Föstudagur 23.3.2012 - 07:47 - FB ummæli ()

Réttlæti Einars Benediktssonar

Olíufélögin höfðu ólöglegt samráð, það er ljóst.

Forsvarsmenn þeirra – þar á meðal Einar Benediktsson forstjóri Olís – frömdu þar af leiðandi glæp.

Ekki veit ég hvernig hægt er að orða það öðruvísi.

Á grundvelli meints klúðurs við rannsóknina telur dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur hins vegar að fella verði úr gildi niðurstöðu Samkeppnisstofnunar um háar sektir olíufélaganna.

Kannski gat dómarinn ekki annað, ég veit það ekki.

Ég ætla þó að vona ekki. Ég ætla rétt að vona að Hæstiréttur snúi þessum hlálega úrskurði við.

En burtséð frá því – þá var eitt hraklegast af öllu.

Þegar Einar Benediktsson forstjóri Olís vogaði sér í gær að kalla niðurstöðu héraðsdómarans „réttlæti“.

Fyrir nokkrum árum var hinu fallega orði frelsi rænt af mönnum sem vildu nota það til að hafa frjálsar hendur til að græða pening.

Nú á sem sagt ekki aðeins að beita hinni rómuðu lagatækni til að sleppa billega þrátt fyrir augljóst brot, heldur á líka að kalla það „réttlæti“!

Ja, svei, Einar Benediktsson!

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 22.3.2012 - 13:14 - FB ummæli ()

Þau systkin Enginn og Aldrei

Ég vona að þessum dómi hér verði áfrýjað og niðurstöðunni snúið við.

Ef ekki, þá er það endanlega sönnun þess að á Íslandi bera þau systkinin Enginn og Aldrei alla ábyrgð.

Þau systkin eru búsett á bænum Klúðri í Hrunamannahreppi.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 21.3.2012 - 19:50 - FB ummæli ()

Líttu til framtíðar, Bjarni

Heyrði ég rétt?

Var einhver þingmaður í pontu á Alþingi að tala um nauðsyn þess að rannsaka hrunið og sér í lagi hina stórfurðulegu fjárveitingu Seðlabankans til Kaupþings bókstaflega kortéri fyrir hrun?

Fjárveitingu sem virkar nánast glæpsamleg ef það er rétt sem menn héldu fram fyrir landsdómi að þá hafi löngu verið orðið ljóst að enginn bankanna gæti lifað, ekki einu sinni Kaukþing?

Og þegar þessi þingmaður var að tala um þessa sjálfsögðu rannsókn – sem raunar ætti að vera löngu hafin – stóð þá Bjarni Benediktsson virkilega upp og sagði:

„Jæja þá, huh, en við skulum þá sko bara líka rannsaka Icesave-samningana …?“

En aðallega ættum við að leggja fortíðarhyggju á hilluna, horfa fram á veginn blablabla …

Heyrði ég þetta virkilega rétt?

Jahérna þá.

Nú er ég vissulega þeirrar skoðunar að það megi rannsaka allt í sambandi við Icesave alveg oní ræmur.

Fínt, gerum það!

En að tefla rannsókn á Icesave-samningunum fram sem einhvers konar HÓTUN – ef menn ætla að láta verða af því að rannsaka framferði Davíðs Oddssonar og Geirs Haarde á lokametrunum fyrir hrun – það er einkennilegt, svo ekki sé nú fastar að orði kveðið.

Bjarni er sífellt að tala um að við eigum ekki að horfa alltaf til baka.

En sjálfur er hann límdur við baksýnisspegilinn – þar sem Davíð blasir við.

Gott væri ef Bjarni sjálfur liti fram á veginn, og hætti að láta mestu skipta hvernig mál horfa við Davíð og öðrum gömlum forystumönnum Sjálfstæðisflokksins.

Líttu til framtíðar, Bjarni.

Partur af því er að gera upp við fortíðina, ekki bæla hana niður!

 

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 17.3.2012 - 22:10 - FB ummæli ()

Rökhugsun frá Ástralíu

Á Facebook rakst ég af tilviljun á síðu sem heitir Raunfélagið.

„Tilgangur Raunfélagsins“ – segir á síðunni – „er að miðla vísindalegri þekkingu og fletta ofan af hjáfræðum. Skal það vernda vísindalega þekkingarfræði og menntun fyrir gervivísindum, kukli og söluskrumi.“

Þetta er göfugt markmið.

Á síðunni er nú linkur á svipaða síðu útlenska, þar sem er að finna sex kennslumyndbönd fyrir börn í rökfræði.

Þau eru upprunnin frá Ástralíu.

Skoðið þau endilega hér.

Á síðunni má reyndar líka skoða stiklu um kvikmyndina Prómeþeif, sem tekin var að hluta á Íslandi!

En mikið væri gagnlegt ef einhver færi nú að kenna íslenskum börnum svolítið í rökhugsun.

Við höfum ekki verið mjög sterk í því.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 17.3.2012 - 18:29 - FB ummæli ()

Pólitísk grafskrift Geirs í Mogganum?

Var Morgunblaðið (les=Davíð Oddsson) að hæðast að Geir Haarde í dag?

Ég les nú Moggann ekki oft en rakst á hann áðan og fletti honum, og lokadagur Landsdómsréttarhaldanna tók að sjálfsögðu mikið pláss í blaðinu.

Og víst voru þar margir dálksentímetrar lagðir undir vörn Geirs.

En lokaniðurstaðan – fyrirsögnin sem náði yfir næstum heila opnu – hún var þannig að versta og meinhæðnasta persónulegum óvini Geirs hefði varla tekist betur upp.

Að vísu verður að viðurkennast að þessi fyrirsögn var jú kjarninn í vörn Geirs sjálfs, svo þannig séð var hún alveg eðlileg.

En samt – komin á blað með risastóru fyrirsagnaletri í Mogganum – þá leit þetta vissulega út eins og verið væri að hæðast að Geir á einstaklega yfirlætislegan hátt.

„BAR  ENGA  ÁBYRGÐ  OG  GAT  EKKERT  GERT“

 

– – – –

Viðbót, ögn síðar.

Rétt er og skylt að taka fram að tveir blaðamenn á Morgunblaðinu (ekki þó þeir sem skrifuðu fréttina um Geir Haarde) hafa haft samband og tekið mjög afdráttarlaust fram að ritstjórar skrifi ekki eða skipti sér af fyrirsögnum með fréttum, eins og ég var að fabúlera um.

Ég hlýt að sjálfsögðu að taka fullt mark á orðum þeirra, og bið hlutaðeigandi afsökunar.

Ég ætla samt ekki að breyta fyrirsögninni minni á þessum pistli, því hún getur reyndar átt prýðilega við – eftir sem áður.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 12.3.2012 - 15:34 - FB ummæli ()

„Munt þú krefjast gæsluvarðhalds …?“

Fyrst ég er farinn í dag að halda hér úti hálfgerðri „fréttir af Facebook“, þá er best að halda því áfram um stund.

Gunnar Smári Egilsson svarað nefnilega vangaveltum Hallgríms Helgasonar um að fréttamenn hefðu átt að spyrja Davíð Oddsson hvassar eftir vitnaleiðsluna í Landsdómi, svona:

„Fréttamennirnir hefðu ekki átt að spyrja DO neins eftir vitnaleiðsluna heldur sérstakan saksóknara: Munt þú krefjast gæsluvarðhalds yfir fyrrum Seðlabankastjóra sem segist hafa mokað um 300-400 milljörðum af almannafé í banka, sem hann segist hafa vitað fullvel að voru ónýtir fjárhagslega, glæpsamlega reknir og að augljóst væri að þessir fjármunir almennings myndu aldrei endurheimtast?“

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 12.3.2012 - 13:31 - FB ummæli ()

Fréttamenn í hnotskurn?

Hallgrímur Helgason rithöfundur vakti á Facebook áðan athygli á þessu viðtali hér við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur eftir að hún hafði borið vitni fyrir Landsdómi.

Þetta er ágætt viðtal, fréttamennirnir spyrja skynsamlegra spurninga og svör Ingibjargar Sólrúnar eru skilmerkileg.

Hallgrímur benti hins vegar á hve ólík hegðun fréttamannanna var þegar Davíð Oddsson hafði gefið sinn vitnisburð.

Þá fékk hann svona dúddí-gúddí viðtal – já, þú gast semsagt ekkert gert, nei, auðvitað ekki, en hvernig finnst þér annars ríkisstjórnin, og þú bara góður annars …?

„Íslenskir fréttamenn í hnotskurn,“ segir Hallgrímur.

Það er eitthvað til í því hjá honum.

Með suma er alltaf farið með silkihönskum.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 12.3.2012 - 07:38 - FB ummæli ()

Opinberið vitnisburðina

Það undarlega uppátæki að sýna ekki beint frá Landsdómi hefur þegar valdið furðu í samfélaginu.

Hugsanlega má skýra það með vangá dómaranna, þeir hafi einfaldlega ekki áttað sig á að slíkur stórviðburður ætti erindi til almennings.

En sé það í alvöru ætlunin að láta ekki skrifa upp vitnisburði og gera þá síðan ekki aðgengilega fyrir almenning, þá er ekki hægt að skýra það með einhverri vangá.

Það virkar satt að segja eins og vísvitandi tilraun til að gera lítið úr því sem þarna er að gerast, kveða niður áhuga almennings, og gera fólki erfitt fyrir að komast að því hvað gerst hefur í samfélaginu.

Þessu þarf að breyta – og það fyrr en síðar.

Reyndar þarf að gera það strax.

Ég að minnsta kosti nenni ekki að horfa upp langvinnt þref um það eftir Landsdómsréttarhöld hvort og þá hvenær vitnisburðirnir verði birtir.

Þeir sem þetta heyrir undir þurfa einfaldlega að ganga í það nú þegar að þeim reglum og/eða hefðum sem þarna kann að vera stuðst við verði breytt.

Vitnisburðina fyrir Landsdómi þarf að gera opinbera og aðgengilega, og það strax.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 9.3.2012 - 20:14 - FB ummæli ()

Klénn klúbbur

Það má vel bera virðingu fyrir því ef fólk reynir að hlífa gömlum kunningja og samstarfsmanni frá því að hljóta skömm í háttinn, en ég veit ekki hvaða gagn Jóhanna Sigurðardóttir telur sig gera Geir Haarde með því að halda því fram að hann hefði ekkert getað gert árið 2008 til að afstýra bankahruninu.

Hann hefði auðvitað getað gert ýmislegt sem hefði kannski ekki afstýrt hruni allra bankanna, en hefði þó hugsanlega getað bjargað einhverjum þeirra og að minnsta kosti dregið mjög verulega úr áfallinu.

(Svo allrar sanngirni sé nú gætt, þá sagði Jóhanna það ekki sjálf, heldur svaraði því aðeins neitaði þegar fréttamaður spurði hvort Geir hefði getað gert eitthvað. En það kemur nánast í sama stað niður.)

Svo afdráttarlaus orð Jóhönnu gera ekki annað en ýta undir þá tilfinningu sem æ fleiri virðast hafa – að Landsdómur sé helstil klénn klúbbur þegar á hólminn er komið.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 7.3.2012 - 16:45 - FB ummæli ()

Vill einhver hafa samband við Mervyn King?

Hérna er að finna mjög góða samantekt Ingimars Karls Helgasonar á einu gríðarlega mikilvægu atriði í aðdraganda hrunsins.

Mervyn King seðlabankastjóri Bretlands neitaði Íslendingum um peníng en bauð einlæglega fram aðstoð sína við að vinda ofan af íslenska bankaerfinu í apríl 2008.

Í bréfi til Davíðs Oddssonar.

Davíð afþakkaði aðstoðina.

Hann sagði að íslensku bankarnir væru vel fjármagnaðir en ættu við ímyndarvanda að stríða.

Ímyndarvanda!!

Orðrétt: „The Icelandic banks are well capitalised but they are dealing with a problem of perception.“

Á sama tíma og hann segist hafa verið eins og landafjandi út um allt að vara við og reyna að finna ráð til björgunar.

„Æ, nei takk.“

Aðstoð frá Seðlabanka Bretlands á þessum tíma hefði vafalítið ekki getað komið í veg fyrir hrun bankanna að öllu leyti, en hefði getað mildað áhrif þess stórkostlega.

Fyrir íslensku þjóðina.

Það hefði ekki orðið neitt Icesave-mál; það má eiginlega fullyrða.

En Davíð afþakkaði.

Mjög er óljóst – þrátt fyrir skýrslutöku fyrir landsdómi – hvort Geir Haarde fékk eitthvað að koma nálægt þeirri ákvörðun.

Þetta atriði var það merkilegasta sem um var fjallað í vitnaleiðslunni yfir Davíð Oddssyni fyrir landsdómi.

En hlaut litla athygli.

Allir voru svo önnum kafnir við að skella sér á lær yfir stórfenglegri hnyttni Davíðs (les=lélegum fimmaurabrandara) um faðerni Björgólfs Thors.

Ahahahahaha! Je, alltaf jafn flottur sá gamli!

Úff!

Og nú er Hannes Hólmsteinn kominn í rústabjörgunina og segir að tilboð breska seðlabankastjórans hafi verið „kurteisishjal“.

Vill einhver fjölmiðill gera mér þann greiða að hafa samband við Mervyn King og spyrja hann?

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!