Þriðjudagur 16.8.2011 - 13:44 - FB ummæli ()

Ráðherrar á flótta?

Það er tími til að tala og það er tími til að þegja.

Stundum er vissulega réttlætanlegt að ráðherrar sýni ekki umsvifalaust öll þau spil sem þeir hafa á hendi.

En ráðherrar á hlaupum undan fréttamönnum?

Eins og hér er lýst.

Ekki kaus ég stjórnmálamenn til þess arna.

Gera svo að láta af svona hegðun, takk fyrir.

Og meðal annarra orða – hvað líður nýjum hugmyndum um Guðmundar- og Geirfinnsmál?

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 15.8.2011 - 15:24 - FB ummæli ()

Hækkið skattana mína! biður Buffett

Bandaríkin eru í djúpum skít af því þar má ekki hækka skatta á hina ofsaríku.

Barack Obama hefur ekki bein í nefinu til að takast á við þá.

Umræður um skatta í Bandaríkjunum bergmála líka hér á Íslandi, þar sem öllum hugmyndum um hækkun skatta er mætt með ramakveini þeirra sem mesta eiga peningana.

Það er því ástæða til að benda á þessa grein hér eftir auðkýfinginn Warren Buffett, einn helsta spámann hins aþjóðlega kapítalisma.

Hann er búinn að fá nóg af vælinu í auðkýfingunum vinum sínum og krefst þess af þeim að þeir axli sína ábyrgð.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 12.8.2011 - 12:46 - FB ummæli ()

Safnast á söfn

Ég var á ferð á Austfjörðum í vikunni og skoðaði þrjú söfn sem mér finnst ástæða til að benda á.

Þórbergssafnið á Hala í Suðursveit er bráðskemmtilegt. Þar er búið að reisa alla veröld Þórbergs á litlu svæði og mjög gaman að skoða hana.

Á Neskaupsstað er safnahús þar sem eru sýnd málverk eftir Tryggva Ólafsson á neðstu hæðinni, á miðhæðinni er frábært vélaminja- og verkfærasafn úr fórum Jósafats Hinrikssonar og á efstu hæðinni er snoturt og vel upp sett náttúrugripasafn.

Því miður missti ég af stríðsminjasafninu á Reyðarfirði, en flýti mér á það næst þegar ég á leið austur. Og sömuleiðis á sjóminjasafnið á Eskifirði.

Og svo er safnið um Vatnajökulsþjóðgarð á Skriðuklaustri afar impónerandi. Það er sérlega úthugsað og skipulagt, og stingur skemmtilega í stúf við söfn þar sem leitast er við að sýna sem mest af sem flestu.

Þarna er hvorki of né van.

Fyrir neðan brekkuna þar sem þetta fína safn er, þar er svo verið að grafa upp miðaldaklaustrið, og merkilegt að ganga þar um og reyna að sjá fyrir sér mannlífið á fyrri hluta sexándu aldar þegar Skriðuklaustur var upp á sitt besta.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 8.8.2011 - 08:15 - FB ummæli ()

Það sem þarf …

Það er verið að setja saman fjárlög, það vitum við.

Og það hefur þegar komið fram að þau verða ekkert fagnaðarefni.

Við erum enn að súpa seyðið af „veislunni“ svokölluðu. Var það ekki Árni Mathiesen þáverandi fjármálaráðherra sem kallaði bóluna það?

En nú stefnir sem sé þriðja haustið í röð í miklar deilur um hvora leiðina eigi að fara, niðurskurð eða skattahækkanir.

Sjálfsagt þarf að gera sitt lítið af hvoru – þetta var náttúrlega heljarinnar „veisla“ sem við þurfum nú að borga!

En má ég upplýsa stjórnmálamenn okkar um eitt?

Ég – og nú held ég að mér sé óhætt að fullyrða að ég tali fyrir munn ansi margra – ég get sem sagt varla horft upp á eitt haustið enn af mannskemmandi rifrildi sem í orði kveðnu snýst um leiðir út úr kreppunni, en snýst í rauninni um völd og áhrif.

Og hver mígur á sína þúfu.

Ég sat í stjórnlagaráði.

Burtséð frá því frumvarpi sem við skiluðum, þá sönnuðu vinnubrögð okkar í ráðinu að hópur af fólki sem kemur saman og ÆTLAR að ná árangri, sá hópur getur vel náð árangri.

Ef fólk sýnir hvert öðru virðingu – og hugsar ekki fyrst um að koma sjálfu sér einhvern veginn á oddinn.

Heldur hugsar eingöngu um að ná árangri sem allir eða flestir geta skrifað upp á.

Þá næst árangur – sem þó er ekkert miðjumoð, og sem þó hefur ekki haft í för með sér að einn hafi vaðið yfir annan.

Ég legg til að stjórnmálamenn okkar reyni að draga svolítinn lærdóm af þessu, áður en þeir hefjast handa um sínar hefðbundnu spælingar og niðurrif.

Og annað:

Ríkisstjórnin hefur náð mjög markverðum árangri nú þegar.

Það fer að verða búið að spúla út brotnum glösum og matarleifum og öðru rusli eftir „veisluna“.

En nú þarf að stíga næsta skref.

Við þurfum sýnileg og jákvæð merki um að uppbygging sé að hefjast á fullum krafti.

Ekki bara þriðja haustið af niðurskurði og/eða skattahækkunum.

Heldur uppbyggileg merki um að nýir tímar séu í vændum.

Það er líka hægt að nota vinnubrögð stjórnlagaráðs til að ná samkomulagi um slíkt!

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 7.8.2011 - 21:52 - FB ummæli ()

Ég mun nú gerast veðurfréttamaður

Ég þarf að fara að finna mér eitthvað að gera, nú eftir að stjórnlagaráð hefur lokið störfum.

Mér datt í hug að gerast veðurfréttamaður á alþjóðlegri stjórnvarpsstöð.

Þeir þurfa víst enga sérstaka menntun.

Sá sem birtist hér að neðan er víst kóngurinn í bransanum, Tom Skilling veðurfréttastjóri á einhverri sjónvarpsstöð í Chicago.

Chicago er mikil vindaborg, og það skýrir kannski launin sem Skilling fær. Og hann er reyndar menntaður veðurfræðingur.

En altént hefur hann víst 20 milljónir íslenskra króna á mánuði.

Ég hef þess vegna ákveðið að fara út í þennan bransa – nema náttúrlega mér berist eitthvað meira spennandi tilboð.

Látið mig endilega vita ef þið fréttið af lausu plássi við veðurfréttirnar á einhverri góðri sjónvarpsstöð.

Það þarf ekki að vera stöðin í Chicago – það er víst algengt að venjulegir veðurfréttamenn nái tveim milljónum íslenskra króna á mánuði á bara frekar vinsælum stöðvum.

En að lokum – ef einhverjum finnst hann eða hún kannast við nafnið Skilling, þá – ójú – hann er bróðir Jeff Skilling, mannsins sem stýrði hinu illræmda fyrirtæki Enron.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 6.8.2011 - 08:17 - FB ummæli ()

Sigurvegararnir eru víðsfjarri

Í dag ættu allir þeir sem staddir eru í Reykjavík að bregða sér í Ráðhúsið stundarkorn og tefla eins og eina skák.

Það gæti til dæmis verið passlegt fyrir, eftir eða meðan á Gleðigöngunni stendur.

(Rétt er að taka fram að í dag – sunnudag – verður líka opið skákhús í Ráðhúsinu – drífa sig!)

Í Ráðhúsinu bíða verðugir andstæðingar – margir af efnilegustu skákkrökkum landsins.

Gaman að fást við þau! Og rifja upp mannganginn fyrir þá sem hafa ekki teflt lengi.

Í raun snýst málið samt ekki beinlínis um að tefla, og þaðan af síður að vinna sína skák.

Því raunverulegir sigurvegarar í þeim skákum sem þarna verða tefldar verða hvergi nærri.

Hinir eiginlegu sigurvegarar verða nefnilega nauðstödd börn í Sómalíu, þar sem hungursneyð ógnar nú lífi milljóna manna, og ekki síst barna.

Hugmyndin er sú að gestir borgi svolitla upphæð fyrir hverja skák sem þeir tefla við skákkrakkana okkar í Ráðhúsinu.

Kannski þúsundkall, kannski meira, bara eftir getu hvers og eins.

Og peningarnir munu renna þráðbeint til hungraðra barna í Sómalíu.

Hver einasta skák bjargar mannslífi.

Sjá hér.

Taflmennskan byrjar klukkan tíu, nú fyrir hádegi, og stendur til sex síðdegis.

Drífum okkur nú öll í Ráðhúsið og teflum eins og við eigum lífið að leysa.

Líf okkar afrísku barna.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 4.8.2011 - 15:09 - FB ummæli ()

Verndar Gandhi valdastéttina?

Jón Magnússon lögmaður svarar hér pistli sem ég hafði skrifað um orð sem hann lét falla á Pressunni.is um starf stjórnlagaráðs.

Það sem mér fannst aðfinnsluverðast við skrif Jóns var dálítið yfirlætisleg ábending hans um að þeir sem sátu í stjórnlagaráði föttuðu ekki hvað starf þeirra skipti litlu máli.

Um það snerist minn pistill – það má lesa hann hér.

Ég verð að svara þessu örfáum orðum.

Í fyrsta lagi skil ég ekki hvað Jón á við með „fúkyrðum í [sinn] garð“.

Í pistlinum lýsi ég því ósköp kurteislega að mér þyki hin upprunalegu skrif Jóns vera dæmi um „hrokann í valdastéttinni“ andspænis stórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs.

Hvergi er að finna eitt einasta fúkyrði í garð Jóns Magnússonar.

Þaðan af síður get ég heimfært upp á minn hógværlega pistil að ég sé „svo illa haldinn“ að „djöfullinn [sé] laus“.

Ég kann mjög illa við þessar ásakanir, því ég legg mig reyndar fram um að skrifa um menn og málefni án „fúkyrða“ og að mestu æsingalaust.

Mér þætti því jafnvel ástæða fyrir Jón Magnússon að draga þessi orð sín til baka, svo fjarri öllum sanni finnst mér þau vera.

Í öðru lagi skil ég ekki almennilega orð Jóns Magnússonar um valdastéttina á Íslandi.

Í pistlinum mínum hafði ég bent ég að valdastéttin í landinu hneigðist til að vera á móti stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs.

En það kæmi ekki á óvart, því þetta væri frumvarp handa þjóðinni, ekki valdastéttinni.

Þessi sakleysislegu orð verða Jóni Magnússyni tilefni til að líkja mér við „alræðisflokka í byrjun og um miðja síðustu öld“!

Jamen herregud!

Og svo kemur setning þar sem hann gefur í skyn að með því að tala um valdastétt í einu landi, þá sé maður að setja sig sérstaklega upp á móti mannréttindabaráttu Gandhis og Martin Luther Kings.

Manna sem einmitt vörðu ævi sinni í að berjast gegn valdastéttinni í sínum löndum!

Ég skil að vísu ekki röksemdafærslu Jóns – en ef valdastéttin á Íslandi á nú svo bágt að hún telur sig mundu njóta sérstakrar verndar Gandhis og Kings, þá er óhætt að segja að upp séu runnir nýir og áður óþekktir tímar á Íslandi.

Ég botna sem sagt ekki almennilega í aðfinnslum Jóns.

En það verður svo að vera – bara ekki saka mig um að ganga erinda nasista og kommúnista þó ég minnist á að nýja stjórnarskrárfrumvarpið sé skrifað fyrir þjóðina, ekki valdastéttina.

Því við í stjórnlagaráði höfðum aðeins eitt markmið – en það var einmitt að „tryggja grundvallarmannréttindi allra borgara og mannúðlega stjórnun þjóðfélagsins líka fyrir alla“.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 4.8.2011 - 11:40 - FB ummæli ()

Rófulaus köttur í Hafnarfirði

Undarlegur og dálítið óhugnanlegur atburður henti mig í gær.

Ég var að koma keyrandi frá Keflavík inn til Hafnarfjarðar og var nýfarinn framhjá álverinu þegar ég sá kött svona 80-100 metrum fyrir framan mig.

Hann var greinilega nýbúinn að skjótast yfir götuna, en þarna er 80 kílómetra hámarkshraði, og það var töluverð traffík.

Þetta var svartur köttur og þótt úr þessari fjarlægð væri, þá sá ég að fas hans var dálítið einkennilegt.

Ég kann ekki að lýsa því betur en svo að hann hafi skjögrað á harðahlaupum.

Hann var rófulaus og eins og alltaf þegar ég sé rófulausa ketti hugsaði ég: „Æ, skinnið …!

Svo skaust kötturinn í hvarf og ég keyrði á fáeinum sekúndum þessa tugi metra að staðnum þar sem kötturinn hafði skotist milli bíla yfir götuna.

Þá sá ég að á götunni lá einhver dökkur smáhlutur og um leið og ég sveigði framhjá honum sá ég mér til skelfingar að þarna var komin rófan á kettinum.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 3.8.2011 - 10:57 - FB ummæli ()

Vesalings fíflin í stjórnlagaráði

Skemmtileg er grein Jóns Magnússonar lögfræðings um stjórnlagaráð, sú er hér birtist.

Skemmtileg er hún vegna þess hvað sýnir vel hrokann í valdastéttinni andspænis stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs.

Jón vill gefa í skyn að í stjórnlagaráði hafi setið tuttugu og fimm fífl sem hafi ekki gert sér neina grein fyrir starfsviði sínu eða verkefni.

En ég get fullvissað Jón Magnússon um að við sem sátum í stjórnlagaráði gerðum okkur allan tímann fulla grein fyrir því að valdastéttin, sem hann vill svo gjarnan tilheyra, gæti vel sett frumvarpið okkar oní skúffu og látið það rykfalla þar.

Ég vona bara að valdastéttinni verði ekki kápan úr því klæðinu.

Þótt ég eigi vissulega sjálfur hlut að máli, þá leyfi ég mér nefnilega að fullyrða að í stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs er mjög margt sem horfir til mikilla bóta fyrir íslenskt samfélag, og íslenska þjóð.

Einmitt þess vegna þarf þjóðin sjálf að fá að ræða frumvarpið í þaula, taka afstöðu til þess og greiða um það atkvæði.

Þetta er frumvarp handa þjóðinni, ekki valdastéttinni.

Þess vegna á valdastéttin að láta það í friði.

En leyfa þjóðinni að ræða það og rannsaka og gera þá þær breytingar sem hún kann að vilja.

Valdastéttin mun hins vegar ekki sleppa klónum af því alveg baráttulaust.

Þess vegna eru skrifaðir svona skemmtilega hrokafullir pistlar um vesalings fíflin í stjórnlagaráði.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 2.8.2011 - 14:43 - FB ummæli ()

Hinsta kveðja

Ég var rétt í þessu að fylgja Sævari Ciesielski hinsta spölinn.

Það var mér heiður að fá að taka þátt í að bera kistu hans eftir athöfnina í dómkirkjunni.

Hann var ódeigur baráttumaður fyrir réttlæti, og nú stendur það upp á okkur sem eftir lifum að halda baráttu hans áfram.

Sævar var ekki að öllu leyti gæfumaður í lífinu, um það er engum blöðum að fletta.

En ég sá þó áðan að á því sviði sem mest um varðar var hann einstakur lukkunnar pampfíll.

Því þarna voru komin fimm mannvænleg og falleg börn að kveðja föður sinn.

Kannski hafa þau þurft og þurfa jafnvel enn að þola einhverja fordóma þess samfélags sem útskúfaði Sævari.

En frá mér mega þau vita eitt:

Að Sævar Ciesielski var meiri maður en flestir þeir sem hreykja sér hærra.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!