Sunnudagur 27.3.2011 - 13:45 - FB ummæli ()

Fyrir seinni tíma

Jóhann Hauksson skrifar á bloggsíðu sína um Björn L. Bergsson sem er formaður þeirrar kærunefndar jafnréttismála, sem felldi þann úrskurð að Jóhanna Sigurðardóttir hefði brotið jafnréttislög um daginn.

Sjónarmið Jóhanns eru góð og gild, en ég er búinn að segja mitt um þennan úrskurð sem Jóhanna fékk á sig, og ætla ekki að fjölyrða meira um hann.

En Jóhann vekur líka athygli á því að Björn L. var einmitt sá sérskipaði saksóknari sem komst að þeirri niðurstöðu á alveg ógnarhraða að bankastjórar Seðlabankans (Davíð og Ingimundur og Eiríkur) og yfirmaður Fjármálaeftirlitsins, Jónas Fr., hefðu ekki gerst brotlegir við neitt sérstakt með frammistöðu sinni fyrir hrun.

Þetta var í kjölfar Rannsóknarskýrslunnar í fyrra, og það vakti eiginlega enga athygli að Björn skyldi hreinsa þessa góðu menn – af því hann var svo gríðarlega snöggur af því.

Þetta var bara einn, tveir, hvítþvottur.

Ég veit ekkert hvort hægt sé að halda því fram að þeir fjórmenningar hafi beinlínis brotið lög.

Og mér er ekkert kappsmál að dæma menn í fangelsi.

En mér er aftur á móti kappsmál að allar hliðar hrunsins verði rannsakaðar í alvöru, og af þunga, og þar á meðal þáttur Seðlabankastjóranna og forstöðumanns Fjármálaeftirlitsins.

Hvernig gátu Seðlabankastjórarnir og FME setið nánast aðgerðarlausir hjá meðan bankakerfið í landinu flaut hjá til andskotans, og það litla sem þeir gerðu var heldur til tjóns en hitt?

Og svo borið bara alls enga ábyrgð?

Eins og ég segi: Björn L. var svo snöggur að úrskurða um þetta í fyrra að við tókum varla eftir því.

En þetta er meðal þess sem verður að skoða.

Það væri gott ef ríkisstjórnin sæi svo um að þótt Björn L. hafi verið snöggur með kattarþvottinn í fyrra, þá hafi hann ekki náð að loka neinum dyrum.

Fyrir seinni tíma.

Þegar þetta verður áreiðanlega allt tekið upp aftur, og rannsakað í þaula.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 27.3.2011 - 12:25 - FB ummæli ()

Easy Living

Áðan var ég að koma gangandi úr Vesturbæjarlauginni þar sem ég hafði silast svolítið fram og til baka um skeið.

Þá lá leið mín meðal annars framhjá hinum fornu höfuðstöðvum Baugs Group við Túngötuna.

Í meira en tvö ár hefur það hús staðið autt og tómt.

Núna sá ég hins vegar að það var búið að setja miða út í glugga til merkis um að þarna væri komin einhver starfsemi.

Ég stóðst ekki mátið að kíkja, og já – þarna virtust vera komin þrjú fyrirtæki í húsið.

Lögmannsstofan Vík, eitthvað sem heitir GreenCloud og mér sýndist vera tölvufyrirtæki, og svo ferðaskrifstofan Easy Living.

En hvergi að sjá minnstu merki um Baug Group.

Sumir myndu hnussa við og segja: „Farið hefur fé betra.“

Einhverjir aðrir kannski fá svolítinn kökk í hálsinn, og andvarpa: „Nú er hún Snorrabúð stekkur.“

En ég held að það sé alla vega óhætt að segja að „allt [sé] í heiminum hverfult, og stund þíns fegursta frama lýsir sem leiftur um nótt, langt fram á horfinni öld“.

Easy Living, já?

Ojæja!

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 26.3.2011 - 19:04 - FB ummæli ()

Stjórnlagaráðsjakki óskast!

Eins og vonandi kemur skýrt fram í grein sem ég skrifaði í helgarblað DV í gær, þá ætla ég að taka sæti í því stjórnlagaráði sem nú hefur verið samþykkt að halda eftir að Hæstiréttur ógilti stjórnlagaþingskosninguna.

Vissulega hefði ég helst kosið að kosið yrði upp á nýtt, en ég sé samt ekkert rangt við þá leið sem nú hefur verið farin.

Og það kom ekki til mála að hafna því að sitja í ráðinu.

Ég meina, af hverju í ósköpunum hefði ég átt að gera það?

Ég bauð mig fram til að taka þátt í því brýna verkefni að setja landinu nýja stjórnarskrá, og þjóðin reyndist treysta mér til þess verks.

Jú, jú, ég veit að kjörsókn var ekkert rosaleg. En þjóðin hafði valið, og þetta var hennar niðurstaða.

Ég tók henni þakklátur og bljúgur en líka spenntur í bragði.

Og þótt formleg umgjörð stjórnlagaþingsins hafi breyst og heiti nú stjórnlagaráð, þá erum við, sem þar munum sitja, við erum þar af því þjóðin treysti okkur til þess – og ekki út af neinu öðru.

Þingflokkarnir á Alþingi hefðu til dæmis seint valið mig til að setjast í stjórnarskrárnefnd.

Ég er þarna af því kosningin í haust fór eins og hún fór, og ég sæki umboð mitt til þjóðarinnar.

Púnditar hjá Agli eða í Kastljósi eða hvar sem er, þeir geta talað sig bleika um „veikt umboð“ stjórnlagaráðsins, en ég gef ekki hót fyrir það.

Við sem þar munum sitja gerum það í umboði þjóðarinnar, og ekki orð um það meir.

Og mér þætti allt að því klikkað ef ég færi að hafna tækifæri til taka þátt í því, sem ég bauð mig fram til að gera, og þjóðin treysti mér fyrir.

Ég ítreka: Af hverju ætti ég að gera það?

Af því Hæstiréttur leit svo á að formsatriðum hefði ekki verið fullnægt?

En ég og við sem vorum í framboði og vorum kosin, við gerðum ekkert rangt. Ekkert okkar svindlaði.

Og þjóðin gerði ekkert rangt.

Ekki svindlaði hún.

Svo hvað er vandamálið?

Það mætti kannski segja: Formsatriði verða að vera rétt. Rannsóknarskýrsla Alþingis sýndi greinilega fram á að það skorti sárlega formfestu í íslenska stjórnsýslu.

Og er þá ekki skrýtið að hefja verkefni, sem er ætlað að bæta íslenskt samfélag og stjórnsýslu, með því að skauta framhjá formsatriðum þeim sem Hæstiréttur hengdi hatt sinn á?

Ég held ekki.

Í fyrsta lagi má deila hart og lengi um það hvort verið sé að „sniðganga Hæstarétt“ eins og sumir segja, nánast með óttablik í augum, eins og rétturinn hafi nú verið óskeikull hingað til.

En í öðru lagi, þá hefur, jú, vissulega skort formfestu í íslenska stjórnsýslu gegnum tíðina.

En það hefur aldrei skort formfestu í íslenska lögfræði.

Þar hefur satt að segja ríkt formalisminn einn.

Og þetta er tvennt ólíkt.

Og ákvörðun Hæstaréttar er formalísk lögfræði, ekki formföst stjórnsýsla.

Ákvörðun Hæstaréttar sver sig í ætt við þá lögfræði sem hér hefur verið stunduð um aldir, og gerði að verkum að allra smásmugulegustu lagakrókapússararnir eins og Mála-Ólafur og Mála-Elliði þóttu bara helvíti pappírar í samfélaginu.

Menn sem með vogarstöngum formalismans voru sérfræðingar í velta steinum í hverja götu þar sem réttlætið var á ferð.

Það er í anda þeirra kumpána sem þeir réðust gegn stjórnlagaþinginu, Mála-Skafti og Mála-Jón. Steinar skyldu lagðir á vegferð stjórnlagabreytinga af því menn voru einfaldlega hugmyndafræðilega andsnúnir því að fólk úti í bæ fengi að koma nálægt svona mikilvægu verkefni.

Sem snerti völd þeirra sjálfra.

Svo einfalt er það, og þetta vitum við öll.

Jú, víst vitum við það öll!

Og þetta eigum við EKKI að láta yfir okkur ganga.

Ég vona að allir þeir sem kosnir voru til stjórnlagaþingsins taki þátt í hinu nýja ráði.

Ég lít reyndar svo á að þeim beri nánast skylda til þess að hjálpa til. Þeir voru jú kosnir til þess.

Sjálfur ætla ég að ganga til þess leiks ósár með öllu.

Ég hef engar áhyggjur af því þótt formalistarnir gnísti tönnum úti í hornum.

Ég er bæði stoltur og ánægður af því að fá að vera með. Ég meina, hversu oft á ævinni er sennilegt að maður fái raunverulegt tækifæri til að reka alvöru stoðir undir betra samfélag?!

Ég vona og trúi að fólk verði með okkur, og ég veit að við munum gera okkar besta.

Saman.

Og í góðri og náinni samvinnu við þjóðina sem kaus okkur, og þjóðina sem við eigum undir að sækja, og þjóðina sem við munum vinna fyrir.

Því við erum ekki að vinna fyrir Alþingi, þó afrakstur starfs okkar verði svo auðvitað ræddur þar.

Við verðum að vinna fyrir þjóðina, sem á annað og betra skilið en að lagakrókapússarar setji steina í götu hennar.

Ef við skilum góðu verki, þá vinnum við sigur, og „umboðið“ mun þá litlu skipta.

Þetta verður kannski erfitt, en þó er ég ekkert svo viss um það.

Því ég held að þetta verði svo skemmtilegt líka.

Ég sé í fljótu bragði aðeins einn meinbug á þessu öllu saman.

Ég á líklega engan jakka til að vera í á fundum ráðsins.

En strax á mánudaginn, þá fer ég út í búð og ræð bót á því.

Eftir það blasa engin vandamál við.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 26.3.2011 - 15:10 - FB ummæli ()

Hræódýrar pólitískar keilur

Ég sé að fólk er enn að skemmta sér við að bera saman þann úrskurð að Jóhanna Sigurðardóttir hafi brotið í bága við jafnréttislög með skipan í embætti skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu annars vegar – og svo hins vegar þegar Björn Bjarnason skipaði Ólaf Börk Þorvaldsson í embætti hæstaréttardómara.

Auðvitað hlaut góður skopmyndateiknari, eins og Halldór Baldursson, að grípa þessa gæs með bráðsniðugri mynd sinni í Fréttablaðinu – þar sem Jóhanna Sigurðardóttir lítur í spegil og sér Björn Bjarnason – en að öðru leyti hef ég lítinn húmor fyrir þessari samlíkingu.

Og kippi mér furðu mikið upp við hana, því mér finnst hún svo billeg.

Og ég var að vona að við ætluðum að selja okkur ögn dýrar í framtíðinni en hingað til.

Hvernig er það spilling eða atlaga að jafnrétti í landinu að skipa sérstakan ráðgjafa til að fara yfir og meta hæfni umsækjenda um tiltekna stöðu, og fara svo nákvæmlega eftir ráðum þessa ráðgjafa?

Ég kem því ekki alveg heim og saman.

Margt og mikið má gagnrýna Jóhönnu Sigurðardóttur og Samfylkinguna fyrir, en þegar menn vilja bera saman annars vegar tilraun Jóhönnu til góðrar stjórnsýslu (þó vel hafi getað verið eitthvað verið athugavert við ráðgjöfina), og svo hins vegar t.d. einbeittan vilja Björns Bjarnasonar til að ráða lítt hæfan náfrænda leiðtoga síns í mikilvægasta starfið í dómskerfinu, þá eru menn að slá ódýrar pólitískar keilur.

Já, alveg hræódýrar.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 25.3.2011 - 18:57 - FB ummæli ()

Burt með 17. júní!

Áður en endanlega var ákveðið að Alþingi ætlaði að skipa stjórnlagaráð, þá sá maður stundum hugleiðingar um hvað það yrði gaman ef hægt yrði með einhverjum hætti að afhenda þjóðinni nýja stjórnarskrá þann 17. júní.

Ég sá þetta bæði hjá stuðningsmönnum hinna 25 en líka hjá þeim sem vildu að alþingismenn drifu bara sjálfir í að smíða nýtt stjórnarskrárplagg.

Báðir hópar greinilega skotnir í að reyna að klára fyrir 17. júní.

Og maður nikkaði annars hugar og hugsaði: „Já, það væri nú gaman.“

En síðan fóru að renna á mig nokkrar grímur. Hefði virkilega einhver gaman af því?

Í fyrsta lagi held ég að það sé nú varla hægt. Jafnvel þótt stjórnlagaráð muni vafalítið vinna vel, þá er sennilega fullsnemmt að vera búið um miðjan júní. Ætli þetta taki ekki nokkrar vikur í viðbót.

En í öðru lagi, þá fór ég allt í einu að hugsa – af hverju 17. júní? Hefur sá dagur virkilega eitthvað það gildi fyrir okkur lengur, að það liggi í augum uppi fyrir alla Íslendinga hvað sé smart við að afhenda þjóðinni nýja stjórnarskrá þann 17. júní?

Ég er nefnilega hræddur um ekki.

Síðustu árin hefur 17. júní verið dagurinn þegar fólk hópast í bæinn til að kaupa frekar kaldar og hráslagalegar pylsur úr sölutjöldum í Austurstræti og Lækjargötu.

Dagurinn þegar lítil börn heimta og fá gasblöðrur í líki skrípakvikinda úr japönskum teiknimyndasögum.

Dagurinn þegar middle-of-the-road popphljómsveitir spila á Arnarhóli síðdegis.

Dagurinn þegar slatti af unglingsgreyjum kútveltist á ímyndunarfyllerí í miðbænum fram eftir kvöldi.

Það er ekkert – ég endurtek: ekkert – sem segir fólki hvaða dagur þetta er.

Eða hvað var merkilegt við hann.

Jú, þarna er athöfn þarna um morguninn, forsetinn og fjallkonan, en svo tekur hið algjöra tilgangsleysi völdin.

Af hverju erum við að hafa sérstakan frídag fyrir pulsur og pokémon?

Menningarnótt hefur tilgang. Við vitum til hvers hún er. Við erum að lofsyngja menninguna.

Það gengur kannski svona og svona, en við vitum það samt, og sú vissa gerir menningarnótt bara frekar viðkunnanlegt fyrirbæri.

Þrátt fyrir unglingafylleríið eftir flugeldasýninguna.

En til hvers er 17. júní?

Mér hefur lengi þótt þennan dag skorta tilgang, en nú á síðustu árum er tilgangsleysið orðið ærandi.

Sjálfsagt finnst einhverjum gaman niðrí bæ, einkum ungum krökkum, en TIL HVERS er þessi dagur?

Hvað segir hann okkur?

Af hverju er 17. júní ekki „dagur íslenskrar sögu“? Við höfum dag íslenskrar tungu, dag íslenskrar náttúru, og sitthvað fleira.

En aldrei skoðum við sögu okkar.

Því ekki að leggja 17. júní undir Íslandssöguna?

Skipuleggja skemmtiatriði og uppákomur með tilliti til þess. Það kemur margt til greina. Litlar sýningar hér og þar, leikarar sem dúkka upp í mannfjöldanum og setja á svið atriði úr Íslandssögunni.

Og svo framvegis. Hugmyndaríkt fólk hlýtur að geta látið sér detta margt sögulegt í hug.

Ég meina ekki einhvern þjóðernisbelging. Alls ekki.

En það er hægt að segja satt og vera skemmtilegur um leið.

Því þetta mætti allt vera mjög frjálslega gert. Ég er ekki að biðja um kennslustundir.

Heldur bara að það sé einhver tilgangur með þessum degi.

Einhver hugsun bak við það sem boðið er upp á.

Líka skemmtiatriðin.

Það hlýtur að vera hægt að búa til skemmtilegan dag fyrir fjölskyldur, dag fullan af fjöri, en segir þeim um leið eitthvað.

Eitthvað um það hvað er merkilegt við 17. júní og hvers vegna við höldum upp á þennan dag.

Og úr hvers konar sögu við erum sprottin.

Sonur minn ungur hefur litla hugmynd um það.

Jújú, hann kann sína Íslandssögu á við hvern annan 11 ára krakka annan, en hann fær aldrei tækifæri til að LIFA þá sögu.

Því ekki að veita honum tækifæri til þess á þjóðhátíðardaginn?

Burt með 17. júní eins og hann hefur verið praktíseraður!

Burt með þennan hátíðisdag pokémonanna!

Og inná með dag íslenskrar sögu!

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 24.3.2011 - 11:17 - FB ummæli ()

Er Jóhanna Sigurðardóttir níðingur í jafnréttismálum?

Það er ekkert gamanmál að brjóta jafnréttislög.

Nei, fyrir utan ýmis bein hegningarlagabrot, þá finnst mér satt að segja fá lögbrot vera alvarlegri.

Helmingur mannkynsins hefur sætt margvíslegum órétti öldum saman, og það er svo brýnt að ráða á því bót, að ekki ber að taka af neinni léttúð á jafnréttislögunum, eða brotum á þeim.

Því er það auðvitað í meira lagi vandræðalegt þegar nefnd hefur nú úrskurðað að forsætisráðherra hafi brotið þessi jafnréttislög með skipan í embætti skrifstofustjóra í ráðuneytinu.

Forsætisráðherra á auðvitað að ganga á undan öðrum með góðu fordæmi.

Tala nú ekki um þegar forsætisráðherra kemur úr röðum Samfylkingar, flokks sem ævinlega hefur gefið sig út fyrir að vera sérlega jafnréttissinnaður – og ein af stoðunum í flokknum í upphafi var náttúrlega sjálfur Kvennalistinn.

Og tala nú heldur ekki um þegar viðkomandi forsætisráðherra er kona, og það kona sem alltaf hefur (já!) verið óþreytandi að tala máli jafnréttis og kvenréttinda – altso Jóhanna Sigurðardóttir.

Já, það er óhætt að segja að þetta sé vægast sagt vandræðalegt.

En ég verð samt að segja að það rís upp í mér réttlætiskenndin þegar ég verð vitni að sumum þeim árásum sem Jóhanna má nú sæta vegna málsins.

Tal um „húmbúkk“ og „hroka“ og „aumingjaskap“ finnst mér ansi harkalegt – fyrir nú utan að það kemur í sumum tilfellum úr hörðustu átt.

Lítum á málið.

Ólafur Stephensen ritstjóri Fréttablaðsins rifjar upp í leiðara í dag viðbrögð Jóhönnu fyrir sjö árum þegar Björn Bjarnason skipaði karlmann í stöðu hæstaréttardómara, en einn umsækjenda, Hjördís Hákonardóttir, taldi á sér brotið.

Kærunefnd jafnréttismála tók undir sjónarmið Hjördísar en Björn gaf lítið fyrir úrskurð nefndarinnar.

Hann lýsti því yfir að jafnréttislögin hefðu verið „börn síns tíma“.

Þau voru þá reyndar fjögurra ára gömul!

Jóhanna Sigurðardóttir gagnrýndi viðbrögð Björns Bjarnasonar harkalega og sagði að í öðrum löndum hefði ráðherra sem bryti „svo gróflega lög og reglur verið látinn fjúka“.

Og Ólafur Stephensen ritstjóri gefur til kynna að þar sem þessi tvö mál séu „að langflestu leyti sambærileg“.

Hjördís Hákonardóttir hafi verið dæmd „ívið hæfari en sá sem skipaður var“ í embætti hæstaréttardómara, en ekki fengið embættið, rétt eins og núna hafi ekki fengið starf skrifstofustjóra tiltekin kona sem dæmd var „að minnsta kosti jafn hæf“ og sá sem ráðinn var.

En ég verð að segja: Þarna þykir mér Ólafur Stephensen fara mjög frjálslega með staðreyndir.

Það mál sem hann er að rifja upp snýst um það hneyksli haustið 2003 þegar Björn Bjarnason skipaði náfrænda hins mikla leiðtoga Davíðs Oddssonar í Hæstarétt, Ólaf Börk Þorvaldsson.

Ólafur Börkur var, ef ég man rétt, allt í senn, yngstur og óreyndastur og ómenntaðastur og í alla staði ólíklegastur til að fá þetta virðingarstarf, enda kom skipan hans öllum í opna skjöldu – nema þeim sem voru hættir að láta stjórnarhætti á ofanverðum valdatíma hins mikla leiðtoga koma sér á óvart.

Og það er engan veginn rétt að Hjördís Hákonardóttir hafi verið metin „ívið hæfari“ en Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Þótt í umsögn Hæstaréttar, sem þá var látinn meta umsækjendur um stöður, kæmi fram að allir umsækjendur, þar á meðal Ólafur Börkur, væru út af fyrir sig hæfir til að gegna starfinu, þá fór ekki milli mála hver stóð hvurjum framar í einstökum atriðum.

Þeir Eiríkur Tómasson og Ragnar Hall voru metnir „heppilegastir“ eins og komist var að orði, en Hjördís Hákonardóttir fékk líka skínandi umsögn.

Hún hafði í farteski sínu mun betri námsárangur en Ólafur Börkur, sem ekki var meðal efstu manna í lagadeild á sínum tíma.

Hún hafði sinnt fræðastörfum á sviði lögfræði umfram aðra umsækjendur.

Hún hafði mest framhaldsnám allra umsækjenda.

Hún hafði verið dómari í 20 ár, Ólafur Börkur í 13.

Þetta heitir ekki að annar umsækjandi sé „ívið hæfari“ en hinn, Ólafur Stephensen. Þetta heitir að annar umsækjandi sé „miklu hæfari“ en hinn.

Og þeim mun alvarlegra var brot Björns Bjarnasonar því broti sem Jóhanna dæmist nú fyrir – því í hennar tilfelli var konan, sem kærði stöðuveitinguna, í besta falli útskurðuð jafn hæf og karlmaðurinn sem ráðinn var.

Reyndar taldi nefnd sem fór yfir umsóknirnar að karlinn væri öllum umsækjendum hæfastur, en konan í fimmta sæti, en um þau fínni blæbrigði veit ég svo sem ekkert. En það er þó að minnsta kosti ljóst að konan stóð karlinum ekki augljóslega framar, eins og þegar Hjördís Hákonardóttir stóð Ólafi Berki svo greinilega mun framar árið 2003.

Að þessu leyti eru málin 2003 og 2011 ekki nógu sambærileg.

Ég ítreka að brot á jafnréttislögum eru í sjálfu sér ævinlega alvarleg. En brot Jóhönnu er þó óneitanlega annars eðlis en brot Björns.

Ekki síst vegna þess að Björn tók sína ákvörðun einn og sjálfur. Hæstiréttur veitti að vísu umsögn, eins og áðan kom fram, en að öðru leyti var þetta geðþóttaákvörðun Björns Bjarnasonar.

Jóhanna setti hins vegar ráðninguna í ákveðinn farveg, með því að skipa sérstakan ráðgjafa sem átti að meta umsækjendur á algjörlega faglegan hátt.

Og hún fór svo eftir því sem ráðgjafinn lagði til.

Kannski var eitthvað brogað við starf þessa ráðgjafa. Ég veit það ekki.

Ég veit að ég ber reyndar alls ekki takmarkalausa virðingu fyrir „ráðgjöfum“ í „stjórnunarfræðum“.

En ég hef ekki kynnt mér starf þessa ráðgjafa af neinu viti.

Kannski hefði Jóhanna átt að rannsaka starf ráðgjafans í þaula, áður en hún fór að uppástungu hans, eða hennar. Ég veit það ekki heldur.

Ég veit það hins vegar að hér var greinilega ekki um að ræða lögbrot „af vondum hug“ eins og það heitir nú til dags.

Og ég verð að segja, að þó ég þekki Jóhönnu Sigurðardóttur ekki, og þótt mér þyki henni hafa verið um margt mislagðar hendur í landstjórninni undanfarin misseri, þá finnst mér hún ekki eiga skilið að vera nú allt í einu úthrópuð sem sérstakur níðingur í jafnréttismálum.

Við þurfum að gæta þess að alltaf og ævinlega sé unnið dyggilega að jafnréttismálum.

Það er sjálfsagt, æskilegt og reyndar lífsnauðsynlegt að ráða fleiri konur í stjórnunarstöður í embættismannakerfinu. Það er alveg á hreinu.

Ég veit ekkert hvernig á að leysa þetta mál núna.

En mér finnst ástæða til að brýna fyrir mönnum sanngirni. Það eru ekkert mjög margir stjórnmálamenn á Íslandi sem eiga að baki flekklausari feril í jafnréttisbaráttu en Jóhanna Sigurðardóttir.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 19.3.2011 - 11:02 - FB ummæli ()

Bætur fyrir glataða æsku ná ekki mánaðarlaunum skilanefndarmanns

Áratugum saman var einn svartasti bletturinn á íslensku samfélagi hvernig við höfðum farið með þau börn sem lentu af öllum mögulegum ástæðum á upptökuheimilum ríkisins.

Breiðuvík og fleiri stöðum.

Þar viðgekkst sannkallaður hryllingur, og við létum það viðgangast.

Þegar árið 1982 kom t.d. út bók þar sem viðbjóðnum í Breiðuvík var lýst í smáatriðum.

„Stattu þig strákur“ þar sem Sævar Ciecielski sagði sögu sína, en hann var einn þeirra sem þangað voru sendir.

En af því það var Sævar sem talaði – maður sem var úthrópaður morðingi af öllu íslenska kerfinu, og stimplaður sem slíkur af Hæstarétti – þá hlustaði enginn.

Skömm okkar allra verður lengi uppi.

Sjálfsagt verðum við nú að velkjast í biturri sjálfsskoðun árum saman yfir ýmsu sem uppá kom í „góðærinu“ og hruninu, en sannleikurinn er sá að það er léttvægt miðað við þá staðreynd að við fórum illa með börn.

Og hlustuðum svo ekki á veikburða tilraunir þeirra á fullorðinsárum til að segja sína sögu.

Bera hönd fyrir höfuð sér.

Biðja um líkn og réttlæti.

Fyrir nokkrum árum sprakk loksins Breiðuvíkursprengjan sem svo lengi hafði tifað í skuggunum í samfélagi okkar.

Við neyddumst til að horfast í augu við það sem við höfðum gert.

Og ég hélt að við hefðum skammast okkar.

Og viti menn, stjórnvöld virtust ætla að taka á sig rögg.

Búin var til ágæt skýrsla um Breiðuvík og önnur slík „heimili“.

Og boðaðar voru bætur sem börnin, sem þar máttu þjást, skyldu fá.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra virtist ætla að taka málið mjög alvarlega. Gott hjá henni!

Nefnd var skipuð til að útdeila bótum.

Hámarksbætur áttu að vera sex milljónir. Það virka ekki nein ósköp, en þeir sem þekkja til bótagreiðslna í samfélaginu töldu það þó bara viðunandi.

Gallinn var sá að nefndin bjó sér til eitthvert punktakerfi sem hún fór eftir þegar bætur til hvers og eins voru ákveðnar.

Og nú er nefndin búin að úthluta bótunum – og börnin í Breiðuvík hafa fengið enn eina blauta tusku framan í sig.

Enginn sem vitað er um hefur fengið hámarksbætur.

Flestir fá miklu miklu minna en þessar sex milljónir.

Þeir sem setið hafa í nefndum þeim sem um málið hafa fjallað fá hærri upphæðir en bæturnar sem flest vistheimilisbörnin fá.

Lögfræðingarnir maka sem sagt krókinn.

Aldrei þessu vant.

En þetta er ekkert gamanmál.

Þetta er satt að segja ömurleg svívirða, og ég ætla rétt að vona að Jóhanna Sigurðardóttir grípi snarlega í taumana.

Annars leggst heldur lítið fyrir hana.

Og þegar ég segi „snarlega“ þá meina ég strax. En hún láti málið hvorki framhjá sér fara né láti það velkjast í fleiri nefndum í fleiri misseri.

Hún verður hreinlega að gera eitthvað í málinu.

Að bætur fyrir glataða æsku séu lægri en laun lögfræðingsins sem reiknaði þær út, það gengur ekki.

Það gengur bara ekki.

Og að enginn fái hámarksbætur, það gengur ekki heldur.

Þessar sex milljónir.

Mánaðarlaun skilanefndarmanns.

Það eru nú öll ósköpin.

Og fyrir glataða æsku, og í mörgum tilfellum stórlega laskað líf.

Það gengur ekki.

Kreppa eða ekki kreppa, við förum ekki svona með börn.

Þó þau séu orðin fullvaxin og kunni kannski ekki öll að tala sínu máli.

Þetta gengur ekki.

Svo einfalt er það – ætla ég að vona.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 15.3.2011 - 20:29 - FB ummæli ()

Að skipta litum

Fyrr í dag birti ég þessa færslu hér á blogginu. Þetta er makalaust brot úr heimildarmynd um mauralíf, og sýnir hvernig mauraborg er byggð í raun og veru.

Hérna er svo öll þessi mauramynd. Endilega horfið á þetta frekar en umræður frá Alþingi.

Það er svo sannarlega ekki ætlunin að þessi bloggsíða verði helguð dýralífsvídeóum, en fyrst ég er byrjaður í dag, þá ætla ég að leyfa mér að birta hér eitt í viðbót.

Myndir af kamelljóni að skipta litum.

Ég trúi þessu varla, það mætti alveg segja mér að þetta væri falsað á einhvern hátt.

En sé þetta satt og rétt … þá er það hér.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 15.3.2011 - 11:36 - FB ummæli ()

Furðuborg

Ég má til með að vekja athygli á þessu hér.

Þetta er partur úr heimildarmynd um maura, og kvikmyndagerðarmennirnir tóku sér fyrir hendur að hella steypu niður í maurabú til að komast að því hvernig það lítur út í raun og veru.

Þegar steypan var þornuð, þá var búið grafið upp.

Og það sem kom í ljós er eiginlega með algjörum ólíkindum.

Ég segi kannski ekki að arkitektúr okkar mannanna blikni í samanburði við þetta, en það fer svona nærri því.

Sér í lagi þegar maður hugsar til þess að þessi furðuborg er reist (eða réttara sagt grafin) af nokkurra millimetra löngum skordýrum …

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 14.3.2011 - 18:13 - FB ummæli ()

Hvers vegna þessi laun?

Í „góðærinu“, þá var okkur sagt að yfirmenn fjármálafyrirtækja og bankastjórnendur á Íslandi væru svo svakalega færir í sínu starfi að það dygði ekki annað en borga þeim margar milljónir á mánuði í laun.

Í ljós kom að það var ekki rétt.

Núna kemur á daginn að það fólk sem situr í slitastjórnum bankanna gömlu hefur svona að meðaltali 6 milljónir á mánuði í laun.

Vill einhver vera svo elskulegur að útskýra fyrir mér hvernig standi á því?

Án þess að vísa í erlenda kröfuhafa sem alveg endilega krefjist þess að þetta góða fólk hafi svona há laun?

Þetta fólk lifir á hræjum bankanna sem felldu um koll íslenskt samfélag, svo það hlýtur bara að vera hægt að koma því svo fyrir að íslenskt samfélag fremur en örfáir einstaklingar græði eitthvað á því sem þessir bankar eru að bralla.

Ef viljinn væri fyrir hendi.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!