Fimmtudagur 14.4.2011 - 22:02 - FB ummæli ()

Á dýravernd heima í stjórnarskrá?

Stjórnlagaráðið er komið af stað með alvöru umræður. Í fyrramálið hefja tveir af þremur undirbúningshópum samræður sínar um margvísleg þau mál sem við munum þurfa að taka afstöðu til.

Þar á meðal verður á morgun byrjað að fjalla um hin mikilvægu auðlindamál og mannréttindakaflann.

Ég hef verið að velta einu svolítið fyrir mér.

Nú er fyrirsjáanlegt að í hinni nýju stjórnarskrá verða ákvæði um að vernda náttúruna og umhverfið.

Það segir sig bara sjálft.

Ákvæði um slíkt eru í öllum nýrri stjórnarskrám.

Aftur á móti veit ég ekki til að ákvæði um dýravernd sé neins staðar að finna í stjórnarskrám.

Stjórnarskrár eru náttúrlega um mannanna verk.

Og ég skal lofa því hátíðlega að eyða ekki of miklum tíma frá því að reyna að setja okkur mönnunum almennilegar reglur, til að spekúlera í þessu!!

Það hljómar vissulega dálítið skringilega að fara að setja í sjálfa stjórnarskrána ákvæði um dýr.

Líklega nægir alveg að setja ákvæði um dýravernd í venjuleg lög.

Eða hvað? Ef sjálfsagt þykir að hafa í stjórnarskrám ákvæði um vernd náttúrunnar per se, er þá kannski alveg eins rétt að setja þar ákvæði um dýravernd?

Það væri gaman að heyra yfirvegað álit fólks á þessu.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 14.4.2011 - 11:08 - FB ummæli ()

Að tala við þjóð sína

Ólafur Ragnar Grímsson forseti hefur verið í viðtali hjá Bloomberg fréttastofunni.

Fyrst skammaði hann hin alþjóðlegu matsfyrirtæki, og margir hafa vafalaust kinkað kolli.

Það er illt að bera mikla virðingu fyrir þessum fyrirtækjum, eftir reynslu okkar Íslendinga af þeim í „góðærinu“ og hruninu.

En var nú samt akkúrat svona sem akkúrat forsetinn hefði akkúrat átt að hegða sér?

Ekki fannst Lars Christensen það.

Hann reyndist á sínum tíma hafa meira vit á horfunum í íslensku efnahagslífi en bæði matsfyrirtækin og Ólafur Ragnar Grímsson samanlagt, svo ég hneigist til að taka alveg hikstalaust mark á honum.

En látum það liggja milli hluta.

Nú hefur Ólafur Ragnar útskýrt fyrir Bloomberg af hverju hann studdi íslensku bankana og útrásarfyrirtækin svo skefjalaust á grilltímabilinu.

Þið munið – „you ain´t seen nothing yet“, „hinir tólf eðlisþættir Íslendinga“ og það allt.

Þetta útskýrir Ólafur Ragnar fyrir Bloomberg þannig að sér hafi borið skylda til að lofa og prísa bankana, sjá hér.

Því það sé á verksviði forsetans að „styðja efnahagslíf þjóðarinnar“ og þá fyrst og fremst í útlöndum.

Ja, það er nú það.

Er það á verksviði forsetans?

Sumir myndu kannski segja sem svo.

Mér finnst það reyndar ekki.

Hinn ótæpilegi stuðningur sem Ólafur Ragnar veitti bönkum og útrásarfyrirtækjum sýnir mér a.m.k. fram á að slíkt á aldrei að vera nema aukahlutverk forsetans – og hann á þar að fara mjög varlega.

Hlutverk forseta Íslands – fyrir utan stjórnskipunarlegt hlutverk hans, sem verður til umræðu í stjórnlagaráðinu og vonandi víðar í samfélaginu næstu vikur og mánuði – það finnst mér vera einfalt.

Að tala við þjóð sína.

Að segja henni til syndanna, án þess að rífa hana niður. Að tala í hana kjark – án þess að ýta undir belging og innantómt þjóðernismont.

Þetta finnst mér vera á verksviði forsetans.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 13.4.2011 - 20:08 - FB ummæli ()

Hinn jákvæði neisti

Ég er búinn að gera tvær eða þrjár tilraunir síðustu klukkutímana til að horfa á umræður um vantrauststillögu Sjálfstæðisflokksins gegn ríkisstjórninni.

En ég gefst jafnharðan upp.

Það er eitthvað næstum hrollvekjandi við þessar umræður.

Þið afsakið þó ég segi það.

Hrollvekjandi.

En má ég í staðinn vekja athygli á þessu hér:

Vefsíðu ungs fólks um stjórnarskrármál.

Þetta er eitthvert besta framtak sem ég hef orðið var við lengi.

Auðvitað á unga fólkið að láta sig miklu varða hvað við í stjórnlagaráðinu erum að gera.

Það eru þau sem munu lengst þurfa að búa við þá stjórnarskrá sem ráðið býr (vonandi) til.

Og við í stjórnlagaráðinu munum áreiðanlega fá þau á okkar fund til að spjalla við þau – og heyra hvað þeim finnst mikilvægast að hafa í hinni nýju stjórnarskrá.

Það er fagnaðarefni að verða var við áhuga ungs fólks á pólitík og samfélagsmálum.

Ég ætla bara að brýna fyrir þeim að enda ekki eins og sú kynslóð sem nú er að þrefa sig til blóðs.

Heldur varðveita sinn jákvæða neista til breytinga á samfélaginu.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 12.4.2011 - 12:55 - FB ummæli ()

Sanngirni

Lars Christensen virðist álíta að nokkuð vel hafi tekist til með efnahagslega endurreisn Íslands.

Getum við ekki verið nokkuð ánægð með það?

Getum við þá ekki til dæmis hætt að tala eins og hér sé ómöguleg ríkisstjórn sem geri ekki neitt?

Þessi ríkisstjórn hefur svo sannarlega ekki verið of vel haldin af hrósi gegnum tíðina.

Enda hefur hún haldið undarlega klaufalega á ýmsum málum – auk þess sem deilurnar innan VG hafa mjög dregið úr henni kraft.

En að parti til hefur ríkisstjórnin sætt ómaklegri gagnrýni.

Sé ástandið ekki verra en Lars Christensen lýsir eftir hið mikla bankahrun, þá má blessuð ríkisstjórnin alveg eiga sinn þátt í því.

Þetta bendi ég ekki á af einskærri umhyggju fyrir ríkisstjórninni – eða ríkisstjórnarflokknum.

Ég held bara að það sé óhollt andrúmsloft sem hér hefur ríkt undanfarið – að þetta sé einhver versta ríkisstjórn sem hægt sé að hugsa sér.

Og fjöldi fólks leiðir í alvöru hugann að því hvort ekki væri bara kjörið að leiða aftur til valda þá sem ollu hruninu!!

Það vantar meiri sanngirni í samfélagið, og þar á meðal þurfum við að sýna ríkisstjórninni sanngirni.

Það er bara best fyrir okkur sjálf – svo við séum ekki að ímynda okkur að við lifum í einhverjum forarpytti.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 10.4.2011 - 16:48 - FB ummæli ()

Þá er til einhvers unnið

Mikið væri nú frábært ef Icesave væri endanlega að fjúka út í veður og vind með vindhviðunum sem lemja nú utan hús í Reykjavík.

En svo gott er það nú ekki.

Við munum sitja uppi með málið enn um sinn.

Af því sem gerst hefur, af því eigum við að draga lærdóm, hvert fyrir sig. Bæði stjórnarherrar af öllu tagi og við almenningur líka.

Því nú eigum við öll hlut að þessu máli.

Ég veit ekki hvort það er of seint að biðja þjóðina enn einu sinni að snúa bökum saman; það hefur gengið svo dæmalaust illa til þessa.

En það er það eina sem við getum gert.

Sameinast um þá niðurstöðu sem kom upp úr kjörkössunum.

Og vona það besta.

Ég vona innilega að þessi niðurstaða reynist hafa verið sú rétta.

En hitt verðum við að íhuga, hvernig heiftin og sundrungin voru í þann veginn að taka öll völd í hugum alltof margra fyrir þessa þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það er ekki það sem lýðræðið gengur út á – að svívirða þá sem eru andstæðrar skoðunar.

Við þurfum að læra okkar lexíu hvað það varðar líka.

Því þjóðaratkvæðagreiðslum mun áreiðanlega fjölga á næstu árum og áratugum, þótt vart verði það framar um mál eins og Icesave.

Og fólk þarf að læra að takast á án þess að tala eins og það vilji helst bíta hvert annað á barkann.

Ef okkur tekst að sameina lýðræði og rósemi hugans, þá verður til einhvers unnið.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 9.4.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Skortir þau vængi?

Viðbrögð íslenskra stjórnmálaleiðtoga við þeim miklum tíðindum að Icesave-samningnum hafi verið hafnað eru óðum að breytast í sama steingelda flokkspólitíska karpið og venjulega.

Ég er svolítið hissa á því, ég verð að viðurkenna það.

Ég hélt að þau myndu nota tækifærið og hefja sig upp úr forinni.

En kannski skortir þau vængi.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 9.4.2011 - 22:42 - FB ummæli ()

Við getum farið!

Sjónaukinn Kepler, sem sendur var út í geim fyrir tveim árum, er nú heldur betur farinn að senda heim merkilegar fréttir.

Á skömmum tíma hefur Kepler fundið mörg hundruð plánetur af öllum stærðum og gerðum, sem ganga kringum tugi sólstjarna í nágrenni við sólkerfið okkar.

„Í nágrenni“ er vissulega afstætt hugtak, því um er að ræða vegalengd sem tæki mörg hundruð þúsund eða milljónir ára að komast með þeim tækjum sem við eigum nú á dögum.

Enda erum við líklega ekki beinlínis á leiðinni í heimsókn.

En þó … Kepler er nefnilega þegar búinn að finna 5 plánetur sem spennandi væri að heimsækja.

Þær eru allar á stærð við jörðina, og þær eru allar í passlegri fjarlægð frá sólstjörnu sinni til að þar er hvorki of kalt né of heitt.

Þar gæti t.d. sem hægast verið rennandi vatn á yfirborðinu.

En það er líklega frumskilyrði þess að það þróist líf eitthvað í líkingu við lífið á jörðinni.

5 plánetur.

Það er góð byrjun.

Við höfum þá eitthvað að stefna.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 9.4.2011 - 16:08 - FB ummæli ()

Horfið af brúninni

Maður heyrir við hverjar einustu alþingiskosningar að þær séu gríðarlega mikilvægar fyrir land og þjóð.

Oft hefur nú samt reynst skipta litlu hvernig fer í alþingiskosningum.

En þjóðaratkvæðagreiðslan nú skiptir mjög miklu máli, því er ekki að neita.

Því hvet ég alla til að drífa sig á kjörstað.

Ef mjög mjótt verður á munum, þá munu menn sjá eftir því að hafa ekki skundað á kjörstað.

Sjálfur fór ég áðan og kaus í Ráðhúsinu í Reykjavík.

Ég setti kross við „já“ af ég held að það hafi í för með sér mun öruggari framtíð.

Ég er orðinn svo þreyttur á því að samfélagið rambi misserum saman á barmi hengiflugs, og þjóðin rífist þar og skammist fram í rauðan dauðann, í stað þess að koma sér af brúninni.

Ég ber virðingu fyrir flestum nei-mönnum og veit að þeir vilja þjóð sinni vel.

Og ég skil prinsip þeirra.

En ég held að nú sé mikilvægara að koma samfélaginu í gang aftur, en halda í prinsipin.

Sér í lagi vegna þess að það er ekkert alveg öruggt að þau standist skoðun.

Eða réttarhöld.

Já, ég held það sé affarasælla að hverfa af brúninni og fara að vinna.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 9.4.2011 - 10:09 - FB ummæli ()

Kjósum þá leið sem öruggust er

Jæja, þá er komið að því.

Ég vona að sem allra flestir mæti á kjörstað, og kjósi þá leið sem þeir telja vera öruggasta fyrir þjóðina.

Ég held við verðum að setja öryggið í efsta sætið.

Póker er fínt spil.

En bara með eldspýtum.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 8.4.2011 - 17:55 - FB ummæli ()

Í gildrunni?

Furðulega margir virðast enn trúa því að ef við segjum „nei“ í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave, þá munum við ekki þurfa að axla neinar byrðar vegna Icesave-reikninganna.

Jahérna.

Það er náttúrlega út í hött, fyrirgefið þó ég segi það.

Í fyrsta lagi gæti vel farið svo að við yrðum dæmd til að borga miklu meira en það sem við eigum nú að standa skil á samkvæmt samningnum.

Það er bara alveg raunhæfur möguleiki.

Og sá möguleiki mun ekki hverfa þótt við berjum okkur á brjóst og teljum okkur trú um að við séum í heilögu stríði við alheimskapítalismann og allir horfi til okkar með virðingu!

Það er, óttast ég, svolítil sjálfsblekking.

Í öðru lagi, jafnvel þótt svo færi að við yrðum alveg fríuð fyrir dómstólum, þá er ljóst að sú dómstólaleið mun taka langan tíma.

Mörg ár.

Allan þann tíma munum við hafa margvíslegan kostnað af Icesave.

Alveg örugglega mörgum sinnum það sem við þurfum að standa skil á ef við segjum nú „já“ og komum þessu út úr heiminum.

Þetta hélt ég að allir vissu.

Ef menn eru þrátt fyrir allt búnir að telja sér trú um að valið nú standi milli „já“ (sem þýði að við þurfum að borga fullt) og „nei“ (sem þýði að við þurfum ekki að borga neitt), þá hafa menn anað beint í gildru þeirra sem hafa pólitískan hag af því að við segjum „nei“.

Það þykir mér sorglegt.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!