Föstudagur 26.8.2011 - 07:32 - FB ummæli ()

Bónus?

Það er skiljanlegt og í rauninni sjálfsagt að menn vilji fá umsamin laun.

Og fari fyrir dómstóla ef misbrestur verður á.

Ég mundi vafalaust gera það líka.

En að leggja gífurlega áherslu á að fá bónus fyrir vel unnin störf sín hjá Kaupþingi rétt í blálokin frá því fyrirtæki … það mundi ég líklega ekki gera.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 23.8.2011 - 07:47 - FB ummæli ()

Allt upp á nýtt

Gott hjá Guðmundi Steingrímssyni að ganga úr Framsóknarflokknum og stofna nýjan flokk.

Fólk sem ekki hefur fundið hugsjónum sínum eða skoðunum farveg innan hins aldraða íslenska flokkakerfis á hiklaust að finna pólitík sinni nýjan farveg.

Það lýsir hvorki sviksemi né vingulshætti.

Allir íslensku flokkarnir ættu að klofna þvers og kruss. Þeir eru myndaðir um hugsjónir 20. aldar en eru nú margir orðnir að trénuðum valdabandalögum.

Endilega hugsa hlutina upp á nýtt!

Guðmundur kom líka prýðilega fyrir í þeim hluta Kastljóssviðtalsins í gærkvöldi sem ég sá.

Einkum fannst mér gaman að sjá hve upplitsdjarfur Guðmundur var þegar hann lýsti þeirri skoðun sinni að auðvitað eigi að fylgja aðildarumsókn að ESB eftir til enda – svo fólk geti síðan greitt atkvæði um þetta mikla hagsmunamál þegar þar að kemur.

Stuðningsmenn aðildarumsóknar hafa látið andstæðingana buga sig svolítið undanfarið, svo það hefur næstum orðið feimnismál að vilja að íslenskir kjósendur fái að vita í raun hvað stendur til boða innan ESB.

Því við fáum ekki að vita það í raun fyrr en aðildarviðræðum er lokið.

Það dugar ekki að lesa Morgunblaðið eða íslenskt blogg.

Auðvitað eiga stjórnmálamenn að kappkosta að Íslendingar nái sem bestum samningum, og þjóðin ákveði svo hvort sá samningur er henni að skapi.

Það var gott hjá Guðmundi að halda þessu fram af festu.

Vonandi getum við bráðlega lagt á hilluna fráleitar hugmyndir um að draga aðildarumsóknina til baka, leyft samninganefndinni að keppast við að ná sem bestum samningi – og farið svo að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem vægi allra Íslendinga verður jafnt.

En umfram allt – þá er bara gott hjá Guðmundi að brjóta sér leið út úr íslensku flokkakerfi.

Þar þarf að sortéra allt upp á nýtt.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 22.8.2011 - 09:33 - FB ummæli ()

Samkeppniseftirlit á villigötum?

Ég var að lesa um daginn grein sem Guðmundur Andri Thorsson birti í Fréttablaðinu um málarekstur samkeppnisyfirvalda gegn Forlaginu, en Samkeppniseftirlitið sektaði bókaútgáfufyrirtækið um 25 milljónir króna fyrir meint brot á samkeppnislögum.

Þessi grein kom mér á óvart því ég hafði satt að segja talið að þessi málarekstur Samkeppniseftirlitsins hefði lognast út af. En svo virðist altso ekki vera.

Forlagið hefur innan sinna vébanda JPV, Mál og menningu, Vöku Helgafell og einhver fleiri undirfyrirtæki í bókaútgáfu. (Ekki spyrja mig af hverju öll þessi undirfyrirtæki eru ekki sameinuð í eitt.)

Samkeppniseftirlitið sektaði Forlagið fyrir að gefa út svokölluð „leiðbeinandi verð“ til smásöluaðila í bóksölu og auk þess fyrir að hafa „ekki á óyggjandi hátt sýnt fram á að afslættir til endursöluaðila hafi byggt á útreikningum um kostnaðarhagræði fyrir útgáfuna“. Ekki veit ég hvað þetta síðara atriði þýðir.

Raunverulegur grundvöllur fyrir þeirri sekt sem Samkeppniseftirlitið útdeildi er hins vegar sú skoðun þess að Forlagið sé mjög markaðsráðandi aðili á íslenskum bókamarkaði, og hafi brotið gegn samkomulagi sem gert var þegar eftirlitið heimilaði árið 2008 með semingi sameiningu þeirra fyrirtækja sem nú mynda Forlagið.

Nú er Forlagið vissulega stórveldi á íslenskum bókamarkaði. Það mun þó hvergi nærri vera svo markaðsráðandi sem Samkeppniseftirlitið vill vera láta – og bókaútgáfa á Íslandi er reyndar kannski það svið í íslenskum fyrirtækjarekstri þar sem virk og hörð samkeppni er hvað mest.

Það er lítill vandi fyrir nýja aðila að koma inn á markaðinn. Auðvitað þurfa þeir að hafa upp á að bjóða bækur sem fólk vill lesa, en markaðurinn sjálfur stendur öllum opinn og fátt um erfiðar hindranir.

Samkeppniseftirlitið hefur afar mikilvægu hlutverki að gegna, og vonandi nær það að finna fjölina sína, eins og sagt er á íþróttamáli. Það vafðist lengi fyrir því – og gerir að sumu leyti enn.

Af hverju gengur til dæmis ekkert að koma á eðlilegri samkeppni í bensínsölubransanum?

Hvaða grín er það að olíufyrirtækin þykist vera í ógurlegri samkeppni þar sem veittir eru „afslættir“ upp á 2-3 krónur af bensínlítranum þegar best lætur?

Það gera 1-2 prósent!

Í bókaútgáfu viðgengst hins vegar raunveruleg samkeppni, og á því sviði eru til dæmis veittir alvöru afslættir, jafnvel upp á tugi prósenta, lesendum til hagsbóta.

Því finnst mér eiginlega að Samkeppniseftirlitið ætti að hætta þessum málarekstri gegn Forlaginu og leyfa fyrirtækinu að setja þessar 25 milljónir í að gefa út fáeinar góðar bækur til viðbótar. Því þótt forráðamenn Forlagsins séu auðvitað ekki heilagir menn, þá mega þeir eiga að þar á bæ virðist mestallur peningur sem inn kemur fara í að gefa út fleiri og betri bækur.

Ég vil frekar fleiri bækur, en að Samkeppniseftirlitið bregði fæti fyrir fyrirtæki á markaði þar sem samkeppni ríkir í raun og veru.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 21.8.2011 - 19:29 - FB ummæli ()

Allt eins?

Af því það hefur verið vitnað til bloggfærslu minnar frá í morgun um menningarnótt, þá langar mig bara að ítreka að í heild fannst mér menningarnótt frábærlega vel heppnuð.

Og skemmtilegri en oftast áður.

Og tónleikarnir á Arnarhóli voru í sjálfu sér líka til fyrirmyndar.

Það sem ég hef hins vegar árum saman sett spurningarmerki við – og það af stærri gerðinni – er hvort menningarnótt þurfi endilega að ljúka með svona rosalega miklum rokktónleikum á Arnarhóli.

Það er nokkuð til í því sem Jónas Kristjánsson skrifar hér að hátíðahaldarar í Reykjavík virðast smátt og smátt að gera allar okkar helstu hátíðir –  17. júní, Gay Pride og menningarnótt – að upptakti fyrir nákvæmlega sömu rokktónleikana (og síðan sama fylleríið) á Arnarhóli.

Gay Pride tónleikarnir eru að vísu annars bara að degi til, og þeim fylgir ekki fylleríið; það skal tekið vandlega fram.

En breytum þessari tilhneigingu til einsleitni. Leyfum hverri hátíð að þróast í sína átt.

Það er svo leiðinlegt þegar allt er eins.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 21.8.2011 - 08:47 - FB ummæli ()

Menningarnótt eða útihátíð

Ég fór vissulega ekki um allan bæ í gær, en mín tilfinning er sú að þessi menningarnótt hafi verið ein sú best heppnaða til þessa.

Hið frábæra veður átti auðvitað sinn þátt í því, en þegar ég fór um bæinn í gær var líka afar notalegt og skemmtilegt andrúmsloft yfir öllu saman.

Mér sýnist að tekist hafi að snúa við þeirri slæmu þróun sem var í uppsiglingu fyrir fáeinum árum – að menningarnótt yrði eins konar eftiröpun af Listahátíð – það er að segja að mest áberandi væru fremur fáir „stórir“ viðburðir, oftar en ekki á snærum stórra stofnana eða fyrirtækja.

Sem íbúi í miðbæ Reykjavíkur hafði ég að minnsta kosti á tilfinningunni fyrir nokkrum misserum eða árum að þetta væri að þróast í þá átt.

En hafi sú tilfinning mín verið rétt, þá hefur þeirri þróun alla vega verið snúið við.

Og það er vel – og takk fyrir það.

Menningarnótt á jú að vera samsafn af litlum viðburðum út um allt, helst þannig að maður viti aldrei alveg á hverju er von.

Og maður skynjaði það í mannfjöldanum í gær – einmitt þetta var fólk komið til að upplifa.

Það var einhver tilgangur í loftinu.

Ólíkt 17. júní, en eins og ég þreytist ekki á að fjalla um, þá finnst mér hátíðahöldin á 17. júní orðin gjörsamlega stefnu- og tilgangslaus.

Fólk safnast niður í bæ til að kaupa rándýrar hálfkaldar pulsur úr sölutjöldum og þessar andstyggilegu gasblöðrur í líki amerískra og japanskra teiknimyndafígúra.

Af því maður er manns gaman og af því þetta er hefð.

En það er enginn tilgangur með 17. júní lengur, maður finnur svo glöggt stefnuleysið í mannfjöldanum. Enginn veit almennilega til hvers hann er kominn.

Ég hef margoft mælt fyrir því að hátíðahöldin í Reykjavík á þjóðhátíðardaginn verði látin hafa íslenska sögu að þema, líkt og menningin er þema menningarnætur – kannski verður það einhvern tíma að veruleika.

(En fyrst ég minntist á gasblöðrurnar – þá tók 10/11 búðin upp á þeim skratta að fara að selja þessar ömurlegu gasblöðrur sínar líka í gær, rétt eins og á 17. júní. Í guðs bænum hætta því. Það er nóg að japanskir pokémonar hafi lagt undir sig einn íslenskan hátíðisdag!)

En sem sagt – þetta var snotur og fallegur og mjög skemmtilegur dagur.

Svo tók auðvitað við útihátíðin um kvöldið, en hún er að verða býsna klassísk.

Ég hef mörgum sinnum skrifað um það áður en mér finnst „stórtónleikar Rásar 2“ vera farnir að spila alltof mikla rullu á menningarnótt.

Þeir leggjast yfir allt kvöldið með sínum alltumlykjandi hávaða.

Á endanum fer manni að líða eins og öll hátíðin með sínum skemmtilegu litlu atriðum hafi bara verið upptaktur að „stórtónleikum Rásar 2“.

Það er eins og sá hugsunarháttur sé orðinn rígnegldur inn í fólk að svona skemmtun verði að enda með einhverjum ógnarlegum dúndrandi klímax!

En ef hverju í ósköpunum þarf að enda menningarnótt svona?

Af hverju má hún ekki bara líða út af í lágróma gleði og menningu?

Í staðinn fyrir þetta lokapöns – og svo hefst unglingafylleríið fyrir alvöru!

Ég veit að Óli Palli vinur minn hefur fjarska gaman af að skipuleggja tónleikana, en getur hann ekki bara haldið tónleikana sína á einhverju öðru kvöldi?

Og best að taka fram að ég er svo sannarlega ekki að kvarta undan framlagi Bubba Morthens í gærkvöldi – ég er ódrepandi aðdáandi Bubba og hann skilaði sínu mjög vel í gærkvöldi.

Það er bara konseptið – á akkúrat þessu kvöldi – sem ég efast um.

Hefur einhver staldrað við og spurt hvort þessi endapunktur á menningarnótt sé endilega æskilegur?

Jájá, það mætir massi af fólki, en er það endilega eftirsóknarvert?

Hvað með það þó aðeins færri kæmu í bæinn – en væru þá komnir til að njóta listviðburða og raunverulegrar samveru með fólki en ekki bara til að hlusta á glymjandi rokk – jafnvel þó það sé af bestu gerð?

Alveg eins og á 17. júní?

Má ekki menningarnótt vera öðruvísi?

Af hverju þarf hún að breytast í útihátíð?

– – – – –

Ég birti þennan pistil á Facebook og þar svaraði Óli Palli á þessa leið:

„Skemmtilegur pistill Illugi vinur minn!
Músík er menning – hún er vinsælasta listformið og stærsta og það eina sem við Íslendingar erum jú þekktir fyrir. Menningarnótt er eina tækifærið sem við höfum til að safnast saman – mikill fjöldi af fólki og upplifa SAMAN músík! Tónleikar eru ekki það sama og tónleikar – ég hef verið á þeim nokkrum og það sem er skemmtilegt við þessa tónleika er mannfjöldinn. Með mannfjöldanum skapast stemmning sem fæst ekki á minni tónleikum. Ég sá ekki tónleikana – var baksviðs allan tímann en mikið vona ég innilega að fólk hafi almennt haft gaman af þessu. Menningarnótt er frábær fyrir allt það sem hún – alla litlu sjálfsprottnu hlutina og uppákomurnar um alla borg allan daginn og svo eru tónleikarnir líka skemmtilegir – amk. er ekki hægt að skilja málið öðruvísi þegar maður skoðar fjölda þeirra sem mætir. Mín skoðun er þessi: Leyfum fólkinu að velja hvernig Menningarnóttin er – og það fór ekkert á milli mála hvað það valdi í gær. Fólki finnst gaman að vera á stórum tónleikum og fólki finnst gaman að sjá flugeldasýningu. Gleðilegt sumar!“

Ég svaraði þessu svo svona:

„Já þakka fyrir Óli minn Palli, og sömuleiðis! Ég hef ekkert á móti stórum tónleikum. Þetta er bara spurning um stað og stund. Á endilega að gera allt í einu? Segjum að það sé Beckett-hátíð í miðbænum – hans hljóðlátu leikrit sett upp utandyra fyrir þá sem vilja. Svo kemur einhver og setur upp bílabíó við hliðina þar sem nýjasta Hollywood-myndin er sýnd á fullu blasti. Væntanlega munu mun fleiri mæta en á Beckett. Eigum við þá að segja að þetta sé allt í fína og það sé bara verið að „leyfa fólkinu að velja“?“

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 20.8.2011 - 09:25 - FB ummæli ()

Harry Klein

Þetta er skemmtileg frétt.

Hvernig væri að sjónvarpið byrjaði nú að endursýna Derrick-þættina?

Þeir gengu á sínum tíma í 24 ár. Ef endursýningar byrja núna gætu þær staðið allt til 2035.

Annars er Harry Klein (persónan) merkilegt fyrirbæri.

Hann hóf feril sinn sem aðstoðarmaður lögregluforingjans Herberts Kellers í sjónvarpsþáttunum Der Kommissar sem byrjuðu í þýska sjónvarpinu 1969.

Fritz Wepper lék Harry Klein og gerði aðstoðarmanninn að svo eftirminnilegri persónu (!) að þegar nýr löggusería hóf göngu sína í þýska sjónvarpinu 1974, um lögregluforingjann Derrick, þá þótti Þjóðverjum ómögulegt annað en hann fengi Harry Klein sem aðstoðarmann.

Persónan var því flutt milli sjónvarpssería, og Fritz Wepper lék síðan Harry Klein í þáttunum um Derrick í 24 ár, eða allt þar til Horst Tappert (sem lék Derrick) nennti þessu ekki lengur 1998 og þáttagerðinni var hætt.

En þeir sem stóðu að Der Kommissar dóu ekki ráðalausir þó persónan Harry Klein hefði verið flutt í annan sjónvarpsþátt.

Þeir bjuggu til nýja persónu sem gerð var að aðstoðarmanni Herberts Keller í stað Harry Klein.

Sú persóna hét Erwin Klein, yngri bróðir Harry Klein.

Og til að leika Erwin Klein var fenginn leikari að nafni Elmar Wepper, yngri bróðir Fritz Wepper.

Þeir eru ekkert að líta langt yfir skammt í þýska sjónvarpinu.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 19.8.2011 - 18:12 - FB ummæli ()

Smekklegt?

Jón Trausti Reynisson ritstjóri DV skrifar fínan leiðara um hraðakstur ungs fólks, sem oft hefur endað með skelfingu.

Og því miður af ærnu tilefni, þar sem nýlega dó í miðbæ Reykjavíkur ungur piltur sem var farþegi í einum af þessum „kappakstursbílum“.

Það er sorglegra en tárum tekur þegar sá mórall skapast hjá unga fólkinu að það sé allt í lagi að leggja líf sitt í hættu fyrir ódýrt ökukikk á þeim drápsvélum sem bílar geta verið.

Vinir unga mannsins sem dó hafa nú uppi viðleitni um að reyna að breyta hugarfarinu sem viðgengst.

Vonandi er að það takist.

En á nákvæmlega þeim tíma kýs Pressan að birta þetta hér með mikilli velþóknun.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 18.8.2011 - 15:05 - FB ummæli ()

Skýringar stjórnlagaráðs

Stjórnlagaráð, sem ég varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að sitja í ásamt góðu fólki, lauk störfum um mánaðamótin þegar ráðið samþykkti einróma frumvarp til nýrrar stjórnarskrár.

Frumvarpið var birt þann sama dag og hafði svosem verið í vinnslu fyrir almenningssjónum allan tímann.

Þær þrjár vikur sem liðnar eru hafa starfsmenn ráðsins unnið baki brotnu við að ganga frá greinargerðum og skýringum sem fylgja hverju ákvæði stjórnarskrárfrumvarpsins.

Greinargerðirnar eru skrifaðar af okkur stjórnlagaráðsfulltrúunum, en starfsmenn ráðsins hafa lyft grettistaki við að laga þær til útgáfu, yfirfara þær og lesa yfir.

Og hafi hjartans þökk fyrir sitt góða starf.

Nú eru greinargerðirnar komnar á vef stjórnlagaráðs, en eftir þeim hafa ýmsir beðið með óþreyju.

Sjá hérna.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 17.8.2011 - 23:30 - FB ummæli ()

Nýjustu leikföngin

BBC segir frá því á bissniss-síðu sinni að ameríska Locheed-fyrirtækið hafi verið að sýna nýju orrustuþotuna sína, F-22 Raptor, á flugsýningunni í Farnborough á Englandi.

Það er líka bissniss þegar Rússar svara með því að sýna nýjasta djásnið sitt, Sukhoi T-50, á flugsýningunni í Moskvu að viðstöddum Pútin.

Þetta eru vafalaust svakalega flottar þotur og hægt að gera margt stórhættulegt með þeim.

En ansi væri hægt að gefa mörgum börnum að borða ef einhver áttaði sig á því hvað það er miklu lífvænlegri bissniss til lengdar að hjálpa fólki að lifa en að drepa það.

Svei þessum hernaðartólum.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 17.8.2011 - 16:13 - FB ummæli ()

Þeir sem lítils njóta trausts, eiga þeir endilega að véla um stjórnarskrána?

Eitt það sorglegasta við árin eftir hrunið er að stjórnmálamönnum hefur gersamlega mistekist að vinna traust þjóðarinnar á ný.

Það er eiginlega óttalegt hve illa þeim hefur tekist til á því sviði.

Sjá til dæmis hér.

Fyrir okkur í stjórnlagaráði er það frekar óskemmtileg tilhugsun að margir af hinum lítt traustsverðu þingmönnum telja eindregið að þeim beri einhver réttur og skylda til að krukka í stjórnarskrárfrumvarpið okkar áður en þjóðin sjálf fær að segja álit sitt á því.

Ég vona að fólk hjálpi okkur að koma stjórnarskrárfrumvarpinu áleiðis til þjóðarinnar.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!