Föstudagur 19.10.2012 - 17:39 - FB ummæli ()

Rangar auglýsingar

Mig minnir fastlega að í gamla daga hafi þeir sem héldu úti vefsíðunni Andríki verið hjartahreinir frjálshyggjumenn, sem héldu fram sínum hugsjónum af mikilli festu en líka heiðarleika.

Það hefur þá eitthvað breyst því nú dynja í útvarpinu auglýsingar sem merktar eru Andríki, þar sem fullyrt er að tillögur stjórnlagaráðs auðveldi ríkisstjórninni að koma Íslandi í ESB.

Og svo fylgir hvatning um að segja „nei“.

Þessi fullyrðing er röng, og á það hefur margoft verið bent. Tillögur stjórnlagaráðs auðvelda EKKI ríkisstjórn að koma Íslandi í ESB.

Það er alveg þvert á móti – því verði tillögurnar að stjórnarskrá þá verður ríkisstjórn SKYLT að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðild.

En það er nefnilega ekki skylda samkvæmt núverandi stjórnarskrá.

Fullyrðing Andríkis er því alröng – og það sem verra er, þeir sem að henni standa vita það áreiðanlega fullvel – eins oft og hefur verið fjallað um þetta.

En þeir kjósa að fara fram með rangt mál, í von um að lokka einhverja ESB-andstæðinga til að segja „nei“, þegar í raun væri mun rökréttara að þeir segðu „já“.

En altént – það er leiðinlegt að horfa svona upp á fólk troða upp með blekkingar. Sér í lagi hina fornu baráttumenn sem ætluðu að sigra heiminn með heiðarlegri hugsjónabaráttu.

Og undarlegt af Ríkisútvarpinu að leyfa auglýsingar sem augljóslega eru rangar.

Því þetta er ekkert túlkunaratriði, þetta er bara rangt.

Tillögur stjórnlagaráðs auðvelda ríkisstjórn EKKI að ganga í ESB.

Þvert á móti.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 19.10.2012 - 16:22 - FB ummæli ()

„Miklu betri“ en núverandi stjórnarskrá

Tillögur stjórnlagaráðs fela í sér umtalsverðar umbætur.

Þó ekki væri annað – þá er rétt að halda því til haga sem Pétur H. Blöndal þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði orðrétt í Silfri Egils síðastliðinn sunnudags að þessar tillögur væru „miklu betri“ en núverandi stjórnarskrá.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 19.10.2012 - 08:21 - FB ummæli ()

Spurningarnar eru ekkert loðnar

Í gær kvartaði maður nokkur við mig á Facebook yfir því að spurningarnar í þjóðaratkvæðagreiðslunni á morgun væru svo „loðnar“.

Hvernig ætti hann eiginlega að greiða atkvæði við fyrstu spurningunni ef hann væri 90 prósent sammála tillögum stjórnlagaráðs, en 10 prósent á móti?

En í reynd eru spurningnar ekki hót „loðnar“.

Þær snúast bara um það hvort fólk vilji tiltekin atriði – eða ekki.

Útfærsla stjórnlagaráðs á þeim atriðum liggur fyrir, skýr og skilmerkileg.

Svo fólk er einfaldlega að greiða atkvæði um hvort sú útfærsla ætti að verða grundvöllur að nýrri stjórnarskrá.

„Loðnara“ er það nú ekki.

Ef gallar finnast á plagginu, eða almenn samstaða virðist milli þjóðar og síðan þings, um að einhverjar breytingar ætti að gera, þá verða auðvitað gerðar nauðsynlegar breytingar, en meginstefin í tillögum stjórnlagaráðs verða áfram skýrari valdmörk í stjórnkerfinu, auðlindir í þjóðareign, mun meira gegnsæi og upplýsingagjöf til að uppræta spillingu, og svo framvegis. Allt saman atriði til mikillar bóta, að mínum dómi.

Ef fólk styður þetta segir það bara „já“ við fyrstu spurningunni á morgun.

Það er ekkert „loðið“ við þetta.

Það er einfaldlega partur af því að lifa í lýðræðisríki að fá að gera upp hug sinn og ákveða hvernig maður ver atkvæði sínu.

Er ég hlynntur nógu mörgu af hinu góða í tillögum stjórnlagaráðs til að það vegi upp á móti því sem ég er efins um?

Flóknara er það nú ekki, þegar öllu er á botninn hvolft.

Á fjögurra ára fresti kýs fólk stjórnmálaflokka á Alþingi.

Maður velur þann flokk sem er manni best að skapi.

Þó er sjálfsagt enginn 100 prósent samþykkur öllu sem flokkurinn boðar.

Engum dettur í hug að kalla það „loðið“ ferli.

Og manninum sem spurði get ég svarað svona:

„Hjálpi mér hamingjan! Ef þú ert 90 prósent ánægður með tillögur stjórnlagaráðs áttu að sjálfsögðu að segja JÁ! Það er áreiðanlega sjaldgæft að fólk sé 90 prósent ánægt með stjórnarskrá sína, þegar að er gáð, svo í mínum huga er þetta engin spurning.“

Góða skemmtun á kjörstað!

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 18.10.2012 - 19:40 - FB ummæli ()

Því sem ekki verður haggað

Andstæðingar stjórnarskrártillagna stjórnlagaráðs veifa nú nokkuð því vopni að tillögurnar séu svo illa úr garði gerðar, óljósar og mótsagnakenndar.

En það er einfaldlega rangt.

Þótt þær hafi verið til skoðunar í meira en heilt ár hefur ekki tekist að sýna fram á neina byggingargalla eða stórfellda feila eða hættulegt flan sem í þeim felast.

Menn hafa misjafnar skoðanir um hin ýmsu atriði, eins og eðlilegt má heita. Sumt eru smekksatriði, önnur vega þyngra, og það er ekki nema sjálfsagt að einhver þeirra vekji heita andstöðu.

En að þetta sé gallað verk, það fellst ég ekki á.

Komi þeir gallar á daginn í yfirferð sérfræðinganefndar og/eða Alþingis, þá verða þeir að sjálfsögðu lagaðir, en meginhugmyndir stjórnlagaráðs um bætt stjórnkerfi, aukna ábyrgð stjórnvalda, meira gegnsæi og auðlindir í þjóðareigu – þessi og önnur meginatriði tillagnanna, sem geta bætt þjóðfélag okkar, þeim verður auðvitað ekki haggað.

Ef fólk greiðir tillögunum atkvæði á laugardaginn.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 18.10.2012 - 18:48 - FB ummæli ()

Eru þingmenn réttu mennirnir?

Eitt atriði í sambandi við þjóðaratkvæðagreiðsluna á laugardag má vel árétta.

Ein ástæða þess að þingmenn – með djúpri virðingu fyrir þeim – eru ekki endilega réttu mennirnir til að skrifa stjórnarskrá er sú að stjórnarskráin fjallar meðal annars um þá sjálfa.

Ákvæði stjórnarskrártillagna stjórnlagaráðs um aukið persónukjör og jafnt vægi atkvæða munu til dæmis hafa bein áhrif á feril þó nokkuð margra þingmanna.

Ætti að leggja það á fólk að taka þannig mjög afdrifaríkar ákvarðanir um eigið starf?

Ég ætla ekki að gera lítið úr heiðarlegu starfi og áhuga þingmanna á betri stjórnarskrá. En það má samt vel halda þessu til haga.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 18.10.2012 - 10:52 - FB ummæli ()

„Í því efni búum vér því ennþá við bætta flík“

Andstæðingar hinna nýju stjórnarskrártillagna eru enn við það heygarðshorn að það skipti ógurlega miklu máli að 95 prósent atkvæðisbærra manna hafi samþykkt lýðveldisstjórnarskrána í þjóðaratkvæðagreiðslu 1944.

Reyndar hef ég heyrt furðulegasta fólk halda þessu á lofti.

Þessi háa prósentutala sýni að þjóðin hafi unnað stjórnarskránni heitt, og þess vegna sé af einhverjum ástæðum bæði óþarfi og eiginlega dónaskapur að breyta henni mikið núna.

Eins og margir hafa bent á, er þetta í senn rangt og rangt.

Rangt vegna þess að jafnvel þó mikil ánægja kunni að hafa ríkt með tiltekið plagg fyrir 68 þá þýðir það auðvitað ekki að ekki megi breyta því að ráði síðan.

Og rangt vegna þess að staðreyndin er einfaldlega sú að það ríkti alls ekki einhugur og ánægja með lýðveldisstjórnarskrána.

Sjálfur skrifaði ég til dæmis um þetta hér.

Nú hefur Guðni Th. Jóhannesson tekið af öll tvímæli um þetta í grein sem hann birtir á þessari heimsíðu sinni.

Greina sem um ræðir má finna hér, en ég tók mér það bessaleyfi að afrita greinina og birta hana hérna. Greinin var upphaflega erindi sem flutt var á fundi Stjórnarskrárfélagsins.

Hér tekur grein Guðna Th. við:

„Staðreyndir eru þrjóskar. Engu breytir hvað við vonum, viljum eða þráum; þær standa óhaggaðar eftir sem áður.“ Þannig mælti bandaríski stjórnmálaskörungurinn John Adams á sínum tíma. Nú er ekki þar með sagt að staðreyndir tali einfaldlega sínu máli, að túlkanir skiptu engu og hægt sé að finna hinn eina stóra sannleika um það sem gerðist forðum. Heimildirnar – staðreyndirnar sem eftir lifa – þarf að bera saman, túlka og geta í eyður þar sem við á.

Þar að auki þarf fólk að viðurkenna fyrir sér og öðrum til hvers leikurinn er gerður þegar liðin tíð er rifjuð upp. Er ætlunin að vitna í söguna til stuðnings ákveðnum málstað samtímans eða stendur viljinn einfaldlega til þess að vita hvað gerðist forðum daga?

Í rannsóknum á sögunni þykir það einatt til fyrirmyndar að stefna að hlutlægni, líta á atburði og einstaklinga frá ólíkum sjónarhólum og forðast þá freistingu að draga aðeins það fram sem styður manns eigin kenningar en gera lítið úr hinu. Þetta getur verið erfitt. Jafnframt er enginn dómari í eigin sök og öll erum við börn okkar tíma.

Umhverfið hefur áhrif á skoðanir okkar hvort sem okkur líkar betur eða verr. Skoðanir um liðna tíð verða aldrei eins og niðurstöður flestra raunvísindalegra tilrauna, óháðar tíma og rúmi. Samt má afstæðishyggjan aldrei verða alger því að þá getur hver sem er haldið fram hverju sem er. Sumt ætti ekki að þurfa að deila um.

Allt það sem hér hefur verið rakið má hafa í huga þegar sögunni víkur að efni þessa erindis, aðdraganda lýðveldisstjórnarskráarinnar. Auðvitað verður aðeins hægt að stikla á stóru en fyrst má minnast á þær fullyrðingar í umræðum líðandi stundar að ekki hafi verið fastmælum bundið að taka stjórnarskrána til gagngerðrar endurskoðunar, enda hafi þjóðin stutt hana einum rómi árið 1944. Þar að auki hefur verið sagt ástæðulaust að umbylta lýðveldisstjórnarskránni því að hún sé „svo listilega smíðuð“ eins og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, komst að orði, og „helgur gerningur“, svo vitnað sé til orða höfundar Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins.

Stjórnarskrá fengu Íslendingar fyrst árið 1849, þegar einveldi var lagt af í Danaveldi. Síðan lét Kristján IX. semja sérstaka stjórnarskrá handa þjóðinni árið 1874 og loks var skrifuð ný stjórnarskrá á grundvelli hennar árið 1920, tveimur árum eftir að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki, með ákvæði um full slit frá Danmörk eftir aldarfjórðung ef verða vildi.

Stjórnarskrá Kristjáns konungs var til framfara að mörgu leyti en betur mátti ef duga skyldi. Stóru sigrarnir komu 1901, þegar þingræði varð ráðandi í Danmörku, og svo með heimastjórn á Íslandi þremur árum síðar. Á sama hátt skipti stjórnarskráin frá 1920 ekki sköpum. Áfanginn mikli fékkst með sambandslögunum árið 1918.

Í umræðum um nýju stjórnarskrána var einkum tekist á um skilyrði til ríkisborgararéttar og hún var aldrei í hávegum höfð meðal landsmanna. Það segir reyndar líka sína sögu að lengi vel var gamla stjórnarskráin frá 1874 „týnd“: Rúmri öld síðar, þegar blaðamaður á Íslandi spurði í sakleysi sínu hvar hún væri kom á daginn að það vissi enginn hérlendis. Eftir dauðaleit fannst hún rykfallin í danska ríkisskjalasafninu, búin að vera þar frá 1928. Árið 2003 var hún svo formlega afhent Íslendingum til varðveislu.

Með öðrum orðum voru stjórnarskrárnar frá 1874 eða 1920 engir grundvallarsáttmálar í huga ráðamanna eða almennings, ekki í anda „Magna Carta“ í Bretlandi, stjórnarskrár Bandaríkjanna með hinum magnþrungnu upphafsorðum „We the people“, eða grunnlaga þýska sambandslýðveldisins. Þannig skjal höfðu Íslendingar ekki eignast og þannig var staðan þegar stríð skall á 1939.

Valdhafar á Íslandi leiddu hugann samstundis að því að endurskoða þyrfti stjórnarskrá landsins. Til þess voru fengnir fróðir menn, með Bjarna Benediktsson, þá prófessor í stjórnlagafræði, í broddi fylkingar. Á opinberum vettvangi sagði hann mesta djörfung í því að semja nýja stjórnarskrá frá grunni en viðurkenndi að sú leið gæti skapað illdeilur þegar mest á riði að umheimurinn sæi einhuga þjóð, staðráðna í að stofna eigið lýðveldi.

Þetta sjónarmið sást líka í þeirri samþykkt Alþingis í miðjum ófriðnum að þegar lýðveldi yrði senn stofnað mætti engu breyta í stjórnarskrá nema því sem nauðsyn krefði við það að þjóðhöfðingjavaldið færðist inn í landið. Lagt var fram frumvarp til stjórnskipunarlaga – nýrrar stjórnarskrár. Um leið var hins vegar tekið fram skýrum orðum að huga yrði að öðrum breytingum sem gengju í gildi þegar um hefði hægst:

„Má ætla að það starf verði öllu víðtækara og þurfi þar til að afla ýmissa gagna er nú liggja eigi fyrir, svo og að gaumgæfa reynslu þá er lýðræðisþjóðir heimsins óefað öðlast í þessum efnum á þeim tímum sem nú líða yfir mannkynið. Þangað til því verki yrði lokið ætti sú stjórnarskrá sem hér er lögð fram að nægja …“.

Allt ber að sama brunni: Í bígerð var millileikur, tímabundin breyting á stjórnarskrá uns næði gæfist til gagngerðrar endurskoðunar. Heimildir um umræður utan þings styðja þetta sjónarmið og ekki síður ummæli á Alþingi þegar rætt var um hina væntanlega lýðvelidstjórnarskrá fyrri hluta árs 1944. Hér verða aðeins nefnd nokkur dæmi:

Eysteinn Jónsson, Framsóknarflokki: „Við megum ekki taka upp í lög um lýðveldisstjórnarskrá annað en það sem stendur í beinu sambandi við stofnun lýðveldis í stað konungdæmis … Síðan eigum við að vinna af kappi að því að endurskoða stjórnarskrána í heild og vinna að þeim breytingum sem gera þarf..

Stefán Jóhann Stefánsson, Alþýðuflokki: „… er það skoðun allrar [stjórnarskrár]nefndarinnar að vinna beri hið bráðasta að því að fram fari gagnger endurskoðun á stjórnarskránni“.

Jakob Möller, Sjálfstæðisflokki: „Þessi fyrirhugaða stjórnarskrá, sem hér um ræðir, er hugsuð og í rauninni yfirlýst sem hrein bráðabirgðastjórnarskrá, þ.e.a.s., jafnframt því sem hún er samþykkt er gert ráð fyrir að stjórnarskrá ríkisins í heild verði tekin til gagngerðrar endurskoðunar á næstu árum.“

Brynjólfur Bjarnason, Sósíalistaflokki: „… nú er það svo að við stofnun hins fullvalda íslenzka ríkis ríður oss öllu framar á þjóðareiningu. … Þess vegna held ég að flestir séu nú komnir á þá skoðun að það sem gert var með stjórnarskrárákvæðinu 1942 – að takmarka breytingar á stjórnarskránni við það sem leiðir af skilnaði við Danmörku og flutningi æðsta valds inn í landið, með öðrum orðum að útiloka fyrir fram öll þau deilumál sem ágreiningi gætu valdið – hafi verið hið eina rétta.“ 

Áhersla á einingu og ágreiningi frestað: Þetta útskýrir hina „rússnesku kosningu“ í þjóðaratkvæðagreiðslunni um sambandsslit og lýðveldisstofnun vorið 1944. Fólk var framar öllu að kjósa um skilnaðinn við Danmörku. Einn þeirra sem man þessa daga skrifaði nýlega á þessa leið:

„En í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar í maí 1944 man ég ekki eftir því að nokkur maður minntist á stjórnarskrána og atkvæðagreiðsluna um hana. Það var lýðveldisstofnunin og endanlegu slitin við Dani sem á hverjum manni brann. Ég tel enda fullvíst að þorri manna hafi ekki haft hugmynd um hvað stóð í þessu plaggi sem nefndist stjórnarskrá en að sjálfsögðu sögðu flestir já við upptöku hennar, fannst það vera liður í þessu dýrðlega ferli; að losna endanlega við gömlu herraþjóðina og danska kónginn.“

Ekki má heldur gleyma sérfræðingunum, lögfræðingunum sem sögðu nær allir sem einn að lýðveldisstjórnarskráin hefði verið samin til bráðabirgða. Ólafur Jóhannesson, síðar lagaprófessor, nefndi nokkur atriði sem taka þyrfti til „rækilegrar endurskoðunar áður en gengið verður frá framtíðarstjórnarskrá hins íslenzka lýðveldis“.

Ólafur Lárusson, prófessor í lögum, tók jafnvel dýpra í árinni – og var hann þó varkár að eðlisfari: „Endurskoðun stjórnarskrárinnar er því eitt af verkefnum framtíðarinnar, náinnar framtíðar. Lýðveldisstjórnarskráin í þeirri mynd, sem hún hefur nú, er aðeins sett til bráðabirgða.“

En svo leið hin nána framtíð. Í nýársávarpi sínu 1949 kvartaði Sveinn Björnsson forseti undan seinaganginum og hvatti þingheim og aðra til dáða:

„Og nú, hálfu fimmta ári eftir stofnun lýðveldisins, rofar ekki enn fyrir þeirri nýju stjórnarskrá, sem vér þurftum að fá sem fyrst og almennur áhugi var um hjá þjóðinni og stjórnmálaleiðtogunum, að sett yrði sem fyrst. Í því efni búum vér því ennþá við bætta flík, sem sniðin var upprunalega fyrir annað land, með öðrum viðhorfum, fyrir heilli öld. … Vonandi dregst eigi lengi úr þessu að setja nýja stjórnarskrá.“

Enn leið og beið og það er önnur saga hvers vegna bráðabirgðastjórnarskráin stóð nær óbreytt í hálfa öld. Undir lok síðustu aldar var loks breytt ákvæðum um störf Alþingis og mannréttindakafla bætt við hana. Fyrir utan kjördæmaskipan hefur annað staðið nær óbreytt, þrátt fyrir hverja stjórnarskrárnefndina á fætur annarri og áform í stjórnarsáttmálum öðru hvoru.

Hvað hefur valdið þessari tregðu? Þegar á reyndi taldi fólk kannski, innan þings sem utan, að litlu þyrfti í raun að breyta. Kannski vildi það engu breyta, og kannski átti það einkum við um valdhafana. Loks hefur óskin um einingu kannski komið í veg fyrir gagngerða endurskoðun.

Þessi álitamál tekst ég ekki á við hér. Ég hef einfaldlega rakið þær þrjósku staðreyndir að þegar lýðveldisstjórnarskráin var samin, þegar hún var samþykkt og fyrstu árin á eftir ríkti vissulega einhugur um hana – en sá einhugur snerist um að hún væri til bráðabirgða.“

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 17.10.2012 - 11:23 - FB ummæli ()

Fúsk? Æ, ég held ekki

„Fúsk“ segir Bjarni Benediktsson að tillögur stjórnlagaráðs séu.

Þetta orðaval fer svolítið í taugarnar á mér.

Í áratugi hafa menn ætlað sér að skrifa nýja stjórnarskrá. Þó nokkrar atrennur hafa verið gerðar og langar skýrslur skrifaðar. Að því verki hafa unnið stjórnmálamenn, lögfræðingar og aðrir sérfræðingar. Nú síðast var kallaður saman Þjóðfundur til að setja fram þau grunngildi sem ný stjórnarskrá ætti að vera byggð á.

Sumir andstæðingar tillagna stjórnlagaráðs hafa upp á síðkastið séð sér hag í því að tala niður þennan Þjóðfund. Það finnst mér ansi ómerkilegt af þeim. Þar sat þverskurður þjóðarinnar (þar á meðal rétt hlutfall sjálfstæðismanna) og lýsti skoðunum sínum á því hvernig samfélagið ætti að vera, og það er ekkert annað en yfirstéttarhroki að ætla sér nú að gera lítið úr þessum fundi.

Þá tók afar vönduð stjórnlaganefnd við keflinu og setti fram álitamál og hugmyndir á mjög skýran hátt, og lagði frábæra skýrslu sína í hendurnar á stjórnlagaráði.

Á þessum grunni kom síðan saman 25 manna stjórnlagaráð, fólk úr ýmsum áttum og með ótrúlega ólíkan bakgrunn, en til dæmis allnokkrir lögfræðingar og stjórnmálafræðingar, og vann sleitulaust í fjóra mánuði með frábæru starfsfólki að því búa úr garði tillögur að nýrri stjórnarskrá.

Fjórir mánuðir er til dæmis jafn langur tími og það tók að smíða bandarísku stjórnarskrána og þar var þó unnið algjörlega frá grunni.

Það er ekkert við því að segja þótt Bjarni Benediktsson sé ekki sáttur við hvert einasta atriði sem fram kemur í tillögum stjórnlagaráðs. Ég er sjálfur ekkert 100 prósent ánægður við hvert einasta atriði þar. Ég er hins vegar sannfærður um að þegar á heildina er litið sé þvílík framför að þessum tillögum að það væri fásinna að hafna þeim.

Ef Bjarni er annarrar skoðunar, þá það. Hann hefur fulla heimild til þess. Og segi þjóðin „já“ við megin tillögu stjórnlagaráðs, þá hefur hann tækifæri til þess á Alþingi að reyna að sýna fram á að gallarnir séu svo miklir að gera verði breytingar. Hann hefur líka fulla heimild til þess.

En mikið væri gott ef hann gæti stillt sig um að kalla þetta verk „fúsk“.

Þegar við 25-menningarnir í stjórnlagaráði skrifuðum nöfnin okkar undir tillögur ráðsins, þá var það á grundvelli allrar þeirrar vinnu okkar og annarra sem ég rakti hér áðan.

Og ég skal trúa Bjarna fyrir því að ég að minnsta kosti var svolítið stoltur þegar ég skrifaði þarna nafnið mitt. Ég held að þau félagar mínir hafi verið það líka.

Við skrifuðum undir að mjög vel athugðu máli, eftir langt og vel ígrundað starf, og við vissum nákvæmlega hvað við vorum að gera.

Þetta var sem sé ekki „fúsk“.

„Fúsk“ myndi það aftur á móti heita ef menn pára nafnið sitt undir eitthvað án þess að hafa mikla hugmynd um hvað þar stendur, eða hvað það felur í sér.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 16.10.2012 - 11:18 - FB ummæli ()

Sviss og landsliðið

Væntanlega verður troðfullt á Laugardalsvelli í kvöld þegar íslenska karlalandsliðið í fótbolta mætir Sviss. Enda verður að segjast að Ísland hefur líklega aldrei verið í betri stöðu til að gera rósir í undankeppni fyrir stórmót.

Skemmtilegast við íslenska liðið um þessar mundir er að það spilar miklu liprari fótbolta en oftast áður. Sú þróun hófst reyndar undir stjórn Ólafs Jóhannessonar, en árangurinn í stigum talið varð minni en efni stóðu til. Nú er leikurinn farinn að skila stigum líka, og það er auðvitað miklu skemmtilegra!

Andstæðingarnir eru hins vegar öngvir aukvisar, eins og þar stendur. Kannski gera menn sér almennt ekki grein fyrir því hve Svisslendingar eru sterkir um þessar mundir. Þeir eru í 11. sæti yfir Evrópuþjóðir á styrkleikalista alþjóðafótboltasambandsins FIFA – fyrir ofan Dani, Svía, Tékka, Norðmenn, Íra, Bosníumenn, Belga, Serba, Tyrki, Slóvena, Úkraínumenn.

Og spölkorn fyrir ofan okkur, þó við höfum vissulega rokið upp listann síðustu mánuði.

En það er þó full ástæða til að búast við jöfnum og skemmtilegum leik.

Að lokum  hlýt ég að taka fram að mér fannst KSÍ og Aron Einar Gunnarsson bregðast rétt við málinu sem upp kom út í Albaníu. Síðustu daga hafa heyrst fáeinar raddir sem segja að KSÍ og fjölmiðlar hafi brugðist alltof harkalega við.

Það var alls ekki raunin. Þetta mál hefði getað dregið langan dilk á eftir sér og það var rétt af Geir Þorsteinssyni formanni KSÍ að reyna ekki að draga neina fjöður yfir að þetta var alvarlegur afleikur leikmannsins.

Á sama hátt er Aron Einar maður að meiri fyrir afsökunarbeiðni sína – og alveg sérstaklega að hann hefur ekki reynt að afsaka sig á nokkurn hátt, eða færa fram einhverjar vandræðalegar skýringar á mistökum sínum.

Heldur sagði bara: „Afsakið. Ég gerði mistök. Ég ætla að læra af þessu og aldrei gera það aftur.“ Punktur.

Afsökunarbeiðnir á Íslandi eru fágætar, og yfirleitt fylgir þeim fyrirvari – „já, en ég meinti sko … þetta var sko í rauninni því að kenna að …“

Aron Einar sleppti þessu alveg, og gott hjá honum.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 13.10.2012 - 11:08 - FB ummæli ()

Burt með launhelgarnar

Valdastéttir hafa alltaf gripið til þess ráðs til að halda völdum sínum að sveipa sig launhelgum.

Þær hafa skapað í kringum sig það andrúmsloft og þær hefðir að enginn geti í rauninni skilið samfélagið og umheiminn til fulls, nema sá sem er innvígður í þessar launhelgar.

Og hvað þá fengið að ráða einhverju!

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um launhelgar trúarbragðanna. Þar taka launhelgamenn sér það vald að túlka orð sjálfs almáttugs guðs – og vei þeim sem bukkar sig ekki og beygir fyrir duttlungum þeirra!

Á miðöldum varð konungsvaldið að launhelgum, og lénsveldið í öllum sínum myndum. Enginn gat verið fær um að stjórna nema „rétta blóðið“ rynni í æðum hans.

Veldi karla yfir konum var líka sveipað endalausum launhelgum. Þeir áttu að hafa yfirnáttúrulega hæfileika til að deila og drottna yfir fákunnandi kvensniptum.

Við höldum kannski að á okkar dögum séu launhelgarnar á undanhaldi, og enginn láti sér lengur detta í hug að einhver einn valdahópur sé nánast til þess fæddur að ríkja yfir samfélaginu – í krafti ætternis, þekkingar, sérstakra tengsla eða innsæis.

En það er nú eitthvað annað. Launhelgarnar eru á fullu í samfélaginu að telja okkur vesælum trú um að okkur sé hollast að lúta föðurlegri leiðsögn þeirra.

Stjórnmálaflokkarnir eru slíkar launhelgar þegar verst lætur. Muniði þegar maður nokkur þurfti að sýna öðrum manni fram á að sá þriðji hefði nægilega góð sambönd til að koma að gagni í tilteknu máli? Það var varla tilviljun að hann sagði þá að þriðji maðurinn væri „innvígður“ – rétt eins og sagt er um launhelgar.

Á árum „góðærisins“ urðu bissnissmennirnir okkar og útrásarvíkingarnir að slíkum launhelgum. Þegar við hristum hausinn yfir flugi þeirra nálægt sólinni, þá var okkur sagt að við gætum aldrei skilið þessa snilld. Við skyldum láta okkur nægja gullið sem sáldraðist niður til okkar frá nestinu þeirra í háloftunum.

Og vera þakklát.

Nú eru enn einar launhelgarnar uppi.

Nú er okkur sagt að við getum ekki sjálf sett okkur stjórnarskrá af því við erum ekki lögfræðingar og fræðimenn.

Launhelgar lögfræðinnar hafa tekið við af launhelgum kaupsýslumannanna.

Og enn sem fyrr er okkur tjáð að því miður – þá munum við bara aldrei skilja þetta – og okkur sé hollast að láta hina „innvígðu“ um að stjórna þessu.

En fyrirgefiði – ég neita því.

Ég neita því að við getum ekki sett okkur nýja stjórnarskrá sem hefur í för með sér bætta stjórnsýslu, auðlindir í þjóðareigu, aukna ábyrgð stjórnmálamanna, stóraukið gegnsæi í samfélaginu, miklu betri og skýrari reglur um mannréttindi, stórlega aukin áhrif almennings á lagasetningu og ákvarðanir Alþingis.

Ég neita því að stjórnlagaráð 25 einstaklinga af öllu tagi geti ekki sett okkur sanngjarnar og réttlátar og hógværar reglur um gangverk samfélagsins – heldur ættum við kurteislega að beygja okkur undir launhelgar lögfræðinganna og stjórnmálamannanna og hinna góðviljuðu fræðimanna sem einir hafi vit og þekkingu, tengsl og innsæi til að setja okkur reglur.

Ég neita því – og ég vona að sem flestir Íslendingar taki í sama streng og fari á laugardaginn eftir viku og feyki burt svolitlu af launhelgunum sem alltof lengi hafa reist múra um samfélagið.

Milli okkar og hinna innmúruðu og hinna innvígðu sem öllu vilja ráða.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 12.10.2012 - 11:35 - FB ummæli ()

Víst eigum við að gæta bróður okkar

Það er margt á seyði og að mörgu að hyggja.

Við þurfum að undirbúa okkur fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna eftir viku, þar sem fólk getur greitt því atkvæði að stjórnarskrárfrumvarp stjórnlagaráðs verði grundvöllur að nýrri stjórnarskrá Íslands – og mun þá verða til verulegra bóta fyrir íslenskt samfélag.

Við þurfum líka að fylgjast með nýjustu skandölunum, og þurfum að hafa okkur öll við.

Í þessari viku er það Orkuveitan, í síðustu viku voru það Ríkisendurskoðun og ótrúlegur framúrakstur við kaup á bókhaldskerfi ríkisins.

Það er ekki eitt, það er allt.

(Meðal annars þess vegna þurfum við nýja stjórnarskrá. Í frumvarpinu er kveðið á um miklum mun opnari stjórnsýslu, sem mun áreiðanlega eiga sinn þátt í að hneykslismálin úldni síður bak við lokaðar dyr.)

En þótt það sé sem sagt mörgum stórum málum að sinna, þá skulum við ekki gleyma vorum minnstu bræðrum og systrum.

Í Kastljósi fyrr í vikunni var fjallað um þá ósvinnu að geðsjúkir afbrotamenn séu vistaðir í fangelsi hér á landi – þótt öllum megi vera ljóst að svo eigi alls ekki að vera.

Hérna er seinni hlutinn af umfjöllun Kastljóss.

Það mun ekki vera um nema innan við tug einstaklinga að ræða í þessu tilfelli.

Þeim mun frekar eigum við að einhenda okkur í að koma þessum málum svo að við getum horfst hnarreist í augu við heiminn og staðhæft að já, víst eigum við að gæta bróður okkar.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!