætur þegar ég heyrði forseta vorn lýsa því hve mikils virði það væri og hvað það hefði hjálpað okkur mikið í kreppunni að Kínverjar og Indverjar væru svona ósköp góðir við okkur.

Svo fór ég reyndar aðeins að klóra mér í höfðinu.

Bíddu hvernig birtist nú aftur þessi mikli vinarhug og þessi gífurlega aðstoð sem Kínverjar og Indverjar veittu okkur?

Hm, allt í einu man ég ekki hvernig þeir hafa bjargað okkur upp úr kreppunni sem vondu Evrópuþjóðirnar kölluðu yfir okkur.

Jú, vissulega gerðu Kínverjar við okkur gjaldeyrisskiptasamning, sem var ágætt, en ég held að hafi nú varla skipt neinum sköpum.

Og Indverjar man ég bara ekki til að hafi gert nokkuð skapaðan hlut.

Nema jú, þeir buðu Ólafi Ragnari Grímssyni í heimsókn.

Varla er ÞAÐ hin mikla aðstoð sem hann segir að Indverjar hafi veitt okkur í þrengingunum sem fimbulvetur Evrópuþjóðanna kallaði yfir okkur?

Það hlýtur að vera eitthvað meira, er það ekki?

Ólafur Ragnar!

Viltu skýra út hvað þú meinar?

Mig langar nefnilega líka svo að þakka Indverjum fyrir að hafa linað þjáningar okkar í stríðinu við Evrópu, en ég veit bara ekki alveg hvernig ég ætti að orða þakkirnar.

Viltu útskýra þetta aaaaaaaðeins nánar?

Þú mátt fá pláss hérna á bloggsíðunni minni fyrir skýringarnar.

Því ekki varstu bara að bulla, nei, það getur ekki verið!

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 4.9.2011 - 12:57 - FB ummæli ()

Martröð íbúa miðbæjarins

Ég man alltaf eftir skopteikningu sem birtist í bandarísku blaði nokkru fyrir forsetakosningakosningarnar þar haustið 1980.

Þá áttust við Jimmy Carter forseti og Ronald Reagan.

Carter þótti vera einstaklega ólánlegur á forsetastóli og þótt Reagan yrði síðar afar vinsæll þótti hann ekki sannfærandi frambjóðandi.

Mörgum Bandaríkjamönnum fannst þeir því eins og milli steins og sleggju að sitja uppi með þá tvo í framboði.

Á skopmyndinni var kjósandi að vakna í rúmi sínu og uppgötvaði að á rúmgaflinum sátu tveir stórir og ljótir gammar með hausa þeirra Reagans og Carters.

Og kjósandinn umlaði eitthvað á þessa leið: „Guð minn almáttugur, ég hélt þetta hefði verið martröð! Er engin leið að losna við þá tvo?“

Af einhverjum ástæðum datt mér þetta í hug nú þegar hugmyndir um sjúkrahússkrímslið í miðbæ Reykjavíkur eru að fara af stað aftur.

Það virðist engin leið að losna við þetta tröll, sem mun sporðreisa miðbæinn gjörsamlega.

Þetta hátæknisjúkrahús og flugvöllurinn eru þeir tveir gammar sem sitja á rúmgafli íbúa í miðbæ Reykjavíkur og engin leið virðist að losna við.

Það væri svo margt hægt að gera við þetta svæði – bæta mannlífið í borginni, en í staðinn er bara hugsað um steinsteypu, meiri steinsteypu, mislæg gatnamót og samgöngumiðstöðvar.

Ég ætla að rétt að vona að yfirvöld Reykjavíkur finni þessum ferlíkjum stað annars staðar en akkúrat í miðbænum.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 3.9.2011 - 16:14 - FB ummæli ()

Tveir Norðmenn

Norðmenn sóttu linnulítið í fótboltaleiknum í gærdag en í 87 mínútur hélt íslenska vörnin velli.

Þá slapp annar norski framherjinn í gegn og plataði íslenska markvörðinn, sem felldi hann og það var dæmd vítaspyrna.

Úr henni skoraði hinn norski framherjinn.

Nýlega hefur okkur opinberast sú sorglega staðreynd að í Noregi eru til fasísk öfl sem telja að „heimaræktaðir“ Norðmenn séu á einhvern hátt betri sort en hinir sem eiga einhverjar ættir að rekja spölkorn í burtu.

Í því ljósi er skemmtilegt að skoða hverjir þeir eru, þessir tveir framherjar Norðmanna, sem brutu loks hina þrjóskufullu íslensku vörn á bak aftur.

Sá sem fékk vítið heitir John Carew. Faðir er frá Afríkuríkinu Gambíu en móðir hans úr Guðbrandsdalnum.

Sá sem skoraði úr vítinu heitir svo Mohammed Abdellaou, kallaður Moa. Foreldrar hans eru múslimar frá Marokkó.

Til lukku með sigurinn, Norðmenn!

Hið vestræna fjölmenningarsamfélag er sem betur fer komið til að vera, þrátt fyrir að öfgamenn alls staðar hatist við það.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 3.9.2011 - 12:26 - FB ummæli ()

Hvað átti forsetinn við?

Ólafur Ragnar Grímsson var í viðtali við Ríkisútvarpið rétt í þessu, og var að leggja út af viðtali sínu við Financial Times.

Hann sagði orð sín í viðtalinu hafa verið mikilvæg til að „menn færu ekki í evrópskum miðlum að búa til enn eina sjónhverfinguna gagnvart Íslandi“.

Enn eina sjónhverfinguna?!

Af hverju spurði fréttamaðurinn forsetann ekki hvað hann ætti við?

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 3.9.2011 - 10:42 - FB ummæli ()

Bleiki fíllinn

Á sínum tíma var ég alveg á móti því að Íslendingar gengju í Evrópusambandið.

Eiginlega ekki út af neinu sérstöku, heldur var skoðun mín einn vinkill af „við-höfum-ekkert-þangað-að-gera“ hugarfarinu sem líklega býr í brjósti svo margra.

Ég ber fulla virðingu fyrir því hugarfari, enda var það sem sé lengi mitt hugarfar.

Þangað til einhvern tíma á árinu 2007, ef ég man rétt.

Þá komst ég að þeirri niðurstöðu að við yrðum að fá almennilega mynt.

Krónan væri í reynd óbrúkleg sem gjaldmiðill, hvort sem hún sveiflaðist upp í hæstu hæðir, eins og þá var, eða niður í neðstu myrkur, eins og síðan gerðist í hruninu.

Hún væri jú einmitt óbrúkleg vegna þessara sveiflna.

Og þegar ég fór að íhuga með sjálfum mér hvað við gætum gert til að leysa gjaldmiðilsmálið staðnæmdist ég náttúrlega við evruna.

Við hefðum vissulega gott af því að taka upp evru.

En því fylgdi vitaskuld að ganga í Evrópusambandið.

Og þegar ég fór að hugsa málið sá ég allt í einu ekki hvað var svona hættulegt við það.

Eða hvers vegna „við-hefðum-ekkert-þangað-að-gera“.

Mér sýndist nú einmitt að við hefðum margt þangað að gera. Margir góðir kostir gætu fylgt aðildinni.

Síðan hef ég verið stuðningsmaður þess að Íslendingar sæki um aðild að ESB.

Og héðan af væri afar heimskulegt að leiða ekki aðildarviðræðurnar til lykta af fullri hörku og sóma, og greiða svo atkvæði um hvort aðild hentar okkur.

Ég ítreka að ég ber fulla virðingu fyrir þeim sem vilja ekki aðild að Evrópusambandinu.

Þótt fáeinir þeirra séu vissulega smákóngar sem vilja fyrst og fremst ekki hætta á að glata yfirráðum yfir sínum litlu valdaskikum, þá hafa langflestir andstæðinganna bara einlægar efasemdir um aðildina.

En það væri kjánalegt að ætla að knýja fram ákvörðun um svo veigamikla íslenska hagsmuni, eins og gætu falist í aðild að ESB, án þess að standa frammi fyrir því raunverulega vali sem felst í aðildarsamningi.

Því hvað sem hver segir, og hvernig sem við ímyndum okkur framtíðina, þá stendur eitt vandamál eftir.

Krónan.

Hún er ónýtur gjaldmiðill. Hvað sem hver segir. Það er bara svoleiðis. Hún hefur haft í för með sér gríðarlega lífskjaraskerðingu síðustu ár, og verður áfram stórhættuleg tifandi tímasprengja í samfélaginu.

Stöðugleiki næst aldrei á Íslandi meðan við þrjóskumst við að nota þessa örmynt.

Og það er alveg rétt sem Guðmundur Steingrímsson segir hér að gjaldmiðillinn er sá bleiki fíll sem blasir við okkur öllum, en við erum eiginlega hætt að tala um.

En við VERÐUM að fá nýja mynt – og evran er þá augljós kostur.

Hún er vissulega ekki upp á sitt allra besta nákvæmlega þessa mánuðina, en hún mun þó vafalítið lifa af og eflast á ný.

Eistar tóku upp evru fyrr á árinu, í miðjum þrengingum evrunnar – og eru hæstánægðir.

Við þurfum að útkljá í alvöru það mál hvort upptaka evru og þar með aðild að ESB hentar okkur.

Ef aðild hentar okkur ekki, þá segjum við bara „nei“ í þjóðaratkvæðagreiðslu, og þá liggur það fyrir.

Og þá þarf ekki að eyða næstu áratugum í að rífast um ESB.

En í þessu felst að málið verður útkljáð í samningaviðræðum við Evrópusambandið í Brussel, ekki í bloggstríði á Íslandi.

Eiginlega finnst mér óskiljanlegt að einhverjir skuli nú krefjast þess að Íslendingar verði sviptir möguleikanum á að sjá svart á hvítu hvað ESB-aðild hefði í för með sér.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 2.9.2011 - 11:36 - FB ummæli ()

Hvað er vandamálið?

Núna, þegar í ljós virðist komist að hið ofurslítandi lamandi alltumlykjandi rifrildi okkar um Icesave, hafi verið alveg fullkominn óþarfi, og það vildi ég óska að við hefðum eytt tíma okkar og orku í eitthvað annað …

Núna sem sagt, þegar þetta er komið á hreint …

Ætlum við þá að fara að eyða mörgum mörgum mörgum vikum og kannski mánuðum í rifrildi um hvort Kínverji einn sé þess verður að eiga meirihluta jarðarinnar Grímsstaða á Fjöllum?

Hann mun auðvitað, eins og allir aðrir landeigendur á Íslandi, þurfa að lúta margvíslegum lögum og takmörkunum á því sem hann getur gert við jörðina sína. Og hann mun meira að segja eiga jörðina í félagi við ríkið sjálft, sem þar með getur fylgst grannt með því að hann taki ekki upp á einhverjum dónaskap.

Hvað er vandamálið?

Við verðum að fara að hætta að þrefa.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 1.9.2011 - 11:40 - FB ummæli ()

Samloka með gulldufti

Menn eru dálítið að mæðast yfir því þessar vikurnar að svo virðist sem hrunin á fjármálamörkuðum Vesturlanda fyrir þrem árum hafi ekki haft nógu langvarandi afleiðingar.

Það hafi ekki kennt hákörlum viðskiptalífsins neina góða siði.

Og allt bruðlið og öll geðveikin sem keyrðu allt í kaf séu að fara af stað á ný.

Því til sönnunar má kannski senda á þessa samloku sem breskur kokkur stærir sig af að sé „dýrasta samloka í heimi“.

Hún kostar 110 pund, eða vel rúmar 20.000 krónur.

Og hann segir frá því stoltur í bragði að punkturinn yfir i-ið sé gullduftið sem dreift sé yfir herlegheitin.

Það sé að vísu ekkert bragð af því, en það sé svo ansi hreinsandi!!

Eins og við munum var það stöðutákn íslensku útrásarvíkinganna þegar best (eða verst) lét að éta gull.

Einmitt í stíl við það sem félagar þeirra í Bretlandi gerðu.

Það fer eiginlega hrollur um mann þegar blygðunarlaust gullátið er greinilega að byrja upp á nýtt á Bretlandi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 29.8.2011 - 15:12 - FB ummæli ()

Oní skúffu?

Guðmundur Andri skrifar eina af sínum fínu mánudagsgreinum í Fréttablaðið í dag.

Hana er að finna hér og svo segir Eyjan svona frá henni.

Sem meðlimur í stjórnlagaráði hef ég líka áhyggjur af því að sumir þingmenn vilji helst þegja stjórnarskrárfrumvarpið okkar í hel.

Fyrst og fremst af því þeir geta ekki horfst í augu við að „fólki úti í bæ“ hafi tekist það sem þeim hefur mistekist áratugum saman.

Og það væri synd ef þeim tækist það, því þó ég segi sjálfur frá, þá eru í stjórnarskrárfrumvarpinu margar stórmerkilegar nýjungar sem munu geta mjakað samfélagi okkar til betri vegar.

Enda held ég mér sé óhætt að segja að þeim sem gagnrýna stjórnarskrárfrumvarpið hafi þrátt fyrir allt gengið illa að benda á verulega galla á því – þótt auðvitað séu menn missáttir um einstök ákvæði.

Sem fyrr hvet ég fólk eindregið til að kynna sér frumvarpið á vefsíðunni stjornlagarad.is þar sem líka má lesa ítarlega greinargerð með hverju ákvæði fyrir sig.

Það er eindregin skoðun mín að þjóðin sjálf ætti að fá greiða atkvæði um frumvarpið sem fyrst.

Því rann manni dálítið kalt vatn milli skinns og hörunds þegar þær fréttir bárust sem Guðmundur Andri vitnar til og virtust benda til að ætlun þingforseta væri að stinga frumvarpinu beint oní skúffu.

Einn okkar stjórnlagaráðsmanna hefur að vísu fengið hjá starfsmanni Alþingis þær upplýsingar að fréttirnar hafi kannski verið eitthvað málum blandnar. Fyrir þingforseta hafi vakað það eitt að málið fái þann tíma sem það þarf og þingheimur veitir því.

Forsætisnefnd muni væntanlega leggja frumvarpið fyrir þingið og eftir umræður fari það svo til sjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem kallar líklega til fundar við sig fulltrúa stjórnlaganefndar, fulltrúa stjórnlagaráðs og sérfræðinga. Nefndin muni ennfremur leita álits almennings eins og gert var þegar mannréttindakaflanum var breytt á sínum tíma.

Vonandi fer þetta allt vel. Ég held – burtséð frá minni eigin þátttöku í stjórnlagaráði – að þjóðin þurfi á því að halda að svo mikilvægt verkefni sem ný stjórnarskrá lendi ekki í hökkunarvél hinnar íslensku flokkapólitíkur.

Og reyndar finnst mér að flestu leyti ágætt það sem Róbert Marshall þingmaður segir á Facebook-síðu sinni um málið í dag:

„Mér líst ljómandi vel á tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Hef verið að lesa mig í gegnum þær og gæti vel samþykkt tillöguna nánast eins og hún er. Við höfum hins vegar tíma til að vinna þetta enn betur. Hef lagt það til að málsmeðferðin verði rædd á einum degi í þinginu núna í september; tillögunni verði svo vísað til stjórnlaganefndar (sjömanna nefndin) sem vinni málið áfram, beri breytingar undir stjórnlagaráð (25 manna hópurinn) ef einhverjar eru, tillagan fari í þjóðaratkvæði/skoðanakönnun/netkönnun/þjóðfund, og svo verði flutt frumvarp í þinginu. Svo þarf þingrof og næsta þing þarf að samþykja frumvarpið til að það verði að nýrri stjórnarskrá sem gæti samkvæmt þessu tekið gildi sumarið 2013.“

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 29.8.2011 - 14:34 - FB ummæli ()

Stolnar fjaðrir?

Árni Gunnarsson fyrrum þingmaður hefur sakað Ólaf Ragnar Grímsson um að skreyta sig með stolnum fjöðrum með því að troða upp á Íslandshátíð í Eistlandi, þegar Jón Baldvin Hannibalsson hefði fremur átt að vera þar í aðalhlutverki.

Sjá hér.

Ég er vissulega ekki heitasti aðdáandi Ólafs Ragnars sem finna má á landinu, en þetta finnst mér nú ekki sanngjarnt.

Þarna héldu Eistar sérstaka Íslandshátíð með margvíslegum uppákomum og húllumhæi og buðu forseta Íslands að koma og setja hátíðina.

Hvað átti Ólafur Ragnar að gera?

Segja: „Nei, ég held nú ekki! Ég læt ekki sjá mig en þið skuluð sko bjóða Jóni Baldvin í staðinn.“

Það hefði nú varla gengið.

Hitt er svo annað mál að Jón Baldvin Hannibalsson á allt gott skilið fyrir frumkvæði sitt þegar Eystrasaltsþjóðirnar voru að brjóta sér leið undan hinum deyjandi Sovétríkjunum.

Ég er heldur ekki heitasti aðdáandi hans hér á landi, en í þessu máli stóð hann sig vel. Vafalaust betur en nokkur íslenskur ráðamaður hefur gert á alþjóðavettvangi fyrr og síðar.

Enda veit ég ekki betur en Eystrasaltsþjóðirnar hafi allar gegnum tíðina sýnt honum margvíslegan sóma vegna þessa.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 26.8.2011 - 12:39 - FB ummæli ()

Einn, tveir, þrír, allir í takt!

Þegar ég var ungur voru ungir sjálfstæðismenn stundum með stjálfstæðistilburði gagnvart forystu Sjálfstæðisflokksins.

Þeir voru gjarnan róttækari en hin gamalgróna forysta, og vildu ganga lengra í frjálshyggjuátt.

„Báknið burt!“ og allt það.

En altént virtust þeir ungu sjálfstæðismenn telja sjálfsagt að ekki væru allir alltaf 100 prósent sammála í Sjálfstæðisflokknum.

Núna bregður svo við að núverandi kynslóð af ungum sjálfstæðismenn er svo sauðholl flokksforystunni að hinir ungu krefjast þess að þeir þingmenn sem ekki marséra orðalaust í takt við Davíðsarminn í ESB-málum skuli bara hypja sig úr flokknum.

Eða „íhuga stöðu sína“ eins og það heitir nútildags.

Er ekki dálítið illa komið fyrir sjálfstæðum skoðunum í Sjálfstæðisflokknum?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!