Mánudagur 17.10.2011 - 07:55 - FB ummæli ()

Skaut van Gogh sig ekki?

Þetta er ekki fréttasíða, en ég get ekki setið á mér að vísa á þetta hér.

Höfundar nýrrar ævisögu Vincents van Gogh halda því fram að hann hafi ekki framið sjálfsmorð, eins og hingað til hefur verið talið.

Heldur hafi strákskratti í kabboj-leik orðið honum að bana með því að skot hljóp úr bilaðri byssu.

En Vincent, særður til ólífis, vildi ekki kenna stráknum um – þó honum væri í raun og veru meinilla við bjánann, sem oft hafði verið honum til leiðinda.

Og ástæðan var sú að málarinn marghrjáði var í raun sáttur við að deyja … svo hann hélt því fram sjálfur, áður en hann dó, að hann hefði skotið sig.

Furðuleg saga. Að sumu leyti ekki ósannfærandi. En óyggjandi sannanir hafa bókarhöfundar þó ekki fram að færa.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 15.10.2011 - 10:45 - FB ummæli ()

Er viljinn allt sem þarf?

Fyrir fáeinum dögum sköpuðust umræður á Facebook um það að ríkisstjórnina skorti dug til að leysa efnahagsvandann.

„Vilji er allt sem þarf!“ sögðu reiðir menn og vildu fá dugmikla og viljasterka framkvæmdamenn til að drífa í þessu!

Æjá. Ég fer alltaf undan í flæmingi þegar menn byrja að vitna til þess að vilji sé allt sem þarf.

Þetta er úr ljóði eftir Einar Benediktsson og þó hann gæti stundum orðað hlutina á tilkomumikinn hátt, þá er saga hans sjálfs eiginlega hin endanlega sönnun þess að vilji er EKKI allt sem þarf.

Því flestöll hans uppátæki fóru gersamlega út um þúfur.

Og hann valtaði með offorsi yfir fólk þegar hann var að reyna að böðlast áfram með viljann að vopni.

Hann gætti þess ekki að aðgát skyldi höfð í nærveru sálar – en sá frasi er, ótrúlegt nokk, líka úr ljóði eftir Einar Ben!

Sem sýnir hve varlegt getur verið að trúa skáldum!

En ég man alltaf eftir því þegar ég heyrði frasann um að „vilji sé allt sem þarf“ fyrst. Það var í áramótaávarpi Gunnars Thoroddsens sem var forsætisráðherra í nokkur ár um 1980.

Gunnar hóf ávarp á þessum mikilúðlegu orðum og flutti þau á dramatískan hátt – ríkisstjórn hans stóð þá frammi fyrir erfiðum efnahagsaðgerðum, sem Gunnar virtist þó telja vel viðráðanleg ef viljinn væri fyrir hendi.

En eins og í tilfelli Einars Ben sjálfs reyndist viljinn EKKI allt sem þarf.

Efnahagur landsins fór til andskotans og verðbólgan mældist um tíma meira en 100 prósent.

Æ síðan hef ég haft illan bifur á þessum frasa.

Og ekki minnkaði andúðin þegar íslenskir bankamenn tóku hugsun hans upp á sína arma.

Er nokkur búinn að gleyma þessu ódauðlega myndbandi um „sigur viljans“??

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 13.10.2011 - 16:22 - FB ummæli ()

Höfum dyrnar áfram opnar

Það hefur ekki farið mikið fyrir því en í tuttugu ár hefur verið rekið við Hverfisgötu í Reykjavík athvarf sem heitir Vin. Þangað hafa komið einstaklingar með stór og smá geðræn vandamál og hefur Vin verið griðastaður þeirra allan þennan tíma. Athvarfið hefur sinnt þörfum þeirra af kostgæfni, gefið þeim kost á hvíld frá amstri dagsins og vandamál hafa engin fylgt rekstrinum.

Vin er því nákvæmlega heimili af því tagi sem gerir mikið gagn á hljóðlátan hátt.

Heimilið hefur verið rekið af Rauða krossinum, en Reykjavíkurborg lagt til húsnæðið. En nú eru blikur á lofti. Rauði krossinn telur sig ekki geta rekið Vin lengur og til stendur að loka athvarfinu.

Það væri ansi blóðugt ef loka þarf svo góðu og gegnu athvarfi.

Í kvöld klukkan 19 verður því haldinn stofnfundur Vinafélags Vinjar, og er markmið félagsins er að safna árlega þeirri upphæð sem þarf til rekstrar Vinjar, fyrir utan starfsmannahald. Í Vin eru fjórir starfsmenn og heildarkostnaður við rekstur rétt um 20 milljónir króna.

Samhliða stofnfundinum er efnt til stórmóts í skák, í tilefni Alþjóðlegs geðheilbrigðisdags. Að því stendur Skákfélag Vinjar, í samvinnu við TR, Helli, Skákakademíu Reykjavíkur og fleiri. Taflmennska hefur einmitt verið stunduð af sérlegum þrótti í Vin.

Forsvarsmaður Vinafélags Vinjar er Björn Ívar Karlsson, en margir aðrir munu koma við sögu . Meðal þeirra eru Magnús Matthíasson kennari og skákfrömuður, Styrmir Gunnarsson ritstjóri, Vigdís Grímsdóttir rithöfundur, Jón Kristjánsson fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Þráinn Bertelsson alþingismaður og fleiri.

Stofnfundurinn og skákmótið hefjast sem sé kl. 19 í kvöld í Faxafeni 12, húsnæði Taflfélags Reykjavíkur. Allir eru velkomnir, og það er veruleg ástæða til að hvetja fólk til að annaðhvort mæta í kvöld eða skrá sig síðan í félagið og taka þátt í að gera Vin kleift að hafa áfram opnar dyr fyrir það góða fólk sem þangað hefur leitað sér athvarfs og lífsgleði undanfarin tuttugu ár.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 13.10.2011 - 08:45 - FB ummæli ()

Þýskir öfgamenn kenna sig við Heklu!

Ef eitthvað er að marka fréttir sem berast úr Þýskalandi eru það ekki aðeins ákafir bókmenntaáhugamenn sem hafa áhuga á íslenskum fyrirbærum þar í landi þessa dagana.

Einhver vinstri sinnaður hópur í Berlín hefur verið að koma fyrir sprengiefni á lestarteinum síðustu daga, og kennir sig við Heklu. Hópurinn telur sig vera að mótmæla innrásinni í Afganistan fyrir réttum tíu árum, en Þjóðverjar tóku þátt í henni.

Sjá þessa fréttatilkynningu hér.

Að því er virðist stafar Heklu-nafnið af því íslensk eldfjöll trufli líka samgöngur, enda kallar hópurinn sig fullu nafni „Heklu móttökunefndin – fyrir fleiri félagslegum eldgosum“.

Orðalag í fréttatilkynningu hópsins bendir raunar ekki til að hann hafi ýkja mikla þekkingu á íslensku eldfjöllunum – því þar kemur fram að Hekla sé komin langt fram yfir áætlaðan gostíma.

Þar hlýtur að vera átt við Kötlu.

En orðrétt segir að hópurinn vilji feta í fótspor íslensku eldfjallanna sem vonandi munu aftur gera „okkur“ mjög hamingjusöm, með því að hægja á hjólum efnahagslífsins á ný.

Hópurinn tekur mjög skýrt fram að ætlun hans sé alls ekki að valda manntjóni.

En það er óvenjulegt að vinstri sinnaðir öfgamenn kenni sig við íslensk fyrirbæri – yfirleitt voru það hægri öfgamenn sem þóttust svo hrifnir af íslenskri menningu, goðafræði og náttúru að þeir skreyttu sig íslenskum eða altént fornnorrænum nöfnum og frösum.

Þetta er skrýtið – en meira veit ég heldur ekki um þetta.

Sjá þó líka hérna og hérna.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 12.10.2011 - 08:29 - FB ummæli ()

Vangá við skráningu?!

Ég var fyrst núna að lesa yfirlýsingu sem barst frá Biskupsstofu í gær og eiga greinilega að vera einu viðbrögðin við sjónvarpsviðtalinu við Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur og útkomu bókar hennar og Elínar Hirst.

Karl Sigurbjörnsson biskup hefur orðið fyrir harðri gagnrýni, eins og allir vita. Það er því í meira lagi undarlegt að loksins þegar hljóð heyrist úr horni, þá kemur fram þessi yfirlýsing sem er ekki frá honum einum, heldur líka þeim Jóni Aðalsteini Baldvinssyni vígslubiskupi á Hólum og Kristjáni Val Ingólfssyni vígslubiskupi í Skálholti.

Og yfirlýsingin ber heitið „Frá biskupafundi“.

Þar segir meðal annars:

„Þjóðkirkjan hefur markað sér þá stefnu að standa með þeim sem brotið er á, hlusta á sögu þeirra af athygli og virðingu og vinna með þeim stofnunum og samtökum í þjóðfélaginu sem vinna að viðhorfsbreytingu í þessum efnum. En þar er enn langt í land, því miður.“

Engin ástæða er til að gera miklar athugasemdir við þetta. En svo segir:

„Við erum öll í sársaukafullu lærdómsferli.“

VIÐ? Hvað þýðir það? Jón Aðalsteinn og Kristján Valur? Eiga þeir margt ólært? Það kann svo sem vel að vera – furðu margir kirkjunnar þjónar virðast eiga furðu margt ólært á þessum sviðum.

En gagnrýni hefur samt ekki verið beint að þeim. Það er mergurinn málsins.

Af hverju stíga Jón Aðalsteinn og Kristján Valur fram og beina gagnrýni að sjálfum sér – eða þá kirkjunni í heild? Í bili beinist gagnrýni fyrst og fremst að einum manni, þeim manni sem hafði vald til að sýna skörungsskap og bregðast við strax upplýsingum Guðrúnar Ebbu af festu, en gerði það ekki.

Ég ítreka: Gerði það ekki.

Er Karl Sigurbjörnsson virkilega að reyna að fela sig milli þeirra Jóns Aðalsteins og Kristjáns Vals með þessari yfirlýsingu „af biskupafundi“?

Síðan segir í yfirlýsingunni að það sé „harmsefni“ að bréfi Guðrúnar Ebbu hafi ekki verið svarað strax, og biskup hafi beðist afsökunar á því í ræðu og riti og persónulega.

Jahá? Það var nú ef ég man rétt ansi dræm afsökunarbeiðni og lengi á leiðinni – að minnsta kosti var augljóst af sjónvarpsviðtalinu við Guðrúnu Ebbu að hún hafði ekki skilið þá afsökunarbeiðni.

En síðan segir: „Það skal þó skýrt tekið fram að vangá við skráningu erindis hennar hafði ekki áhrif á málsmeðferðina.“

VANGÁ VIÐ SKRÁNINGU?

Ætlar Karl Sigurbjörnsson að halda því fram að það sem gerðist í þessu máli – þegar bréfi um stórkostlega glæpi fyrirrennara hans á biskupsstóli var stungið oní skúffu og reynt að þaga það í hel en Guðrúnu Ebbu í engu svarað – hafi fyrst og fremst falið í sér „vangá við skráningu“?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 11.10.2011 - 18:08 - FB ummæli ()

Hvenær ætla valdsherrar að þekkja sinn vitjunartíma?

Karl Sigurbjörnsson situr á sínum ólympstindi við Laugaveginn og ansar ekki spurningum fjölmiðla um háværar kröfur um að hann segi af sér vegna vægast sagt linkulegra viðbragða hans við Ólafsmálum Skúlasonar.

Segir ekki orð.

Nú síðdegis mætti aftur á móti Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir frá Biskupsstofu á Rás 2 og gerði tilraun til að skýra málið frá hans sjónarhóli.

Hún er kynningarstjóri Biskupsstofu eða hvað það nú heitir.

Í mínu ungdæmi var sá maður kallaður skræfa sem beitti öðrum fyrir sig, sér til varnar, en látum það vera.

Steinunn Arnþrúður stóð sig vissulega hetjulega, og sýndi áreiðanlega fyllstu einlægni að því marki sem staða hennar og þetta vandræðalega mál leyfði.

En gallinn var auðvitað sá að hún gat ekki svarað af fullkominni hreinskilni af því hún þurfti alltaf að hafa bak við eyrað að orð hennar máttu ekki skiljast sem gagnrýni á herra biskupinn.

Hvað ætlum við lengi að sætta okkur við að umræður um erfið og viðkvæm mál á Íslandi þurfi alltaf að fara að snúast um persónur þeirra valdamanna sem verða fyrir gagnrýni?

Og hvort þeim þóknist ef til vill hugsanlega kannski að segja af sér?

Hvenær ætla valdsherrar á Íslandi að þekkja sinn vitjunartíma?

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 11.10.2011 - 11:57 - FB ummæli ()

Makalausar myndir

Voru menn ekki eitthvað að rífast um það fyrir fáeinum misserum hvort jöklarnir í Himalæjafjöllum væru raunverulega að minnka vegna hlýnunar jarðar?

Þessar myndir sýna það svo sannarlega svart á hvítu, ef svo má að orði komast.

Breskur ljósmynari fór upp í fjöllin og fann staði þar sem teknar höfðu verið myndir af jöklum og fjöllum kringum árið 1920.

Og sannleikurinn leynir sér ekki á þessum makalausu myndum.

Sjá hérna.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 10.10.2011 - 11:40 - FB ummæli ()

Krossferðir

Krossferðirnar á miðöldum eru eitthvert undarlegasta fyrirbrigði sögunnar. Innrásarferðir í önnur lönd, eins og hinir kristnu riddarar fóru, eru vitaskuld alsiða, en það er ekki algengt að þær séu gerðar undir jafn eindregnum trúarlegum formerkjum og krossferðirnar.

Og krossferðunum fylgdu miklar hörmungar, en líka mikil dramatík.

Eins og við fengum hryggilegt dæmi um í sumar, þá er enn til fólk sem telur að krossferðirnar hafi raunverulega merkingu fyrir nútímafólk. Ég á vitaskuld við hin viðurstyggilegu fjöldamorð sem framin voru í Noregi þar sem morðvargurinn taldi sig vera einhvers konar framhald musterisriddaranna úr sögu krossferðanna.

Á mánudaginn eftir viku hefst fjögurra kvölda námsskeið sem ég verð með hjá  Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands þar sem ég ætla að rekja sögu krossferðanna frá byrjun til enda. Ég held að það sé síðasti skráningardagur í dag.

Það væri gaman að sjá sem flesta.

Sjá hér.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 9.10.2011 - 21:25 - FB ummæli ()

Karl verður að fara

Ég er ekki í þjóðkirkjunni.

Ég tel mig samt hafa rétt til að hafa skoðun á því hverjir eigi að vera mektarmenn innan þeirrar kirkju eins og annars staðar í þjóðfélaginu.

Sér í lagi ef þeir sömu mektarmenn telja sig þess umkomna að snikksnakka um guð, en stinga svo óþægilegum bréfum oní skúffu og breiða út óhróður um fólk sem vill upplýsa sannleikann.

Karl biskup Sigurbjörnsson verður að fara, og það strax. Hann á ekki að fá að velja sér útgönguleiðina sjálfur.

Viðtalið við Guðrúnu Ebbu var náttúrlega nöturlegra en tárum taki.

Og það er skelfilegt til þess að hugsa að það skuli enn vefjast fyrir svokölluðum guðsmönnum í þessu landi hvernig eigi að hreinsa af kirkjunni og samfélaginu öllu skítinn sem nauðgari og barnaníðingur ataði í kringum sig.

Karl Sigurbjörnsson fékk tækifæri til þess þegar hann fékk bréf Guðrúnar Ebbu.

Hann stakk bréfinu oní skúffu. Opnaði hana ekki fyrr en málið komst í fjölmiðla. Hummaði vandræðalega í viðtölum í stað þess að taka af skarið.

Hann var ekki málsvari lítilmagnans.

Við getum því miður ekki breytt þeim glæp sem Guðrún Ebba varð fyrir, og sagði frá af slíkri hugprýði og yfirvegun.

En við getum, megum og eigum að krefjast þess að allir sem eitthvað vissu, þótt seint væri, en gerðu ekkert, séu ekki að þvælast um samfélagið með guðs nafn á vörunum.

Karl verður að fara.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 8.10.2011 - 11:49 - FB ummæli ()

Hver er lemúrinn?

Ég byrjaði í blaðamennsku í byrjun apríl 1979. Tíminn sem liðinn er síðan jafngildir næstum sex og hálfri heimsstyrjöld.

Vitanlega hefur það verið mismerkilegt sem ég hef fengist við öll þessi ár, og mjög misskemmtilegt líka.

En ég held ég geti þó fullyrt að það allra skemmtilegasta var að stofna og móta tímaritið SKAKKA TURNINN árið 2008.

Þetta var tímarit sem Birtíngur gaf út og bar það hógværlega mottó: „Tímarit um allt.“ Þarna var fjallað um hvaðeina milli himins og jarðar – gjarnan um ýmislegar furður mannlífsins, vísindanna, sögunnar, náttúrunnar, menningarinnar, trúarbragðanna, sálarinnar …

SKAKKI TURNINN vílaði ekki fyrir sér að fjalla um jafnvel hinar svörtustu síður mannlífsins en gerði það þó ævinlega á furðu léttan hátt. Ísmeygilegur húmor átti að vera aðal SKAKKA TURNSINS og ég held að það hafi lukkast alveg prýðilega.

Elín Ragnarsdóttir þáverandi framkvæmdastjóri Birtíngs hleypti þessu skemmtilega skipi úr vör með mér, Ólafur Gunnar Guðlaugsson hannaði útlit blaðsins fyrsta kastið og mín gamla og góða vinkona Ragnheiður Gyða Jónsdóttir var vitanlega munstruð í áhöfnina.

Það voru þó ungu blaðamennirnir tveir á SKAKKA TURNINUM sem strax urðu sál blaðsins, þau Helgi Hrafn Guðmundsson og Vera dóttir mín.

Þau „föttuðu konseftið“ um leið – og unnu svo vel með það að unun var með að fylgjast!

Seinna bættist svo Bryndís Ósk Ingvarsdóttir í hópinn og ekki eftirbátur þeirra tveggja.

Því miður varð SKAKKI TURNINN ekki langlífur. Kreppan skall á áður en blaðið hafði náð að festa sig almennilega í sessi. Það seldist ágætlega en auglýsingamarkaðurinn hrundi og nýtt blað eins og SKAKKI TURNINN, með ekki mjög skýrt skilgreindan markhóp, leið sérlega illa fyrir það.

Nýir forráðamenn Birtíngs skildu ekki hvað þeir voru með í höndunum, og treystu sér ekki til að styðja hann gegnum verstu öldudali kreppunnar.

Svo við vorum rekin í árslok 2009 og SKAKKI TURNINN lagður niður.

Ég hef alltaf séð eftir þessu skemmtilega tímariti og mundi stofna það á ný á augabragði ef einhverjir vildu vera með mér í því.

En nú hafa þau Helgi Hrafn og Vera, sálin í SKAKKA TURNINUM, stofnað veftímarit sem er af svipuðu tagi og SKAKKI TURNINN var. Það kallast meira að segja „Veftímarit um allt“ eins og SKAKKI TURNINN hét „tímarit um allt“. Og Bryndís Ósk er komin til liðs við þau, og von á fleirum jafnvel.

Þetta veftímarit stefnir nú þegar (á fyrsta degi!) í að verða skemmtilegasta vefsíða á netinu, að minnsta kosti hinum íslenska afkima þess.

Ég hvet fólk til að skoða.

Tímaritið heitir Lemúrinn og hefur aðsetur hér.

Gefið ykkur góðan tíma – Lemúrinn er sneisafullur af efni!

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!