Miðvikudagur 15.2.2012 - 16:07 - FB ummæli ()

Píslarvætti 101

Eins og ég hef margoft tekið fram, þá er ég fljótur að missa þráðinn þegar farið er að tala um flókna fjármálagerninga og bókhald og tala nú ekki um vafninga – og þess vegna ætla ég ekki að leggja neinn dóm á Vafningsmál Bjarna Benediktssonar.

Hins vegar fannst mér dálítið erfitt að horfa á Kastljósviðtalið við hann.

Í þessu viðtali hafði Bjarni tækifæri til að stíga á stokk sem „grand“ stjórnmálaleiðtogi með því að útskýra málið í smáatriðum, fjalla sjálfur og óumbeðinn um siðferðisspurningar sem þar voru hvarvetna á kreiki og fallast á hve eðlilegt væri að spurningar vöknuðu um hann sem stjórnmálaleiðtoga.

Og svara síðan þeim siðferðisspurningum, lið fyrir lið.

Þetta tækifæri greip Bjarni ekki. Það getur vel verið að hann hafi útskýrt á fullnægjandi hátt hin fínni blæbrigði Vafningsmálsins hvað lögfræði og bókhald snertir, ég hreinlega veit það ekki en hlýt að reikna með því – en stöðugt tal hans um að hann sætti svívirðilegum árásum vinstrimanna og DV vöktu mikla furðu mína.

Bjarni og forverar hans í embætti formanns Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddsson og Geir Haarde, spiluðu allir sína rullu í aðdraganda hrunsins. Þær rullur voru vissulega misstórar, og Bjarna náttúrlega sýnu minnst, en hver hafði þó sitt hlutverk.

Eftir hrunið virðist ekki hafa hvarflað að neinum þeirra að horfast í augu við eigin ábyrgð.

Ónei, þeir bregða sér þvert á móti allir í hlutverk píslarvottsins.

(Nema Davíð líkti sér náttúrlega við Jesúa sjálfan.)

Allir eru vondir við þá, allir ráðast á þá – og þeir svona grandvarir menn!

Hér áður fyrr snerist námsefnið í stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins um að stjórna landinu. Nú mætti ætla að pensúmið væri „píslarvætti 101“.

Þetta pensúm fór Bjarni með, alveg að óþörfu, í viðtalinu í Kastljósi. Reglulega var eins og rifjaðist upp fyrir honum námsefnið: „Og muna bara að minna sífellt á að DV stendur á bak við þetta! DV, DV, hamra á DV!“

Og hann fór að tala um „frábæran árangur“ sem hann hefði náð með fyrirtækið sitt N1, en þegar hann var spurður beint hvort HANN hefði gert mistök (því þetta fór jú allt á hausinn), þá var svarið svona: „Ég tel að HLUTHAFARNIR í félaginu sem ÉG VAR Í hafi verið með of mikla skuldsetningu, já …“

„Hluthafarnir voru með of mikla skuldsetningu“ í félagi sem hann „var í“ (eins og hann hafi verið staddur þar fyrir tilviljun?).

Þegar sannleikurinn er auðvitað sá að hann var bókstaflega allra innsti koppur í búri í fyrirtækinu. Og réði þessu.

Orðalag skiptir máli, því það sýnir hvern mann maður hefur að geyma.

Það má fylgja sögunni að mér hefur þótt Bjarni standa sig að sumu leyti eins og hetja sem formaður Sjálfstæðisflokksins – það hefur ekki verið auðvelt að taka við á þeim tíma þegar hann steig fram.

En þetta var ekki mjög hetjulegt. Þetta var umfram allt – hvað sem líður hinum formréttu hliðum Vafningsmálsins – ekki mjög „grand“.

(Tala nú ekki um þegar Bjarni fór að tala um sjálfan sig í þriðju persónu, það er aldrei gott.)

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 14.2.2012 - 14:37 - FB ummæli ()

Höft og kreppa

Jónas H. Haralz var að deyja, 93ja ára gamall.

Hann átti mjög merkilegan feril að baki.

Hann fæddist 1919. Faðir hans var séra Haraldur Níelsson, einn kunnasti prestur landsins á sinni tíð og ekki síst þekktur fyrir áhuga sinn á spíritisma. Hann lést þegar Jónas var barn að aldri.

Móðir Jónasar var Aðalbjörg Sigurðardóttir.

Eftir stúdentspróf 1938 hélt Jónas til náms í verkfræði í Stokkhólmi en skipti tveim árum seinna yfir í hagfræði.

Á skólaárunum hafði Jónas verið vinstrisinnaður sósíalisti en með hagfræðinámi sínu tók hann að færast til hægri og varð að lokum kunnur sjálfstæðismaður.

Jónas tók magisterspróf í hagfræði 1944. Næstu árin starfaði hann á Íslandi en 1950 fór hann til starfa fyrir Alþjóðabankann og var fulltrúi hans í ýmsum löndum fram til 1957-1958 er hann efnahagsráðunautur ríkisstjórnar Íslands og síðan ráðuneytisstjóri.

Jónas var forstjóri Efnahagsstofnunar 1962-1969 en gerðist þá bankastjóri Landsbankans og gegndi því starfi til 1988 – sama ár var hann gerður að heiðursdoktor frá Háskóla Íslands.

Í nokkur ár eftir það var hann aðalfulltrúi Norðurlanda í stjórn Alþjóðabankans í Washington en stundaði síðan  margvísleg rannsóknar- og ráðgjafastörf víða um lönd, auk ritstarfa og fyrirlestrahalds, um sín fræði, og dró hvergi af sér þótt aldurinn færist yfir.

Sumarið 2009, nokkru áður en Jónas varð níræður, tók ég langt og mikið viðtal við hann fyrir DV. Við hittumst á skrifstofu hans í Háskólanum, þar sem hann vann enn, og bæði andlega og líkamlega hefði hann getað verið svona um sextugt.

Að gamni birtist viðtalið hér – ég byrjaði á að spyrja hann hvað væri líkt með kreppunni um 1930, þegar hann var ungur, og hruninu sem þá hafði gengið yfir Ísland tæpu ári fyrr. Mín eigin framlög í þessu viðtali eru feitletruð.

– – – – – – – –

„Það er auðvitað nærtækt en samt á margan hátt villandi að draga samasem-merki milli kreppunnar á fjórða áratugnum og þess sem við erum að ganga í gegnum núna. Ástæður og framgangur kreppunnar þá voru af öðru tagi en kreppan nú.

Helsti lærdómurinn sem nú má draga af þeirri kreppu sem geisaði þegar ég var ungur maður snýst um úrræðin; að við megum alls ekki bregðast við með því að reisa utan um okkur höft og varnarmúra sem munu tefja efnahagsbatann gríðarlega ef slík verður niðurstaðan í of langan tíma.“

Sá sem hér mælir hefur vit á hlutunum. Jónas Haralz lifði ekki bara „kreppuna miklu“ á fjórða áratugnum og eftirköst hennar, heldur er hann vel lærður í hagfræði, þrautreyndur bankastjóri hér heima og virkur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi.

Og hann átti mikinn þátt í að Íslendingar létu loks af þeirri haftastefnu sem hér var tekin upp í kjölfar kreppunnar miklu.

Þótt Jónas sé kominn á efri ár stundar hann enn margvísleg störf á sínu sviði og vakti mikla athygli þegar hann kom fram í Silfri Egils síðastliðið haust [2008] og mælti þar með þátttöku í Evrópusambandinu og evrunni sem eina nothæfa úrræði okkar Íslendinga til að byggja upp nýtt efnahagskerfi eftir bankahrunið.

„Eitt af því sem er ólíkt með kreppunni þá og hruninu nú er aðdragandinn. Núna byrjaði lánsfjárkreppan vissulega 2007 en svo verður þetta algjöra hrun í einu vetfangi haustið 2008.

Kreppan mikla hegðaði sér öðruvísi. Erlendis hófst hún með kauphallarhruni í Bandaríkjunum haustið 1929, en það hafði í fyrstu lítil áhrif hér á landi.

Á fyrri hluta ársins 1930 féll Íslandsbanki en það stafaði ekki af alþjóðakreppunni, heldur öðrum ástæðum. Hrun bankans var áfall en eigi að síður minnist ég ársins 1930 fyrst og fremst sem árs gleði og bjartsýni.

Ég var vissulega bara barn að aldri þá en ég hefði áreiðanlega skynjað það ef ótti hefði ríkt í samfélaginu.

En þetta ár héldum við Íslendingar Alþingishátíðina og lögðum mikla áherslu á að bjóða hingað erlendum gestum og gera hátíðina sem glæsilegasta.

Það var beinlínis tilgangur hennar að sýna fram á að við Íslendingar værum komnir í hóp nútímaþjóða og allir lögðust á eitt um að gera hátíðina sem best úr garði.

Það tókst líka með miklum sóma þó ég minnist klaufalegra mistaka sem urðu þegar fulltrúar erlendra ríkja voru að flytja ávörp sín.

Um leið og fulltrúarnir töluðu voru fánar ríkja þeirra dregnir að húni. Skátarnir höfðu verið fengnir til að annast þetta enda voru þeir taldir kunna manna best að fara með fána.

En þegar fulltrúi Dana steig í ræðustól brá svo við að fáni Austurríkis var dreginn að húni. Þetta þótti neyðarlegt en skýringin var náttúrlega sú að fánar bæði Danmerkur og Austurríkis eru rauðir og hvítir og einhver skátinn hafði ruglast á þeim samanbrotnum.

En strax að lokinni ræðu danska fulltrúans baðst Tryggvi Þórhallsson forsætisráðherra, sem var fyrir hátíðinni, afsökunar á mistökunum og rétti fáninn var dreginn við hún.

Þetta var eini hnökrinn sem ég man eftir á hátíðinni, annars fór allt frábærlega vel fram og bjartsýni var ríkjandi.

Það var ekki fyrr en 1931 sem kreppan dundi yfir í alvöru. Þá féllu markaðirnir í löndunum í kringum okkur. Ísfiskmarkaðurinn var á Bretlandi og í Þýskalandi, þangað sigldu togararnir með ísfisk á sumrin og haustin, en á vetrarvertíðinni var verkað í salt.

Saltfiskurinn var seldur til Spánar og þar fór verðið að lækka. Togaraútgerðin, sem hafði gengið þokkalega árin á undan, fór nú að tapa.

Það er kannski vert að taka fram að það hefur aldrei verið neinn stórgróði af togaraútgerð á Íslandi, þvert ofan í það sem margir halda.

Svo kom að vísu eitt gott ár, 1933, þegar aflabrögð voru sérlega góð og þá var togaraútgerðin nokkurn veginn í jafnvægi en svo fór aftur að halla undan fæti.

Og atvinnuleysið fór að bíta. Fátæktin varð skelfileg hjá mörgum.

Það sem helst skapaði atvinnuleysið hér á Reykjavíkursvæðinu var að draga varð úr úthaldi togaranna.

Togarafélögin, sérstaklega Kveldúlfur, voru gagnrýnd mikið fyrir að halda ekki togurunum meira úti en útgerðarmenn áttu ekki hægt um vik.

Svo kom síldin í miklu magni 1935. Það voru nokkur góð síldarár í röð og þó verðið væri lágt hjálpaði síldin okkur mikið.

Ástandið úti á landi var tiltölulega mun betra en í Reykjavík. Þar var ekki raunverulegt atvinnuleysi lengst af, nema þá helst á Akureyri.

Það lá bara í hlutarins eðli vegna þess hvernig atvinnulífið var byggt upp. Í smábæjunum úti á landi var samfélagið sveigjanlegra og meiri hreyfanleiki á vinnuafli.

Ég man vel eftir sumrinu 1933, þegar ég var að verða 14 ára og vann sem beitingastrákur á Norðfirði. Þá var í rauninni flest þar í góðu gengi.

Gömlu útgerðirnar og gömlu kaupmennirnir, þeir sem höfðu verið aðalvinnuveitendurnir, voru vissulega í vandræðum, en það var komið fram mikið af nýjum litlum fjölskyldufyrirtækjum þar sem menn reyndu að bjarga sér.

Það var hver fjölskylda með sinn bát og sína bryggju eftir allri strandlengjunni og lengst inn í fjörð. Og þarna var verið að verka saltfisk.

Og svo á veturna, þegar ekki var fiskur fyrir austan, þá fóru menn suður á Djúpavog eða Höfn í Hornafirði eða jafnvel alla leið suður í Sandgerði og gerðu bátana út þaðan.

Áfallið fyrir þessa atvinnugrein kom eiginlega ekki fyrr en 1936 þegar borgarastríðið hófst á Spáni og saltfiskmarkaðurinn þar lokaðist. Þá komst allt í voða víða út um landið. Og í rauninni fór ekki að rétta úr kútnum fyrr en í heimsstyrjöldinni.“

Var það ekki mikið andlegt högg þegar kreppan skall á? Eftir bjartsýni Alþingishátíðarinnar og tiltölulega gott árferði á þriðja áratugnum?

„Jú, það breytti ýmsu, ekki síst í stjórnmálunum. Kommúnistarnir blómstruðu í kreppunni, það er óhætt að segja. Þeir klufu sig út úr Alþýðuflokknum þegar árið 1930 sem voru mikil tíðindi.

Ég varð fyrir áhrifum frá þessu og varð býsna róttækur.

Mest varð ég fyrir áhrifum frá Eiríki Magnússyni sem var heimiliskennari okkar og nokkurra fleiri fjölskyldna í Laugarnesinu.

Ég sat í rauninni ekki á skólabekk í venjulegum skilningi fyrr en ég kom í menntaskóla. Eiríkur hafði verið að læra guðfræði en gerðist kennari. Hann var ljómandi góður maður og ágætis kennari, en eldheitur kommúnisti.

Jafnframt varð ég fyrir áhrifum frá mági mínum, Erling Ellingsen, seinna flugmálastjóra, en hann var blóðrauður kommi á þessum árum.“

Þótt kommúnistar næðu hér miklu fylgi, þá náði öfgastefnan á hinum væng stjórnmálanna, nasisminn, ekki verulegu fylgi hér. Hver heldurðu að sé ástæðan fyrir því?

„Ja, hvað skal segja? Það kvað vissulega að ungum mönnum í minni kynslóð sem hrifist höfðu af nasismanum, en vissu lítið um hvað raunverulega var að gerast í Þýskalandi, líkt og kommúnistarnir vissu ekki hvernig ástandið var í Rússlandi.

Ég held helst að áhrif þeirra hafi orðið lítil vegna þess að ungir sjálfstæðismenn, einkum í háskólanum, tóku einarða afstöðu með lýðræðinu, og var Jóhann Hafstein þar fremstur í flokki.

Þegar ég settist í menntaskólann 1935 var töluverður uppgangur í nasistunum en vinstribylgjan, sem hafði verið áberandi árin á undan, var þá að fjara út.

Allar kosningar í skólanum voru pólitískar og þegar kom að mínum árgangi að kjósa inspector scholae sameinuðumst við vinstrimennirnir um að fylgja Stefáni Wathne bekkjarbróður mínum sem var hófsamur sjálfstæðismaður og á móti nasistunum.

En þú spyrð um andlegt áfall af kreppunni. Ég held satt að segja að menn hafi borið sig furðu vel. Hjá okkur ungu mönnunum ríkti held ég allan tímann bjartsýni og jafnvel eldmóður, við vissum sem var að það var ekkert annað að gera en vinna sig út úr erfiðleikunum.

Hugsun okkar var sú að það sem landið skorti umfram allt væri verkleg menntun.

Draumurinn um stórvirkjanir var vaknaður og við þóttumst sjá að þar væru tækifærin.

Við áttuðum okkur á því að útgerðin myndi ekki færa okkur mikið umfram það sem hún hafði gert, landið þyrfti eitthvað nýtt. Félagar mínir flestir fóru af þessum sökum ýmist í nám í verkfræði eða viðskiptafræði og ég sjálfur í efnaverkfræði.

Ef faðir minn hefði lifað hefði ég kannski orðið fyrir meiri áhrifum frá honum og ef til vill endað í guðfræði, en það varð nú ekki.

Raunin varð sú að eftir tveggja ára verkfræðinám skipti ég yfir í hagfræði, ekki síst fyrir áhrif frá Sölva Blöndal sem var við slíkt nám í Svíþjóð.

Hann var nokkrum árum eldri en ég og hafði mikil áhrif á okkur yngri mennina. Sölvi var kommúnisti en ekki sérlega róttækur.

Ég fór í hagfræði fyrst og fremst vegna áhuga á stjórnmálum, en í rauninni varð hagfræðinámið til þess að ég færðist til hægri í stjórnmálum og komst að þeirri niðurstöðu að ekkert skipti meira máli fyrir hagsæld manna en frjáls viðskipti, jafnt innanlands sem þjóða á milli.“

Þannig að það hvarflaði aldrei að ykkur unga fólkinu á fjórða áratugnum að flytja úr landi, eins og menn óttast að gerist nú í stórum stíl?

„Nei, það kom aldrei til greina. Og fyrir því voru mjög einfaldar ástæður. Umheimurinn var okkur lokaður. Það er einn mesti munurinn á aðstæðum þá og nú. Þú gast ekki fengið vinnu neins staðar erlendis, nema þá í Danmörku vegna sambandslaganna. Það var að minnsta kosti afar torsótt.

Ég fór til Svíþjóðar í verkfræði en ég vissi allan tímann að ég ætti ekki möguleika á að fá vinnu þar síðar meir.

Ameríka var eiginlega eini staðurinn sem stóð að einhverju leyti opinn og þar var nú ekki glæsilegt um að litast þegar 25 milljónir manna gengu um atvinnulausar.

Ýmsir fóru samt til Ameríku upp á von og óvon, bróðir minn fór til dæmis þangað til náms en varð að hætta og endaði sem háseti á togara frá Boston. Þar var mikið af Íslendingum á togurum, heilu skipshafnirnar voru íslenskar.

Þetta voru menn sem höfðu farið vestur en lent í kreppunni og leituðu þá á endanum þangað sem þeir þekktu einna best til, en það var í fiskveiðunum.

Þessi bróðir minn hafði reyndar aldrei verið til sjós áður, en hann og fleiri voru náttúrlega aldir upp í fiskveiðisamfélagi og þá var ekki óeðlilegt að leita niður að sjó þegar að kreppti.“

Sú afleiðing kreppunnar sem varð langvinnust og kannski alvarlegust var haftastefnan.

„Já, þar varð slys. Við höfðum verið með krónuna bundna við sterlingspundið frá 1925.

En þegar Bretar lentu í kreppunni og urðu að lækka gengi pundsins gagnvart gulli, það er að segja yfirgefa gullfótinn, tók gengisnefnd Alþingis, sem Ásgeir Ásgeirsson var formaður fyrir, þá ákvörðun að halda fast við sterlingspundið.
Landsbankinn varð um þetta leyti hræddur um sína stöðu.

Bankinn hafði fengið yfirdráttarlán hjá erlendum bönkum sem hann átti að standa skil á fyrir áramót og nú óttaðist bankinn að lenda í vandræðum með það.

Bankastjórnin og bankaráðið sendu þá sameiginleg tilmæli til ríkisstjórnarinnar um að setja á gjaldeyris- og innflutningshöft til þess að bankinn gæti haldið í nægilega mikinn gjaldeyri.

Reyndar var alls ekki einhugur um þessi tilmæli í bankaráðinu eða milli bankastjóranna. Einn bankastjóranna, Georg Ólafsson, var í raun á móti haftatilmælunum en sat á endanum hjá því hann vildi ekki ganga á móti félögum sínum.

Ef hann hefði ekki gert það hefðu tilmælin um höftin fallið á jöfnum atkvæðum.

Ríkisstjórnin varð þegar í stað við þessum tilmælum og það var blátt áfram sett reglugerð um höft á gjaldeyri og innflutning á grundvelli laga frá fyrri kreppuárum 1922, án þess að málið kæmi einu sinni til umræðu á Alþingi fyrr en tveimur árum síðar. Þessu var hálfpartinn laumað í gegn.

Ég dreg ekki í efa að menn hafi gert þetta af því þeir töldu brýna nauðsyn bera til.

Svipað var líka gert í mörgum fleiri löndum. En munurinn á okkur og hinum Norðurlöndunum var að við höfðum ákveðið að binda gengi krónunnar við sterlingspundið sem fyrr, en á öðrum Norðurlöndum var gengið sett á flot um tíma og lækkaði þá töluvert.

Þegar stöðugleikinn jókst svo á ný var gengi norrænu gjaldmiðlanna aftur fest við sterlingspund en þá á gengi sem var lægra en okkar. Þeir höfðu því lækkað gengið meira gagnvart gulli heldur en Bretar höfðu gert.

Jóhannes Nordal hefur bent á að ef við hefðum gert eins og hinar Norðurlandaþjóðirnar, hefðum við getað endað umskiptin á verulega lægra gengi.

Og þá hefðu gjaldeyrishöftin verið óþörf.

En við vorum að streða við að halda uppi þessu háa gengi og í ofanálag varð töluverð fjárþensla innan landsins vegna þess að bankarnir voru að burðast við að halda uppi útgerðinni.

Og þá töldu menn alltaf þörf fyrir meiri og meiri gjaldeyrishöft.

Því það liggur í hlutarins eðli að ef þú ert búinn að byggja utan um þig varnargarð, þá heldur þú að hann komi að miklu gagni og haldi öllu illu frá þér. Svo höftunum fjölgar sífellt, bankarnir auka útlán, fjárlögin eru ekki nógu sterk og varnargarðurinn fer á flot.

Ástæðan fyrir því hversu illa tókst til með haftastefnuna var kannski að hluta til skortur á hagfræðilegri þekkingu.

En þeir menn voru þó til sem áttuðu sig á hættunni. Gunnar Viðar hagfræðingur, sonur Indriða Einarssonar leikritahöfundar og fyrsta hagfræðimenntaða manns hér á landi, skrifaði mjög athyglisverðar greinar í Morgunblaðið árið 1936 og tveim árum seinna skrifaði Benjamín Eiríksson bókina Orsakir erfiðleikanna, þar sem hann sagði um höftin að þau væru eins og stíflugarður á floti.

Og það mátti mjög til sanns vegar færa. Það verður alltaf að auka við höftin af því stíflugarðurinn lætur sífellt undan og þú freistast til að reyna að festa hann aftur.“

Af hverju áttuðum við okkur ekki á þessu?

„Það er ekki gott að segja. Höft voru sett víðar, bæði á Norðurlöndum og í ýmsum þeim löndum sem við áttum mest viðskipti við, en í flestum löndum reyndu menn að losa sig við þau eins fljótt og auðið varð. En ekki hér.

Höftin höfðu mjög slæm andleg áhrif. Þau einangruðu okkur. Við fórum að líta svo á að við værum á einhvern hátt öðruvísi en aðrir og ættum ekki raunverulega samleið með neinum.“

Það er líka oft talað um að haftabúskapurinn hafi haft … ja, spillingu í för með sér.

„Það má vel telja það raunverulega spillingu. Innflutningsleyfi urðu vitanlega afar eftirsótt og samvinnuhreyfingin og kaupmennirnir fóru á endanum að skipta þeim á milli sín. Samvinnuhreyfingin bar þá miklu meira úr býtum en hún hefði annars gert því hún vísaði til þess að hún væri fulltrúi allra sem væru í kaupfélögunum allt í kringum landið.

Þannig taldist þeim til að þeir hefðu umboð fyrir 35-40% landsmanna og ættu þess vegna að fá leyfi sem því svaraði. Þetta var kallað höfðatölureglan. Upp úr þessu spretta svo helmingaskiptin alræmdu.“

Það þurfti eiginlega að sækja um sérstakt leyfi fyrir öllu. Jafnvel stígvélum …

„Já, þegar verst lét þurfti leyfi fyrir öllu sem sækja átti til útlanda. Og kringum þetta spratt klíkuskapur og skriffinnska og almennt framtaksleysi í samfélaginu. Haftabúskapurinn var óttalega andstyggilegur.

Hvað svo sem menn gera núna til að bregðast við bankahruninu, þá fyrir alla muni má ekki leiða aftur inn haftabúskapinn!“

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 14.2.2012 - 11:19 - FB ummæli ()

Bösl í hnasli, sýsl í rusli og þeyþey

Þetta hér er eiginlega alveg óleyfilega fyndið.

Össur Skarphéðinsson svaraði einhverri fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur og vitnaði óbeint í Íslandsklukkuna (og Íslandssöguna) þegar hann kvað fyrirspurnina ekki heyra undir sitt ráðuneyti:

„Hér er því rangur hattur settur á ráðuneytið, líkt og þegar Jón Hreggviðsson setti upp hatt böðulsins í Galtarholti forðum.“

Það finnst Siv Friðleifsdóttur svívirða hins mesta:

„Svarið er með nokkrum ólíkindum að mínu mati. Ég sé fingraför hæstvirts utanríkisráðherra á þessu svari að því að þar er svo furðulegt orðalag að ég trúi því ekki að nokkur embættismaður hafi sett þetta á blað. Þetta hlýtur að koma frá hæstvirtum ráðherra sjálfum og ég hef nokkrar áhyggjur af þessu ef þetta er þróunin.“

Siv virðist altso ekki hafa borið kennsl á tilvitnunina – látum það nú vera. Það væri að vísu skemmtilegra að á Alþingi sæti fólk sem hefði að minnsta kosti lágmarksþekkingu á íslenskri menningu og sögu, en ekki verður á allt kosið.

Hins vegar hélt Siv áfram:

„Þetta er í annað sinn sem hæstivirtur ráðherra kemur með svona sérstakt svar til sama þingmannsins. Mér finnst þetta að vissu leyti niðurlægjandi og gera grín að háttvirtum þingmanni. Mér finnst þetta ekki við hæfi og ég tel að forsætisnefnd eigi að skoða þetta.“

Í fyrsta lagi er fyndið að Siv virðist mjög hneyksluð á að Össur kunni að hafa skrifað sjálfur svarið við fyrirspurninni sem Vigdís beindi þó til hans, en ekki einhverra embættismanna.

Eru fyrirspurnir til ráðherra á Alþingi þá svo mikill sýndarveruleiki að það er beinlínis ætlast til að ráðherrar skrifi EKKI sín eigin svör?

Og í öðru lagi, síðan hvenær er það sérstakt hneykslunarefni að vitna til Halldórs Laxness í máli sínu?

Er þá ekki ansi undarlega komið?

Það hvarflar að mér að stinga eftirfarandi ráðleggingum að Siv:

„Á morgun ó og aska, hí og hæ

og ha og uss og pú og kannski og seisei

og korríró og amen, bí og bæ

og bösl í hnasli, sýsl í rusli og þeyþey.“

En nú vona ég bara að Siv kæri mig ekki til lögreglunnar!

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 13.2.2012 - 12:00 - FB ummæli ()

Kominn með uppí kok

Þið fyrirgefið en ég er að verða kominn með uppí kok af hagfræðingum.

Og hagfræði yfirleitt.

Það mætti ætla að það væri tiltölulega einföld spurning hvort gerlegt væri að fara út í býsna almenna skuldaniðurfellingu í 300.000 manna samfélagi.

Og það ætti líka – skyldi maður ætla – að vera frekar einfalt mál að komast að niðurstöðu um hvort verðtrygging sé heppileg í þessu sama samfélagi.

En það er nú eitthvað annað!

Þetta virðist beinlínis vera hér um bil flóknasta mál í heimi.

Ég er viss um að maðurinn verður kominn til Mars – og líklega farinn aftur – áður en hagfræðingar komast að niðurstöðu um þetta svakalega flókna mál.

Nú er hafin ný umferð í þessu þrefi:

„Klassísk hagfræði skilur ekki raunhagkerfið og tengsl milli peninga og verðmætasköpunar svo sem heyra má af málflutningi aðdáenda þeirrar hagfræði. Þessir aðilar einblína á peningahagkerfið og virðast telja það lífa sjálfstæðu lífi sem sé óháð raunhagkerfinu.“

Blablabla!

Fyrirgefiði, en er ekki hægt að loka þetta fólk inni og láta það rífast þar, svo við hin getum reynt að ímynda okkur að líf okkar snúist um eitthvað annað en hagfræði?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 9.2.2012 - 20:20 - FB ummæli ()

Siðbót Rannveigar Ásgeirsdóttur

Rannveig Ásgeirsdóttir bauð sig fram til að standa fyrir „siðbót“ í Kópavogi.

Fallegt dæmi um siðbót hennar mátti sjá í örstuttu viðtali við sjónvarpið fyrr í kvöld.

Þar fór Rannveig undan í flæmingi, heldur svona hrokagikksleg á svip, skipti um umræðuefni, drap spurningu á dreif og útskýrði að fyrri orð, sem virtust svo skýr, hefðu í rauninni þýtt eitthvað annað.

Þetta var siðbót Rannveigar Ásgeirsdóttir.

Til hamingju Kópavogsbúar með þessa fallegu siðbót.

Og meðal annarra orða – til hamingju líka með Gunnar Birgisson.

Þau Rannveig verða góð saman í siðbótinni.

Nú er Gunnar Birgisson orðinn siðbót Kópavogs holdi klædd.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 8.2.2012 - 11:51 - FB ummæli ()

Eru engir speglar í innanríkisráðuneytinu?

Það sem ég dáðist að Helga Seljan Kastljóssmanni í gærkvöldi þegar hann tók viðtalið við Ögmund Jónasson.

Hann gerði allt rétt – var vel undirbúinn, hafði ákveðnar spurningar, vissi hvert hann ætlaði og hvikaði ekki frá því.

Og þótt hann mætti þarna svo vel smurðum vélbyssukjafti að furðu sætti, þá hélt hann ró sinni, virðingu og sóma.

Lét hvorki slá sig út af laginu, eins og þó virtist augljóslega ætlun viðmælandans, né fyrtist við.

Gott góurinn!

En Ögmundur hins vegar … æ, Ögmundur!

Í mörg herrans ár var Ögmundur Jónasson uppáhaldsþingmaðurinn minn.

Ég var kannski ekki nærri alltaf sammála honum um allt, en mér fannst hann hreinskiptinn og ærlegur og baráttuglaður.

Þau stefnumál hans sem ég var helst sammála fannst mér bera vitni um djúpa réttlætiskennd og sannfæringu – og jafnvel þau sem ég var helst ósammála fannst mér samt alltaf eiga mjög vel skilið að koma fram.

Mér fannst því í sannleika sagt mikið tilhlökkunarefni þegar þessi hugdjarfi baráttuþjarkur réttlætisins settist í ríkisstjórn.

En núna … æ, ég veit það ekki.

Skyldu engir speglar vera í innanríkisráðuneytinu?

Það mætti ætla. En ef þeir eru þar þrátt fyrir allt, þá myndi ég ráðleggja Ögmundi að nema staðar við einn þeirra.

Og horfast djúpt í augu við sjálfan sig.

Vita hvort hugsanlega geti verið að einhvers staðar djúpt í augnkrókunum leynist merki um að hann kynni að hafa smitast af því sem Gagga heitin Lund kallaði svo skemmtilega máttsýki.

Það er alla vega eins og eitthvað hafi komið fyrir hann einhvers staðar á leiðinni.

Núna finnst honum mikilvægara að vernda möguleg mannréttindi eins fyrrverandi valdamanns en að vernda þau mannréttindi íslensku þjóðarinnar að fá að vita hvort sjálfur forsætisráðherrann kunni að hafa gerst brotlegur við lög um ráðherraábyrgð.

Núna fimbulfambar hann og alhæfir um ferðafíkn opinberra starfsmanna í þeim tilvikum sem það hentar í hans pólitísku baráttu. Hann baðst svo að vísu afsökunar á því, en hinn gamli réttsýni Ögmundur hefði aldrei látið sér slíkt fimbulfamb um munn fara.

Og þegar hann er kallaður í sjónvarpið til að svara mjög réttmætum spurningum um gríðarlegt tap lífeyrissjóðanna, þá grípur hann til gamalreyndra vopna sem valdhafar allra tíma hafa áður beitt.

Ögmundur Jónasson á að vita það manna best, að það eina sem íslenska þjóðin þarf á að halda núna, eru valdhafar sem geta svarað af einlægni, hreinskipti og umfram allt auðmýkt – valdhafar sem ekki snúast af offorsi gegn þeim sem spyrja spurninga, og ekki sýna yfirgang þeim sem gagnrýna.

Valdhafar sem eru tilbúnir til að hugleiða að minnsta kosti hvort þeir beri einhverja sök á einhverju – en hrökkvi ekki bara strax í baklás: Nei, ekkert getur hugsanlega verið mér að kenna, allir hinir bera sökina, ég er svo góður.

Og sem gamall fréttamaður á Ögmundur að vita að það er hlutverk fjölmiðla að spyrja ágengnra spurninga um það sem menn vita ekki – en það er ekki hlutverk fjölmiðla að leyfa valdamönnum að mumpa ánægjulega um það sem allir vita nú þegar.

Það er meira að segja allt í lagi þó spurningar séu vitlausar og ósanngjarnar (sem þær þó alls ekki voru í þessu tilfelli) – valdamaðurinn hefur enga heimild til að snúast með hroka gegn fréttamanninum og gera úr honum einhvers konar persónulegan andstæðing sem þarf að koma á kné.

En þetta gerði Ögmundur í viðtalinu í gær – mér til óblandinnar sorgar.

Hann reyndi að taka yfir viðtalið. Setja ofan í við fréttamanninn. Skjóta sendiboðann.

Hann skammaði meira að segja Helga Seljan fyrir að voga sér að spyrja sig svona spurninga – hann sem alltaf hefði barist af svo mikilli hörku gegn alheimskapítalismanum!

Æ, Ögmundur, æ!

En kannski gerir maður bara of miklar kröfur til hans.

Af því hann var jú svo réttsýnn og rogginn.

Og af því hann er gamall fréttamaður, eins og alltaf er tekið fram.

Kannski skiptir sú staðreynd minna máli en fjölmiðlamenn vilja vera láta, þegar þeir reyna að hugsa sér Ögmund sem „einn af þeim“ í einhverjum skilningi.

Því hann hljóti að skilja þá og hlutverk þeirra og þarfir betur en flestir aðrir.

Hann var vissulega fréttamaður í áratug fyrir um 30 árum.

En miklu lengur hefur hann verið valdamaður á verkalýðskontór, og svo alþingismaður í sextán ár.

Og nú er eins og hann hafi verið ráðherra svo óóóóóógurlega lengi.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 8.2.2012 - 00:58 - FB ummæli ()

Hættum við!

Eina réttlætingin fyrir því að taka þátt í Evróvisjón sönglagakeppninni er að þetta sé græskulaus saklaus skemmtun.

Því menningarlegt gildi keppninnar er vitanlega ekki mikið.

En græskulaus saklaus skemmtun getur alveg átt rétt á sér – jafnvel þó hún kosti stundum skildinginn, skildinginn sem í raun væri rökréttara að nota í eitthvað gagnlegra.

En þegar þessi græskulausa saklausa skemmtun er hvorki græskulaus né saklaus, þá er engin ástæða til að vera með.

Og það má kveða sterkar að orði – þá eigum við bara alls ekki að vera með.

Páll Óskar Hjálmtýsson söngvari og Evróvisjón gúrú hefur tekið af skarið með hvatningu til Páls Magnússonar útvarpsstjóra um að draga Ísland út úr þessari keppni, því ekki verður betur séð en yfirvöld í Aserbædjan fremji skelfileg mannréttindabrot í því skyni að koma keppninni á koppinn.

Látum vera þótt keppendur í sönglagakeppninni láti sig stundum litlu varða ýmislegt misjafnt sem almennt kann að vera á seyði í löndunum þar sem keppnin fer fram.

Það er ekki gott við slíkt að eiga.

En þegar keppnin sjálf verður beinlínis átylla mannréttindabrota, þá er ástæða til að staldra við – eins og Páll Óskar hefur nú gert.

Pistill hans af þessu tilefni er hér. Þar segir hann líka frá framferði stjórnarinnar í Aserbædjan.

Ég tek undir hvert orð hjá Páli Óskari.

Nú gildir að hafa bein í nefinu, og standast þann þrýsting að sópa óþægilegum málum undir teppið.

Geta keppendur Íslands stigið á svið í Bakú höfuðborg Aserbædjan vitandi að fátækt fólk var rekið á hrottalegan hátt frá heimilum sínum til að reisa glitrandi sviðið?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 7.2.2012 - 17:53 - FB ummæli ()

Burt með neitunarvaldið

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna reyndi að komast að samkomulagi um tiltölulega útvatnaða en þó nokkuð skýra ályktun sem beint var gegn Assad Sýrlandsforseta sem þessa mánuðina fer hamförum gegn sinni eigin þjóð.

Rússar og Kínverjar stöðvuðu ályktunina með neitunarvaldi sínu í Öryggisráðinu.

Afleiðing þess er auðvitað sú að nú telur Assad sig hafa frjálsar hendur til að murka lífið úr fleiri andstæðingum sínum.

Þetta er ömurlegt upp á að horfa.

Undanfarið hafa öðruhvoru kviknað vangaveltur um að fleiri ríki en hin fimm gömlu stórveldi ættu að hafa fastafulltrúa og neitunarvald í Öryggisráðinu.

Það er sjálfsagt að endurmeta hvaða þjóðir eiga að hafa þar fastafulltrúa.

En umfram allt verður, að fenginni reynslu, að leggja af neitunarvaldið.

Það tekur eflaust langan tíma, því gömlu stórveldin munu ekki vilja sleppa hendinni af þessu valdatæki sínu.

En hvernig væri að Ísland færi nú að hreyfa því innan Sameinuðu þjóðanna að leggja af þetta úrelta þing, sem á rætur sínar í týndum tíma?

Heimurinn á ekki lengur að skiptast milli húsbænda og hjúa.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 3.2.2012 - 17:11 - FB ummæli ()

Ekki þó ég hefði reynt

Ég er nú – eins og ég þreytist seint á að taka fram – ekki mjög reikningsglöggur maður, og bókhald leikur ekki í höndunum á mér.

En ég get þó fullyrt að ef einhver hefði haft vit á því að skipa mig yfir lífeyrissjóðina, þá hefði mér ekki tekist að tapa 479 milljörðum á tveimur árum.

Ekki einu sinni þó ég hefði reynt.

Það er þó huggun harmi gegn, er það ekki, að þeir sem töpuðu öllum þessum peningum hafa vafalítið tapað minna af sínum lífeyri en við aumur pöpullinn.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 31.1.2012 - 18:35 - FB ummæli ()

Ljúkum málinu

Þegar frétt kom í útvarpinu áðan sem mér heyrðist eiga að snúast um skoðanir Ólafar Nordal á málssókninni gegn Geir Haarde, þá verð ég að viðurkenna að ég skipti um stöð. Með djúpri virðingu fyrir Ólöfu orkaði ég ekki í bili að heyra skoðanir hennar á þessu einu sinni enn.

Ég verð æ sannfærðari um að eina vitið sé að ljúka málinu fyrir Landsdómi. Þvargið á Alþingi nú á sér augljóslega fúlar flokkspólitískar rætur og það má ekki líðast í svo mikilvægu máli.

Það er ekkert stórhættulegt mannréttindabrot þó nokkrir miðaldra íslenskir lögfræðingar fjalli um hvort Geir Haarde hafi brotið lög um ráðherraábyrgð.

Látum Landsdóm hafa sinn gang.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!