Föstudagur 8.4.2011 - 07:51 - FB ummæli ()

Hættum að vera tilraunadýr

Mér skilst að margir eigi svo erfitt með að gera upp hug sinn í Icesave-málinu að þeir skipti um skoðun nánast daglega.

Ég geri það reyndar ekki.

Ég ætla enn að segja „já“.

Ekkert af því sem ég hef heyrt nú síðustu dægur breytir aðalatriði málsins í mínum augum:

Að áhættan af því að segja „já“ er lítil.

Fjarska lítil.

En áhættan af því að segja „nei“ er umtalsvert meiri.

Ég er líka jafn sannfærður og áður um að áhrifin af því að segja „já“ verða umsvifalaust góð, einkum á atvinnulíf.

Og við VERÐUM að koma atvinnulífinu í gang.

Áhrifin af því að segja „nei“ verða hins vegar áframhaldandi óvissuástand í svo og svo langan tíma. Líklega mörg ár.

Ekkert sem ég hef séð í áróðrinum undanfarna daga breytir þessum höfuðatriðum, að mínu hógværa mati.

Því ætla ég að segja „já“ við samningaleiðinni.

Ég skil hins vegar vel að ýmsir lögfræðingar mæli eindregið fyrir dómstólaleiðinni.

Icesave er örugglega bráðskemmtilegt lögfræðilegt álitaefni, sem virkilegt fjör væri að sjá karpað um fyrir dómi.

Og lögfræðingar fá jú alltaf kaupið sitt, hvernig sem fer fyrir dómstólum.

Ég vil hins vegar ekki þessa leið.

Í mörg ár vorum við tilraunadýr í glannalegri fjármálafræði.

Ég vil ekki að nú verðum við tilraunadýr í glannalegri lögfræði.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 7.4.2011 - 00:04 - FB ummæli ()

Ég segi „já“ við samningaleiðinni

Ég ætla að segja „já“ í þjóðaratkvæðagreiðslunni um samninginn um Icesave.

Þetta ætla ég að gera að MJÖG vel athugðu máli, enda höfum við Íslendingar svo sem ekki komist hjá því að hugsa um lítið annað en Icesave síðustu tvö og hálft ár.

Ég kann allar röksemdirnar fyrir því að segja „nei“ og ber virðingu fyrir þeim flestum.

En fyrir mitt leyti ætla ég að hafna þeim.

(Það skal tekið fram að það að „við eigum ekki að borga skuldir einkabanka“ er ekki gild röksemd. Við erum búin að taka að okkur fullt af skuldum einkabankans, þar á meðal erum við búin að ábyrgjast allar innistæður okkar eigin auðkýfinga. Það prinsip er því ekki lengur fyrir hendi.)

Ég gæti sett á langan fyrirlestur um ástæður mínar fyrir því að segja „já“ en nefni þó aðeins tvær þær almennustu.

Í fyrsta lagi:

Í „góðærinu“ stærðu Íslendingar sig af því að vera hraustir menn og djarfir.

Áhættusækni var hrósyrði.

Núna stöndum við frammi fyrir því að hafa gert samning, sem auðvitað gleður engan, en þó er ljóst að áhættan af honum er lítil.

Langlíklegast er að við þurfum tiltölulega lítið að borga.

Það má hugsa sér aðstæður sem myndu hækka greiðslubyrðina vegna þessara samninga, en þær aðstæður eru ekki ýkja líklegar.

Og þær munu þá hafa sín skaðlegu áhrif hvort sem við segjum „já“ eða „nei“ við Icesave-samningnum.

En ég ítreka að samningurinn felur ekki í sér mikla áhættu.

Ég veit vel að ekki eru allir sammála því, en eftir eins mikla umhugsun og mér er unnt að leggja í málið, þá tel ég að áhættan sé ekki mikil.

Sér í lagi miðað við að það er nánast 100 prósent víst að samningur mun hafa góð áhrif á atvinnustig í landinu.

Og við VERÐUM að útrýma atvinnuleysinu.

Það er það verkefni sem skiptir ÖLLU máli núna.

Á hinn bóginn er ekki hægt að líta framhjá því að „nei“ leiðin er talsvert áhættusöm.

Sumir myndu segja mjög áhættusöm.

Nú spretta upp sumir og segja iss, piss, aumingi, þorir ekki að standa í lappirnar, ertu maður eða mús, svona hræddur við dómstólaleiðina, viltu kyssa vöndinn, hahaha, við þurfum ekkert að óttast.

En jú, við höfum ýmislegt að óttast.

Dómstólaleiðin er áhættusöm, og ef illa fer – þá fer mjög illa.

Ég verð að viðurkenna að árum saman lét ég það líðast í „góðærinu“ að áhættusækni væri talin dyggð.

Ég hrósaði henni kannski ekki, en ég fordæmdi hana ekki heldur.

Það er minn bömmer.

Núna hef ég lært mína lexíu.

Þegar við stöndum annars vegar frammi fyrir kosti sem kostar ekki mikið miðað við aðrar byrðar okkar, en getur haft jákvæð áhrif, og svo hins vegar frammi fyrir kosti sem hefur verulega áhættu í för með sér (bæði hvað snertir peninga, tíma, atvinnu og orku samfélagsins) – þá vel ég alveg hiklaust fyrri kostinn.

Já.

Mér er sama þó ég teljist þar með mús.

Ég skal reyndar vera ljómandi stolt mús.

Mannalætin hafa hvort sem er ekki farið okkur Íslendingum of vel síðustu árin.

En í öðru lagi.

Þó ég hafi vissulega kynnt mér málið eins vel og ég hef getað – og miklu miklu betur en ég hefði VILJAÐ – þá viðurkenni ég fúslega að þegar öllu er á botninn hvolft þá er ég ekki sérfræðingur.

Satt að segja furða ég mig á öllum þeim sérfræðingum í alþjóðalögfræði, fjármálaviðskiptum og innistæðutryggingarmálum sem nú ganga ljósum logum um land okkar.

Þrátt fyrir allan þann tíma sem ég hef eytt í málið, þá myndi aldrei hvarfla að mér að þykjast vita eitthvað alveg 100 prósent um möguleg úrslit fyrir dómstólum, heimtur á eignasafni Landsbankans o.s.frv. o.s.frv.

En ég þarf heldur ekki að vita það allt saman.

Ég þarf fyrst og fremst að vita hverjum ég get treyst.

Eftir hrunið var lengi talað um að við yrðum að fá útlendinga til að hjálpa okkur að gera málin upp, og rannsaka þau.

Við gætum ekki – vegna biturrar reynslu – treyst neinum af okkar eigin fólki.

Við værum þrátt fyrir allt ekki nema 300.000 manns, þótt um stund hefðum við verið farin að ímynda okkur að við værum milljónaþjóð – og okkar fólk væri öllum öðrum snjallari.

Nei, við yrðum að fá hjálp.

Þetta var bljúg, auðmjúk, falleg og einlæg ósk.

Og alveg rétt ósk líka.

Auðvitað áttum við að fá hjálp erlendis frá.

Því miður varð minna úr því en ég að minnsta kosti hefði óskað.

En í Icesave-málinu – viti menn, þá fengum við útlenska aðstoð.

Einhver allra fremsti og snjallasti sérfræðingur í heimi á þessu sviði kom okkur til aðstoðar við að semja við Breta og Hollendinga.

Lee Bucheit.

Og þegar ég stend í Icesave-röksemdum upp að höndunum, með raddir gargandi „nei“ eða „já“ í bæði eyrun, þá játa ég af algjörri auðmýkt:

Ég tek meira mark á þessum manni en samanlögðum fylkingunum hérlendis.

Og ef hann segir mér að þetta sé viðunandi samningur sem fylgi lítil áhætta, þá hlusta ég.

Og segi „já“.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 6.4.2011 - 11:27 - FB ummæli ()

Að bretta upp ermar

Stjórnlagaráð hefur starf sitt í dag.

Við sem sitjum í ráðinu munum þá fá í hendur skýrslu stjórnlaganefndar, sem hefur unnið við það undanfarið hálft ár að taka saman allskonar valkosti varðandi stjórnarskrá.

Meðal annars og ekki síst byggt á niðurstöðu þjóðfundarins síðastliðið haust.

Svo brettum við upp ermar og reynum að komast að niðurstöðu um hvernig stjórnarskrá Íslands ætti að líta út næstu áratugina.

Þetta verður mikið og mikilvægt starf, og ég fyrir mitt leyti heiti því hér með hátíðlega að leggja mig allan fram, og sama veit ég að þau gera líka, félagar mínir.

Sum öfl í samfélaginu eru andsnúin því að venjulegt fólk fái að koma nálægt því að semja stjórnarskrá, og þessum öflum tókst að telja alltof mörgum trú að það væri frekar ómerkilegt, og alla vega alls ekki aðkallandi verkefni að búa samfélaginu nýjar grundvallarreglur.

Það verður verkefni okkar í stjórnlagaráðinu að sýna mönnum fram á að þetta hafi verið rangt mat.

Að endurreisn samfélagsins verði hraðari og hreinlegri ef við byrjum upp á nýtt á þessu sviði.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 5.4.2011 - 07:37 - FB ummæli ()

Bravó!

Fyrir örfáum dögum reis hneykslunar- og reiðialda í samfélaginu.

Vísa átti ungri stúlku frá Nepal úr landi.

Þótt hún vildi alls ekki fara og gæti átt margvíslega nauðung yfir höfði sér í heimalandinu.

Mitt framlag var að skrifa pistil hér á Eyjuna, þar sem ég hvatti Ögmund Jónasson innanríkisráðherra eindregið til að beita sér fyrir því að Priyanka Thapa fengi að vera hér um kyrrt.

Hann yrði að fá útlendingastofnun til að snúa við blaðinu, og í framhaldi af því endurskoða starfshætti þeirrar stofnunar.

Margir fleiri hvöttu hann til hins sama.

Ögmundur hefur brugðist einmitt þannig við.

Priyanka hefur fengið dvalarleyfi, og farið verður yfir starfsemi útlendingastofnunar.

Þar er löngu tímabært.

Útlendingastofnun hefur verið alltof lengi föst í forneskjulegu hugarfari – svo líkja mætti við bókstafstrú dyravarðar, sem telur að hlutverk sitt sé að „verja dyrnar“ en ekki opna þær upp á gátt fyrir velkomnum gestum.

Viðbrögð Ögmundar voru fumlaus og ákveðin, einmitt eins og maður hafði vonast til.

Hann fór ekkert að malda í móinn eða teygja lopann – heldur viðurkennir meira að segja í Fréttablaðinu í morgun óvenju afdráttarlaust að pottur sé augljóslega brotinn hjá útlendingastofnun.

Það er vitaskuld ekki af því þar vinni vont fólk, heldur þarf bara nýja hugsun hjá stofnuninni.

Og það er mjög gott að nú verði blaðinu snúið við – alltof mörg sorgleg vandræðamál hafa sprottið upp hjá stofnuninni á síðustu árum, sem sýna að starfshættir þar eru – þegar verst lætur – engan veginn í takt við það sem sanngjarnt er og eðlilegt og réttlátt.

Og ég vil leyfa mér að hrósa Ögmundi fyrir viðbrögðin. Bravó!

Og þá er það bara Geirfinnsmálið …

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 4.4.2011 - 10:22 - FB ummæli ()

Verðum að trappa okkur niður

Ég er alveg dolfallinn yfir útvarpsauglýsingu Egils Ólafssonar um börnin sem strita munu í hinum bresku námum ef við samþykkjum Icesave-samningana.

Auðvitað segir hann það ekki berum orðum – en gefur í skyn að örlög barnanna okkar í framtíðinni verði áþekk hörmulegu hlutskipti þeirra barna sem seld voru úr landi á 15. öld, ef við segjum „já“.

Ég er alveg dolfallinn vegna þess að ég hef þekkt Egil Ólafsson í 30 ár og mér hefur aldrei virst hann öfgamaður á neinu sviði.

Þvert á móti.

Hann hefur komið mér fyrir sjónir sem maður sem leggur sig fram um að íhuga báðar hliðar mála, sérlega æsingalaust.

Og ég veit að hann er fróður um sögu lands og þjóðar.

Þess vegna kemur mér svo á óvart að hann skuli tromma upp með áróður sem er svo fjarri öllum sanni.

Því auðvitað er þessi samlíking út í hött.

Langlíklegast er náttúrlega að við munum varla eða jafnvel alls ekki taka eftir greiðslubyrði Icesave-samninganna.

Og að jafna þessu við barnaþrældóm … nei takk!

Svona áróður gerir engum gagn held ég.

Ég veit reyndar ekki til að það hafi verið talað um að íslensk börn hafi stritað í námum á Bretlandseyjum á 15. öld.

Námugröftur var þá mjög takmarkaður miðað við það sem síðar varð, þegar iðnbyltingin hófst og kolavinnslan og málmvinnsla alls konar fór á fullt.

Ég hef Egil grunaðan um að hafa í texta auglýsingarinnar ruglað saman börnum, sem vissulega voru flutt til Englands á 15. öld, og svo íslenskum hestum sem fluttir voru til Bretlandseyja á 19. öld og strituðu svo sannarlega í breskum námagöngum.

Og áttu virkilega ömurlega ævi, blessuð dýrin.

Um það orti Jóhannes úr Kötlum hið magnaða kvæði sitt, Stjörnufákinn.

En þó – ég skal ekki hengja mig upp á hvergi sé í annálum frá 15. öld minnst á námur í tengslum við vinnu barna frá Íslandi. Því ætla ég ekki að fullyrða að þetta sé rangt hjá Agli.

En hitt er rétt að börn fóru héðan til Englands, töluvert fram á 16. öld reyndar.

Helgi Þorláksson sagnfræðingur hefur rannsakað þetta manna mest.

Heimildir eru reyndar fáorðar um þetta en af því sem vitað er, þá má ætla að einhver þó nokkur fjöldi barna hafi verið fluttur til Englands.

Enskir kaupmenn munu oft hafa borgað eitthvert lítilræði fyrir þau, en í sumum tilfellum voru börnin gefin.

Það er algjör óþarfi að álykta að þetta hafi stafað af sérlegri mannvonsku Íslendinga.

Í sumum tilfellum leit fólk áreiðanlega svo á að það væri þvert á móti að bjarga börnum sínum frá örbirgð.

Auk þess var mórallinn í samfélögum Vesturlanda þá sá að það væri börnum beinlínis hollt að alast upp meðal vandalausra.

Íslendingar drógu dám af því.

Í útlöndum voru Íslendingar raunar frægir fyrir að gefa útlendingum börn sín, en selja hunda sína.

Þess munu líka dæmi að börn og ungmenni hafi stokkið sjálfviljug úr landi, til að forðast fátækt og illt atlæti hérlendis.

Því hér var sannarlega ekkert sæluríki.

En vinnuaflsskortur var þá á Englandi og börnunum mun flestum hafa verið komið í læri hjá iðnaðarmönnum, eins og bökurum, smiðum og súturum. Nánast ekkert er vitað um örlög þeirra, en þó er vitað um einn strák sem varð ríkur kaupmaður í Bristol, svo þau hafa að minnsta kosti átt möguleika á að komast til almennilegs lífs.

Ég vona að menn sjái að þessi saga á ekkert sameiginlegt með greiðslubyrði okkar vegna Icesave-samninganna.

Að því sé haldið fram sýnir fyrst og fremst hvað við erum komin út á hálan ís í deilum okkar vegna þessa máls.

Og við verðum að fara að trappa okkur niður.

Icesave-málið er orðið eins og skrímsli Frankensteins.

Við höfum byggt það úr hruninu, og sjáum nú ekkert annað en það vafrandi fram og til baka um samfélagið – brjótandi og bramlandi og skjótandi okkur skelk í bringu árum saman.

Svo jafnvel öfgalausasta fólk hleypur út undan sér.

Þeim mun meiri ástæða til að losna við það.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 1.4.2011 - 11:52 - FB ummæli ()

Ögmundur!

Ég hef alltaf verið dyggur stuðningsmaður Ögmundar Jónassonar alþingismanns.

Ég er reyndar ekki nærri alltaf sammála öllum hans skoðunum, og mér finnst hreint ekki að hann eigi alltaf að fá sitt fram á öllum sviðum.

En ég hef ævinlega borið mikla virðingu fyrir honum sem hugsjónamanni, og mér hefur þótt sem sjónarmið hans eigi alltaf fullan rétt á að fá að heyrast.

Mér þótti Ögmundur til dæmis alltaf með nauðsynlegustu þingmönnum.

Og mér fannst það vissulega bráðskemmtileg tilhugsun þegar hann varð dómsmálaráðherra.

Það hafði þá verið til einhvers unnið í búsáhaldabyltingunni fyrst hún gat endað með að þessi óþekki og óstýriláti vinstrimaður var allt í einu settur yfir lögregluna og dómskerfið!

Og ég trúi því og treysti að Ögmundur muni verða sá nýi sópur sem getur feykt burt skúminu úr ýmsum kimum þar á bæ.

Þó hann beri nú reyndar titilinn „innanríkisráðherra“ sem mér finnst persónulega heldur skuggalegur.

En látum svo vera.

Ég treysti Ögmundi samt til góðra verka.

Hann hlýtur til dæmis að verða fyrsti dómsmálaráðherrann/innanríkisráðherrann sem treystir sér til að kveða á um endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmála.

Því hefur enginn viljað hreyfa.

Ég veit reyndar til þess að Ragna Árnadóttir var byrjuð að hugsa um form slíkrar endurupptöku þessara sorglegu mála, en annaðhvort rak hún sig á of marga veggi eða hafði hreinlega ekki tíma til að ljúka málinu.

Hvort heldur var, þá stendur það nú upp á Ögmund að hefja þann feril sem getur létt þeirri gömlu martröð af þjóðinni.

Og hann hlýtur að storma í málið – bara von bráðar!

Ég held að það sé engan veginn eins flókið mál að taka þessi mál upp, eins og margir virðast halda.

„Vilji er allt sem þarf,“ er gamalt, lúið og misbrúkað orðalag frá Einari Ben, oftast notað þegar vilji er einmitt EKKI allt sem þarf, en í þetta sinn á það við.

Og þangað til Geirfinnsmál fara af stað, þá getur Ögmundur dundað sér við að taka til í Útlendingastofnun.

„Dundað sér“ er reyndar ekki rétt orðalag.

Hann þarf að flýta sér.

Lesið þessa frétt hér – og grátið.

Ung stúlka frá Nepal sem vill fá að búa á Íslandi.

Verði hún send heim til Nepal bíður hennar hjónaband með einhverjum karlfauski.

Og þá eru íslenskir embættismenn að rýna í það hvort bróðir hennar – sem er auðvitað undir þrýstingi um að fá hana heim – noti orðið „vinsamlegast“ eða ekki!

Jafnvel þó svo þessi stúlka ætti ekki á neinu illu von heima hjá sér – þá sæi ég ekkert athugavert við að hún fái dvalarleyfi.

Okkur ætti bara að vera sómi að því að hún skuli vilja heiðra okkur með nærveru sinni.

Já, ég meina það!!

En þessi „túlkunarfræði“ Útlendingastofnunar eru alla vega gjörsamlega út í hött.

Eins og ég ætla rétt að vona að Ögmundur Jónasson átti sig á.

Það hlýtur hann að gera um leið, ef hann er enn sá sami Ögmundur og við höfum þekkt og lært að virða gegnum tíðina.

Ég trúi því sem sé og treysti að Ögmundur verði búinn að redda málinu áður en klukkan glymur.

Og finni svo leið til að innleiða betri siði á Útlendingastofnun.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 31.3.2011 - 21:36 - FB ummæli ()

„Smooth operator“

Í sambandi við stóra stóra risastóra ríkisborgaréttarmálið, þá er það rétt hjá Róberti Marshall að við þurfum að ræða málið tiltölulega æsingalaust og kurteislega.

Ég vona að ég hafi gert það fyrr í dag, þó ég hafi ekki getað stillt mig um að gera svolítið grín að öllu saman.

Og það verður að viðurkennast að David Lesperance í Kastljósinu í kvöld, hann var töluvert meira sannfærandi sölumaður þessarar hugmyndar heldur en Sturla Sighvatsson var í gærkvöldi.

Greinilega ansi smooth operator.

Team Iceland og allt!!!

En hann fékk furðu auðveldar spurningar, það verður að segjast.

Eða öllu heldur: Ekki réttu spurningarnar.

Þegar hann fór til dæmis með fallega sölupitsið sitt um að kanadísku og bandarísku auðkýfingarnir vildu setjast að á Íslandi meðal annars af því hér væri ekki hætta á að börnin þeirra yrðu kölluð í herinn, af hverju rak Brynja Þorgeirsdóttir það ekki oní hann aftur?

Í Kanada er auðvitað engin herskylda, og herskylda var í reynd lögð niður í Bandaríkjunum árið 1973 – þó hún sé að einhverju leyti við lýði enn formlega.

Segjum að Brynja hafi ekki vitað þetta. Það er alveg fyrirgefanlegt.

En hún átti þó að vita að þó það sé herskylda í einhverju landi, þá þurfa börn auðmanna aldrei hafa áhyggjur af því að vera kölluð nauðug í herinn.

ALDREI.

Svo einfalt er það, og þetta eiga allir að vita.

Þetta var kannski ekki aðalatriði í því sem Lesperance var að segja, en ef hann fór rangt með þetta smáatriði, var þá eitthvað meira að marka hitt sem hann sagði?

Og sömuleiðis:

Ef það er rétt að þessir auðkýfingar vilji koma hingað af því þeir urðu svona dæmalaust skotnir í Inspired by Iceland-herferðinni, af hverju koma þeir þá ekki bara og setjast hér að í rólegheitum?

Af hverju þurfa þeir ríkisborgararétt áður en þeir svo mikið sem reka hér niður eina löpp?

Og að auðkýfingarnir sanki að sér ríkisborgararétti hér og þar bara svona af heimspekilegum og hugmyndafræðilegum ástæðum – fyrirgefiði, en átti maður að taka það hátíðlega?

Nú á maður vissulega ekki að draga of mikinn lærdóm af sjónvarpinu.

En ef einhver á mörg vegabréf í sjónvarpinu, þá er hann undantekningarlítið leigumorðingi.

Auðvitað er þetta fólk á snærum Lesperance ekki leigumorðingjar.

En það hefði samt átt að spyrja hann ögn hraustlegar út í þessa vægast sagt einkennilegu fullyrðingu.

Það er rétt að taka fram í prinsipinu er auðvitað ekkert rangt við að útlenskur bissnissmaður fái íslenskan ríkisborgararétt.

Frekar en maður af hvaða stétt annarri sem vera skal.

Og ég ber virðingu fyrir því starfi Róberts Marshalls að hafa leitast við að veita þennan borgararétt óháð efnahag eða veraldlegri stöðu.

En það sem er skrýtið … það er eiginlega hvað þetta er allt skrýtið.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 31.3.2011 - 10:23 - FB ummæli ()

Geimverurnar eru komnar!

Nú ætla ég að gera játningu.

Ég er svo vitlaus, að einu sinni þegar verst horfði í hruninu, og ekki bara íslenskt efnahagslíf, heldur efnahagur alls heimsins virtist stefna lóðbeint niður til helvítis, þá hugsaði ég einu sinni:

„Æ, ég vildi það kæmu geimverur.“

Ég verð að segja mér til afbötunar að þessi hugsun dvaldi ekki lengi í höfðinu, nei, bara svona eitt augnablik – ég man reyndar að ég var að keyra eftir Sæbrautinni framhjá turninum á Höfðatorgi.

En áður en hugsunin flögraði endanlega burt, þá sá ég þetta fyrir mér einhvern veginn svona:

Geimverurnar kæmu, góðviljaðar og vitrar og friðsamar, og þær myndu færa með sér áður óþekkt auðæfi, og kenna okkur leiðir til að nýta auðlindir okkar á alveg splunkunýjan hátt, og allt myndi falla í ljúfa löð á skammri stundu …

Þetta er auðvitað fullkomlega gegnsætt – trúaður maður í vanda vonast til að guð birtist og reddi málunum, en þar sem ég er ekki trúaður, þá varð ég að notast við geimverur.

En fyrr en varði var ég kominn framhjá turninum við Höfðatorg, geimverurnar voru gufaðar upp og raunsæið tók við.

En viti menn!

Nú virðast geimverurnar vera komnar í raun og veru!

Og þær voru í Kastljósi í gærkvöldi!

Komnar til okkar með gæsku sína og visku og snoturt hjartalag – og síðast en ekki síst fullar hendur fjár.

Já, þær eru svoleiðis moldríkar þessar geimverur að mann nánast sundlaði yfir fréttaskýringu Helga Seljan um málið í gærkvöldi.

Og þær virtust beinlínis þrá að færa okkur vesælum ræflum skínandi birtu sinna þúsund eða tvö þúsund milljarða …

Allt þetta skyldum við fá …

Ef við féllum fram og tilbæðum þær?

Nei, ekki einu sinni það. Enginn Satan hér á ferð!

Þær fara ekki fram á annað, þessar góðu geimverur, en að við gaukum að þeim því lítilræði sem er íslenskt vegabréf.

Minna má það nú ekki vera!

Og í staðinn fáum við alla milljarðana sem þessar vitru geimverur ætla að nota til að fjárfesta á Íslandi, og að sjálfsögðu aðeins í góðum og viturlegum og hjartahreinum fjárfestingartækifærum …

Ég get svo svarið það að ég var farinn að syngja sálma fyrir framan sjónvarpið.

Ekkert fengum við að vita um hverjar þessar geimverur eru, nema hvað þær virðast ganga undir tegundarheitinu „aðilar“ ef marka má fulltrúa geimveranna sem Helgi Seljan ræddi líka við.

Sá fulltrúi var vissulega eilítið dularfullur að sjá, en ég held samt að hann hafi ekki verið geimvera.

Í alvöru talað, þá hvet ég fólk eindregið til að horfa á þessa fréttaskýringu Helga Seljan um þetta furðulega mál.

Hvernig Helgi fór að því að komast í gegnum þetta án þess að missa nokkru sinni sitt pókerfeis, það mun ég seint skilja.

En ég held satt að segja að það þurfi ekkert að hafa um þetta mál voða mörg orð.

Eins og alltaf er sagt í tengslum við Nígeríusvindl: Ef eitthvað hljómar „of gott til að vera satt“, þá er það undantekningarlítið vegna þess að það er ekki satt.

Ég vil aðeins vekja athygli á tvennu.

Íslenska lögfræðistofan sem annast tengslin við þessa dularfullu „aðila“ hefur m.a. innan sinna vébanda Hjörleif Kvaran fyrrum forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur.

Einmitt núna er verið að gera upp síðustu afrek hans í bissniss.

Og ekki orð um það meir!

Og svo eru víst þarna gamlir Glitnis- og FL-Group menn upp um alla veggi.

Hitt er það að hinn útlenski lögfræðingur og tengiliður „aðilanna“ virðist vera Kanadamaður að nafni David S. Lesperance.

Og á vefsíðum þeim, þar sem hann segir á sér deili, þar kemur hvergi fram að hann sérhæfi sig í aðstoða fjárvana smáríki við að komast í náin kynni af þriðju gráðu við sterkefnaða og góðviljaða fjárfesta.

Onei.

Þar býður hann auðmönnum hins vegar þjónustu sína við að komast undan sköttum, skyldum og allskonar „óþarfa vesini [hassle]“ með því að kaupa sér ríkisborgararétt þar sem það hentar hverju sinni.

Ekki síst í „low profile countries“.

Það geti nefnilega verið voða hagstætt fyrir ameríska ríkakalla sem vilja ferðast um heiminn og maka krókinn án þess að verða fyrir andúð og tortryggni sem gjarnan mæti Bandaríkjamönnum.

Lesperance hrósar sér sérstaklega af því að vera einkar lagið að redda vegabréfum frá Grenada.

Og nú hefur athygli hans beinst að Íslandi.

Það sem verra er – maður þarf ekki lengi að skoða vefsíður David S. Lesperance til að sjá að þennan mann myndu engir alvöru auðkýfingar leggja lag sitt við.

Sjáið til dæmis þessa síðu hér.

Er voða sennilegt að menn sem vilja fá að fjárfesta 1.700 milljarða geri það gegnum mann með svona síðu?

Undirsíðu á Escapeartist.com – og blikkandi auglýsingar um hagstætt verð á símtölum?

Lesið líka þetta hér.

Auðvitað myndi enginn alvöru peningamaður koma nálægt þessu.

Ekki að minnsta kosti ef hann væri að hugsa um fjárfestingar.

Fyrirgefiði – en víst erum við frekar illa stödd í augnablikinu.

En ég vona samt að við séum meiri menn en svo að við þurfum að skríða fyrir einhverju – fyrirgefið þó ég segi það – hálfríku hyski frá Ameríku!

Það þarf reyndar ekki mjög lengi að velta vöngum yfir þessu.

Horfið bara á viðtal Helga Seljan við Sturlu Sighvatsson.

Finnst ykkur framganga hans sannfærandi? Finnst ykkur hann trúa því sjálfur sem hann er að segja?

Nei – ég held ég haldi bara áfram að bíða eftir alvöru geimverum …

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 30.3.2011 - 11:55 - FB ummæli ()

Hamingjan hjálpi ykkur

Ég hef lagt það í vana minn að fara svolítið varlega þegar nýjar fréttir berast af einhverjum fjármálagjörningum útrásarvíkinganna, sem virðast við fyrstu sýn vera rakin glæpaverk.

Það er vissulega stundum freistandi að stökkva á vagninn og hrópa með hinum: Helvítisandskotansdjöfulsinsútrásarvíkingarnirykkarglæpamennogþrjótar!

En ég hef reynt að stilla mig um það.

Annars vegar er ástæðan einfaldlega sú að ég skil yfirleitt ekki nógu mikið í þessum fjármálagjörningum og botna til dæmis oft ekki almennilega í því hvar glæpurinn liggur – eða á að liggja.

Hins vegar verður að viðurkennast að ekki hefur allt staðist sem þeir sem rannsaka hrunið hafa lagt upp með.

Það má út af fyrir sig heita ósköp eðlilegt. Þetta eru flókin mál og taka tíma.

En það hvetur mann líka til varkárni.

Ég man til dæmis eftir því þegar slitastjórn Glitnis tilkynnti hróðug að hún væri búin að finna einhverja hundruði milljarða sem Jón Ásgeir hefði laumað á leynilegan bankareikning, á sama tíma og hann kvaðst vera í lentur allnokkrum fjárhagsörðugleikum eftir hrunið.

Daginn eftir kom svo í ljós að Jón Ásgeir átti ekkert þessa peninga, heldur einhver verslanakeðja sem hann hafði ekki lengur neitt með að gera.

Og slitastjórnin hefði bara þurft eitt símtal til að ganga úr skugga um þetta.

Þessar tvær ástæður hafa hrætt mig frá því að taka mjög sterkt til orða.

Fyrr en þá allar upplýsingar liggja örugglega fyrir.

Og enn um sinn mun ég ekki kalla neinn þann glæpamann, sem ekki hefur hlotið dóm.

En þegar maður les svona fréttir, þá reynir vissulega á þolinmæðina.

Sérstakur saksóknari og Serious Fraud Office á Bretlandi eru nú að rannsaka hvort 28 milljarðar króna hafi flogið út af reikningum Kaupþings inn á reikninga á Tortóla-eyju, aðeins fáum augnablikum eftir að Davíð Oddsson Seðlabankastjóri afhenti Kaupþingi 80 milljarða króna í neyðarlán … sama dag og neyðarlögin voru sett!

Inná reikninga á Tortóla sem yfirmenn Kaupþings réðu yfir, og þeir peningar hafi síðan gufað upp.

Við skulum slá varnagla – kannski er þetta ekki rétt.

En EF þetta er rétt … þá er mér eiginlega öllum lokið.

Dettur ekkert í hug nema gnísta tönnum.

Og jú … fara með kvæðið hans Steins.

Hannes Hafstein orti kvæði um Skarphéðin í brennunni. Það var hetjukvæði – Skarphéðinn var að vísu innilokaður í brennunni og myndi brátt deyja.

En hann brá sér þó hvorki við sár né bana.

Glotti bara við tönn.

Og þannig fannst manni stundum að okkur Íslendingum væri ætlað að bregðast við hruninu.

Við áttum bara að taka því eins og Skarphéðinn í brennunni þegar peningalegur heimur okkar hruni.

Og siðferðilegur.

Við áttum bara að glotta við tönn, og ekki kvarta þó brennumenn, það er að segja hrunverjar – stjórnmálamenn, embættismenn, úrásarvíkingar og bankamenn – þó þeir slyppu sjálfir kátir og hressir frá brennunni sem þeir höfðu kveikt.

Steinn Steinarr taldi kvæði Hannesar Hafsteins forkastanlega rómantík.

Og hann orti því eins konar leiðréttingu á því kvæði.

Ég hef vitnað til þess áður, kvæðis Steins um Skarphéðin.

Þannig líður mér þegar ég heyri fréttir eins og þær sem Eyjan birtir nú um rannsóknina á Kaupþingsmönnum.


Það er lygi, sem sagt er.

Ég leitaði útgöngu,

ég leitaði útgöngu í máttvana skelfingu

deyjandi manns.

En leiðin var lokuð.

Og ég heyrði ykkur hvísla

út í hlæjandi sólskinið:

Látum hann farast.

Hvað sakar það okkur?

Hvað getum við að því gert?

Hamningjan hjálpi ykkur!

Hefði ég sloppið.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 28.3.2011 - 10:29 - FB ummæli ()

Hver á að fá fálkaorðuna?

Á Vísi.is birtist sú fregn að fálkaorða sé til sölu á netinu.

Það fylgir sögunni að þessi fálkaorða hafi verið veitt fyrir 1977.

Það er þá til dæmis væntanlega ekki Sigurður Einarsson sem er að selja fálkaorðuna sína.

En það vekur athygli mína hvað orðan er ódýr.

Hún er til sölu á 170 þúsund.

Helsta viðurkenning íslensku þjóðarinnar (les=íslenska stjórnkerfisins) til sinna bestu manna, ætti hún ekki að vera meira virði?

Ég mundi kaupa hana sjálfur ef ég ætti 170 þúsund aflögu.

Og veita hana svo einhverjum góðum bankamanni eða pólitíkus.

Einhverjum þeirra sem fylltu okkur svo mikilli andagift og auðlegð á uppgangsárunum …

Nú þegar þeim standa ekki svo margar orður til boða – í bili að minnsta kosti.

Það væri kannski spurning um að íslenska þjóðin hæfi söfnun til að kaupa fálkaorðuna.

En hver ætti að fá hana?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!