Föstudagur 17.6.2011 - 14:40 - FB ummæli ()

Það er til heiti yfir það

Stundum er lífið flókið, stundum alveg óskaplega einfalt.

Stundum er erfitt að segja hvernig maður myndi bregðast við í tilteknum aðstæðum, en stundum liggur það í augum uppi.

Ég á til dæmis oftast ansi erfitt með að setja mig í spor helstu hrunverja landsins og hvernig þeir hugsa nú sinn gang, hver í sínu horn.

En í tilfelli Halldórs J. Kristjánssonar og hundrað milljónanna sem hann fékk frá Landsbankanum tíu dögum fyrir hrun, þá get ég fullyrt alveg afdráttarlaust að ég myndi skila þeim peningum.

Það er ekki af því ég þykist vera neitt betri en einhverjir aðrir, eða hafa meiri og þroskaðri sómatilfinningu.

Ég er ekki einu sinni viss um að sómatilfinningin réði endilega úrslitum um að ég myndi skila þessum 100 milljónum.

Og kannski ekki heiðarleiki heldur. Ég er alveg örugglega ekkert heiðarlegri en gengur og gerist.

Heldur væri það sektarkenndin sem vægi þyngst.

Ég myndi ekki ráða við hana.

Sektarkenndin yfir að halda peningum, sem maður á svo augljóslega ekki skilið.

Sektarkennd yfir að taka 100 milljónir frá banka sem maður hefur komið á hausinn og samfélagi sem maður hefur átt þátt í að koma á kaldan klaka.

Kannski er Halldór J. Kristjánsson ekkert endilega sammála því að hann hafi komið bankanum á hausinn, eða að hann og Landsbankinn hafi komið Íslandi á kaldan klaka.

Hann getur haft sína skoðun á því, en staðreyndir tala sínu máli.

Bankinn óx brjálæðislega hratt meðan hann var bankastjóri.

Hann hindraði ekki útrásarvíkinga í að fara með ryksugur sínar um bankann.

Og hann átti fullan þátt í vexti og viðgangi hinnar „tæru snilldar“ Sigurjóns kollega hans – þá er ég að tala um Icesave-reikningana.

Hann getur fjasað fram í rauðan dauðann um að hann beri ekki ábyrgð á neinu af þessu. Þeir geta það, þessir.

Við hans aðstæður myndi ég samt ekki ráða við sektarkenndina.

Andspænis minni hrjáðu þjóð.

Og því myndi ég skila þessum peningum.

En Halldór hefur kannski enga sektarkennd.

Þá það. Það hafa ekkert allir. Það er meira að segja til heiti yfir það þegar menn hafa engan vott af sektarkennd.

En svo mikið er alla vega ljóst að Halldór hefur þá ekki sómatilfinningu heldur.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 17.6.2011 - 09:48 - FB ummæli ()

Hinir notuðu kuflar hrunverjanna

Ég er ekki í þjóðkirkjunni.

Ég tel mig samt hafa fullt leyfi til að hafa skoðun á henni, og hvernig þar er á málum haldið.

Bæði er kirkjan á snærum ríkisins, og svo vill hún hafa kennivald yfir samfélaginu öllu – og þá fylgir því líka að hver sem er má og á að hafa skoðun á málefnum hennar, og sér í lagi á þeirri siðferðilegu forystu sem hún vill veita í samfélaginu.

Eftir hrunið – þegar við horfðum í forundran upp á stjórnmálamenn, bissnissmenn og bankamenn stökkva fram og hrópa: „Ég gerði ekkert rangt og ef ég gerði eitthvað rangt þá var það bara algjört smotterí og hverju mundi það breyta þó ég segði af mér og við eigum ekki að einblína á hið liðna heldur reyna að læra af mistökunum og byggja upp til framtíðar og ég er einmitt maðurinn til þess og auk þess gerði ég náttúrlega eiginlega ekkert af mér …“

Þegar við sem sagt horfðum upp á þetta, þá átti ég ekki von á að sama viðhorfið yrði talið jafn gott og gilt aðeins þrem árum seinna, og það hjá stofnun sem telur sig hafa sérstöku siðferðilegu hlutverki að gegna.

Og flestir þjónar þeirrar stofnunar þegðu þunnu hljóði.

Ekki alveg allir samt.

Sigríður Guðmarsdóttir hefur hvatt biskup Íslands til að segja af sér.

Og nú Örn Bárður Jónsson í þessari skeleggu grein.

Frumkvæði þeirra, og fáeinna annarra kirkjunnar þjóna, er mikilvægt og gott.

En hlutskipti hinna, sem nú sveipa sig notuðum kuflum hinna ábyrgðarlausu hrunverja, það er þeim mun dapurlegra.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 15.6.2011 - 17:00 - FB ummæli ()

Hvorki fugl né fiskur

Nú eru þau tvö, biskupsmálin, sem kirkjan þarf að takast á við.

Hið nýrra snýst um Karl Sigurbjörnsson og ótrúleg viðbrögð hans þegar Guðrún Ebba steig fram.

Hvernig kona (formaður Prestafélagsins) getur komist að þeirri niðurstöðu að þau viðbrögð hafi verið svona meira og minna í lagi, það veit ég ekki og langar ekki að vita.

En hið fyrra biskupsmál snerist um Sigrúnu Pálínu og fleiri konur sem komu fram árið 1996 og sökuðu Ólaf Skúlason um kynferðislega áreitni og ofbeldi.

Kirkjan hrökk í vörn fyrir biskup sinn, og kirkjuráð sendi frá sér yfirlýsingu þar sem það kallaði vitnisburð kvennanna „alvarlega atlögu að æru hans og heiðri kirkjunnar þjóna“ og vottaði „biskupi Íslands og fjölskyldu hans dýpstu samúð og kærleika“, auk þess sem því var sérstaklega lýst yfir að honum væri treyst til að leiða málið til lykta „kirkju og þjóð til heilla og blessunar“!!!!

Ég hef orð séra Geir Waage fyrir því í skýrslu rannsóknarnefndar kirkjunnar að þetta hafi Karl Sigurbjörnsson skrifað, og það vantar ekki að þarna er mjög skýrt tekið til orða.

En síðan virðist Karl hafa glatað þeim hæfileika að tala skýrt.

Hann sér að minnsta kosti ekki ástæðu til að gera það þegar málið snýst um ávirðingar biskupa, bæði Ólafs Skúlasonar og hans sjálfs.

Og í skýrslunni segir hann um ofangreindan texta kirkjuráðs frá 1996 – nú þegar hefur tekist að neyða hann til að viðurkenna að þetta hafi verið mistök, því sjálfur átti hann EKKERT frumkvæði að því – en í skýrslunni segir hann sem sagt:

„Jú, þetta var bara kannski hvorki fugl né fiskur. Ég veit ekki hvað maður á að segja um það. Við vorum undir svona ákveðinni pressu þar.“

„Var bara kannski … ég veit ekki hvað maður á að segja um það … undir svona ákveðinni pressu …“

Ojá.

Jesúa frá Nasaret var undir svona ákveðinni pressu líka á sínum tíma.

En ég veit ekki hvað maður á að segja um það …

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 14.6.2011 - 11:16 - FB ummæli ()

Hvað voru háskólarnir að hugsa?

Það er rétt að vekja athygli á þessari grein Guðmundar Andra Thorssonar.

Og ég vona að í háskólum landsins verði hún lesin af sérstakri gaumgæfni.

Alveg burtséð frá einstaklingum eins og Hannesi Hólmsteini, þá á háskólasamfélagið alveg eftir að gera upp sinn þátt í aðdraganda hrunsins.

Hvað voru háskólarnir að hugsa?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 14.6.2011 - 08:59 - FB ummæli ()

Viðbrögð við skýrslu um þögn kirkjunnar? Þögn!

„Biskup rýfur þögnina,“ segir fyrirsögn á Vísi um biskupsmálið.

Það eru jú fjórir eða fimm dagar síðan skýrslan um viðbrögð kirkjunnar við kynferðisbrotamálum kom út.

Karl hefur ekki talað fyrr en nú.

Eins og ég hef margtekið fram – persónulega er mér hlýtt til Karls Sigurbjörnssonar.

En mér þykir hann gerast æ … óheppnari í starfi, skulum við kalla það.

Það kemur út skýrsla um stór skaðlega þöggun starfi kirkjunnar.

Og hvað gerir Karl?

Byrjar á því að þegja.

Setur á smá þöggun – þó ekki sé nema í fjóra fimm daga.

Kannski bara til að sýna að biskup geti það ennþá.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 11.6.2011 - 16:54 - FB ummæli ()

Gott að losna við „Sigurdsson“ og „Jonsdottir“

Það er nú kannski ekki eins og það skipti allra mesta máli í heiminum, en ég hef margoft kvartað undan því að þegar íslensk íþróttalandslið birta nöfn leikmanna sinna á búningunum, þá hafa þau hingað til fylgt útlenskum nafnahefðum, en ekki hinni íslensku.

Á búningunum hefur staðið „Guðjohnsen“ eða „Sigurdsson“, eða þá „Vidarsdottir“ og „Jonsdottir“.

Í staðinn fyrir bara Eið Smára og Gylfa, eða Margréti Láru og Katrínu.

Það hefur alls ekki verið nein kvöð frá útlenskum fótboltasamtökum um að fylgja útlenskum hefðum að þessu leyti.

Það sjáum við af því að til dæmis brasilísk lið og spænsk nota óhikað skírnarnöfn leikmanna sinna, og jafnvel gælunöfn.

Nú sé ég að U-21 liðið í Danmörku er loksins búið að breyta þessu. Aftan á búningunum þeirra er fylgt íslenskri nafnahefð, svo þar stendur „Gylfi“, „Aron Einar“, „Bjarni Þór“ og svo framvegis.

Gott, mjög gott.

Við eigum að halda sem best í þá hefð að nota skírnarnöfnin okkar.

Nú ættum við að hvetja atvinnumennina okkar að taka sama sið hjá félagsliðum sínum.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 11.6.2011 - 10:00 - FB ummæli ()

Var þetta gert viljandi?

Í heita pottinum í gær hlýddi ég með öðru eyranu á tvo margfróða menn ræða kvótamál og frumvörp ríkisstjórnarinnar.

Ég skildi ekki bofs, og þótt mennirnir tveir hefðu greinilega víðtæka þekkingu á sjávarútvegi, þá voru þeir hreint ekki vissir um hvernig hitt og þetta í frumvörpunum myndi snerta hitt og þetta í sjávarútvegsmálunum eða atvinnumálunum eða hinum dreifðu byggðum landsins.

Og þá fór ég allt í einu að hugsa um hvort þetta væri eðlilegt.

Við Íslendingar búum svo vel að hér við landið eru einhver auðugustu fiskimið heimsins.

Sérstaklega miðað við að við erum ekki nema rétt rúmlega 300.000.

Einhvern veginn skyldi maður ætla að það hlyti að vera auðveldasta og einfaldasta mál í heimi að veiða fisk á Íslandi.

En í staðinn er búið að haga málum þannig að það sést aldrei útgerðarmaður í sjónvarpinu án þess að hann lúberji lóminn yfir því hvað líf hans sé erfitt.

Og hann sé einmitt á leiðinni þráðbeint á hausinn, og sé farinn að svipast um eftir súpueldhúsi.

Og það er búið að gera fiskveiðarnar og kvótakerfið í hugum almennings að einhverju óskiljanlegu tröllslegu bákni sem engin leið er að skilja nema maður sé prófessor í stöðu frá LÍÚ.

Skyldi þetta hafa verið gert með vilja?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 10.6.2011 - 08:54 - FB ummæli ()

„Öll erum við jöfn …“ Á stjórnarskráin að hljóma svona?

A-nefnd stjórnlagaráðs, sem ég á sæti í, hefur ákveðið að gera tilraun með að skrifa hluta stjórnarskrárinnar í fyrstu persónu fleirtölu.

Dæmið sem við höfum búið til er hér, en það hljóðar svo:

„Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án nokkurs manngreinarálits, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“

Þetta er sjálf jafnræðisreglan, ein allra mikilvægasta grein stjórnarskrárinnar.

Gaman væri að fá álit sem flestra á þessu.

Athugið að það er ekki hugmyndin að skrifa alla stjórnarskrána í þessum stíl, heldur einungis þar sem það á við og gengur ekki í berhögg við málvitund fólks.

Í reynd myndu kannski  fyrst og fremst sumar mannréttindagreinar vera skrifaðar á þennan hátt, og kannski inngangsgreinar í öðrum köflum.

Tilgangurinn er bæði sá að minnka hið útbreidda karlkynsmiðaða orðalag, sem víða kemur fram í hefðbundnum lagatextum, þar sem yfirleitt er talað um „menn“ og „hann“.

En þó ennþá fremur að leggja áherslu á að stjórnarskráin er plagg sem við Íslendingar skrifum sjálf og fyrir okkur. Hún telur ekki upp réttindi sem einhver utanaðkomandi hefur af náð sinni veitt okkur, heldur er þetta okkar sáttmáli við okkur sjálf.

Og velkist menn í vafa um hvað „við“ þýðir, þá á það að þýða nákvæmlega hið sama og orðið „allir“ gerir í núverandi stjórnarskrártexta, en það þýðir samkvæmt skilgreiningu „allir sem staddir eru hverju sinni á íslensku yfirráðasvæði“.

Það þýðir til dæmis að öll almenn mannréttindi á Íslandi gilda sjálfkrafa um útlendinga, en síðan á stór hluti stjórnarskrárinnar auðvitað fyrst og fremst við um íslenska ríkisborgara.

En endilega myndið ykkur skoðun á því hvernig ykkur fellur breytingin. Þetta er ekki formleg tillaga ennþá, heldur vonumst við til þess að fá sem mest viðbrögð, áður en við ákveðum hvort við leggjum þetta fram formlega eður ei.

Það má punkta niður viðbrögð hér, en líka fara á hinn ágæta veg stjórnlagaráðs (hérna semsagt) og skrifa umsagnir þar.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 8.6.2011 - 23:39 - FB ummæli ()

Kúbeinið

Verkföll voru á sínum tíma neyðarúrræði þrautpíndra verkmanna og alþýðu.

Og það kostaði mikla baráttu að fá að nota þetta úrræði.

Síðan var verkalýðnum kennt að hann mætti eiginlega ekki fara í verkfall lengur, hann yrði að sýna samfélagslega ábyrgð, og mætti ekki gera of miklar kröfur.

Og verkalýðurinn fór eftir þessu meira og minna og allt er nú gert til að koma í veg fyrir víðtæk verkföll hjá láglaunafólki.

En þá mætti ætla að verkföll væru orðin sport og hálfgert kúgunartæki fyrir nokkrar stéttir sem teljast í efri kanti launaskalans.

Og eru í þeirri öfundsverðu aðstöðu að verkföll þeirra pirra svo marga að þær eiga ágætar vonir um að ná betri samningum en blessaður sauðsvartur almúginn sem alltaf er að reyna að sýna hina samfélagslegu ábyrgð.

Flugumferðarstjórar hafa stundum leikið þennan leik, nú eru það flugvirkjar.

Auðvitað hljóta flugvirkjar að berjast fyrir sem bestum kjörum eins og aðrir.

En það er samt dálítið að sjá hið heilaga vopn, verkfallið, sem verkalýðshreyfingin þurfti að berjast áratugum saman sé nú orðið einskonar kúbein stétta sem ætla sér að krækja í meira en almúginn. Þannig virkar deila flugvirkja alla vega á mig.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 8.6.2011 - 17:42 - FB ummæli ()

Hver er í stofufangelsi?

Ég ætla enn að stilla mig um að hafa mikla skoðun á réttarhöldunum gegn Geir Haarde.

Vissulega er skrýtið að sjá hann sitja þarna einan og svara til saka.

En þegar ég byrja að vorkenna Geir, þá rifjast jafnharðan upp fyrir mér spurningin sem ég varpaði fram í gær: Til hvers í ósköpunum að hafa lög um ráðherraábyrgð ef þau mega ekki gilda um algjört efnahagshrun sem orðið hefur á vakt tiltekins ráðherra?

Væri þá ekki bara betra að sleppa þá allri tilgerð þar að lútandi?

Setja bara í lög og helst stjórnarskrá: Ráðherrar bera aldrei ábyrgð á neinu.

Viljiði það?

Athugið að ég er ekki að krefjast þess að Geir Haarde verði dæmdur sekur. Það er alls ekki mitt hlutverk að segja til um það.

Þaðan af síður er ég að krefjast þess að hann verði dæmdur til refsingar.

En ég á bara óskaplega erfitt með þá tilhugsun að fólki skuli þykja eitthvað ægilega rangt við að ráðherra kunni að þurfa að standa fyrir máli sínu.

Það á að vera sjálfsagt mál.

Og mér finnst eitthvað í meira lagi kyndugt við að sjá einhverja þeirra sem rétt sluppu við ákæru tromma nú upp Geir til stuðnings – í þeirri afstöðu að hann ætti ekki að þurfa að bera neina ábyrgð.

Þar kvikna einhverjar siðferðisspurningar sem ég nenni ekki að hugsa til enda.

En þó ég ætli sem sagt ekki að hafa mikla skoðun á þessu máli í sjálfu sér, þá langar mig þó að segja tvennt.

Í fyrsta lagi: Að það skuli eiga að ganga í hús til að safna fyrir málsvörn Geirs, það hlýtur að vera einhver óvenjulega kaldrifjaður brandari.

Ég vona að ég þurfi ekki að útskýra það nánar.

Og í öðru lagi: Ég er ekki alveg sáttur við hvernig Geir hagar vörn sinni í fjölmiðlum. Af því mér er persónulega vel við Geir, eins og ég held að öllum sé, þá langar mig að ráðleggja honum að taka annan pól í hæðina, heldur en þessa vandlega hönnuðu framgöngu og framkomu sem hann hefur birt okkur síðustu daga, og ber öll merki rándýrra PR-manna.

(Og það er billegt af fjölmiðlum að ganga allir skælbrosandi innum dyr PR-mannsins þar sem þessi nýi Geir bíður … nema reyndar DV sem skrifar gagnrýnið um málið í dag.)

Alveg sérstaklega kunni ég illa við það þegar Geir fór að barma sér (ég kann ekki annað orð yfir það) yfir því í Kastljósi í gærkvöldi að hann hefði nánast setið í stofufangelsi síðan ákæran var gefin út fyrir tæpu ári síðan.

Góði Geir!

Eitt máttu vita.

Stór hluti íslensku þjóðarinnar hefur setið í stofufangelsi á Stóra-Hruni undanfarin tæp þrjú ár.

Og þó nokkur hluti þjóðarinnar er ekkert á leiðinni að losna þaðan í bráð.

Mun jafnvel sitja þar töluvert lengur en þú munt vera fyrir Landsdómi.

Og ástæðurnar eru hrunið sem þú og félagar þínir og samherjar og skoðanabræður í pólitík og viðskiptum áttuð sök á.

Svo góði Geir … gættu þín á hvernig þú talar.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!