Föstudagur 8.3.2013 - 12:12 - FB ummæli ()

Já, sko þrjár vikur duga ekki?!

Á fundi í gærkvöldi var Árni Páll Árnason spurður hvort ekki væri gráupplagt að halda þingi áfram eftir páska og nota tímann til að ræða stjórnarskrárfrumvarpið eins og hver vildi. Afgreiða það svo á síðasta degi þings, daginn fyrir kosningar til dæmis.

Árni Páll sagði ææææææ, nei, þótt þinghald yrði lengt í þrjár vikur, það yrði nú ekki mikið vit í þeim umræðum.

Nemlich! Það er búið að fjalla um stjórnarskrármál á Íslandi í 70 ár. Það er búið að semja ótal nefndarálit og frumvörp.

Og nú síðustu fjögur ár hefur verið starfað þrotlaust.

Það er búið að halda þjóðfund. Stjórnlaganefnd sat að störfum. Stjórnlagaráð sat að störfum í fjóra mánuði með hjálp sérfræðinga og almennings. Í eitt og hálft ár síðan hafa þingmenn fjallað um málið, fræðimenn hafa talað, Feneyjarnefndin kom, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur unnið mikið starf – sem og aðrar þingnefndir.

En þrátt fyrir allt þetta starf telur Árni Páll að þriggja vikna stöðugar umræður á Alþingi myndu ekki duga. Það yrði „ekki mikið vit“ í slíkum umræðum.

Skiptir vandaður undirbúningur í fjögur ár engu máli? Mundi þinginu virkilega ekki duga þrjár vikur?

Ég verð að segja: Mér féllust eiginlega hendur andspænis þessu viðhorfi.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 3.3.2013 - 20:01 - FB ummæli ()

Verum meira eins og Sviss!

Í nýju stjórnarskránni, sem Alþingi afgreiðir vonandi innan skamms (þótt auðvitað eigi síðan eftir að setja aftan við hana endanlegan punkt á næsta þingi), þar eru ákvæði um rétt þjóðarinnar til að greiða atkvæði um umdeild lög – og líka ákvæði um að þjóðin sjálf (eða hlutar hennar) geti haft frumkvæði að nýrri lagasetningu.

Þetta eru sem sagt hugmyndir um stóraukið „beint lýðræði“ eins og það er kallað.

Ótrúlegt nokk, þá finnst mörgum þetta mjög hættulegt.

Sem allra minnstar breytingar eigi að gera á okkar gamalreynda fulltrúalýðræði – það geti beinlínis endað með ósköpum ef fólkið sjálft komi of mikið nálægt lagasetningu.

Jesús minn!

Úff – það geti endað með því að Ísland verði eins og Sviss – eins og það sé nú hættulegt!

Í fréttatíma Ríkisútvarpsins áðan var dæmisaga af beina lýðræðinu í Sviss.

Lagt var fram frumvarp af fulltrúum almennings þar sem málshefjendur kröfðust þess að strangar skorður yrðu settar við ofurlaunum, bónusum, starfslokagreiðslum og sjálftöku bankastjóra og kaupsýsluforkólfa.

Og nú var verið að samþykkja þetta frumvarp í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Fulltrúalýðræðið hefði aldrei getað komið þessu máli í höfn.

Að minnsta kosti ekki hér á landi.

„Lögspekingar“ og „real-pólitíkusar“ hefðu nefnilega séð á því alla hugsanlega meinbugi.

Í mesta lagi að formenn stjórnmálaflokkanna hefðu náð í einhverju reyklausu bakherbergi útvötnuðu samkomulagi um hjákátlega útgáfu af þeim hugmyndum sem að baki liggja.

En með hjálp þess beina lýðræðis, sem Svisslendingar hafa lengi brúkað, og með mjög góðum árangri, þá tókst nú að setja þessar hömlur á græðgismenn þar í landi.

Nýja stjórnarskrá opnar á samskonar möguleika hér á Íslandi.

Við skulum ekki vera hrædd við slíkar breytingar.

Og við skulum fyrir alla muni ekki útvatna þær.

Verum alveg óhikað meira eins og Sviss!

Samþykkjum nýju stjórnarskrána.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 2.3.2013 - 13:39 - FB ummæli ()

Hókus pókus pólitík

Kannski er það í rauninni ágætt að helmingaskiptaflokkarnir skuli mælast með dágóðan meirihluta í skoðanakönnunum á þessum tímapunkti fyrir kosningar.

Við þurfum þá ekkert að velkjast í vafa um hvaða ríkisstjórn þeir stefna að.

Og hinir flokkarnir geta þá að sama skapi þjappað sér saman til samstarfs með jarðbundin stefnumál og ábyrga pólitík.

Vonandi sem lengst frá hókus pókus pólitík helmingaskiptaflokkanna.

Hókus, segir Framsóknarflokkurinn og skuldir heimilanna hverfa.

Pókus, segir Sjálfstæðisflokkurinn og hrunið hverfur.

Vandræðaleg fortíð Valhallar gufar upp.

Vafningalausir lærisveinarnir finna að nýju hvítþveginn meistara sinn.

Og Framsóknarflokkurinn finnur aftur Ingólfsson.

Þetta er það sem hinir flokkarnir þurfa að stefna í sameiningu að því að koma í veg fyrir.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 1.3.2013 - 14:36 - FB ummæli ()

Þúsund lemúrar: Castro fær sér pylsu í New York

Veftímaritið Lemúrinn hóf göngu sína 8. október 2011.

Það var óumdeilanlega merkasti atburðurinn þann daginn.

Að minnsta kosti er eini atburðurinn frá þessum degi sem hefur ratað inn á alfræðiritið Wikipedíu að þá hafi Brendan nokkur Dolan unnið eitthvert afrek í heimsmeistarakeppninni í pílukasti sem ég kann ekki að skýra.

Fyrir Brendan Dolan var það ábyggilega mjög merkilegt en fyrir okkur hin er fæðing Lemúrsins á sama degi óneitanlega mun gleðilegri viðburður.

Það voru Vera dóttir mín og Helgi Hrafn Guðmundsson sem stofnuðu Lemúrinn og ritstýra honum, og hafa reyndar að undanförnu fengið nokkra knáa liðsmenn sér til styrktar.

Á Lemúrnum ægir öllu saman, eins og í lífinu sjálfu, en þar er að finna fróðleik um allt milli himins og jarðar.

Um furður og fegurð heimsins og forna tíma og fáránleika og ýmislegt fleira sem ekki byrjar á eff.

Hér er forsíða Lemúrsins – hægra megin eru nokkrar vinsælar greinar og efni þeirra sýna vel hve fjölbreytt efni er að finna á síðunni.

Lemúrinn hefur ekki síst helgað sig birtingu á frábærum ljósmyndum og ljósmyndaseríum.

Hérna eru stórmerkilegar myndir hollensks ljósmyndara frá Íslandi frá því í byrjun fjórða áratugarins, hérna eru umhugsunarverðar myndir frá Reykjavík áttunda áratugarins, og hérna er svo makalaus myndasería frá Taívan.

Því er ég að nefna þetta að nú rétt í þessu var að birtast á Lemúrnum þúsundasta greinin frá því þennan eftirminnilega októberdag.

Og hún er mjög dæmigerð fyrir þetta bráðskemmtilega veftímarit.

Falleg mynd af Fídel Castro að fá sér pylsu í New York.

Ég hvet fólk til að kynna sér Lemúrinn reglulega – þar er alltaf eitthvað skemmtilegt á seyði.

Svo má geta þess að á bókamarkaðinum sem nú er hafinn í Perlunni er meðal annars að finna Svörtu bókina eftir þau Veru og Helga Hrafn þar sem þau fara sínum skemmtilegu höndum um allskonar voðaverk úr sögunni, fornri og nýrri. Þar vantar nú ekki fjörið!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 28.2.2013 - 12:47 - FB ummæli ()

Það sem slagurinn stendur um

Já, ég var að horfa á Hamfarakenninguna eftir Naomi Klein í sjónvarpinu í gær.

Lítið á hana hér – myndin fjallar í stuttu máli um hvernig auðvaldið og krókamakarar í samfélaginu nota sér krísur af öllu tagi til að kasta út græðgisneti sínu, sem kennt er við frjálshyggju.

Sem og til að kveða niður alla sem ógna gróðasókn hinna fáu með kröfum um að fleiri fái að njóta.

Og ef það vantar krísur, þá búa peningaöflin þær bara til. Þótt það kosti jafnvel stríð.

Því þá hefur almenningur um annað að hugsa en verjast framgangi þeirra.

Fyrir hátt í fimm árum reið mikil krísa yfir Ísland.

Þótt við eigum ekki að dvelja um of í fortíðinni, þá er hollt að muna hvernig var þá spáð fyrir okkur.

Málsmetandi menn hvísluðust á um það í skúmaskotum (til að hræða ekki almenning um of) að búast mætti við að tugþúsundir manna flýðu land, jafnvel allt að fimmtungur þjóðarinnar.

Þeir sem eftir sætu væru einfaldlega of fátækir til að koma sér burt.

Búast mætti við 20-30 prósenta atvinnuleysi næstu tvo áratugina.

Og matarskorti, einangrun þjóðarinnar, nær algjöru hruni innviða samfélagsins og svo framvegis.

Kannski voru verstu spádómarnir allan tímann heldur ýktir. En það er samt enginn vafi á því að þetta hefði getað farið mjög illa.

Vissulega var þessi krísa ekki skipulögð af auðvaldsöflunum, þótt þau bæru alla ábyrgð á henni.

En þau fóru samt að reyna að viða að sér vopnum sínum – til að notfæra sér hana í sína þágu.

Byrjuðu smátt – tóku upp gamalt baráttumál um að selja brennivín í matvörubúðum, svo við hefðum þó eldvatn á kvöldin til að hugga okkur við.

Sem betur fer tókst að ýta peningaöflunum úr brúnni á þjóðarskútunni þar sem hún hafði sogast í brimgarðinn …

Og síðastliðið haust, fjórum árum eftir hrun, virtist blasa furðu jákvæð mynd við.

Eftir langa og erfiða niðurleið var stöðugleika náð. Gylfi Zoëga lýsti því yfir að kreppunni væri lokið.

Auðvitað ekki í þeim skilningi að aftur væri runninn sá tími frá 2007 þegar við höfðum það sem „best“. Það er að segja þegar sápukúlurnar flugu sem fagurlegast.

Heldur í þeim skilningi að þaðan í frá lægi leiðin aftur upp á við.

Kannski hægt, en samt ótvírætt upp á við.

Fólksflótti hafði þá stöðvast. Og atvinnuleysið minnkað mikið frá því það var mest, þótt enn sé það vissulega töluvert meira en okkur þykir hæfa.

En ýmsar framkvæmdir á döfinni, svo vonir voru skikkanlegar um að brátt fækkaði atvinnulausum enn.

Skjaldborg hafði verið reist um hag hinna verst settu. (Já, ég þori að taka mér þetta orð í munn!)

Vissulega voru margir fastir í erfiðum skuldum – en ýmis úrræði voru til, og altént virtist hafa tekist að kveða niður áköfustu áköllin á töfralausnir.

Og ríkisstjórnin vann – þrátt fyrir massífan andróður – að einu haldbæru leiðinni í hinum aðkallandi gjaldmiðilsmálum sem ennþá hefur verið bent á, vilji menn hætta að reiða sig á rotnandi hræ krónunnar.

Það er að segja upptöku evru gegnum aðild að Evrópusambandinu.

Menn þurfa ekkert að fá í hnén yfir ESB, en aðrir flokkar hafa einfaldlega ekki lagt fram neina trúverðuga stefnu í gjaldmiðilsmálum, svo það er sjálfsagt að reyna þó þessa leið til þrautar og sjá hvert hún liggur.

Gríðarleg áróðursherferð sægreifanna gegn auknu réttlæti í sjávarútvegsmálum virtist þá runnin út í sandinn – já, það var eiginlega bara hlegið að þeirri herferð undir lokin.

Og í október lýstu tveir þriðju hlutar kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu yfir því að stjórnarskrárfrumvarp sem ríkisstjórnin hafði beitt sér fyrir skyldi verða grundvöllur að nýrri og betri stjórnarskrá Íslands.

Þetta leit sem sagt allt tiltölulega bærilega út.

Verst var að ríkisstjórnin hafði gefið fjármálakerfinu of lausan tauminn við endurreisn bankanna, en það mátti kannski vona að þessi síðasti vetur kjörtímabilsins yrði eitthvað notaður til að setja nokkrar skorður þar á.

En já – þótt margt væri óleyst enn eftir „sjáiði-ekki-veisluna“ sem peningaöflin og pólitískir armar þeirra héldu hér og fór svo rækilega úr böndunum, þá virtist margt stefna heldur í rétta átt.

En núna hálfu ári seinna er öldin önnur.

Núna erum við skyndilega aftur orðin sannfærð um að allt sé í kaldakoli.

Og það sé allt ríkisstjórninni að kenna.

Silfurskeiðarstrákarnir sem stýra pólitískum örmum peningaaflanna standa nú á miðju gólfi þar sem lúið hreingerningafólkið er komið langleiðina með að þrífa eftir partíið og arga að ennþá sjáist ryk útí hornum og slettur á veggjum.

Skuldavandi heimilanna!

Heilbrigðiskerfið í rúst!

Dýrmætum tíma eytt í gæluverkefni eins og nýja stjórnarskrá – fuss, fuss!

Jú, heimilin glíma mörg við óhæfilegar skuldir. Brýnt er að finna frekari úrræði á því sviði. En flokkur sem nú virðist sópa að sér fylgi út á loforð um að „leysa skuldavanda heimilanna“ – hverjar eru hans lausnir? Jú – hann ætlar að stofna starfshóp sem á að taka hálft ár í verkefnið.

Það er nú allt og sumt.

Heilbrigðiskerfið – það er vissulega lítt fyrirgefanlegt af ríkisstjórninni að hafa látið grípa sig í bólinu þar. En margt hefur samt verið ofsagt um þau mál síðustu vikur. Heilbrigðiskerfið er EKKI hrunið, og ekki einu sinni að hruni komið.

Og tíminn þennan síðasta vetur stjórnarinnar hefur vissulega ekki verið nýttur í að setja peningaöflunum skorður.

Það hefði átt að nota tímann betur.

En það læðist samt að manni sá grunur að nú sé verið að búa til krísu, leynt og ljóst.

Líkt og Naomi Klein sýndi fram í myndinni sinni að sumir séu svo flinkir í.

Nú á beinlínis að hrópa niður hreingerningafólkið – partígestirnir eru komnir aftur í sparifötin og iða í skinninu.

Nú síðast kemur í ljós að verðbólga hefur tekið stökk í síðasta mánuði af því kaupmenn hafa velt umsvifalaust út í verðlag mjög hóflegum kauphækkunum starfsfólks síns.

Og þá heitir það enn einn naglinn í líkkistu ríkisstjórnarinnar.

En með leyfi, í hvaða lið hefur meirihluti kaupmanna yfirleitt skipað sér?

Er þeim örugglega kappsmál að hjálpa til?

Og þingmenn stjórnarflokkanna eru skammaðir fyrir að ætla að eyða síðustu dögum þingsins í að ræða nýja stjórnarskrá í stað þess að leysa skuldavanda heimilanna.

En þið fyrirgefið – guð forði okkur frá því að þingmenn „leysi skuldavanda heimilanna“ á nokkrum dögum rétt fyrir kosningar!

Það held ég yrði mynd á því!

En nú erum við sem sagt aftur orðin sannfærð um að hér ríki djúp krísa.

Og hverjir munu græða á því?

Og yfir hvað er verið að breiða?

Frá hverju er verið að dreifa athyglinni?

Jú – frá því sem vel hefur verið gert. Og það er verið – jafnvel meðvitað og markvisst – að breiða yfir þau raunverulegu áhyggjuefni sem peningaöflin hafa af náinni framtíð.

Að hér verði sett lög um réttlátara kerfi í sjávarútvegi.

Og ný stjórnarskrá þar sem ákvæði um auðlindir og upplýsingar munu skerða athafnafrelsi peningaaflanna, og ákvæði um aukin réttindi okkar allra munu leggja þeim skyldur á herðar.

Þetta er það sem slagurinn stendur um.

Ég vona að ríkisstjórnin og þingflokkar standist þrýstinginn og afgreiði sín mál.

Og líka að kjósendur standist þrýstinginn.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 19.2.2013 - 10:46 - FB ummæli ()

Kannski duga ekki sjötíu ár

Jæja.

Nú eru hafnar viðræður stjórnmálaflokkanna um hvort og þá hverju skuli hleypt í gegnum þingið af nýju stjórnarskránni.

Ojá. Það var svosem auðvitað að jafnvel nýja stjórnarskráin endaði í makki og hrossakaupum stjórnmálaflokkanna á Alþingi.

Alltaf skal allt enda með „viðræðum stjórnmálaflokkanna“.

En flokkarnir eru sem kunnugt upphaf og endir allrar hugsunar í þessu landi.

Ljóst virðist alla vega að íhaldsöflin gera sér nú góðar vonir um að þeim muni takast að stöðva nýju stjórnarskrána.

Ég meina orðið „íhald“ vitaskuld ekki bara í flokkspólitískum skilningi.

Andstaðan við nýju stjórnarskrána er vissulega knúin áfram af stórpólitískum öflum, en þau hafa eignast bandamenn víða.

Allt í fína með það í sjálfu sér. Allir hafa rétt á sínum sjónarmiðum og lífsskoðunum.

En í nýju stjórnarskránni eru reyndar ótal ákvæði sem horfa alveg ótvírætt til stórra bóta í samfélaginu.

Jafnt fyrir íhaldsfólk sem annað!

Þau ákvæði lúta að strangari kröfum um réttlæti í samfélaginu, aukin réttindi margvísleg, til dæmis barna, rétt til heilsugæslu, menntunar og jafnréttis; þau lúta að stórauknum kröfum um opnara samfélag, aukið gegnsæi, beinna lýðræði og aukin áhrif kjósenda, skýrari og skilmerkilegri stjórnsýslu á öllum sviðum, mjög auknum kröfum um umhverfisvernd, og þau snúast um auðlindir í þjóðareigu.

Hérna er hið upphaflega frumvarp stjórnmálaráðs, eitthvað er nú þegar búið að breyta því, en þið sjáið hugmyndirnar sem þarna eru á kreiki.

Ekki er þetta nú hættulegt, að mínum dómi – nema kannski auðlindaákvæðið þröngum hópi manna.

En íhaldsöflunum hefur þó lánast svo vel að kveikja tortyggni í garð þessara hugmynda að jafnvel hinir mætustu menn leggja nú sérstaka lykkju á leið sína að koma því sjónarmiði á framfæri að nýja stjórnarskráin virðist helst snúast um að „alls konar fólk“ vilji breyta Íslandi í „nokkurs konar Sviss“.

Kannski var þetta brandari sem ég hef ekki lengur húmor til að skilja. Það verður þá að hafa það.

En með vísaninni til Sviss mun vera átt við aukna möguleika á þjóðaratkvæðagreiðslum um hin mikilvægustu mál. En allar aðrar hugmyndir nýju stjórnarskrárinnar greinilega vegnar og léttvægar fundnar.

Kannski var það alla tíð borin von að sjötíu ár dygðu til að setja okkur nýja stjórnarskrá. Kannski þurfum við að bíða önnur sjötíu ár.

Eða altént eftir því að ný kynslóð komi í landið.

En ég trúi því nú samt og treysti ennþá að þeir þingmenn sem nú sitja á Alþingi muni reka af sér slyðruorðið og afgreiða málið.

Það er vel hægt, og það er skylda þeirra.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 18.2.2013 - 11:01 - FB ummæli ()

Rætin kvenfyrirlitning

Fólk má auðvitað hafa hvaða skoðun sem það vill á verkum Katrínar Jakobsdóttur verðandi formanns VG.

En kvenfyrirlitningin sem birtist í leiðara Morgunblaðsins um hana er svo yfirgengileg að mann setur eiginlega hljóðan.

 

 

Katrín hefur verið ráðherra í fjögur ár, þingmaður jafn lengi, varaformaður VG í tíu ár og var á sínum tíma varaborgarfulltrúi í fjögur ár. Hún hefur því margvíslega reynslu af pólitík, fyrir utan önnur störf hennar.

En þetta smættar Davíð Oddsson fyrrum forsætisráðherra niður í að hún sé „gluggaskraut“.

Fyrirgefið, en þetta er ekki fyndið.

Þetta er bara ógeðsleg kvenfyrirlitning.

Nú ætti að vísu öllum að vera sama um ámátlegar tilraunir Davíðs Oddssonar til að niðurlægja andstæðinga sína í pólitík með ömurlegum fimmaurabröndurum.

Hann er jú löngu kominn fram yfir síðasta söludag.

En hann er nú samt sá maður sem fjöldi sjálfstæðismanna lítur enn á sem leiðtoga lífs síns.

Áhrif hans eru enn mikil, bæði á pólitík Sjálfstæðisflokksins og yfirbragð stjórnmálabaráttunnar sem flokkurinn rekur.

Það væri kannski ráð að spyrja núverandi formann Sjálfstæðisflokksins hvað honum finnist um þennan dóm fyrirrennara síns og aftursætisbílstjóra um stjórnmálamanninn Katrínu Jakobsdóttur.

Er þetta talið olræt í Sjálfstæðisflokki Bjarna Benediktssonar hins síðari?

Svo mætti í leiðinni spyrja Hönnu Birnu að því sama.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 17.2.2013 - 14:05 - FB ummæli ()

Álagsprófið

Vissulega yrði ég fyrir djúpum vonbrigðum ef Alþingi færi nú á lokasprettinum fyrir kosningar að heykjast á því að afgreiða nýju stjórnarskrána, nema þá kannski í einhverju sundurlimuðu formi.

Einkum og sér í lagi nú þegar álit Feneyjarnefndar liggur fyrir og nýja stjórnarskráin fær að flestu leyti alveg ágæta einkunn.

Víkjum að athugasemdum Feneyjanefndarinnar á eftir, en mér finnst mestu varða að álit nefndarinnar hefur í raun slegið út af borðinu langsamlega flestar þær mótbórur sem andstæðingar nýju stjórnarskrárinnar hafa haft uppi síðustu vikur og mánuði.

Andstæðingarnir hafa nefnilega talað eins og ekki standi steinn yfir steini í stjórnarskrárfrumvarpinu, það sé beinlínis þjóðhættulegt og nánast hver einasta grein sé ónýt.

En það margumrædda „álagspróf“ sem svo margir höfðu óskað eftir að lagt yrði fyrir stjórnarskrána hefur nú farið fram – og að stærstum hluta nær hún örugglega prófi Feneyjanefndarinnar.

Því ættu allir að fagna. Þeir sem hafa talað gegn stjórnarskránni á þeim forsendum að hún sé svo illa gerð hrákasmíð og hættuleg samfélaginu ættu að gleðjast yfir því að svo er greinilega ekki.

Og þeir ættu þá bara að setjast niður með stuðningsmönnum stjórnarskrárinnar og einbeita sér að því að laga það sem laga þarf. Það ætti ekki að taka svo langan tíma.

Andstæðingarnir þurfa fyrst og fremst að fara ofan af því hugarfari að nýja stjórnarskráin sé á einhvern hátt sett þeim til höfuðs. Svo er alls ekki. Þessi stjórnarskrá, með öllum sínum umbótum, er líka fyrir þá.

Og mun bæta samfélag okkar allra – það er kjarni málsins.

En víkjum þá að athugasemdum Feneyjarnefndarinnar.

Eru þær „alvarlegar“ eins og hefur verið túlkun sumra?

Stoppa þær málið nú á síðustu metrunum?

Eru þær jafnvel „sprengjur“?

Skoðum málið.

Í fyrsta lagi – mannréttindakaflinn.

Það gleður mig að Feneyjanefndin er í stærstu dráttum ánægð með þennan kafla. Sumir andstæðingar stjórnarskrárinnar hér á landi hafa nefnilega talað eins og þessi kafli væri fullur af óþörfu og hættulegu bulli og heilaspuna.

Svo er alls ekki að mati Feneyjanefndar.

Hins vegar telur nefndin að sitthvað sé óljóst orðað. Það má vitaskuld athuga það. Gegn þessu viðhorfi má þó tefla öðru, sem margir hafa bent á, að það sé bara allt í góðu lagi með að dómstólum verði eftirlátið að túlka sitt af hverju í mannréttindaákvæðunum.

Viðhorf breytist með tíð og tíma og það sé óþarfi að njörva allt niður.

Einkum telur nefndin þó mikilvægt að gerður verði betri greinarmunur á þeim grundvallarmun sem hún segir vera á mismunandi tegundum mannréttina.

Nefndin virðist helst vera að biðja um að mannréttindakaflanum verði á einhvern hátt skipt upp, svo ljóst megi vera að þótt öll mannréttindi séu merkileg, þá skuli sum mannréttindi sett í fyrsta gæðaflokk en önnur vera aftar á merinni.

Skilgreiningin snýst einkum um kostnað, virðist manni.

Hér er vikið að miklu álitamáli mannréttindalögfræðinnar undanfarin ár og áratugi – menn hafa sem sé sífellt verið að víkka út hvað telst til raunverulegra mannréttinda.

Nýja stjórnarskráin er framsækin að því leyti að hún gerir ekki greinarmun á til dæmis tjáningarfrelsi og rétti til heilsugæslu og menntunar. Þó er hún ekki róttækari en svo að flestallt orðalag í henni er komið beina leið úr viðurkenndum alþjóðasáttmálum.

Sem Ísland hefur viðurkennt.

Og þeir hafa nú ekki talist mjög hættulegir til þessa.

Vissulega er ég ekki lögfræðingur. Sá mannréttindalögfræðingur sem ég ber mesta virðingu fyrir hér í heimi segir mér hins vegar að viðhorf Feneyjanefndarinnar að þessu leyti – að aðgreina eigi mismunandi tegundir mannréttinda – sé gamaldags og við ættum ekki að elta ólar við það.

Við ættum að halda okkar framsækna striki.

Ekki draga mannréttindi í dilka.

Um peninga megi fjalla í greinargerð og lögum.

Í því sambandi má setja fram þá almennu athugasemd að það er 99.9 prósent öruggt að á næstu áratugum muni þróun mannréttindalögfræði færast enn frekar í þá átt sem einkennir nýju stjórnarskrána okkar.

Ekki öfugt.

Í öðru lagi segir Feneyjanefndin að það stjórnkerfi sem nýja stjórnarskráin hafi í för með sér sé „fremur flókið“ og hafi í för með sér hættu á þrátefli hinna ólíku valdapóla í samfélaginu.

Ekki „mjög flókið“ eins og sagði á einum stað, heldur bara „fremur flókið“.

Um þetta má margt segja. Þótt undarlegt megi virðast sýnist Feneyjanefndin að stórum hluta vera að lýsa efasemdum um þau atriði sem nýja stjórnarskráin hefur tekið að erfðum úr þeirri gömlu.

Svo sem málskotsrétt forseta Íslands. Og að forseti Íslands sé þjóðkjörinn, en ekki kosinn af Alþingi eins og nefndin virðist telja æskilegt.

Um þetta er fullkominn óþarfi að ræða og einhver hefði átt að segja Feneyjanefndinni það. Á þessum tímapunkti er algjörlega tómt mál að tala um að þjóðin fallist á að afnema málskotsrétt forseta eða láta alþingismenn um að kjósa hann.

Það þarf ekki að eyða tíma nokkurs manns í að ræða það.

Hvað snertir hættuna á þrátefli milli ólíkra valdastofnana, þá held ég að við ættum bara að lifa við þá hættu. Það getur varla orðið verra en lamandi þrátefli pólitískrar baráttu síðustu missera og ára. Lögum endilega orðalag í frumvarpinu ef hægt er, en afgreiðum svo bara málið.

Mér finnst til dæmis afleit hugmynd að taka þennan stjórnkerfiskafla út úr frumvarpinu og geyma hann fram á næsta þing.

Það er algjör óþarfi – og verður ekki til neinna bóta, er ég smeykur um.

Og reyndar finnst mér að stjórnkerfiskaflinn sé kannski sá kafli sem alþingismenn ættu síst af öllu að vera með puttana í.

Þeir eru þar sífellt að véla um sín eigin örlög, leynt eða ljóst, og það er aldrei gott.

Í þriðja lagi gerir Feneyjanefndin vissulega alvarlega athugasemd við ákvæði stjórnarskrárinnar um skipan dómara.

Sem sé að þingmönnum sé ætlað hlutverk við að ráða dómara.

Nefndin segir að Alþingi sé ekki rétti staðurinn til að ræða hæfi dómara og aðferðin sem stjórnarskráin teiknar upp feli í sér möguleika á pólitískum ráðningum.

Þetta síðasta er auðvitað fyndið með tilliti til þess að núverandi skipan mála hefur svo sannarlega haft í för með þrálátar pólitískar ráðningar í dómarastöður, en látum það liggja milli hluta.

Stjórnarskráin gerir reyndar ekki ráð fyrir að Alþingi hafi neitt með ráðningu dómara að gera nema í því tilfelli að forseti Íslands samþykki ekki tillögu ráðherra um dómaraskipan.

Þá fyrst fer málið til Alþingis og þurfa tveir þriðju hlutar þess að samþykkja tillögu ráðherrans til að hún taki gildi.

Mér finnst sjálfsagt að taka athugasemd Feneyjanefndarinnar til skoðunar.

Hugmyndafræðilega er náttúrlega ekkert ógurlega mikið athugavert við að þing ræði hæfi hinna æðstu dómara. Það er gert í Bandaríkjunum, og ég efast um að Bandaríkjamönnum líkaði það vel ef þeim væri sagt að það væri óásættanlegt og hættulegt.

En hitt er rétt að þetta er líklega ekki í samræmi við evrópskar hefðir.

Ég mundi því ekki rífa hár mitt og skegg að neinu ráði þótt þessu væri breytt.

En það ætti altént ekki að kosta mikið málþóf!

Þá eru upptaldar stærstu athugasemdir Feneyjanefndar. Og ég sé ekki annað en það ætti að vera lafhægt að taka tillit til þeirra án þess að það kosti mikinn tíma eða rifrildi, og afgreiða svo stjórnarskrána fyrir kosningar.

Mergurinn málsins er þessi:

Við erum komin með nýja stjórnarskrá sem var samin á góðum tíma og eftir góðan undirbúning. Enda fengu stjórnlagaráðsmenn að njóta þessa mikla starfs sem unnið hafði verið á undan þeim.

Tveir þriðju hlutar kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu lýstu sig ánægða með stjórnarskrána og vildu að hún yrði grundvöllur að nýjum grunnlögum samfélagsins.

Eftir því ber að fara.

Nú hefur stjórnarskráin í öllum stærstu dráttunum staðist álagspróf Feneyjanefndar, og það sem þarf að laga á ekki að þurfa að taka mikinn tíma.

Allt hitt – sem Feneyjanefndin gerir ekki athugasemdir við – ætti að skoðast sem samþykkt, enda hafa margir fremstu lögspekingar og fræðimenn landsins farið þar höndum um.

Það er engin ástæða til að bíða – enda vitum við vel að ef málinu verður frestað, þá verður ekki neitt úr neinu.

Það er heldur engin ástæða til að lima stjórnarskrána í sundur.

Það á að þakka andstæðingum hennar fyrir góðar athugasemdir sem ýmsar hafi komið að gagni, en leggja síðan að þeim að afgreiða málið.

Núna.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 15.2.2013 - 14:24 - FB ummæli ()

Átakanleg saga

Átakanleg var sú saga sem Helgi Seljan sagði í Kastljósi fyrir fáeinum dögum um krapaflóðið á Patreksfirði 1983 og eftirköst þess.

Þar dó sex ára gömul dóttir Guðbrands Haraldssonar. Guðbrandur og fjölskylda hans töldu og telja enn að framkvæmdir sveitarfélagsins hafi orðið til þess að flóðið varð sterkara og hættulegra en ella hefði orðið.

Og þau hafa í þrjá áratugi reynt að fá það viðurkennt.

En kerfið þráast við – og gerir enn.

Ég hvet fólk til að horfa á þessa frásögn úr Kastljósi.

Hún er svo lágstemmd að hún hefur kannski farið framhjá einhverjum – en þarna er á ferð saga sem verður að ráða fram úr.

Það samfélag er ekki mikils virði sem ekki getur leyst úr svona málum þannig að fólk eigi ekki um sárt að binda.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 9.2.2013 - 18:15 - FB ummæli ()

Ótímabært sáttatal?

Ræða Árna Páls Árnasonar formanns Samfylkingarinnar fyrir viku var að mörgu leyti góð. Hann er skeleggur maður.

En var sú áhersla sem hann lagði á frið og sættir ef til vill ótímabær?

Ég vil endilega sættir og frið í sem flestum málum – en jafnvel friðurinn verður ekki keyptur hvaða verði sem er.

Og svo ég vitni í sjálfan mig hér, þá eru við þau öfl að eiga í samfélaginu sem líta á frið og sættir eingöngu sem undirgefni við eigin sjónarmið.

Og hagsmuni.

Og sjáum við kannski áhrifin nú þegar?

Einmitt þau sömu öfl reikna nú greinilega fastlega með því að mál sem þau telja hættulegust sínum sérhagsmunum – stjórnarskráin, fiskiveiðifrumvarpið – þeim verði nú þegjandi og hljóðalaust stungið oní skúffu.

Varla held ég að Árni Páll hafi verið kosinn til þess.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!