Bjarni Benediktsson hefur nú á fáeinum dægrum tekið mjög afdráttarlausa og harða afstöðu gegn því að lokið verði við aðildarviðræður að ESB og samningur lagður í þjóðaratkvæði.
Þó hefur meirihluti þjóðarinnar lýst vilja til þess í skoðanakönnunum.
Nú tekur hann ekki einu sinni lengur í mál að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort viðræðunum skuli haldið áfram.
Nei, nú á bara að hætta viðræðum.
Einn, tveir og þrír.
Það þýðir að þjóðin verður svipt því tækifæri næstu 30 árin að komast að því hvort aðild myndi henta okkur.
Og á meðan verðum við hér með okkar ónýta gjaldmiðil og okkar óstöðugleika.
Bjarna er sama – hann hefur tekið eindregið af skarið.
Mjög töff, ha?
Fyrst í DV um daginn, og nú víst í Sprengisandi í morgun.
Skilyrðislaust skal umsóknin dregin til baka.
Nú er Bjarni náttúrlega orðinn svo „einlægur“ (eins og allir vita!), og því er auðvitað einskær dónaskapur að ætla honum einhver undirmál.
En annars myndi óneitanlega hvarfla að mér að hann hefði keypt endurnýjaðan stuðning Davíðsarmsins við sig því verði að herðast allur í ESB-andstöðunni.
Það þýðir þá að hann ætlar að svipta þjóðina þessu tækifæri í 30 ár af því það hentar honum í valdaspili innan Sjálfstæðisflokksins.
Þeir eru alveg þrumu lostnir yfir óvinsældum ríkisstjórnarinnar.
„Því þeir koma að kosningunum með þá hugmynd að stjórnin hafi staðið sig vel – með lítið atvinnuleysi, lítinn ríkissjóðshalla og nokkurn efnahagsbata,“ skrifar Egill.
Og þetta er alveg rétt hjá hinum erlendu fjölmiðlamönnum.
Það er stórfenglega undarlegt að kjósendur ætli nú að fara að refsa ríkisstjórnarflokkunum fyrir starf þeirra síðustu fjögur ár, en verðlauna Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk sem ekki aðeins lögðu grunninn að hruninu, heldur hafa að mörgu leyti staðið fyrir afar óábyrgri og jafnvel ósiðlegri stjórnarandstöðu síðustu árin – með málþófi þeirra og andstöðu við öll mál, jafnt stór sem smá.
Já, það er stórfenglega undarlegt.
Staðreyndin er þessi:
Ég kann að vera afar pirraður yfir því að stjórnarskráin hafi ekki verið kláruð né uppstokkun á fiskveiðikerfinu, argur yfir því að banka- og peningakerfið hafi ekki verið skorið nógsamlega upp, og dapur yfir því að ekki hafi verið skorin upp nógu stór herör gegn spillingu.
En miðað við það óskaplega hrun sem varð hér haustið 2008, þá hefur ríkisstjórnin staðið sig mjög vel.
Það hvarflar stundum að mér að kosningabaráttan þessar vikurnar gerist í einhverju fantasíulandi, sem á ósköp lítið skylt við raunveruleikann.
Og skuldamál tiltölulega lítils hóps hafa hertekið alla umræðubrunna í þessu landi.
Ég er ekki að gera lítið úr vanda þessa tiltekna hóps. Ég tilheyri honum jú sjálfur.
En fyrr má nú vera hvernig öll áhersla er lögð á „leiðréttingar“ fyrir þennan eina hóp.
Á Bylgjunni í morgun heyrði ég Helga Hjörvar frambjóðanda Samfylkingarinnar reyna að útskýra stefnu þess flokks í efnahagsmálum almennt.
Auðheyrt var hins vegar að spyrjendur höfðu fyrst og fremst áhuga á skuldaniðurfellingum. Hver voru tilboð Samfylkingarinnar í þeim efnum?
Helgi útskýrði að flokkurinn vildi hjálpa þeim sem ættu við raunverulega erfiðleika að etja, en ekki endilega lækka húsnæðisskuldir hjá öllum.
Peninga sem til féllu ætti að nota til að styrkja heilbrigðiskerfi, velferðarkerfi og svo framvegis.
Og einkum og sér í lagi ættu Íslendingar að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru, það mundi til dæmis hafa í för með sér mikla lækkun vaxta sem kæmi öllum til góða.
Öðrum þáttastjórnandanum fannst þetta greinilega þunnur þrettándi. Hann benti á að það myndi taka tíma að taka upp evruna.
Og bætti við með nokkrum þjósti:
„Og á meðan sveltur fólk hér á Íslandi.“
Þetta voru hans óbreytt orð.
Og þá fannst mér altso að ég væri kominn á einhverjar fantasíuslóðir, þar sem raunveruleikinn skipti voða litlu máli.
Sko.
Í fyrsta lagi sveltur fólk ekki á Íslandi.
Ég veit að það eru til hörmuleg dæmi um fólk hér á Íslandi sem er svo fátækt að það þarf að velta fyrir sér hverri einustu krónu svo það eigi fyrir mat. Það hvarflar ekki að mér að gera lítið úr þeim sorglega vanda.
En samt. Fólk sveltur ekki á Íslandi. Ekki í þeim skilningi sem lagður er í þau orð í útlöndum, þar sem sulturinn er víða raunverulegur.
Það á ekki að gjaldfella svo orð og hugtök að við hér á Íslandi förum að nota um okkur sjálf sömu orð og við myndum nota um alvöru hungursneyðir.
Allra síst eiga fjölmiðlamenn að ýta undir slíka orðabólgu.
En í öðru lagi – það fólk sem vissulega er fátækast á Íslandi og þarf til dæmis að leita aðstoðar til að eiga fyrir mat, það er nákvæmlega EKKI það fólk sem loftbelgjum skuldaleiðréttinganna er ætlað að gagnast.
Fátækasta fólkið á Íslandi mun ekki verða hótinu betur statt þegar búið verður að lækka skuldir millistéttarinnar og hátekjufólksins um 20 prósent.
Ef það verður þá gert … ef það verður þá hægt.
Samt tekur þáttastjórnandi Bylgjunnar svo til orða að pólitíkus eins og Helgi Hjörvar verði bara að framkalla tafarlausa skuldaleiðréttingu hér og nú, því „á meðan sveltur fólk á Íslandi“.
Margaret Thatcher verður jarðsungin með mikilli viðhöfn á miðvikudaginn kemur. Hún var sem kunnugt er mjög umdeild meðan hún var á dögum og jafnvel eftir dauðann vekur hún deilur. Ýmsir á Bretlandi og víðar hafa nefnilega fagnað dauða hennar á óvenju opinskáan hátt, sem öðrum þykir í meira lagi ósmekklegt.
Eitt af því sem helst einkenndi Thatcher var staðfestan. Hún vék eiginlega aldrei af þeirri leið sem hún vildi fara.
Thatcher bannaði sjálfri sér U-beygjur.
Þessa staðfestu telja stuðningsmenn Thatcher hafa verið hennar mesta kost, en andstæðingarnir eru á því að einmitt staðfesta hennar hafi verið versti ókostur hennar. Hún hafi verið einstrengingsleg og þröngsýn.
Sjálf lagði hún töluvert upp úr því að að rækta orðspor sitt fyrir staðfestu.
Frægustu ræðu sína hélt hún 10. október 1980. Þá hafði hún verið forsætisráðherra í rúmt ár og var byrjuð að losa um höft og reglur á efnahagslífinu. Það vakti miklar deilur, jafnvel innan Íhaldsflokksins, sem Thatcher stýrði, og fyrirrennari hennar Ted Heath og fleiri hvöttu hana til að snúa við blaðinu.
Það er að segja „taka u-beygju“, eins og það er gjarnan orðað á Bretlandi – eða „U-turn“ upp á ensku.
Thatcher svaraði þessum röddum fullum hálsi á flokksþingi Íhaldsflokksins og sagði:
„Við þá sem bíða með öndina í hálsinum eftir þeirri miklu fjölmiðlaklisju, u-beygjunni, hef ég aðeins eitt að segja: Beygið þið ef þið viljið, frúin lætur ekki beygja sig.“
Seinni parturinn er að hluta til orðaleikur á ensku:
„To those waiting with bated breath for that favourite media catchphrase, the ‘U-turn’, I have only one thing to say: „You turn [U-turn] if you want to. The lady’s not for turning.““
Eins og sjá má hér, vakti þetta heilmikinn fögnuð á flokksþinginu:
„The lady’s not for turning“ urðu síðan helstu einkennisorð Thatchers, og þess má geta að á næstu dögum eða vikum koma úr tvær þykkar ævisögur um feril hennar, og vill svo ólánlega til að þær heita báðar „Not for turning“.
Ronald Millar átti frasann sem Thatcher flutti svo með tilþrifum.
Thatcher mun hafa haft nokkuð lunkinn húmor, fremur þurrlegan á breska vísu. Það var samt ekki hún sjálf sem skrifaði þessi orð sem urðu svo afdrifarík sjálfslýsing hennar. Það var ræðuskrifari hennar allt frá 1973, Ronald Millar.
Millar fæddist árið 1919, var í flotanum um tíma í síðari heimsstyrjöld en gerðist svo leikari og fór síðan að fást við leikritun. Hann skrifaði kvikmyndahandrit og leikgerðir, auk sinna eigin leikrita, og gekk ljómandi vel, þótt ekki þyki verk hans rista djúpt. Meðfram fór hann svo að vinna sem ræðuskrifari fyrir ýmsa stjórnmálamenn en er þekktastur fyrir starf sitt fyrir Thatcher.
Hann lést 1999 og hafði þá verið aðlaður.
Millar sjálfur var ánægðastur með orðaleikinn í sambandi „U-turn/You turn“ í ræðunni sem hann skrifaði fyrir Thatcher 1980 og taldi að sá brandari myndi slá í gegn. Hann átti eiginlega ekki von á að frasinn „The lady’s not for turning“ yrði mun langlífari og yrði eins og einkennisorð Thatchers.
Þessi frasi er tekinn úr leikriti sem frumsýnt var árið 1947 og gerist á 15. öld. Höfundurinn var Christopher Fry sem var í hópi vinsælla leikskálda á Bretlandi um og upp úr miðri 20. öld en er nú lítið leikinn. Leikritið heitir „The Lady’s Not For Burning“ og er í ljóðum, eins og mörg verka Frys, þótt ekki sé bragarhátturinn alltaf mjög strangur.
John Gieldgud.
Það er skráð sem rómantískur gamanleikur en fjallar í aðra röndina um eftirköst styrjalda. Meðal persóna er „nornin“ Jennet og stendur um tíma til að hún verði brennd fyrir galdra, en ekki verður af því eins og heiti leiksins gefur til kynna.
Leikrit Frys varð geysivinsælt eftir að það var frumsýnt, leikarinn og leikstjórinn John Gielgud tók það mjög upp á sína arma og lék það oft og lengi. Í dag er reyndar afmælisdagur Gielguds, 14. apríl.
Þrátt fyrir vinsældir leikrits Frys á sínum tíma er hermt að Thatcher hafi ekki áttað sig á að frasinn sem Millar skrifaði í ræðu hennar væri kominn frá öðrum, svolítið breyttur. Hún fylgdist ekki grannt með menningunni, og tilvist leikritsins hafði alveg farið framhjá henni. En hún var ánægð með ræðuna og flutti hana með þvílíkum ágætum að þessi frasi hefur síðan ævinlega verið knýttur við hana.
Hérna má svo sjá örlítið brot úr sjónvarpsútgáfu af leikriti Frys. Þessi útgáfa var tekin upp 1987 og aðal karlrulluna leikur Kenneth Branagh.
Í gær skrifaði ég pistil um uppistandið í Sjálfstæðisflokknum þar sem ég notaðist við líkingamál úr hinni dramatísku Laxdælu.
En í dag, þegar þau Bjarni Benediktsson og Hanna Birna Kristjánsson féllust í faðma á fundi sínum í skólanum í Garðabæ, þá er líklega nær að hugsa til grínleikhússins Commedia dell’Arte.
Konungsbaninn Hanna Birna búin að fela rýtinga sína svo langt uppi í erminni að það er jafnvel hætta á að hún stingi sig á þeim sjálf.
Bjarni búinn að þurrka af sér tárin úr sjónvarpinu og mála á sig flennibros.
En bak við brosið hlýtur hann að hugsa til þingflokksins sem hann á fyrir höndum að stjórna næstu árin.
Hvar voru þingmennirnir í gær?
Þegar formaður þeirra háði sína örlagaríkustu orrustu?
Þá voru þeir allir sem einn í nafnlausum viðtölum í fjölmiðlum, mjálmandi hver upp í annan að nú kæmi ekki annað til mála af Bjarna en að hætta, fyrst hann hafði ljáð máls á því.
Allir stokknir beinustu leið frá borði.
Hann fékk ekki stuðningsyfirlýsingu frá einum einasta.
Hvar var Kristján Þór Júlíusson?
Eða Guðlaugur Þór? Ragnheiður Elín?
Jú, Illugi Gunnarsson kom reyndar fram með stuðningsyfirlýsingu – en jafnvel hann opnaði ekki munninn fyrr en upp úr miðjum degi.
Þau hin voru nafnlaus í gær. Í dag munu þau þyrpast í fjölmiðla og hylla hina „samhentu“ forystu …
En skyldu þau ekki verða ögn skömmustuleg á fyrsta þingflokksfundinum?
Og sigurbros Bjarna þá eilítið farið að stirðna?
En eitt er þó víst í þessu kómidíuleikhúsi Sjálfstæðisflokksins.
Að ansi hreint er Sigmundur Davíð orðinn pattaralegur á fjósbitanum.
Þegar að er gáð, þá hefur flestallt gerst áður – á einn eða annan hátt.
Í Laxdælu segir frá því þegar Bolli Þorleiksson snýst gegn frænda sínum og fóstbróður Kjartani Ólafssyni.
Bolli þykist að vísu lengi tregur til víga gegn Kjartani, heldur lætur sem hann sé bara að fylgja bræðrum konu sinnar. Þeir töldu sig eiga sökótt við Kjartan, ekki síst fyrir öfundar sakir.
Þeir ráðast að Kjartani en Bolli stendur afsíðis í fyrstu.
Kjartan sér auðvitað í gegnum það. Hann veit að Bolla er ekki lengur treystandi.
Altént hvetur hann sinn gamla vin til að taka afstöðu.
„Bolli frændi, hví fórstu heiman ef þú vildir kyrr standa hjá?“
Loks opinberar Bolli hvað hann ætlar sér og snýst með sverð á lofti gegn Kjartani.
Kjartan vill ekki berjast við vin sinn, og sér nú sína sæng uppreidda. Hann kallar til Bolla:
„Víst ætlar þú nú, frændi, níðingsverk að gera, en miklu þykir mér betra að þiggja banaorð af þér, frændi, en að veita þér það.“
Þannig má segja að Kjartan veiti Bolla fyrirfram syndaaflausn fyrir morðið sem hann er í þann veginn að fremja. Í sögunni segir svo:
„Síðan kastaði Kjartan vopnum og vildi þá eigi verja sig, en þó var hann lítt sár en ákaflega vígmóður. Engin veitti Bolli svör máli Kjartans, en þó veitti hann honum banasár.“
Í Kastljósi í gær fjallaði Bjarni Benediktsson um aðförina gegn sér innan Sjálfstæðisflokksins.
Og að þar væru stuðningsmenn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur á ferðinni.
„Útgefandi [Viðskipta]blaðsins er fyrrverandi kosningastjóri hennar og þar eru líka starfsmenn sem hafa starfað fyrir hana … [Þ]að er alveg greinilegt að það eru öfl innan Sjálfstæðisflokksins sem að eru þarna á ferðinni. Ég held að það blasi við öllum, og ég held að ég sé bara að segja það sem allir sjá.“
Með þessu var Bjarni að ögra Hönnu Birnu til að stíga fram – rétt eins og Kjartan hvatti Bolla til að taka afstöðu.
Vildi hún vera svo væn að lýsa yfir stuðningi við formann sinn – eða altént stíga fram í dagsljósið – með sverð sitt!
En á hinn bóginn – rétt eins og Kjartan veitti Bolla syndaaflausn á banastundinni, þá var Bjarni Benediktsson sá drengur að leysa Hönnu Birnu sjálfa í gærkvöldi fyrirfram undan sök í því vígi sem nú fer fram innan Sjálfstæðisflokksins.
„En ég ætla henni hins vegar ekki að vera stýra neinu af þessum toga, alls ekki, ég vil taka það skýrt fram.“
Sagði Bjarni í Kastljósi.
Í Laxdælu þáði Bolli ekki syndaaflausn Kjartans þegar til kom. Hann sá strax eftir verknaði sínum og lýsti víginu á hendur sér.
Slíkan manndóm hafði Bolli þrátt fyrir allt.
Fróðlegt verður að sjá hvort Hanna Birna muni lýsa hinu pólitíska vígi Bjarna Benediktssonar á hendur sér.
Sérstakur saksóknari segir í Fréttablaðinu í morgun að breyta verði sakamálalögum svo ömurlegar málþófsbrellur, eins og þeir telja sér nú sæma að beita, þeir Gestur Jónsson og Ragnar Hall, verði ekki til þess að draga út í hið óendanlega réttarhöld í hrunmálum.
Sem þýðir auðvitað bara að þeir sem kunna að hafa brotið af sér sleppa.
Sérstakur saksóknari notar reyndar ekki orðalagið „ömurlegar málþófsbrellur“ – það eru mín orð.
Gott og vel.
En rétti upp hönd allir þeir sem trúa því að splunkuný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins muni drífa í því á sínum fyrstu dögum að setja slík lög.
Fréttablaðið sýnir Sighvati Karlssyni presti á Húsavík mikinn rausnarskap með því að segja að hann hafi „beðist afsökunar“ í máli Guðnýjar Jónu Kristjánsdóttur.
En hann hvatti hana á sínum tíma til að draga nauðgunarásakanir sínar með einhverjum hætti til baka.
Í fyrsta lagi segist hann bundinn þagnarskyldu um samtal þeirra.
Gagnvart hverjum, með leyfi?
Hún er búin að tjá sig um það.
Síðan segist hann „ekki rengja orð hennar“.
Höfðinglegt af honum, ekki satt?
Þar næst segist hann hafa viljað sýna Guðnýju Jónu stuðning.
„Hafi hún ekki upplifað hann þá bið ég hana afsökunar.“
Þetta er gamalt trix: Ég gerði ekkert ljótt, ef ef ske kynni að einhver hafi hugsanlega skynjað það þannig, þá get ég sosum beðist afsökunar …
Og að sjálfsögðu segir hann að sér hafi „gengið gott eitt til“.
Nema hvað því miður muni hann lítið eftir samtali þeirra, og því viti hann ekki af hverju hann hafi sagt þetta.
Og segir svo orðrétt: „Það er ekki til neins að velta þessu upp.“
Og svo: „Minn vilji var að sýna meintum geranda stuðning.“
Rétt áðan sagðist hann hafa viljað sýna henni stuðning, þótt hann muni reyndar lítið af samtali þeirra og viti ekki af hverju hann sagði það sem hann sagði!
Síðan tekur hann fram að í öllum málum sé mikilvægt að „prestur gæti hlutleysis“.
Ha?
Hlutleysis? Taki sem sagt enga afstöðu þegar annars vegar er um að ræða nauðgara og hins vegar 17 ára stúlku sem hefur verið nauðgað?
Þá á prestur að „gæta hlutleysis“!!
Og fer svo að tala um „meintan“ geranda.
Þá var reyndar búið að dæma nauðgarann sekan, ef ég skildi frásögnina í Kastljósi rétt.
Síðan segist Sighvatur trúa á mátt fyrirgefningarinnar „í úrvinnslu allra mála“.
Þetta hljómar kannski snoturlega, en við þurfum samt að gæta okkar á þessu fyrirgefningartali.
Það er vissulega gott ef fórnarlamb getur fyrirgefið þeim sem brotið hefur á því – en það á alls ekki að gera kröfu um fyrirgefningu á hendur fórnarlambinu.
Fórnarlamb á að fyrirgefa á eigin forsendum og þegar það sjálft er tilbúið – ekki þegar einhver prestur hringir.
Og stundum er bara allt í lagi að fyrirgefa ekki neitt.
En Sighvatur Karlsson hefur ekki sagt sitt síðasta orð í Fréttablaðinu.
„[É]g biðst auðmjúkur afsökunar hafi ég sært einhvern.“
EF ég hef, altso … sært EINHVERN.
Mikið er þetta dæmalaust ómerkileg „afsökunarbeiðni“ … hafi hún verið sett fram sem ég rengi þó ekki en hafi einhver hugsanlega upplifað þessi orð þannig þá man ég bara svo lítið eftir þessu en til að gæta hlutleysis er ég bundinn þagnarskyldu og meintum mér gekk auðvitað gott eitt til …