Miðvikudagur 23.11.2011 - 20:51 - FB ummæli ()

Vá?

Finnst engum nema mér (og konunni minni) neitt athugavert við að léttklæddur prestur að hnykla ofurþjálfaða vöðvana hafi verið fenginn til að opna vefsíðu nýs flugfélags?

Og blessa það í leiðinni?

Sjá hér.

Er ekki eitthvað örlítið … ja, 2007 … við þetta?

Jájá, ég veit að það er ofsalega fúlt að vera að agnúast í einhverri fýlu út í svona skemmtilega frjálslegt uppátæki glaðbeittra kaupsýslumanna.

Það var einmitt alltaf sagt 2007!

Meðal annars ef einhver vogaði sér að vera með leiðindi þegar strákarnir átu gull.

Skúli Mogensen talar um að „ögra sjálfum sér og viðteknum hugsunarhætti“.

Já og já og jamm og jamm. Það er nú allt gott og blessað.

En það er nú bara þannig að þegar ég heyri kaupsýslumenn tala svona á seinni tímum, þá dettur mér alltaf bara í hug … já, einmitt … kaupthinking.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 22.11.2011 - 21:25 - FB ummæli ()

Þökk sé Ríkisútvarpinu – nei, RÚV meina ég …

Það er ömurlegt hvað norrænu sjónvarpsstöðvarnar eru óprófessjónal miðað við hið íslenska Ríkisútvarp.

Nei, fyrirgefið, RÚV.

Í gærkvöldi horfði ég á rússneska heimildarmynd í norska sjónvarpinu þar sem sagt var frá falli kommúnismans í Sovétríkjunum.

Núna í kvöld er ég að horfa á aðra rússneska heimildarmynd í sænska sjónvarpinu þar sem greinir frá stelpukjána sem vinnur í vodkaverksmiðju en lætur sig dreyma um að verða leikkona.

Þetta eru út af fyrir sig mjög merkilegar myndir.

Alvöru heimildarmyndir, úthugsaðar og segja merkilega sögu.

En sem betur fer yrðu þær aldrei sýndar í hinu íslenska Ríkisútv … nei, RÚV, meina ég.

Það eru nefnilega atriði í þeim báðum þar sem lýsingin er ekki alveg nógu góð.

Ég bara skil ekkert í okkar norrænu systkinum að líða þetta í sjónvarpinu hjá sér!

Og eru þetta þó ríkisstöðvar báðar.

Sem betur fer stendur RÚV vaktina og neyðir okkur ekki til að horfa á eitthvað illa lýst rugl.

Efnið skiptir engu máli, en lýsingin verður að vera í lagi.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 21.11.2011 - 23:35 - FB ummæli ()

Þeir sem risu upp

Guðný Ýr Jónsdóttir ekkja skáldsins Sigfúsar Daðasonar skrifaði grein í Fréttablaðið í gær þar sem hún kvartaði undan því að í nýrri bók Hannesar Hólmsteins um íslenska kommúnista væri því haldið fram að hann hefði „verið ófáanlegur“ til að mótmæla innrás Sovétríkjanna í Ungverjaland 1956.

Hún bendir á að það hafi hann einmitt gert með athugasemd í Tímariti Máls og menningar.

Sigfús var eindreginn vinstrimaður á dögum kalda stríðsins og margt í skrifum hans um pólitík og samfélagsmál í víðum skilningi bar þess merki, annaðhvort væri nú.

En hann var þó fyrst og fremst frábært skáld. Hann var reyndar mitt skáld, ekkert skáld hefur talað meir til mín um dagana, og fjöldinn allur af ljóðlínum úr kvæðum hans hafa gert sér hreiður í huga mér og skjótast þaðan fram þegar minnst varir og taka flugið.

Og þó ljóðin hans séu aldrei pólitískur áróður, þá er pólitík eða öllu heldur hugleiðingar um hugmyndir og hugmyndafræði mjög oft nærri. Og eins og stundum gerist um hin allra bestu skáld, þá sá Sigfús oft lengra og dýpra en aðrir.

Í einu ljóðanna í bókinni Hendur og orð frá 1959 fjallar hann furðu opinskátt um spillingarþjóðfélag sem verður að þjóðfélagi kúgunar og þöggunar – eða þannig má skilja það.

Það er líka um þá sem rísa upp gegn kúguninni, eins og Ungverjar gerðu 1956.

Og um alla þá sem rísa upp, jafnvel þótt við ofurefli sé að etja.

Ég ætla að taka mér það bessaleyfi að slá hér inn þetta ljóð og vona að það segi öðrum jafn mikið og það segir mér. Lesið það upphátt!

Sigfús Daðason, gjörið svo vel:

„Fyrrum var sagt: þú skalt sundra og drottna síðan –

en vér höfum nýtt og ljúfmannlegra boðorð.

Vort boðorð er stórfenglegt

einfalt og snjallt

og tært eins og sjálft dagsljósið.

Drottnun er ekki samræmanleg vorum hugsjónum:

undirokaðar þjóðir

eiga sér öruggan samastað

í hjarta voru.

Vér berum friðarorð sundruðum

og vér flytjum huggun fátækum.

Vér erum málsvarar frelsis:

frjálslyndi vort er svo yfirtak víðtækt

að það krefst frelsis handa kúgaranum

friðar handa rústunum

lífsréttar handa dauðanum.

*

Þjóð yðar er spillt

þjóð yðar er spillt í dýpsta eðli sínu.

En vér höfum einstakt lag og sjaldgæfa þolinmæði

til að leika við spillingu þjóðar yðar.

Sá leikur er oss auðveldur

en raunar ekki mörgum öðrum hentur.

Í trúnaði sagt: væri þjóð yðar ekki fullspillt

gætum vér látið henni í té

ögn af spillingu

því vér trúum á spillingu

nærum og nærumst á spillingu.

Eftir á skulum vér segja við yður með blíðu:

kæru vinir

spilling þjóðar yðar er svo róttæk

að jafnvel vér eigum fullt í fangi

að tæta um hana.

Og þá munum vér einnig sanna yður tölfræðilega

að vér en ekki þér

höfum krafta til að gæla við

hina óumflýjanlegu meðsköpuðu og óbreytanlegu spillingu.

Vér sem nú tölum eru hinir alefldu krossfarar gegn spillingunni

vér erum að sjálfsögðu persónugervingar siðferðisins.

*

Hér birtist frumleiki vor og djúpsæi

hér klýfur snilli vor björgin

innsýn vor lýsir yfir höfin.

Sjálfgerðir fjötrar

eru traustastir fjötra

Þegar vér leggjum ástfólgna vini vora í fjötra

setjum vér vanalega að skilyrði

að þeir hafi sjálfir grátbænt oss um þá

oss sýnist að sá einn háttur sé oss sæmandi

og þeim samboðinn.

Vér þurfum ekki að beita afli voru

vér sýnum ekki hnefann

(nema í ýtrustu undantekningum

og á þeim stöðum

þar sem hnefaafl vort helgast af sögulegum rétti):

þér skuluð koma skríðandi þér skuluð koma grátandi

og biðja oss að varðveita yður fyrir sjálfum yður.

Slíkur er töfrakraftur vors einfalda boðorðs

aldrei hafði fyrirrennurum vorum

lærzt jafn-vel og oss

að hálsinn sem sjálfkrafa laut undir okið

er tryggilegast beygður.

Já vér trúum á guð spillingarinnar

– en á illum stundum

nagar laumuleg hjátrú taugar vorar

og óútreiknanlegir misreikningar

læðast að söguminni voru.

Þetta eitt gengur fram af skilningi vorum:

vér trúðum guði spillingarinnar

vér sáum hann ríkja almáttugan

í sama vetfangi og þeir risu upp

og þeir risu upp.

Þetta eitt gengur fram af djúpsæi voru:

hvar höfðu þeir leynzt fyrir guði vorum

þeir sem risu upp?“

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 21.11.2011 - 11:12 - FB ummæli ()

Mikið verk Gísla

Ekki dettur mér í hug að við sem sátum í stjórnlagaráði höfum endilega skilað  fullkomnu verki og þaðan af síður óumdeilanlegu.

Og það er sjálfsagt og eðlilegt að fólk setji fram sínar skoðanir, athugasemdir og gagnrýni.

Ég skal á hinn bóginn viðurkenna að það fer ööööööörlítið í taugarnar á mér þegar gagnrýnendur tala um að þeir hafi uppgötvað „hnökra“ eða eitthvað alveg óttalega „vanhugsað“ í frumvarpi stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár.

Ég held ég geti nefnilega fullyrt með góðri samvisku að í frumvarpinu okkar sé afar fátt „vanhugsað“.

Ég hef til dæmis ennþá ekki heyrt neina athugasemd sem hefur komið mér á óvart – í þeim skilningi að ég hafi hugsað: „Vá, að við skyldum ekki hafa hugsað út í þetta!“

Þvert á móti verð ég æ sáttari með verk okkar eftir því sem umræðu um frumvarpið vindur fram, einmitt af því þar virðist ekki vera um „vanhugsaða hnökra“ að ræða.

Ég ítreka að í því felst ekki að allt sem við gerðum hafi verið fullkomið.

Það getur verið umdeilanlegt og það getur hugsanlega líka verið rangt, en það er ekki sett fram í fáti og vanhugsuðu fljótræði.

Þess vegna þætti mér vissulega skemmtilegra ef þeir sem hafa athugasemdir fram að færa tali ekki of yfirlætislega um „hnökra“ þó þeir séu ekki sammála einhverju sem í frumvarpi okkar stendur.

Þótt menn séu ekki sammála einhverju þýðir það nefnilega ekki að viðkomandi atriði sé vanhugsað eða sett fram af einskærri fávisku.

Gísli Tryggvason félagi í stjórnlagaráði hefur nú lokið miklu og gagnlegu verki sem er að fara yfir hverja einustu grein frumvarpsins okkar á bloggi sínu og birta þar skýringar og frekari útlistanir á því hvað liggur að baki hverri grein.

Ég mæli eindregið með að áhugasamir kynni sér þetta góða verk hans af kostgæfni. Það getur útrýmt ýmsum misskilningi um hvað fyrir okkur vakti og hvaða leiðum öðrum við höfum velt fyrir okkur.

Og þannig gert umræðuna um verk okkar gagnlegri og dýpri en ella.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 20.11.2011 - 12:40 - FB ummæli ()

Dada

Það hefur verið nánast súrrealísk reynsla að fylgjast með fréttum af landsfundi Sjálfstæðisflokksins.

Báðir frambjóðendur til formanns leggja lykkju á leið sína til að lofa og prísa Davíð Oddsson sem hinn mikla og „farsæla“ forsætisráðherra.

Ég ber í sjálfu sér fyllstu virðingu fyrir mörgum dráttum í stefnu Sjálfstæðisflokksins.

En það er ekki hægt að bera virðingu fyrir flokki þar sem það virðist vera orðið trúaratriði að sleikja sig upp við helsta hrunvald Íslands.

Það er bara móðgun við alla þá sem þurft hafa að reyna hrunið á eigin skinni.

Ég hvet fólk til að lesa þetta blogg Marinó G. Njálssonar.

Og að heyra 1.600 manns á landsfundi skellihlæja að fimmaurabröndurum hins mikla og ástsæla leiðtoga, það er sorglegt.

Það vottar ekki fyrir raunsæi í viðhorfum þeirra sem ráða í sjálfstæðisflokknum.

Eftir á að hyggja er súrealismi ekki nógu sterkt orð til að lýsa forystu Sjálfstæðisflokksins nú um stundir.

Dada-ismi væri nær lagi.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 19.11.2011 - 15:34 - FB ummæli ()

Hverjir skulda hverjum hvað

Hérna er dálítið skemmtileg graf sem BBC hefur látið gera og sýnir næsta vel hverjir skulda hverjum hvað í skuldakrísunni sem gengur nú yfir Vesturlönd. Þarna má sjá nokkur þeirra Evrópulanda sem mest hafa verið í sviðsljósinu, ásamt Bandaríkjunum og Japan. Smellið á nafn hvers lands fyrir sig, þá sést hverjum þau skulda og hvað mikið.

Það væri reyndar gaman að sjá hvernig Kína myndi passa inn í svona mynd.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 19.11.2011 - 15:18 - FB ummæli ()

Stríð athugasemdasemjaranna

Þar sem það hefur orðið fréttaefni á að minnsta kosti tveimur vefsíðum að nafnlausir skríbentar hafi villt á sér heimildir í athugasemdum á bloggsíðunni minni, þá er best ég afgreiði málið fyrir mína parta.

Í gærmorgun uppgötvaði ég mér til stórrar furðu að einhver hafði tekið þátt í umræðum um einn af bloggpistlum mínum undir mínu nafni. Þegar ég skoðaði athugasemdirnar nánar sá ég að viðkomandi hafði raunar skrifað athugasemdir undir fleiri nöfnum, og var þar bæði um full nöfn og stuttnefni að ræða.

Þetta þótti mér vitaskuld svívirða hin mesta og lokaði athugasemdakerfinu umsvifalaust, eða færði það yfir á Facebook. Með því móti er fólki illmögulegt að þykjast vera aðrir nafngreindir einstaklingar, þótt það geti að vísu eftir sem áður skrifað undir fölskum nöfnum eða dulnefni.

Ég fékk síðan tölvupóst frá viðkomandi þar sem hann kvaðst hafa gert þetta í einhvers konar sjálfsvarnarskyni, þar eð einhver enn annar hefði síðustu daga tekið upp á því að skrifa athugasemdir undir dulnefninu hans. Sagðist honum hafa líkað stórilla og gert athugasemdir við þetta. Ég hef greinilega ekki lesið athugasemdirnar nógu vel, því ég hafði ekki veitt þessum erjum hinna nafnlausu athugasemdasemjara nokkra athygli! Altént kom það í ljós þegar vefstjóri síðunnar skoðaði málið að þetta var rétt – annar aðili hafði vissulega skrifað athugasemdir undir sama dulnefni og hinn í nokkur skipti og sent frá ýmsum netföngum. Ekki hef ég minnstu hugmynd um hvað fyrir honum vakti, og langar ekki að vita það. En þó gremja þess sem „átti“ dulnefnið sé ef til vill skiljanleg, þá er þó ekkert sem afsakar að taka sér nöfn annars fólks.

Þetta er svolítið fyndið mál – minnir svolítið á hinar rússnesku babúskur, þar sem einn leynist inní öðrum, en mér finnst þó ekkert fyndið að skrifa athugasemdir undir fullu nafni einhvers annars. Því munu athugasemdir á bloggsíðunni fyrst um sinn verða bundnar við Facebook, þó ég verði að viðurkenna að helst vildi ég sleppa því. Ég er eindregið fylgjandi því að fólk skrifi undir fullu nafni, en hafi fólk ríka ástæðu til að nota dulnefni finnst mér það í rauninni allt í lagi, svo lengi sem skikkanlegrar kurteisi er gætt.

(Í þessum pistli kemur fyrir nýyrðið „athugasemdasemjari“ sem er vissulega bæði ljótt og óþjált en mér finnst þó hæfa vel. Hvet ég fólk til að hlúa að orðinu og koma því á legg.)

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 18.11.2011 - 21:30 - FB ummæli ()

Menningarminjar

Vésteinn Ólafsson fyrrverandi prófessor og forstöðumaður Árnastofnunar skrifar í Fréttablaðið í dag um hugmyndir um að reisa í Skálholti kirkju í stíl hinna stórmerkilegu miðaldadómkirkna sem þar stóðu forðum.

Og hann finnur þeim hugmyndum flest til foráttu.

Mér finnst svolítið yfirlæti skína í gegnum grein hans.

Yfirlæti þess sem er viss um að hann hafi höndlað hinn endanlega sannleika um hvernig meðhöndla skuli menningararf og minjar.

Ég segi þetta vegna þess að ég hef oft hugsað um það þegar ég skoða fornar minjar erlendis, hversu gaman væri ef maður fengi að sjá og skoða hin gömlu mannvirki í allri sinni dýrð, áður en tíminn vann á þeim.

Ég ímynda mér auðvitað ekki að slík endurreist mannvirki væru nákvæmlega eins og þau hin fornu, en samt væri gaman að skoða þau.

Og Vésteinn viðurkennir sjálfur að „tilgátuhús“ eins og bærinn á Stöng eigi fullan rétt á sér, og því skil ég ekki gremju hans út í endurgerða miðaldadómkirkju.

Eða af hverju slíkt uppátæki heitir allt í einu „smekkleysi og rugl“.

Ef Meyjarhofið á Akrópólis-hæð hefði verið gert úr timbri, eins og dómkirkjurnar í Skálholti, og því horfið í tímans rás, hefði þá Vésteinn Ólafsson skrifað af fyrirlitningu um hugmyndir um að endurreisa það í sem næst upprunalegri mynd?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 18.11.2011 - 18:31 - FB ummæli ()

Svartnættið

Ekkert veit ég um þetta mál, umfram það sem stendur í frétt Pressunnar.

En þarna virðist Karl Wernersson hafa lent í einhvers konar tuski við lögfræðing sem var kominn til að kyrrsetja tæki á líkamsræktarstöðinni hans á Grand Hotel.

Og ég verð að viðurkenna að stundarkorn fann ég svartnættið hellast yfir mig.

Í Laugardalshöllinni keppast formannsframbjóðendur við að mæra hrunkónginn Davíð Oddsson sem „farsælasta forsætisráðherra landsins“ á seinni tímum.

Bak við næsta leiti á Grand Hotel er útrásin að syngja sitt síðasta með dapurlegum slag við lögfræðinga.

En framan á DV brosa svo hinir auðmennirnir sem hafa fengið allt sitt afskrifað og halda áfram eins og ekkert hafi í skorist.

Drottinn minn dýri – hvenær rennur eiginlega upp sá heimur sem mig langar að lifa í?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 18.11.2011 - 14:48 - FB ummæli ()

Engin takmörk

Það virðist nú hafa verið staðfest.

Ljóshraðinn er ekki mesti hraði í alheiminum.

Sjá hér.

Vísindamenn munu að vísu telja sig þurfa meiri prófanir, áður en þeirri kennisetningu Alberts Einstein verður kastað fyrir róða að ekkert geti nokkru sinni farið hraðar en ljósið.

En líkurnar aukast.

Þessi kennisetning Einsteins hefur verið viðtekinn sannleikur í 100 ár.

Það mun kannski ekki hafa mikil áhrif á daglegt líf fólks í fyrstu, þótt við komumst að því að til séu agnir sem fari ennþá hraðar en ljósið.

En sé það rétt – eins og flest virðist benda til – þá er þó ljóst að við vitum minna um alheiminn en við héldum.

Einkum um takmörk hans.

Æ fleiri líkur benda nú til þess að sá alheimur sem við sjáum (og virkar vissulega nógu stór!) sé ekki annað en örlítið brot af hinum raunverulega alheimi, og líklega séu alheimarnir í rauninni margir.

Kannski gilda mjög ólík eðlisfræðilögmál í þeim.

Og ljóshraðinn virðist altént ekki lengur vera endimörk hraðans í þessum heimum öllum!

Gaman.

Segiði svo að við lifum ekki á spennandi tímum.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!