Laugardagur 10.1.2015 - 10:32 - FB ummæli ()

Gleymum því ekki

Fyrst eftir árásirnar í París virtust allir sammála um að um hefði verið að ræða árás á tjáningarfrelsið.

Þarna hefði verið um að ræða forstokkaða öfgamenn sem þyldu ekki gagnrýni og háð um sín lífsviðhorf.

Síðan hafa risið upp aðrar raddir, þær segja meðal annars:

„Hvaða vitleysa er þetta, að árásin í Frakklandi hafi snúist um tjáningarfrelsi? Hún snýst um kúgun Vesturlandabúa á múslimum gegnum áratugi og aldir, ömurlegt framferði vestrænna stórvelda í Miðausturlöndum, stuðning Evrópumanna og Bandaríkjamanna við Ísrael, og svo framvegis. Verið ekki svo einföld að láta ykkur detta í hug að morðingjarnir í París hafi verið móðgaðir út af einhverjum skopmyndum!“

En það er nú það. Allt er þetta í sjálfu sér satt og rétt að því leyti að öll þessi atriði hafa skapað þann hryggilega graut sem málefni Miðausturlanda eru komin í, og samskipti íslams og Vesturlanda.

Og við skulum ræða það allt saman í þaula, og ég skal fordæma framferði Vesturveldanna í heimi múslima á við hvern sem er.

En það voru nú samt skopmyndateiknararnir á Charlie Hebdo sem voru skotmarkið.

Gleymum því ekki.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 8.1.2015 - 08:44 - FB ummæli ()

Þegar Kolbrún var skotin í kaf

Hrunveturinn mikla 2008-2009 horfðum við Íslendingar fram á eintómt svartnætti. Ljóst var að skuldir þjóðarbúsins yrðu gífurlegar næstu árin og jafnvel áratugina og risastórri stoð hafði verið kippt utan atvinnulífinu – bankastarfseminni – án þess að séð yrði að neitt kæmi í staðinn.

Þá reyndu menn talsvert að binda trúss sitt við væntanlega olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Þar myndi bullast upp olía í þvílíkum mæli að fyrr en varði yrðum við aftur ofsarík.

Rétt fyrir kosningarnar vorið 2009 heyrðist hins vegar nokkuð óvæntur tónn.

Kolbrún Halldórsdóttir hafði þá verið skipuð umhverfisráðherra í minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, og við eitthvert tækifæri sagði hún sem svo að það væri ekki víst að við ættum endilega að rjúka til og fara að dæla upp olíu á Drekasvæðinu, þótt þar fyndist olía.

Það gæti einfaldlega verið of skaðlegt umhverfinu.

Nú – skemmst er frá því að segja að Kolbrún var gjörsamlega skotin í kaf með þetta. Hún þurfti að þola endalausa gagnrýni um það hvernig þetta óþolandi umhverfisverndarfólk væri sífellt að „tala niður atvinnulífið“, „stöðva framfarir“, vildi helst koma alveg í veg fyrir að „hjól atvinnulífsins stöðvuðust“ en jarmaði í staðinn um „eitthvað annað“ eða „fjallagrös á heiðum“ og ég veit ekki hvað.

Ég man að sjálfum fannst mér þetta ansi mikill taktískur feill hjá Kolbrúnu. Olíuvinnslan var þrátt fyrir allt vonargeisli í þeirri dimmu sem hafði lagst yfir þjóðina, og mér fannst algjör óþarfi af henni að vilja svona hálfpartinn slá olíuna af, áður en einu sinni væri að fullu ljóst hvort þarna væri olía í vinnanlegu magni.

Þetta útspil kostaði Kolbrúnu alveg efunarlaust ráðherrastólinn, hún náði ekki árangri í prófkjöri VG fyrir kosningarnar, og enginn vafi á að þetta mál spilaði þar allmikla rullu. Jafnvel mörgum kjósendum VG – umhverfisverndarsinnunum þeim – fannst ímynd hennar of neikvæð.

Nú er komið í ljós að sjónarmið á borð við þau sem hún hreyfði eru orðin æ útbreiddari.

Sjá til dæmis þetta yfirlit hér úr Guardian.

Hér er líka skjáskot af fyrirsögninni:

 

Screen shot 2015-01-08 at 8.17.49 AM

 

Nú vitum við ekki enn hvort olíuvinnsla á Drekasvæðinu sé yfirleitt raunhæf, eða hvort sérfræðingarnir sem Guardian vitnar til hafi endilega fullkomlega rétt fyrir sér.

En virðing mín fyrir stjórnmálamanninum Kolbrúnu Halldórsdóttur hefur hins vegar aukist. Vissulega var þetta kannski ekki alveg heppilegasti tímapunkturinn til að orða efasemdir um olíuvinnslu á Drekasvæðinu, en raunar var Kolbrún samt bara að sinna því merkilegasta hlutverki sem stjórnmálamenn eiga að hafa – taka hluti til umræðu, velta vöngum, horfa fram á veginn, byrja að leggja drög að langtímasýn – en ekki ana strax af stað með jarðýturnar þegar öflugir hagsmunaaðilar heimta.

Það mættu ýmsir taka sér til fyrirmyndar.

 

– – – –

Mig hefur greinilega misminnt að því leyti að hin opinberu ummæli Kolbrúnar féllu ekki fyrir prófkjörið eða forval VG, eins og mig skrifa hér að ofan. Heldur í fréttum nokkrum dögum fyrir kosningarnar sjálfar. Hvort þessi sjónarmið, sem vafalaust hafa verið kunn áður, og sér í lagi innan VG, hafi samt haft áhrif á forvalið, það get ég ekki fullyrt um.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 3.1.2015 - 20:10 - FB ummæli ()

Nú þarf kirkjan pening fyrir sjálfa sig – safnar ekki fyrir spítala

Í byrjun árs 2013 eða fyrir réttum tveimur árum tilkynni Agnes Sigurðardóttir biskup með heilmikilli viðhöfn að þjóðkirkjan ætlaði nú að starta söfnun fyrir tækjum og starfsemi Landspítalans.

Sjá frétt um þessa ágætu söfnun hér.

Það er sama hvernig ég klóra mér í kollinum, ég get ekki munað hvort eitthvað varð af þessari söfnun.

Var einhverju safnað? Voru einhver tæki keypt?

Eða var þetta bara gaspur út í loftið.

Fróðlegt væri að heyra af þessu.

Það fór þá alla vega ekki eins mikið fyrir niðurstöðu þeirrar söfnunar og upphafi hennar.

En hvað sem því líður!

Nú liggur kirkjan mjálmandi á dyrum Sigmundar Davíðs og vill pening.

Hvorki meira né minna en 660 milljónir.

Ekki fyrir heilbrigðiskerfið – heldur fyrir sig sjálfa.

Nú á að „bæta upp“ þá skerðingu sem kirkjan varð fyrir í hruninu – eins og við öll.

Og leggja peninginn í sjóði kirkjunnar – smíða hús, sauma þessar skikkjur sem prestar ganga einlægt í, og bæta aðstöðu prestanna.

(Þeir hafa reyndar góð laun, hærri byrjunarlaun en læknar, til dæmis.)

Nú á ekki að kaupa tæki fyrir Landspítalann, eða bæta heilbrigðiskerfið.

En hefur það skánað mikið síðustu tvö árin? Þarf heilbrigðiskerfið allt í einu ekkert meiri pening?

Kirkjan alla vega meira þurfandi, ha?

Og viti menn – Sigmundur Davíð hefur heyrt mjálm þetta – og einmitt fundið alveg gommu af pening sem hann ætlar að senda kirkjunni.

Heilbrigðiskerfið, ha, nei?

Prestar þurfa pening!

 

– – –

Mér hefur borist ábending um að þau sóknargjöld sem nú er talað um að „endurgreiða“ fari ekki í að borga laun presta. Hafið það í huga. Ég breytti setningunni „borga laun presta“ því í „bæta aðstöðu prestanna“.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 3.1.2015 - 16:11 - FB ummæli ()

Bílskúr Framsóknarflokksins

Ég sá einhvers staðar í annars frekar skynsamlegri áramótagrein að Framsóknarflokkurinn hefði „efnt“ kosningaloforð sín um „skuldaleiðréttingu“.

Er sú þjóðsaga virkilega að festast í sessi?

Framsóknarflokkurinn efndi EKKI kosningaloforð sín um skuldaleiðréttingu.

Hann lofaði að minnsta kosti 300 milljörðum frá erlendum hrægammasjóðum.

Það var ekki efnt.

Í staðinn komu 80 milljarðar (í mesta falli) úr ríkissjóði.

Tilfærsla, ekki „leiðrétting“.

Nú eru margir á því að það hefði verið glapræði hið mesta ef flokkurinn hefði fengið að henda í þetta 300 milljörðum. Það getur vel verið, en það á samt ekki að koma í veg fyrir að menn skammi flokkinn loforðaglaða fyrir að hafa ekki efnt þetta loforð sitt.

Flokkurinn lofaði tilteknum hlut og komst til valda út á það loforð – með því að efna loforðið ekki, þá dæmist flokkurinn hafa svikið sig til valda.

Og það hljótum við að fordæma, hvaða skoðun sem við höfum á loforðinu.

Mér sýnist að líkja megi „efndum“ Framsóknarflokksins við að einhver hefði lofað að gefa mér hús.

Í staðinn reisir hann bílskúr.

Og kemur svo með reikninginn til mín.

Þannig eru „efndir“ Framsóknarflokksins.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 25.12.2014 - 13:13 - FB ummæli ()

Góðir lífhrútar

Ég ákvað að birta einhverja jákvæða og upplífgandi tilvitnun í gömul rit á Facebook-síðunni minni.

Fór á Tímarit.is og leitaði að orðunum „góða líf“.

Fannst að það hlyti að vera hægt að finna mörg dæmi um að Íslendingar áður fyrr hefðu ekki aðeins einblínt á erfiðleikana og eymdina sem fylgdu lífsbaráttunni, og í sveitasamfélagi fortíðar hefðu menn líka séð hið fagra í lífinu, og skrifað um það snotrar hugvekjur.

En var það ekki alveg dæmigert að fyrsta dæmið sem leitarvélin fann um „góða líf“ skyldi vera úr umsögn um bókina Kynbætur sauðfjár frá 1915?

Og það var verið að tala um „góða lífhrúta“.

Við lifðum lengi í veröld Bjarts í Sumarhúsum.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 19.12.2014 - 10:34 - FB ummæli ()

Stalín í Norður-Kóreu

Uppistandið í Bandaríkjunum út af kvikmyndinni The Interview er ótrúlegt.

Þetta virðist vera ósköp hefðbundin amerísk grínmynd, þótt hún fjalli reyndar um ögn óvenjulegt efni.

Tveir fréttamenn fá óvænt tækifæri til að fara til Norður-Kóreu og taka viðtal við Kim Jong-un einræðisherra, nýjasta laukinn í því furðulega ættarveldi sem þrífst í landinu.

Fréttamönnunum er svo falið af CIA að ráða þennan sérstaka óvin Bandaríkjanna af dögum.

Norður-Kóreumönnum er ekki skemmt, enda er greinilega gert stólpagrín að stjórnarfarinu í landinu.

En Bandaríkjamenn gera líka grín að sjálfum sér, eins og þeim er svo lagið – fréttamennirnir tveir virðast vera tilbrigði við viðkunnanlegu en fávísu og einföldu Ameríkanana sem kunnir eru úr ótal myndum.

Sem ramba um heiminn sem þeir hafa litla þekkingu á, svolítið eins og góðlegir fílar í glervörubúð.

Nú hafa tölvuárásir og hótanir Norður-Kóreumanna orðið til þess að hætt hefur verið við frumsýningu myndarinnar.

Það er fáheyrt, og vonandi verður myndin sýnd sem fyrst.

Burtséð frá því hvort The Interview er merkileg mynd eða ekki, þá gengur náttúrlega ekki að menn geti með hótunum um hryðjuverk komið í veg fyrir kvikmynd, bók eða hvaðeina annað í hinum frjálsa heimi.

Tala nú ekki um ef það er ömurlegasta einræðisríki heimsins sem stendur á bak við hótanirnar.

The Interview er svo kannski ekki galin kvikmynd, þótt það sé reyndar ekki aðalatriði málsins.

En í „trailernum“ sá ég að minnsta kosti einn svolítið fyndinn brandara.

Annar hinna fávísu amerísku fréttamanna er kominn í heimsókn til Kim Jong-un, sem sýnir honum stoltur dótið sitt.

„Og þarna er skriðdrekinn sem Stalín gaf afa mínum,“ segir Kim brosleitur í meira lagi og bendir á stríðstólið sitt.

„Aha,“ segir fávísi Ameríkaninn. „Við berum það reyndar fram S-t-a-l-l-o-n-e.“

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 12.12.2014 - 08:15 - FB ummæli ()

Ótrúleg saga en sönn

Í mars 1907 gerði brjálað veður á hafinu kringum Ísland. Einn kúttter fórst með manni og mús, nokkrir voru hætt komnir og misstu menn î sjóinn, í Eyjafirði hvarf selveiðibátur og er ekki allt upptalið.

Farþegaskipið Kong Trygve í eigu Þórs Túliníusar kaupmanns var þá lengi að hrekjast í ægilegu veðri fyrir Norðurlandi og í gríðarlegum hafís. Eftir hryllingsnótt út af Sléttu var danski skipstjórinn svo illa farinn á taugum. Þó var það versta enn í vændum. Skipið fórst í ísnum djúpt út af Langanesi og þá var jafnvel færeyska stýrimanninum öllum lokið en hann hafði haldið skipshöfninni gangandi fram að því.

Skipstjórinn stakk af til lands á sínm björgunarbáti en eftir úti í ísnum urðu tveir bátar sem voru dögum saman að reyna að brjótast til lands.

Aðeins öðrum tókst það.

Í þessum raunum steig fram sem hetja miðaldra ólæs háseti, Hannes Hansson, sem beinlínis þurfti að berja félaga sína áfram, svo þeir kæmust af.

Hann var reyndar ekki góðu vanur, hafði alist upp í algjörri fátækt og örbirgð fyrir austan fjall, þar sem hungurdauðinn sat enn um fólk og húsbændur fóru skelfilega með fátækan lítinn tökustrák eins og Hannes.

Þessa mögnuðu örlagasögu segi ég í nýja bindinu af Háska í hafi, Hafís grandar Komg Trygve, sem er nú komin út.

Og reyndar margar fleiri makalausar sögur af sama tagt.

Endilega kynnið ykkur þessar mögnuðu en stundum ótrúlegu sögur þar sem söguhetjurnar eru afar og ömmur okkar allra.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 4.12.2014 - 17:06 - FB ummæli ()

Af hverju Ólöf varð ráðherra

Ég veit ekki af hverju allir eru svona hissa á því að Bjarni Benediktsson skyldi fá Ólöfu Nordal til að verða ráðherra. Málið er frekar einfalt. Auðvitað varð að fá konu í embættið, en innan þingflokksins kom raunverulega engin nema Ragnheiður Ríkharðsdóttir til mála. Langflottasti kandídatinn, og alveg borðliggjandi að hún yrði ráðherra. En hún má ekki komast til frama, því þá verður Davíð reiður. Og Bjarni gerir enn eins og Davíð segir. Bjarni reyndi að komast framhjá vandamálinu með því að bjóða Einari Guðfinnssyni djobbið, en hann er svo gamall í hettunni að konur innan flokksins hefðu ekki kunnað við að múðra mjög mikið yfir því. En Einar vildi ekki starfið og þá varð Bjarni að finna konu. Og eina konan sem var í nógu sterkri stöðu innan flokksins til að koma í veg fyrir að hneykslunaralda risi, þegar gengið yrði framhjá Ragnheiði, var Ólöf. Hún er ágætur kostur, en það hlýtur að vera skrýtið fyrir hana að vera komin á þennan stað, bara til að koma í veg fyrir að Ragnheiður Ríkharðsdóttir verði ráðherra.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 4.12.2014 - 07:35 - FB ummæli ()

Veltiár, ekki góðæri

Það fer sífellt meira í taugarnar á mér að sjá talað um „góðærið“ í merkingunni árin fyrir hrun.

Þetta er svo sem skiljanlegt orð – við höfðum það öll svo voðalega gott, var það ekki?

(Reyndar ekki. Stórar hópar, og einkum þeir verst settu í samfélaginu höfðu það ekkert betra þessi ár en venjulega.)

Ég hef sjálfur notað þetta orð þegar ég meina þennan tíma.

En ég er að hugsa um að leggja alveg af þann sið.

Orðið „góðæri“ felur í sér að árferði hafi verið gott í einhverjum skilningi.

En „góðærið“ 2002-2007 stafaði ekki af góðu árferði, heldur eingöngu af því að hér fylltist allt af lánsfé frá útlöndum.

Sem ekki reyndist svo unnt að standa skil á, og þá hrundi allt.

Ég legg því til að við hættum að tala um góðæri. Hins vegar er gráupplagt að nota orð sem Halldór Laxness gerði vinsælt í Sjálfstæðu fólki.

Veltiár.

Það virðist að vísu upphaflega hafa verið notað í svipaðri merkingu og góðæri.

Elsta dæmið sem Tímarit.is þekkir er úr Skírni 1830, þar sem segir:

„Á Suðurlandi var hvarvetna mesti fiskiafli, og góður grasvöxtur og góð nýting, og mátti þar heita veltiár …“

En með tímanum er farið að nota orðið um tíma þegar veltan er mikil, en kannski ekki mikil innistæða fyrir allri veltunni.

Rétt eins og Halldór gerir í Sjálfstæðu fólki.

Og einmitt þannig var tíminn fyrir hrun.

Þetta voru veltiár, ekki góðæri.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 27.11.2014 - 19:24 - FB ummæli ()

Hvað er með Jón Bjartmarz?

Hvað er eiginlega málið með Jón Bjartmarz?

Er hann farið að dreyma um hríðskotabyssur á nóttunni?

Nú segir hann að almenna löggan íslenska þurfi hríðskotabyssur til að koma í veg fyrir fjöldamorð eins og í Columbine skólanum eða Útey í Noregi.

Jæja já?

Komu allar þær byssur og vélbyssur sem ameríska lögreglan býr yfir í veg fyrir harmleikinn í Columbine?

Eða komu hríðskotabyssur norsku almennu löggunnar í veg fyrir hryllinginn í Útey?

Nei.

Þar var kölluð út sérsveit.

Við Íslendingar höfum sérsveit ríkislögreglustjóra, sem hægt er að kalla út með skömmum fyrirvara ef þörf er á vopnuðum lögreglumönnum.

Við eigum EKKI að opna almennu lögguna okkar.

Það er einfaldlega engin ástæða til þess – þvert á móti getur það verið hættulegt.

En Jón Bjartmarz gengur of langt þegar hann gefur sterklega í skyn að hér innanlands kunni að vera einhverjir upprennandi meðlimir IS sem gætu farið að undirbúa hryðjuverk.

Þetta er hræðsluáróður og tilraun til að magna upp ótta við múslima á Íslandi.

Svo hann geti fengið byssurnar sínar.

Hafi Jón Bjartmarz skömm fyrir.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!