Sunnudagur 10.7.2011 - 22:33 - FB ummæli ()

Fínt!

Ánægjulegt er að Össur Skarphéðinsson skuli hafa komið skörulega fram í heimsókn sinni í Palestínu.

Sjá hér.

Fáar eða engar þjóðir hafa á síðustu áratugum mátt þola aðra eins hörmung og niðurlægingu og þjóð Palestínu.

Sumir Palestínumenn hafa gegnum tíðina brugðist við með hryðjuverkum. Við hljótum að fordæma slíkt þegar það lendir á saklausu fólki, en hryðjuverk eru reyndar alltaf örþrifaráð þrautpíndra þjóða.

Og Palestínumenn sjálfir hafa sætt miklum hryðjuverkum af henni Ísraela og þarf ekki að fjölyrða um það.

Þeir eru minni máttar aðilinn í deilunni fyrir botni Miðjarðarhafs.

Það er fínt að við skulum taka málstað þeirra með afgerandi hætti, eins og mér sýnist Össur hafa gert.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 10.7.2011 - 12:03 - FB ummæli ()

Stjórnlagaráð í fótbolta

Í nótt dreymdi mig stjórnlagaráð í fyrsta sinn, svo ég muni.

Við nefndirnar þrjár í ráðinu vorum í fótbolta, og í hvert sinn sem einhver nefnd skoraði mark fékk hún að setja eina nýja grein í stjórnarskrána.

Þið megið hins vegar treysta því að vinnubrögðin í ráðinu eru töluvert vandaðri en þetta!

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 9.7.2011 - 16:15 - FB ummæli ()

Sorgleg grein

Ég var að lesa grein Þorsteins Pálssonar um stjórnmálaástandið.

Hún birtist í Fréttablaðinu og hér á Vísi.is.

Þetta er afar sorgleg grein.

Ekki í sjálfu sér vegna skoðana Þorsteins og framsetningar.

Ekkert að því.

Þorsteinn er skýr maður, og vísast hefur hann rétt fyrir sér að stórum hluta.

En það sem er sorglegt er sú stjórnmálasýn sem greinin lýsir.

Því ég óttast að hún kunni að vera í grundvallaratriðum rétt.

Hér átti sér stað efnahagshrun, djúp stjórnmálakreppa og maður hefði haldið að fótunum hefði þar með verið kippt undan þeirri óhæfu stjórnmálastétt sem kom landinu á kaldan klaka.

En nei … þarna er í rauninni bara lýst ósköp venjulegu ástandi.

Venjulegu valdastreði hinna venjulegu flokka.

Hvernig líður Sjálfstæðisflokknum? Með hverjum vill Samfylkingin vinna? Hvað er Framsóknarflokkurinn að hugsa? Eru Vinstri grænir einangraðir?

Eitthvað svoleiðis.

Þessi grein hefði – að breyttum fáeinum efnisatriðum – getað verið skrifuð nánast hvenær sem er.

Er allt við það sama? Hefur ekkert breyst?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 8.7.2011 - 23:14 - FB ummæli ()

Óheft net

Þessi frétt hér gladdi mitt gamla hjarta.

Að Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu teldi að skilgreina ætti netaðgang sem mannréttindi og hluta tjáningarfrelsis. Ennfremur að allir „ættu að eiga rétt á að taka þátt í upplýsingasamfélaginu og ríki heims bera ábyrgð gagnvart þegnum sínum að tryggja aðgang að netinu“, eins og segir í nýrri skýrslu samtakanna.

Jafnframt kemur fram að Finnland hafi nú þegar skilgreint netaðgang sem mannréttindi og Noregur sé að íhuga slíkt hið sama. Og fleiri ríki.

Þetta gladdi mig vegna þess að í þeim stjórnarskrárdrögum sem stjórnlagaráð hefur verið að setja saman er einmitt fjallað um netaðgang í mannréttindakaflanum.

Þar segir í drögum að grein um – einmitt – tjáningarfrelsið:

„Stjórnvöld skulu tryggja aðstæður til opinnar og upplýstrar umræðu, svo sem óheftan aðgang að netinu og upplýsingatækni.“

Í mörgum einræðisríkjum heims, og nefnum bara Kína, yrði ákvæði af þessu tagi fagnað sérstaklega. Því þar hafa stjórnvöld lagt sig í líma við að hefta aðgang að netinu.

Til að hefta aðgang fólksins að upplýsingum, þekkingu og frelsi.

En jafnvel í gamalgrónum lýðræðisríkjum hafa ýmis stjórnvöld uppi tilburði til ritskoðunar á netinu, auðvitað alltaf í þágu einhverrar göfugrar allsherjarreglu og siðgæðis, en mjög mikilvægt er að sporna sem ákafast gegn slíku.

Við vonumst eftir mörgum bandamönnum til að koma í veg fyrir minnstu möguleika á slíku hér á Íslandi.

Sumir hafa leikið sér að því að misskilja þessi drög okkar í stjórnlagaráði þannig að þau merki að stjórnvöld skuli tryggja rétt hvers og eins til að hanga á netinu hvar og hvenær sem er og sér að kostnaðarlausu.

Því setji ákvæðið í raun þá skyldu á hendur ríkinu að koma ókeypis háhraðanettengingu í hvert hús, eða eitthvað ámóta.

Þetta er auðvitað ekki meiningin með ákvæðinu, eins og liggur væntanlega í augum uppi.

Í stjórnarskránni verður líka kveðið á um skyldu ríkisins til að halda uppi heilbrigðisþjónustu, en vitaskuld hvarflar ekki að neinum að það eigi að þýða að ríkið skuli koma upp ókeypis spítala í hverju húsi.

Ákvæðið um hinn „óhefta netaðgang“ eru bara ósköp einfaldar, en mjög mikilsverðar, skorður gegn ritskoðun.

Vonandi geta sem flestir verið sammála okkur um það markmið.

Aðrir hafa lýst efasemdum um að rétt sé að nefna orðið „net“ í stjórnarskránni, þar sem engin leið sé að vita nema netið sé skammlíf uppfinning og gæti verið orðið úrelt áður en við er litið.

Við í stjórnlagaráði höfum rætt þennan möguleika í þaula. Til að „dekka“ alla hingað til óþekkta tækni til tjáskipta og upplýsingamiðlunar, sem hugsanlega gæti leyst netið af hólmi, þá höfum við orðalagið „óheftan aðgang að netinu og upplýsingatækni.“

Sérfræðingar okkar í tæknimálum segja okkur hins vegar að það sé í meira lagi ólíklegt að netið sem slíkt verði orðið illilega úrelt innan 25-30 ára, en ég ætla að vona að þá verði búið að endurskoða þá stjórnarskrá sem við í stjórnlagaráði erum (vonandi) að leggja drög að.

Þá er átt við netið almennt, sem rafræna tækni til tjáskipta, en ekki til dæmis veraldarvefinn, sem er allt annar hlutur, og gæti vel verið orðinn úreltur áður en mjög langt um líður.

Þar sem netið er svo mikilvægt núna, og stjórnarskráin er þrátt fyrir allt skrifuð fyrir samfélag okkar núna, en ekki fyrst og fremst fyrir fjarlæga framtíð, þá ákváðum við að nota orðið „netið“ í þessum drögum.

Í því sambandi má geta þess að í núverandi stjórnarskrá er minnst á bæði póst og síma. Hvortveggja má kalla tæki til tjáskipta, rétt eins og netið.

En orðið „net“ er hins vegar ekki heilagt. Ef okkur verður sýnt fram á að það sé líklegra en hitt að netið sjálft, sem tæknilegt fyrirbæri, verði brátt úr sögunni, þá kemur alveg til greina að fella orðið brott og notast eingöngu við orðið upplýsingatækni.

En við munum hins vegar ekki snúa aftur með orðið „óheft“.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.7.2011 - 22:37 - FB ummæli ()

Með hroka

Ekki veit ég hver ráðleggur Lýð Guðmundssyni um það hvernig hann eigi að tala þjóðina á sitt band.

Því það og ekkert annað er hann vitaskuld að gera með grein sinni í Fréttablaðinu í dag.

Og væntanlega hefur hann einhverja vel launaða PR-menn sér til ráðleggingar.

Sé svo, þá ætla ég hér með að veita Lýð Guðmundsson eitt ráð alveg ókeypis.

Ég veit að vísu svo sem ekkert um mál Exista í sjálfu sér, og ætla ekki að tjá mig um þau.

En ég veit að hann talar EKKI íslensku þjóðina á sitt band með því að saka þá fjölmiðlamenn sem skrifa gagnrýnið um hann og hans „ævintýri“ í útrásinni um „illgirni … og mannfyrirlitningu“.

Þaðan af síður er það vænlegt til árangurs að segja rannsóknarmenn vera „hatursfulla ákæruþrjóta“.

Lýður minn.

Það er ágætt ráð þegar maður ætlar að tala til einhvers, að reyna að setja sig stundarkorn í hans spor til að vita hvernig honum líður og hvað sé líklegt til að ná eyrum hans.

Og ef þú hefðir minnstu hugmynd um hvernig fólki á Íslandi líður nútildags, eftir hrunið, þá myndirðu ekki tala svona.

Nema þér sé alveg hjartanlega skítsama.

Eða hálaunuðu PR-mennirnir þínir séu svona slappir.

Fjölmiðlamenn og rannsóknarmenn gera vafalítið sín mistök en hrunið hér á landi er ekki þeim að kenna.

Og ekki heldur það að þú hafir því miður tapað „lunganum af eignum“ þínum.

Beiskja og reiði og gikksháttur eins og birtist í grein þinni í Fréttablaðinu mun ekki vekja samúð með málstað þínum hjá nokkrum manni.

En það verður reyndar æ meira áberandi að svona ætla hrunverjar að haga málsvörn sinni.

Með hroka.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 5.7.2011 - 13:13 - FB ummæli ()

Eitt skref enn

Sumum kann að þykja það svolítið undarlegt uppátæki hjá Baldri Kristjánssyni að upplýsa í líkræðu um kynferðisbrot sem framið var gegn manneskjunni sem hann var að jarða.

En hafði verið framið fyrir 65 árum, og nánast engir vissu um.

Og nú hefur Baldur kært kynferðisbrotið til barnaverndaryfirvalda, því konan var á fermingaraldri þegar brotið var gegn henni.

Málið mun væntanlega ekki fá neina raunverulega umfjöllun þar, enda er víst ekki einu sinni vitað hver níðingurinn var.

Baldur segir frá þessu hér.

Já, þetta er svolítið skrýtið.

En mér finnst þetta gott hjá Baldri. Betra er seint en aldrei, og þessi óvenjulega líkræða er eitt lítið skref enn í þá átt að svæla barnaníðinga út úr myrkrinu sem þeir sveipa um glæpi sína.

Annað skref sjáum við í umræðunni um Landakotsskóla.

Í tilfelli þeirrar konu sem Baldur jarðsetti, þá kom upplýsingin of seint, en einhvern tíma mun barnaníðingum kannski skiljast að þó þeir telji sig eiga alls kostar við sín litlu fórnarlömb, og geti tryggt sér ævarandi þögn og meira myrkur með líkamsburðum sínum og ógnunum, þá mun sú stund koma að þögnin verður rofin.

Og þeir munu standa upplýstir sem þeir níðingar sem þeir eru.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 4.7.2011 - 18:03 - FB ummæli ()

Makalaus lýsing

Pressan birti í dag frétt um merkilega minningargrein sem Páll Scheving Ingvarsson í Vestmannaeyjum skrifaði um látinn vin sinn og félaga, Jóhannes Ágúst Stefánsson.

Minningargreinin birtist hérna í heild á Eyjafréttum.is.

Þetta er makalaus og mögnuð lesning, sem ég vona að sem flestir lesi.

Þessi grein segir okkur meira um lífið á Íslandi en margt gasprið á þjóðhátíðardögum.

Bæði fyrr og nú.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 4.7.2011 - 11:04 - FB ummæli ()

Síðustu forvöð!

Nú er mánuður þangað til stjórnlagaráð lýkur störfum.

Við höfum fengið fjöldann allan af erindum frá fólki og félögum, og höfum tekið afstöðu til þeirra allra með einum eða öðrum hætti.

Auðvitað getum við ekki farið eftir öllu, en hvert einasta erindi er gagnlegt.

Nú þegar lítill tími er eftir, þá er áríðandi að þeir sem ennþá eiga eftir að senda okkur erindi drífi í því hið fyrsta.

Annars er hætta á því að við höfum ekki tíma til að sinna því almennilega.

Endilega sendið erindi á stjornlagarad.is sem allra fyrst.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 3.7.2011 - 15:44 - FB ummæli ()

Töff?

Þegar ég sá um Helgar-Tímann í gamla daga man ég að við skrifuðum langa forsíðugrein um Jim Morrison.

Hvernig skyldu gömlu bændurnir sem enn voru tryggustu lesendur Tímans hafa tekið henni?

Ég held svei mér þá að við Egill Helgason sem unnum saman á þessu helgarblaði höfum aldrei einu sinni hugleitt hvað lesendum kynni að þykja um það sem við vorum að gera.

En þá fannst okkur vera voða langt síðan Jim Morrison dó. Þó voru það þá ekki nema 11 ár.

Í dag eru liðin 40 ár síðan hann dó.

Á sínum tíma þótti eitthvað rómantískt við rokkstjörnurnar sem dóu ungar, en Jim Morrison var 27 ára þegar hann dó.

Ég vona að mér hafi aldrei þótt það í raun og veru.

Það er náttúrlega voðalega lítið rómantískt við að kafna í eigin ælu dauðadrukkinn.

Á unglingsárum hlustaði ég mikið á Morrison og hljómsveit hans, The Doors. Svo hafa komið löng tímabil þar sem mér hefur leiðst þessi músík – en það verður að játast að það er þarna einhver skemmtilegur neisti.

Og Morrison var eftirtektarverður söngvari og performer.

Svo var hann skáld. Hann var vissulega ekkert mjög merkilegt skáld, en hann var skáld samt, og í textum hans bregður fyrir dramatískum og sterkum frösum.

Þeir þýða ekkert alltaf neitt sérstakt, held ég, en sumir þeirra eru … ja, töff. Það er ekkert hægt að orða það öðruvísi.

Ég man ævinlega þegar ég heyrði í Doors í fyrsta sinn. Ég var að fletta plötum í Faco í Hafnarstræti, og fann þar tveggja platna safn með Doors: Weird Scenes Inside the Gold Mine.

Þetta var svona 1975, aðeins nokkrum árum eftir að Morrison dó, sem varð auðvitað banabiti hljómsveitarinnar.

En samt var platan eins og hún kæmi úr öðrum heimi.

Ég vissi að þessi hljómsveit hafði verið til, en þekkti hana að öðru leyti ekki. En af því mér fannst umslag plötunnar flott, þá keypti ég hana og fór með hana heim á Drafnarstíg og setti hana á fóninn í herberginu mínu sem var þá grænmálað og fóninn var af gerðinni Sansui og það lag sem náði mér fyrst var þetta hér:

The Wasp: Texas Radio and the Big Beat.

Svei mér ef þetta er ekki svolítið töff enn í dag.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 1.7.2011 - 14:29 - FB ummæli ()

Friðhelgi náttúrunnar

Stjórnlagaráð hefur lagt fram tillögur að ákvæðum um náttúru og auðlindir Íslands.

Þar segir á einum stað að náttúra Íslands sé friðhelg.

Sjálfsagt munu ýmsir misskilja þau orð, og sumir jafnvel gera sér leik að því að misskilja þau.

Og túlka þau þannig að bannað sé að nýta náttúruna, eða hreyfa við henni á nokkurn hátt.

Sú er að sjálfsögðu ekki raunin, enda er strax í næstu málsgreinum farið að tala um hvernig skuli nýta náttúruna.

Orðið „friðhelg“ þýðir að virða beri náttúruna sérstaklega, en alls ekki að bannað sé að nýta hana.

Þótt þetta verði samþykkt, þá verður eftir sem áður fullkomlega heimilt að reisa vegi, girðingastaura og jafnvel stórar vatnsaflsvirkjanir!

Orðið þýðir bara að verndun náttúrunnar skuli sett einni eða tveimur skörum hærra héðan í frá en hingað til.

En enginn þarf að vera hræddur við orðið „friðhelg“.

Í stjórnarskrá segir líka að eignarrétturinn sé friðhelgur – en samt má takmarka hann á ýmsan hátt og setja honum skorður.

Þannig er náttúran líka friðhelg – en samt má nýta hana, ef það er gert á vitrænan hátt, með verndun að leiðarljósi og sjálfbærni.

Mannréttindi eru líka friðhelg – en þau má líka takmarka á marga lund, ef nauðsyn krefur.

Svo orðin um að náttúran sé friðhelg þýðir aðeins að við ætlum að snúa við því blaði að leika megi náttúruna hvernig sem hver vill í gróðaskyni – en alls ekki að við ætlum að hætta að nýta hana.

Þó nú ekki; við lifum jú á henni, og erum hluti hennar.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!